Giorgio
Agamben hefur í gegnum tíðina skrifað skrítna hluti um fangabúðir Þjóðverja í
seinni heimstyrjöldinni og merkingu þeirra fyrir okkar samtíma. Hann bendir
stöðugt á og varar við valdsækni yfirvalda og ráðandi afla - veruleiki
fangabúðanna er aldrei jafn langt undan og hin „heilbrigða“ skynsemi telur sér
trú um. Bókin sem ég er að lesa á milli þess sem ég geri allt sem ég þarf að
vera að gera og laumast í twitterlopann sem teygður er af iphone fréttamönnunum
úr Landsdómi, heitir „Það sem eftir er af Auschwitz“. Auschwitz er í augum
Agambens rétt eins og Primos Levi ekki nafn á stað og starfsemi sem hrottar
komu á fót og héldu gangandi þangað til þeir voru stöðvaðir af boðberum friðar
og frelsis, heldur einn hluti samtímaveruleika sem hættir ekki eftir að hann er
orðinn til. Veruleikinn er hluti af Auschwitz og Auschwitz af honum.
Agamben talar um sekt og skömm í ljósi þeirrar lífsreynslu sem fangabúðirnar sköpuðu milljónum manna. Skömm er ekki sama og sekt. Hún er ekki tilkomin vegna atvika eða aðstæðna þar sem hegðun manns var önnur en hún átti að vera, eða önnur en sú sem hefði skilað árangri. Grunnur hennar er dýpri og myrkari. Í formála bókarinnar segir hann: „einn af lærdómum Auschwitz er hve óendanlega miklu erfiðara það er að skilja anda venjulegrar manneskju heldur en það er að skilja anda Spinoza eða Dantes“. Hvers vegna eru menn eins og þeir eru? Hvers vegna tala menn eins og þeir gera og hvað fær þá til að lýsa sjálfum sér og athöfnum sínum eins og þeir gera?
Þið fyrirgefið, en mér hefur aldrei gengið vel að lesa bækur öðruvísi en að tengja þær við það sem er að gerast í kringum mig og hringsólið fram og til baka af tölvunni í „Það sem eftir er af Auschwitz“ og þaðan í Landsdóm og svo til baka losar mann ekki við þessa tilfinningu að Agamben sé að segja eitthvað djúpt um skömm, þá mannlegu dýpt sem í henni felst og reisnina sem í henni getur birst.
Andstæða skammarinnar - andstæða þess að geta skammast sín - er lágkúra. Lágkúra og skömm. Þetta eru andstæðurnar. Í samhengi fangabúðanna var það Hannah Arendt sem dró lágkúruna fram þegar hún lýsti Adolf Eichmann og svörum hans við spurningum í réttarsal í Jerúsalem árið 1961. Uppgötvunin sem Hannah Arendt gerði var einfaldlega að hið illa sjálft, þegar það birtist í öllu sínu veldi - þegar búið er að fanga það og loka það inni í búri - reynist ekki vera neitt annað en lágkúra þess að þykjast vinna sín verk af samviskusemi án þess að hugsa um eða skilja afleiðingar þeirra. Myndin af Eichmann sem sat eftir hjá Hönnuh Arendt var mynd embættismanns sem hafði, þannig séð, ekkert á móti gyðingum, ekki frekar en hjólreiðamönnum eða einkariturum. Hann skammaðist sín ekki fyrir það sem hann hafði gert eða fyrir það hver hann var, enda hafði hann, eftir því sem hann sagði, unnið sín störf af samviskusemi.
Landsdómur er enn ein myndin af hruninu og enn einn flöturinn á stjórnmálamönnum, embættismönnum og kaupsýslumönnum Íslands. Vonbrigðin með hin yfirborðslegu og óáhugaverðu samtöl sem fara fram í Landsdómi þessa dagana eru greinileg hjá þeim sem á hlýða. En bækur Agamben geta hjálpað okkur að skilja hversvegna þetta hversdagslega, grunna og útjaskaða samtal ætti að vera uppspretta enn einnar uppgötvunarinnar um hrunið. Það er birtingarmynd lágkúrunnar - andstæðu skammarinnar. Það er samtal þar sem vitnið eða sakborningurinn hefur talið sér trú um að með því að byggja upp frásögn heilbrigðrar skynsemi, þar sem allar gerðir hans voru eðlilegar, sjálfsagðar, jafnvel nauðsynlegar við tilteknar aðstæður og að það eina sem hann eða hún hafi gert hafi verið að bregðast við óviðráðanlegum aðstæðum, með þessu sleppi hann óskaddaður frá öllu saman.
Var hægt að búast við einhverju öðru? Er hægt að búast við því að þeir sem björguðu eigin fjármunum undan hinu óhjávæmilega hruni um leið og þeir sögðu öðrum, þar á meðal eigin viðskiptavinum og kjósendum að allt væri í besta lagi, haldi öðru fram en að þeir hafi unnið sín störf af ítrustu samviskusemi og gert sitt besta? Er hægt að búast við öðru en að langvarandi vitnaleiðslur yfir stórum hóp fólks sem er í sameiningu búið að búa til hentugan vef skilnings á veruleikanum birti annað en lágkúru þess að afneita skömminni - vaða frekar í salinn dreissugur og halda því fram að allur málatilbúnaðurinn sé eitt stórt mannréttindabrot?
Eichmann var venjulegur maður, enginn stór hugsuður - enginn Spinoza eða Dante. Ekki frekar en allir þeir sem sitja á spjalli við Landsdóm. Í dag eru þeir allir Eichmann.
Jón Ólafsson
Svona til fróðleiks. Og fyrst talið berst að Eichmann. Og áður en einhver fer að skammast yfir því að höfundur notist við nazi-Þýskalands referensa...
SvaraEyðaRithöfundurinn Ward Churchill (sem til dæmis skrifaði bókina Pacifism as Pathology (sem, svona fyrst minnst er á hana, er bók sem gæti mögulega dýpkað hina almennt ómerkilegu íslensku umræðu um andófsaðferðir)) skrifaði þann 12. desember 2001, daginn eftir árásirnar á tvíburaturna og Pentagon, greinina „Some People Push Back: On the Justice of Roosting Chickens“, þar sem hann velti fyrir sér ástæðum árásanna og setti þær í hið augljósasta samhengi, þ.e. við utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Það mátti auðvitað ekki og sérstaklega mátti Churchill ekki minnast á Þýskaland Nasismans og benda á að:
„... it should be borne in mind that Good Germans gleefully cheered that butchery, too. Indeed, support for Hitler suffered no serious erosion among Germany's "innocent civilians" until the defeat at Stalingrad in 1943.“
Úr varð deila sem endaði með því að nokkrum árum síðar var Churchill rekinn úr starfi sínu við háskóla í Colorado. Í yfirlýsingu Churchills um það leyti varði hann skrif sín frá 2001 og komu þar „litlu Eichmannarnir“ við sögu:
„Finally, I have never characterized all the September 11 victims as "Nazis." What I said was that the "technocrats of empire" working in the World Trade Center were the equivalent of "little Eichmanns." Adolf Eichmann was not charged with direct killing but with ensuring the smooth running of the infrastructure that enabled the Nazi genocide. Similarly, German industrialists were legitimately targeted by the Allies. “
Annar áhugaverður rithöfundur, anarkó-primitívistinn John Zerzan, hafði árið 1995 notað þessi sömu orð, „little Eichmanns“, í grein sinni „Whose Unabomber?“, sem eins og nafnið gefur til kynna er um aðgerðir og hugmyndafræði stærðfræðingsins og bréfasprengjusendisins Theodore Kaczynski. Zerzan setur sprengjurnar í samhengi við framkvæmd réttlætis og segir:
„The concept of justice should not be overlooked in considering the Unabomber phenomenon. In fact, except for his targets, when have the many little Eichmanns who are preparing the Brave New World ever been called to account? Where is any elementary personal responsibility when the planners of our daily and global death march act with complete impunity?“
Hér eru þá greinarnar þrjár...
Ward Churchill, „Some People Push Back“: http://www.ratical.org/ratville/CAH/WC091201.html
Yfirlýsing Churchill: http://www.commondreams.org/cgi-bin/print.cgi?file=/headlines05/0201-05.htm
John Zerzan, „Whose Unabomber?“: http://green-anarchy.wikidot.com/whose-unabomber
"Auschwitz er í augum Agambens rétt eins og Primos Levi ekki nafn á stað og starfsemi sem hrottar komu á fót og héldu gangandi þangað til þeir voru stöðvaðir af boðberum friðar og frelsis"
SvaraEyðaÞetta er í fyrsta sinn sem ég sé eða heyri vísað til sovéska hersins sem boðbera friðar og frelsis.
Þetta er íronísk setning Jakob minn, nauðsynlegt að skilja hana sem slíka. Hefðir þú einhverntímann fylgst með hátíðahöldum í Moskvu í maí þegar minnst er stríðsloka væri þér líka kunnugt um að Rússar telja sjálfir, enn þann dag í dag, að minnsta kosti ríkjandi stjórnvöld, að Sovétherinn hafi frelsað Evrópu undan nasismanum.
SvaraEyða