Ein óvenjulegasta bókin sem kom út fyrir
síðustu jól er Við tilheyrum sama myrkrinu eftir Kristínu
Ómarsdóttur. Hún ber undirtitilinn: Af vináttu Marilyn Monroe og Gretu
Garbo og er tileinkuð fegurðardísum allra tíma. Í bókinni eru 6 sögur
og eitt ljóð eftir aðra söguhetjuna, ljóðið „Amerísk móðir“ eftir Marilyn
Monroe. Sögurnar og ljóðið eru skáldskapur þar sem leikkonurnar tvær leika
aðalhlutverkin. „Allar persónur sem við sögu koma, jafnvel þær Marilyn og
Greta, eru skáldaðar“, segir í aðfarartexta. Bókin er prýdd fjölda mynda eftir
höfundinn af þeim Monroe og Garbo.
Hvort bókin fór hátt eða lágt skal ósagt
látið, á ská eða skjön, upp eða niður, lóðrétt eða lárétt eða beint í æð. Í það
minnsta sker hún sig úr fyrir margra hluta sakir: hún er fallegt bókverk,
sérstök lesning, skemmtileg og furðuleg, harmræn og döpur og svolítið snúin en
umfram allt þess virði að lesa. Kristín Ómarsdóttir, höfundur bókarinnar, lét
tilleiðast í dulítið spjall.
Hvernig kynntistu þeim Marilyn Monroe og Gretu Garbo fyrst? Hafa þær
alltaf fylgt þér? Hefurðu alltaf tengt þær tvær saman?
Já, eða ég hef fylgt þeim, frá því ég var lítil.
Foreldrar mínir áttu viðtal við Marilyn Monroe á stórri segulbandsspólu,
útvarpsþáttur úr danska útvarpinu, þau áttu líka á böndum Woodstock-tónleikana
og fleira, sem við systkinin þræddum í gegn og hlustuðum á í myrkinu - slökktum
ljósin - á svona bandi heyrði ég röddina hennar. Ég byrjaði að lesa um Gretu
upp úr tvítugu og svo tók lestur um vinkonu hennar við. Þá hef ég ímyndað mér,
og ég næstum því trúi ég því, að Greta og amma mín, sem bjó á Bergstaðarstræti,
hafi verið pennavinkonur. Einu sinni þegar ég var að lesa Egils sögu fyrir
nokkrum árum á sunnudagskvöldi sló niður eldingu í huga mér og ég sá stöllurnar
fyrir mér vera að lesa saman bókina - svona gerðist það og þannig lærði ég af
vináttu þeirra.
Hefurðu teiknað alla þína tíð?
Já, frá því ég var krakki, ég er
frístundateiknari.
Má annars nota raunverulegt fólk í skáldskap?
Hikaðirðu fyrst út af tilhugsuninni um raunveruleikann eða byrjaðirðu bara og
hélst svo áfram?
Ég hikaði aldrei. Raunveruleikinn þrífst á
skáldskap og skáldskapurinn þrífst á raunveruleikanum, svo er þetta líka eitt
og hið sama - hormónin eru einhvers konar söguperlur, blóðrásin er taktur. En
sjálf myndi ég ekki vilja að rithöfundar notuðu mig í skáldskap, enda lifi ég
mjög óáhugaverðu lífi. Útlensk kunningjakona heimsótti Ísland fyrir nokkrum
árum, ári síðar vorum ég og fleiri komin inn í ritgerðarsafn hennar. Það þótti
mér óþægilegt, gestrisni minni var misboðið. Ég hef líka beðið Marilyn og Gretu
afsökunar, eins langt og það nær, og vona að ég misbjóði ekki persónum þeirra. Mér finnst ferðamenn skoða
stundum okkur á Íslandi, fólkið og fjöllin, eins og sýningargripi í dýragarði,
og kannski er ég í þessari bók að hrifsa til mín náttúrundur Hollywood og búa
til úr þeim bók; á sama hátt og Roni Horn fangar veðrið á Íslandi og tekur
myndir af sundhöllunum. Eins og sígauninn sem fannst Armstrong og félagar stela
frá honum tunglinu fannst mér myndlistakonan stela frá mér Sundhöllinni í
Hafnarfirði, sem ég tel mig eiga, þegar hún myndaði sundhöllina - þetta eru
mjög fallegar ljósmyndir eftir hana. Svona getur eignarhaldstilfinningin verið
sterk, viðkvæmnin, minnimáttarkenndin, taugaveiklunin og stórlætið. Ég hef
gerst sek um að nota raunverulegt fólk í skáldskap og uppgötva í þessum töluðu
orðum að ég er að stunda menningarrán.
Ég stenst ekki mátið: Einu sinni notaði ég
kaþólska miðaldahugtakið „furta sacra“, heilagur stuldur, til að lýsa einskonar
stuldi í eigin skáldverki, mest á texta eftir Davíð Oddsson ef ég man rétt og
gott ef ekki einhverju smáræði eftir Hannes Hólmstein. Þú seilist lengra burt
og lengra aftur í tímann en gætirðu fallist á að annars vegar sé til vanhelgur
þjófnaður og hinsvegar helgur?
Ætli fólk steli ekki oft af hugsjón? Ef ég stel mat
handa svöngum börnum mínum stel ég af hugsjón fyrir framtíðina, í staðinn fyrir
t.d. að borða börnin. Og ef ég stel banka afþví ég vil lifa stórfenglegu lífi í
stórum sölum, stel ég af hugsjón fyrir sjálfri og mér og mínum, eitthvað
svoleiðis. Að stela virðist eitt af því sem manneskjan gerir jafn eðlilega eins
og að anda. Það á engin orðin og hugmyndirnar, eða jörðina og fjöllin. Þó ég
hafi ríka eignarhaldstilfinningu þá á ég ekkert. Það er líklega jafn heilagt að
ræna bensíni fyrir þúsund kall og númeraplötu á bílasölu og að ræna banka og
lífi og kennitölum og orðum og hugsunum. Hugsanirnar eru eins og regnið.
Í bókinni er mikið af lýsingum á þeim
tveimur, Marilyn og Garbo, og samtölum á milli þeirra, ein lýsing sem ég
staldraði við, las trekk í trekk og festist við minnið er að finna á blaðsíðu
26 í undirkafla með yfirskriftinni "Ath." Hún er svona:´
"Ófáir kölluðu
Marilyn undirlægju; orð sem fannst ekki í orðabók hennar. Hjartahlýju hennar
töldu menn ekki meðfædda heldur afleiðingu misnotkunar. Greta áleit blíðlyndið
stafa af þunglyndi og vera forboða sjálfsvígs; samviskubit vegna þess að dag
einn yfirgæfi hún jarðlífið. Marilyn neitaði að skilgreina góðmennsku sína en
við engan dekraði hún af jafn innilegri þörf og Gretu."
Nú veit ég ekki alveg hvað
ég ætlaði að spyrja um, langaði kannski aðallega að koma þessari tilvitnun að.
En svo ég spyrji að einhverju: Getur verið að þessum orðum sé beint til
samtíðarinnar á einhvern hátt? Góðmennska, hjartahlýja, blíðlyndi, á samtíminn
erfitt með að trúa því að neinni manneskju geti gengið gott til og ekki legið
fiskur undir sérhverjum steini, undirlægja í öllu? Hinum óhreinu er allt
óhreint, minnir mig að segi í mætri bók. Ég er kannski að leggja of mikið á
þessar línur? Væri kannski nær að spyrja í þessari of löngu spurningaröð: Þarf
að frelsa Marilyn sem og Gretu undan þröngum skilgreiningum, setja Marilyn í
skarpan spegil Gretu og öfugt?
Já, tvímælalaust mundi ég halda að orðunum sé beint
til samtíðarinnar. Góðmennskan er tortryggð, hún liggur alls staðar undir grun.
Já, og er ekki flestu snúið við í heiminum okkar? Ekki er allt sem sýnist. Og
heldur þú ekki líka að fegurðin komi að innan?
Það held ég að hún geri, ekki spurning. En
fegurðardísirnar tvær hafa líka sinn sögulega tíma, önnur þeirra fær
aðdáandabréf frá Hitler og Maó formaður er á sveimi. Lagðistu í mikið grúsk um
þær stöllur? Sátu þær til dæmis báðar fyrir í kompaníi með fíl – elefant – eins
og segir í einum myndatexta?
Já, Stalín var bíósjúkur, horfði á kvikmynd á
hverju kvöldi, annað hvort fyrir eða eftir kvöldmat. Ein kvenna Maós var
leikkona og yfirmaður kvikmyndastofnunarinnar. Stalín var líka að grúska í
handritum og með puttana í þeim, stjórnast í ritstörfum annarra. Hann erfði
held ég kvikmyndasafn Goebbels. Einræðisherrarnir voru vafalaust aðdáendur
leikkvennanna. Já, ég grúskaði dálítið og já, þær voru báðar ljósmyndaðar með
fílum, það er satt.
Eða ef maður á að gerast svolítið hátíðlegur:
Felur skáldskapur í þínum huga í sér samfélagsgagnrýni (eða sálarlífsúttekt
þjóðar) sem ekki er hægt að orða með neinum öðrum hætti því þá væri annað hvort
ekki tekið mark á henni eða hún tekin óstinnt upp?
Já, ég held það. Eitthvað svona með beinar og
óbeinar auglýsingar. Ég held jafnvel að við gætum þurft að fara að nota táknmál
og fyrstu söguna í bókinni reyndi ég að skrifa á einhvers konar táknmáli, eða
eins og ég væri að skrifa í landi sem leyfir ekki að hlutir séu sagðir - það
hugsaði ég meðvitað í fyrstu sögunni sem ég skrifaði - og ég held að við búum í
þannig landi, þannig heimi, þar sem ekki er hægt að segja hlutina eins og þeir
eru, þrátt fyrir tjáningarfrelsið, skáldskapurinn dansar í kringum þetta meira
og minna, allir rithöfundar gera það, held ég.
Það er samt bæði gáski og dauðans alvara í
sögunum um fegurðardísirnar tvær. Þú vilt blanda þessu saman, er það ekki? Í
bland við harmræna tóna og erótíska leitarðu eftir ákveðnum léttleika? Þetta er
skemmtileg bók og á líka að vera það, ekki satt?
Takk fyrir það, þetta finnst mér skemmtilegt að
heyra. Ég veit það ekki, ég held mér hafi fundist sögurnar meira sorglegar
þegar ég var að skrifa þær. Þó ég líti á bókmenntir sem iðnað og afþreyingu þá
er ég ekki að hugsa um að skemmta lesandanum þegar ég skrifa. Ég var byrjuð að teikna Marilyn áður
en ég skrifaði fyrstu söguna, og það varð svona að ávana eða áráttu, að teikna
hana, ef ég komst í myndabók með myndum með henni, bók sem ekki mátti taka út
úr húsi einhvers, teiknaði ég upp úr bókinni, eins og til að taka bita af
bókinni með mér heim. Mér þykir gott og gaman að nota blýant og blek í
teikningar, sömu áhöld og notuðu eru við skriftir. Mig langar til að læra
grafík en kannski hef ég ekki tíma til þess og ég er mjög óþolinmóð.
Þú dregur í skálduðu persónunum fram myrkari
hliðar tveggja goðsagna, ekki satt?
Við erum kannski stödd í myrkrakompu að framkalla
myndir af glötuðum filmum sem lágu í geymslum þangað til fyrir stuttu. Finnst
þér það vera myrkar hliðar sem konurnar sýna í bókinni?
Finnst þér mikilvægt að halda þínu eigin svæði
í skrifum þínum, vera á þínum eigin slóðum? Fylgja ekki endilega neinum
straumum?
Já, ég held það. Mig langar til að skrifa mjög
rithöfundalegar bækur, en mér hefur ekki tekist það, svona gamaldags rithöfundalegar.
Þórunn Valdimarsdóttir blés mér anda í brjósti eina nóttina fyrir tuttugu árum
og ég fylgdi þessum anda sem hún gaf mér og enn í dag, og hef líka streist á
móti, bara smávegis. Hún skrifaði manifestó með ósýnilegu bleki þessa nótt.
Vigdís Grímsdóttir hefur haft djúpstæð áhrif á mig. Ég held ég fylgi mjög
mörgum straumum. Ég vil taka allt inn og klæða mig bæði í ný föt og í föt sem
búið er að henda; samt er þetta ekki alveg rétt, ég er ekki fundvís og góð í að
grúska á mörkuðum, í gömlu dóti og bókum, sem t.d. búið er að henda, því minni
heimsins varir svo stutt. Ég öfunda þá sem hafa þolinmæði til að leita og finna
- finna gull á menningaröskuhaugunum. Ég er mjög móttækileg fyrir tískustraumum
og var snemma skömmuð fyrir að vera áhrifagjörn, en ég get líka verið mjög
utangátta og þrjósk. Ætli það sé ekki best að ganga afturábak - eins og ein
vinkona mín gerði eitt sinn þegar hún gekk heim til sín? Ég er dálítið
hrifin af því að Leonardo di Capricio fari ekki í bað vegna þess að hann sé að
spara vatnið, eins og ég las í Fréttablaðinu í morgun, kærastan er alveg að
gefast upp á svitalyktinni - ég dáist svoldið að þessum stíl hans.
Gott hjá Caprio. Hvað ertu að skrifa núna?
Hvert hyggstu næst?
Ég er að ganga frá bók sem heitir Milla, skáldsaga
um tuttugu og eins árs gamla stelpu árið 2001 í Reykjavík. Þegar það er
búið fer ég í aðra skáldsögu sem var langt komin fyrir sex árum þegar ég setti
hana til hliðar, svo langar mig til að yrkja, og nýlega fékk ég hugmynd að sögu
sem felur í sér stórfeldan menningarstuld.
Viðtal: Hermann Stefánsson
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.