laugardagur, 10. mars 2012

Kæra Kristín - 1. hluti



Hæ. 

Þú afsakar draslið. Hér fást sem betur fer engar gleiðlinsur.

Beint að efninu.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé talsverð kúnst að gefa bækur. Og kannski meira að segja kúnst í skandinavíska skilningnum – list. Bókagjöf getur glatt og uppljómað á einhvern undarlegan hátt, umfram þá gleði og uppljómun sem maður hlýtur af bókinni. Augljósasta dæmið er náttúrulega þegar maður fær bækur eftir einhvern sem maður þekkir – en maður getur líka glaðst yfir hittingnum, glaðst að gjöfin skuli hitta í mark, glaðst að einhver skuli þekkja mann og vita að maður vill ekkert frekar í heiminum en akkúrat þessa bók. Stundum áttar maður sig ekki einu sinni á því fyrren í miðju kafi – á þessu þarna augnabliki fyrir miðri bók þar sem hún annað hvort neglir mann endanlega eða ekki – hvað gefandinn var að fara. Og það er meira en það sem stendur skrifað. 

Það getur líka verið algerlega yfirgengilegt og út yfir allt velsæmi að gefa bók, einsog Jón Baldvin Hannibalsson hefur sýnt fram á og var í fréttum nýlega, og skiptir þar miklu máli hvaða skilaboð fylgja með – en ekki samt endilega. Þegar ég var rétt skriðinn yfir tvítugt ljósritaði ég einu sinni sögu fyrir tvær stelpur sem ég átti að kenna ensku til samræmds prófs, og þær tóku því svo illa að þær komu aldrei aftur. Sagan var The Man Who Taught his Asshole to Talk. Og er alveg áreiðanlega yfir strikið þegar maður er fjórtán ára. En ég var þá og er reyndar enn þeirrar skoðunar að unglingar þurfi að komast í tæri við libidískar bókmenntir – bókmenntir um ofbeldi og kynlíf – ekki vegna þess að ég sé svo vondur maður (nema ég sé það alveg ómeðvitað, sem er auðvitað alveg hugsanlegt, sérstaklega á síðustu og verstu) heldur vegna þess að ég tel að libidískar bókmenntir séu sérstaklega vel hönnuð tól til sjálfskoðunar og nautnar þegar maður er á sínum hormónuðustu skeiðum.

Og kannski er ég bara fúll að hafa verið næstum átján þegar ég komst yfir Geirvörtur Dags Sigurðssonar, Kvíabryggjukantötuna og bítskáldin. Mér leið einsog ég hefði verið að leggja kapal í mörg ár, algerlega óvitandi um að allir bestu vinir mínir væru saman að skemmta sér bara í næsta herbergi.

Yfirleitt eru bókagjafir samt bara so and so, einsog gengur. Redding fyrir horn. Alltof oft, held ég. Eða þá við þorum ekki. Gefum öruggar bækur. Og það hefur ábyggilega áhrif til lengri tíma.

En nú er ég kominn út fyrir efnið. Down & Out in Shoreditch and Horton eftir Stewart Home er bók sem ég er ekki viss um að ég myndi þora að senda hverjum sem er. Eða vilja senda hverjum sem er. Ég hugsa að ef maður kenndi í grunnskóla væri hægt að láta reka mann fyrir að gefa þessa bók. Eða að minnsta kosti senda mann í nokkurra mánaða frí. Hún fjallar um London, í einhverjum skilningi, heimspekilegum, sagnfræðilegum, kapitalískum, kommúnískum og kannski umfram allt annað libidískum skilningi; fjallar um gjörningakonu sem hefur tekið upp vændi í listrænum tilgangi, og eyðir stórum hluta bókarinnar í að rífast við kúnna um allt frá Dickens yfir í Marx (sem notaði vændi sem myndlíkingu fyrir arðrán og súbjektívitet almennt) yfir í hver það var sem kallaður var Jack the Ripper – og nær líklega hámarki sínu þegar gjörningakonan ákveður að gera snöff-mynd og ríða einn kúnnann í hel (með hjálp óteljandi samstarfskvenna sinna).

Þetta er sem sagt svolítið einsog ef Bónusstelpan væri súperintellektúal sýkópati. 

Nú get ég ekki beinlínis sagt að mín hafi verið „hugsað til þín“ þegar ég las þessa bók – það væri strax langt yfir strikið. En það er nú samt þannig að mín varð hugsað til þess að þér gæti áreiðanlega þótt þetta skemmtilegt. Ég vona að í því felist enginn áfellisdómur, hvorki yfir minni persónu né þinni. Ég get svo lofað því alveg í bak og fyrir að „sígraðir satýríkonar“ (sem hlýtur nú að verða titill á ljóðabók fljótlega) hafa hvergi komið nálægt þessari bók, það ég hef tekið eftir hið minnsta, og alls ekki í ham.

Það er tvennt sem ég vil taka fram að lokum – 1) Ég reikna með því að sítatið framan á bókinni ("A repellent, sick psychodrama that is sadistic, morally reprehensible and has no redeeming features whatsoever. I loved it! – Kathy Acker") sé bógus, því Kathy Acker hafði verið dáin í mörg ár þegar bókin kom út. 2) Og síðan er nú það alvarlega í þessu öllu saman: ég fékk þessa bók sjálfur að gjöf. Og ég fékk hana meira að segja frá höfundinum sjálfum. Ég veit að maður á ekki að gefa bækur sem maður fær gefins. En einsog ég segi, þá er ég ekki vondur maður með vilja þótt ég sé það með meðvitund – eða réttara sagt þá stefnir vilji minn í margar áttir. Ef þú vilt máttu líka gefa hana áfram, mín vegna.

Fyrst og fremst vona ég að þér finnist hún skemmtileg og uppljómandi.


Bestu kveðjur,
Eiríkur

ps. Allar málsgreinar í bókinni eru akkúrat 100 orð. Ég tók reyndar ekki
eftir því þegar ég las hana heldur uppgötvaði það síðar. Svo sjálfsagt
skiptir það engu máli.

- Eiríkur Örn Norðdahl

3 ummæli:

  1. Ég skildi ekki aðra setninguna fyrren gleðikonurnar breyttust í gleiðlinsur. Ég veit ekki hvað það segir um mig. Sjálfsagt skiptir það engu máli.
    æöj

    SvaraEyða
  2. En skemmtilegt! Ég dvaldi einmitt nokkra daga í Shoreditch sumarið 2010, þótt ég yrði reyndar ekki vitni að neinu ískyggilegu. Ég hlakka til að lesa hana, og hver veit nema ég svari með umfjöllun á druslusíðunni eftir lesturinn.

    SvaraEyða
  3. Fínt pósthús í Oulu. (Væruð þið til í að afstilla þannig að maður þurfi ekki að afrita beygluðu stafina ef maður skrifar komment?).

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.