miðvikudagur, 7. mars 2012

Firrt gagnrýnni hugsun?


Spænska dagblaðið El país gerir orð rithöfundarins Mario Vargas Llosa að tilefni til að leggja nokkrar spurningar fyrir valinkunnan hóp rithöfunda, heimspekinga , tónlistarmanna, fræðimanna og menntamanna. Llosa heldur því fram að rithöfundar dagsins í dag álíti tilgerðarlegt að taka þátt í opinberu lífi og stjórnmálasamræðu. Umpólun í tímanum eða kynslóðamunur? spyr blaðið – eða bókahluti þess, Babelia. Þeir sem verða fyrir svörum eru: Fernando Savater (heimspekingur), Cees Nooteboom (rithöfundur), Elena Poniatowska (rithöfundur), Jorge Volpi (rithöfundur), Jonathan Franzen (rithöfundur), Victoria Camps (heimspekingur), Milagros del Corral (fulltrúi Unesco í málefnum rafbóka), Daniel Divinsky (ritstjóri), José Manuel Sánchez Ron (vísindasagnfræðingur), José Manuel Blecua (forstöðumaður konunglegu spænsku akademíunnar), Ariel Dorfman (rithöfundur), Bernardo Atxaga (rithöfundur), Santiago Auserón (tónlistarmaður) og Yuri Herrera (rithöfundur).  Svörin má sjá á þessari slóð og nota til þess Google Translate ef verkast vill, enda þótt það þýðingarforrit sé að sönnu meingallað og oft snarvitlaust. Svörin eru ekki öll á eina lund og sumir eru hreinlega engan veginn sammála forsendum spurninganna. Þetta er svolítið gott efni í svolítið góðum bókabálki og til gamans og fróðleiks má hér snara sem snöggvast innleggi eins þátttakenda af handahófi, svörum Milagros del Corral, sem eitt sinn var Landsbókavörður á Spáni og er einhver helsti sérfræðingur heims í bókum, bókasöfnum og pólitík í kringum bækur.

1. Hvaða hlutverki gegna menntamenn í samfélagi dagsins í dag?
1. Spænskt samfélag hefur ekki einkennst af miklum mætum á menntamönnum – sem við eigum ekkert alltof mikið af – heldur hafa þeir fremur mætt tortryggni.  Kannski er það af þeim orsökum sem lítið fer fyrir þeim í samfélaginu, ekki síst frá upphafi kreppunnar þegar umráðin yfir hugsuninni féllu hagfræðingum í skaut. Í dag hefur verkefni þeirra síðan kannski verið yfirtekið að einhverju leyti af indignados-hreyfingunni sem byggir ekki uppreisn sína á nákvæmri vitsmunalegri greiningu heldur kemur hún úr kviðnum og af reynslunni.
2. Hvers vegna telur þú að komið hafi upp alþjóðleg gildiskreppa og með hvaða hætti væri hægt að ráða bót á henni?
2. Gildiskreppan er fyrst og fremst kreppa gilda evrópskrar hugsunar og hávaðasöm afneitun á vörn þeirra gilda frá hendi Sameinuðu þjóðanna sem orðnar eru gamlar. Evrópa í dag er “l’Europe des épiciers” sem fyrst og síðast hefur áhyggjur af falli kaupmáttar borgaranna og pólitískri vigt á heimsvísu. Þar sem evrópski draumurinn var staddur á grunni kaupsýslu og markaða sem nú nötra ískyggilega, er hann að tærast upp fyrir framan augunum á okkur án þess að hafa náð hugsjón stofnenda sinna, því við höfum glatað sögunni og trúnni á kraftinn í hugsun okkar og á mátt hugmyndanna þegar við þurfum mest á henni að halda.
3. Kreppan virðist hafa fært okkur þangað sem engin frásögn er til sem setur fyrirbærið í samhengi. Hvernig ber að túlka þetta?
3. Okkur skortir þessa samhangandi sögu vegna þess að við höfum ákveðið að aðeins sé um að ræða skammvinna uppákomu sem fyrst og fremst sé af efnahagslegum toga þegar hið raunverulega vandamál tengist jafn mikið eða meira ósjálfbærum lífsháttum og innfluttum samfélagsmódelum sem Spánverjar kunnu ekki að laga sig að með skynsamlegum hætti, við létum gagnrýnislaust undan gleðiefnum efnishyggjunnar og undan stigmagnandi einstaklingshyggju. Við þurfum ekki að húðstrýkja okkur heldur gangast undir „samviskupróf“ vegna liðinna mistaka og koma á fót „leiðréttingaráformum“ sem byggja á kennslum á því hver við erum og hvaðan við komum, án sjálfsheiftar eða uppgjafar, með lágmarks sögulegu perspektívi, til þess að byggja á traustum grunni hugsjónina um það hver við getum orðið. Minna skiptir hverjum er að kenna það sem gerðist því að vissu leyti er sökin allra. Þegar upp er staðið á eftir að skrifa sögu Spánar á 21. öld.
HS

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.