þriðjudagur, 6. mars 2012

Roland Barthes: Vita Nova


Ég hef verið að lesa síðustu háskólafyrirlestra Roland Barthes. Þeir voru undirbúningur að skáldsögu sem hann hafði lengi langað til að skrifa. Bókin heitir í enskri þýðingu The Preparation of the Novel (Columbia University Press, 2011).

Skáldsagan kom aldrei út en tæplega fimm hundruð síður af fyrirlestrum segja kannski meira en nokkur skáldsaga hefði nokkru sinni getað sagt um nokkurn skapaðan hlut. Að minnsta kosti segja þeir meira um það hvernig höfundurinn – þetta fyrirbæri sem Barthes reyndi að koma fyrir kattarnef eins og frægt varð – vinnur vinnu sína. Í þeim rekur hann hvert spor, hverja hreyfingu, hverja hugsun sem bærist í höfði höfundarins á meðan hann skrifar.

Fyrirlestrarnir eru tilurðarsaga skáldsögu allt frá fyrstu hugdettu til síðasta punkts. Um leið eru þeir saga skálds.

Fyrirlestrarnir eru eiginlega allt nema skáldsaga. Hana skrifaði Barthes aldrei. Kannski hafði hann ekki ætlað að skrifa hana. Kannski fannst honum þessi skáldskaparfræðilega og kennslufræðilega tilraun ígildi skáldsögu. Kannski hefði hann skrifað þessa skáldsögu ef honum hefði enst aldur til. Kannski þurfti hann ekki að skrifa hana.

Barthes lést nokkrum dögum eftir að hafa flutt síðasta fyrirlesturinn um tilurð skáldsögunnar. Áður en við skoðum betur þá sögu skulum við rifja upp aðra.

*

Skömmu eftir að ég fékk fyrirlestra Barthes um tilurð skáldsögunnar í hendur rakst ég fyrir tilviljun á grein eftir fyrrum nemanda hans sem mér fannst ég hafa lesið áður, að minnsta kosti fannst mér hún segja kunnulega sögu um dauða Barthes.

Nemandinn heitir Stewart Lindh og er bandarískur bókmenntafræðingur. Greinin heitir „Roland Bathes: The Deadline“. Þar segir frá því að Lindh var einn af fjórtán doktorsnemum sem fengu að sækja fyrrilestra Barthes árið 1974 í París en í kjölfar námskeiðsins áttu þeir að skrifa doktorsritgerð sína. Lindh ákvað að skrifa um tungumál og dauða, eða nánar tiltekið um orðræðu dauðans í amerískum fjölmiðlum.

Meðfram því að sækja fyrirlestra meistarans hóf Lindh að afla sér heimilda á Bibliothèque Nationale. Hann skrifaði nótur á litla minnismiða sem fljótlega tóku að staflast upp en sjálfa ritgerðina gat hann engan veginn komið sér til að skrifa. Hann taldi sér trú um að hann væri haldinn tímabundinni ritstíflu eða þá að erfiðleikarnir stöfuðu af því að hann þyrfti að skrifa á erlendu máli, en hvað sem hann reyndi gat hann einfaldlega ekki orðað fyrstu setninguna.

Áður en hann vissi af voru fyrirlestrarnir búnir og fimm ár liðinn og hann ekki með annað í höndunum en bunka af minnismiðum um ritgerðarefnið. Hann var farinn að starfa á næturklúbbi til að hafa í sig og á en dvaldi dagana langa á bókasafninu í leit að fyrsta orðinu en ekkert kom.

Þetta var greinilega engin venjuleg ritstífla. Lindh ákvað því að leita til sálgreinanda sem dró þá ályktun að Barthes væri faðirinn sem Lindh hefði aldrei átt og með því að skrifa ekki ritgerðina væri hann á táknrænan hátt að reyna að halda sambandi við hann – sem sonur hans.

Lindh fannst greiningin of einföld og fría hann ábyrgð á sjálfum sér. Kannski væri hann einfaldlega ekki nægilega klár til þess að takast á við verkefnið, hugsaði hann með sér og tók næsta flug heim til Kaliforníu, án þess að kveðja kennara sinn.

Þetta var í júní árið 1979. Í október barst bréf frá Barthes. Þar tilkynnti hann Lindh að hann væri að hætta störfum hjá École des Hautes Études um áramótin og ef hann vildi klára ritgerðina yrði hún að vera komin í sínar hendur fimmtánda desember. Enginn frestur yrði veittur á þessu banastriki.

Frammi fyrir þessum afarkostum settist Lindh niður í íbúð sinni, dró gardínur fyrir glugga og skrifaði í átta vikur samfleytt. Tveimur dögum fyrir skilafrest hafði hann lokið ritgerðinni. Með ótrúlegri heppni tókst honum að koma henni í hendur Barthes fimmtánda desember með flugfarþega sem hann hafði svifið á úti á flugvelli og vildi svo vel til að þekkti prófessorinn franska.

Viku síðar barst bréf þar sem Barthes óskaði Lindh til hamingju með að hafa lokið ritgerðinni – Bravo, Stewart. Félicitations, stóð þar – og hann ætti að verja 27. febrúar 1980.

Daginn fyrir vörnina var Lindh kominn til Parísar og reyndi að hafa uppi á Barthes en tókst ekki. Aðstoðamaður prófessorsins færði Lindh þau skilaboð að hann væri ánægður með ritgerðina og hlakkaði til að hitta hann við vörnina daginn eftir. Bað aðstoðarmaðurinn Lindh að hringja um morguninn til þess að athuga hvort nokkuð hefði breyst um tímasetningu og staðsetningu varnarinnar – slíkar uppákomur væru ekki óalgengar við skólann.

Klukkan ellefu morguninn eftir stóð Lindh innan í símaklefa við Atrium Café á Boulevard St. Germain. Eftir nokkra stund kom aðstoðarmaður Barthes í símann og sagði: „Stewart, ég hef mjög slæmar fréttir. Roland varð fyrir bíl og er í dái.“

Lindh yfirgaf París daginn eftir. Mánuði síðar fékk hann símtal frá ritara Barthes: „Roland est mort“ sagði hún. Í febrúarmánuði ári síðar hélt Lindh aftur til Parísar til að verja ritgerð sína. Hann lét sig hafa það að fara, fannst hann verða að setja endapunktinn við ritgerðina, hún mátti ekki verða dauði Barthes.

Allt gekk að óskum. Lindh hélt aftur heim til Kaliforníu þar sem hann geymdi með sér minningu þessa frábæra kennara. Ritgerðinni gleymdi hann fljótlega eða þar til þrjátíu árum seinna að það birtist grein sem rifjaði upp þann tragíska dag þegar Barthes lenti fyrir þvottabíl á Rue des Écoles. Þar fékk Lindh í fyrsta sinn að heyra það að þegar slysið varð hafði Barthes borið ritgerð undir hendinni. Hún var um tungumál og dauða.

*

Hvað skyldi Barthes hafa verið að hugsa þegar hann steig út á götuna?

Hann hefur verið annars hugar. Kannski að velta fyrir sér fyrstu orðunum í skáldsögunni sem hann vildi skrifa. Fjórum dögum fyrr hafði hann flutt síðasta fyrirlesturinn um undirbúning hennar, um skrifin. Síðasti hluti hans ber yfirskriftina: „Lokaorð (en ekki þau síðustu)“. Í byrjun kaflans spyr hann: „Hvers vegna er ég ekki byrjaður að skrifa þetta verk – nú þegar, ekki enn?“ Og nokkru síðar vitnar hann í Nietzsche sem sagði: „Sá sem þú ert skaltu verða.“ Og í Kafka: „Tortímdu sjálfum þér svo þú getir orðið sá sem þú ert.“

Skáldsagan átti að heita Vita Nova. Eða heitir það öllu heldur.

*

Það getur ekki verið að ég hafi lesið þessa grein um banastrik Barthes áður. Hún birtist í The Antioch Review árið 2010. Ég hefði munað eftir því að hafa lesið hana. Sennilega fannst mér Lindh bara segja söguna eins og hún hlaut að hafa verið.

Þröstur Helgason





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.