mánudagur, 26. mars 2012

Tímavélin - eða P.G. Wodehouse og eftirsjáin


Þök háhýsanna
P.G. Wodehouse er minn eftirlætis nostalgíumeistari (eða öllu heldur einn af þeim). Í einni fyrstu sögu hans sem ég kynntist er lýst New York millistríðsáranna, með sérstakri áherslu á þök háhýsanna. Þá var ég þrettán ára og lá síðan fullur eftirsjár í rúminu, beið svefns og hugsaði um þök háhýsanna – um hvað þessi tími hefði verið einfaldari, saklausari og að mörgu leyti betri en nútíminn (sem var árið 1983). Þó hafði ég aldrei komið til New York og ekki verið uppi árið 1927, þegar bókin er gefin út. Það er ef til vill ekki erfitt að kalla fram eftirsjá mannsins eftir eigin fortíð en á hinn bóginn aðeins á færi meistara að skapa í manni eftirsjá eftir ókunnum stað og stund.
P.G. Wodehouse. Gestabloggari dagsins, Ármann Jakobsson,
fjallar um nostalgíu í verkum hans.
Nostalgía er eitt af þessum skrýtnu grísku orðum sem ryðjast inn í önnur tungumál í krafti allra merkingaraukanna sem það hefur hlaðið utan á sig á löngu ferðalagi um aldir og álfur en innfæddu orðin geta aldrei verið jafn rík af. Nostalgía merkir upphaflega heimþrá en vegna ímyndunaraflsins getur maðurinn líka fengið heimþrá til ókunnra staða og liðinna alda og þó eru staðirnir þá ekki ókunnir heldur virðast einmitt kunnuglegri en eigin staður og stund. Þannig tilfinningu dregur P.G. Wodehouse fram í lesendum sínum. Svo hleður nostalgían utan á sig. Áratugum seinna er hún orðin margföld, blandast minningu um horfna rödd sem las söguna fyrir okkur, um okkurgula herbergið þar sem þúsundir leikja voru settir á svið og um bernsku sem einu sinni var hversdagsleg en eru núna guðleg því að þátttakendurnir eru allir horfnir í aðra og betri heima, líka þeir sem eru hérna enn.
Þó að ég vissi það ekki þá var þessi tilfinning eðlileg í ljósi þess að höfundurinn ól mestallan aldur sinn erlendis og bjó í útlöndunum til sitt eigið England sem hélt áfram að vera nokkurn veginn eins og honum hafði fundist það vera þegar hann var barn og unglingur en Bandaríkin voru landið sem hann hafði kynnst í æsku. Um þessi lönd fjölluðu allar sögur hans, einkum þó England sem hann hafði yfirgefið. Þær urðu ófáar, ég hef reynt að telja þær en gefst alltaf upp skömmu eftir að ég kemst á annað hundrað.

Að þreyja þorrann
Auðvitað var P.G. Wodehouse afþreyingarhöfundur. Hvað annað er hægt að kalla mann sem semur svona margar sögur og hverja annarri líka í stíl og efnistökum? Á hinn bóginn naut hann mikillar virðingar hjá öðrum rithöfundum sem eru taldir honum fremri. Eflaust hafa sumir öfundað hann líka, þó ekki væri nema fyrir orkuna og frásagnargleðina en raunar líka fyrir tök hans á stíl því að enskan lék í höndum hans og bækur hans eru aldrei svipur hjá sjón í þýðingu. Allir rithöfundar hljóta að efast öðru hvoru um eigin starfa, það er eðli skrifta. En slíkur efi þrúgaði aldrei Wodehouse þannig að hann hætti að skrifa og um leið virðist hann hafa verið einstaklega glöggskyggn á eigin hæfileika og sáttur við þá því að hann reyndi aldrei af neinni alvöru að skrifa öðruvísi.
Fleyg urðu orð hans að til væru tvær gerðir af höfundum. Önnur skeytti ekki um neitt og tæki stefnuna beint á dýpið. Hin semdi gamansama söngleiki þar sem raunveruleikinn skipti engu máli og þannig höfundur væri hann. Auðvitað er engin leið að andmæla höfundi sem hefur svona augljóslega rétt fyrir sér. Allar bækur Wodehouse gerast í gerviheimi sem hefur þó svip af heiminum sem hann ólst upp í. Sá heimur er ekki endilega betri en í honum eru önnur vandamál sem beina sjónum okkar um stund frá eigin veruleik sem stundum er leiðinlega óreglulegur og merkingarlaus. Og þó að um hríð sé allt í upplausn getur lesandinn reiknað með að allt fari vel að lokum, annað hvort fyrir kenjar tilviljunarinnar eða með hjálp einkaþjónsins Jeeves sem hefur einstakt lag á að stjórna atburðum með þekkingu sinni á mannlegu eðli og raða öllu á réttan stað.
Í gerviheimi Wodehouse eru sumir ríkir en aðrir fátækir og sumir hafa völd yfir öðrum. Þannig skapast sögufléttur sem iðulega snúast um að elskendur ná saman þrátt fyrir andstöðu þröngsýnnar eldri kynslóðar. En þrátt fyrir blankheitin lifir enginn við raunverulega eymd eða ástleysi sem ekki er hægt að kippa í liðinn. Og þó að stundum komist sögupersónur í hann krappann eru þær gjarnan fullar stóískrar róar á slíkum augnablikum. Sögumaðurinn er það ævinlega, hvort sem það er alvitur sögumaður nálægur Wodehouse sjálfum eða hið sjálfumglaða og psýkópatíska eilífðarbarn Bertie Wooster sem hefur það eitt markmið í lífinu að forðast óþægindi.
Bertie er írónísk persóna í gegn og sögurnar um hann snúast um að gera stólpagrín að honum og afhjúpa misskilning hans, ranghugmyndir og heimsku. Samt þykir bæði höfundi og lesendum vænt um Bertie eins og önnur psýkópatísk eilífðarbörn sem eru hæfilega fjarlæg í sínu Hvergilandi eða að minnsta kosti í öðru sveitarfélagi. Kannski er Bertie skopmynd af höfundi sjálfum því að bækur Wodehouse eru að sumu leyti eins og Bertie hefði skrifað þær sjálfur: þar er heimurinn þægilegur og öruggur og breytist ekki neitt. Um leið er Bertie áhorfandi eins og Wodehouse sjálfur. Hann þarf aldrei að finna ástina (en oft að losna úr misráðinni skynditrúlofun) heldur ferðast um og kemur öðrum saman, bæði af eigin góðmennsku en aðallega vegna þess að það hentar hans eigin leit að áhyggjulausu lífi.
Bertie getur ekki hugsað sér að lifa öðrum en sjálfum sér þó að hann þurfi iðulega að gera öðrum greiða til þess að komast hjá óþægindum. Nútíminn er skeið stöðugra athafna, átaka og breytinga en Bertie vill stöðugan heim, eins og finna má í sögum Wodehouse. Allar breytingar og óstöðugleiki eru eins og áleitni í garð hans en sjálfur er hann óáleitinn og fáar söguhetjur skáldsagna 20. aldar eru minni athafnamenn.

Í gerviheiminum eru 2 + 2 = 4
Wodehouse er arftaki höfunda eins og Jane Austen sem lengi voru ekki teknir alvarlega heldur, fyrir að hafa samið sögur þar sem ástin gengur upp. En í sögum Austen skín í sársaukann á bak við kæruleysislegan stílinn og þó að sumar ástarsögurnar gangi upp finnum við þar líka raunsæjar og óhamingjusamar persónur sem hún stendur nær en Wodehouse sínum sögupersónum. Í sögum hans er enginn sársauki nema nostalgían sem skapast af því að lesandinn sér svo auðveldlega í gegnum blekkinguna og veit að heimurinn er ekki eins og í Wodehousebók, kannski af því Wodehouse vissi það sjálfur og lesendur fá aldrei á tilfinninguna að hann hafi trúað eitt andartak á ævintýrin sín.
Þessi gerviheimur er nálægur raunheiminum að því leyti að þar eru hvorki tækniundur, talandi dýr né yfirnáttúrulegar verur en það ætti ekki að blekkja neinn. Sögupersónurnar eru of vel stæðar til að hægt sé að taka þær alvarlega og vanur lesandi áttar sig fljótt á að hér er hreinræktuð fantasía á ferð. Wodehouse var samtíðarmaður Agöthu Christie og þau sýna hvort öðru þann heiður að nefna bækur hins höfundarins í eigin bókum. Þau hafa líka fylgst að í mínu lífi enda í uppáhaldi hjá foreldrum mínum, hillumetrarnir af þeim báðum til á mínu æskuheimili og eflaust á fleiri æskuheimilum. Bæði eru þau fantasíuhöfundar þó að bækurnar virðist eiga að gerast í raunheiminum. Hjá Agöthu er fantasían hluti formsins því að í raunheiminum eru glæpir sjaldnast (eða aldrei?) ráðgátur sem hægt er að leysa með rökvísinni eins og krossgátu (eða á rannsóknarstofunni þar sem glæpir voru síðar leystir af töffurum með smásjá á Skjá einum). Eins og hjá Wodehouse er ekkert yfirnáttúrulegt að finna í sögum Agöthu Christie (ekki í góðu sögunum) en allt gengur upp á farsælli hátt en raunsæið leyfir. Niðurstaðan er að hvorttveggja eru raunsæisleg ævintýri og þess vegna eru sögur þessara tveggja höfunda geðþekkar unglingum sem eru nýútskrifaðir frá Anne-Cath. Vestly og Astrid Lindgren.
Auðvitað geta bæði ævintýrin sjálf og ævintýri Wodehouse snúist um sálarlíf og samfélög en aðeins undir yfirborðinu. Á yfirborðinu eru endalausar sögufléttur þar sem allt er einvítt, samfélagið er leiktjöld fyrir átök fléttunnar og persónur finna varla fyrir sársauka nema það henti fléttunni. Gamanið liggur fyrst og fremst í kringumstæðunum en líka fjörlegum stílnum og kæruleysislegu viðhorfi persónanna til veruleikans. Það síðastnefnda er sótt til bullbókmenntahefðarinnar sem Lewis Carroll fann upp og Oscar Wilde kom á gelgjuskeiðið. Wodehouse er þó hvorki jafn grimmur og sá fyrri né jafn uppreisnargjarn og sá síðarnefndi. Ef hann hefði hætt sér á dýpið hefði hann ekki getað haldið áfram að segja sömu söguna aftur og aftur. Og eins og Bertie sjálfur kærði hann sig ekki um þau óþægindi sem hefðu fylgt því að snúa heiminum sínum á haus og skoða hann betur. Nostalgían lifir ekki af slíka skoðun, frekar en aðrir draumar.

Hin afturhaldssama taug
Flestallir uppáhaldshöfundar mínir á unglingsárunum hafa haft orð á sér fyrir að vera afturhald og því einkennilegt eftirlæti vinstriróttæklings en það gerði aldrei neitt til. Agatha tekst sannfærandi á við nútímann á hinu smærra sviði þó að hún skilji ekki pólitík (hins vegar gat hún glímt við nostalgíu af talsverðri dýpt, í sögunni Bertramshótelinu) og Wodehouse var enn ein tegundin af afturhaldi sem leiddi bara hjá sér tímann og göngu hans. Þess vegna breytast sögupersónur hans aldrei og sá sem reynir að skilja tímatalið í bókum hans verður gráhærður á undan þeim. En þó að bækur Wodehouse séu fyrst og fremst sögufléttur en ekki um samfélag þá skiptir líka máli að hann myndar ákveðna kennd fyrir horfnum heimi sem er kunnuglegur þó að hann hafi ekki verið til.
Afturhald og nostalgía eru systkini þó að ekki sé þar með sagt að þeim komi alltaf vel saman, frekar en systkinum almennt. Það er hægt að halda þeim aðgreindum, eins og ég vona að ég hafi gert. Nostalgía þarf nefnilega ekki endilega að fela í sér bjartsýna trú á að fortíðin verði endurheimt, aðeins þrá sem þrífst kannski best við vonleysið. Hjá skáldunum birtist raunsæjasta gerð heimþrárinnar. Henni er veitt glaðvær útrás þannig að treginn sem auðvitað er einhverstaðar á bak við er nánast ósýnilegur.
Ýmsir uppáhaldshöfundarnir voru enskir og ég verð að játa á mig gamlan nostalgískan áhuga á Englandi sem lifði meiraðsegja af ferðir þangað og kynni við Englendinga (höfundur Tarzanbókanna tók aldrei slíka áhættu og hélt sér í öruggri fjarlægð frá bæði Afríku og Mars). Kannski mætti smíða úr því kenningu um draumóraunglinga sem hrífist af enskum skáldsagnahöfundum sem semji nostalgíusögur. Höfundarnir en ekki síður lesendurnir noti þessar sögur til þess að hanga í rómantískum fortíðaráhuga fjarri veruleikanum og forðist þannig að vaxa úr grasi. Eða: Péturspansminnið í allri sinni nekt.
En veruleikaflótti er einum of handhægt orð og um leið haldlítið því að þá ásökun mætti yfirfæra á allan skáldskap og alla sem lesa skáldskap. Allt tal um veruleikaflótta er líka grundvallað á óþarflega sterkri vissu um að sumt sé raunverulegra en annað og að það sé enginn veruleikaflótti í því hvernig nútímamaðurinn lifir lífi sínu í borgum, við að fara á fundi, tala um verðtryggingu, semja greinargerðir eða kaupa og selja fyrirtæki.
En ég held að eftirsjáin sé ekki veruleikaflótti. Hún er þvert á móti eitt af því sem gerir manninn að hugsandi og dreymandi veru sem getur lifað sig inn í aðra fortíð en sína eigin og stundum hugsa ég hvort það væri ekki líka kjarkleysi að flýja frá því eðli.
Ármann Jakobsson

1 ummæli:

  1. 'Oh, gosh!'
    'Oh what?'
    'Gosh.'
    'Why do you say "Gosh"?'
    'I couldn't help it.'
    'Don't be an ass. Anybody can help saying "Gosh". It only requires will-power. What are you, a reporter?"

    (Bingo bans the bomb)
    Maður opnar næstu Wodehouse-bók af handahófi og þessi snilld blasir við. Svona molar finnast á öllum síðum í öllum hans bókum - og svo segja menn að það vanti í hann dýpt! Pah!.
    æöj

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.