föstudagur, 2. mars 2012

Draugasagan langa um Eugmund


Ég hef lengi furðað mig á því að leikritatextar séu iðulega kenndir í bókmenntafræðikúrsum sem væru þeir tilbúnir textar, fullburða verk, frekar en það sem þeir flestir eru: uppskrift að öðru verki, verki sem verður ekki tilbúið fyrr en það er búið að bæta leikurum, sviðsmynd, tónlist og öllum hinum leikhúskryddunum við uppskriftina. Þetta dettur engum í hug að gera við kvikmyndahandrit – og ef þið lesið handrit einhverrar uppáhaldsbíómyndarinnar ykkar sjáið þið fljótlega af hverju.

Vissulega hef ég samt lesið leikritatexta sem áttu sína galdra áður en á sviðið kom, en þó aðeins einn sem var jafn göldróttur og bestu skáldsögur: Long Day's Journey Into Night. Titillinn einn og sér er svo magískur að íslenskan ræður ekki almennilega við hann – fyrst var það Húmar hægt að kveldi og síðar beinþýðingin Dagleiðin langa inn í nótt, nú hefur Illugi Jökullsson þýtt  verkið upp á nýtt og sleppt nóttinni – Dagleiðin langa heitir stykkið sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu þessa dagana. Þetta er skásti titillinn, hann ber nóttina í skauti sér – en maður saknar hennar samt. En ég er hálfhræddur við að sjá verkið á sviði. Fyrst það er svona sprelllifandi á pappír, getur verið að það deyi á sviði? Ég hélt ég kæmist að því kvöldstund eina í Prag fyrir röskum áratug þegar verkið var sýnt í öðru Þjóðleikhúsi í annarri þýðingu. En lingófónana, sem einhver hafði sagt að myndu bíða okkar fávísra útlendinganna, var hvergi að finna og við urðum að láta okkur illskiljanlega tékkneskuna duga. En afskaplega eru ljósakrónurnar í tékkneska Þjóðleikhúsinu fallegar.

Jólasaga Dickens að sumri

Dagleiðin langa er eftir nóbelsverðlaunaskáldið Eugene O'Neill – og um Eugene O'Neill sjálfan og fjölskyldu hans. Maður væri fljótari að telja upp það sem stemmir ekki við raunveruleikann en hitt, sem er skáldað. Sagan fjallar um Tyrone-fjölskylduna: Hjónin James og Mary og synina Jamie og Edmund. Jafnvel nöfnin eru þau sömu, móðirin var að vísu kölluð Ella í raun, ekki Mary eins og í leikritinu – en hún hét Mary Ellen. Eina breytingin er sú að Eugene endurskýrir sjálfan sig Edmund – sem er ákveðinn lykill að leikritinu öllu og þeim harmleik sem bindur þessa fjölskyldu saman.

Hinn raunverulegi Edmund skiptir nefnilega á nöfnum við Eugene í leikritinu, hann er horfni bróðirinn, þriðji bróðirinn. Í leikritinu er það Eugene sem deyr úr mislingum tveggja ára gamall, mislingum sem elsti bróðirinn, Jamie, smitaði hann af. Edmund er barnið sem átti að koma í staðinn – en nær þess í stað að eyðileggja heilsu hennar og gera hana að morfínfíkli. Þau lifa öll ennþá í skugganum af þessu löngu látna barni – og kenna öll sér og öðrum fjölskyldumeðlimum um. Þetta er fortíðardraugurinn, hinn raunverulegi draugur sögunnar. Þeir eru þó tveir í raun, feður hjónanna ásækja báðir fjölskylduna. Faðir James yfirgaf fjölskylduna þegar James var barnungur og olli því að alla sína tíð aldist hann upp í ótta við fátækt, eitthvað sem breytist ekkert þótt hann sé orðinn ágætlega launaður stórleikari - og aðrir fjölskyldumeðlimir eru gjarnir á að hnýta í nísku hans og kenna henni um harm fjölskyldunnar og ódýra skottulækna, sem ná ekki að lækna Mary og séu ekki líklegir til að bjarga Edmund. Þá gengur faðir Mary aftur í örlögum Edmunds í leikritinu, hann varð berklunum að bráð og innst inni virðast allir trúa því að það verði örlög Edmunds sömuleiðis, enda lífslíkur berklasjúklinga árið 1912 ekki taldar gæfulegar.

Nútímadraugur verksins er hins vegar Eugene sjálfur, sem klárar verkið tæpum 30 árum síðar og er þá einn eftirlifandi – þótt dauðinn blasi við honum öðrum fremur í leikritinu. Draugur þessa veiklulega stráklings ásækir fullorðna stórskáldið ennþá. Edmund ásækir Eugene ennþá, hann var sá sem átti að verða, Eugene er sá sem varð. Þetta er hans leið til þess að lífga Edmund við, gefa honum það líf sem honum varð ekki unnt – barnið sem kom í staðinn að reyna að skipta aftur. Hans yngra sjálf ásækir hann líka, hinn ungi Eugene sem sigldi um heimsins höf til að týna sjálfum sér, sá sem reyndi að fremja sjálfsmorð áður en berklarnir ógnuðu lífi hans, þetta efnilega skáld sem leikarinn faðir hans kvartar yfir að sé sífellt að daðra við dauðann. Hann er ofsóttur af látnu barni en líka dauðanum sjálfum. En Edmund er bæði bölvun hans og verndarengill, sá sem gaf honum lífið og ástina á dauðanum.

Jamie myndi þó hafa sitthvað við þetta að athuga. Elsti bróðirinn hefur sannarlega sín áhrif á Edmund/Eugene og kallar hann meira að segja á einum stað í leikritinu „sinn eigin Frankenstein,“ enda hafi það verið hann sem kenndi honum að drekka og elska hórur ótæpilega. Og það var hann sem smitaði kornabarnið Eugene af mislingum.

Innan verksins sjálfs er Mary þó draugur nútíðarinnar. Hún virðist með sjálfri sér að morgni en dagleiðin er löng og strax um hádegið er ljóst hvert stefnir. Á meðan morfínið nær tökum á henni nær óttinn (og viskíið) tökum á feðgunum þremur – þeir fylgjast með því hvernig morfínið leiðir hana, bókstaflega, lengra inní fortíðina – en átta sig ekki fyllilega á því að viskíið gerir það sama fyrir þá.

Loks má ekki gleyma draugaganginum sem öll leikskáld mega búa við, sjálfum William Shakespeare. Hann ásækir O'Neill meira en flesta – það eru mörg skáldin sem þessi leikarafjölskylda vitnar í, en alltaf er svar föðursins hið sama: þessi nútímaskáld séu óþarfi, Shakespeare hafi sagt allt sem þurfti að segja. Og undir lok verksins segir Jamie, við litlar vinsældir, allt sem segja þarf: „The mad scene: Enter Ophelia!“ Það er kannski ekki nema von að O'Neill sjálfur hafi orðið það nokkurs konar Shakespeare amerískra leikbókmennta?

Eftir andlátið

Draugur framtíðarinnar er svo leikritið sjálft. O'Neill vann Nóbelsverðlaunin árið 1936 en var þá nánast hættur að birta ný verk, þótt hann héldi áfram að skrifa. Dagleiðin langa var kláruð 1941 – en O'Neill lét útgefanda sinn fá verkið með þeim skilmálum að verkið yrði ekki gefið út fyrr en aldarfjórðungi eftir andlát hans og aldrei leikið. Þökk sé Carlottu, þriðju eiginkonu hans, var verkið þó frumflutt strax árið 1956, aðeins þremur árum eftir andlát O'Neill. Síðustu æviárin hafði frægðarsól hans þó hnigið svo mjög að frumsýningin var í Stokkhólmi, en velgengni verksins í Svíþjóð varð hins vegar til þess að amerísk leikhús slógust um verkið og það hefur með tímanum orðið hans langfrægasta verk.

Eugene O'Neill horfist þó ekki fyllilega í augu við sjálfan sig í verkinu. Það er fyrst og fremst tvennt sem stemmir þar ekki við raunveruleikann. Annars vegar virðist fjölskyldufaðirinn James alls ekki hafa verið sá nískupúki sem birtist í verkinu, hann borgaði menntun sona sinna, ferðalög Euegene – og á endanum sendi hann Eugene á vandaða meðferðarstofnun. Seinna frávikið er þó mikilvægara: hvergi er minnst á að O'Neill sjálfur hafi þegar yfirgefið fyrstu konu sína og barn þeirra (og skáldið virðist hafa verið í flesta staði frekar vonlaus faðir), þess í stað er hann ennþá barnið í fjölskyldunni í leikritinu, the kid, og virðist vera að taka fyrstu skrefin í heimi fullorðinna.

En þótt hann horfist ekki í augu við alla sína drauga þá mætir hann þeim flestum - og horfist í augu við bæði dauðann og draugana í þykkri þoku með eftirfarandi orðum Edmunds:

„... to be alone with myself in another world where truth is untrue and life can  hide from itself. [...] It was like walking on the bottom of the sea. As if I had drowned long ago. As if I was a ghost belonging to the fog, and the fog was the ghost of the sea. It felt damn peaceful to be nothing more then a ghost within a ghost.“

Ásgeir H. Ingólfsson

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.