mánudagur, 30. apríl 2012

Heim til Evrópu

José Ortega y Gasset: Drög að formála að grein í tímaritinu Skírni

Evrópusambandsumræðan er föst og kemst hvergi. Hún gengur nefnilega út á gagnkvæm uppnefni:
            Andstæðingarnir: Föðurlandssvikararnir ykkar!
            Fylgjendurnir: Einangrunarsinnar og afturhald!
            Helvítis föðurlandssvikarar. Djöfuls einangrunarsinnapakk.
            Og þannig áfram svo hvorki gengur né rekur.
A segir A, B segir B.
Við munum að sjálfsögðu aldrei ganga í Evrópusambandið með skotgrafarhernaði og uppnefnum. En lengi má una við þvarg, skítkast og uppnefni og í drullupolli íslenskrar samfélagsumræðu hugsum við jafnan hvert um sig: Hér fljótum vér eplin. Jafnvel eitt af skástu skáldum Íslands, Hannes Pétursson, leggur uppnefni til málanna í Evrópuumræðunni í annars ágætum blaðagreinum. „Gaddhestar“, sagði Hannes á dögunum. Það er reyndar gott, nokkuð gott orð. Hannes getur verið fyndinn í þessum greinum. Líklega er hugsunin sú að ef fólk er kallað gaddhestar muni það umsvifalaust sjá sig um hönd: Gaddhestur? Ha? Ég? Nú? Jahérna. Ekki vil ég vera kallaður gaddhestur. Ég veit ekki einu sinni hvað það er! Best ég skipti umsvifalaust um skoðun, enda sé ég núna þegar mér er leitt það svona vel fyrir sjónir að ég hef ekki hugsað þetta nógu vel. Alltaf getur maður bætt sig. Ha? Er það ekki bara?
Ortega vinur okkar.
Og kannski er þetta rétt hjá skáldinu. Kannski er það ekki eins og við sem vitlausari erum höldum, að ónefni leiði ekki til neins annars en að fólk forherðist í afstöðu sinni, að Evrópusinnum þyki ekki hreint alveg bráðskemmtilegt að láta kalla sig föðurlandssvikara og andstæðingum Evrópu-sambandsaðildar þyki ekki toppurinn á tilverunni að láta kalla sig einangrunarsinna og gaddhesta. Að engum finnist í raun sérlega uppbyggilegt að láta hæðast að sér heldur sárni fólki uppnefni og fari að tala um einelti og hafi jafnvel eitthvað örlítið til síns máls, og í öllu falli grafi það sig bara ögn dýpra í skotgröfina og hlaði fallbyssuna.
Allt þvargið í umræðunni er auðvitað daglegt brauð og flest smátt í samanburði við útgerðarmennina sem verið er að leiða í nasískar útrýmingarbúðir til að gasa þá, eins og allir vita, it´s holocoust all over again!
Það væri svolítið gott ef hægt væri að hugsa skýrt. Eitt andartak. Jafnvel finna leiðina til Evrópu. Kljúfa hafið eins og Móses og vippa þjóðinni sem snöggvast yfir á meginlandið, biðja sér einskis að launum nema í mesta lagi eina fálkaorðu og eilíft þakklæti, messíanskar öldur og nokkrar tertur, blöðrur og far með Gullfossi, sam-evrópskt Ísland þar sem landhelgin er loksins færð út fyrir milljón mílurnar og ást og eilífur friður ríkir; nú eða bara eitt lítið uppnefni.
Afsakið.
Spurningin sem gæti opnað þó ekki væri nema glufu á byssureykmökkinn væri til dæmis: Hvað er Evrópa?
Hvað er eiginlega Evrópa? Það er góð spurning. Spurningin um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið hlýtur að einhverju leyti að vera samtvinnuð þeirri spurningu hvað Evrópa yfirleitt sé, en vera kann að á inngönguspurningunni séu tveir fletir sem eru, eða ættu að vera, kirfilega aðgreindir: Annars vegar samningskostir sem bjóðast þjóðinni við inngöngu, sem er spursmál af praktískum toga og svörin liggja ekki á lausu enn sem komið er, raunar eru þær alveg á huldu þótt leiða megi líkur að ýmsu; hinsvegar er menningarleg spurning sem má ræða strax, fram og aftur og út frá ýmsum hliðum, eftir því hvort menn álíta Ísland eiga samleið með Evrópu eða kannski einhverju öðru menningarsvæði, svo sem Bandaríkjunum.
En varla er nein goðgá að slá því föstu að hvað sem öðru líður er Evrópa stórmerkilegt menningarsvæði sem á sér merka sögu og merkilega hugsuði. Einn af þessum hugsuðum hét José Ortega y Gasset og var Spánverji sem uppi var á árunum 1883-1955. Ortega er sú tegund hugsuðar sem ekki hefur verið á hverju strái á Íslandi í áranna rás, sú tegund sem bæði er réttnefndur „hugsuður“ – orðið sjálft kann jafnvel að virðast fornfálegt og á skjön við íslenska hefð – og einnig feykimikill og fjörugur stílisti, góður rithöfundur. Skemmtilegur rithöfundur, frjór, smitandi. Eitt helsta verkefni Ortega var Evrópa.
            Þeir sem einhvern ávæning hafa af verkum og hugmyndum Ortega eru stundum haldnir þeim misskilningi að hann sé bölsýnishöfundur. Það er rugl. Ef eitthvað ákveðið einkennir hugmyndir hans er það umfram allt skýrleiki. Þessi skýrleiki í hugsun, þessi einfaldleiki í framsetningu, er meðal þess sem olli því að verk hans áttu og eiga svo greiðan aðgang að alþýðu manna. Vegna einfaldleikans eru hugmyndir hans eru svo kröftugar að lesendur smitast, fyllast sannfæringu og eldmóði þótt þeir geri sér ef til vill ljóst að lestri loknum að í rauninni eru þeir ekki í hjarta sínu endilega sammála öllu sem sagt hefur verið.
            Greining Ortega á evrópskri menningu á tímamótum birtist í bókinni Uppreisn fjöldans sem kom út árið 1930 og gerði hann umsvifalaust þekktan á alþjóðavettvangi. Þetta er greining á grundvallarbreytingu á Evrópu frá nítjándu öld til samtíma Ortega, ekki breytingu á bókmenntum eða stjórnmálum heldur lífi.
Hvaða góss er þetta eiginlega? Uppreisn fjöldans? Af öðrum bókum Ortega má nefna Estudios sobre el amor, Stúdíur í ástinni, þar sem gengið er út frá því að enginn tími á undan tuttugustu öldinni hafi hugsað jafn lítið um ástina þótt aldrei hafi verið fjasað meira um ástamál fólks. Ég held svei mér þá að stöku heimspekingur dagsins í dag sé á svipuðum slóðum. Margir þeirra eru á marxískri ferilbraut og það er ekki endilega málið hér þótt tíminn bendi kannski til þess. „Kall tímans“, hafði Kristinn E. Andrésson að heiti á merkilegum sjálfsævisögulegum kafla í merkilegu riti, Enginn er eyland (það er við hæfi að nefna þennan fína titil því auðvitað er enginn eyland) sem kom einmitt út um svipað leyti: „Þegar ég gerðist formaður Sovétvinafélagsins haustið 1932 má vitanlega kalla mig nytsaman sakleysingja, en ég var ekki ginningarfífl eins né neins, heldur hlýddi ég einfaldlega tímans kalli.“ Tökum bara ofan fyrir því, en það var nóg af köllum. Ortega var annar kall á sama tíma, skipti sér lítið af kommúníska karlinum Marx og engin merki sjást þess í Uppreisn fjöldans að hann hafi haft nokkurn skapaðan hlut upp á hann að klaga, þótt hann hugsi öðruvísi og orki öðruvísi í endurliti og sé heldur glataðra góss, fortíðin er jafnan einfölduð og stundum illilega, stundum er hún lemstruð og hólfuð heimskulega niður eins og lýðum er kunnugt.
„Skríll“ – fjöldi – er hugtak sem fróðlegt er fyrir Íslendinga að skoða nú sem fyrr. Svo virðist til að mynda sem við séum sum hver nokkuð stolt af því, með réttu, að hafa haldið svolitla byltingu hér um daginn og kenna hana við búsáhöld. Við erum mörg hver nokkuð ánægð með að hafa komið ríkisstjórn sem við álitum vanhæfa frá og látið sem vind um eyrun þjóta þótt stjórnmálamenn þess tíma þusuðu nokkuð um skríl, múgæsingu.
Skríll. Er það ekki ægilegt orð? Ég er opinn fyrir því að gefa hlutunum nöfn. Einhver nefndi við mig um daginn að út á það gengi ljóðlist.
Ég er opinn fyrir því að nefna hlutina sínum réttu nöfnum.
Ég er opinn fyrir samræðu.
Hvenær er maður skríll og hvenær er maður ekki skríll? Getur einn einstakur maður verið skríll – eða ekki skríll? Hvenær er maður venjulegur nashyrningur að klóra sér í rassgatinu með horninu, hugsa sitt og drekka hlandforugt vatn úr drullugri tjörn og hvenær er maður orðinn hluti af trylltri nashyrningahjörð í leikriti eftir Ionesco, hjörð sem ryður um koll öllu sem á vegi hennar verður og hefur aðeins eina hugsun, hóphugsunina?
Eru þessar spurningar of langar? Á ég að stytta þær svolítið? Niður í eitt orð?
Skríll. Samkvæmt José Ortega y Gasset má sjá hjá einum manni hvers kyns er, hvort hann er skríll eða ekki.
Maður horfir semsé á einstaklinginn og gaumgæfir hann vandlega, horfir á Evrópusinnann og Evrópuandstæðinginn úthúða hvor öðrum með fúkyrðum, horfir á útgerðarmanninn þar sem hann sífrar yfir smáræðis gyðingaofsóknum (ekkert má nú, ekki einu sinni oggupons af nasískum ofsóknum), horfir á menntamanninn og verkamanninn þar sem þeir æpa í hóp eða hvor í kapp við annan, horfir á fólkið sem hrópar: Jeppinn minn, mannréttindabrot!, þá sem deila göfugum málstað í góðum hóptilgangi á Facebook og þá sem hunsa miðilinn í hóp, maður horfir jafnt til snælduvitlausra rógplebbanna á kommentakerfi DV sem femínistanna, annar hópurinn æpir allavega: Öfgaefmínistar! og ég man ekki hvað hinn æpir en eitthvað er það; maður lítur til draugfúlla og sigri hrósandi umbótasinna sem þusa út í eitt að þeir séu allir eins þessir andskotans vinstri-stjórnmálamenn, helvítis fokkíng fokk, maður horfir á þá sem líta á Sjálfstæðismenn sem skrímsli en ekki manneskjur, listinn er endalaus, vellaunaðir sannir alþýðumenn andskotast út í helvítis hámenntaðan öreigaaðal, menningarmúgur fjargviðrast gegn menningarmúgi, hvað veit ég, kannski er allt í hóp, en maður horfir beint í augun á einstaklingnum og sér: Annað hvort er hann skríll eða ekki. Það sést á svipbrigðunum, ímynda ég mér, orðunum, lífsháttunum, viðhorfunum …
Einn einstaklingur getur sjáanlega og merkjanlega verið það sem Ortega kallaði skrílmenni. Að vera skrílmenni er að þola ekki þá tilhugsun að skera sig úr fjöldanum.  Það er að þola ekkert nema viðtekinn smekk, þola engum að vera öðruvísi. Að vera skrílmenni er að segja og skrifa ætíð: Hvað heldurðu að þú sért? Að vera skrílmenni er að vera neyslumenni, hugsa aldrei um neitt nema að neyta. Og álíta sig eiga heilagan rétt á því að það vinsæla, það sem þú aðhyllist – eftir atvikum lágkúru – sé meðtekið, hyllt, virt, að plebbið rúli.
            Textinn sem ég hef fengist við að þýða að undanförnu er frægasta bók Ortega. Hvaða erindi á þessi bók við daginn í dag, við Ísland? Því svara ég þannig til að kannski vegna þess að hún er skrifuð í kreppu, er bókin aflestrar eins og hún hafi verið skrifuð á Íslandi í fyrra. Allt sem hún veltir vöngum yfir og spáir fyrir um hefur ræst, á  hverri síðu er eitthvað sem hleypir í mann hugljómun.
Skrílmennið þolir ekki neitt sem ekki er plebbalegt og eins og hann. Þessi maður, hróðugur, menntaður, lítill kall, hefur þá grundvallar sannfæringu að lífið sé auðvelt og laust við allar harmrænar víddir. Hann er svolítið skinhelgur, friðaður gagnvart öllum sem halda að þeir séu eitthvað, hann upplifir sjálfan sig umfram allt sem venjulegan, hversdagslegan, normal, og færist við það allur í aukana, lýsir yfir heilögum réttinum til að vera plebbi og neitar að viðurkenna nokkurn mann eða nokkra málaleitan sem honum sé æðri.
Hann er svona svolítið eins og við.
Hér fljótum vér eplin.
Við föðurlandssvikararnir, einangrunarsinnarnir, gaddhestarnir og Evrópusleikjurnar.
            Djöfull leiðist mér.

                                                      ***

Það er aðeins ein leið heim til Evrópu: Evrópsk menning.

Hermann Stefánsson

_______________________________________________________
Fótnóta: Skírnir er elsta og langlífasta og virðulegasta menningartímarit á Norðurlöndum. Subbuskapur og sóðarit er líklega eitt það yngsta og skammlífasta og áhöld eru um virðinguna. Önnur, betri og siðlegri útgáfa af þessum texta er væntanleg sem fylgiskjal við þýðingu á texta eftir José Ortega y Gassett í þarnæsta Skírni, haust 2012.

föstudagur, 27. apríl 2012

Oddur lögmaður (síðari hluti)


„FLATUR MEÐ MÍNUM HERRA“

Við vorum um daginn að rifja upp fróðleik um Odd Sigurðsson lögmann úr bók eftir Jón Jónsson, seinna Aðils, sem kallaður var Jón Sagnfræðingur á sinni tíð. Þessi fróðleikur er ættaður úr útvarpsþætti sem ég hafði einu sinni með höndum og hét Andrarímur, þar sem stundum var lagst í gamlar og gleymdar bækur.

Oddur er flestum gleymdur. Hann var á dögum frá 1682 og til 1741, valdamesti maður landsins um hríð, naut þá hylli stiftamtmanns sem bjó í Danmörku og skipti sér lítið af Íslandi og stóð í þeirri meiningu að Oddur væri kúltiveraði maðurinn á Íslandi af því að hann hafði komið vel fyrir þegar þeir hittust og Oddur nýútskrifaður. Hann skipaði Odd fulltrúa sinn ásamt Dananum Beyer árið 1708. Þeir voru kallaðir „þeir fullmektugu“. Oddur var líka kallaður „Oddur hinn hávi“ því að hann gnæfði yfir menn og öskraði í stað þess að tala – og fann til hátignar sinnar. Hann var íslenskur valdakarl, eins og þeir hafa ýmsir verið gegnum aldirnar; rusti, ofstopamaður og illvirki í aðra röndina en fágaður, kurteis og örlátur þegar sá gállinn var á honum. Hann stóð í eilífum lagaþrætum, var sífellt að koma ár sinni fyrir borð, sífellt að príla og hnoðast, en mætti svo ekki þegar úrslitastundin í lífi hans rann upp. Hann var skartmenni og drykkfelldur slagsmálahundur, glaðvær stuðbolti og þunglyndur –  þegar þyrmdi yfir hann skar hann sig á háls. Hann er maðurinn sem Halldór treysti sér ekki til að hafa með í Íslandsklukkunni – hann hefði eyðilagt partíið.

Þegar Oddur var að komast til valda á Íslandi voru tveir menn  á gangi nálægt kirkjugarðinum í Kirkjubæ og heyrðu kveðið drungalegum rómi upp úr einni gröfinni:

Vögum vér og vögum vér
með vora byrði þunga.
Er nú svo komið sem áður var
í öld Sturlunga.
Í öld Sturlunga.

* * *



Meðal þeirra mála sem komu til þings árið 1708 var mál Jóns Hreggviðssonar sem Jón Sagnfræðingur rekur nokkuð (þetta er löngu áður en Halldór skrifar Íslandsklukkuna) og er sú frásögn mjög samhljóða þeirri sem við þekkjum úr Íslandsklukkunni, nema hér eru það þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín sem dæma Sigurð Björnsson lögmann frá embætti vegna meðferðar hans á máli Jóns. Oddur aðstoðaði hins vegar Sigurð við að ná aftur embætti sínu, og varð af mikil málaflækja þar sem fleiri sakamenn komu við sögu.

Þeir Oddur og Beyer stóðu í stórræðum næstu árin, þóttu afskiptasamir og röggsamir og þótt menn mögluðu fékk enginn rönd við reist því enginn gat vefengt vald þeirra og myndugleik. Nema einn var sá maður sem taldi sig hafa að minnsta kosti jafn gott umboð til valda og Oddur Sigurðsson og það var Jón biskup Vídalín sem taldi sig fremur hæfan til að hafa yfir prestum að segja en Odd.

Það má segja að Jón Sagnfræðingur sé hálfpartinn í öngum sínum þegar kemur að því að lýsa deilum þessara manna. Hann byrjar mál sitt með hátíðlegum inngangi, nálgast þessi áflog drukkinna íslenskra valdamanna úr mikilli fjarlægð:

Allar þjóðir í veröldinni sem nokkra sögu eiga, eiga um leið sínar söguhetjur, sín átrúnaðargoð. Það stendur eins og bjarmi af nafni þeirra einu saman. Þjóðin á bágt með að viðurkenna, að þeir séu háðir mannlegum ástríðum og mannlegum breiskleika eins og vér hinir, og það mælist venjulega illa fyrir ef farið er að hreyfa við þeim eða tæpa á nokkru sem getur kastað skugga á þá. En hins vegar heimtar sagan að sannleikskröfunni sé fullnægt. Sagnaritarinn er því í talsverðum vanda staddur, þegar um slíka menn er að ræða.

Allt er þetta vegna þess að nú eru leidd fram í bókinni mörg bréf sem lýsa því hvernig Jón Vídalín heimsækir Odd lögmann augafullur og gerir honum lífið leitt sem mest hann má, eins og Oddur rekur síðan í löngu máli fyrir stiptamtmanni - hér er úr einum vitnisburði sem maður á vegum Odds skrifar, og þarf ekki að taka fram að ótal frásagnir eru líka af árásum Odds á Jón:

Einnig þann 21. júlí á sama alþingi um kvöldið seint kom greindur biskup til vísilögmannsins (þ.e. Odds) tjalds, og sýndist mér þá téður biskup af sterku víni drukkinn vera, hvar fyrir vísilögmaðurinn með báðum höndum hjálpaði honum að ganga inn í sitt tjald, og skömmu þar eftir studdi téður vísilögmaður biskupinn mjög hæglátlega svo sem sinn besta vin út úr tjaldinu aftur og á hestbak. En sem þráttnefndur biskup var á hestbak kominn, reikaði hann svo mjög að mér sýndist að hann mundi af hestinum ætla að falla, hvar fyrir vísilögmaðurinn tók báðum höndum yfir um og undir biskupsins brjóst og herðar, svo hann dytti ekki af hestsbaki, og hjálpaði svo vísilögmaðurinn honum frá því falli. En á meðan vísilögmaðurinn svo studdi hann, þá spýtti og spúði biskupinn miklu vatni og óhreinindum frá sínu brjósti ofan á vísilögmannsins handlegg, og sá eg þá að greindur biskup kastaði upp klýju úr munninum, sem féll ofan yfir vísilögmanninn, og upp á hans klæði.
           
Og þannig heldur þetta lengi vel áfram. Þessar deilur áttu eftir að magnast enn með gagnkvæmum svívirðingum og vitnaleiðslum um ósæmilegt hátterni.

Enn afdrifaríkari urðu hins vegar deilur Odds við frænda Jóns, Pál lögmann, sem Oddur ofsótti – hann lét rigna stefnum yfir hann, réðst á hann við Kalmanstungu og beit hann illa, klagaði hann til stiptamtmanns og lét síðan kné fylgja kviði árið 1713 og svipti hann embætti fyrir misjafnlega vel grundaðar sakir.

Sumarið 1714 tók Oddur að fullu og öllu við lögmannsembættinu norðan og vestan af Gottrúp og ári síðar siglir hann til Danmerkur til að koma Páli endanlega út úr húsi hjá stiptamtmanni, æðsta manni landsins sem sat í Kaupmannahöfn og kom aldrei til Íslands. En Páll eltir hann, tekur næsta skip og bregður Oddi mjög þegar Páll birtist enda var hann búinn að segja stiptamtmanni ýmsar sögur af Páli sem gat reynst erfitt að sanna en auðvelt að hrekja. Í þessari utanför var Oddur því stöðugt milli vonar og ótta, í sífelldri geðshræringu og fór svo loks að í æsingnum skar hann sig á háls með rakhníf.

Hann lifði af þetta sjálfsbanatilræði. Sagan segir að Oddur hafi eitt sinn á æskuárum setið við lestur hjá móður sinni í stofu inn af baðstofunni. Allt í einu heyrir hann undarleg hljóð frammi, tekur ljósið og gengur á hljóðið. Kom hann þar að manni sem hafði skorið sig á háls og varð mjög mikið um. Og þaðan væri þessi árátta komin – að skera sig á háls þegar hann komst í mikla geðshræringu.

Það er hins vegar af málalyktum í Kaupmannahöfn að segja að Dönum tókst að lægja öldurnar að sinni og héldu báðir virðingu sinni. Páll hélt embætti og æru þótt margir dóma hans væru taldir rangir og órökstuddir. Um þessar mundir var Beyer boðaður utan til að gera grein fyrir reikningum sínum, og sigldi hann árið 1717 en komst aldrei alla leið, lést í Noregi á leiðinni. Þar með var lokið yfirráðum þeirra fullmektugu.

Vegur Odds stóð hins vegar sem hæst um þessar mundir. Hann var einn af ríkustu mönnum landsins, fulltrúi stiftamtmanns, lögmaður norðan og vestan, hélt Snæfellssýslu, Stapaumboð og Dalasýslu annað veifið, átti jarðir víða um land og bjó myndarbýli á Narfeyri. Þar safnaðist kringum hann knárra sveina flokkur af skjólstæðingum og viðhlæjendum og var tónninn í á kvöldskemmtunum væntanlega eitthvað svipaður þeim sem er í orðum sem sagt er að Sumarliði Klemensson sýslumaður í Strandasýslu hafi jafnan haft uppi þegar hann drakk Oddi til - sem oft mun hafa verið: Flatur með mínum herra.


***

Árið 1719 lést Gyldenlöve stiftamtmaður og var Raben nokkur flotaforingi skipaður í hans stað. Gyldenlöve hafði haldið hlífiskildi yfir Oddi þegar óvinir hans báru á hann sakir og bar í bætifláka fyrir hann og studdi hann í langvinnum deilum hans við Vídalín-frændur, á bak við tjöldin að minnsta kosti. Gyldenlöve hafði að vísu líka reynt að vanda um fyrir skjólstæðingi sínum og fá hann til að hætta þessum sífelldu málaferlum út af mismiklum sökum. Þegar Oddur lét það sem vind um eyru þjóta fór stiptamtmaður hins vegar að missa þolinmæðina og leggja drög að því að draga úr völdum hans.
           
Úr verður að senda hingað til lands norskan mann, Niels Fuhrmann sem kom hingað að áliðnu sumri 1718, fyrst sem aðstoðaramtmaður og síðar sem amtmaður. Hann þekkjum við af válegum kvennamálum hans – en Appollonia Schwartzkopf elti hann hingað á Bessastaði þar sem hún ku eigra enn um stofur á köldum nóttum, en hún var að sögn drepin á eitri af mæðgum tveim sem augastað höfðu á húsfreyjustarfinu á Bessastöðum. Það er önnur saga: Þegar Gyldenlöve hafði pata af því að þeir Oddur og Jón Vídalín væru enn lagstir í langdregna og flókna deilu tók hann á sig rögg og svipti Odd umboði sínu og fékk það Fuhrmann í hendur.
           
Og nú taka fjölmargir óvinir Odds að hugsa sér til hreyfings. Snögglega fækkar vinum, allir fylkja sér um hinn nýkomna mann:

Fuhrmann var ekki lengi að átta sig á málunum. Hann sá það fljótt að hér voru aðeins tveir kostir fyrir hendi: að kúga þenna mann til hlýðni við sig eða steypa honum algerlega. Fyrr gat hann ekki sagt að hann væri búinn að tryggja vald sitt á Íslandi. Fuhrmann var að vísu hreinlyndur maður og prettalaus, en hann þóttist samt ekki mega drepa hendi við hjálparmeðulum þeim, sem honum buðust, þótt þau máske væru ekki með öllu óaðfinnanleg, ef í ströngustu rannsókn var farið. Hann sá það eitt, að hann varð fyrir hvern mun að ná yfirtökunum á Oddi, og hann náði þeim á endanum. En fyrst varð hann að sæta lagi og grafast fyrir um allan embættisferil hans. Hann veitti því fúslega áheyrn öllum þeim, sem einhverjar upplýsingar gátu gefið honum, og þeir voru margir, sem flýttu sér að létta af sér lastmælabyrðinni.

Oddi var margt betur gefið en nákvæmni í embættisfærslu og þar var Fuhrmann fljótur að finna höggstað á honum og nú tekur að rigna yfir Odd aðfinnslum og ákúrum um horfin skjöl af skrifstofunni og dómabækur með grunsamlegum eyðum og  eyðufyllingum.
           
Meðal þess sem amtmaður grennslaðist fyrir um hjá Oddi var hvort hann héldi Snæfellssýslu og Stapaumboð án þess að hafa veitingu konungs fyrir því og skipar hann Oddi að leggja fram veitingabréf en missa lénin ella. Ekki fann hann þau skjöl og úr varð að Oddur missti þessi umboð en Fuhrmann fékk þau í hendur Jóhanni Gottrúp sýslumanni í Húnavatnssýslu. Það var upphafið að megnum deilum Odds og Gottrúps.
           
Meðal þeirra fjölmörgu sem nú leituðu til Fuhrmanns til að rétta hlut sinn gagnvart Oddi var hans gamli tengdafaðir, Guðmundur ríki, sem að sögn Jóns var „maður féskyggn og nískur, forn í skapi og undarlegur.“
           
Þegar Oddur settist að á Narfeyri tók Guðmundur sig upp og flutti til Brokeyjar þar sem hann byggði stór og glæsileg hús og tók að auðgast á ný. Ekki var þó Adam lengi í Paradís því Oddur hugsaði honum þegjandi þörfina því nú þóttist hann sjá að úti væri um arfsvon eftir Guðmund. Hann tók sig nú upp og fór út í Brokey með sveinum sínum – handrukkaralýð þessa tíma – og var erindið að skaprauna Guðmundi. Þar létu menn sitt ekki eftir liggja, brutu og brömluðu, spilltu mat og drykk og „fífluðu griðkonur“ eins og það heitir hjá Jóni. Varð Guðmundur svo æfur við þetta, að hann hugsaði ekki um annað meir upp frá þessu en ná fram hefndum.
           
Sú stund rann svo að lokum upp þegar honum tókst með aðstoð Fuhrmanns að ná aftur Narfeyri af Oddi og hafa af honum mikið fé. Áður en lauk arfleiddi síðan Guðmundur  ríki Fuhrmann að öllu sínum eignum.

***

Jón Sagnfræðingur:

Nú var af sú tíð að menn óttuðust reiði Odds og kinokuðu sér við að ganga í berhögg við hann. Á þeim 2-3 árum sem liðin voru frá því Fuhrmann kom hér upp, var svo um skipt fyrir honum, að hann varð sjálfur að sæta refsingu hvað eftir annað, í stað þess að beita hirtingarvendinum við aðra út í frá. Áður höfðu landsins bestu menn orðið að lúta í lægra haldi fyrir honum en nú var svo komið að jafnvel ómerkum umrenningum þótti sér ekki ofvaxið að etja kappi við hann fyrir rétti. Hann fór á þessum árum hverja hrakförina á fætur annarri enda risu menn nú upp hópum saman og kærðu hann fyrir ýmsar misgerðir, bæði sannar og ímyndaðar. Sumir af þessum spjátrungum og vesalmennum sem nú settust að honum eins og grimmir rakkar voru aðeins verkfæri í höndum annarra voldugri mótstöðumanna og gerðir út af þeim til að ónáða Odd.

Þegar svo stiftamtmaðurinn nýi, Raben kom hingað til lands árið 1720 hafði Fuhrmann komið því til leiðar með bréfum sínum að hann hafði litlar mætur á Oddi. Við bættust alls kyns klögumál á hendur honum frá flestum höfðingjum landsins sem gengu allir á fund stiptamtmanns – nema Oddur. Þegar mest lá við að hitta þann sem öllu réði lét hann ekki sjá sig.  Annaðhvort átti hann ekki heimangengt vegna veikinda eins og borið var við eða treysti sér ekki til að standa augliti til auglitis við stiptamtmanninn. Þetta átti eftir að verða honum dýrkeypt.

Nú var því útséð um hylli stiptamtmanns sem skrifar kóngi um Odd í nóvember 1720:

Það er öllum mönnum kunnugt að meðan hann var fulltrúi stiptamtmannsins á Íslandi þá réði og ríkti hann yfir öllu eins og einvaldsherra, svo stiftamtmaðurinn sá sér ekki annað fært að lokum en að svipta hann völdunum, því hann kom öllu landinu í uppnám og vildi einn yfir öllu drottna. Upp á síðkastið var hann farinn að drekka svo afskaplega að öll störf hans á alþingi fóru í ólestri, og hann æddu þar um eins og vitlaus maður.

Þegar svo er komið fyrir Oddi Sigurðssyni að hann er búinn að missa fulltrúastöðuna, sýsluna og umboðið og á að greiða stórfé til Fuhrmanns og Stapakaupmanna þá lætur hann ekki hugfallast heldur afræður að sigla. Fuhrmann neitar honum um vegabréf en hann gefst samt ekki upp heldur strýkur í skip og kemst til Kaupmannahafnar. Þar nær hann loks fundi stiftamtmanns sem hlýðir á mál hans fullur óbeitar og skrifar Fuhrmann um þessa heimsókn:

Hann hefur verið að reyna að telja mér trú um að hann hafi gert yður viðvart um ferð sína og samið áður við Benedikt Þorsteinsson um að þjóna lögmannsembættinu í fjarveru sinni, en með því hann er innfæddur Íslendingur, legg ég ekki mikinn trúnað á orð hans...

Oddur fær því engan hljómgrunn lengur í Kaupmannahöfn og snýr aftur heim, sneyptur. Þegar heim er komið keyrir um þverbak í embættisvanrækslu hans; hann mætir ekki til þings, stendur ekki skil á gjöldum og virðist í einu og öllu storka mótstandsmönnum sínum til að svipta hann lögmannsembættinu. Fé hans eyðist hratt í alls kyns málskostnað, og þó heldur hann áfram fyrri iðju við að eyða og spenna á allar lundir.
           
Það var svo loks í Jóhanni Gottrúp sem hann hitti endanlega fyrir ofjarl sinn.

***
           
Jóhann var sonur Lauritz lögmanns, fæddur og uppalinn á Íslandi og vildi óður og uppvægur taka að sér öll mál gegn Oddi þegar Fuhrmann kom hingað til lands, ef til vill vegna þess að faðir hans hafði hálfpartinn neyðst til að segja af sér vegna undirróðurs Odds. Upphaflega reis ágreiningur þeirra út af afhendingu á Stapaumboðinu. Gottrúp þótti Oddur ekki skila umboðinu í því ástandi sem það ætti að vera og tók sig til og lét greipar sópa um eigur Odds hvar sem hann náði til þeirra. Ekki er hér tóm til að rekja hina löngu væringasögu þeirra Gottrúps og Odds  –  það er ljót saga um gagnkvæman dólgshátt – en um síðir fór svo að Oddur tapaði öllum málum í Hæstarétti í Kaupmannahöfn, rúinn auði sínum, embættum og æru.  Þeir Gottrúp urðu samferða út til Íslands í Ólafsvíkur skipi. Á leiðinni svívirti Gottrúp og smánaði þennan gamla valdamann og spyrnti við honum fæti þegar hann sté á land svo að hann féll ofan í forina. Reif hann svo á fætur og dró hann með sér heim að Rauðamel, heim til móður hans, forugan og tötrum klæddan. Jón segir að frú Sigríður hafi grátið “móðigum tárum” þegar hún sá son sinn svo grátt leikinn og beðið Gottrúp hinna verstu bölbæna.

Niðurlægingin var fullkomnuð.

***

Var svo kyrrt um hríð.

***


Dómurinn í Hæstarétti þar sem Oddur missti æruna snerist um svokallað Ingjaldshólsmál. Enn voru ekki alveg öll kurl komin til grafar. Enn var ódæmt í svokölluðu aðtektarmáli sem skyldi takast fyrir í hæstarétti þann 27. janúar 1727. Og nú sá Oddur örlitla glufu opnast Hann seldi nokkrar jarðir til að afla farareyris og hélt á ný til Kaupmannahafnar. Þegar hann sté á land þar frétti hann lát Rabens stiptamtmanns og var eftirmaður hans Gyldencrone nokkur, barún, sem áður hafði setið í nokkur ár í stjórnarráðinu. Glufan stækkaði. Allt í einu sá Oddur möguleika á því að öðlast uppreisn æru.
           
Hana fékk hann reyndar ekki strax en hins vegar fékk hann konungsleyfi til að taka allt mál þeirra Gottrúps upp og framfylgja því og fylgdi skipun til Fuhrmanns  amtmanns að sjá um að stefnur hans væru löglega birtar.
           
Þar með gat málastappið hafist á ný og eftir mikið japl jaml og fuður fór svo að þann 22. júní 1730 var dómur kveðinn upp í Hæstarétti á nýjan leik og var þar fyrri dómum hnekkt að mestu – og Oddur endurheimti æruna og umboð sín. Gottrúp var dæmdur til að borga honum skaðabætur og skila aftur öllu því sem hann hafði hrifsað til sín af eigum Odds, sem var mest allt. Mest af því fé var glatað og Gottrúp endaði sína daga sem fiskbarsmíðarkarl og gustukamaður á Grunnasundsnesi.

***
           
Þegar þessum málum öllum lauk var Oddur rétt fimmtugur  og tekinn að mæðast, Með árunum stilltist hann að sögn og svo fór áður en lauk að þeir Fuhrmann voru farnir að skiptast á fágætum bókum. Oddur átti eftir að verða á ný einn ríkasti maður landsins, hann setti bú sitt á Leirá í Borgarfirði og hélt þar marga ómaga og örvasa gamalmenni. Sagan segir að Jóhann Gottrúp hafi átt leið þar hjá í vesöld sinni og kröm á leið utan í einhverjum málaferlum. Sendi Oddur þá í veg fyrir hann og gaf honum góð klæði og hundrað dali í peningum. Hann lét lítið yfir sér hin seinni ár og átti ekki í málaferlum. Segir Jón Jónsson, Sagnfræðingur.
           
Um morguninn þann fimmta ágúst 1741 fannst Oddur dauður í rekkju sinni. Hann hafði gengið alheill til sængur og enginn heyrt til hans um nóttina. Þegar hans var vitjað í rekkju sinni um morguninn kom í ljós að hann var dauður. Far var á hálsinum. Sumir sögðu að hann hefði verið myrtur og var einn af sveinum hans, Bjarni Jónsson – einn úr dólgaflokknum –  talinn sá seki. Flatur með mínum herra.

Í nokkurs konar eftirmála segir Jón Sagnfræðingur um Odd Sigurðsson lögmann:

Oddur er einn af þeim mönnum sem mjög erfitt er að einkenna með fáum orðum. Líf hans er svo fullt af öfgum, hann er svo óstöðugur og margbreytilegur í allri sinni háttsemi, að lítt mögulegt er að ná föstum tökum á persónu hans. Hann er aldrei í jafnvægi. Hann gat verið manna kurteisastur og hæverskastur ef því var að skipta og svo ljúfur í viðmóti, að unun þótti; en þegar minnst varði braust frekjan og ruddaskapurinn fram og eyddi áhrifunum jafn harðan.
           
Og nokkru síðar:
           
Það er ekki laust við að oss renni til rifja að sjá jafn mikla og góða hæfileika og Oddur hafði fara forgörðum. Það er eins og oss finnist íslenska þjóðin ekki hafa efni á að missa þeirra úr framsóknarbaráttunni. Aldrei hefir ef til vill nokkur maður í sögu þessa lands látið meira á sér bera um sína daga og minna eftir sig liggja.

Guðmundur Andri Thorsson

fimmtudagur, 26. apríl 2012

Brecht


Loksins, eftir furðu langa mæðu, kominn með greinasafn Brechts í enskri þýðingu. Og langar svolítið að heyra aftur Kurt Weil upptökurnar sem þú varst með – ekki geturðu gert handa mér afrit, eða sent mér titilinn og nafn tónlistarmanns/hljómsveitarstjóra, þannig að ég geti haft upp á diskinum.

Í neðanmálsgrein þýðanda við þriðju greinina, sem Brecht skrifar 26 ára, talar hann um nauðsyn þess að opna vindlareykingaleikhús, eða leyfa í það minnsta vindlareykingar í sumum leikhúsum: „I even think that in a Shakespearean production one man in the stalls with a cigar could bring about the downfall of Western art. He might as well light a bomb as light his cigar. I would be delighted to see our public allowed to smoke during performances. And I'd be delighted mainly for the actors' sake. In my view it is quite impossible for the actor to play unnatural, cramped and old-fashioned theatre to a man smoking in the stalls.“

Stórkostleg afstaða. Eins og ég sé ekki nógu a) pedagógískur b) mikill nikótínfíkill fyrir.

Annars er rétti tíminn núna til að sýna einhvers staðar Jóhönnu af Örk eftir Dreyer. Það er nákvæmlega leikritið sem Breivik er að setja á svið í réttarsalnum í Osló, með sjálfan sig í aðalhlutverki.

Bestu kveðjur,

H.



Haukur Már Helgason

Fimmti fíllinn, fitufjallið og aðrar furður hins (allt annað en) flata heims Terry Pratchett


Hann á afmæli á laugardaginn, 28. apríl, hann Terry. Þá verður hann sextíu og fjögra og hver veit nema konan hans, hún Lyn, skutli á hann vínflösku af því tilefni. Hann er farinn að missa hárið, einsog gengur með sextíu og fjögra ára gamla menn, og minnið líka, jafnvel meira en gengur og gerist með menn á hans aldri. Terry er nefnilega með fágætt afbrigði af alzheimer. Kannski er það þessvegna sem honum liggur svona lifandis ósköp skelfing mikið á að skrifa bækurnar sínar, en kannski er það öfugt, kannski er kallinn kominn með minnisglöp afþví hann er búinn að skrifa frá sér allt vit, senda frá sér að meðaltali tvær bækur á ári síðustu þrjátíu árin, maðurinn er náttúrulega ekki í lagi (seinni tilgátan hlýtur að teljast líklegri, þar sem hann greindist ekki með alzheimer fyrren 2007 en hefur skrifað tvær bækur árlega frá 1983).  Hann er enn að skrifa, glöpin eru ekki meiri en svo, þótt hann segist ekki meika það lengur að skrifa annað en nafnið sitt þegar hann situr sveittur við áritanir, til dæmis á Discworld-ráðstefnunum sem haldnar eru hér og þar og allstaðar um okkar hnöttóttu veröld og hann lætur ósjaldan sjá sig á, aðdáendum sínum til mikillar gleði. Oftar en ekki með svartan, barðastóran hatt á silfurfáhærðu höfðinu. 

Wikipedia segir hann vera næstmestlesna höfund á Bretlandseyjum um þessar mundir en upplýsir ekki hver er mest lesinn. Letileg leit mín að hinu sanna í því máli leiddi mig hálfan útí móa, en ég held samt að það sé annaðhvort Catherine Cookson (ef dauðir rithöfundar teljast með, sem ég er ekki viss um) eða Jóhanna K Rowling. Hitt veit ég með vissu að Snuff, þrítugasta og níunda og nýjasta bókin hans úr Discworld-syrpunni, seldist hraðar fyrstu dagana eftir útgáfu en allar bækur aðrar utan tvær svo leiðinlegar að ég ætla ekki einusinni að segja ykkur hverjar þær eru. Snuff kom út í fyrrahaust og ég er svo heppinn að eiga hana ólesna, öfugt við margar aðrar bækur Terrys, þarámeðal þá sem ég ætlaði eiginlega að skrifa um hér afþví hún er sú skáldsaga sem ég las síðast og kannski best ég fari að koma mér að efninu sem er sumsé Fimmti fíllinn - The 5th elephant eftir Terry Pratchett. Þetta er eldgömul saga, kom út 1999 og ég held að eina ástæðan fyrir því að ég var ekki búinn að lesa hana fyrir löngu hljóti að vera sú að ég hafi alltaf haldið að ég væri búinn að lesa hana fyrir löngu. Og kannski er það raunin. 

Discworld-sögurnar gerast, einsog nafnið bendir til, í Diskheimi, flatri „jörð“ sem flengist um óravíðáttur ímyndunaraflsins, borin uppi af fjórum fílum, sem aftur standa á skildi hinnar stórkostlegu risaskjaldböku A‘Tuin, svosem alkunna er. Sagan – ein af milljóntrilljón sögum í sagnaarfi hinna ýmsu ættbálka, þjóða, tegunda og fyrirbæra af ólíklegasta tagi sem byggja Diskheim, í þessu tilfelli úr erfðaminni dverga – segir, að fílarnir á baki skjaldbökunnar miklu hafi upphaflega verið fimm, en einn þeirra misst fótanna, kastast útí geim og langt, langt uppí loft og þaðan niður á Diskinn með svakalegu hvissbangbúmmi og skelfilegum afleiðingum fyrir hann (og væntanlega alla nærstadda þegar það gerðist) en komandi kynslóðum dverga í hinu víðfeðma og sundurlausa stórveldi Uberwald til mikilla heilla, en alda- eða árþúsundagamlar leifar fimmta fílsins – og þá einkum og sérílagi fitan af honum – er ein helsta auðlind þeirra og útflutningsafurð. 

Fimmti fíllinn hefur nokkurnveginn allt til að bera sem prýða má eina Diskheimabók eftir Pratchett. Helsti gallinn, ef galla skyldi kalla, er sá að sögusviðið er ekki Ankh Morpork, helsta og mesta borgríki Diskheima, Sódóma þeirra og Gómorra, París, Róm og London, en það er bætt upp með því að senda nokkra vel valda fulltrúa frá því dásamlega sóðaplássi á krýningarhátíð hins nýja dvergakonungs í Uberwald, sem auk dverga geymir tröll, vampýrur, Ígora og, síðast en ekki síst, fjöldann allan af varúlfum. 

Aðalfulltrúinn, og sá opinberi, er Sam Vimes, en auk þess að vera lögreglustjórinn í Ankh Morpork vill svo vel til að hann bæði giftist og vann sig upp til greifatignar og er því – á pappírunum í það minnsta – fullgilt fyrirmenni við slíka athöfn, einkum þar sem greifynjan, sópraninn og drekaræktandinn konan hans, hún Sybil, er með í för. Aðrir í föruneytinu eru tveir lögregluþjónar (dvergurinn Cheery Littlebottom, kvenkyns dvergur sem gerir meira úr þeirri staðreynd en sómakærum (les: íhaldsömum) dvergum er almennt tamt eða þóknanlegt (þótt hún gangi nú ekki svo langt að raka af sér skeggið) og tröllið Detritus (sem gengur mun betur að hugsa í köldum fjallahéruðum Uberwald en í hitasvækjunni í Ankh Morpork)) og löggiltur leigumorðingi sem fattar (aðeins of seint) að það er hægt að banka báðumegin á hurð. 

Ástæða þess að æðsti ráðamaður Ankh-Morpork ákvað að senda Vimes (og leigumorðingja sem hans helsta hjálparkokk) frekar en einhvern annan er sú, að glæpur hefur (að öllum líkindum) verið framinn, sem gæti stefnt krýningunni, og þar með viðkvæmum friðinum milli dverga, trölla, vampýra og varúlfa Uberwalds í voða, sem aftur gæti haft verulega slæm áhrif í Ankh-Morpork: Ef engin er feitin, úr hverju skal þá steypa kertin og steikja kjötið? Slíkt er ávísun á upplausn og anarkí, byltingu og blóðsúthellingar og jafnvel eitthvað þaðanaf verra. 

Þriðja löggan sem átti að vera með í föruneyti greifans og lögreglustjórans Vimes er varúlfynjan Angua von Uberwald, en hennar fjölskylda á sitt óðal einmitt í Uberwald. Hún fannst hinsvegar ekki þegar til átti að taka, en það stafaði eingöngu af því að hún lagði af stað heimleiðis nokkru áður í leyfisleysi og banni, þar sem hún hafði ástæðu til að ætla að Wolfgang bróðir hennar væri lykilmaðurinn í djöfullegu plottinu sem ógnar friðinum í Uberwald. Og afþví að næstráðandi Vimes í Ankh-Morpork löggunni, hinn hávaxni dvergur (sem líffræðilega er reyndar maður og þaraðauki að öllum líkindum réttborinn konungur Ankh-Morpork) Carrot Ironfoundersson elskar varúlfynjuna Angua af öllu sínu konunglega hreina hjarta þá fylgir hann sinni heittelskuðu auðvitað eftir með dyggri aðstoð talandi hundsins Gaspode („I could have been a wolf, you know. With different parents, of course“ ). Ég ætla ekki að lýsa söguþræði þessarar bókar nánar, læt duga að segja ykkur að ég keypti hana á Keflavíkurflugvelli, kláraði hana í Köben tveimur dögum síðar, hló að minnsta kosti tuttuguogníusinnum upphátt og margfalt oftar inní mér og naut lestursins frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu. 

Ég saknaði reyndar Nobby Nobbs (sem er ekki maður, ekki dvergur, ekki tröll eða ígor eða vampýra, varúlfur, zombí eða gólem né nokkur skilgreinanleg vera önnur heldur líklega eina (þekkta) lifandi veran af sínu sérstaka Nobby-tagi) úr föruneyti Sams, en hann (eða það) kom þó við sögu heima í héraði þar sem hann stóð fyrir fyrsta verkfallinu í sögu lögreglunnar í Ankh Morpork, og þaraðauki er víst ekki hægt að fá allt. 

Fimmti fíllinn kemst samt eins nálægt því og hægt er að bjóða uppá allt sem hægt er að óska sér – ef maður hefur gaman af sagnaveröld Terry Pratchett. Ég, fyrir mitt leyti, get ekki ímyndað mér heim þar sem fólk hefur ekki gaman af þeirri veröld. Og ég sendi meistaranum mínar allra bestu afmæliskveðjur og vona að honum gangi vel að skipta um öryggið svo Lyn sjái nú eitthvað til þegar hún prjónar á hann peysuna. Eða er það öfugt, þarf Lyn að skipta um peysu svo Terry geti prjónað öryggið? Það kæmi svosem ekkert á óvart.

Ævar Örn Jósepsson



miðvikudagur, 25. apríl 2012

Kæra Kristín - 3. hluti


Kæra Kristín. 

Ég leitaði þín lengi. Spurði eftir þér á börum. Sendi út fyrirspurnir. En fann þig ekki. Einhvern veginn fannst mér einsog öll skáld hétu Kristín. Það er víst öðru nær – eða í öllu falli flóknara en svo. Og fólkið hristi bara hausinn. Ertu að meina háskólarektor? sagði fólkið. Hvað um formann Rithöfundasambandsins? En hún þarna í París? sagði einn. Þýðandinn. Og þá mundi ég að hún hafði eitt sinn uppi stór orð um að maðurinn hennar, sem er fornbókasali í París, myndi ekki hleypa rafskinnubókaaflestrarspjaldi inn á heimilið. Þessar konur eru allar undir hælnum á einhverjum karlmanni. Nema þú auðvitað, þú ert frjáls. 

Allavega. Kristín þarf að eiga svona tæki. 

Bókin sem ég ætla að gefa þér er nefnilega svona rafskinnubókaaflestrar-
spjaldstölvuskjal. Þú færð hana í tölvupósti um leið og þú gefur þig fram. Og hún heitir Grand Canyon – Miklagljúfur – og er eftir Vitu Sackville-West. Ég reikna með því að kaupa nýtt eintak fyrir þig því maður getur ekki gefið rafbækurnar sínar. Ég get víst ekki bara skráð hana á þig eða sent þér afrit af skjalinu mínu. Eða – ég get auðvitað allt sem ég vil (ég er nefnilega líka frjáls). Ég get alveg brotið afritunarvörnina og kannski er ég meira að segja búinn að því. Mér finnst það mjög líklegt. En það er áreiðanlega ólöglegt þótt höfundurinn sé löngu dauður og fái ekki krónu greidda fyrir þetta héðan af. 

Ég keypti þessa bók fyrir einhverjum mánuðum. Líklega voru þetta einhvers konar impúlskaup, einsog það er kallað þegar maður bara spreðar peningum út í loftið án þess að hugsa út í afleiðingarnar. Ég held ég hafi séð einhverja samantekt, eitthvað – og ákveðið að þetta væri nú áhugavert – en svo var ég búinn að gleyma því öllu þegar ég las bókina. Ég mundi ekkert um höfundinn og ekkert um söguþráðinn – nema það eitt að þetta væri ein af þessum nasistar-unnu-seinni-heimsstyrjöldina skáldsögum sem yfirleitt eru kenndar við „alternative history“ (annarlegar sögur? – óþægilegt að eiga ekki þetta orð, history, á íslensku). Ég reyndi að gera mér í hugarlund af lestrinum hvenær bókin hefði verið skrifuð – og giskaði á miðja sjöunda áratuginn. 

Bókin kom mér strax á óvart. Hún hefst á til þess að gera langri persónulýsingu. Breskur maður, Lester, situr og horfir á breska konu, Helen, og veltir henni fyrir sér. Þau eru bæði gestir á hóteli við Miklagljúfur, nálægt stórri bandarískri herstöð. Heimsmyndin birtist manni eiginlega bara í algeru framhjáhlaupi við það sem virðist vera ógurlega mikill og leiðinlegur hversdagur.  Margir gestanna eru flóttamenn frá Evrópu. Nasistar unnu stríðið á meginlandinu og Bretlandseyjum en Bandaríkjamenn semja um frið. 

Einsog gengur bera fæst orð minnsta ábyrgð og þetta á hvort eð er ekki að vera bókadómur eða einu sinni umfjöllun – þetta er bókagjöf og maður klagar ekki bækurnar sem maður gefur, kemur ekki upp um þær. Ég segi þér því ekkert meira af söguþræðinum – sem er reyndar alveg magnaður og ég væri meira en til í að ræða við þig framvinduna þegar þú ert búin að lesa bókina – en ég ætla samt að reyna að segja þér hvað mér fannst. 

Um miðja bók var ég orðinn heltekinn af því sem mér fannst vera tvíkynleiki bókarinnar – hvernig hún var strákabók (eða karlabók) um seinni heimsstyrjöldina og nasista og loftárásir og sögulegan fróðleik, á sama tíma og hún var stelpubók (eða kellingabók) um hið hversdagslega og jarðbundna í bland við andleg málefni (án þess þó að verða nokkurn tíma skvísubók, verð ég að viðurkenna, og aldrei mjög upptekin af tilfinningum, þetta er kaldari kelling en svo). Og þetta gerðist sem sagt allt á sama tíma og Kristín Svava var á fullu að skjóta niður barnaníðinginn Humbert Humbert á kellingablogginu og Helgi Ingólfs var að delera um ástarvellur á kallablogginu. Og allir með kynjagleraugun á lofti úti um allt land, kynjasvipurnar og kynjafallbyssurnar. Eða svona. Þið vitið. 

Allavega. Kominn í miðja bók og gefst upp á óvissunni. Teygi mig í snjallsímann á náttborðinu og slæ höfundinum upp. Bókin er gefin út 1942. Löngu áður en neinn var búinn að vinna seinni heimsstyrjöldina. Og raunar var ekkert svo ósennilegt á þeim tíma að Hitler myndi bara hirða Evrópu. Bókin er þannig ekki skrifuð sem alternatíf fortíð, heldur sem hugsanleg (ótímasett) framtíð. 

En ritunartíminn reyndist síðan ómerkilegri partur uppgötvunar minnar, því í ljós kom að Vita Sackville-West, hverrar nafn mér hafði vissulega þótt kunnuglegt en mundi alls ekki hvaðan, er fyrrum ástkona Virginiu Woolf og það var til hennar sem Orlando – ein æðisgengnasta bók sem ég hef lesið –  var rituð og kölluð „lengsta ástarbréf sögunnar“. Fyrir þá sem ekki muna það skal rifjað upp að Orlando fjallar um veru (sem er byggð á Vitu Sackville-West) sem lifir í margar aldir og hefur líf sitt sem andrógýnískur karlmaður en er í bókarlok, á öðrum áratugi 20. aldarinnar, andrógýnísk kona – altso fulltrúi þess sem er í senn bæði-og og hvorugt í kynjamálum. Í lok bókarinnar gefur Orlando út ljóðabók og hlýtur fyrir hana virt verðlaun – líkt og Vita gerði í upphafi síns bókmenntaferils. Og hverjum þeim sem hefur lesið Orlando ætti að vera fullkomlega ljóst að ef Orlando hefði fylgt ljóðabókinni eftir nokkru síðar með yfirskilvitlegum nasistaróman þá hefði hann verið nákvæmlega svona. 

En jæja. Kristín, þú lætur bara vita af þér í athugasemdakerfinu og ég sendi þér bókina og þú sérð þetta síðan sjálf. 

Allra bestu kveðjur!
Þinn,
Eiríkur



Eiríkur Örn Norðdahl

Björninn úr Bjarmalandi, eftir Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, mjög síðbúin gagnrýni

Pólitískur rétttrúnaður hefur fengið nýja merkingu, það snýr ekki lengur að því hvaða pólitík er rétt að aðhyllast, heldur einfaldlega að “vera pólitískur” Fólk sem hefur langa reynslu í því að vera áskrifendur að póstlistum hjá Amnesty International fer mikinn og vill uppræta alla ópólitíska hugsun.

Þessi pólitík er bara bóla, tylliástæða athyglissvelgjanna til að fá að gaspra og stjórna umræðunni. Pólitík er alltaf bara bóla, hún er ávallt afvegaleidd af fólkinu sem síst ætti með hana að sýsla. Hugmyndir eru aldrei skoðaðar útfrá sínu eigin gildi, heldur stimplum og verðmerkingum þeirra sem hafa eignað sér álitsgjafahlutverk í samfélaginu.

Ég datt nýverið í lestur á merkilegri bók sem heitir Björninn úr Bjarmalandi, eftir Þorstein Þ. Þorsteinsson, ritaðri 1943 og útgefinni sirka 1945. Ég greip hana á markaði í þeirri trú að þetta væri umfjöllun um ferðir örvar-Odds eða tengd málefni, en var heldur en ekki hissa þegar ég kom aðeins inn í bókina og sá að þetta var varnaræða fyrir Stalín. 1943, sannleikurinn um Stalín er ekki allur kominn í ljós en nóg til að flestir sem áður trúðu á framfaraskrefið mikla hafa stigið nokkur til baka. Fljótlega færi fólk að afsaka sig og afstöðu sína en þarna var höfundur sem taldi að útkoma seinna stríðs hefði hreinsað Stalín af öllum áburði um ranglæti. Varnirnar helstu, snúa að ásetningi Stalíns í kúgun á kúlökkum, það er stór- og miðjustórum bændum og hreinsunum á pólitíska sviðinu, en Þorsteinn virðist hafa heimildir fyrir gífurlegum spellvirkjum þessara bænda sem meðal annars eiga að hafa stuðlað að miklu leyti að þeim hungursneyðum sem dundu á þjóðinni frá byltingu og fram á fjórða áratuginn. Pólitískar hreinsanir virðist Þorsteinn einungis hafa hugsað útfrá háttsettu fólki í hernum og mikilvægustu einstaklingunum í stjórnsýsslunni, og sýnist mér vera trúaður á að það hafi allt verið flugumenn nasista, en sá kafli er ekki eins skýr og sá sem snýr að bændunum.

Bókin endar á hrollkaldri dæmisögu um Salómonsréttlæti sovéskra dómsstóla, þarsem dómari á að fella dóm yfir bónda sem drepið hafði nágranna sinn í ölæði, og ætti samkvæmt lögum að dæma hann til dauða en mildar refsinguna gegn loforði sakamannsins um að hann muni rækta land nágrannans og halda þannig uppi fjölskyldu hans, og snerta aldrei framar áfengi.

Stjórnmálasagan, bókmenntasagan kennir okkur að menn sem héldu uppi vörnum fyrir Stalín séu í besti falli geðsjúkir sakleysingjar og í versta falli andkristísk illmenni, og í hefðbundnum þrælsótta gagnvart þessum stöðluðu hugmyndum byrjaði ég á því að kynna mér hvort lægi launhelgi á umræðu um þennan tiltekna höfund, ættingjar á lífi sem skammast sín fyrir kjánaskapinn. En það hefði ég svo sem getað látið ógert því þegar uppi er staðið reynist Þorsteinn fyrst og fremst friðarsinni og jafnaðarmaður, gott og vel, friðarsinni sem taldi friðnum best borgið hjá brjáluðum fjöldamorðingja, en á þessum tíma var sjálfsagt auðvelt að vera “mis-upplýstur” (disinformed), rétt einsog það er ekki síður auðvelt í dag.

Í rauninni sé ég minnst af Stalínskói við lestur bókarinnar, ég sé mann sem er friðarsinni, samvinnusinni, mjög andvígan gróðahyggju og korporatívisma. Ég sé sama málflutning og hjá hugsandi anarkistum, antiglóbalistum nútímans, friðarsinnum. Og það sem er helst sláandi, er að það er sama bannhelgi yfir þessu öllu. Anarkistar og antíglóbalistar eru bara kjánar, algjörlega ógjaldgengir í “realpólitíkinni” og jafnvel stórhættulegir meðreiðarsveinar illmenna, ef maður minnist skrifa alternatífu miðlanna td í Lýbíumálum, þá voru allir sem ekki fylgdu “opinberu” umræðunni, handbendi einræðisherra og glæpamanna.

Sjáum nokkur dæmi:

“Lýðríkin er í álögum illrar náttúru “Ormsins á gullinu”, sem séra Jón Bjarnason reit um kröftug orð í Sameiningu sína fyrir meir en hálfri öld síðan, og eru enn svo sönn, að þau munu snerta enn fleiri auma bletti nú á þessum tímum. Við játum öll að ágirndin sé rót alls ills, en við trúum því ekki, og breytum henni í löglegar blóðsugur, sem eitra hvern einasta þjóðarskrokk, sem þær festa sig á og lifa af, eftir nákvæmum banka- og rentu-rentu-reikningi okraranna.” (bls 115)

Þorsteini er mjög umhugsað um útkomu væntanlegra friðarsamninga, og þótt lesandanum renni sjálfsagt kalt blóð milli skinns og hörunds við að heyra hvað hann leggur mikið traust á framlag Stalíns til þeirra, þá er grunntrú Þorsteins á jöfnuð og frið alltaf aðalstefið.

“En hvers konar frið munu gullgerðarmenn og vél-kristnir hofmenn hinna yngstu tíma semja? Þessir samviskulitlu kaupmangarar, sem fátt vilja annað skilja en margföldunar töflu búreikninga sinna og rentureikninga bankabókanna. En gerum samt ráð fyrir því, að beztu mönnunum takist að þagga niður í þeim á friðarþinginu og semja öllum heimi sanngjarnan og réttlátan frið. En yrði það ekki einungis stundar grið? Ef æðsta matið í lýðstjórnunarlöndunum verður áfram blind yfirdrotnun, auðsöfnun og valdagræðgi, en starfræksla stóriðnaðarins í höndum fárra gróðafélaga, halda þau illu öfl öllu því, sem þau hafa nú, sem einnig leiðir óhjákvæmilega til þess, að þau ná einnig bráðlega friðnum í sínar hendur, og fara að kaupa hann og selja eins og alt annað í kauphöllum sínum – í líkum skilningi og eftir fyrra heimsstríðið.” (bls 153-154)

Þrátt fyrir að Þorstein veðji á rangan hest er sýn hans á framhaldið, hvað varðar afleiðingar og fylgifiska valds- og lífsþægindaeinokunar nokkuð glögg og jafnvel forspá.

“En um friðarsalinn berast einnig bænir og andvörp blóðrisa þjóðanna, og hróp um frið – ævarandi heimsfrið – bergmála í hvelfingum hans. En hæst ætti að hljóma þar friðar bænir alls hins hvíta kyns, um að bölvun feðranna: landræningjanna, þrælasalanna, harðstjóranna, illmennanna, félli ekki yfir það sem ragnarökkur og hefnd hinna seinustu reikningsskila, frá brúnum, bleikgulum, blökkum og eirrauðum bræðrum þess, sem hvítir menn hafa afmannað andlega og líkamlega í alda raðir, en mannað til múgmorða þessara ára og framtíðarinnar í seinni tíð. Hvítir menn ættu á meðan að tími er til, að afnema allan hernað og hervélar heimsins, því í fjandskapar heimi yrði innan fárra ára hinn mikli múgur sameinaður litríkra manna þeim ofjarlar, þegar hver þeirra bæri vítisvél hvítra manna að vopni, og þótt allar hvítar þjóðir stæðu sem einn maður á móti, sem þær aldrei gera.” (157-158)

Hérna má svo við bæta, frá anarkísta nútímans, að auðvitað væri mest sanngirni í því fólgin að “mikli múgur sameinaðra litríkra” bæri sigurorð af þeim litfölvu, en betra væri náttúrlega að hvetja til raunverulegs friðar. 

Þorsteinn kemur svo lítillega inná þá gjá milli vesturs og austurs, sem til komin er vegna meints trúleysis Sóvétsins, en vesturfólk hefur í raun alltaf litið á Rússa sem heiðna, sama hvaða trú þeir aðhyllast.

“En það virðist einnig margt benda á, að yfirguðinn Jahvel – hinn mikli herdrottinn Gyðinga, sem bauð mönnum að hefna sín geipilega og það sjálfur rækilega, en upphóf og niðurlægði eftir því sem á honum lá – eigi ekki svo lítinn þátt í því, að draga úr eða jafnvel ónýta það dýrmætasta í fagnaðarboðskap Krists til mannanna, því óbilgirni sérgæðinganna í öllum löndum og á öllum öldum kristninnar, þótt og þykir handhægra til ávinninga að taka Föðurinn fram yfir Soninn sér til fyrirmyndar og eftirbreytni.” (159)

Þetta fer kanski að vera nóg í lítilli kynningu, en þá skulum við enda á því sem er þungamiðjan í þessu öllu.

“Ef hörmungar fyrra stríðsins og afleiðingar þess, ásamt harmleikum núverandi styrjaldar, opna ekki augun á valdstjórnum þessa heims, að þær sjái villu síns vegar og breyti stefnu sinni, hugarfari og hjartalagi, þá skapast og ríkir sama ástandið að þessum hildarleik loknum, og það sem staðið hefir við stjórnvölinn síðan 1918, en heimsfriðurinn er úr sögunni, áður en saga hans hefst. Þá byrjar strax aftur sama valdstreitan, sömu valdránin, sama verzlunarólagið, sama kreppan og sami undirbúningur nýrrar styrjaldar.” (161)

Hvað má læra af þessu? Þetta er einsog sænsk barnabók sem vinkona sagði mér frá fyrir alllöngu, bókin hét held ég “Ekki er allt sem sýnist”, eða eitthvað álíka, og var byggð upp þannig fyrst komu myndir af fallegum rökuðum björtum karli með aðra hönd fyrir aftan bak, og önnur af fúlskeggjuðum dökkum með hönd fyrir aftan bak og spurt var, hvor þeirra er góður og hvor þeirra vondur, hvorn skal varast?

Gísli Magnússon