fimmtudagur, 29. mars 2012

Bing, Ping, og jafnvel Ding


Af gikkshætti og leiðinlegasta prósa sem ég hef lesið

Best að játa það strax: Ég er bévaður ekkisens gikkur. Gikkur á mat og gikkur á bókmenntir. Hvað matinn snertir þá er ég líklega það sem enskumælandi kalla „A meat-and-potatoes kind of guy“ – kjöt- og kartöflukall, það er ég. Svona að mestu leyti að minnsta kosti, segi það ekki, ég þoli alveg pasta og hrísgrjón í staðinn fyrir kartöflur svona öðruhvoru og á það til að borða fisk þegar þannig viðrar, en þið vitið hvað ég meina. Ég vil borða mat, ekki listaverk, læsa tönnunum í eitthvað bitastætt frekar en eitthvað flott, og það verður að vera matur, ekki meðlæti. Munurinn á mat og meðlæti verður ekki útlistaður svo auðveldlega í smáatriðum, ég læt nægja að fullyrða að ég þekki hann þegar ég finn hann ...

Uppruninn er ekkert atriði, indverskt er fínt, kínverskt og ítalskt, jájá og tælenskt og rússneskt og allskonar, þjóðernið skiptir ekki máli heldur innihaldið, hráefnið, kryddið, eldunaraðferðin. Og því miður er bara alltof margt í boði, íslenskt jafnt sem útlenskt, sem mér finnst ýmist ógeðslegt eða ómerkilegt. Ég segi því miður, því mér finnst það virkilega miður. Sáröfunda fólk sem þykir allt gott, finnst ósanngjarnt og fúlt að horfa uppá annað fólk gúffa í sig allskonar framandi furðukvikindum eða dragúldnu íslensku fornaldarjukki með augljósri nautn og unaði, á meðan ég fæ nákvæmlega ekkert kikk útúr hinu sama og á það jafnvel til að kúgast útaf því. Ég reyni, ég smakka, ég neyði bita uppí mig og oní mig en allt kemur fyrir ekki, vibbinn er áfram jafn viðbjóðslegur. Afhverju fá þau að njóta, smjatta, kjamsa og dæsa af sælu á meðan ég þarf að berjast við að halda niðri ælu? Það er bara ekki réttlátt, fjandakornið. En ég tekst á við þetta óréttlæti af æðruleysi og karlmennsku, bít á jaxlinn (ef ekkert skárra býðst) og hugga mig við að ég eigi þó altént rúgbrauð og kindakæfu heima, og jafnvel einn ískaldan öllara (því þetta léttvínslepjandi lið bauð náttúrulega ekki uppá bjór með fojgrasinu og ígulkerjafrauðinu og hnetu“steikinni“, oseisei nei) til að skola því niður.

Gikksháttur minn í bókmenntum er síst minni. Einsog með matinn, þá skiptir uppruninn, þjóðernið ekki öllu máli, þótt vissulega sé maður vanari kosti frá sumum heimshornum en öðrum. En það eru svona ákveðnir hlutir sem þurfa að vera á sínum stað, sérstaklega í prósa. Umburðarlyndi mitt er mun meira þar sem ljóðin eru annarsvegar. Ég er reyndar ekkert sérstaklega mikil ljóðaæta, ljóð eru svona einsog súpa, eða tapas eða snittur, ágæt fyrir sinn hatt og allt það, sem snarl, stundum meiraðsegja töluvert seðjandi og nærandi snarl, en ekki matur, ekki efni í staðgóða máltíð, ljóð geta aldrei verið aðalréttur (nei, ég skil heldur ekki hvernig fólk getur étið þetta tapas-dæmi sem aðalrétt), sama hve góð þau eru að öðru leyti. En ég get semsagt látið oní mig allskyns ljóð, með og án stuðla og höfuðstafa, upphafs og enda eða viðlíka fídusa, svo fremi sem þau gleðja hugann eða vekja með einhverjum hætti. Ég geri ekki einusinni þá kröfu til ljóða að ég skilji þau, nýt (margra) þeirra ágætlega án þess að botna upp né niður í því sem skáldið er að reyna að segja, afþví það segir það svo skemmtilega/fallega/frumlega (bætið inn lýsingarorðum sem við eiga). Svona er ég nú rosalega líbó á ljóðasviðinu. Öðru máli gildir um prósann. Þar er ég alveg harður kjöt- og kartöflukall. Íhaldsemin að drepa mig alveg.

Þegar ég les prósa vil ég skilja hann. Ekki bara orð fyrir orð, heldur heildina, söguna sem verið er að segja mér. Því ég vil hafa söguþráð og merkingu í mínum prósa – kjöt og kartöflur. Ég er sumsé einarður stuðningsmaður söguþráðarins, hvers ofurvald sumir kollegar mínir keppast við fordæma og  kveinka sér undan. Auðvitað er söguþráðurinn einn og sér engin ávísun á góðan prósa, langtífrá, ekki frekar en kjöt garanterar góða máltíð – en fyrir minn smekk er hann algjörlega ómissandi grundvallarhráefni. Hann þarf ekkert að vera algjörlega óslitinn og rökréttur útí gegn, hann má vera þunnur og mótsagnakenndur, það mega vera á honum allskyns útúrdúrar og lykkjur og snurður og hann má liggja í hring og jafnvel fleiri en einn – eða útí móa. En hann þarf að vera þarna einhverstaðar, í einhverju formi. Og einhverja merkingu þarf að vera hægt að lesa útúr þessu líka. Hún þarf hvorki að vera augljós né ótvíræð, hún má gjarnan vera margslungin og umdeilanleg, túlkanleg á ýmsa lund og breytileg frá einum lesanda til annars, frá einum lestri til annars – en hún þarf að leynast þarna einhverstaðar.

Ég hreinlega þoli ekki þráðlausan prósa sem þýðir ekki neitt heldur bara er (eða á að vera) eitthvað einhvernveginn og segir mér ekki neitt um neitt. Vil hann ekki, fúlsa við honum og nánast kúgast við lesturinn. Annað fólk gleypir slíkan texta í sig, kjamsar á sundurlausum orðunum og innihaldslausum setningunum, finnur í þeim djúpa en óáþreifanlega (og iðulega ólýsanlega) merkingu og syngur súrrealísku orðasalatinu óspart lof. Ég samgleðst þeim en öfunda þau ekki einsog ég öfunda fólk sem elskar sushi og sellerí. Nema þegar ég neyðist til að lesa slíkan texta sjálfur, þá vildi ég feginn fíla fáránleikann – en öfugt við það sem áður var, þá hvorki næ ég né nenni að feika það lengur.

Maður er líka orðinn svo gamall og íhaldsamur og hokinn af reynslu, að maður veit nokkurnveginn hvað manni líkar og hvað ekki. Gildir það jafnt um mat sem bækur og sparar manni heilmikil óþægindi og vesen. Enn bragða ég þó á ókunnuglegum mat sem mér er boðinn, en þyki mér hann vondur fær hann einfaldlega að liggja. Forvitnilegar bækur glugga ég líka í, en legg þær aftur og frá mér ef mér líst ekki á þær.

Mat sem mér líkar ekki hef ég ekki neyðst til að borða í mörg ár, sem betur fer. Eitthvað styttra er liðið frá því ég neyddist síðast til að lesa einhver leiðindi sem hvorki var á haus né hali. Vonandi er lengra í að ég neyðist til þess næst. Það er hinsvegar 21 ár síðan ég las leiðinlegasta prósa sem ég hef á ævinni þurft að böðlast í gegnum. Þetta á að heita smásaga (reyndar eru einhver áhöld um hvort þetta skuli flokkast sem smásaga eða prósaljóð, en þessi hryllingur er birtur í safnbók breskra nútímasmásagna og var til umfjöllunar í smásagnakúrsi í bókmenntafræðinni – og því get ég þó lofað, að þetta rugl skánar ekkert við að kallast prósaljóð) og eini kosturinn við hana er ótvírætt sá, að hún skuli ekki vera lengri (einn af fjölmörgum göllum við hana er afturámóti klárlega sá að hún skuli ekki vera enn styttri).

„Sagan“ sem um ræðir er eftir mann sem kunni flestum betur tökin á hinu fáránlega, og eftir hann liggja ófá snilldarleg verk, jafnt á sviði leikbókmennta sem prósa og ljóðlistar. Hann fékk meiraðsegja Nóbelinn og allt, hann Samuel Beckett, og ekki að ósekju. En þessi tiltekna „saga“ – kræst. Hún heitir Ping. Eða Bing á frummálinu, frönsku. Hann þýddi hana svo yfir á ensku og gaf henni þá nafnið Ping (ef hún yrði þýdd á íslensku héti hún sjálfsagt Ding). Prófessorinn sem kenndi þennan smásagnakúrs vildi meina að þessi saga væri mikið meistaraverk. Að maður ætti að upplifa hana einsog abstrakt málverk, í slíku verki væri nú aldeilis ekki neitt áþreifanlegt eða realístískt að sjá, en maður gæti notið heildarmyndarinnar, stemmingarinnar, áhrifanna sem myndin hefði á mann. Ég var ekki sammála. Hélt því fram að ólík lögmál giltu um texta og myndlist og setti fram þá kenningu að Beckett hefði verið svo mikill húmoristi og vísindamaður, að hann hefði ákveðið á einhverjum tímapunkti að athuga hversu langt hann gæti gengið í fáránleikanum og vitleysunni áður en bókmenntapáfarnir föttuðu að hann væri að djóka í þeim. Taldi (og tel enn) að Beckett hafi verið á sýrutrippi þegar hann skrifaði þessa meintu sögu (sem kom út 1965 á frönsku, ári síðar á ensku), lesið hana þegar hann kom niður og fundist gráupplagt að gefa hana út sem lokahnykk og hápunkt þessarar tilraunastarfsemi sinnar. Og að viðtökurnar hafi sumsé fært honum endanlega heim sanninn um að það væru hreinlega engin takmörk: Það yrði klappað fyrir öllu sem hann léti frá sér fara, hversu mikið dómadags bull sem það væri (ekki ósvipað og verðlaunakokkurinn sem var dásamaður fyrir beikonísinn). Prófessornum fannst þetta alls ekki sannfærandi kenning hjá mér.

Annar prófessor í bókmenntum, David Lodge, sem jafnframt er rithöfundur og gagnrýnandi, hafði líka ýmislegt um Ping að segja, meðal annars að hún væri "the rendering of the consciousness of a person confined in a small, bare, white room, a person who is evidently under extreme duress, and probably at the last gasp of life" eða, lauslega snarað, „túlkun á hugarástandi manneskju sem hírist innilokuð í litlu, auðu, hvítu herbergi, manneskju, sem greinilega líður mikla nauð og er líklega nær dauða en lífi.“

Þetta er reyndar ágæt lýsing á líðan minni eftir því sem leið á lestur sögunnar – og sjálfsagt munu einhverjir túlka það sem svo, að það sýni einmitt snilld Becketts og sögunnar, að geta framkallað sömu líðan í huga lesandans og persónunnar sem lýst er. Gallinn er bara sá að Beckett er ekki að lýsa neinni persónu í neinum kringumstæðum, heldur freistast Lodge, í örvæntingarfullri leit að og þörf fyrir merkingu sem ekki er til staðar til að skálda hana upp, finna eigin botn í sundurlausan orðavaðalinn með því að samsvara hann tilfinningunni sem hann (einsog ég og eflaust margir fleiri) upplifði við lesturinn á þessari hörmung. Hann freistast þó ekki til að spinna ímyndaðan þráð í hana líka, enda vandséð hvernig slíkt ætti að vera hægt.

Enívei. Mig grunar að Hermann og Eiríkur Örn og Þröstur og fleiri fíli Ping (eða Bing eða Ding) í tætlur, sem er gaman fyrir þá. En þetta er semsagt lang, lang langleiðinlegasti prósi sem ég hef á ævi minn þurft að lesa frá upphafi til enda (að reglugerðum um fótsnyrtistofur og leiðbeiningum með raftækjum meðtöldum). Hvað með þig? Hvað er það leiðinlegasta sem þú hefur þurft að þræla þér í gegnum?  Svör óskast í athugasemdum.

P.s. Hér fyrir neðan eru tenglar á síður þar sem þið getið lesið Bing/Ping, bæði á frummálinu og í enskri þýðingu höfundar – það væri fróðlegt að vita hvort sá lestur breytir einhverju um svar ykkar ...

Ævar Örn Jósepsson




miðvikudagur, 28. mars 2012

Annar dauði höfundar


Um daginn heyrði ég sögu af finnskum heimspekingi, konu sem hafði sérhæft sig í Deleuze. Hún sat á kaffihúsi í París um miðjan tíunda áratuginn að ræða Deleuze og myndlist við franskan kollega sinn þegar eitthvað stórt, sem líktist mannslíkama, féll til jarðar fyrir framan kaffihúsið með háum og holum dynki. Þau gerðu hlé á tali sínu til að athuga hvað þarna var á ferð og sáu þá að þetta var maður, hann lá í blóði sínu á gangstéttinni. Fljótlega báru þau kennsl á líkið: þetta var heimspekingurinn sem þau höfðu verið að ræða, Gilles Deleuze. Hann hafði afgluggað sig, eins og Frakkar kalla það.

Þröstur Helgason

Gilles Deleuze

þriðjudagur, 27. mars 2012

Myrkrið, Greta og Marilyn: Viðtal við Kristínu Ómarsdóttur


Ein óvenjulegasta bókin sem kom út fyrir síðustu jól er Við tilheyrum sama myrkrinu eftir Kristínu Ómarsdóttur. Hún ber undirtitilinn: Af vináttu Marilyn Monroe og Gretu Garbo og er tileinkuð fegurðardísum allra tíma. Í bókinni eru 6 sögur og eitt ljóð eftir aðra söguhetjuna, ljóðið „Amerísk móðir“ eftir Marilyn Monroe. Sögurnar og ljóðið eru skáldskapur þar sem leikkonurnar tvær leika aðalhlutverkin. „Allar persónur sem við sögu koma, jafnvel þær Marilyn og Greta, eru skáldaðar“, segir í aðfarartexta. Bókin er prýdd fjölda mynda eftir höfundinn af þeim Monroe og Garbo.

Hvort bókin fór hátt eða lágt skal ósagt látið, á ská eða skjön, upp eða niður, lóðrétt eða lárétt eða beint í æð. Í það minnsta sker hún sig úr fyrir margra hluta sakir: hún er fallegt bókverk, sérstök lesning, skemmtileg og furðuleg, harmræn og döpur og svolítið snúin en umfram allt þess virði að lesa. Kristín Ómarsdóttir, höfundur bókarinnar, lét tilleiðast í dulítið spjall.

Hvernig kynntistu þeim Marilyn Monroe og Gretu Garbo fyrst? Hafa þær alltaf fylgt þér? Hefurðu alltaf tengt þær tvær saman?

Já, eða ég hef fylgt þeim, frá því ég var lítil. Foreldrar mínir áttu viðtal við Marilyn Monroe á stórri segulbandsspólu, útvarpsþáttur úr danska útvarpinu, þau áttu líka á böndum Woodstock-tónleikana og fleira, sem við systkinin þræddum í gegn og hlustuðum á í myrkinu - slökktum ljósin - á svona bandi heyrði ég röddina hennar. Ég byrjaði að lesa um Gretu upp úr tvítugu og svo tók lestur um vinkonu hennar við. Þá hef ég ímyndað mér, og ég næstum því trúi ég því, að Greta og amma mín, sem bjó á Bergstaðarstræti, hafi verið pennavinkonur. Einu sinni þegar ég var að lesa Egils sögu fyrir nokkrum árum á sunnudagskvöldi sló niður eldingu í huga mér og ég sá stöllurnar fyrir mér vera að lesa saman bókina - svona gerðist það og þannig lærði ég af vináttu þeirra. 

Hefurðu teiknað alla þína tíð?

Já, frá því ég var krakki, ég er frístundateiknari. 

Má annars nota raunverulegt fólk í skáldskap? Hikaðirðu fyrst út af tilhugsuninni um raunveruleikann eða byrjaðirðu bara og hélst svo áfram?

Ég hikaði aldrei. Raunveruleikinn þrífst á skáldskap og skáldskapurinn þrífst á raunveruleikanum, svo er þetta líka eitt og hið sama - hormónin eru einhvers konar söguperlur, blóðrásin er taktur. En sjálf myndi ég ekki vilja að rithöfundar notuðu mig í skáldskap, enda lifi ég mjög óáhugaverðu lífi. Útlensk kunningjakona heimsótti Ísland fyrir nokkrum árum, ári síðar vorum ég og fleiri komin inn í ritgerðarsafn hennar. Það þótti mér óþægilegt, gestrisni minni var misboðið. Ég hef líka beðið Marilyn og Gretu afsökunar, eins langt og það nær, og vona að ég misbjóði ekki persónum þeirra.  Mér finnst ferðamenn skoða stundum okkur á Íslandi, fólkið og fjöllin, eins og sýningargripi í dýragarði, og kannski er ég í þessari bók að hrifsa til mín náttúrundur Hollywood og búa til úr þeim bók; á sama hátt og Roni Horn fangar veðrið á Íslandi og tekur myndir af sundhöllunum. Eins og sígauninn sem fannst Armstrong og félagar stela frá honum tunglinu fannst mér myndlistakonan stela frá mér Sundhöllinni í Hafnarfirði, sem ég tel mig eiga, þegar hún myndaði sundhöllina - þetta eru mjög fallegar ljósmyndir eftir hana. Svona getur eignarhaldstilfinningin verið sterk, viðkvæmnin, minnimáttarkenndin, taugaveiklunin og stórlætið. Ég hef gerst sek um að nota raunverulegt fólk í skáldskap og uppgötva í þessum töluðu orðum að ég er að stunda menningarrán. 

Ég stenst ekki mátið: Einu sinni notaði ég kaþólska miðaldahugtakið „furta sacra“, heilagur stuldur, til að lýsa einskonar stuldi í eigin skáldverki, mest á texta eftir Davíð Oddsson ef ég man rétt og gott ef ekki einhverju smáræði eftir Hannes Hólmstein. Þú seilist lengra burt og lengra aftur í tímann en gætirðu fallist á að annars vegar sé til vanhelgur þjófnaður og hinsvegar helgur?

Ætli fólk steli ekki oft af hugsjón? Ef ég stel mat handa svöngum börnum mínum stel ég af hugsjón fyrir framtíðina, í staðinn fyrir t.d. að borða börnin. Og ef ég stel banka afþví ég vil lifa stórfenglegu lífi í stórum sölum, stel ég af hugsjón fyrir sjálfri og mér og mínum, eitthvað svoleiðis. Að stela virðist eitt af því sem manneskjan gerir jafn eðlilega eins og að anda. Það á engin orðin og hugmyndirnar, eða jörðina og fjöllin. Þó ég hafi ríka eignarhaldstilfinningu þá á ég ekkert. Það er líklega jafn heilagt að ræna bensíni fyrir þúsund kall og númeraplötu á bílasölu og að ræna banka og lífi og kennitölum og orðum og hugsunum. Hugsanirnar eru eins og regnið.   

Í bókinni er mikið af lýsingum á þeim tveimur, Marilyn og Garbo, og samtölum á milli þeirra, ein lýsing sem ég staldraði við, las trekk í trekk og festist við minnið er að finna á blaðsíðu 26 í undirkafla með yfirskriftinni "Ath." Hún er svona:´

"Ófáir kölluðu Marilyn undirlægju; orð sem fannst ekki í orðabók hennar. Hjartahlýju hennar töldu menn ekki meðfædda heldur afleiðingu misnotkunar. Greta áleit blíðlyndið stafa af þunglyndi og vera forboða sjálfsvígs; samviskubit vegna þess að dag einn yfirgæfi hún jarðlífið. Marilyn neitaði að skilgreina góðmennsku sína en við engan dekraði hún af jafn innilegri þörf og Gretu."

Nú veit ég ekki alveg hvað ég ætlaði að spyrja um, langaði kannski aðallega að koma þessari tilvitnun að. En svo ég spyrji að einhverju: Getur verið að þessum orðum sé beint til samtíðarinnar á einhvern hátt? Góðmennska, hjartahlýja, blíðlyndi, á samtíminn erfitt með að trúa því að neinni manneskju geti gengið gott til og ekki legið fiskur undir sérhverjum steini, undirlægja í öllu? Hinum óhreinu er allt óhreint, minnir mig að segi í mætri bók. Ég er kannski að leggja of mikið á þessar línur? Væri kannski nær að spyrja í þessari of löngu spurningaröð: Þarf að frelsa Marilyn sem og Gretu undan þröngum skilgreiningum, setja Marilyn í skarpan spegil Gretu og öfugt?

Já, tvímælalaust mundi ég halda að orðunum sé beint til samtíðarinnar. Góðmennskan er tortryggð, hún liggur alls staðar undir grun. Já, og er ekki flestu snúið við í heiminum okkar? Ekki er allt sem sýnist. Og heldur þú ekki líka að fegurðin komi að innan? 

Það held ég að hún geri, ekki spurning. En fegurðardísirnar tvær hafa líka sinn sögulega tíma, önnur þeirra fær aðdáandabréf frá Hitler og Maó formaður er á sveimi. Lagðistu í mikið grúsk um þær stöllur? Sátu þær til dæmis báðar fyrir í kompaníi með fíl – elefant – eins og segir í einum myndatexta?

 Já, Stalín var bíósjúkur, horfði á kvikmynd á hverju kvöldi, annað hvort fyrir eða eftir kvöldmat. Ein kvenna Maós var leikkona og yfirmaður kvikmyndastofnunarinnar. Stalín var líka að grúska í handritum og með puttana í þeim, stjórnast í ritstörfum annarra. Hann erfði held ég kvikmyndasafn Goebbels. Einræðisherrarnir voru vafalaust aðdáendur leikkvennanna. Já, ég grúskaði dálítið og já, þær voru báðar ljósmyndaðar með fílum, það er satt. 

Eða ef maður á að gerast svolítið hátíðlegur: Felur skáldskapur í þínum huga í sér samfélagsgagnrýni (eða sálarlífsúttekt þjóðar) sem ekki er hægt að orða með neinum öðrum hætti því þá væri annað hvort ekki tekið mark á henni eða hún tekin óstinnt upp? 

 Já, ég held það. Eitthvað svona með beinar og óbeinar auglýsingar. Ég held jafnvel að við gætum þurft að fara að nota táknmál og fyrstu söguna í bókinni reyndi ég að skrifa á einhvers konar táknmáli, eða eins og ég væri að skrifa í landi sem leyfir ekki að hlutir séu sagðir - það hugsaði ég meðvitað í fyrstu sögunni sem ég skrifaði - og ég held að við búum í þannig landi, þannig heimi, þar sem ekki er hægt að segja hlutina eins og þeir eru, þrátt fyrir tjáningarfrelsið, skáldskapurinn dansar í kringum þetta meira og minna, allir rithöfundar gera það, held ég. 

Það er samt bæði gáski og dauðans alvara í sögunum um fegurðardísirnar tvær. Þú vilt blanda þessu saman, er það ekki? Í bland við harmræna tóna og erótíska leitarðu eftir ákveðnum léttleika? Þetta er skemmtileg bók og á líka að vera það, ekki satt?

Takk fyrir það, þetta finnst mér skemmtilegt að heyra. Ég veit það ekki, ég held mér hafi fundist sögurnar meira sorglegar þegar ég var að skrifa þær. Þó ég líti á bókmenntir sem iðnað og afþreyingu þá er ég ekki að hugsa um að skemmta lesandanum þegar ég skrifa. Ég var byrjuð að teikna Marilyn áður en ég skrifaði fyrstu söguna, og það varð svona að ávana eða áráttu, að teikna hana, ef ég komst í myndabók með myndum með henni, bók sem ekki mátti taka út úr húsi einhvers, teiknaði ég upp úr bókinni, eins og til að taka bita af bókinni með mér heim. Mér þykir gott og gaman að nota blýant og blek í teikningar, sömu áhöld og notuðu eru við skriftir. Mig langar til að læra grafík en kannski hef ég ekki tíma til þess og ég er mjög óþolinmóð. 

Þú dregur í skálduðu persónunum fram myrkari hliðar tveggja goðsagna, ekki satt?

 Við erum kannski stödd í myrkrakompu að framkalla myndir af glötuðum filmum sem lágu í geymslum þangað til fyrir stuttu. Finnst þér það vera myrkar hliðar sem konurnar sýna í bókinni? 

Finnst þér mikilvægt að halda þínu eigin svæði í skrifum þínum, vera á þínum eigin slóðum? Fylgja ekki endilega neinum straumum?

Já, ég held það. Mig langar til að skrifa mjög rithöfundalegar bækur, en mér hefur ekki tekist það, svona gamaldags rithöfundalegar. Þórunn Valdimarsdóttir blés mér anda í brjósti eina nóttina fyrir tuttugu árum og ég fylgdi þessum anda sem hún gaf mér og enn í dag, og hef líka streist á móti, bara smávegis. Hún skrifaði manifestó með ósýnilegu bleki þessa nótt. Vigdís Grímsdóttir hefur haft djúpstæð áhrif á mig. Ég held ég fylgi mjög mörgum straumum. Ég vil taka allt inn og klæða mig bæði í ný föt og í föt sem búið er að henda; samt er þetta ekki alveg rétt, ég er ekki fundvís og góð í að grúska á mörkuðum, í gömlu dóti og bókum, sem t.d. búið er að henda, því minni heimsins varir svo stutt. Ég öfunda þá sem hafa þolinmæði til að leita og finna - finna gull á menningaröskuhaugunum. Ég er mjög móttækileg fyrir tískustraumum og var snemma skömmuð fyrir að vera áhrifagjörn, en ég get líka verið mjög utangátta og þrjósk. Ætli það sé ekki best að ganga afturábak - eins og ein vinkona mín gerði eitt sinn þegar hún gekk heim til sín?  Ég er dálítið hrifin af því að Leonardo di Capricio fari ekki í bað vegna þess að hann sé að spara vatnið, eins og ég las í Fréttablaðinu í morgun, kærastan er alveg að gefast upp á svitalyktinni - ég dáist svoldið að þessum stíl hans.

Gott hjá Caprio. Hvað ertu að skrifa núna? Hvert hyggstu næst?

 Ég er að ganga frá bók sem heitir Milla, skáldsaga um tuttugu og eins árs gamla stelpu árið 2001 í Reykjavík.  Þegar það er búið fer ég í aðra skáldsögu sem var langt komin fyrir sex árum þegar ég setti hana til hliðar, svo langar mig til að yrkja, og nýlega fékk ég hugmynd að sögu sem felur í sér stórfeldan menningarstuld.  

Viðtal: Hermann Stefánsson

mánudagur, 26. mars 2012

Tímavélin - eða P.G. Wodehouse og eftirsjáin


Þök háhýsanna
P.G. Wodehouse er minn eftirlætis nostalgíumeistari (eða öllu heldur einn af þeim). Í einni fyrstu sögu hans sem ég kynntist er lýst New York millistríðsáranna, með sérstakri áherslu á þök háhýsanna. Þá var ég þrettán ára og lá síðan fullur eftirsjár í rúminu, beið svefns og hugsaði um þök háhýsanna – um hvað þessi tími hefði verið einfaldari, saklausari og að mörgu leyti betri en nútíminn (sem var árið 1983). Þó hafði ég aldrei komið til New York og ekki verið uppi árið 1927, þegar bókin er gefin út. Það er ef til vill ekki erfitt að kalla fram eftirsjá mannsins eftir eigin fortíð en á hinn bóginn aðeins á færi meistara að skapa í manni eftirsjá eftir ókunnum stað og stund.
P.G. Wodehouse. Gestabloggari dagsins, Ármann Jakobsson,
fjallar um nostalgíu í verkum hans.
Nostalgía er eitt af þessum skrýtnu grísku orðum sem ryðjast inn í önnur tungumál í krafti allra merkingaraukanna sem það hefur hlaðið utan á sig á löngu ferðalagi um aldir og álfur en innfæddu orðin geta aldrei verið jafn rík af. Nostalgía merkir upphaflega heimþrá en vegna ímyndunaraflsins getur maðurinn líka fengið heimþrá til ókunnra staða og liðinna alda og þó eru staðirnir þá ekki ókunnir heldur virðast einmitt kunnuglegri en eigin staður og stund. Þannig tilfinningu dregur P.G. Wodehouse fram í lesendum sínum. Svo hleður nostalgían utan á sig. Áratugum seinna er hún orðin margföld, blandast minningu um horfna rödd sem las söguna fyrir okkur, um okkurgula herbergið þar sem þúsundir leikja voru settir á svið og um bernsku sem einu sinni var hversdagsleg en eru núna guðleg því að þátttakendurnir eru allir horfnir í aðra og betri heima, líka þeir sem eru hérna enn.
Þó að ég vissi það ekki þá var þessi tilfinning eðlileg í ljósi þess að höfundurinn ól mestallan aldur sinn erlendis og bjó í útlöndunum til sitt eigið England sem hélt áfram að vera nokkurn veginn eins og honum hafði fundist það vera þegar hann var barn og unglingur en Bandaríkin voru landið sem hann hafði kynnst í æsku. Um þessi lönd fjölluðu allar sögur hans, einkum þó England sem hann hafði yfirgefið. Þær urðu ófáar, ég hef reynt að telja þær en gefst alltaf upp skömmu eftir að ég kemst á annað hundrað.

Að þreyja þorrann
Auðvitað var P.G. Wodehouse afþreyingarhöfundur. Hvað annað er hægt að kalla mann sem semur svona margar sögur og hverja annarri líka í stíl og efnistökum? Á hinn bóginn naut hann mikillar virðingar hjá öðrum rithöfundum sem eru taldir honum fremri. Eflaust hafa sumir öfundað hann líka, þó ekki væri nema fyrir orkuna og frásagnargleðina en raunar líka fyrir tök hans á stíl því að enskan lék í höndum hans og bækur hans eru aldrei svipur hjá sjón í þýðingu. Allir rithöfundar hljóta að efast öðru hvoru um eigin starfa, það er eðli skrifta. En slíkur efi þrúgaði aldrei Wodehouse þannig að hann hætti að skrifa og um leið virðist hann hafa verið einstaklega glöggskyggn á eigin hæfileika og sáttur við þá því að hann reyndi aldrei af neinni alvöru að skrifa öðruvísi.
Fleyg urðu orð hans að til væru tvær gerðir af höfundum. Önnur skeytti ekki um neitt og tæki stefnuna beint á dýpið. Hin semdi gamansama söngleiki þar sem raunveruleikinn skipti engu máli og þannig höfundur væri hann. Auðvitað er engin leið að andmæla höfundi sem hefur svona augljóslega rétt fyrir sér. Allar bækur Wodehouse gerast í gerviheimi sem hefur þó svip af heiminum sem hann ólst upp í. Sá heimur er ekki endilega betri en í honum eru önnur vandamál sem beina sjónum okkar um stund frá eigin veruleik sem stundum er leiðinlega óreglulegur og merkingarlaus. Og þó að um hríð sé allt í upplausn getur lesandinn reiknað með að allt fari vel að lokum, annað hvort fyrir kenjar tilviljunarinnar eða með hjálp einkaþjónsins Jeeves sem hefur einstakt lag á að stjórna atburðum með þekkingu sinni á mannlegu eðli og raða öllu á réttan stað.
Í gerviheimi Wodehouse eru sumir ríkir en aðrir fátækir og sumir hafa völd yfir öðrum. Þannig skapast sögufléttur sem iðulega snúast um að elskendur ná saman þrátt fyrir andstöðu þröngsýnnar eldri kynslóðar. En þrátt fyrir blankheitin lifir enginn við raunverulega eymd eða ástleysi sem ekki er hægt að kippa í liðinn. Og þó að stundum komist sögupersónur í hann krappann eru þær gjarnan fullar stóískrar róar á slíkum augnablikum. Sögumaðurinn er það ævinlega, hvort sem það er alvitur sögumaður nálægur Wodehouse sjálfum eða hið sjálfumglaða og psýkópatíska eilífðarbarn Bertie Wooster sem hefur það eitt markmið í lífinu að forðast óþægindi.
Bertie er írónísk persóna í gegn og sögurnar um hann snúast um að gera stólpagrín að honum og afhjúpa misskilning hans, ranghugmyndir og heimsku. Samt þykir bæði höfundi og lesendum vænt um Bertie eins og önnur psýkópatísk eilífðarbörn sem eru hæfilega fjarlæg í sínu Hvergilandi eða að minnsta kosti í öðru sveitarfélagi. Kannski er Bertie skopmynd af höfundi sjálfum því að bækur Wodehouse eru að sumu leyti eins og Bertie hefði skrifað þær sjálfur: þar er heimurinn þægilegur og öruggur og breytist ekki neitt. Um leið er Bertie áhorfandi eins og Wodehouse sjálfur. Hann þarf aldrei að finna ástina (en oft að losna úr misráðinni skynditrúlofun) heldur ferðast um og kemur öðrum saman, bæði af eigin góðmennsku en aðallega vegna þess að það hentar hans eigin leit að áhyggjulausu lífi.
Bertie getur ekki hugsað sér að lifa öðrum en sjálfum sér þó að hann þurfi iðulega að gera öðrum greiða til þess að komast hjá óþægindum. Nútíminn er skeið stöðugra athafna, átaka og breytinga en Bertie vill stöðugan heim, eins og finna má í sögum Wodehouse. Allar breytingar og óstöðugleiki eru eins og áleitni í garð hans en sjálfur er hann óáleitinn og fáar söguhetjur skáldsagna 20. aldar eru minni athafnamenn.

Í gerviheiminum eru 2 + 2 = 4
Wodehouse er arftaki höfunda eins og Jane Austen sem lengi voru ekki teknir alvarlega heldur, fyrir að hafa samið sögur þar sem ástin gengur upp. En í sögum Austen skín í sársaukann á bak við kæruleysislegan stílinn og þó að sumar ástarsögurnar gangi upp finnum við þar líka raunsæjar og óhamingjusamar persónur sem hún stendur nær en Wodehouse sínum sögupersónum. Í sögum hans er enginn sársauki nema nostalgían sem skapast af því að lesandinn sér svo auðveldlega í gegnum blekkinguna og veit að heimurinn er ekki eins og í Wodehousebók, kannski af því Wodehouse vissi það sjálfur og lesendur fá aldrei á tilfinninguna að hann hafi trúað eitt andartak á ævintýrin sín.
Þessi gerviheimur er nálægur raunheiminum að því leyti að þar eru hvorki tækniundur, talandi dýr né yfirnáttúrulegar verur en það ætti ekki að blekkja neinn. Sögupersónurnar eru of vel stæðar til að hægt sé að taka þær alvarlega og vanur lesandi áttar sig fljótt á að hér er hreinræktuð fantasía á ferð. Wodehouse var samtíðarmaður Agöthu Christie og þau sýna hvort öðru þann heiður að nefna bækur hins höfundarins í eigin bókum. Þau hafa líka fylgst að í mínu lífi enda í uppáhaldi hjá foreldrum mínum, hillumetrarnir af þeim báðum til á mínu æskuheimili og eflaust á fleiri æskuheimilum. Bæði eru þau fantasíuhöfundar þó að bækurnar virðist eiga að gerast í raunheiminum. Hjá Agöthu er fantasían hluti formsins því að í raunheiminum eru glæpir sjaldnast (eða aldrei?) ráðgátur sem hægt er að leysa með rökvísinni eins og krossgátu (eða á rannsóknarstofunni þar sem glæpir voru síðar leystir af töffurum með smásjá á Skjá einum). Eins og hjá Wodehouse er ekkert yfirnáttúrulegt að finna í sögum Agöthu Christie (ekki í góðu sögunum) en allt gengur upp á farsælli hátt en raunsæið leyfir. Niðurstaðan er að hvorttveggja eru raunsæisleg ævintýri og þess vegna eru sögur þessara tveggja höfunda geðþekkar unglingum sem eru nýútskrifaðir frá Anne-Cath. Vestly og Astrid Lindgren.
Auðvitað geta bæði ævintýrin sjálf og ævintýri Wodehouse snúist um sálarlíf og samfélög en aðeins undir yfirborðinu. Á yfirborðinu eru endalausar sögufléttur þar sem allt er einvítt, samfélagið er leiktjöld fyrir átök fléttunnar og persónur finna varla fyrir sársauka nema það henti fléttunni. Gamanið liggur fyrst og fremst í kringumstæðunum en líka fjörlegum stílnum og kæruleysislegu viðhorfi persónanna til veruleikans. Það síðastnefnda er sótt til bullbókmenntahefðarinnar sem Lewis Carroll fann upp og Oscar Wilde kom á gelgjuskeiðið. Wodehouse er þó hvorki jafn grimmur og sá fyrri né jafn uppreisnargjarn og sá síðarnefndi. Ef hann hefði hætt sér á dýpið hefði hann ekki getað haldið áfram að segja sömu söguna aftur og aftur. Og eins og Bertie sjálfur kærði hann sig ekki um þau óþægindi sem hefðu fylgt því að snúa heiminum sínum á haus og skoða hann betur. Nostalgían lifir ekki af slíka skoðun, frekar en aðrir draumar.

Hin afturhaldssama taug
Flestallir uppáhaldshöfundar mínir á unglingsárunum hafa haft orð á sér fyrir að vera afturhald og því einkennilegt eftirlæti vinstriróttæklings en það gerði aldrei neitt til. Agatha tekst sannfærandi á við nútímann á hinu smærra sviði þó að hún skilji ekki pólitík (hins vegar gat hún glímt við nostalgíu af talsverðri dýpt, í sögunni Bertramshótelinu) og Wodehouse var enn ein tegundin af afturhaldi sem leiddi bara hjá sér tímann og göngu hans. Þess vegna breytast sögupersónur hans aldrei og sá sem reynir að skilja tímatalið í bókum hans verður gráhærður á undan þeim. En þó að bækur Wodehouse séu fyrst og fremst sögufléttur en ekki um samfélag þá skiptir líka máli að hann myndar ákveðna kennd fyrir horfnum heimi sem er kunnuglegur þó að hann hafi ekki verið til.
Afturhald og nostalgía eru systkini þó að ekki sé þar með sagt að þeim komi alltaf vel saman, frekar en systkinum almennt. Það er hægt að halda þeim aðgreindum, eins og ég vona að ég hafi gert. Nostalgía þarf nefnilega ekki endilega að fela í sér bjartsýna trú á að fortíðin verði endurheimt, aðeins þrá sem þrífst kannski best við vonleysið. Hjá skáldunum birtist raunsæjasta gerð heimþrárinnar. Henni er veitt glaðvær útrás þannig að treginn sem auðvitað er einhverstaðar á bak við er nánast ósýnilegur.
Ýmsir uppáhaldshöfundarnir voru enskir og ég verð að játa á mig gamlan nostalgískan áhuga á Englandi sem lifði meiraðsegja af ferðir þangað og kynni við Englendinga (höfundur Tarzanbókanna tók aldrei slíka áhættu og hélt sér í öruggri fjarlægð frá bæði Afríku og Mars). Kannski mætti smíða úr því kenningu um draumóraunglinga sem hrífist af enskum skáldsagnahöfundum sem semji nostalgíusögur. Höfundarnir en ekki síður lesendurnir noti þessar sögur til þess að hanga í rómantískum fortíðaráhuga fjarri veruleikanum og forðist þannig að vaxa úr grasi. Eða: Péturspansminnið í allri sinni nekt.
En veruleikaflótti er einum of handhægt orð og um leið haldlítið því að þá ásökun mætti yfirfæra á allan skáldskap og alla sem lesa skáldskap. Allt tal um veruleikaflótta er líka grundvallað á óþarflega sterkri vissu um að sumt sé raunverulegra en annað og að það sé enginn veruleikaflótti í því hvernig nútímamaðurinn lifir lífi sínu í borgum, við að fara á fundi, tala um verðtryggingu, semja greinargerðir eða kaupa og selja fyrirtæki.
En ég held að eftirsjáin sé ekki veruleikaflótti. Hún er þvert á móti eitt af því sem gerir manninn að hugsandi og dreymandi veru sem getur lifað sig inn í aðra fortíð en sína eigin og stundum hugsa ég hvort það væri ekki líka kjarkleysi að flýja frá því eðli.
Ármann Jakobsson

föstudagur, 23. mars 2012

Heimsendaspá dóttur veðurfræðings


„Veistu, ég hef alltaf ímyndað mér að það væri dálítið gaman að lifa heimsendi,“ segir Rivka mér glaðhlakkaleg. Fyrst var ég svolítið hissa á þessari notkun á orðinu heimsendi, með litlum staf, endalok eins örheims inní þeim stóra. Svo áttaði ég mig á að ég hafði máski þegar lifað heimsendi og hefði getað svarað henni að heimsendir væri eins og Elliot lýsti honum, „not with a bang but with a whimper.“

Spurningin var nefnilega alls ekki um endalok veraldarinnar, eða einu sinni jarðarinnar – bara um það hvernig væri hægt að berjast gegn endalokum þess sem á ensku kallast „Long form-journalism“.

Hér er væntanlega rétt að rissa upp sviðsmyndina áður en lengra er haldið: Fyrirlestrarsalur í New York þar sem fram fara pallborðsumræður um list hinna löngu greinaskrifa. Fyrir svörum sitja áðurnefnd Rivka Galchen, tónlistarrýnirinn Alex Ross, dans- og bókmenntarýnirinn Joan Acocella og blaðamaðurinn David  Samuels. Umrædd löng greinaskrif hafa varla verið stunduð í hérlendum blöðum og raunar töldu viðmælendur margir að þetta væri nánast sér-amerískt form, svo sjaldgæft væri það í öðrum löndum (hér er rétt að setja sviga og hvetja lesendur sem þekkja t.d. franska, spænska eða þýska fjölmiðla að koma með leiðréttingar á þessum orðum bandarísku spekinganna, ef þarf). Þetta eru langar og ítarlegar greinar upp á 7-12 þúsund orð, eitthvað sem viðgengst máski í fræðiritum á borð við Skírni eða TMM en tíðkast varla hérlendis í hefðbundinni blaðamennsku, nema slíkri blaðamennsku sé smyglað inní áðurnefnd rit. En það eru öðruvísi endalok sem manni finnst maður hafa verið að lifa í íslenskri blaðamennsku, hvernig það fjarar hægt og rólega undan alvöru rannsóknarblaðamennsku, alvöru krítík og alvöru greinaskrifum – jafnvel þótt lengdin hafi alltaf verið miklu styttri. Og vonandi er ég of svartsýnn, það eru stöku teikn á lofti um að ástandið sé að skána, það eru enn stöku ljóstýrur í íslenskri fjölmiðlun, sem vonandi slokkna ekki alveg.

En þetta er bókablogg en ekki fjölmiðlablogg og rétt eins og þetta fjölmiðlarant mitt er nokkuð á skjön við efni bloggsins var Rivka Galchen nokkuð á skjön við umræðuefni pallborðsins, því þótt hún hafi stundað einhverja blaðamennsku þá er hún fyrst og fremst rithöfundur og hafði birt skáldskap og ritgerðir í New Yorker, Harper og fleiri blöðum. Hún er líka  nokkuð á skjön í bókmenntaheiminum, því hún er að upplagi vísindanörd með próf í læknisfræði. Og vísindin villast skemmtilega inn í bókina sem var í bakpokanum mínum þessa febrúardaga í New York, fyrsta skáldsagan Rivku, Athmospheric Disturbances.


Truflanir í andrúmsloftinu
„Við getum ekki sagt til um hvernig veðrið verður á morgun (eða næsta klukkutímann) af því við getum aldrei vitað nákvæmlega hvernig veðrið er núna.“

Þetta er textabrot úr textabroti sem birtist fremst í bókinni og er sótt í veðurfræðiritgerð Tzvi Gal-Chen. Textinn vísar líka í veðrið en ekki síður í andlegt ástand, truflunin er víða. Líf aðalpersónunnar, sálfræðingsins Dr. Leo Liebenstein, er truflað á lúmskt hversdagslegan hátt í upphafi bókar, en hún hefst á þessum orðum: „Í desember síðastliðnum gekk kona inn í íbúðina mína sem leit nákvæmlega eins og eiginkona mín.“

Þessi eftirmynd eiginkonunnar, sem Leo kallar aldrei neitt annað en eimitt það, „the simulacrum“, sýnir ekki á sér neitt fararsnið næstu dagana – og ekkert fréttist af eiginkonunni. Þannig að Leo fer að leita og yfirgefur heimili þeirra í New York og fer á æskustöðvar eiginkonunnar í Buenos Aires, og seinna alla leið til Patagóníu. Og alltaf eltir eftirmyndin hann uppi. Lesandinn er hins vegar ekki búinn að lesa lengi þegar hann er þess fullviss að þetta er engin fantasía, truflunin er ekki í raunheimum heldur í hausnum á Leo og eftirmyndin sannarlega eiginkonan Rema. Ég komst meira að segja að því eftir smá gúgl að það er til læknisfræðilegt heiti á þessu ástandi, capgras-heilkennið, þegar sjúklingur er sannfærður um að tvífari hafi tekið sess ástvinar.

En þótt Leo sé sálfræðingur er þetta heilkenni aldrei nefnt í bókinni, enda efast hann aldrei um kenningu sína, ólíkt lesandanum. Þetta er saga um geðveiki en þó enn frekar  um það hvernig hjón geta orðið ókunnug inná eigin heimili, um það hvernig ástin kulnar og um dulda afbrýðisemi – en þó fyrst og fremst um það hvernig Leo trúir ekki á ástina, eða öllu heldur: hann trúir ekki að einhver geti elskað hann. Sérstaklega ekki gullfalleg og miklu yngri kona.

Leo notar aldrei tilfinningarök en sér þó aldrei eigin geðveiki, þetta er mjög rökræn geðveila, hann þarf alltaf að sannfæra vísindamanninn Leo – þótt oft séu sannanirnar hæpnar. En sálfræðin blandast hins vegar nokkuð óvænt veðurfræðinni þegar gamall sjúklingur, Harvey, fer að gera vart við sig. Hann er sannfærður um að hann sé í samskiptum við hina leynilegu Veðurakademíu, sem berst hatrammri baráttu um völdin yfir veðrinu, og inní þessa geðveiki dregst Leo og geðveiki Harveys og hans eigin blandast þannig saman, þannig að doppelganger verður dopplerganger. Báðir skrifast þeir á við áðurnefndan Tzvi Gal-Chen – og hætta því ekkert þótt þeir komist að því að hann hafi verið dáinn í mörg ár. Veðurfræðin leiðir hann svo alla leið á hjara veraldar, í veðravítið Patagóníu á odda Suður-Ameríku.




Þessi frumraun Rivku Galchen heldur manni við efnið lengi framan af, það er eitthvað fallegt í þessari veðruðu og vísindalegu nálgun á hjónaband í upplausn og takftastan harminn sem undir liggur. En gallinn er að maður grípur þetta allt á fyrstu síðunum. Lesandinn efast aldrei í efasemdum sínum um Leo, hann er óáreiðanlegur sögumaður en óáreiðanleiki hans verður fljótlega afskaplega áreiðanlegur. Á einhverjum tímapunkti hefði þurft að dýpka söguna og flækja, því þrátt fyrir að aðalpersónurnar hafi þvælst frá New York til Patagóníu þá upplifir maður harmleikinn á nákvæmlega sama hátt og á fyrstu síðum bókarinnar. Á einhvern einkennilegan hátt hefur ekkert breyst, hvorki Leo, Rema né lesandinn.


Draugur föðurins
En það er ein persóna sem er þó rétt að ræða betur, veðurfræðingurinn Tzvi Gal-Chen. Glöggir lesendur hafa máski þegar prófað að fella bandstrikið úr ættarnafninu og spegla það í höfundinum Rivku Galchen. Það kemur ekki fram í bókinni en maður þarf ekki að gúgla lengi til þess að komast að því að veðurfræðingurinn Tzvi Gal-Chen er faðir rithöfundarins Rivku Galchen. Og það eru meira að segja ljósmyndir í bókinni af barnungri Rivku með föður sínum.

Manni sýnist í fyrstu að þetta sé aðeins krúttlegt trikk, fallegur virðingarvottur við látinn föður. En þótt í bókinni sé hann aðeins hluti af geðveiki Leos þá grunar mig að á meðan Leo sé að búa til tvífara úr hinni raunverulegu eiginkonu þá sé Rivka að reyna að búa til tvífara látins föður. Veðrið, ævistarf hans, verður táknmynd allra tilfinninga og öll hans löngu gleymdu orð verða þrungin merkingu fyrir Leo, sem berst með vindum orða þessa horfna veðurfræðings. Rétt eins og vindar feðra okkar blása áfram um líf okkar, hvort sem þeir eru lífs eða liðnir.

Ásgeir H Ingólfsson

fimmtudagur, 22. mars 2012

Um útleitna og innleitna andspyrnu gegn andlegri bæklun


Bernhard og Kafka sem stríðsmenn andans

Austurríski rithöfundurinn
Thomas Bernhard: Gestabloggari
dagsins, Bergsveinn Birgisson, fjallar
um Bernhard og Franz Kafka
Í grein um Kafka skrifar finnska skáldkonan Mirjam Tuominen að það sem Kafka upplifir sem barn sé í raun ekki verra en fyrirfinnst í annarri hverri borgaralegri fjölskyldu. Þetta: að upplifa að ekki vera heyrður sem barn, að finnast maður vera «eign» foreldra sinna, eða dúkka eins og það heitir hjá Thomas Bernhard í Afmáningu (Auslöschung. Ein Zerfall), að gerast meðvirkur vafasömum gildum og viðmiðum foreldra sem barnið samt sem áður, með einhvers konar grundvallar réttlætiskennd og náttúrulegu gildismati, finnur að eru röng eða viðbjóðsleg; þetta er næstum að skilja sem «conditio humana» fyrir aðra hverja manneskju hins borgaralega lífforms samkvæmt Tuominen. Þær sálrænu víddir sem hér er miðað á hafa ekki haft mestan hljómgrunn á Íslandi (þó vissulega mætti tína til nokkur dæmi í íslenskum bókmenntum en ekki meir um það nú), af þeirri einföldu ástæðu að obbinn af þjóðinni hefur lengst af lifað án hins borgaralega lífforms, (það er það besta við Ísland, bara ef Íslendingar gætu skammast til að skilja þetta) en þó hefur smáborgaraskapurinn sótt í sig veðrið, einkum á síðustu áratugum peningamenningarinnar svo ætla má að tími Bernhards og Kafka sé óðum að síga yfir Ísland og er ekki að sjá annað en helsta andsvar íslendinga gegn sálarmeiðslum smáborgaraskapsins sé að bryðja pillur. Ekki meir um það.

Ég veit ekki til þess að Afmáning sé þýdd á íslensku, en Steinsteypa (Betong) kom út hjá Bjarti fyrir nokkrum árum. Að öllum líkindum má afbyggja það sem ég hef hér lagt í hugtakið «borgaralegt», hér snýst málið vitanlega um sálræn niðurrifsferli, um andlega bæklun sem foreldrar og samfélag sóta inn í afkvæmi sín, og ekki réttlátt að tengja einungis við borgaralegt líf, sjálfsagt má finna slíkt á sveitabæ og sjálfsagt má finna heilbrigt fólk í borgaralegu samhengi, en án generalíseringar komumst við hvergi áfram. Munkurinn sem skrifaði Gísla sögu Súrssonar sýnir mann sem er fórnarlamb samfélags síns, sýnir hvernig gildi og viðmið blóðhefndar- og heiðurssamfélagsins eyðileggja saklausa mannveru, og var engum slísí smáborgaraskap þar fyrir að fara.

Andleg bæklun er tæplega áhugaverð í sjálfu sér, hún er of almenn til þess, það er viðbragðið gegn henni, frumleikinn í því hvernig er slegið tilbaka, sem vekur áhuga. Í þessu samhengi vil ég ræða um tvær gerólíkar stríðsaðferðir, þar sem niðurbældur mannsandi skapar sér olnbogarými, leysir um sína kennd, bítur frá sér, já, þar sem mannsandinn nær að brjóta sér leið út að glugga til að fylla lungun af frísku lofti. Ég vil í þessu samhengi tala um kafkaíska og bernhardíska aðferð. Rétt er að athuga að báðir þessir höfundar voru lungnasjúklingar. Kafka virðist gera sér grein fyrir að um psýkósómatík er að ræða er hann skrifar um hinar vaxandi áhyggjur sem hann hefur af líkamlegri heilsu sinni: «Smávægilegum í fyrstu, öðru hverju örlaði á ugg út af meltingu, hárlosi, hryggskekkju og svo framvegis, þetta færðist í aukana með óteljandi milliþrepum en endaði að lokum með raunverulegum sjúkdómi. Hvað var þetta allt saman? Eiginlega ekki líkamlegur sjúkdómur» (Úr bréfi til föður, þýð. Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson).

Það er þekkt í sálfræðum að andleg innrás, mikil streita eða sorg ræðst gjarna á lungun, andnauð kallast það til að byrja með sem síðan getur leitt til varanlegri sjúkdóma. Öndunin er tilfinningatengd og þröng í tilfinningalífi skilar sér í öndunarþrengslum; psýkósómatík. Það sýnir sig að báðir þessir rithöfundar eru «innvaderaðir» af uppvexti sínum og menningu, en þeir fara hvor sína leið og þróa með sér aðferðir sem eru sérstakar, þó vissulega mætti kalla úrvinnslu Bernhards almennari, engu að síður: andnauðin kemur fram á hverri síðu í bókum Bernhards af þeirri einföldu ástæðu að þar eru ekki ein einustu greinaskil að finna eða kaflaheiti, engin öndun, bara einn stöðugur textamassi sem verður líkt og rökrétt and-svar við þeirri þröng sem sögumaður finnur sig í.

"Kafka er barn."
Meginmuninn í aðferð þessara skálda, eins og ég lít á málið, er að finna í því að Bernhard er fullorðinn meðan Kafka er barn. Bernhard er dæmigerður intellektúell sem hefur brotist út úr húsi hinna smáborgaralegu gilda og lítur yfir lífshlaup sitt og þau gildi sem plantað hefur verið í hann, og þetta gerir hann með tækjum og tólum akademískrar hugsunar. Um leið og hann beitir dáleiðandi og á köflum sposkri endurtekningu er það ýkjustíll hans sem fléttar svo snilldarlega saman gamni og tilvistarlegri alvöru, um þennan stíl segir sögupersóna Bernhards í Afmáningu: «Og ég hef þróað mína ýkjulist til ótrúlegra hæða, hafði ég sagt við Gambetti. Til að gera eitthvað skiljanlegt verðum við að ýkja, hafði ég tjáð honum, einungis ýkjur gera hluti sýnilega…»    

Hér er um að ræða fagurfræði hinna kláru og hreinu tilfinninga. Til að draga óljósa óhugnaðarkennd upp á yfirborðið þarf að ýkja hana, það er markmið með ýkjunum, einskonar psýkóanalýtískur tilgangur, tilraun til að ná andanum, fá yfirsýn til að geta orðað sálræn ónot og hrylling og þarmeð leyst um. Bernhard hatar ekki bara móður sína og föður, bróður og tvær systur á herragarðinum Wolfsegg, hann hatar gervalla hina austurrísku og þýsku, já miðevrópsku, nei alla hina norðlægari Evrópu fyrirlítur hann innvirðulega og útlistar nákvæmlega ástæðurnar fyrir þessum óhugnaði sínum. Hann grípur til sjálfsritskoðunar á köflum, til dæmis finnst honum allt í lagi að kalla hræsnandi systur sínar hlægilegar «En verðskulda þær að vera kallaðar viðbjóðslegar? sagði ég við sjálfan mig. Í slíkri aðstöðu? [þær hafa nýverið sent honum símskeyti er tjáir að foreldrar hans og bróðir hafa farist í bílslysi]…» En hann kemst að þeirri niðurstöðu að maður getur ekki vanvirt sína eigin tilfinningu, systur hans voru bæði hlægilegar og viðbjóðslegar. Hér er sem sagt bæði fullorðinn og lærður maður með háa greiningargetu sem «geisar», maður sem á sínum tíma eygði leið út í gegnum Georg frænda sinn sem einnig hafði gert uppreisn gegn gerilsneyddu hugarfari smáborgaranna á Wolfsegg. Georg er björgunin, gildismat Georgs, andstæða smáborgarahugarfarsins, er haldreipi sögumannsins Franz Josefs Muraus, hann sér í gegnum Georg það sem hann annars myndi aldrei geta gert sér grein fyrir einn og sér. Þetta staðfestir gamla kenningu innan sálfræða, að sameiginlegt fyrir þá sem gera uppreisn er að eiga einhvern fullorðinn að, einhvern sem sér sálarkrypplunina þegar hún er komin á veg, og gerir fórnarlambið meðvitað, frænka með undirhöku sem dillast til þegar hún hlær, bakar pönnsu og sem hlustar á barnið. Georg frændi.

Öllu lengra frá aðferð Franz Kafka er hæpið að komast, og þó ber að nefna að eiginlega er það bara einn þýskur rithöfundur sem sleppur undan að vera stimplaður afþreyingar- og «bréfskipunarhöfundur» í bók Bernhards, svo er að sjá sem Kafka sé hans eftirlætishöfundur. Eins og Alice Miller hefur bent á er heimur Kafka heimur barnsins sem ekki skilur, sem ekki hefur þessa yfirsýn og vitsmunalegu greiningarhæfni sem við sjáum hjá Bernhard. Josef K. veit ekki af hverju hann er dæmdur, veit ekki hvaða glæp hann hefur drýgt, eins og barnið sem hefur misstigið sig í heimi fullorðinna og er refsað án þess að vita af hverju. Gregor Samsa veit ekki hvaða kraftar hrinda í gang umbreytingu hans yfir í pöddu. Undrunin er undrun barnsins. Við fáum hvorki gagnrýni né fjarlægð á böðulinn eins og hjá Bernhard. Kafka er háður böðli sínum og ber óttablandna virðingu fyrir honum eins og barn gagnvart foreldri sínu og rífur sig ekki lausan þó hann hafi í raun alla vitsmunalega burði til þess – jú, Kafka veit, en ekki sögupersónur hans: «það er líkt og það sé ekki nein ákvörðun að baki fæðingu minni, líkt og mér væri stöðugt slengt inn í þetta myrka líf í þessum myrku stofum, og þyrfti stöðugt að færa sönnur á tilvistarrétt minn þar» skrifar Kafka í bréfi til Felice Bauer. Rétt áður orðar hann hatur sitt á þeim sömu stofum rétt eins og Bernhard, en barnið er fast í stofunni, fast í íbúðinni og kemst ekki út. Kafka nær aldrei að opna glugga til að sleppa undan svitadaun föður sem auðmýkir soninn og móður sem passív lætur allt viðgangast og er mest umhugað um hreinar og straujaðar skyrtur. Móðir sem skrifar í bréfi til Max Brod að hún hefði «fórnað sínu hjartablóði fyrir hvert og eitt af börnum sínum,» en ljáði sem sé stráknum aldrei eyra. Hér sigtar Kafka á sömu grunntilfinningu og litar persónu Bernhards, sem skrifar: «Faðir minn hefur getið mig, móðir mín fæddi mig inn í þennan heim, en frá fyrstu stund vildi hún mig ekki, helst vildi hún hafa mig tilbaka inn í maga sinn þegar ég fæddist, ef þess hefði verið kostur». Tilvist beggja er tilvist hins óæskilega.

Ólíkt Bernhard er Kafka aleinn, þar er enginn Georg frændi, hann er bassi langt inn í dimmu bergi. Osip Mandelstam sagði eitt sinn um Dante það sem enginn Evrópumaður hefði getað sagt, nefnilega að «Dante veit aldrei í hvorn fótinn hann á að stíga.» Þarna er styrkur Dantesar að mati Mandelstam. Hinn grípandi styrkur Kafka er sá að hann verður aldrei fullorðinn, kannski sem lesendur greinum við ofbeldið gegn barninu umkomulausa þó persónurnar séu fullorðnar. Og það sem kveikir samúð með persónum hans, hið stóra við Kafka, er að «barnið» sem öðlast hefur empatíu, innlifunar- og greiningarhæfni hinnar fullorðnu manneskju, notar þessa sömu eiginleika – ekki til að leysa sig úr fjötrum átthaganna og koma sér út – heldur til að reyna að skilja böðul sinn og jafnvel réttlæta verk hans: «Sjálfur ert þú í rauninni góðgjarn og blíður maður…Þú getur einungis meðhöndlað barn samkvæmt þínu eigin eðli, með afli, hávaða og bræðiköstum, og í þessu tilfelli þótti þér það sérlega vel viðeigandi því að þú ætlaðir að ala upp öflugan, hugaðan strák þar sem ég var» (úr Bréfi til föður, sama þýðing).

Maður hlýtur að spyrja sig hvort þessi empatíska innlifun í böðulinn sé ekta og raunveruleg hjá Kafka. Tónninn sem miðlar henni, líkt og allir aðrir tónar í rödd hans fá mann ekki til að trúa öðru; endalok hins raunverulega Kafka benda til annars. Maður kemst aldrei til botns í Kafka. Líkt og kemur fram í sama bréfi hefur Kafka metafóruna um skorkvikindið í Hamskiptunum frá föður sínum. Þetta kemur fram þar sem Kafka lýsir því hvernig allt það fólk sem hann hreifst af og hann sagði frá við matarborðið var umsvifalaust rakkað niður af föðurnum, sem líkir einum þessara «á hræðilegan hátt», upplýsir Kafka, við skorkvikindi. Auðvitað liggur uppreisn í Hamskiptunum, sama uppreisnin og hjá Thomas Bernhard. En á andsvarinu er ekki aðeins stigs- heldur og eðlismunur. Í stað þess að nákvæmlega greina og úthúða skorkvikinda-gildismati foreldra, samfélags og menningar, og þar með skapa fjarlægð og jafnvel birta þessar einingar í spaugilegu ljósi, hamast Kafka sjálfur yfir í skorkvikindið. Hann svarar með því að verða það sem foreldrar hans hafa mesta andúð á. Hið mikilfenglega við anda Kafka er það hve uppreisnin er einlæg og tragísk, sú staðreynd að honum þykir það leitt, að hann skammast sín fyrir hamskiptin og er efst í huga hvernig gera megi fjölskyldunni lífið sem léttast eftir að hafa hamast yfir í bjölluna: «hann komst að þeirri niðurstöðu að hann yrði að láta sem minnst á sér kræla fyrst um sinn og auðsýna fjölskyldunni þolinmæði og fyllstu tillitssemi, svo hún fengi afborið þau óþægindi sem hann hlaut nauðugur að valda henni, eins og komið var.» (Þýð. Hannesar Péturssonar). Hér er um að ræða sálrænan veruleika sem er óumflýjanlegur eins og Kafka sjálfur ýjar að er hann talar um slæma heilsu sína, sem að lokum dregur hann til dauða; líkaminn heldur ekki út lengur. Persóna Bernhards er hert og sjálfráða manneskja, sem lætur sér ekki muna um að gefa herragarð ættarinnar til mósaíska trúarhópsins í Vín. Þetta má skilja sem gerning, sem skref í átt að «afmáningu» íþyngjandi barndómssögu; það er, þó ótrúlegt megi virðast, útleið hjá Bernhard.

Hin tilvistarlega þverstæða sem Kafka svo kurteislega birtir í ívitnuninni að ofan er vitanlega sú að þessi umhugan fyrir fjölskyldunni, þessi grensulaust sjúklega meðvirkni, er einmitt það sem hefur framkallað hamskiptin. Það er sem Kafka, eftir að hafa áttað sig á þessu, hvenær sem það nú var, herði takið á fínstraujuðum dúkum móðurinnar og vilji ekki fyrir sitt litla líf sleppa, hann óttast eitthvað annað og verra ef hann fer út og fer að lifa á eigin forsendum og eftir eigin gildismati líkt og Bernhard. Kafka lýsir því hvernig faðir hans læsti hann sem barn úti á svölum: Það er sem veröldin fyrir utan íbúð fjölskyldurnnar séu einar allsherjar svalir þar sem kuldi og einsemd drottna.

Hjá Thomas Bernhard er félagi sem hlustar og hlær við, sem klappar á öxl. Lesandi sem hlær við er hann les Afmáningu verður að þessum sama félaga; rödd bæklunarinnar finnur sér félagsskap. Hitt er svo að Bernhard lýsir því hvernig hans sögupersóna leitar til alþýðufólksins í nærliggjandi þorpi og finnur þar hið nauðsynlega mótvægi smáborgaradrullunnar: «Ég hef alltaf laðast að einföldum manneskjum, hafði ég sagt við Gambetti. Hjá þeim og bara hjá þeim leið mér vel. Þau áttu alla mína samúð» segir Muraus í Afmáningu. Persónur Kafka eiga sér aldrei málvin. Það er manneskja sem hefur þagað alla ævi um sínar stærstu tilvistarspurningar og tilfinningar sem skrifar í bréfi til Felice Bauer: «Kæra mín, ég vil nefnilega mjög gjarna lesa upphátt, að geta hrópað inn í spennt og eftirtektarsöm eyru áheyrenda…» Alice Miller tekur þetta sem dæmi um barnið Kafka sem aldrei nokkur maður ljáði eyra. Ef til vill mætti tala um þetta sem innleitna og og útleitna aðferð, eða norður og suður-evrópska, þar sem Bernhard væri augljós fulltrúi hins síðarnefnda. Geisun, væri annað orð yfir Bernhard, meðan Kafka væri göfguð bæling.  
Ef við nú tosum þessa umræðu yfir í það sem kalla mætti sálrænan veruleika, þá á hin kafkaíska aðferð sér fylgifisk sem kalla mætti uppgjöf (e. resignation), það er engin útleið og enginn gerningur mögulegur sem getur breytt ástandinu. Það er ástandið sjálft, sjúkdómseinkennin, sem eru í brennidepli. Hér dettum við því niður á allt aðra fagurfræði hvað varðar tilfinningar en hjá Bernhard, hér snýst málið um að útmála hinar óræðu og skuggalegu hliðar sálarlífsins og fyrir alla muni ekki komast til botns eða eygja leið út, hvað þá skapa yfirsýn. Sem lesandi heillast maður af þeim klárleika sem ríkir í útmálun sjúkdómseinkennanna, og sem lesandi segir maður bæði aha, ég veit hvað þú átt við, og hitt: takk fyrir að segja þetta fyrir mig. Hér ræður þunglyndið ríkjum, og þá vil ég beina sjónum að þeirri merku uppgötvun sem ég hef gert á mínum ferli sem lesandi, nefnilega að ég verð að jafnaði glaður og léttlyndur af að sjá hina kafkaísku aðferð. Ég verð beinlínis kátur af að lesa stærsta bölsýnismann heimsbókmenntanna Giacomo Leopardi, og mér líður vel með að lesa eitt mesta bölsýnisskáld seinni tíma á Norðurlöndum, Tor Ulven. Og Kafka, þvílík gleði. Ég sagði að jafnaði, en þetta tel ég að sé mun vandmeðfarnari aðferð en hin útleitna aðferð Bernhards. Það má ekki greina snefil af sjálfsvorkunn í þessari aðferð, það ríður öllu að fullu, og gott ef ekki er alger forsenda að hafa húmor í bland, sem einskonar hönd til að halda í. Undrun.

Nú er það mín tilfinning, að hin kafkaíska aðferð eigi sér meiri hljómgrunn á Íslandi, þó samfélagslegar aðstæður hafi eins og sagði, verið afar ólíkar fram að síðari tímum. Merki Thomas Bernhard hefur hinsvegar verið haldið mjög á lofti til að mynda hér í Noregi, nægir þar að nefna ýkjufullar menningargagnrýnisbækur Thure Erik Lunds, og ekki síður hefur Bernhard (að þeirra eigin sögn) haft mikil áhrif á Thomas Espedal og Karl Ove Knausgård, báðir höfundar sem hafa haft hið sjálfsævisögulega í fyrirrúmi í síðustu bókum sínum um leið og þar finnst óvægin gagnrýni á fólk og menningu. Byltingin hjá Knausgård er vitanlega sú, að hann skrifar um raunverulegar persónur, um sína eigin fjölskyldu og vini, og ekki skáldað persónugallerí líkt og hefur verið einkenni skáldsögunnar.            

Bergsveinn Birgisson