Ég horfði The Fiendish Plot of Fu Manchu og Flash Gordon
nýlega, það var reyndar ekki planað útfrá einhverri samhverfu heldur horfði ég
á Flash Gordon bara útaf einhverju stundar sæfæ brjálæði, og Fu Manchu af því
ég nýlega séð Murder by Death, en þar leikur Peter Sellers kínverska
leynilögreglumanninn Sidney Wang, sem byggður er á Charlie Chan. Charlie Chan
er svo önnur saga altúgeðer. En þá fór ég að velta fyrir mér hvort einhver
hefði stúderað stereótýpuna um Fu Manchu, sumsé glæpasnillinginn með þunna
gljáborna yfirvaraskeggið, og sett í samhengi við íslenskar hugmyndir um gulu
hættuna.
Besta leiðin til að tækla fordóma ku vera að vita af
hverju þeir stafa, en svo má líka auðveldlega halda fram að slíkar stereótýpur
eru ekki sérstaklega relevant i dag, eða hvað? Fordómar eru af öllu tagi en
einhvernveginn virðist öðlingurinn internet hafa upprætt flesta fordóma i einu
v(n)etfangi, og einnig hugsanlega vinalega pólska skúringakonan sem skúbbar upp
ælunni af stofugólfinu meðan þú liggur timbraður upp í sófa og horfir á alveg
gífurlega gróft klám í ferðatölvunni. En það er vissulega önnur saga, þeir
virðast hafa farið varhluta af þessari vinavæðingu sem búa við hvaða stífasta
ritskoðun og heft aðgengi að tölvum sökum fátæktar og fautaskapar, og fara þar
Kínverjar framarlega i flokki. Ég hef ekki töluna á þeim frelsuðu fordómapokum
sem eru búnir að taka blámenn, kartöflur, svefnhatta og hvaða lágkúrulega
ónorræna kynstofn í sátt, nema Kínverja - það er sama hvað vinavæðingin verður
alsráðandi, það er eitthvað við Kínverjann, tortryggilegt, má ekki snúa bakinu
í hann. Gulur maður með stóran sting.
Vinsældir hárhrollvekja fyrir nokkrum árum báru þessu
ágætlega vitni, þarsem svart og ókennilegt hár sópaðist hægt og rólega að
áhorfandanum og hræddi úr honum liftóruna. Asíska hárið er sérstakt, einsog
flestir vita, það er harðara, minnir soldið á hrosshár, og að því leyti, einsog
Helga kenndi svo eftirminnilega, er hluti fyrir heild - stendur fyrir Kínamann,
hárið táknar ógn Kinamannsins. (Nördarnir vilja sjálfsagt halda því til haga að
hárhrollvekjurnar komu frá Japan og suður-Kóreu).
Þetta útskýrir sjálfsagt okkar hlut, en þá má bæta því við að Asíubúar fyllast jafnvel enn meiri hryllingi yfir hári sínu en við, og það hefur sjálfsagt stuðlað að gerð þessara hárhrollvekna tilaðbyrjameð. Ég hef ekki tölu á öllum þeim kínversku konum sem hafa lýst yfir gegndarlausu hatri á sínu eigin hári, og umleið öfund í garð okkar mjúka og feita hárs. En það er kanski efni í annan pistil, svokallaðan hárpistil.
En hvaða stereótýpa er Fu Manchu? Það er kanski ekki
seinna vænna að hafa smá inngang að því um hvað er fjallað. Fu Manchu, Ming
keisari í Hvell Geira, Guli skugginn í Bob Moran bókunum, Raz al Gul í Batman,
Dr. No - allar spila þessar persónur með hræðslu okkar við Gulu hættuna, fyrir
utan Ming keisara sem drottnar yfr alheiminum og handan hans, þá leiða
persónurnar allar alþjóðleg glæpasamtök, oftast úr fjallahéruðum um og í kringum
Tíbet, og eru ódauðlegar á einn eða annan hátt. Raz al Gul býr yfir heilsulind
sem kallast Lazarus pytturinn, Fu Manchu kann að blanda æskuelexír og Guli
skugginn er búinn að klóna sjálfan sig í nútíð og framtíð. Guli skugginn og Raz
al Gul eiga báðir dætur sem eru óútreiknanlegar og spila ýmist með pabba sínum
eða á móti honum. Það segir sig sjálft að þótt þær komi oft til bjargar i
einhverjum annars óleysanlegum cliffhanger aðstæðum, þá er varhugavert að
treysta kvenlegri fegurð þeirri og dáleiðandi brosi.
Plön Raz al Guls dansa gjarna á hárfínni línu milli glæpa
i eiginhagsmunaskyni og hugsjónar að bjarga heiminum frá sjálfum sér. Það er
hið síðara sem birtist i Batman Begins eftir Nolan, þar stjórnar Raz al Gul
samtökunum League of Shadows sem eru svona epískir vigilantar, þeir stjórna
jafnvæginu í heiminum með því að tryggja að engin þjóð, ekkert land, engin
siðmenning geti ríkt lengur en eitthvað sem eðlilegt þykir, þeir eru því
einhverskonar skuggaráðuneyti sem grípur í taumana þegar stjórneiningar eru
orðnar spilltar og úrkynjaðar af eigin völdum. Ráðagerðir hins upprunalega Raz
al Gul, frá 1971, snerust tildæmis um að vernda umhverfið.
Raz al Gul virðist þannig vera einhverskonar konar
púritani sem kann ekki við það hvernig heimurinn þróast, hvort heldur það er
spilling jarðarinnar eða innri spilling íbúanna, hann getur þá hvortheldur
verið heittrúaður íslamisti eða nýfrelsingi af messíasarmóða, en nafnið er að
sjálfsögðu arabiskt og talið víst að persónan hafi orðið til sem svar við
auknum "arabískum terrorisma" upp úr 1970. Persónan varð svo gerð
landlausari með tímanum, og er gjarna austar á bóginn, einhversstaðar í
Himalaya, eða í Bhutan einsog í kvikmyndinni Batman Begins. Það er einhver
búddísk miðja í þessu öllu, sem rímar líka við þann upphafspunkt að hræðslan
við skáeyga gula menn sem ætla að taka yfir heiminn, hefjist með hugmyndum
okkar um Genghis Khan, sem tók upp búddisma meðal annars til að styðja
Tíbetbúddista gegn óvinum þeirra allt í kring. Búddíska þemað er ennfremur
blandað ofbeldi, sem er líklega okkar leið til að skilja austræna heimspeki.
Þegar Bruce Wayne klífur fjall til að komast til lærimeistarans sem mun kenna
honum ninjutsu og sjónhverfingar, er það sameiginlegt þema með
teiknimyndasögunum þegar vestræn hetja þarf að tileinka sér aðferðir
austanmanna. Síðasta vígsla Elektru, áður en hún verður fullgildur meðlimur í
launmorðingjafélagi, er að klifra upp ónefndan tind sem virðist vera
einhversstaðar í grennd við Himalaya, Daredevil þarf svo að fara sömu leið
síðar, í leit að Elektru. (Það sem ég mundi ekki sjálfur af þessum tengingum
fann ég í grein eftir Julian Darius, Batman Begins and the Comics.)
Líklega er ég að halda því fram að gula hættan okkar í
dag er útbreiðsla jóga og búddískra
fræða, en við komum kanski betur að því síðar.
Í Fiendish Plot of Fu Manchu (varúð spoiler) snýst hið
endanlega plott um heimsyfirráð í því að Doktorinn ætlar að leiða rokk og ról
yfir heimsbyggðina alla, vissulega absúrd, þegar maður spáir í það í dag, en
gefur góða innsýn í eðli “heimsyfirráða” og drauma þar að lútandi.
Arabi, tíbetbúddi eða Kínverji - það er lykilatriði þegar
við skoðum gulu hættuna að gefa því gaum hvernig skeggið er skorið. Hinn
upphaflegi Raz al Gul var með hefðbundið yfirvaraskegg, þunnt og gljáborið með
augljósri vísan í Fu Manchu, en eftir 2000 eru það skeggrákir láréttar
sinnhvorumegin við munninn, og smá vöxtur á hökunni og minnir á einhvern hátt á
i-ching tákn. Kínversk fúlmenni, lesist asísk, eru aldrei með venjulegan
hárvöxt, allur vöxturinn, hvort það er skegg, augnabrúnir eða hár er meira
einsog gaddar eða stingir – en það er soldið áhugavert að okkar stereótýpa
fyrir kínverskt fúlmenni, er nánast sama útlitið og útlit þorparans í klassísku
kínversku leikhúsi, en þar er aðalatriðið langar þunnar augnabrúnir sem eru
hvassar í endana, eða mynda hvasst horn.
Þá erum við komin í heilan hring og dregur hægt og rólega
nær hinu svokallaða efniskennda aðalatriði í ræðu vorri. Það var nefnilega
meiningin að telja orð, það er í tísku að safna kvótum úr öllum áttum, kynlegum,
kynjakvótum þessvegna, og búa til lista. Þegar ég fann ekki neina umfjöllun um
hina gulu hættu bókmenntanna þá fór ég að skoða hina raunverulegu sögulegu og
ímynduðu gulu hættu og sló inn sem lykilorðum á Tímarit punktur is.
“Bolzhevikkar í Persíu”, grein úr Ísafold 28.06, 1920:
“Frá Persíu koma nú þær
fréttir er skjóta mörgum Englending skelk í bringu. Það virðist svo, sem einn
af máttarviðum þeim, sem “landbrúin” milli Egyptalands og Indlands hvíldi á, sé
að bila. Því verður ekki neitað að innrás Bolzhewikka í Persíu, er byrjaði með
því að þeir tóku Baku, er orðin að “persneskri hættu”, er ógnar yfirráðum Breta
í Asíu. Ástandið er hið ískyggilegasta, og því því fremur sem
Bolzhewikka-kenningarnar hrífa hinar lítt mentuðu austrænu þjóðir.”
Hérna má sjá glögglega tvö aðalatriði, annarsvegar
hvernig sagan endurtekur sig óháð hættum af hvaða lit, “við” eigum alltaf
eilífðaróvini og Persarnir eru augljóslega framarlega þar – og hinsvegar að
gula hættan hefur ekkert endilega með gula kynstofninn að gera. Í gagnrýni um
Batmanbókina, The Resurrection of Ra´s al Ghul eftir Grant Morrison og Paul
Dini, lýsir P.P.O. Kane al Ghul sem líklega af persneskum/írönskum/arabískum
uppruna. Bókin kemur út 2009 og þá er óvinaflutningurinn kominn heilan hring og
aftur til Íran. Það segir sig líklega sjálft að við hvítingjar sjáum engan mun
á persum írönum og aröbum, finnst þeir allir gulir og svartir.
Það hvernig sagan gengur í hringi og óvinirnir róterast,
rímar skuggalega við eilíft líf þessara illmenna og endurholdganir. Gula hættan
er vandamál sem kemur og fer en hverfur aldrei.
Og:
“...jafnframt því sem
persneska hættan eykst, sjá Bretar sér til skelfingar að hin þrjú lýðveldi,
Azerbaidsjan, Georgia og Armenía, er þeir höfðu stofnað sem skjólgarð að
norðan, hafa kastað sér í faðm Bolzhewismans.” (sama)
Við sjáum fljótt samruna gulu og rauðu hættunnar, og hvað
þetta er í raun bara spurning um að tilnefna “einhvern” sem óvin. Í annan stað
má sjá þetta útfrá heimsveldisstefnu Eurovision, en þessi þrjú lönd sem mynda
þennan skjólgarð, eru ennfremur síðustu vígin gegn Eurovision sem hægt og
rólega tekur undir sig heiminn. Ég er augljóslega að vitna í Bubba, en hann bar
einhverntíma saman hjarðir Mongóla að taka yfir heimsbyggðina og rokk og ról að
sigra heiminn. Þetta er tvennt sem kontrastast óendanlega í leikkerfi heimsins,
við sendum ómenninguna okkar austur og austanmenn senda á móti einhver valdsjúk
illmenni.
Og:
“Í Egyptalandi og Indlandi
er nú meiri uppreistarhugur heldur en nokkru sinni áður, og “Dschihad”, hið
heilaga stríð allra Múhamedstrúarmanna gegn hinum erlendu kúgurum getur komið
þá og þegar. Og vegna ókyrrðarinnar í Indlandi
þora Bretar eigi að senda indverskt herlið til Persíu. Það er ekki hægt
að treysta á Indverja. Þeir gætu hæglega heillast af Bolzhewismanum og flutt
hann með sér heim til Indlands. Og þá mundi indverska þjóðernis- og
sjálfstæðisbaráttan brjótast út í ljósum loga.” (sama)
Hér er inntakið augljóst, þjóðfrelsisstefnur annarra
þjóða, oftlega langundirrokaðra af vestrænum herjum og peningum, er gul hætta.
Um hina gífurlegu kommahræðslu, segir Mogens Fog:
“En hinn mikli geðofsi sem
fylgir skoðunum manna á þessum sviðum, jafnvel hjá fjölda öreiga og
menntamanna, krefst dýpri skýringar. Eg held, að þarna komi fram þörf mannsins
til þess að óttast. Það er eins og mennirnir hafi ævinlega framlengt hið
óhjákvæmil. öryggisleysi tilverunnar – maður gæti líka sagt óhjákvæmileik
dauðans – út í rúmið og gefið því nafn. Í frumstæðum þjóðfélögum hugsa menn sér
náttúruna fulla af púkum, kirkjan útbjó djöfulinn, hinir friðsömu borgarar
miðaldanna voru í sífelldri hættu fyrir galdramönnum og seiðskröttum, á seinni
tímum gekk “gula hættan” ljósum logum í vitund manna og núna er það
bolsévisminn, sem situr um að eyðileggja öryggi hversdagsins. Eg man eftir
einum geðsjúklingi, sem allar stundir var fullur af einlægum ótta á
“Kírgísunum”. Liðlangan daginn lýsti angistin úr augum hans, en hverjir
Kírgísarnir voru eða hvers vegna þeir vildu hann feigan og hvaða tilræði þeir
höfðu sýnt honum, því gat hann aldrei gefið skýringu á.
Sjúkdómar mannsins var aðeins ofvöxtur á vissum eiginleika sem
finnst hjá fólki yfirleitt. Það ekki einungis að óttast, heldur hefur það djúga
nautn af að óttast, og það velur eitthvað fjarlægt og óáþreifanlegt eða hingað
til óþekkt til að svala þessari hneigð á.
(Þjóðviljinn 29.10.1947. Greinin “Kommnúnistarnir og
hinir. Andkommúnistiski áróðurinn. 1. Grein)
Þegar maður les þessa fínu lýsingu á hræðslu við púka og
djöfla og annað sem náttúrunni fylgir, kemur fljótt upp í hugann sjálf lýsingin
á Fu Manchu:
“Imagine a person, tall,
lean, and feline, high-shouldered, with a brow like Shakespeare and face like
Satan, a close-shaven skull, and long, magnetic eyes of the true cat-green.
Invest him with all the cruel cunning of an entire Eastern race, accumulated in
one giant intellect, with all the resources, if you will, of a wealthy
government, which, however, already has denied all knowledge of his existence.
Imagine that awful being, and you have a mental picture of Dr Fu-Manchu, the
yellow peril incarnate in one man.” - The Insidious Dr. Fu Manchu eftir Sax
Rohmer.
“Fyrir nokkrum árum gaf
kínverskur embættismaður, sem þektur er að því, að vera bandóður af fólsku og
fnæsandi illráðum til Evrópumanna, út skrautlegt rit með myndum, þar sem hann
segir frá draum er hann hafi dreymt, og verður draumur sá ekki ráðinn öðruvísi,
en að Kínverjar leggi undir sig alla Norðurálfuna, og lýsir hann því mjög
nákvæmlega, þegar Kínverjar halda sigri hrósandi inn í Parísarborg, en þar
hefur hann verið við nám um tíma, og er því borginni kunnugur. Kínverjar halda
inn í borgina um “Avenue des Champ-Elyseés”, en þá leið komu og Þjóðverjar
1870. Parísarbúar hafa í skyndi flúið úr borginni og búið er að kveikja í öllum
kirkjum og söfnum borgarinnar.
Svona hugsa og rita
leiðtogar gulu þjóðanna, og þá má nærri geta hvernig lýðnum er innan brjósts.
(Norðri, 05.05.1915. Gula hættan. J.J.H.)
Greinarritari útskýrir svo af hverju Kínverjar verða
snögglega svo árásargjarnir:
“Í sambandi við það sem á
undan er skrifað, er rétt að geta þess, að þeir Evrópumenn, sem mesta þekkingu
hafa á högum Kínverja, telja það atvik hafi stuðlað mest að hinum skyndilegu
framförum í þessu mikla ríki, að Kínverjar breyttu fána ríkisins um leið
og keisaranum var vikið frá völdum, og lýðveldi sett í staðinn.
(Hér er smá útúrdúr um það að Íslendingar skyldu huga að
því sama).
...Upphaflega var hann
þannig, að á gulan dúk var dregið skrímsl (dreki) grænt, rautt og hvítt
á lit, sem glenti opið ginið móti sólinni, sem var dregin í efra dúkshornið
næst stönginni. Skrímslið virtist vera í þann veginn að gleipa sólina, og hver
kynslóðin kínverska á fætur annari hefur lifað í örvæntingu og angist fyrir því, að svo mundi fara að
skrímslið kyngdi henni. Þessvegna kostuðu Kínverjar kaps um að gera skrímslinu
alt til hæfis, svo það léti af þessari ógurlega fyrirætlun. Og þar sem
skrímslið átti bústað í jörðu niðri, var um að gera að ónáða það ekki í
heimahúsum. Námugröftur var því enginn í ríkinu meðan skrímslið sat að völdum,
og Kínverjar vildu með engu móti láta reka niður símastaura í landinu, né grafa
göng fyrir járnbrautir, en allar framfarir lágu í læðingi hjátrúar og fáfræði.
(Vestræn trúboðar og
byltingamenn hafa svo forgöngu með að fánanum sé breytt).
“Nú er kínverski fáninn
dúkur úr 5 jafnbreiðum láréttum röndum. Efsta röndin er rauð, svo kemur
rönd sem er gul, því næst blá rönd, svo hvít, en neðsta
röndin svört. Rauði liturinn er tákn Kínverja, guli liturinn er merki
Manchúa, sem sátu að völdum í hinu mikla Kínaveldi rúmar þrjár aldir, bláminn
er litur Mongóla, hvíta litinn eiga Thibetsbúar, og loks er svarti liturinn eign
allra Múhamedstrúarmanna í ríkinu. Hver sá
íbúi Kínaveldis sem horfir á þetta nýja flagg, skelfist ekki fyrir
skrímslinu, heldur lítur á fánan sem tákn þjóðernis, bróðernis og félagsskapar,
og hver þjóðflokkur og trúflokkur sér sinn lit í flagginu nema
hinir kristnu menn og hvítu, þeir eiga hvorki hlutdeild í fánanum
né friðland í Kínaveldi.
Einsog áður kemur fram um parallellur milli gulu, rauðu
og dökkbláu hættunnar og vaxandi þjóðfrelsishreyfinga, þá má segja að bæði
stereótýpan um hinn svik- og glæpsama Kínverja og aðra yfirráðasemi Asíubúa,
koma fram um líkt leyti og þjóðir í þessum heimshluta fara að setja niður
fótinn gagnvart vesturveldum og auðhringjum – ma í hinum svokölluðu
ópíumstríðum, en þess má geta í framhjáhlaupi að við höfum tekið upp orðið
“svokallað” til nota á svipaðan hátt og orðið “meint” hefur verið notað áður.
Með því að nota það viðurkennum við og lýsum yfir fullri meðvitund um að
skiptar skoðanir séu á tilteknum sögulegum atburði, og að við ætlum ekki að
taka afstöðu sem stendur. Þannig tölum við um svokallaðar vanefndir skuldara,
svokallaðar ofrukkanir banka, svokallaðar líkamsárásir, hið svokallaða kalda
stríð og þar eftir götunum.
Það er til marks undir slíkum hentifána sem pólitískt
mótiveraða hatur siglir, hvar og hvernig við röðuðum til dæmis Japönum:
“Sama sagan er með Japani.
Sömu rassaköstin milli menningar og villimennsku! Þeir voru “gula hættan” í
gær, “the gallant little Jap” í dag og verða “Bulwark against Bolshevism” á
morgun.” (Þjóðviljinn, 27.09.1949, Áróðurslygar í utanríkismálum.Eftir Finnboga
Rút Valdimarsson)
og:
“Auðvitað eru Rússar
“asíatiskir villimenn”, svikulir og grimmir, hafa “slafneska sál” og allt þar
fram eftir götunum.” (Sama)
Þessir viðsnúningar urðu margir hverjir á innan við
klukkutíma, Stalín varð Jói frændi.
“Brátt kom stjórnslægðin
rússneska fram á sjónarsviðið og hnuplaði Kína úr vasa Japans með aðdáanlegum
fimleik. Það með var fyrgreindum voða, sem staðið hefði getað af hernaðarárásum
Mongóla, ekið nokkuð á bug. Kína verður ekki tygjað og vopnað af Japan, til
mótstöðu gegn hinum hvítu, heldur mun því verða stjórnað af Rússlandi, og
smásaman samið að siðmenningar háttum, duglega notað og ekki vopnbúið framar en
Zarríkinu hentar. Það er að segja í bráðina. (Þjóðólfur, 20.11.1896. Er komin
aldar lok ariska kynsins? (Eptir L. Hearn í Atlantic; þýtt úr “Kringsjaa”):
En gula hættan var ekki endileg í beinum hernaði og terra
firma landvinningum, þetta vissu menn jafnvel á 19du öld:
“Þannig er hættan, sem af
Kína stendur, ekki hernaðarlegs, heldur iðnaðarlegs eðlis og henni verður ekki
afstýrt. Hún byrjar með þeim degi, er siðmenningin fær inngöngu í Kína; það
stendur á sama, hver innleiðir hana eða á hvern hátt það verður gert. Hættunni
gæti að eins orðið afstýrt með því, að vesturveldin hið bráðasta léti loka þeim
höfnum, sem þau hafa fengið opnaðar, og kúgaði ríkið til að taka upp aptur sína
gömlu einangrunarpólitík.”
Það er einsog við höfum alltaf gert okkur grein fyrir því
að framgangur okkar hér vestra stafi ekki af því að við erum dugleg eða snjöll,
við vitum að hinir kæmust framúr okkur um leið og færið gefst enda:
“...svo óþrotlegur er vinnukraptur, iðjusemi og sparsemi
mongólska kynsins.” (sama)
Og ennfremur segir Pearson: “... að mongólska kynið sé
aríska eða hvíta kyninu fremra að harðfylgi og vinnudugnaði. Allt er því sem
hagstæðast. Og jafnframt uppgangi þess þykist hann sjá hjá hvíta kyninu í
Evrópu hin fyrstu merki hnignunarinnar, siðferðislega linun með þverrandi
atorku og starfslöngun, og muni þess vegna reka að því, að þeir komist í líka
afstöðu við Móngóla eins og seinni alda Rómverjar við Germani.” (Sama)
Það er því óbeint alltaf sama plan og í Batman Begins,
skammlífu, móralskt innantómu ríkin fá hjálp frá einhverjum útsendurum
Eilífðarríkisins, við að leggja sig af. Eitt sem skilaði sér aftur og aftur í
leitinni á Tímarit, og ég sá ekki ástæðu til að fjalla um sérstaklega, sneri að
nýjum bílum – gjarna litlum sparneytnum bílum einsog þeim sem Japanar komu með
á 9da áratugnum, þeir voru gula hættan á bílamarkaðnum. Einnig var mikið talað
um gulu hættuna um miðjan 10da áratuginn þegar framleiðslustöðvar og
fiskiiðnaður í Kína tók mikinn kipp, það átti bókstaflega að éta upp allan
markaðinn. Í dag er 2012 og ég er ennþá að borða hvítfisk sem slysast í
höfrungagildrurnar hjá félaga mínum, er það ólöglegt?
Heimsyfirráð á fiskigrunni er ekki nýr af nálinni: Sjáum
hvað Matthías Þórðarson segir í greinni Auðæfi hafsins, í Sjómannablaðinu
Víkingi, 17da árgangi 1955.
“”Gula hættan” frá
Austurlöndum, sem svo mikið var talað um fyrir nokkrum árum í blöðunum um allan
heim, er í raun og veru sá dugnaður og framkvæmdasemi, sem auðkennir hina
fiskneytandi Japani. “
Og:
“Eftir stríðið milli Japana
og Rússa 1905 var hæstráðandi japanska flotans spurður, hvers vegna Japan hefði
unnið svo frægan sigur yfir þjóð, sem væri mörgum sinnum stærri og hefði tíu
sinnum fleiri hermenn. Flotaforinginn svaraði: “Sjórinn kringum landið, - fiskimiðin okkar – gefur okkur þennan
kraft. Meðan við höfum þau og kunnum að notfæra okkur afurðir þeirra, getur
ekkert vald á jörðunni unnið við okkur.”
Gula hættan er líka bókstaflega smitsótt, faraldur,
einsog sjá má í grein um mislingafaraldur sem barst sjóleiðina:
“Nú gengur einhver erlend
sótt (önnur en mislingar eða skarlatssótt) á brottfararstað skipsins, eða
einhver á skipinu hefir sýkst á brottfararstað þess eða á leiðinni af “erlendri
sótt” (þar með taldir mislingar og skarlatssótt), og á þá skipið að hafa uppi
sóttvarnarveifu (gula veifu), er það kemur hjer við land, og má enginn
fara á land úr skipinu og enginn út að skipinu fyr en læknir hefir skoðað það
og yfirvöld veitt því heilbrigðisvottorð. (Norðurland, 08.06.1916.
Mislingarnir. Ávarp til alþýðu manna.)
Þetta kemur kanski fyrir sjónir sem barnalegur húmor (sem
þetta er) en þykir ástæða að minnast gulubrandara, sem ekki er ýkjalangt síðan
að þóttu við hæfi á landi voru. Land einsog Kína var svo langt í burtu að það
réttlætti einhvernveginn að sjá íbúa þess bara útfrá “hörundslit” og
nafnabröndurum. Má sjá tung? - er klassík, og maður gæti ætlað að Fu Manchu sé
líka einfaldur orðaleikur, en gæti líka vísað í Manchuria, Mansjúríu sem geymdi
yfirstétt Kínverja, og stjórnendur til lengri tíma – glæpasnillingarnir sem hér
eru til umræðu eru síst ótíndir glæpamenn, heldur menn af góðum ættum og vel
efnaðir.
Við höfum líka tilhneigingu til að sjá Mongólana sem
yfirstétt í Kína og Asíu, og aftur og aftur rekur maður sig á greinarskrif sem
ýmist rugla Kínverjum og Mongólum saman, eða reyna að tengja þjóðirnar saman
svo lesendur sjái Kínverja með reynslu Evrópu af Mongólum og Töturum á bakinu.
“Hinn síðasti af þessum miklu stjórnendum var
Tamerlan. Ríkið (Mongólska = Tatara) var að liðast sundur en honum því nær að
sameina það 200 árum eftir daga Djengis Khans. Það tókst þó ekki, dauðinn tók
hann áður en markinu var náð.
Öldum saman hefir honum
verið sungið lof í Asíu og Moskvu. Keisarana dreymdi um að framkvæma afrek hans
og núverandi stjórnendur í Moskvu gera það máske líka. Þeir hafa svipaðar
hugmyndir og Djengis Khan og Tamerlan: Það að sigra allan heiminn – og
aðferðirnar eru líkar.” (Vísir 19.08.1954þ Djengis Khan – mesti drottnari
veraldarsögunnar.)
“... Það var því ekki ónýtt
af Moskva fékk að vaxa fyrir náð Mongólanna og varð miðdepill hins rússneska
ríkis.” (sama)
Það er því gjarna tilhneiging til að líta á útþrá
Kínverjans sem ýmist smitfaraldur, eða áframhald af flóðbylgju Mongólanna
(Mongólar fóru reyndar tiltölulega stutt í vesturátt, en Tataraherir tengdir
Mongólum réðust inn í Evrópu). Það er stutt oft í rottu-analógíuna:
“En guli háskinn vofir yfir
öllum heimi og eru fáar þjóðir Evrópu eður Asíu, sem óhræddar séu. Menn eru að
geta sér til, hvað þær muni gjöra allar þessar miljónir þegar þær vakna og fara
að þekkja mátt sinn og megin, en finna hinsvegar til þrengslanna í föðurlandi
sínu, þar sem hver stendur á annars tám og enginn getur snúið sér við nema hann
reki öxl eða olnboga í náunga sína.
Aðallega telja menn gula háskann þrefaldan. Og er hið
fyrsta atriði það að þeir flytji inn í Ameríku eða Evrópu, fjölgi þar og
æxlist, þangað til þeir verði svo fjölmennir, að þeir ráði lögum og lofum yfir
hvítum mönnum, en hvítir menn verði að hrökkva undan eða verða undirtyllur
þeirra. Þetta hafa menn séð og skilið og eru því að banna Kínum að flytja inn í
löndin. Menn skilja hættuna og sjá það, að ekki er hægt að gjöra við háska
þessum nema með því, að útiloka þá með öllu.
En hversvegna? Vegna þess að Kínar eru svo þrautsegir, svo vanir
við ilt, hungur, kulda, óholla fæðu, óholt loft, vosbúð og allan illan aðbúnað,
sem hvítir menn myndum ekki þola. (Fróði, 1 árg, 1911-1912).
Ludendorff, heimsfrægur þýskur hershöfðingi gaf út bók á
þriðja áratug síðustu aldar þar sem hann spáði fyrir um næstu styrjöld. Spá
hans endar með þessum orðum:
“Á 24. degi styrjaldarinnar
(svo viss er Ludendorff í sinni sök) ríður aldan að austan yfir Pólland. Rauði
herinn, 5 milljónir manna, brýtur pólska og rúmenska herinn á bak aftur. Í
Póllandi og Rúmeníu verður allri mannabyggð gjöreytt.
Löndin leggjast í auðn.
Lífskraftur þjóðanna verður soginn til hins ítrasta. Uppreisn brýzt út um
gjörvalla álfuna og endar í algjörðu stjórnleysi. Enginn getur samið frið. Og
þá líður menning Evrópu undir lok, því að “gula hættan” úr austri verður að veruleika.
Mongólar úr Austurálfu og blámenn úr Suðurálfu vega þá að hinum örmagna hvíta
kynstofni.
(Tíminn 06.12.1930. Utan úr
heimi)
Langútbreiddasti skilningurinn á gulu hættunni, virðist
samt snúa að því að hinum illu Japönum takist einhvernveginn að beita Kínverjum
fyrir sig til að sigra heiminn. Íslendingar virðast stórt séð hafa verið
jákvæðari gagnvart Kínverjum (í hernaðarlegum skilningi allavega), og staðið í
þeirri trú að þeir yrðu til friðs nema Japaninn kæmi þeim á stað. Og þrátt
fyrir þá undirliggjandi hugmynd að þessir kynþættir séu eðlislega okkur
óvinveittir, þarf ekki að leita langt aftur til að sjá að ýmsir höfðu skilning
á því að brölt vesturvelda og afskiptasemi gæti komið einhverju á stað sem illt
væri að hemja.
“Það er Kínverjar og Japanar,
sem við er átt – gulu mennirnir. Hættan sem vestrænu þjóðunum stafar af þeim,
hefur verið nefnd “gula hættan”. “
Kínverjar eru þriðjungur
allra íbúa jarðarinnar, eða um bil. En þetta afskaplega þjóðarbákn hefur verið
friðsamt, óáleitið við aðrar þjóðir, að öllum jafnaði Ef þeir hefðu verið látnir einir um hituna,
er líklegt, að þeir mundu um marga mannsaldra láta sjer nægja að búa að sínu og
lifa sínu eigin lífi, án þess að ásælast það, sem aðrir menn eiga. En nú er
orðið nokkuð langt síðan, að auðmenn vesturlanda hafa að fullu komið auga á
það, hve afskaplegir gróðavegir sjeu í landi, sem er gætt jafnmiklum auðæfum
frá náttúrunnar hendi eins og Kína, og þar sem manngrúinn er jafnframt svona
mikill. Og um 50 ár hafa ýmsar þjóðir lagt kapp á að ná hinum og öðrum
gróða-hlunnindum þar í landi – stundum ekki með sem göfugmannlegustum hætti.
(Lögrétta. 16.06.1915, “Gula hættan”)
“Hitt annað atriði hins
gula háska, er óttinn fyrir því, að Kínar taki sig saman og veltist sem
flóðalda vestur um Evrópu og sópi öllu frá sér, leggi undir sig land og lýð og
launi Evrópu lambið gráa, launi þeim ásælnina, ópíum söluna og ótal skapraunir
aðrar. “(Fróði, 1 árg, 1911-1912).
Don´t wake the sleeping giant, var gjarna sagt um risann
í austri.
“Það má því líkja þeim við
jötun sem hafi sofið í helli sínum. Hinar aðrar þjóðir heimsins eru sem
smásveinar á vakki utan við hellismunnann. Þeir hafa verið að hlusta á
hroturnar í trölli þessu og verið hálf smeikir, hvað hann myndi nú til bragðs
taka þegar hann vaknaði og risi á fætur. Konungar og keisarar hafa skolfið í
hásætum sínum og dreymt drauma um gula tröllið, hina voðalegu austrænu
vábeyðu.” (Fróði, 1 árg, 1911-1912).
Að lokum:
“Vilhjálmur annar
Þýzkalandskeisari hefir ekki verið talinn sérlega framsýnn stjórnmálamaður. Þó
hefir það oft verið rifjað upp, að hann hafi orðið einna fyrstur manna til að
benda hvíta kynþættinum á gulu hættuna svonefndu. Árið 1896 sendi keisarinn frá
sér teikningu, er kunnur málari gerði síðan málverk eftir. Á málverkinu sjást
tvær konur, sem eiga að tákna listina og tæknina. Fyrir framan þær rís upp
dökkur og ógnandi skýjabakki og fram úr honum birtist mongólskur risi, sem er
hinn ferlegasti ásýndum. .... Undir teikningu sína hafði keisarinn skrifað:
Vaknið þjóðir Evrópu og gætið helgustu verðmæta ykkar. Við mörg tækifæri lét
svo Vilhjálmur keisari þessa skoðun sína koma í ljós og spáði því, að styrjöld
milli hvítra manna og Mongóla væri óumflýjanleg.” (Heimskringla, 30.06.1954.
Gula hættan.)
Það fylgir sögunni að þetta voru viðbrögð keisarans við
Boxarauppreisninni, sem áður hefur komið fram var uppreisn gegn ágangi
vestrænna kaupsýslumanna og ríkja þeim tengdum, Vilhjálmi þessum er annars lýst
sem manni sem átti það til að láta út úr sér ákaflega vanhugsuð og ógætileg
ummæli við ennfremur óviðeigandi tilefni. Hann taldi Þýskaland vera á bandi
Messíasar og að Englandi væri stjórnað af gyðingum og frímúrurum og
þarafleiðandi á tilheyra satani.
“Segja má, að fyrri helming
þessarar aldar hafi gula hættan svo nefnda fyrst og fremst verið talin stafa af
Japönum. Sigur þeirra í styrjöldinni við Rússa gaf það glöggt til kynna að hér
var mongólskt stórveldi risið á fót. .... Ef valdadraumar þeirra (Japana) hefðu
fengið að rætast, væru nú risið upp mongólskt stórveldi í Suðaustur-Asíu
öflugra og mannfleirra en nokkurt annað stórveldi mannkynssögunnar til þessa
dags. (Heimskringla, 30.06.1954. Gula hættan.)
Það rifjast nú upp fyrir mér af hverju Fu Manchu útheimti
alltíeinu þessa gífurlegu stúdíu.Þannig var að ég var staddur í partíi með
samsæriskenningamönnum sem vildu útskýra fyrir mér hvar “hið raunverulega vald”
í heiminum væri falið. Meðal frímúrara, Bildenberga og Rothschilda var talað um
Drekafjölskylduna – semi-dulræn kínversk peningaöfl, kanski hóp fólks sem hefur
innræn tengsl og er jafnvel skylt – og sem er jafngömul mannabyggð á því svæði
sem nú er Kína. Datt mér þá í hug að Fu Manchu stereótýpan væri þaðan komin?
Að endingu tel ég mér skylt að beiðast þess að þetta
brölt mitt megi verða til þess að fleiri fræðamenn og grúskarar skoði þetta
efni, og athugi til hlítar. Góðar stundir.
Gísli Magnússon
Gísli Magnússon
Best ég kommenti hér hjá þér, Gísli: Það má líka segja að hluti ástæðunnar fyrir fóbíu gagnvart Kína dagsins í dag sé sú að Kína er alræðisríki sem ber mjög litla virðingu fyrir mannréttindum og drepur rithöfunda fyrir að tjá hug sinn. bekve Hermann
SvaraEyða