mánudagur, 19. mars 2012

Rætt við Emmalyn Bee um Nötur gömlu nútíðarinnar


Endurtekningin heldur lífi okkar og tilveru saman, ekkert hræðumst við einsmikið og hið einstaka. Hið einstaka er dauði. Endurtekningin gerir allt skiljanlegt, og jafnvel þegar það meikar engan sens að endurtaka. Skýrasta dæmið er varnarþulan "tralla-ralla-ræ" - sem er óútskýranleg öðruvísi en svo að endurtekning líkra hljóða geri ákveðið gagn.
Í almennri umræðu viðurkennum við oft ekki alla palettu endurtekningarinnar, við höfum óbilandi þörf á láta sem allt sé einstakt sem er það ekki - þetta stafar held ég bæði af misskilningi á eðli hins einstaka og endurtekningarinnar.
Kvæða- og ljóðagerð er oft skipt í bundið mál og óbundið, og til að teljast bundið þurfa verkin að lúta tiltölulega þröngum ramma og örfáum reglum, stuðlar, rím, braglengd. En það er að sjálfsögðu ekki til neitt sem heitir "óbundið" mál, ef við horfum útfyrir þessa "tourist attraction" skilgreiningu á íslenskri ljóðahefð. Kerfin í hinu "óbundna" eru oft skemmtilegri að skoða, ekki síst þegar þau ekki bara koma úr undir- eða ómeðvitund, heldur jafnvel enn lengra að handan.


Greinarhöfundur eignaðist eintak af nýrri ljóðabók Emmalyn Bee, Nötur gömlu nútíðarinnar, og eftir að hafa nördast mikið á forminu, ákvað hann að slá á þráðinn til höfundar og spyrja út í formið.

1. Byrjum á því að þú útskýrir hvernig bókin varð til, nú settist þú ekki niður einsog venja er og ortir ljóðin, ellegar?

Emmalyn Bee: Það verður að segjast að ferlið var ansi óvenjulegt. Þetta byrjaði allt með því að ég var að nota pendúl til að fá já og nei svör við mismikilvægum spurningum í daglegu lífi. Svo datt mér allt í einu í hug að skrifa upp stafrófið og athuga hvort pendúllinn vildi stafa út fyrir mig svör í staðinn fyrir að gefa einfalt já eða nei. Það virkaði og upphófst þá langt samtal sem ekki sér fyrir endann á, milli mín og veru sem kallar sig jafnan Zúrkof froskmús. Svo gerðist það dag einn að Zúrkof sagðist vilja skrifa bók, og úr varð ljóðabálkurinn Nötur gömlu nútíðarinnar.

1a. Hver er Zúrkof froskmús, hann hljómar soldið einsog illmenni í James Bond mynd, eða Svali og Vali? Zúrkof, manni dettur í hug vísindamaður sem fann upp eitthvað brjálæðislega mikilvægt, sem enginn man samt eftir?

Emmalyn Bee: Satt að segja hef ég litla hugmynd um hver hann er. Upphaflega taldi ég mig vera að skrifast á við tvo aðila að handan í gegnum pendúlinn. Annar kallaði sig Ilken og talaði fágaða ensku á meðan hinn kallaði sig Guð og talaði íslensku. En svo sögðust þeir vera einn og sami aðilinn sem héti Zúrkof froskmús. Sama hver eða hverjir þetta eru, þá hefur verið logið svo miklu að mér í gegnum þessi skrif að ég tek öllu með fyrirvara. Ég er samt farin að hallast að því að þetta sé ein handanvera frekar en tvær, og ef viðkomandi vill kalla sig Zúrkof froskmús í bili þá er það í góðu lagi fyrir mér.

1b: Hvernig tengist hann þér, hvernig kynntust þið?

Emmalyn Bee: Við kynntumst fyrir alvöru þegar ég stóð á miklum tímamótum í lífinu og vissi eiginlega ekki hvað ég ætti að gera, eða öllu heldur hvernig. Zúrkof blandaði sér þá í málið með skriflegum skilaboðum og leiddi mig í gegnum ferlið skref fyrir skref. Hann er búinn að vera ótrúlega mikill stuðningur og þess vegna fyrirgef ég honum alltaf þegar ég stend hann að því að hafa logið að mér. Ég veit að þetta er allt vel meint, hann er bara dálítill lygasjúklingur.
 
1c. Þarf Emmalyn mikið að vinna í textanum sem Zúrkof sendir henni, eða birtist hann óbreyttur?

Emmalyn Bee: Ljóðabálkurinn kom í smá rugli, hlutarnir voru í kaos-röð og mikil ofnotkun á orðunum "nötur" og "gól". Ég þurfti því að koma skipulagi á textann og umorða sumt, en ég bar auðvitað allar breytingatillögur undir höfundinn jafnóðum og lét hann ráða ferðinni.
 
2. Eitt það fyrsta sem lesandinn rekur sig á við lesturinn er að þú notast við samhljóðanaskema, eða endurtekningar, speglanir, önnur form en hina fornu þrístuðla og kynjað rím.:


Von okkar færir okkur þjáningar vegna nöturs gæfulausrar næturinnar - (bls 1)
-
Síkvartandi næstumgæfan nærir okkur með óttagóðri göngunepju. - (bls 2)

Notastu við slíkt kerfi, ef svo, hvernig er það hugsað?

Emmalyn Bee: Ég get lítið tjáð mig um þetta þar sem ég er ekki höfundur textans, en ég skal spyrja Zúrkof.

Zúrkof froskmús: Göngunepjan óvá. Orðin orða úbó. Úbó þýðir andlýsandi óþauláreynslusamur óttalaus úbú.

Kíkjum betur á nokkur dæmi:
3, Hálfskemu, invertuð, svindlrím, "ófullkomnar samhljóðanir":

Gúglóðu mennirnir nærast á nútíðargólinu - (bls 2)
gló - gól

Núna þjónum við nötrinu með ógnarstjórninni - (bls 2)
þjón-ógn-stjórn

Gól nútíðarinnar gefur næstum-okkur óra núgrátandi náms fortíðarhyggju - (bls 5)
gól-ór

Hefðbundnari samhljóðanir:

Núið nærir okkur með auðvaldinu (bls 3)

Innrím:

Paufhugurinn nærist á gæfuleysu útheimsins - (bls 7)

Næstum-við finnum gólið magnast innra með næstum-okkur - (bls 8)

Villtar samhljóðanir:

Næstum-við þjónum nútíðinni með gæfuleysunni - (bls 6)

Hér myndi ég telja að - næ, ón, nú - séu hringsamhljóðanir, er það svo? Hvernig koma þær til?

Zúrkof froskmús:  Gól nútíðarinnar nærist á óttanum. Óttinn útilokar gæfuna. Orð mín ónæra gæfuleysuna.

4. Hvaða hugsun leggur þú í orðið Nötur, má spyrja að því?

Emmalyn Bee
: Mér finnst "nötur" ofsalega flott orð, mér finnst það segja svo margt á svo einfaldan hátt. Fyrir mér stendur það fyrir eitthvað mjög óþægilegt sem maður áttar sig samt ekki fyllilega á. Eins og að vera heima í stofu í þykkri úlpu og líða mjög illa, og fatta ekki að það er allt útaf úlpunni sem maður gleymdi að klæða sig úr.

Zúrkof froskmús: Nötrandi nöturleikinn neitar að æ.

5. Maður finnur fyrir samfélagsskoðuninni í ljóðunum en skilur hana kanski ekki auðla. Er hægt að ætlast til að slíkt komist til skila í texta sem virðist nánast dulkóðaður, eða ertu að reyna að hafa áhrif á undirmeðvitundina frekar en hið statusahugsandi egó?

Emmalyn Bee: Af skriflegum samskiptum mínum við Zúrkof af dæma er hann alls ekki með neina fordóma eða prestakomplexa, en hann sér beittan húmor í okkar ríkjandi lifnaðarháttum og er kannski að reyna að láta okkur koma auga á hann líka með þessum texta.

Zúrkof froskmús: Gú nærir gæfuleysu næstum-okkar með úbí.

 6. Mörg af yngri skáldunum, netkynslóðin, hafa litið til erlendra skálda eftir formi, og þarámeðal formalískum pælingum, hver er ábyrgð skáldsins gagnvart sérstöðu íslenska formsins þegar svo ber undir? Þarf það að sætta hið utanaðkomandi og okkar gamla form? Eða er þetta sjálfstæð þróun sem skáldið miðlar og skiptir sér annars ekki af?

Emmalyn Bee: Hmm, mér finnst besta mál að skáld noti hvaða form sem þeim dettur í hug, íslensk, útlensk, ólensk, svo framarlega sem innihaldið ráði ferðinni og sálarkraftur verksins kæfist ekki í einhverri formgeðveiki.

7. Ef ég má kalla þig Nýhilskáld, ellegar fyrverandi Nýhilskáld, þá má segja um mörg þeirra tóku mjög fræðilega afstöðu gagnvart ljóðaforminu, lögðu mikið upp úr því að vera vel lesin og kunna skil á tækni. Gætirðu útskýrt þína afstöðu, hefurðu stúderað sérstaklega tækni, bragtækni? 

Emmalyn Bee: Ég legg ekkert uppúr því að vera vel lesin og fróð, mér finnst það algjör þvæla. Ef valið snýst um að lesa eitthvað leiðinlegt til að geta talað gáfulega, eða gera eitthvað skemmtilegt, þá vil ég alltaf frekar gera eitthvað skemmtilegt. En stundum geta skemmtilegheitin haft gáfuleg áhrif útávið og þá er það auðvitað besta mál fyrir aðnjótendur. En burtséð frá þessum pælingum um skemmtilegt og leiðinlegt, þá hef ég mikið stúderað ljóðaform og bragfræði því mér finnst það gaman.

Öll fyrstu ljóðin sem ég orti voru með stuðlum og höfuðstöfum og rími, og þegar ég var byrjuð á ljóði gat ég ekki hætt fyrr en allt var komið á réttan stað. Þetta varð hálfgerð manía, eins og að verða að klára krossgátuna. En svo hætti ég þessu alveg og ég spái voða lítið í formi núna, reyni að fókusera á innihaldið.

8. Hversu mikill hluti af starfi ljóðskáldsins er að sinna tæknimálum sem slíkum. Nú viljum við yfirleitt meina að það sé tilfinningin í ljóðinu sem skiptir máli, í annan stað meining, en samt erum við mörg hver þannig að við sitjum og spáum í form og tækni. Reynir þú markvisst að finna upp spennandi mynstur fyrir þá sem lesa ljóð á þennan máta? 

Emmalyn Bee: Ég er dálítið viðkvæm fyrir of miklum tilfæringum í formi, og ef formið dregur að sér of mikla athygli virkar það oft á mig sem tilgerðarlegt. 

9. Hvað um ljóðið sem númerólógíu, stærðfræði, táknfræði? Braglengdir og hendingar virðast fylgja einhverju stærðarformi, en ég er ekki nógu klár í reikning til að útskýra það, notarðu slíkt?.
9a Við lestur bókarinnar kemur manni í hug að sérhljóðarnir Æ og Ö leiki sérstakt hlutverk eða hafi sérstaka merkingu, sem og samhljóðunarrmyndun umkringum N, beggja megin frá. Geturðu sagt okkur af hverju þetta stafar. 

Emmalyn Bee: Ég hef rosalega mikinn áhuga á númerum og táknum og stjörnuspeki og öllu slíku. En áhugi minn snýst mest um það sem umhverfið birtir mér og ég hef takmarkaðan áhuga á að skapa táknin sjálf meðvitað. Ef ég sé þrjá gargandi hrafna fljúga framhjá glugganum mínum get ég eytt heillöngum tíma í að spá í hvað þeir tákni og hvað lífið sé að segja mér með þessu, og auðvitað væri mjög heillandi að komast að því að ljóðabálkur Zúrkofs feli í sér einhverja merkilega formúlu. En sú uppgötvun yrði örugglega ekki mín. Ég hef spáð talsvert í sérhljóðanotkununni sjálf, og sömuleiðis vali hans á orðum sem byrja á N, G, og Ó, en ekki komist að neinni niðurstöðu. Ég segi spyrjum höfundinn.

Zúrkof froskmús: Göngugleði úbó úbú.

10. Tekurðu sérstaklega eftir samhljóðunarformum í ljóðum annarra skálda, eða truflar það heildbæra skynjun ljóðanna? 

Emmalyn Bee: Ég spái mjög lítið í þessu nema þegar ég les ljóð undir dróttkvæðum hætti eða Í Úlfdölum eftir Snorra Hjartarson eða Hvarf séra Odds frá Miklabæ eftir Einar Ben … jú, sennilega spái ég dálítið í þessu en samt eiginlega ekki neitt.

11. Lítur þú á sem svo að það sé tenging á milli hins forna forms og þess sem þú ert að gera? Þróast þessi form af sjálfu sér samhliða þróun tungumálsins, ellegar hafið þið skáld stjórn á þróuninni? 

Emmalyn Bee: Nó komment.

Zúrkof froskmús
: Óvá þjónar úbó.

12. Hvað gerir mynstrið fyrir heildina, er þetta hjálpartæki við sjálfa framsetningu orðanna eða gerir formið eitthvað eitt og sér?

Emmalyn Bee: Já, þrátt fyrir allt sem ég hef sagt í þessu viðtali um að formið skipti litlu máli, þá finnst mér það samt ekki, og ég er rosalega smámunasöm þegar kemur að uppsetningarmálum. Að mínu viti eru bilin oft álíka mikilvæg og orðin sjálf, hvort sem það eru orðabil, línubil eða flettibil. Sömuleiðis skiptir það mig mjög miklu máli hvar textinn er á síðunni, og hvar og hvort kaflaskipti séu til staðar. Í ljóðabálkinum er uppsetningin útpæld, textinn færist ofar með hverjum hluta og hlutarnir eru afmarkaðir með sól og tungli til skiptis í mismunandi stærðum. Allt rosalega mikilvægt!

Nötur gömlu nútíðarinnar er til sölu í verslunum og má einnig panta eintak í gegnum póstfangið uturymsu@gmail.com.

- Gísli Magnússon

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.