föstudagur, 16. mars 2012

Hin skulduga vera


14. mars 2012 var tilkynnt að alfræðiritið Encyclopedia Britannica hefði komið út á prenti í hinsta sinn. Ástæðan er netið, nánar tiltekið Wikipedia. Í miðri nýfrjálshyggjubylgju síðasta áratugar reis undraverkið Wikipedia, tilraun sem heppnaðist en fáir hefðu ef til vill veðjað á fyrirfram. Minni upphefð, meiri anarkó-kommúnismi, meiri skilvirkni, meiri gæði fyrir fleira fólk með minni tilkostnaði. Samkvæmt rannsókn sem birtist í tímaritinu Nature 2005 mældust skekkjumörk Britannicu 3, á mælikvarða sem ég þekki ekki. Skekkjumörk Wikipediu mældust 4. Hvað sem mælieiningin heitir þykir munurinn lítill og er talinn hafa farið minnkandi síðan.

Mánuði áður en tilkynnt var um endalok Britannicu í bókaformi, 13. febrúar, var endir bundinn á annað svolítið sögulegt alfræðiverkefni. Bókasafninu Library.nu var lokað með dómsúrskurði í Þýskalandi. Library.nu var svokallaður sjóræningjavefur. Á meðan hið vel þekkta Gutenberg verkefni hefur frá því í árdaga veraldarvefsins miðlað endurgjaldslaust þeim bókum sem ekki heyra lengur undir höfundarrétt vegna aldurs, þá miðlaði Library.nu, áður Gigapedia.org, þeim bókum sem heyra undir höfundarrétt, ekki síst nýjum og spennandi fræðiritum: þegar vefnum var lokað voru þar tenglar á alls 300 þúsund bókartitla, sérrit á öllum fræðisviðum í bland við skáldskap, handbækur og bækur „almenns eðlis“. Fjöldi fræðimanna og námsfólks hefur vanist vistkerfi rafræna bókasafnsins og að nokkru leyti orðið háður því við störf sín – ófaár lokaritgerðir og rannsóknarverkefni hafa notið góðs af bókakostinum, sem þó er sjaldan getið í þakkarlista eða heimildaskrá enda eru útlánin-dreifingin-afritunin-þjófnaðurinn á gráu svæði, lagalega ef ekki siðferðilega. Fyrirsjáanlega litu stórir bókaútgefendur á tilvist vefsins sem ögrun. 17 forlög höfðuðu mál sameiginlega, þar á meðal HarperCollins, Macmillan og Oxford University Press, og unnu þegar tókst að sýna fram á náin tengsl vefsins sem hýsti spjaldskrána og hins sem geymdi stóran hluta bókanna sjálfra. Hinar skönnuðu bækur eru enn á sveimi um veraldarvefinn, en án vefs á við LIbrary.nu koma þær að álíka gagni og hefðbundið bókasafn án hillukerfis eða spjaldskrár. Vestrænir fjölmiðlar eiga í vandræðum með að fjalla um málið, en twitter-bylgjan stendur enn yfir, með skilaboðum á við: „Trying to do research makes me seriously miss library.nu and seriously loathe publishing companies and a certain Munich judge“ og „Sad! The shutdown of library.nu is creating a virtual showdown between would-be learners and the publishing industry“ – auk óvenjulegs fjölda skilaboða á allt öðrum tungumálum en ensku. Í dagblaðinu The Hindu á Indlandi má lesa um „an angry, disgruntled buzz in several universities across India as students discover that their rock of refuge during research has been shut down by the order of a court in Munich“. Á vef Aljazeera skrifar Christopher Kelty, prófessor í mannfræði við UCLA:  „… become scholars and thinkers; read and think for yourselves; bring civilisation, development and modernity to your people. – Library.nu was making that learning possible where publishers have not.“

Talsmenn sjórána á veraldarvefnum, stuðningsmenn verkefna á við library.nu, líta á sig sem baráttumenn fyrir upplýsingafrelsi og lýðræðisvæðingu þekkingar, andspænis harðstjórn alþjóðahagkerfisins og sérhagsmunum risafyrirtækja. Talsmenn höfundarréttar, þeir sem hafa ekki aðeins ágóða að augnamiði heldur vísa til einhvers konar hugsjóna, líta svo á að þeir standi vörð um gæði verka með því að viðhalda kerfi endurgjalds fyrir unna vinnu. Þarna fara fram átök þar sem liðsmenn beggja vegna víglínunnar eru ekki bara sannfærðir um réttmæti eigin sjónarmiða, heldur segja þau liggja í augum uppi. Einmitt þess vegna eru átökin áhugaverð. Burt séð frá hagsmununum, hver eru grundvallaratriðin sem takast hér á?


Goðsagan um vöruskipti

David Graeber heitir breskur mannfræðingur, með rannsóknarstöðu við Goldsmiths háskóla í London. Árið 2011 kom út eftir Graeber bókin Debt: the first 5,000 years. Innblásturinn að bókinni er umræða um niðurfellingar skulda svonefndra þriðja heims ríkja og viðkvæðið sem Graeber segist hafa rekist á að „fólk verði að borga skuldirnar sínar“. Öðrum þræðinum er bókin áhugaverð og greinargóð hrakning á þessari hugmynd, sem má í stuttu máli taka saman þannig: nei, skuldir eru ekki til þess gerðar að vera greiddar heldur velta áfram, ekki í þessum heimi, þessu kerfi – ef allar skuldir væru greiddar myndu hagkerfi heimsins lamast og peningar verða verðlausir.

Annað leiðarstef í bók Graebers er yfirveguð árás a goðsögnina um vöruskipti sem undanfara peninga. Markaðssamfélög segja sjálfum sér þessa sögu um uppruna kerfisins sem þau hvíla á: að fyrir tilkomu peninga hafi hænsnabóndi sem vantaði eldhúsborð þurft að finna trésmið sem vantaði egg, eða mynda keðju milliliða, hóa saman fólki sem langaði hvert í varning annars og gerði honum kleift, að endingu, að fara með nýtt eldhúsborð heim af markaðnum. Þetta hafi verið erfitt og tímafrekt þar til við fundum upp á peningum til að auðvelda skiptin: þaðan í frá þurfti hænsnabóndinn ekkert að vita um milliliðakeðjuna, heldur þáði einfaldlega fé fyrir eggin og greiddi með sama fé fyrir borðið. Einn algildur milliliður var eins og smurning á heim sem fram að því hökti.

Graeber segir að engin heimild sé til um að nokkurs staðar, nokkurn tíma, hafi slíkt vöruskiptasamfélag fyrirfundist fyrir tilkomu peninga. Aldrei. Graeber segir að hugsanavillan í goðsögninni sú sú að gera ráð fyrir að fyrri tíðar samfélög hafi verið hreint eins og okkar, hlutverkaskipting og samskipti farið fram með sama hætti, nema að þennan lykilþátt, peningana, hafi vantað. Hann segir: að skiptast á vörum með þeim hætti sem goðsagan um árdaga peninganna lýsir, er eitthvað sem aðeins á sér stað í samfélögum þar sem fólk hefur vanist peningum en þeir hverfa skyndilega, í óðaverðbólgu eða annars konar upplausnarástandi.

En hvað gerði fólk þá við hluti ef það átti ekki vöruskipti? Fólk gerir þrennt við hluti sín á milli segir Graeber – gerði og gerir enn – og lifir í þrenns konar efnahagslegum venslum. Þessi vensl eða kerfi kallar Graeber kommúnisma, stigveldi og viðskipti.


Kommúnismi eða „réttu mér skiptilykil“

„Hér mun ég skilgreina kommúnisma,“ segir mannfræðingurinn Graeber „sem hvaða samband milli fólks sem hvílir á forsendu viðmiðsins „hver gerir eins og hann getur og fær það sem hann þarf.“ Hann bætir við: „Ég viðurkenni að þessi notkun er svolítið ögrandi.“ Gott. Það sem Graeber gerir með þessari skilgreiningu hugtaksins, sem vísar beint til Karls Marx, er að færa kommúnisma frá heimspekilegum ídealisma inn í mannfræðilegan veruleika, þar sem hann er hvorki ríkisrekinn stórglæpur fyrri tíma né draumaland framtíðar, heldur eitt þeirra sviða sem við tilheyrum alltaf nú þegar í daglegu lífi okkar. „Öll hegðum við okkur eins og kommúnistar drjúgan hluta dags. Ekkert okkar hegðar sér eins og kommúnisti viðstöðulaust. … Nánast allir fylgja þessu viðmiði þegar þeir eiga í samstarfi um sameiginlegt verkefni. Ef maður er að gera við bilaða vatnslögn og segir: „Réttu mér þvinguna,“ segir samstarfsmaður hans yfirleitt ekki: „Og hvað fæ ég fyrir það?“ – ekki einu sinni þó að þeir séu að störfum fyrir Exxon-Mobil, Burger King eða Goldman Sachs. Ástæðan er einfaldlega skilvirkni (sem er kaldhæðnislegt ef þau alþekktu sannindi eru höfð í huga að „kommúnismi einfaldlega virki ekki“): ef þér er annt um að koma einhverju í verk, þá er skilvirkasta leiðin til þess augljóslega að úthluta verkefnum eftir getu og að sjá til þess að allir hafi það sem þarf til að vinna þau.“

Þegar maður biður ókunnugan um eld, jafnvel sígarettu, eða önnur lítil viðvik af þeim toga, þá gildir annað en ef beðið er um jafngildi í peningum eða mat, segir Graeber: hafi verið borin kennsl á mann sem félaga í reykingum er erfitt að hafna slíkri beiðni. „Samræða,“ heldur hann áfram, „er svið sem liggur sérstaklega vel fyrir kommúnisma. Lygar, móðganir, niðurlægingar og aðrar gerðir munnlegrar árásargirni eru mikilvægar – en máttur þeirra er háður þeirri almennu ályktun að fólk hegði sér yfirleitt ekki með þeim hætti: móðgun kemur ekki við kauninn á neinum nema vegna þess að maður gerir ráð fyrir að aðrir taki yfirleitt tillit til tilfinninga manns,“ og hann bætir því við eins og Kant gerði fyrir löngu síðan í öðru samhengi að það sé ómögulegt að ljúga að einhverjum nema hann geri ráð fyrir að maður segi yfirleitt satt. „Þegar við viljum slíta vinsamlegum böndum við einhvern hættum við með öllu að tala við viðkomandi.“

Gott og vel – einhvers staðar þarna liggur það sem Graeber kallar „lágmarks-kommúnisma“ og segir einkenna öll nærsamfélög. Á íslensku er talað um að „deila kjörum með“ öðru fólki. Hásetahlutur á bát er gott dæmi um kommúnisma í þessari merkingu: hver og einn leggur til eftir getu og fær síðan jafnan hlut í lok túrs. Þetta kerfi lifir enn og má hugsanlega hafa til marks um að það skipti máli upp á skilvirkni um borð, við hættulegar og erfiðar kringumstæður, að þar deili menn kjörum. Hliðstæð innsýn hefur líklega legið til grundvallar þegar um það var deilt á Alþingi upp úr 1980 hvort íslenskt samfélag myndi þola að launamunur yrði þar þrefaldur eða þaðan af meiri.

Kommúnískir blettir. Bókasöfn, háskólasamfélög, leikvellir, fjölskyldur og heimili, vinir, matarboð, „geturðu rétt mér saltið“. Þetta eru engar paradísir, þorpin eru ekki friðsæl og þessi kommúnismi er ekki samheiti við eilífan kærleika og gæsku. En viðmiðið sem Graeber nefnir kommúnisma virðist vera þarna. Um leið og bent hefur verið á það virðist það vera til staðar sem rammi um fjölmörg svið daglegrar tilveru okkar og einkennandi fyrir samskipti jafningja.


Stigveldi eða Egill og ljóðin

Stigveldi eru þarna líka, og raunar oft á sömu slóðum: þau ramma inn samstarf píparanna hjá Exxon-Mobil, hásetanna á togaranum, akademíurnar og fjölskyldurnar: „Við erum öll kommúnistar með nánustu vinum okkar en lénsherrar við lítil börn“. Innan stigvelda skiptumst við ekki á hlutum eftir jafnaðarlögmáli, heldur sem táknum um vald. Innan stigveldissamfélaga, eða höfðingjasamfélaga, eru heiður og sæmd ekki bara siðferðileg undirstöðuatriði, heldur grundvöllur hagkerfisins. Graeber tekur meðal annars dæmi úr íslenska lénssamfélaginu, úr Egils sögu. Egill, kominn nokkuð á aldur, eignast ungan vin sem heitir Einar: fjörugan, sigldan og hagmæltan. Einar mætir einn dag í heimsókn en Egill er ekki heima. Einar hefur með sér skjöld sem jarl hafði gefið honum fyrir kvæði, „og var hann hin mesta gersemi; hann var skrifaður fornsögum, en allt milli skriftanna voru lagðar yfir spengur af gulli, og settur steinum.“ Þegar Einar hefur beðið Egils í þrjár nætur, og Egill er enn ókominn, skilur hann skjöldinn eftir, heldur heim „og sagði heimamönnum, að hann gaf Agli skjöldinn“. Þegar Egill kemur heim og fréttir af skildinum verður hann brjálaður: „Mæli hann allra manna armastur! Ætlar hann, að eg skyli þar vaka yfir og yrkja um skjöld hans? Nú takið hest minn. Skal ég ríða eftir honum og drepa hann.“ Þannig virka gjafir innan stigveldis, þær fela í sér bæði viðurkenningu og áskorun, kröfu um hæfilega ójafnt endurgjald. Innan þess kerfis er hægt að misstíga sig. Á vinnustað getur til dæmis verið vandræðalegt að bjóða yfirmanni mola úr konfektkassa sem maður deilir með starfsfélögum vandræðalaust – gagnvart þeim er maður kommúnisti, en gagnvart yfirmanninum leiguliði og konfektmolinn hlaðinn ólíkri merkingu innan þessara ólíku kerfa, eins þegar allir þátttakendur gera sitt besta til að láta eins og kerfin séu hreint ekki þarna. Vandræðaleikinn sem einkennir alla tilvist millistjórnandans Davids Brent í þáttaröðinni The Office snýst að verulegu leyti um það dómgreindarleysi hans að ætla að fá bæði sleppt og haldið: hann vill vera kumpáni undirmanna sinna og yfirmaður þeirra. Úr verður pínleg, viðvarandi valdníðsla.


Verslun eða Skúli þrælahaldari

Þriðja kerfið er loks viðskipti eða verslun. Og þó að hugmyndin um verslun sé alltumlykjandi í samtíma okkar er hún frekar ný af nálinni sem viðmið. Sem slík raskar hún þeim félagslegu venslum sem fyrir voru, siðum og venjum um vegferð hluta. Enda er tilkoma kapítalismans, segir Graeber, tilkoma ríkja, þrælahalds, lögreglueftirlits, striðsátaka og verslunar sem fylgjast að hönd í hönd. Í sögunni sem Graeber segir eru ríki og markaður ekki þær andstæður sem ætla má af ríkjandi hugmyndafræði síðustu áratuga, heldur nauðsynlega samofin. Dæmi Graebers eru flest frá því landvinningatímabil Evrópu hófst á 15. öld. Mig langar að taka nærtækara dæmi og líta til kafla þeirrar Íslandssögu sem kennd er í grunnskólum, í þessu samhengi – kafla sem er kenndur og þátta sem eru hunsaðir.

Þegar mér var kennd Íslandsgoðsaga í grunnskóla var staldrað við bernskuminningu 18. aldar mektarmannsins Skúla Magnússonar síðar fógeta, frá því að hann starfaði fyrir danskan kaupmann, undir einokunarversluninni alræmdu. Danski kaupmaðurinn kom fram við Íslendingana sem eitthvað annað en kunningja, eitthvað fjarlægara, fólk sem hann þurfti ekki að deila kjörum með. Þegar Skúli var að vigta korn til Íslendings sagði kaupmaðurinn: „Mældu rétt, strákur“ og í það minnsta skildi Skúli hann sem svo að hann ætti að mæla vitlaust: gæta þess að minna korn færi í sekk viðskiptavinarins en hann hafði greitt fyrir. Það hefur áreiðanlega ekki þótt feitasti bitinn í konungsríkinu að vera kaupmaður á Íslandi, og hafi kaupmaðurinn meint það sem hann sagði eins og Skúli skildi það, sem er alls ekki óhugsandi, þá hefur hann vafalaust aðeins verið að reyna að rétta sinn hlut, hann sem hefur vafalaust átt eitthvað miklu betra skilið en norpa á miðju hafi án leikhúss, dansiballa og heimspekifyrirlestra á kvöldin. Og líklega hefur hann átt fátt saman við kúnnana að sælda utan verslunarinnar. Hugsanlega hefur hann gætt þess að kynnast þeim ekki, einmitt til að geta staðið sína plikt í kaupmennskunni. Mælt jafn rétt og honum var frekast unnt.

„Þegar við tökum að hugsa um kommúnisma sem siðferðilegt viðmið“ segir Graeber, „frekar en bara spurningu um eignarhald, verður ljóst að siðferði af þessum toga er alltaf að einhverju leyti til staðar þegar skipst er á einhverju – jafnvel við verslun. Ef maður á í félagslegu samneyti við fólk er erfitt að hunsa stöðu þess fullkomlega. Kaupmenn lækka oft vöruverð fyrir þá sem líða skort. Þetta er ein meginástæða þess að verslunarfólk í fátækrahverfum er nær aldrei af sama þjóðabroti og viðskiptavinir þess; það væri næstum ómögulegt fyrir kaupmann sem ólst upp í hverfinu að græða pening, þar sem hann yrði undir stöðugum þrýstingi um að gefa fólki séns, fjarhagslega, eða í það minnsta veita hagstæð lán, til fátækra ættingja og skólafélaga.“

Einokunarverslunin hefur þá í það minnsta haft þetta til síns ágætis: þar sem kaupmaðurinn kom að utan, staldraði svo og svo lengi við í landinu en var alltaf og varanlega aðkomumaður í huga heimafólks, með annað tungumál og aðra siði, þá gátu heimamennirnir sameinast um að bölva honum fyrir ósanngirnina, hrokann, stærilætið og svo framvegis, án þess að nokkuð skarð kæmi í þeirra eigið samfélag. Þvert á móti hefur það áreiðanlega verið samþjappandi og samfélagseflandi dægradvöl á mannamótum, eins og tal um útrásarvíkinga frá haustinu 2008.

Skúla ofbauð að Danir skyldu svindla fé úr Íslendingum, ofbauð svo að hann yfirbauð og hóf áratugum síðar þrælahald, sem má fyrir sitt leyti segja að sé ærlegra arðrán, blátt áfram en ekki undirförult og svikult eins og danska arðránið. Þrælar Skúla, fangelsaðir fyrir að vera flækingar eða það sem nú heitir atvinnulausir, voru hýstir í tugthúsinu þar sem stjórnarráðið er nú og látnir vinna fyrir sprotafyrirtæki Skúla, Innréttingarnar, iðnaðarfyrirtækið sem hann kom á laggirnar fyrir opinberan styrk en setti á hausinn fyrir því. Skúli rændi þrælana sínu frelsi en skattlagði aðra landsmenn til að greiða fyrir hlekkina og varð fyrir vikið sæmdur heiðursnafnbótinni faðir Reykjavíkur. Þrælarnir skrifuðu ekki eina einustu bók um lífsreynslu sína, höfðu aldrei nein hnyttin ummæli eftir Skúla það spurst hafi, enda sultu þeir þar inni þegar næst gerði kreppu. Því þannig skolaði byltingunni á land norður í hafi: 1789 var pólitískum nútíma hrint úr vör í París með áhlaupi á Bastilluna þar sem fangar voru leystir úr haldi. Aldarfjórðungi síðar hrakaði vöruflutningum frá Danmörku til Íslands vegna Napóleonsstríðanna. Fyrsta viðbragð íslenskra yfirvalda, staðbundin túlkun á þeim vindum frelsisins sem blésu frá Evrópu, var að láta þrælana í stjórnarráðshúsinu svelta í hlekkjum sínum, enda vinnuveitandinn farinn á hausinn þrátt fyrir hagstæð kjör á vinnumarkaði. Þetta er upphafsreitur iðnaðar og markaðar á Íslandi, arfleifð „föður Reykjavíkur“ – í fullkomnu samræmi við uppruna kapítalismans í öðrum heimshlutum, og í samræmi við framhaldið eins og það blasir jafnt við Íslendingum og Grikkjum.

Þrælahald Skúla fógeta var tilefni til að hlaða og múra almennilega veggi í fyrsta sinn: fyrsta steinhúsið á Íslandi var reist undir þrælana hans Skúla.


Brúarsmiðir við múrhleðslu

Er þetta ósanngjörn mynd að draga upp til að bera saman lögmál lágmarks-kommúnisma og verslunar? Áreiðanlega. Og það er jafn ósanngjarnt að segja: hið nauðsynlega samspil ríkja og einkaaðila til að viðhalda markaðshagkerfi birtist aftur um þessar mundir þegar lögum er breytt og dómsmál höfðuð til að stöðva verkefni á við Library.nu. Það er ósanngjarnt að bæta þessu við: Þeir sem við vöndumst að sjá við brúarsmíð og færðu okkur heiminn birtast okkur skyndilega við múrhleðslu: þeir reisa veggi og hindra för okkar til að vernda rétt sinn til innheimtu brúartolla. Eða þetta: Svo miklu fé og hugviti er nú varið í framleiðslu hindrana, að útgefendur vilja selja rafbækur fyrir sama verð og prentaðar, og greiða höfundum sama fjórðungs-hlutinn af söluandvirðinu, með þeim rökum að afritunarvarnir sé jafn dýrar og bókagerðin hingað til: umbrot, pappír, blek, prentun og bókband. Með öðrum orðum hyggjast útgefendur kosta jafn miklu til að hlaða múra og áður til að byggja brýr, en rukka lesendur fyrir þjónustuna eins og hún sé af sama toga. Eins og allt hafi ekki breyst.

Það er óþægilegt að nefna þetta vegna þess að bókaútgefendur eru að uppruna brúarsmiðir og réttilega stoltir af starfi sínu. Þeir geta meira að segja rökstutt múrana, ekki síst fyrir rithöfundum: hver á að skrifa góðar bækur ef enginn fær greitt fyrir það? En eigi að svara þessari retórísku spurningu af nokkrum heilindum þarf ef til vill að líta til þess hvernig er í reynd greitt fyrir bækur: að lesendur greiða höfundum nú þegar laun gegnum listamannalaun ríkissjóðs; að höfundar leita hver til annars, til kollega og vina, til að fá yfirlestur, ráðleggingar og ritstjórn, hver öðrum harðlínukommúnistar; að höfundarstarf innan fræða er ýmist unnið fyrir námslán eða rannsóknarstyrki; að sölutekjur af bókum eru flestum höfundum í mesta lagi svolítil þóknun; að bókabúðir eru alltaf að fara á hausinn og láta bjarga sér og það eru opinberir styrkir líka; að hagkerfi bóka er þegar blandað hagkerfi. Svolítið kommúnískt, svolítið stigveldisbundið, svolítið kapítalískt.

Bókasafnið Library.nu, aðgengilegasta bókasafn veraldar, var lagt niður að kröfu múrara um leið og fyrri tíðar múrfellirinn Encyclopedia Britannica laut í vinsemd og bróðerni höfði fyrir de facto arftakanum, Wikipediu. Skulum við segja. Segjum líka að staðan sé þá 1:1 og leikurinn æsispennandi, hvort sem vinnutilgáta okkar um múra er sú að þeir rísi, standi, falli eða séu ekki þarna. Og jú, víst eigum við öll vinnutilgátu um múra.


Að hlaða spegla

Það má heita ljóst hver vinnutilgáta Graebers er. Undir lok bókarinnar fellur hann hins vegar í gryfju sem virðist stundum ómótstæðileg innan gagnrýninna samfélagsfræða: þegar greiningunni og sögurýninni sleppir tekur við tveggja blaðsíðna kafli þar sem hann leggur drög að svari við spurningunni: hvað ber að gera?

„Í þessu riti hef ég að mestu leyti forðast að leggja fram áþreifanlegar tillögur, en leyfið mér að ljúka máli mínu á þeim nótum. Mér virðist að það sé löngu tímabært að halda einhvers konar biblískt júbileum sem myndi snerta bæði á alþjóðaskuldum og neysluskuldum. Það væri fagnaðarefni, ekki aðeins með því að létta á svo mikilli raunverulegri mannlegri þjáningu, heldur einnig með því að minna okkur á að peningar eru ekki ósnertanlegir, að það að borga skuldir er ekki siðferðilegt kjarnaatriði, að allir þessir hlutir eru manngerðir og ef lýðræði á að hafa nokkra þýðingu felst hún í getunni til að samþykkja sameiginlega að haga hlutum öðruvísi.“

Gott og vel. Kannski finnur maður til meiri þreytu gagnvart þessari orðræðu á Íslandi en annars staðar – en hún mætir mér nú sem bitlaus og áhrifalítil. Gildi bókarinnar liggur í greiningunni, í mannfræðinni. Ritið nær að storka hugmyndum, setja eitthvað á hreyfingu innan storknaðra orða. Pólitíska aðferðafræðidaðrið seilist hins vegar í átt að samsöng eða peppi, sem getur verið full þörf fyrir á einhverjum vettvangi en er svo kunnuglegt og má svo víða finna í eftirhrunssíbyljunni að það birtist mér nú sem uppgjöf. Eins og hugsun bókarinnar sé vigtuð og allt sem á undan fór þar með þýtt yfir í fjölda like-smella á kapítalismann eða múrfall. Ekki að ég sé með betri tillögu. Ég er bara orðinn þreyttur á tillögum. Eða í það minnsta að þær birtist á öllum stöðum, svona fyrirsjáanlega, eins og gítarsóló á miðjum níunda áratugnum. Tillaga er tómatsósa. Gakktu sjö sinnum kringum Stjórnarráðið rangsælis á Jónsmessunótt, sjö sinnum sjö sinnum rettsælis kringum kínverska sendiráðið undir dögun á næsta vorjafndægri, speglaðu þig í Kauphöllinni a aðfaranótt þriðju hvítasunnu eftir næsta hlaupár, og sjá: dagur mun rísa.

Haukur Már Helgason

5 ummæli:

  1. Takk fyrir afar vandaða og forvitnilega grein!

    SvaraEyða
  2. Helgi Ingólfsson17. mars 2012 kl. 07:02

    Við Íslandsgoðsöguna af Skúla fógeta í þessari grein er margt að athuga.

    Í fyrsta lagi felst í því dæmi, með því að tala um "þrælahald" Skúla, skilningsleysi á réttarfarshugsun og umbótaviðleitni 18. aldar, hvort tveggja nátengt Upplýsingunni. Í greininni, með því að tala um þrælahald Skúla, er verið að færa vandlætingarfulla pólitíska rétthugsun 21. aldar yfir á 18. aldar veruleika. Slíkt ber ekki vitni um ýkja djúpan sögulegan skilning.

    Í öðru lagi má nefna að Skúli hætti beinum virkum afskiptum af Innréttingunum árið 1764, þótt hann kæmi áfram tilneyddur að rekstri þeirra fyrir dönsk verslunarfélög og konungsverslun í framhaldinu. Fangelsið á Arnarhóli var hins vegar ekki tekið í notkun fyrr en um 1770. Að væna Skúla Magnússon um þrælahald í þessu samhengi er í besta falli söguleg ónákvæmni og í versta falli rangfærsla um staðreyndir. Ef einhver hélt fangana á Arnarhóli sem "þræla" (sem ég tel í sjálfu sér afar hæpna fullyrðingu), þá var það ekki Skúli, heldur eigendur Innréttinganna á hverjum tíma þaðan í frá, með samþykki hlutaðeigandi yfirvalda.

    Í þriðja lagi var Skúli vissulega valdsmaður, en hann var landfógeti og hafði því fyrst og fremst með fjármál konungseigna að gera, ekki dóms- eða fangelsismál. Ráðstöfun vinnuafls úr fangelsum um hans daga hefði í grundvallaratriðum heyrt undir aðra embættismenn, t.d. stiftamtmann, amtmann eða lögmenn.

    Mér sýnist umfjöllunin hér að ofan einmitt miða að því að skapa "nýja Íslandsgoðsögu" um "þrælahaldarann Skúla Magnússon" og má Guð vita hvaða fræðilega tilgangi sú bjögun á að þjóna.

    SvaraEyða
  3. Ertu ekki aðeins of snöggur, Helgi? Notkun greinarinnar á hugtakinu kommúnismi og útlistunin á því jaðrar fremur við vísvitaða pólitíska ranghugsun en rétthugsun. Og er ekki full fljótunnið verk að búa til eitt stykki Íslandsgoðsögu ef bloggfærsla dugir til? Er ekki einmitt hárrétt að reyna að klóra í allar sögugoðsagnir á hverjum tíma? - kveðja, Hermann Stefánsson

    SvaraEyða
  4. Helgi Ingólfsson17. mars 2012 kl. 10:35

    Sæll aftur Hermann.

    Ef til vill er eitthvað paródískt, kyniskt eða satírískt í greininni, sem ég kem ekki auga á. Ef svo er, þá kann athugasemd mín að vera fljótfærnisleg og biðst ég velvirðingar á því. En ég er ekki að gagnrýna kenningar Graebers (sem ég gæti í sjálfu sér haft nógu mikið um að segja, enda verð ég alltaf skeptískur þegar menn telja sig sjá "almenn sannindi", sem enginn hefur komið auga á áður, sbr. "uppgötvun" eða staðhæfing Graebers um vöruskipti - af sama toga var "íslenska viðskiptamódelið" á sínum tíma: Augljós sannindi sem erlendir kaupahéðnar komu auga ekki auga á. Dö.)

    Ég er eingöngu að benda á að í fræðikenningum er nauðsynlegt að fara rétt með staðreyndir. Kenningin verður ekki sterkari, ef staðreyndir að baki henni standast ekki. Vissulega er ósköp eðlilegt og sjálfsagt að hafa samúð með lítilmagnanum, eins og skín út úr texta greinarinnar, en samúðin verður ekkert meiri eða betri með rangfærslum eða staðreyndavillum um "yfirvaldið", "arðræningjann" eða hvað við viljum kalla hann.

    Annars velti ég því einig fram hvað anekdótan um Skúla á að sýna í tengslum við þriðja félagslega viðmiðið, þ.e. viðskipti, og finnst það engan veginn ljóst af samhengi greinarinnar. Þess vegna þyrfti betra dæmi (nær-kommúnisminn og stigveldið eru nægilega auðskilin hugtök sem slík, þótt ekki sé fyllilega sýnt fram á hvernig þau komi í stað vöruskiptahugmyndarinnar.)

    Og reyndar finnst mér alveg hægt að snúa keningum Graebers á haus og færa rök fyrir því að öll samfélög fyrr og síðar, með og án peninga, séu einmitt vöruskiptasamfélög, þar sem peningar eru í reynd bara eitt form vöru, verðlögð misdýrt, til milliliðanotkunar.

    Og, jú - rétt er það, allar sögugoðsagnir má klóra í. En ef það er gert á fræðilegum forsendum, þá verða staðreyndirnar að standast. Svo má líka benda á afstæði hugtaka. Þannig tókst t.d. þrælaeigendum í Suðurríkjum Bandaríkjanna að gera hugtakið "þrælahald" jákvætt í hugum margra, því að þrælaeigandinn veitti jú þræl sínum fæði, klæði og húsaskjól, meðan verksmiðjueigandinn í Norðurríkjunum nýtti sér eingöngu hræbillegt vinnuafl örsnauða innflytjandans, en henti honum síðan út á Guð og gaddinn, án nokkurrar frekari "samfélagslegrar" ábyrgðar.

    Annars skil ég nú ekki alveg hvers vegna meint "þrælahald Skúla" er inni í þessari grein á annað borð og er líklega farinn að flækja umræðuna langt umfram það sem ég ætlaði...

    Kveðja.

    SvaraEyða
  5. Haukur verður náttúrulega bara að svara því ef honum sýnist svo. Sjálfur held ég því til haga að í mínum huga er færslan fyrst og fremst fremur varfærnisleg hugleiðing um rafbækur og möguleika þeirra með ákveðnum heimspekilegum grunni sem snýr að því hvernig hlutir skipta um hendir, innlegg í svolítið erfiða umræðu nú um stundir. Kveðja, Hermann

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.