Hvers vegna er ég að tala um liti, brot og línuteikningar? Jú, vegna
þess að umbrot skiptir máli og látleysi er galdur ef það á að vera töff en ekki
tilgerðarlegt. Og bókin er fínn prentgripur, laus við hroka, umbúnaðurinn í
svipaðri kategoríu og besta kápa síðasta árs að mínu mati, kápan á Jarðnæði eftir Oddnýju Eir sem Ragnar
Helgi Ólafsson gerði. Raunar eru fleiri ástæður fyrir útliti bókarinnar eins og
Soffía Auður Birgisdóttir víkur að í eftirmála hennar, gripurinn kallast ekki
aðeins á við útlit frumútgáfu verksins frá árinu 1946 heldur kallaðist sú
útgáfa á við bækurnar sem Jóhann Jónsson skrifaði í. Blaðsíðurnar í frumútgáfunni eru bleikar, ég komst í tæri við hana í vikunni hjá mætum manni vestur í bæ og uppgötvaði að af síðunum leggur merkilega lykt. Eigandi bókarinnar sagði mér að hún dofnaði ekkert með árunum og að öll eintökin lyktuðu svona. Þetta var góð lykt. Útgefandi endurútgáfunnar er
Lesstofan, nýtt og sérlega gæfulegt forlag.
Innihaldið er þrískipt: Texti Elínar Thorarensen um Jóhann Jónsson
skáld og ástir þeirra í meinum, ævintýri og ljóð eftir Jóhann og áðurnefndur eftirmáli
Soffíu Auðar Birgisdóttur. Bókin kom út áður árið 1946 og var fór lágt.
Þá að efninu: Þetta er blíð frásögn. Texti Elínar er stuttur og
myndi kannski kallast prósaljóð í öðru samhengi. Hann lýsir
sambandi þeirra Jóhanns í endursýn, eftir að Jóhann er dáinn, mörgum árum eftir
að ástir þeirra urðu að engu fyrir sakir fátæktar og vesældar og kannski
einhvers fleira, hugsanlega var barnsfæðing í spilinu; bókin er skrifuð eftir
að Elín les grein Halldórs Laxness um vin sinn, Jóhann. Hún er skrifuð til að
bæta upp í myndina af Jóhanni, klára hálfsagða sögu. Engum til höfuðs. Elín orðar það svona: "Hálfsögð er sagan, ef einn segir."
Sagan er brotakennd og lítt línuleg, hún gefur ekki mynd af því
hvernig, nákvæmlega, þau kynntust og gerir ekki tilraun til að lýsa Jóhanni fjarlægt, hlutlægt eða einu sinni upphafið, kannski einmitt ekki í upphöfnu ljósi þegar öllu er á botninn hvolft. Myndin sem Elín gefur er
nálæg, skotin senum og samræðubrotum, mynd af ástarsambandi og tíðaranda í senn,
viðkvæmnislegur og næmur prósi sem má kalla rómantískan en ég vil það þó síður:
Eins mætti segja hann hamsunskan en tilfinninganæmi í ætt við Knut Hamsun var í
tísku á þessum tíma.
Hún kallaði hann Angantý, hann kallaði hana Brynhildi.
„Á svona fögru kvöldi vil ég
deyja með þér, Brynhildur!“ „En ég vil lifa með þér, Angantýr!“ Við fengum
hvorki að lifa né deyja saman. (33)
Ef þetta er ekki bókmenntatexti, þá veit ég ekki hvað. Hvort um sig
nefnir hitt skálduðu nafni (úr fornbókmenntum) en fremur en að vera hástemmdur
er textinn presís. Því fylgir, auðvitað, að þeir sem líta á íróníu sem frumskilyrði
bókmenntatexta fá ekki það sem þeir vilja, að leita að mælskri merkingardreif í
texta Elínar er að fara dyravillt, en öllum sem er ótæpilega hætt við „aulahrolli“ gefst
hér kærkomið tækifæri til að hrista það helvíti af sér. Því hér er
alvara eins og hún lítur út andspænis dauða og missi, heilli mannsævi í
endurliti, sögum á reiki, hálfsannleika; enginn skortur á æðruleysi en
sannarlega engin brandaramennska.
Ég alltsvo vil meina að Elín hafi verið merkilegur rithöfundur. Ef hún
var það ekki, hvernig stendur á því að hún hafði einmitt hugrekkið til að
standa á skjön við samtíma sinn – og jafnvel þvert á hliðarstrauma menntamanna –, hví hafði hún þá einmitt hugrekkið sem er þegar upp er staðið helsti mælikvarðinn á góðan rithöfund?
Annað brot í grenndinni sýnir anda þessa skrifs og mannlýsinga þess:
Það var mikið óhappaverk, að
rægja Gest við Ingunni, því að hann unni henni mikið, og hún iðraðist þess alla
æfi að fara eftir þessu ólánsbréfi ,sem henni var skrifað.(34)
Hér er verið að tala um Ingunni, föðursystur Elínar, sem sleit
trúlofun við Gest Pálsson skáld vegna rógs. Meðal annarra orða: Sá sem les
texta frá fyrri hluta tuttugustu aldar hlýtur fyrr eða síðar að komast á þá
skoðun að ríkjandi greinamerkjavenjur dagsins í dag taki lífið úr texta, hikið,
blæbrigðin og kúnstpásurnar fletjast út í æðibunugangi kommuleysisins. Það
skiptir svo sem ekki máli, hér skín í gegn sá mannskilningur að hlutirnir eru
viðkvæmari en margur heldur, orð séu þung og skrefin torveld, að veröldin sé
staður þar sem hlutirnir hafa afleiðingar.
Þetta er bók sem auðgar skilninginn á Jóhanni Jónssyni sem skáldi, höfundarferli
hans og persónu. Reyndar er ekki alveg víst að nú um stundir kveiki allir á því hver
hann yfirleitt var, Jóhann Jónsson var goðsögn í lifanda lífi, höfundur
„Söknuðar“, einhvers magnaðasta nútímaljóðs íslenskrar bókmenntasögu, ljóðsins
sem byrjar á: „Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað“.
Hann var talandi skáld, að sögn, haltur eins og Byron, dó fyrir aldur
fram og sagði vinum sínum sögur á banabeðinu sem þeir skrifuðu skáldverk upp úr.
Þeir sem sóttu bókabúðir á árunum eftir 1986 eiga vafalaust heildarsafn hans
sem þó vantar ýmislegt í og sömu sögu má segja um eldra heildarsafn Jóhanns.
Hér birtist öðruvísi Jóhann, ungur maður sem vildi verða ævintýraskáld
að hætti H.C. Andersen, maður sem lifði ríku bókmenntalífi með Elínu Thorarensen, hún leit á hann sem ævintýraskáld og þau lifðu í undralandi. Um endurútgáfuna
hefur sitthvað verið skrifað, hér má benda á bloggfærslur, eina og aðra, og ekki síst grein sem Soffía skrifaði í Kistuna á sínum tíma, á prýðisfínan útvarpsþátt Soffíu Auðar, ég finn bara annan af tveimur (einhvern tíma fjallaði Jón Hallur Stefánsson líka um Angantý í þáttaröð um jaðarbókmenntir), auk greina í Tímariti Máls og menningar eftir Guðrúnu Helgadóttur og
Gunnar Má Hauksson sem hvor um sig bæta sýnina á liðna tíð.
En um frumútgáfuna var alltsvo þagað þykku hljóði. Hvers vegna? Og verður sagt með vissu að svo sé? Er hægt að kalla það þöggun, ótvírætt? Nei, auðvitað
ekki ótvírætt. Þöggun er einmitt hinn fullkomni glæpur: Það er ekki hægt að færa sönnur
á hann. – Hvernig þöggun? spyr þaggarinn. – Er eitthvað konkret til
marks um hana? Er hún annað en öfund og dómgreindarbrestur og þeim sem slíkt tautar til skammar? kann að fylgja í kaupbætið með háðsglotti og flími. Hinn
þaggaði á ekkert svar, því ekki verður þögn komið fyrir innan gæsalappa,
tilvitnanabók um þöggun í verki væri þunn í roðinu.
Allir sem eitthvað hafa fylgst með umræðum um konur og bókmenntir á undanförnum áratugum þekkja hugtakið, sem er skýrt í bókinni. Þöggun kann að gerast nokkurn veginn svona: Hópur fólks,
til dæmis menntakreðsa, kannski menntastétt í heilu samfélagi, kemur sér saman
– beinlínis, með samkomulagi sem hreinlega er orðað en þó á laun – um að
þegja yfir einhverju sem er því, af einhverjum orsökum, óþægilegt. Í því
þaggaða getur falist það merkilegasta og mest lýsandi við sögu hvers
tímabils; sagan um Angantý og Brynhildi segir býsna margt um íslenska sögu,
ýmislegt um andrúmsloft og viðhorf liðins tíma, þekkingarkerfi hans og
útilokunarhætti, ef ég má orða það svolítið hátimbrað.
Heimildir Soffíu Auðar í eftirmála um viðtökur og þöggun bókar Elínar
eru sumar hverjar munnlegar og svo er að sjá sem sitt lítið af hverju hafi
verið gert til að stoppa bókina af. Einn helsti menningarfrömuður landsins,
Kristinn E. Andrésson, er sagður hafa reiðst bókinni svo mjög að hann lét hana
hverfa af bókasafni einkaheimilis og minnir sú saga talsvert á sögu sem sögð er
af Halldóri Laxness og Kristjáni Eldjárn forseta sem stóð hann að verki við að hnupla
sínum kommúníska ópus úr bókasafninu á Bessastöðum eftir að allt sem þar stóð
hafði reynst rangt. Það fallega við þá sögu er hve ljúfmannlega Kristján brást
við þessu, með fullum skilningi á mennskum breyskleika og mennskri freistni. En
þó lét hann bókina standa á Bessastöðum.
Hvers vegna að þagga þessa bók? Soffía Auður leiðir að því
líkum að ástarsamband þeirra Elínar og Jóhanns hafi riðlað of mörgum hólfum í
borgaralegu samfélagi síns tíma, stéttvitund borgarans hafi verið viðbrugðið og
ekki síður gæsla á ímynd skáldsins sem er ansi sterk; hún segir einnig að
hugsanlega hafi aldursmunar þeirra skötuhjúa, 15 ár, verið viðkvæmt mál á þeim
tíma. Í svipaðan streng tekur Guðrún Helgadóttir síðan í grein í Tímariti Máls
og menningar. Þetta er djörf kenning og ögrandi. Var aldursmunur svo mikið mál
í fortíðinni? Afi minn og amma voru fædd á sitt hvorri öldinni og
aldursmunurinn hljóp á áratugum. En hann var hinsvegar á hinn veginn: Hún var
miklu yngri en hann.
Það mætti segja mér að aldursmunur geti býsna viðkvæmur bæði þá og nú og
ekki síst þegar konan er eldri og kvenótti bætist á aldursníð ofan. Tilfellið er hinsvegar að
Soffía einfaldar ekki málið í eftirmála sínum heldur gerir ráð fyrir ýmsu,
þetta er margslungið og snúið. Í texta Elínar kemur fyrir margt mektarfólk úr
menningarheiminum og hann er ekki síður aldarfarslýsing en ástarsaga. Og það má
kannski ekki hver sem er tala hvar sem og hvenær sem er um menningu, síst af
öllu flækja myndina af skáldi sem er jafn mikilvægt íslenskri menningu og
Jóhann Jónsson.
Nú ætla ég ekki að reyna að tækla þetta (þetta er blogg, þið vitið, ég
hef aldrei litið á mig sem fræðimann) heldur bendi á firnagóðan eftirmála
Soffíu, þar sem enda er komið inn á ýmislegt fleira, til dæmis er þar að finna
uppljóstrun um tilurð kvæðis Þórbergs um Skólavörðuholtið hátt. Sjálfum finnst
mér ekki ólíklegur sá möguleiki sem Soffía bendir á að goðsagnasmíðin í kringum
Jóhann Jónsson hafi illa mátt við því að einhver færi að hrófla við henni, bæta
í hana mennsku. Helsti ábyrgðarmaður goðsagnarinnar um Jóhann var Halldór
Laxness.
Ég er hugsanlega kominn út á hálan ís en upphafin mynd Halldórs
Laxness af Jóhanni Jónssyni kann að hafa verið um leið heimsmynd tímans, heimsmynd
sem felur í sér Halldór sjálfan, heimsmynd sem mátti ekki við of mikilli
mennsku þótt hún kenndi sig gjarnan við húmanisma. Þessar þagnir í tónverki
heimsmyndarinnar, svo ég haldi ótrauður áfram með eignarfallstimbur, eru víðar
og á fleiri stöðum kemur Halldór við stóra sögu. Hefur til dæmis einhver kannað
það, án þess að líta undan, hvernig grein sem Halldór skrifaði um
Hellismannasögu tók gagngerum breytingum þegar hún var endurbirt í bók en þó
var þar að engu getið og ekki þakkað að Þorsteinn frá Hamri hafði skrifað andsvar
og hrakið allar helstu fullyrðingar Halldórs um söguna svo ekki léku nokkur
tvímæli á? Þorsteinn gaf út
skáldsögu nokkru síðar þar sem Hellismannasaga kemur við sögu. Sú bók fór lágt.
Hvað er þagað um og af hverju? Það getur verið erfitt að sjá mikilvægi
þessara spurninga eftir því sem klisjur laumast inn í tungutak okkar, orð lenda
í ofnotkun og útvatnast, því auðvitað er ekki hægt að stóla á að allt sem þagað
er um sé þaggað; en þetta er mikilvæg og gild spurning. Mjög mikilvæg. Það er
til þöggun. Af ýmsu tagi. Málið er ekki „úrelt“ í dag, svo ég noti mest óþolandi orð
íslenskrar tungu.
Þetta er bók sem má mæla með fyrir áhugafólk um
gömlu Reykjavík eða kannski áhugafólk um hugmyndalega hugarfarsfleka, fólk sem vill víkka sýn sína
á Jóhann Jónsson, áhugafólk um óþægilega nálæga bókmenntatexta eða kannski áhugafólk um ástina eða þagnir, taktmælingarfélag Reykjavíkur, tónverkamiðstöð, hellarannsóknarfélag Íslands eða Lulu, þeirrar sem söng To Sir With Love. Þetta er bók sem á margvíslegt
erindi.
Einmitt þegar hrópað er hæst og erfiðast er að hugsa það, þá á að spyrja:
Yfir hverju er þagað?
PS Þetta er ekkert mjög blogglega stílað hjá mér en ég vil samt endilega
heyra skoðun þeirra sem hafa lesið bókina og hinna sem eiga það eftir,
kommentakerfið er opið. Eða ef einhver vill diskútera fordóma og hatur út í
Önnu Mjöll og Cal eða Madonnu og unga kærastann hennar eða óbeit á aldursmun í
fortíðinni. Svo má líka bara þegja.
Hermann Stefánsson
Hermann Stefánsson
Takk fyrir þessa flottu úttekt. Verulega skemmtilegt að lesa.
SvaraEyðaÉg hef ekkert mikið pælt í ástarmálum Önnu Mjallar eða Madonnu og var svolítið að hugsa um að þegja bara en það vill sem sagt svo til að ég á það sameiginlegt með Elínu Thorarensen að vera ráðsett (eða ekki) margra barna móðir í Reykjavík í tygjum við 15 árum yngra skáld (sem gaf mér reyndar þessa ágætu bók Elínar þegar ég átti afmæli fyrr í vetur). Og sem sagt var ég að hugsa um að þegja bara af því að maður vill ekki vera að viðra sín einkamál of mikið í bloggkommentum en ég ætla að reyna að koma einhverju hæfilega yfirborðskenndu og ópersónulegu að út frá reynslu minni. Reynsla mín hefur verið sú að langflestir af vinum okkar og vandamönnum hafa tekið þessu sambandi vel (sem betur fer), margir alveg frá byrjun en sumir voru dálítið hikandi í fyrstu og mýktust svo fljótlega upp. En það er ekki spurning að það eru fordómar til staðar gagnvart svona aldursmun (ég hafði þá sjálf að einhverju leyti í byrjun) og við höfum fengið að heyra dágóðan slatta af undarlegum spurningum og athugasemdum sem mig langar ekkert sérstaklega að fara að rifja upp og rekja. Mér finnst samt mest bera á því að fólk sé nokkuð meðvitað um eigin og annarra fordóma í þessum efnum og sé allt af vilja gert að yfirvinna þá. Fólk hefur t.d. sagt mér í óspurðum fréttum að því finnist ekkert athugavert við þetta (hví skyldi einhver ætla annað?). Og kannski er það orðið þannig að samband þar sem karlinn er áberandi yngri en konan þyki hjá mörgum nýstárlegt frekar en endilega hneykslanlegt. Mér finnst ég alla vega oft hafa fengið viðbrögð sem benda til þess, einhver undrun látin í ljós þegar aldursmunurinn kemur fram án þess að það sé endilega gert með neikvæðum hætti.
SvaraEyðaÉg held það sé líka ljóst að sambönd karla við sér yngri konur vekja mun minni athygli, hvort heldur á jákvæðan eða neikvæðan hátt. Við sjáum jú endalausar myndir í blöðum af miðaldra poppstjörnum með kornungar fegurðardísir upp á arminn og það þykir bara sjálfsagt. Ætli það þyki ekki bara frekar fréttnæmt ef einhver miðaldra karlkyns Hollívúddleikari eða poppstjarna tekur upp samband við konu á sínum aldri?
En já, mig grunar að þeir fordómar sem enn eru til gagnvart samböndum kvenna við yngri karla geti hafa verið öllu verri fyrir tæpri öld, þegar fólk var t.d. enn uppteknara en í dag af hlutum eins og heiðri kvenna. Kannski spilar þarna inn í að konan kemur þarna meira opinskátt fram sem virk kynferðisvera, sem gerandi, fremur en sem kynferðislegt viðfang, þar sem fólk hugsar sér gjarnan valdastrúktúrinn þannig að eldri aðilinn sé valdameiri. Kona í tygjum við sér yngri mann hefur greinilegan áhuga á honum meðan kona sem er með sér eldri manni getur verið að leita að öryggi. (Nú er ég að sjálfsögðu að tala um það hvernig þetta geti komið fólki fyrir sjónir en ekki um það hvernig hlutirnir eru í raun, svona svo það sé alveg á hreinu.) Og þetta hefur trúlega allt verið stífara fyrir 100 árum.
En að allt öðru: Þú lýsir þöggun svona: "Þöggun kann að gerast nokkurn veginn svona: Hópur fólks, til dæmis menntakreðsa, kannski menntastétt í heilu samfélagi, kemur sér saman – beinlínis, með samkomulagi sem hreinlega er orðað en þó á laun – um að þegja yfir einhverju sem er því, af einhverjum orsökum, óþægilegt." Sjálf hef ég skilið þöggun þannig að hún hvíli ekki síður á óorðuðu samkomulagi en orðuðu. Ekki gerum við ráð fyrir að menntakreðsur haldi sérstaka fundi þar sem ákveðið er hvað eigi að unsa, eða að karlar haldi samráðsfundi þar sem þeir tala um að hunsa konur og verk þeirra. Sem sé skil ég ekki hvers vegna þú virðist gera ráð fyrir að samkomulagið sé orðað.
"Ég er hugsanlega kominn út á hálan ís en upphafin mynd Halldórs Laxness af Jóhanni Jónssyni kann að hafa verið um leið heimsmynd tímans, heimsmynd sem felur í sér Halldór sjálfan, heimsmynd sem mátti ekki við of mikilli mennsku þótt hún kenndi sig gjarnan við húmanisma. Þessar þagnir í tónverki heimsmyndarinnar, svo ég haldi ótrauður áfram með eignarfallstimbur, eru víðar og á fleiri stöðum kemur Halldór við stóra sögu."
SvaraEyðaMig langar í lengra framhald af þessu, er hin upphafna ásjóna HKL sem við ólumst upp við sumsé hans gjörningur en ekki takmarkaðra fræðimanna (Halló Peter Hallberg!) með nóbelsglíju í augunum?
P.S.: Og sérstakt læk á kommentið hennar Eyju.
Takk, Soffía, fyrir þín góðu orð, og þakka þér, Eyja Margrét, fyrir að leggja svo nálæg orð í belg. Og læk á lækið hans Ásgeirs.
SvaraEyðaÁsgeir: Ég veit það ekki. Rithöfundar búa jafnan til áru í kringum sig, hún getur verið mjög sterk og erfitt fyrir fræðimenn eða hvern sem er að rýna í hana í leit að einhverjum kjarna. Einhvern tíma skoðaði ég ævisögur íslenskra upplýsingamanna í kúrsi og þar varð ekki betur séð en að sú mynd sem við höfum af upplýsingunni, ljósið sem lýsti hetjulega upp myrkur fáfræði, bábilja og fordóma og gekk af fáfræðinni dauðri, væri komin beint úr ævisögum upplýsingamanna sjálfra.
Mér finnst þetta mjög áhugavert, Eyja. Takk. Og svo ég stroki snöggvast út það sem ég hafði skrifað hér og láti nægja lítið dæmi úr eigin reynsluheimi: Sem maður á þeim aldri sem mér nákvæmlega sýnist, maður með lítið barn í barnavagni, hitti ég stundum fólk á förnum vegi, það eru gjarnan karlmenn, sem segir við mig: "Jæja, þið hafið ákveðið að bæta einu við svona í lokin." Ég verð að segja alveg satt að þeir sem svo mæla við mig eru eiginlega bara búnir að vera í mínum huga og eiga sér ekki viðreisnar von. Ég veit að þetta á að vera velviljað og kannski er til fólk sem tæki þessu vel og ljómaði bara upp, en samt, ekki ég. Hvað halda menn að þeir viti? Við næsta barn hef ég ákveðið að strunsa út með það í vagninum og spyrja á móti: Jæja, ert þú enn á lífi? Fer ekki að koma að lokunum hjá þér? Á ekkert að fara að drepast?
Það sem þú nefnir með þöggun gerði ég mér grein fyrir að gæti orkað tvímælis. Ég hef ekkert fyrir mér nema samtal við vin minn sem hafði heyrt á tal fólks þar sem einhver var að ráðleggja öðrum berum orðum að þegja yfir einhverju bókmenntamáli, sem ég er satt að segja hreinlega búinn að gleyma hvert var, ég segi það alveg satt. Vinur minn sagði: "Ég hafði alltaf haldið að þöggun væri óorðuð. Svo kemur í ljós að fólk bara ákveður skipulega að þegja yfir hlutunum." Það þarf ekki að vera að þannig sé því alltaf háttað og eiginlega er óþægilegt til þess að hugsa að svo sé, því kann að fylgja vænn skammtur af paranoju í heimsmynd manns og það gæti fjarlægt fínessur í skilningi manns á heiminum. Þess vegna orðaði ég þetta svo. En er svo ólíklegt að þannig hluti beri á góma þegar fólk hittist? Kann ekki að vera að nefnt sé á fundum sem haldnir eru af ýmsu tilefni að best sé að þegja yfir einhverju sem sé ósmekklegt - þótt maður þurfi ekki að fara á taugum við tilhugsunina, né einu sinni ætla fólki óheilindi? Hugmyndir mínar um hugtakið þöggun eru ættaðar frá Helgu Kress (hún skapaði skrímsli í mér!) og ég treysti betur fræðimönnum en sjálfum mér til að fara með það af nákvæmni. Svarar þetta spurningunni? Kveðja, Hermann
Áttu við að þöggun geti ýmist verið orðuð eða óorðuð? Ef svo er get ég alveg verið sammála, þ.e. ég get trúað því að hvort tveggja sé til þótt ég vilji frekar trúa því að sú óorðaða sé algengari (en kannski er ég bara svona grunlaus og græn).
SvaraEyðaFólk, ekki síst á Íslandi, virðist almennt afskaplega barneignafókuserað og það væri mjög fróðlegt ef einhver gerði einhvern tímann úttekt á öllum þeim asnalegu og óviðeigandi athugasemdum sem hafa verið látnar falla um barneignir. Það virðist til dæmis vera einhvers konar kvöð að eignast nákvæmlega þrjú börn á Íslandi nútímans. Séu börnin færri en þrjú er ekki flóarfriður fyrir spurningum um hvort það eigi nú ekki að fara að bæta við en ef þau eru orðin fleiri en þrjú fara að heyrast spurningar um hvort þetta sé nú ekki orðið gott. Undantekning er þó gerð ef fyrstu þrjú börnin eru öll af sama kyni, þá þykir sjálfsagt og eðlilegt að fólk haldi áfram að bæta við eintökum þar til tekst að framleiða barn af hinu kyninu. Og auðvitað veltir fólk sér upp úr því að ég eigi þrjú börn og sambýlismaður minn ekkert og ég verði nú ekki endalaust í barneign og hvað ætlum við nú að gera í því. Eins og þú segir er þetta sjálfsagt vel meint og oft er viðkomandi kannski bara að reyna að finna eitthvað til að segja. En þú segir væntanlega að þið séuð bara rétt að byrja í barneignunum, eða hvað?
Já, ég á við að hún sé ýmist orðuð eða óorðuð. Það kæmi mér svo ekkert á óvart ef einhver segði mér að í kýnísku andrúmslofti Vesturlanda dagsins í dag sé hún oft orðuð í formi djóks, þótt ég viti það ekki.
SvaraEyðaJá, þegar ég er nógu fljótur að hugsa segi ég það, þegar ég er ekki of upptekinn við að hrækja ekki á fólk nefni ég næstu fimm sem við áformum með átta ára millibili. bekve HS
Er algengasta þöggunin samt ekki þarna mitt á milli, hálfkveðnu vísurnar? Einhver lítil torræð komment sem valda því að maður skynjar að þetta sé máski ekki vinsælasta umræðuefnið í partíinu. "Æ, hún Elín ..." þýðir þá að hana beri ekki að taka alvarlega, hún sé leiðinleg eða að það vilji enginn lesa um hana. "Kosturinn" við hálfkveðnu vísurnar er að þær bjóða sjaldnast almennilega upp á spurningu, þær eru settar fram í framhjáhlaupi, umræðan er komin annað áður en þú færð botn í vísuna, hún verður bara þöggun inní þér og öllum hinum sem heyra.
SvaraEyðaOg þegar ég skrifa þetta þá átta ég mig á því hversu náskyld þöggun er tísku. Alls konar tísku. Tísku gróðærisins þegar gagnrýni datt úr tísku - og þótt hún væri enn til staðar var hún smættuð, þetta voru bara einhverjir menntamenn, póstmódernistar eða öfundsjúkir útlendingar.
Ég held að þetta sé hárrétt hjá þér, Ásgeir. Ég held að það sé alltaf rétt að skoða mentalt samhengi þess að tjá hug sinn við kringumstæður samtímans og þess að skrifa undir sovéskri ritskoðun, jafnvel þótt ólíku sé saman að jafna þegar annars vegar mannsmorð liggur við hinsvegar eða þöggun eða jafnvel bara stjörnunni færra í ritdómi ef því er að skipta. HS
SvaraEyðaSem einn lesenda Angantýs hreifst ég töluvert af þessu hreinskiptna og yfirlætislausa kveri - þessari einföldu, hugrökku og blátt áfram ástarjátningu, sem ákvað að gefa dauðann og djöfulinn í álit heimsins. Ekki var þó laust við að ég velti fyrir mér á köflum hvort hugleiðingar Elínar um viðbrögð annarra vegna ástarsambandsins væru ekki fyrst og fremst sprottnar í hugskoti hennar sjálfrar, en ekki endilega veruleikanum - hún er jú sögumaður sem lýsir hvernig hún upplifir meinta vandlætingu og höfnun umhverfisins og sú upplifun kann að vera sprottin af ríkri sjálfsvitund um að hún sé að brjóta siðagildi og norm samfélagsins, ímynduð eða raunveruleg. Sem sagt að hún væri að firra sig eða útiloka eigið samviskubit eða "skömm" með því að færa yfir á aðra - sem í reynd þurftu ekkert að hafa verið svo sekir um vandlætingu sem hún lætur í veðri vaka.
SvaraEyðaBara datt það sisona í hug.
P.S. Þetta blogg, með kommentum, er held ég bara orðið næstum jafn langt og Angantýr með viðaukum :-)
P.S.S. Mikið ægilega er orðið "þöggun" orðið hvimleitt og ráðandi í orðræðu nútímans. Mér finnst í helmingi tilvika, sem orðið er notað, það ekki eiga rétt á sér - en sá sem vogar sér að gagnrýna notkun orðsins hlýtur umsvifalaust að vera ásakaður um "þöggun", ekki satt? :-)
P.S.S.S. Á foreldrum mínum er 16 ára aldursmunur og aldrei, á allri minni ævi, hef ég orðið var við fordóma vegna þess - en það er máske vegna þess að aldursmunurinn er í rétta átt, þ.e. karlinn eldri en konan. Eða eigum við til að sjá fordóma víðar en þeir eru til staðar? Erum við hugsanlega orðin ofsóknaróð af óttanum við fordóma?
Ég kannast ekki alveg við þessa tilfinningu af lestrinum og þykir Elín einmitt laus við meðvitund eða áhyggjur um álit heimsins, næm og blæbrigðarík í lýsingum á mannlífi og samtíðarmönnum.
SvaraEyðaP.S. Já, það er náttúrulega ekkert til í klisjunni um að karlar komist að kjarna málsins í fáum dráttum en konur teygi lopann, demonstrandum est.
P.S.S. Mér þykir eitthvað til í þessu. Rétturinn til að þegja er hluti af tjáningarfrelsinu og þögn er góð. Orðið er í talsverðri notkun, já, og það getur auðvitað "vöknað í púðrinu" eins og maðurinn sagði. Soffía skýrir hugtakið prýðilega í eftirmálanum, fólk á bara að lesa þetta.
P.S.S.S. Þetta er snúin athugasemd með fordómana. Fyrst og síðast sjáum við yfirleitt fordóma hjá öllum öðrum en okkur sjálfum, eða er það ekki?
Hermann
Mér finnst það ágæt regla að taka fólk trúanlegt sem telur sig hafa orðið fyrir þöggun eða fordómum nema einhver sérstök ástæða (t.d. greinileg merki um ofsóknaræði) sé til að draga það mat þess í efa. Og líklega má kalla það þöggun að gera lítið úr upplifunum fólks af slíku.
SvaraEyðaMér finnst til dæmis notkun Gísla Ásgeirssonar á hugtakinu í greininni "Þöggun í beinni" á Knúz vera býsna ónákvæm. Hver sem er getur kynnt sér hvernig reikningi fólks á Facebook er lokað, það gerist svona: Nokkrar armar eða meinfýsnar hræður ýta á klögunartakka, láglaunaþræll Zuckerbergs í Asíu eyðir reikningnum tímabundið eftir meingallaðri og handahófskenndri aðferð, reikningurinn opnar aftur ef hann er ekki hatursáróður. Að tala um þöggun í samhengi við forsíðufrétt á DV er náttúrulega talsvert sérkennilegt. En það er best að ég þegi um það svo fólk verði ekki reitt og skrifi greinar. Hermann
SvaraEyðaÉg átti ekki við að öll notkun á orðinu 'þöggun' væri réttmæt eða að ekki mætti andmæla slíkri notkun. (Ég hef ekki lesið þessa tilteknu knúzgrein og ekki tekið afstöðu til þessa tiltekna tilfellis og verð eiginlega að sleppa því að gera það núna því ég á í rauninni að vera að gera allt aðra hluti en að lesa umræður á netinu í augnablikinu.) En mér finnst rétt að hafa það alltaf bak við eyrað að það getur einmitt aukið á þöggun (þegar hún raunverulega á sér stað) að þeir sem verða fyrir henni eru gjarnan gerðir ótrúverðugir og þá er ekki heldur tekið mark á þeim þegar þeir benda á að þöggun hafi átt sér stað. Einmitt þess vegna er mikilvægt að hlusta þegar einhver talar um að hafa orðið fyrir þöggun og vera ekki of fljót að afskrifa slíkar ásakanir.
SvaraEyðaVið erum að tala sama tungumálið. Sem er mjög gott því ég á einmitt líka að vera að gera annað. Bekve H.
SvaraEyða