fimmtudagur, 29. mars 2012

Bing, Ping, og jafnvel Ding


Af gikkshætti og leiðinlegasta prósa sem ég hef lesið

Best að játa það strax: Ég er bévaður ekkisens gikkur. Gikkur á mat og gikkur á bókmenntir. Hvað matinn snertir þá er ég líklega það sem enskumælandi kalla „A meat-and-potatoes kind of guy“ – kjöt- og kartöflukall, það er ég. Svona að mestu leyti að minnsta kosti, segi það ekki, ég þoli alveg pasta og hrísgrjón í staðinn fyrir kartöflur svona öðruhvoru og á það til að borða fisk þegar þannig viðrar, en þið vitið hvað ég meina. Ég vil borða mat, ekki listaverk, læsa tönnunum í eitthvað bitastætt frekar en eitthvað flott, og það verður að vera matur, ekki meðlæti. Munurinn á mat og meðlæti verður ekki útlistaður svo auðveldlega í smáatriðum, ég læt nægja að fullyrða að ég þekki hann þegar ég finn hann ...

Uppruninn er ekkert atriði, indverskt er fínt, kínverskt og ítalskt, jájá og tælenskt og rússneskt og allskonar, þjóðernið skiptir ekki máli heldur innihaldið, hráefnið, kryddið, eldunaraðferðin. Og því miður er bara alltof margt í boði, íslenskt jafnt sem útlenskt, sem mér finnst ýmist ógeðslegt eða ómerkilegt. Ég segi því miður, því mér finnst það virkilega miður. Sáröfunda fólk sem þykir allt gott, finnst ósanngjarnt og fúlt að horfa uppá annað fólk gúffa í sig allskonar framandi furðukvikindum eða dragúldnu íslensku fornaldarjukki með augljósri nautn og unaði, á meðan ég fæ nákvæmlega ekkert kikk útúr hinu sama og á það jafnvel til að kúgast útaf því. Ég reyni, ég smakka, ég neyði bita uppí mig og oní mig en allt kemur fyrir ekki, vibbinn er áfram jafn viðbjóðslegur. Afhverju fá þau að njóta, smjatta, kjamsa og dæsa af sælu á meðan ég þarf að berjast við að halda niðri ælu? Það er bara ekki réttlátt, fjandakornið. En ég tekst á við þetta óréttlæti af æðruleysi og karlmennsku, bít á jaxlinn (ef ekkert skárra býðst) og hugga mig við að ég eigi þó altént rúgbrauð og kindakæfu heima, og jafnvel einn ískaldan öllara (því þetta léttvínslepjandi lið bauð náttúrulega ekki uppá bjór með fojgrasinu og ígulkerjafrauðinu og hnetu“steikinni“, oseisei nei) til að skola því niður.

Gikksháttur minn í bókmenntum er síst minni. Einsog með matinn, þá skiptir uppruninn, þjóðernið ekki öllu máli, þótt vissulega sé maður vanari kosti frá sumum heimshornum en öðrum. En það eru svona ákveðnir hlutir sem þurfa að vera á sínum stað, sérstaklega í prósa. Umburðarlyndi mitt er mun meira þar sem ljóðin eru annarsvegar. Ég er reyndar ekkert sérstaklega mikil ljóðaæta, ljóð eru svona einsog súpa, eða tapas eða snittur, ágæt fyrir sinn hatt og allt það, sem snarl, stundum meiraðsegja töluvert seðjandi og nærandi snarl, en ekki matur, ekki efni í staðgóða máltíð, ljóð geta aldrei verið aðalréttur (nei, ég skil heldur ekki hvernig fólk getur étið þetta tapas-dæmi sem aðalrétt), sama hve góð þau eru að öðru leyti. En ég get semsagt látið oní mig allskyns ljóð, með og án stuðla og höfuðstafa, upphafs og enda eða viðlíka fídusa, svo fremi sem þau gleðja hugann eða vekja með einhverjum hætti. Ég geri ekki einusinni þá kröfu til ljóða að ég skilji þau, nýt (margra) þeirra ágætlega án þess að botna upp né niður í því sem skáldið er að reyna að segja, afþví það segir það svo skemmtilega/fallega/frumlega (bætið inn lýsingarorðum sem við eiga). Svona er ég nú rosalega líbó á ljóðasviðinu. Öðru máli gildir um prósann. Þar er ég alveg harður kjöt- og kartöflukall. Íhaldsemin að drepa mig alveg.

Þegar ég les prósa vil ég skilja hann. Ekki bara orð fyrir orð, heldur heildina, söguna sem verið er að segja mér. Því ég vil hafa söguþráð og merkingu í mínum prósa – kjöt og kartöflur. Ég er sumsé einarður stuðningsmaður söguþráðarins, hvers ofurvald sumir kollegar mínir keppast við fordæma og  kveinka sér undan. Auðvitað er söguþráðurinn einn og sér engin ávísun á góðan prósa, langtífrá, ekki frekar en kjöt garanterar góða máltíð – en fyrir minn smekk er hann algjörlega ómissandi grundvallarhráefni. Hann þarf ekkert að vera algjörlega óslitinn og rökréttur útí gegn, hann má vera þunnur og mótsagnakenndur, það mega vera á honum allskyns útúrdúrar og lykkjur og snurður og hann má liggja í hring og jafnvel fleiri en einn – eða útí móa. En hann þarf að vera þarna einhverstaðar, í einhverju formi. Og einhverja merkingu þarf að vera hægt að lesa útúr þessu líka. Hún þarf hvorki að vera augljós né ótvíræð, hún má gjarnan vera margslungin og umdeilanleg, túlkanleg á ýmsa lund og breytileg frá einum lesanda til annars, frá einum lestri til annars – en hún þarf að leynast þarna einhverstaðar.

Ég hreinlega þoli ekki þráðlausan prósa sem þýðir ekki neitt heldur bara er (eða á að vera) eitthvað einhvernveginn og segir mér ekki neitt um neitt. Vil hann ekki, fúlsa við honum og nánast kúgast við lesturinn. Annað fólk gleypir slíkan texta í sig, kjamsar á sundurlausum orðunum og innihaldslausum setningunum, finnur í þeim djúpa en óáþreifanlega (og iðulega ólýsanlega) merkingu og syngur súrrealísku orðasalatinu óspart lof. Ég samgleðst þeim en öfunda þau ekki einsog ég öfunda fólk sem elskar sushi og sellerí. Nema þegar ég neyðist til að lesa slíkan texta sjálfur, þá vildi ég feginn fíla fáránleikann – en öfugt við það sem áður var, þá hvorki næ ég né nenni að feika það lengur.

Maður er líka orðinn svo gamall og íhaldsamur og hokinn af reynslu, að maður veit nokkurnveginn hvað manni líkar og hvað ekki. Gildir það jafnt um mat sem bækur og sparar manni heilmikil óþægindi og vesen. Enn bragða ég þó á ókunnuglegum mat sem mér er boðinn, en þyki mér hann vondur fær hann einfaldlega að liggja. Forvitnilegar bækur glugga ég líka í, en legg þær aftur og frá mér ef mér líst ekki á þær.

Mat sem mér líkar ekki hef ég ekki neyðst til að borða í mörg ár, sem betur fer. Eitthvað styttra er liðið frá því ég neyddist síðast til að lesa einhver leiðindi sem hvorki var á haus né hali. Vonandi er lengra í að ég neyðist til þess næst. Það er hinsvegar 21 ár síðan ég las leiðinlegasta prósa sem ég hef á ævinni þurft að böðlast í gegnum. Þetta á að heita smásaga (reyndar eru einhver áhöld um hvort þetta skuli flokkast sem smásaga eða prósaljóð, en þessi hryllingur er birtur í safnbók breskra nútímasmásagna og var til umfjöllunar í smásagnakúrsi í bókmenntafræðinni – og því get ég þó lofað, að þetta rugl skánar ekkert við að kallast prósaljóð) og eini kosturinn við hana er ótvírætt sá, að hún skuli ekki vera lengri (einn af fjölmörgum göllum við hana er afturámóti klárlega sá að hún skuli ekki vera enn styttri).

„Sagan“ sem um ræðir er eftir mann sem kunni flestum betur tökin á hinu fáránlega, og eftir hann liggja ófá snilldarleg verk, jafnt á sviði leikbókmennta sem prósa og ljóðlistar. Hann fékk meiraðsegja Nóbelinn og allt, hann Samuel Beckett, og ekki að ósekju. En þessi tiltekna „saga“ – kræst. Hún heitir Ping. Eða Bing á frummálinu, frönsku. Hann þýddi hana svo yfir á ensku og gaf henni þá nafnið Ping (ef hún yrði þýdd á íslensku héti hún sjálfsagt Ding). Prófessorinn sem kenndi þennan smásagnakúrs vildi meina að þessi saga væri mikið meistaraverk. Að maður ætti að upplifa hana einsog abstrakt málverk, í slíku verki væri nú aldeilis ekki neitt áþreifanlegt eða realístískt að sjá, en maður gæti notið heildarmyndarinnar, stemmingarinnar, áhrifanna sem myndin hefði á mann. Ég var ekki sammála. Hélt því fram að ólík lögmál giltu um texta og myndlist og setti fram þá kenningu að Beckett hefði verið svo mikill húmoristi og vísindamaður, að hann hefði ákveðið á einhverjum tímapunkti að athuga hversu langt hann gæti gengið í fáránleikanum og vitleysunni áður en bókmenntapáfarnir föttuðu að hann væri að djóka í þeim. Taldi (og tel enn) að Beckett hafi verið á sýrutrippi þegar hann skrifaði þessa meintu sögu (sem kom út 1965 á frönsku, ári síðar á ensku), lesið hana þegar hann kom niður og fundist gráupplagt að gefa hana út sem lokahnykk og hápunkt þessarar tilraunastarfsemi sinnar. Og að viðtökurnar hafi sumsé fært honum endanlega heim sanninn um að það væru hreinlega engin takmörk: Það yrði klappað fyrir öllu sem hann léti frá sér fara, hversu mikið dómadags bull sem það væri (ekki ósvipað og verðlaunakokkurinn sem var dásamaður fyrir beikonísinn). Prófessornum fannst þetta alls ekki sannfærandi kenning hjá mér.

Annar prófessor í bókmenntum, David Lodge, sem jafnframt er rithöfundur og gagnrýnandi, hafði líka ýmislegt um Ping að segja, meðal annars að hún væri "the rendering of the consciousness of a person confined in a small, bare, white room, a person who is evidently under extreme duress, and probably at the last gasp of life" eða, lauslega snarað, „túlkun á hugarástandi manneskju sem hírist innilokuð í litlu, auðu, hvítu herbergi, manneskju, sem greinilega líður mikla nauð og er líklega nær dauða en lífi.“

Þetta er reyndar ágæt lýsing á líðan minni eftir því sem leið á lestur sögunnar – og sjálfsagt munu einhverjir túlka það sem svo, að það sýni einmitt snilld Becketts og sögunnar, að geta framkallað sömu líðan í huga lesandans og persónunnar sem lýst er. Gallinn er bara sá að Beckett er ekki að lýsa neinni persónu í neinum kringumstæðum, heldur freistast Lodge, í örvæntingarfullri leit að og þörf fyrir merkingu sem ekki er til staðar til að skálda hana upp, finna eigin botn í sundurlausan orðavaðalinn með því að samsvara hann tilfinningunni sem hann (einsog ég og eflaust margir fleiri) upplifði við lesturinn á þessari hörmung. Hann freistast þó ekki til að spinna ímyndaðan þráð í hana líka, enda vandséð hvernig slíkt ætti að vera hægt.

Enívei. Mig grunar að Hermann og Eiríkur Örn og Þröstur og fleiri fíli Ping (eða Bing eða Ding) í tætlur, sem er gaman fyrir þá. En þetta er semsagt lang, lang langleiðinlegasti prósi sem ég hef á ævi minn þurft að lesa frá upphafi til enda (að reglugerðum um fótsnyrtistofur og leiðbeiningum með raftækjum meðtöldum). Hvað með þig? Hvað er það leiðinlegasta sem þú hefur þurft að þræla þér í gegnum?  Svör óskast í athugasemdum.

P.s. Hér fyrir neðan eru tenglar á síður þar sem þið getið lesið Bing/Ping, bæði á frummálinu og í enskri þýðingu höfundar – það væri fróðlegt að vita hvort sá lestur breytir einhverju um svar ykkar ...

Ævar Örn Jósepsson




26 ummæli:

  1. Upp úr tvítugu samdi ég kántrílög við öll ljóðin í íslenska Beckett-safninu. Það var kannski ekki gert af allra fyllstu virðingu við höfundinn en mér fannst það þess virði að reyna: Banjó er afhjúpandi hljóðfæri, Beckett er afhjúpandi höfundur, sérstaklega í skemmtilegustu leikritunum. Ég held að það gæti verið rétt kenning að Beckett hafi þarna verið að prófa hve gersamlega krítíklausir lesendur gætu verið. En á hinn bóginn liggur í þessum texta þegar ég les hann eitthvert bráðskemmtilegt kántrílag, það vantar bara rétt riff og rétt bít og góðan fílíng. Það leiðinlegasta sem ég hef lesið eru ársskýrslur, það er ekkert kántrí í þeim. Kær kveðja, HS

    SvaraEyða
  2. En svona af skáldskap, hver er leiðinlegasta bók/saga/prósi sem þú hefur lesið (já ég geri mér grein fyrir að ársskýrslur furðu margra fyrirtækja eru nánast hreinn skáldskapur en, jú nó)?
    æ

    SvaraEyða
  3. Ja, ég verð að viðurkenna að mér leiddist á köflum Fall konungs eftir Johannes V. Jensen þótt hún væri líka mjög merkileg og ég sæi allsekkert eftir að lesa hana. Svo las ég Enid Blyton bók núna um daginn og varð fyrir vonbrigðum, mér krossbrá, það getur bara ekki verið að mér finnist hún orðið leiðinleg; bókin var á spænsku og ég þarf að reyna aftur og við eitthvað gamalt á íslensku. HS

    SvaraEyða
  4. Ég neyðist til að játa að ég hef ekki lesið Bing/Ping/Ding en ég er einlægur aðdáandi þess sem ég þekki hvað best eftir Beckett, Beðið eftir Godot, sem ég hef nokkrum sinnum séð og alltaf jafn áhugavert. Svo var einhver safnútgáfa á íslensku sem ég las og naut, en ég man reyndar ekkert almennilega hvað það var núna, ég gaf svo bókina og sú sem tók við, var mjög ánægð.
    Maður hefur náttúrulega, því miður, þrælað sér í gegnum fullt af leiðinlegum bókum. Ég neyddist til að lesa Davinci-lykilinn og geispaði stórum. En af svona stórvirkjum sem ég hef reynt við, er The sound and the fury líklega mín versta minning. Á furðulegan hátt náði ég við og við að komast í einhvers konar ástand og finnast allt vera í þessu fína, en svona eftir á að hyggja var ég í raun nánast alltaf að kálast úr leiðindum og var dauðfegin þegar bókin var búin.
    Nú er ég hvorki hokin né gömul, en ég hef lært að leggja frá mér bækur hálflesnar og viðurkenna fyrir sjálfri mér og öðrum að ég get alveg líka verið gikkur. Það felst í því mikil lausn. Ég ætti að klykkja út með því að segja hver síðasta bókin var sem fékk þá meðferð hjá mér, en ég bara hreinlega man það ekki, svo dugleg er ég í því að bæla niður það sem ég nenni ekki að muna. Kveðja, KJ

    SvaraEyða
  5. Þegar manni finnst einhver bók mjög leiðinleg þá verður oft ofan á að hætta lestri hennar þegar í stað.Fyrir vikið verður listinn yfir leiðinlegar bækur hugsanlega um leið listinn yfir hálflesnar bækur. Ég hef stundum þurft/pínt mig til þess að lesa bækur sem mér í raun hafa þótt mjög leiðinlegar en hef verið á höttunum eftir einhverjum upplýsingum frekar en textaupplifun. Þegar ég lít í hillurnar blasir við mér mikið safn bóka um náttúru Íslands, ferðalög og fleira sem því tengist. Þar sé ég Árbók FÍ 1999, Firðir og fólk eftir Kjartan Ólafsson 600 blaðsíður af gegnheilum en vel rannsökuðum leiðindum. Það fer um mig leiðindasúgur þegar ég sé hana.
    Um jólin fékk ég í hendur bók eftir Hannes Pétursson sem heitir Jarðlag í tímanum sem inniheldur minningabrot hans úr Skagafirði. Vissulega er bókin afar vel skrifuð og textinn á köflum undurfagur og ljóðrænn. En hið slétta og fellda borgaralega loðmolla sem hvílir eins og kæfandi værðarvoð yfir frásögninni og máir út allar misfellur á fólkinu sem bjó í Skagafirði í upphafi tuttugustu aldar varð til þess að mér fór að dauðleiðast þessi upphafning. Seinasta partinn las ég af hreinni þrjósku og var þá kominn með hálfgerða vantrúarklígju yfir öllum þeim vammlausu, siðprúðu og tíðindalausu Skagfirðingum sem sveimuðu um síðurnar.

    Páll Ásgeir Ásgeirsson

    SvaraEyða
  6. Les aldrei leiðinlegar bækur. Legg þær frá mér þegar mér fer að leiðast. En á borðinu er Aðalnámskrá framhaldsskóla sem ég VERÐ að lesa. Sjitt!! En Basil fursti er líka á borðinu ...
    Glæpaforinginn

    SvaraEyða
  7. Án nokkurs vafa Moby Dick, það er að segja fyrri helmingurinn ég hef sjálfsagt aldrei komist lengra en á síðu 250 eða svo. Hef þó reynt í það minnsta þrisvar. Það sem mannhelvítinu tekst að nota mörg óþörf orð er með hreinum ólíkindum. Ég hef fyrir satt að þessum 500 síðum Melville's hefði Hemingway komið fyrir á fimm án þess að nokkuð tapaðist.

    SvaraEyða
  8. Ég er búin að gleyma flestum leiðinlegu bókunum enda hætti ég yfirleitt að lesa þegar mér fer að leiðast. Sú síðasta sem ég gafst upp á eftir nokkrar síður er Andarsláttur. Þegar ég var barn las ég Gróður jarðar og leiddist hún ægilega þá en kannski myndi ég kunna að meta hana núna. ÞG

    SvaraEyða
  9. Ég reyndi einu sinni að lesa James Joyce og gafst upp, enda neyddist ég ekki til að klára þannig að þetta telst kannski ekki með.

    SvaraEyða
  10. Og já, ég las Bing eftir tenglinum. Ég sé ekki betur en að það sé prentvilla strax í annarri setningu - mère (móðir) í stað mètre (metri). En treysti á að þetta sé ásættanleg versjón þrátt fyrir það. Jiminn hvað þetta var leiðinlegt. Skil samt pínu þetta með augun sem flökta, en samt ... já ...
    Og bara svona því ég minntist ekki á það áðan, þá er ég svo mikil alæta á mat að það hálfa væri nóg. Get alveg sætt mig við tapas sem máltíð en hef því miður aldrei lent í að fá skordýr eða slöngur á borðið hjá mér, treysti á að það gerist áður en ég hrekk upp af. Kveðja aftur, KJ.

    SvaraEyða
  11. Mér leiðast rússneskar bókmenntir.

    Hana. Þar afgreiddi ég risaþjóð á einu fordómahlöðnu bretti (fyrir rúmu ári var áætlaður íbúafjöldi Rússlands 141.927.297). Er þetta nógu svívirðilegt fyrir þig?

    SvaraEyða
    Svör
    1. Hvað ætlæi Þórbergur segði um þig, Þórunn?
      æ

      Eyða
  12. Hann segði sennilega að ég væri hálfviti. En mér er alveg sama! Nananabúbú!

    SvaraEyða
  13. leiðinlegar bækur hmm, kannski bókin „Það er gaman að verða gamall“ (nei þið hafið ekki misst af miklu við að vita ekki að þessi bók sé til). Las hana einungis vegna þess að hún var skrifuð af manni sem bjó í húsinu mínu í fjöldamörg ár og ég var að vonast til að finna eitthvað bitastætt um sögu hússins. Það var ekki þar.

    Ég yrði ekki hissa þó Bing/Ping hefði einmitt verið svona pæling, ég á kollega sem leikur sér stundum að því að semja verk sem kalla fram leiðindi hjá áheyrendum. Skýrir ýmislegt...

    SvaraEyða
  14. Kvennamaður deyr eftir Óttar Guðmundson, en kannski var hún aðeins lélegri en hún var leiðinleg.
    HJ

    SvaraEyða
  15. Ég er svo andskoti fær í sjálfsblekkingu að ég finn yfirleitt alltaf eitthvað ótrúlega merkilegt í hundleiðinlegum bókum, og þá eru þær auðvitað ekkert leiðinlegar lengur. Og ef ég finn ekkert þá skrifa ég það iðulega á reikning þess að ég hafi verið illa fyrirkallaður. Og margar bækur hef ég lesið tvisvar – fyrst fundist skemmtilegar og svo leiðinlegar eða öfugt. Hins vegar finnst mér algerlega ófyrirgefanlegt ef bækur eru vondar – það er, af hinu illa – og miklu algengara kannski en maður gæti haldið, þótt það sé auðvitað pínulítill minnihluti samt.

    En svo er reyndar hitt, sem samræmist þessu illa, að stundum fæ ég bara ógeð á öllu saman og finnst allar rússneskar bókmenntir hundhelvítisómerkilegar svo vikum ef ekki mánuðum og árum skiptir. En það á aldrei við um neina eina rússneska bók. Hver ein og einasta rússneska bók er iðulega ómetanleg perla sem veröldin kæmist ómögulega af án.

    SvaraEyða
  16. Ég hafði ekki lesið Ping en las hann núna. Þvílík brakandi snilld!

    SvaraEyða
  17. Ég held að það sé rétt bara. Þetta er alger slagari með viðlagi og allt! Hermann

    SvaraEyða
  18. En er þetta köntrí, Hermann? Ég heyri blús. Leikin á gamaldags ritvél sem *ping*ar. Af Rod Stewart þegar hann var ungur. En þetta gæti sosum verið á mörkunum – köntríblús. Dúett með Rebu McEntire. En er ekki gerð meiri narratífukrafa í köntrí?

    SvaraEyða
  19. Er þetta kannski Tom Waits? Hvar er Þröstur – var ekki búið að lofa því að hann myndi fíla þetta líka?

    SvaraEyða
  20. Vá djöfull eruði klikk, strákar, ha? En já, hvar er Þröstur?

    SvaraEyða
  21. Þröstur fílar þetta að sjálfsögðu, engin spurning. Ég held að það narratív þarna, Eiríkur, meira að segja söguþráður, svolítið blúsaður og lógískari en í mörgum lögum Hank Williams (hvaða leiðinda óskiljanlegheit er til dæmis setningin I´ll never get out of this world alive hjá Hank, hvernig á maður að geta farið út úr þessum heimi öðruvísi en dauður? http://www.youtube.com/watch?v=19vApPwWqh8). Enda segir það sig eiginlega algerlega sjálft þegar um höfund er að ræða sem skrifaði gamanleikrit sem gengur út á yfirvofandi gegnumgangandi óbærilega spennuna eftir að Godot komi. Hermann

    SvaraEyða
  22. Er þetta kannski Godot sem liggur þarna hvítur sem nár á börunum á meðan lífsklukkan pingar sín síðustu ping? Ég væri til í að kyrja þetta lag, ef þú lékir undir á banjó. Á ekki Ævar afmæli einhvern hluta ársins? Verður ekki veisla? Er lífið ekkert nema ein æðisleg spurn?

    SvaraEyða
  23. Díll. Ef Ævar býður okkur í afmælið sitt sjáum við um að drepa gestina úr leiðindum. Algerlega, ekki spurning. Hermann

    SvaraEyða
  24. Það má ekki vanmeta leiðindin. Það er ákveðin nautn að þræla sér gegnum leiðinlegar bækur, og þá meina ég ekki lélegar bækur. Ein sú bók sem ég hef átt erfiðast með að klára, vegna erðarleysis, er Lífið, notkunarreglur eftir George Perec, hún er rosalega statísk, enda gerist hún á einu andartaki. Samt er þetta með eftirminnilegri bókum og er líklega sú skáldsaga sem ég hef oftast endursagt um ævina, það er að segja meginsöguna sem allar hinar hanga á. JHS

    SvaraEyða
  25. Alleiðinlegasta bók sem ég hef lesið - og hefði hent eintakinu að lestri loknum hefði ég átt það - var Dagur í lífi Ívans Denisovitsj. Mér fannst hún svo leiðinleg að ég var hálf leiður yfir því í mörg ár að Solzhenitsín skuli hafa sloppið úr Gúlaginu.

    Guðmundur Brynjólfsson

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.