miðvikudagur, 29. febrúar 2012

Vertu hjá mér Dísa


Eitt af lífseigari skemmtiatriðum föður míns í kvöldteinu í Karfavogi bernsku minnar voru eftirhermur hans þar sem þeir voru leiddir fram hver af öðrum Ólafur Thors og Einar Olgeirsson, Jón Auðuns, Helgi Sæm og allir hinir sem almennt samkomulag ríkti í þjóðlífinu um að herma eftir á þessum árum einfaldra og samræmdra gamanmála. Einn þessara manna var Davíð Stefánsson: Pabbi hafði sérstaka unun af því að gera sig gneypan á svip og láta drynja í sér: Enginn villist af vegi/þó Vandræðaskáldið deyi...  Mér skildist að sá sem þannig orti væri stórskáld. Mér skildist að það væri eftirsóknarvert hlutskipti að vera vandræðaskáld.

Það jók enn á aðdráttarafl Davíðs í huga mínum að móðir mín, sem alin var upp á Akureyri, sagði mér gjarnan sögur af störfum hans við bókavörslu, og því hvernig hún sem bókhneigt barn kom á Amtsbókasafnið og bað um nýjar og nýjar bækur en bókavörðurinn brást sífellt önugri við í stað þess að fagna slíkum fróðleiksþorsta eða fyllast því sem nú á dögum er kallað þjónustulund, - svo að á endanum leitaði hún sér að lesefni annars staðar.

Þessi þunglyndislega mynd af einfaranum dimmraddaða og fjarlæga – vandræðaskáldinu –  festist í mér og þegar ég fór um fermingu að lesa kvæðasafn Davíðs þá skynjaði ég mjög sterkt persónuleika skáldsins í hverri línu, hverju orði. En þrátt fyrir þetta sterka persónulega svipmót alls sem í bókum hans stóð kom mér í opna skjöldu hversu ríkar andstæðurnar voru í ljóðum hans: blíðlegt ávarp litla drengsins í byrjun sem biður systur sína að hafa ekki svona hátt því mamma ætli að sofna kom í mínum huga ekki heim og saman við galið rustamennið í ljóðinu Óráð; tillitsleysið og kuldi karlmannsins í Komdu var ekki í samræmi við klökka hluttekninguna í Svefnljóði þar sem einstæðri móður er léð rödd í íslenskum bókmenntum af ríkri tilfinningu og frábæru næmi fyrir afli einfaldra orða; fagnandi ástarhitinn og lostinn sem höfðaði einstaklega vel til hins þrettán fjórtán ára lesanda í ljóðum eins og Messalinu, Tínu Rondóní eða Konu kom ekki heim og saman við meinlætahyggjuna og kvenóttann í ljóðum eins og Í síðasta sinni, Myndhöggvaranum og hvað þá Léttúðinni þar sem beinlínis er engst af samviskubiti yfir nokkrum kossum. Innileg tilbeiðslan og látlaus trúarjátningin í ljóðinu Á föstudaginn langa kom ekki heim og saman við steigurláta og ögrandi vegsömun guðleysisins í Heiðingjaljóð. Pólitísk róttæknin í ljóðinu Vodka – sem við vinstri sinnuðu vinirnir í menntaskóla áttum síðar eftir að þylja utan að línur úr hver yfir öðrum á glasaþingum – og fútúrískar formtilraunirnar (tja eða svona eins og gerist þegar fútúrisminn berst til Akureyrar)  í því ljóði og víðar í bókinni Ný kvæði komu ekki heim og saman við allt þetta búralega hetju-, kappa- og landnáms- og „tímans mikla“-tal í Þingvallaljóðinu frá 1930.

Hver var hann? Var þetta skáld krummi sem krunkið eru söngvar hans um sólina og himininn, og fegri tóna hann ekki á og aldrei mun hann fegri því hann er nú einu sinni bara krummi og kærir sig auk þess kollóttan um smekk mannanna – eða var hann svanurinn í Klipptum vængjum sem söng fyrir dalabörnin svo björgin bergmáluðu þann söng og allt brosti við honum og vængir mínir voru hvítir uns hann flaug niður að sjávarsíðunni í þéttbýlið, þar sem enginn skildi hann en fólkið hrópaði Hvítir vængir! Hvítir vængir! kofagólfið þarf að sópa – klippti svo af honum vængina til að þeir kæmu að notum: Enginn út við sæ því sinnir/ þó svanur blóði drifinn hrópi,/ og kona ein með hvítum vængjum/ kofagólfið alltaf sópi. Hvort var hann: krummi eða svanur? Göfugur, glæstur og hvítur eða úfið, svart og ræfilslegt ólíkindatól. Var hann heimsafneitarinn sem fer til fjalla að stæla anda sinn og bölvar heiminum og vill engar konur sjá aðrar en fordæður á borð við Abbalabbalá eða tröllskessur sem seiða hann til sín frá veslings dalastúlkunum, flýr ástir kvenna út á haf og brýtur skip sín fremur en að snúa aftur til að bindast konunni – eða var hann hinn sem í ljóðinu Skugginn kann einmitt manna best að taka á móti slíkri ást:

            Sem hjarta guðs
            er eg hreinn í kvöld,
            fagur sem óskir hans
            frjáls sem hans völd.

            Alla vil eg gleðja
            fyrir alla þjást,
           - Í kvöld er eg skuggi
af konuást.

Hreinn, fagur, frjáls – og vill taka á sig allar tilfinningar heimsins, hann er með öðrum orðum sjálfur guð þetta kvöld, en engu að síður ekki nema skugginn af þeirri konuást sem allt þetta hefur skapað...

Og svo framvegis, mér fannst allt reka sig hvað á annars horn í þessum ljóðheimi: það sem hins vegar einkenndi manninn alltaf í þessum andstæðum var að hann var alltaf svo viss; alls staðar sama umbúðarleysið í framsetningunni, dirfskufull mælskan full af vissu um eigin orðgnótt og – náttúrlega – megineinkennið alla tíð á hverju sem valt: fljúgandi hagmælskan, hinn leikandi létti bragur, syngjandi áslátturinn. Seinna komst ég að raun um að þessar mótsetningar allar voru styrkur hans sem skálds, gáfu ljóðum hans spennu, hann var stundum svanur og stundum hrafn, hann laðaðist að því dimma og drungalega, orti út frá sjónarhóli urðarkattarins, fjallarefsins og jafnvel morðingjans, sjálfs Axlar-Bjarnar. Þótt dimmt væri á Dökkumiðum þá var þar fengsælt skáldum sem veiða mannleg hjörtu.

*

Fimmtán ára gamall er ég svo skyndilega farinn að gaula fullum hálsi ljóðið um Dalakofann á skólaskemmtun í Vogaskóla. Þetta átti að vera fyndið númer og ég man ekki betur en að það hafi skilað sér fyllilega: þetta ljóð þótti þá – og þykir sennilega enn – bæði hlálegt og hallærislegt  – og ég söng það með margföldum klökkva Hreins Pálssonar til að ekkert færi á milli mála um það hvað þetta kvæði væri rangt. Og samt hreif það mig á einhvern dularfullan hátt.

Kannski var það sjálft blæðandi sentímentalítetið sem draup af öllu ljóðinu og hlaut að höfða að einhverju leyti til þess barns amerískrar fjöldamenningar sem ég í aðra röndina var. Kannski einmitt hvað það var rangt.

Kannski eitthvað annað. Og kannski höfum við alltaf misskilið þann sem talar í þessu ljóði, bæði vegna þess hversu vinstri sinnuð skáld lögðu sig í framkróka við að snúa út úr ljóðum Davíðs og einnig vegna þeirrar túlkunar sem söngur Hreins Pálssonar niðurnjörvaði á þetta kvæði. Þegar ég las þetta á dögunum sló mig hversu nöturlegt það er og sorglegt. Tenóraraddir hljóma fallega eins og Norðurland hefur gefið okkur svo mörg dæmi um – en þessar tenórraddir segja ekki alltaf satt. Tenórar geta heldur aldrei hljómað öðruvísi en ánægðir með sjálfa sig og ef þeir eru klökkir eða jafnvel hálfgrátandi þá er það ekki vegna óánægju með sjálfa sig heldur virkar það fremur á mann eins og þeir séu hugfangnir af eigin sterku tilfinningum; þeir eru þróttmiklir og einfaldir – Davíð var ekki tenór; hann var barýtón. Og ljóðið um Dalakofann er ekki fullt af sigurgleði og vissu um gildi hins einfalda lífs í dalnum – nema þá á yfirborðinu: það er fullt af vonleysi, það er örvæntingarfullt. Það er tilbrigði Davíðs við ræðu Vegmeyjar Hansdóttur yfir Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi í Höll Sumarlandsins kvöldið áður en hún yfirgefur hann þegar hún talar um bæ hér inn með firðinum þar sem vaxi blóm á þakinu. Það er tilbrigði við Chaplin að stappa stálinu í stúlkuna sína í lokin á Nútímanum áður en þau labba af stað undir laginu Smile. Dalakofinn er einmitt eins konar  Smile. Þetta eru fátækir krakkar að láta sig dreyma um hið góða líf.

Vertu hjá mér, Dísa byrjar ljóðið, og minnir okkur á það hvernig Davíð hóf skáldferil sinn með línunum Sestu hérna hjá mér systir mín góð. Hann var óhræddur við að nota boðháttinn, jafnvel í svo blíðlegum línum þar sem hann fer fram á það við þjóðina að hún setjist hjá sér og þau skuli vera kyrrlát og góð því að mamma ætli að sofna: unga fólkið á nú að vaka, taka við með nýjum kenndum, nýrri reynslu og nýju flugi á nýrri öld. Vertu hjá mér Dísa – það er að segja: sestu hérna hjá mér, farðu ekki frá mér og ef þú ert kyrr skal ég okkur bæði yfir djúpið dökka syngja, heim í dalinn þar sem eg ætla að byggja og nema land. Það er að segja: ef þú verður um kyrrt hérna hjá mér á þessu kvöldi hinna köldu storma þá skal ég búa til draum handa okkur að ylja okkur við. Og síðan hefst hann handa, hleður upp órunum hverjum af öðrum, rétt eins og hann fyllir fang stúlkunnar sinnar af sífellt fráleitari gjöfum í ljóðinu Komdu inn í sömu bók. Stormurinn hvín, þau búa eflaust í hreysi og þau eru áreiðanlega öreigar. Það er að minnsta kosti myrkur og kuldi og stormur, eflaust rottur og raki og ódaunn. Vertu hjá mér Dísa og ég skal þá vekja drauminn um góða lífið handa okkur í dalnum okkar heima, þaðan sem við komum, þar sem stritið hefur merkingu, þar sem sólin bræðir fönnina af fjöllum og af engjum og fuglarnir þeir syngja og loftin verða blá - þar sem allt hefur með öðrum orðum inntak og fátæktin og vinnusemin, gestrisnin og jafnvel myrkrið, þreytan og kuldinn er allt hluti af einhverju stóru og miklu samhengi...

Þau munu aldrei komast í þennan dalakofa. Hann er eins og Chaplin í Nútímanum að spinna upp einhverja vitleysu handa stúlkunni sinni til að þau gleymi um stund ömurlegum aðstæðum sínum. Því að Davíð var þrátt fyrir allt samsettur maður, samsett skáld, og þótt hann tryði því kannski að til væri hið góða líf andstætt lífinu í kaupstöðunum þar sem á þessum árum var atvinnuleysi, vonleysi og kreppa – þá trúði hann því ekki endilega allur. Krumminn í honum trúði því ekki. Og þess vegna ríkir í ljóðinu eitthvert hömluleysi í öllum gyllingunum á lífinu í dalnum, svo jaðrar við hitasóttarkenndan heilaspuna sem gengur alltaf lengra og lengra í flæðandi ljóðlínunum: Þá hlæja hvítir fossar; þá hljóma strengir allir;/ þá hýrnar allt og brosir; þá fagna menn og dýr;/ þá leiðast ungir vinir um vorsins skógarhallir;/ þá verður nóttin dagur, - og lífið ævintýr. Og þannig heldur þetta áfram við sívaxandi og nagandi efasemdir okkar uns í lokin að meira að segja gömul sannindi  –  vorið kemur bráðum - hljóma eins og hálfgerð fjarstæða.

Þetta er draumurinn um að snúa aftur heim í dalinn – að snúa við þjóðfélagsþróuninni, hætta við þetta allt saman og snúa aftur í það fátæktarbasl sem fólk þekkti þó. Og við vitum ofurvel – rétt eins og allir sem lásu kvæðið þangað til Hreinn Pálsson fór að kjökra það – að það verður aldrei aftur snúið. Kvæðið er ekki um hina sælu framtíð, heldur sálumessa yfir hinni góðu fortíð. Davíð var mikið skammaður af sósíalistum og ýmsum öðrum fyrir línuna um að sælt sé að vera fátækur og gleymdist þá alltaf fyrirvarinn sem hann setti: meðan blómin anga og sorgir okkar sofa. Ljóðið fjallar í rauninni um hitt: hversu skelfilegt er að vera fátækur meðan fýlan ríkir og sorgir okkar vaka. Og á endanum er eins og ljóðmælandi skynji að þetta er allt unnið fyrir gýg og síðustu línurnar í ljóðinu Dísa, kysstu mig, sýna okkur ekki bara að allt sé þetta hjal einn langt forspil að ástarleik, heldur kannski ekki síður hitt: að eftir allar brýningarnar og heitstrengingarnar þá biður skáldið Dísu um að hugga sig.

Í ljóðinu Það er best í bókinni Að norðan, sem hefur að geyma málsvörn Davíðs og greinargerð fyrir framgöngu sinni í ástarmálum er þessi kynduga lína: En blóðhitinn er mikill á tuttugustu öld. Ég veit ekki nema þetta sé eina skiptið í ljóðum Davíðs þar sem hann víkur að öld sinni. Hann slapp vissulega við að ánetjast nasisma eða kommúnisma eða annarri vitleysu aldarinnar, en það er naumast að sjá að hann hafi tekið mikinn þátt í öllu hinu heldur sem þessi öld hafði upp á að bjóða. Og samt var það hann sem hringdi hana inn í bókinni Svartar fjaðrir sem hefst á hinum yfirlætislausu línum um hina svefnþurfi móður. Þótt ekki sé kannski saman að jafna um listræn gæði þá er Dalakofinn er að sínu leyti eins og Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness – listaverk um stórkostlegasta drama Íslendinga fyrr og síðar, þegar þeir rifu sig unnvörpum upp með rótum og héldu á mölina. Við höfum lesið ljóð Davíðs um of með pólitískum gleraugum hægri, vinstri, háttleysusinna eða bragsinna, í stað þess að leyfa ljóðunum sjálfum að standa, lesa þau sjálf; ekki virðist Davíð sjálfur hafa mikið nennt að standa í að útskýra verk sín fyrir gagnrýnendum, sem ekki er að undra. Kannski gafst hann einfaldlega upp, þetta einmana skáld á Akureyri – gafst upp á því að reyna að tjá sig í ljóði um þjóðfélagshræringar samtímans, viðtökurnar við Dalakofanum, útúrsnúningurinn og einföldunin sem tók völdin í skilningi ljóðsins hafa eflaust orðið til þess að hann tók að yrkja í staðinn um aðra hluti – til dæmis það hversu litlu skáldskapurinn fær áorkað andspænis ofurafli skilningsleysisins: Eins og þar segir: skáld koma og fara. Og eins og þar segir: Enginn villist af vegi þó vandræðaskáldið deyi.

           Guðmundur Andri Thorsson

þriðjudagur, 28. febrúar 2012

Funes yngri

Nokkrar athugasemdir við smásöguna Funes, hinn minnuga eftir Jorge Luis Borges settar fram á formi þess sem gagnrýnt er með hliðsjón af ímyndaðri kröfu um rökvísi í skáldskap
  „Ef hérinn gefur skjaldbökunni forskot þá mun hann aldrei taka fram úr henni því áður en hann getur náð henni verður hann fyrst að ná að vinna upp forskot hennar. Það tekur hann tíma að hlaupa að þeim stað þar sem skjaldbakan hóf keppnina og á meðan hefur skjaldbakan enn fjarlægst hann. Í hvert sinn sem hérinn nær á staðinn þar sem skjaldbakan var þá á hann ennþá eftir að vinna upp bilið sem hefur skapast á milli þess staðar og skjaldbökunnar nú. Hérinn mun aldrei komast framúr skjaldbökunni.“
– Zeno frá Eleu. (490 – 430 f.kr.)


 „Heimdallur.“
          Furðulegt hvað greypist í minnið. Ég man ekki hvaða ár það var en ég man hvaða bók ég var með í höndunum þegar ég heyrði fyrst minnst á Funes yngri.
          Það hefur því verið í nýja Landsbókasafninu við Plazaleto Cortazar, á neðri hæðinni, þar sem maður sér yfir La Plata-ánna. Það ræð ég af því að bókin var Snorra-Edda í enskri þýðingu Morris og Magnússonar. 200-gangurinn (trúarbrögð og goðafræði) stendur á neðri hæðinni hægra megin við innganginn. Byggingin var enn ný. Bókasafnið var vígt haustið 1953 þannig að þetta hefur líklega verið ‘54, eða ’55 í síðasta lagi. Bækurnar voru ekki allar komnar á sinn stað. Þýðingu Morris og Magnússonar sem ég var að blaða í fann ég til að mynda undir  287.1 (Menónítar) en ekki undir 293.1 (Norræn goðafræði). Vissulega skeikaði ekki nema einni hillu en í skipulagi bókasafnsins er það einni hillu of mikið. Í bókasafni er bók á röngum stað í raun ekki til.
          Jorge hefur verið byrjaður að vinna á safninu þegar þarna er komið við sögu en líklega ekki enn tekinn við starfi Landsbókavarðar. Allt í einu heyrði ég rödd hans við hlið mér hvísla: „Heimdallur. Hann hefur alltaf verið mitt uppáhald. Fámáll en athugull. Heyrir allt en segir fátt.“ Bókasafnsverðir kunna listina að ferðast hljóðlaust. „Ég hef alltaf ætlað mér að skrifa ritgerð sem sýndi fram á skyldleikann milli Heimdallar og Patanjali og hinna indversku jóganna.“ Jorge talar svo lágt að mál hans er eiginlega borið uppi af lofthljóðunum einum saman: „Jógameistarinn og Heimdallur sitja báðir á mörkum tveggja heima, í einhverskonar leiðslu, búnir að skerpa skilningarvitin af langri þjálfun og svo hlusta þeir á þögnina – ‘grasið gróa og ullina spretta á sauðunum’ – eins og Snorri lýsir …“
          „Hlustunin er ein grein hugleiðslunnar samkvæmt Patanjali, eins og þú veist. Jóginn, eins og Heimdallur, samsamar sig heyrninni; hlustar af algerri athygli. Þannig nær hann að gleyma því hvar hann er í heiminum – hvað er hvað – og hvernig hlutirnir greinast hver frá öðrum. Á æðsta stiginu nær jóginn þannig að þurrka út skilin milli sín og heimsins. Þá man ekki einu sinni hver hann er. Hann veit að hann er til en veit ekki hvort hann er þessi eða hinn, hitt eða þetta. Þannig verða jógarnir frelsaðir undan sjálfum sér. Hlusta eins og Heimdallur sem er eitt með grasinu. Sérðu ekki hliðstæðurnar?“
          Ég man þessa ræðu Jorges skýrt þótt ég muni ekki hverju ég svaraði eða hvernig talið barst að Funesi hinum minnuga. Líklega hefur Jorge nefnt minningargrein mína um samskipti okkar Funesar sem þá hafði nýlega verið gefin út í litlu safnriti af Editorial Recoleta í Montevideo. Hvað sem því líður þá fór Jorge að segja mér frá minningum sínum um Funes. Hann vissi vel af áhuga mínum á öllu sem snerti þennan sérstæða mann. Fæst af því sem Jorge nefndi þótti mér hins vegar fréttnæmt. Ég hafði grennslast vandlega fyrir um Funes í heimabæ hans í Fray Bentos áður en ég náði fundi hans í fyrsta skipti. Þeir þekktust auðvitað, Jorge og Funes, enda höfðu þeir verið skólabræður í menntaskólanum fram að slysinu. Tvennt kom mér í opna skjöldu af því sem Jorge sagði mér. Í fyrsta lagi það að Jorge hafði verið með Funesi daginn sem hesturinn kastaði honum af baki sem leiddi til þess að hann lamaðist. En það var einmitt eftir þetta slys sem Funes öðlaðist það allt að því yfirnáttúrulega skynnæmi sem gerði honum kleift að kalla fram í minni sínu allt sem fyrir augu og eyru hans bar upp frá því. Þaðan í frá mundi hann allt, til dauðadags.
          Hitt atriðið sem kom mér í opna skjöldu var nokkuð sem Jorge nefndi í framhjáhlaupi: Funes hafði á fyrsta ári í menntaskólanum barnað Irenu Leandro (hún hafði verið bekkjarsystir þeirra). Fljótlega hafði komið í ljós að drengurinn sem Irena hafði fætt, nokkru fyrir tímann, var alvarlega þroskaheftur. Það varð úr að hann var sendur til vistar á hæli í norður af Montevideo og eins og margt sem hverfur manni sjónum þá virðist sem hann hafi þar með horfið úr hugum flestra í Fray Bentos. Að minnsta kosti hafði ég aldrei heyrt drengsins getið fyrr en þarna þennan dag í Landsbókasafninu. Jorge hélt áfram: En nú þegar Funes eldri var fallinn frá var enginn til að greiða reikningana frá hælinu og þess vegna hafði drengurinn, Funes yngri, víst verið sendur aftur heim. Jorge minnti að hann hefði heyrt einhvern segja að pilturinn byggi nú hjá ömmu sinni Mariu Clementinu í húsinu á Calle St. Augustine sem áður hafði verið heimili föður hans.
* * *
Það tók augu mín nokkurn tíma að venjast myrkrinu í herbergi Funesar yngri. Eini ljósgjafinn í herberginu var glóðin í sígarettunni sem pilturinn hélt á. Hann sat á gólfinu með bakið upp að veggnum, keðjureykti og sagði ekki orð. Ég heyrði hann ekki einu sinni draga að sér reykinn en sá glóðina glæðast með reglulegu millibili þegar hann saug að sér.
          Ég kynnti mig: „Faidon Recuerdo“. Eftir nokkra stund bætti ég við að ég væri málfræðingur frá Buenos Aires, að ég hefði verið kunningi föður hans, að ég hefði rannsakað hæfileika hans um skeið nokkrum árum áður en hann féll frá. Ég bætti við að mig langaði að fá að spyrja hann nokkurra spurninga ...
          Svo þögðum við báðir um stund.
          „Og hvað heitir þú?“ spurði ég loks.
          Eftir andartaks hik heyrði ég hása rödd Funesar yngri í fyrsta og eina skiptið. Hann talaði slitrótt en hratt, eins og hann væri í kapphlaupi við tímann:
          „Ég heiti F ... Ég heiti ... Ég heit ... Ég hei ... Ég he ... Ég h ... Ég ... É ...   ...“
          Og svo var aftur þögn í herberginu.
          Það var sama hvers ég spurði hann frekar. Ég fékk engin svör. Ekki stakt orð, ekki eitt atkvæði.
          Um síðir kulnaði glóðin í sígarettu piltsins. Ég varð að þreifa mig eftir veggnum að hurðinni.
* * *
Maria Clementina fylgdi mér til dyra. Hún sagði mér að ég gæti reynt aftur á morgun. Eftir nótt í þögninni inní myrkvuðu herberginu væri alltaf von til þess að hægt væri að ná nokkrum orðum eða orðhlutum uppúr piltinum. En til þess þurfti hann að fá að eyða að minnsta kosti einni  nótt, en helst lengur, óáreittur og yfirgefinn í aldimmu herberginu. Og jafnvel þá, sagði hún, var sjaldnast hægt að greina meira en eitt eða tvö orð áður en þau gufuðu upp í stamandi endurtekningunni.
          Það var þá sem mér varð ljóst hvers kyns var. Og hvers vegna það væri ekki til neins að koma aftur daginn eftir. Funes yngri var ekki sködduð eða lakari útgáfa af föður sínum.  Þvert á móti. Hann var föðurbetrungur. Funes hafði enn næmari skynjun en faðir hans sem hafði þó verið álitinn alminnugur. Minni Funesar eldri, hafði sjálfstæða tilvist, það var ekki fullkomnara en svo; hægt var að greina skil þess og heimsins; og aðgreina á milli forms þess og innihalds.
Minni Funesar yngri geymdi hins vegar mynd af heiminum sem var svo nákvæm og full af smáatriðum að hún varð ekki að greind frá veruleikanum. Funes eldri var minnugur. Funes yngri hafði hins vegar fullkomið minni; svo fullkomið að veruleikinn var dæmdur til að ganga honum í sífellu úr greipum.
          Minningar verða að vera óljósar. Annars verða þær ekki aðgreindar frá veruleikanum. Séu þær fullkomlega nákvæmt afrit heimsins eða upplifunarinnar þá er enginn munur á veruleika og minningu. Þá verður það að muna atburð það sama og að lifa hann og það að minnast þess hafa munað eitthvað það sama og minnast þess, sem aftur verður ekki greint frá því að lifa það. Í hvert skipti sem Funes yngri hugsaði um minningu (nákvæmara væri að segja: Í hvert sinn sem minning var í huga hans) þá var hún svo skínandi, svo raunveruleg og skýr, að hugur hans tók af henni afrit og setti í safn sitt sem nýja minningu. Sá sem man að hann man, gleymir. Sá sem man fullkomlega gerir ekkert annað en að minnast og veit þar með ekki að hann er að minnast. Funes yngri mun aldrei ná að hugsa sig að líðandi stundu því í huga hans mun hver atburður – hvert andartak – snúast gegn sjálfu sér, afrita sig í sífellu í æ fíngerðari og nákvæmari eindum þar til brotið er orðið svo smátt að þar býr engin hreyfing og ekkert hljóð: Það geymir ekkert nema spegilmynd af sjálfu sér.
* * *
Ég man að ég fann til með Funesi yngri þegar ég lokaði útidyrunum á eftir mér og steig útí myrkrið á Calle St. Augustine. Funes yngri er hérinn í sögu Zenos. Og í þeirri sögu nær hérinn skjaldbökunni aldrei.
Þannig lýkur færslunni um Funes, yngri í minniskompu föður míns. Kompuna fann ég fyrir algera tilviljun innan um skjöl og pappíra sem Jorge skildi eftir sig og mér var falið að flokka. Það er mér ráðgáta hvernig nótubók föður míns endaði í einum af þessum hálfgagnsæju plastkössum í geymslunni inn af skrifstofu Jorges í kjallara bókasafnsins.
          Ég þekki rithönd föður míns. Þetta er minniskompan hans, á því leikur ekki nokkur vafi. Á fyrstu síðu minniskompunnar hefur hann skrifað: „Þess vegna skrifa ég það niður: Til að geta leyft mér að gleyma því.“
Ragnar Helgi Ólafsson

HEIMILDIR
Borges, Jorge Luis. Collected Fictions. Hurley, Andrew þýð. London: Allen Lane, 1999.
Patanjali. The Yoga-system of Patañjali: or, The ancient Hindu doctrine of concentration of mind, embracing the mnemonic rules, called Yoga-sūtras, of Patañjali, and the comment, called Yoga-bhāshya, attributed to Veda-Vyāsa, and the explanation, called Tattva-vāicāradī, of Vāchaspati-Miçra. Haughton Woods, James þýð. Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1927.
 Snorri Sturluson. Snorra-Edda. Reykjavík: Mál og menning, 1988.

mánudagur, 27. febrúar 2012

Subbuskapur og sóðarit

Æ, hve mér leiðist.

Það gerist ekki neitt. Allavega ekki í bókmenntalífinu.

Bókmenntalíf: Er það ekki harla gott orð? Líf í bókum, bækur í lífinu, bókmenntalíf ... Skiptir eitthvað meira máli en bækur? Í alvöru talað?

Sannkallað bókmenntalíf felst í því að lesa bækur, hugsa um bækur, tjá sig um bækur, skrifa um bækur – renna með einhverjum hætti saman við bækur.

Vera bækur.

Þetta gera margir og á ýmsum vettvangi. Það sem gerist í tímaritunum gerist á langtíma, á fésbók gerast hlutirnir á örtíma – og þótt hún sé kennd við bók fjallar hún ekki um bækur heldur oftast eitthvað allt annað. Millitíðin er engan veginn auð en hún biður samt um eitthvað.

Af og til verður maður að sýna lit. Láta eitthvað gerast. Þessari bloggsíðu er haldið úti af fjórtán karlmönnum sem munu tjá sig um bækur og önnur bókatengd hugðarefni sín næstu tvo mánuðina. Hún er stofnuð til heiðurs síðunni Druslubækur og doðrantar þar sem fjórtán konur hafa skrifað um bókmenntir af fádæma elju í, ja, ég held að það séu orðin mörg ár.

Subbukallar ætla að skrifa um bækurnar sem þeir eru að lesa og yfirleitt allt sem tengist bókum með einhverjum hætti eða bara um það sem þeim dettur í hug það og það skiptið. Druslubókadömurnar eru gott fordæmi og óþarfi að láta sitt eftir liggja, dæmi þeirra sýnir að það er hægt að halda uppi lifandi bókmenntaumræðu í samfélagsumhverfi sem er þegar öllu er á botninn hvolft ekkert sérstaklega auðugt af bókmenntaumfjöllun og fer ekki batnandi.

Karlar eru öðruvísi en konur, ég veit að það hljómar billega en reynsluheimur karla er annar og þeir skrifa ef að líkum lætur öðruvísi um bækur en konur. Ekki það að þetta sé einsleitur hópur. Um hann má segja þetta: Það eina sem við eigum sameiginlegt er alger skortur á ágreiningi.

Ég hef aldrei skilið setningu Jónasar um níu menn sem nóttina eiga að stytta. En það er eitthvað fjandi gott við hana. Þótt varla nokkur viti enn hve vænlegt ráð þeir hitta. Hér eru fjórtán menn. Þeir ætla að reyna stytta nóttina svolítið með bókum.

Karlahreyfingin á tíunda áratugnum með Robert Bly í broddi fylkingar sendi karla út í skóg bera að ofan með dótabyssur til að uppgötva sinn innri Róbinson og villta Frjádag. Engum varð meint af því volki, þeir subbuðu sig út, þessir karlar, og mæddust og svitnuðu og mann grunar að ævintýrin séu ekki síðri ef haldið er á vit bóka.

Á næstu dögum birtast fyrstu færslurnar. Velkomin á síðuna Subbuskapur og sóðarit. Hún verður algerlega frábær.

Hermann Stefánsson