fimmtudagur, 12. apríl 2012

Berjum fátæklingana!


Charles Baudelaire. Bloggari
dagsins þýðir ljóð hans,
Assommons les pauvres.

eftir Charles Baudelaire
Fyrst birt í Le Spleen de Paris (Petits poèmes en prose) árið 1869.
_____________________________________________

Ég hafði lokað mig af í herbergi mínu í fimmtán daga og sökkt mér í þær bækur sem þá voru í tísku (þetta var fyrir 15 eða 16 árum). Ég á við bækur af því tagi sem fjalla um listina að gera fólk hamingjusamt, viturt og efnað á tuttugu og fjórum tímum. Ég var því búinn að melta – eða kannski frekar að kokgleypa – ógnarmikinn vaðal úr ótal lukkuriddurum almannaheilla. Bæði þeim sem ráðleggja fátæklingunum að gerast þrælar og þeim sem sannfæra þá um að þeir séu allir með tölu konungar sem rændir hafi verið ríki sínu. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að mér lá við yfirliði og var varla með réttu ráði.
Mér fannst eins og einhverstaðar, djúpt í vitsmunalífi mínu, fyndi ég móta fyrir óljósum vísi að hugmynd sem væri æðri öllum kerlingabókunum er safnað hafði verið saman í uppsláttarritinu sem ég hafði verið að renna í gegnum. En þetta var ekki nema hugmynd um hugmynd, eitthvað ósegjanlega óskýrt.
Ég var mjög þyrstur þegar ég yfirgaf herbergið því ástríðufullur smekkur fyrir slæmu lesefni getur í réttu hlutfalli af sér löngun eftir fersku lofti og hressingu.
Þar sem ég var við það að stinga mér inná krá rétti betlari fram hatt sinn og góndi á mig með ógleymanlegu augnaráði af því tagi sem steypt gæti konungum af stóli ef andi gæti blásið lífi í efni og auga dávaldsins gert þrúgurnar fullþroska.
Í sama mund heyrði ég rödd hvísla í eyra mér, rödd sem ég þekkti vel; þetta var rödd góða engilsins eða góða skrattans sem fylgir mér hvert fótmál. Fyrst Sókrates átti sinn góða skratta, af hverju ætti ég þá ekki að eiga minn góða engil, og því ætti mér ekki að hlotnast sá heiður, eins og Sókratesi, að fá vottorð uppá vitfirringu mína, undirritað af hinum skarpskyggna Lélut og hinum vel upplýsta Baillargé?
Á þeim er sá munur, skrattanum hans Sókratesar og mínum, að skrattinn hans Sókratesar birtist honum einungis til að banna, vara við eða varna á meðan minn skratti lætur svo lítið að ráðleggja, koma með uppástungur, sannfæra. Vesalings Sókrates átti einungis hamlandi skratta; minn er hvetjandi, minn er athafnaskratti, orustuskratti.
Rödd hans hvíslaði þessu að mér: „Sá einn er jafningi annars sem sannar það og sá einn verðskuldar frelsi sem kann að vinna til þess.“
Umsvifalaust stökk ég á betlarann. Með einu höggi gaf ég honum glóðarauga sem á augabragði varð á stærð við bolta. Ég klauf nögl þegar ég braut í honum tvær tennur og þar sem sem ég taldi mig ekki nægilega sterkan til að berja þennan gamlingja til óbóta hratt og örugglega (ég fæddist veikburða og hef hlotið litla þjálfun í hnefaleikum) þá þreif ég með annarri hendinni í hálsmál hans en með hinni tók ég hann hálstaki og tók því næst til við að berja höfði hans utan í vegg af miklum þrótti. Ég verð að játa að fyrirfram hafði ég rennt augunum yfir næsta nágrenni og gengið úr skugga um að þarna, í þessu yfirgefna úthverfi, yrði ég örugglega drykklanga stund utan seilingar allra laganna varða.
Eftir að hafa yfirbugað þennan máttlitla mann á sextugsaldri með sparki í bakið, nógu kraftmiklu til að mölva í honum herðablöðin, þreif ég gilda trjágrein sem lá þarna á jörðinni og hélt áfram að berja hann af sömu þrautseigju og þegar matreiðslumaður gerir kjötbauta meyra.
Skyndilega – ó, fullnægja heimspekingsins sem fær sannreynt ágæti kenningar sinnar! – sé ég hvar þetta hruma flak snýr sér við, réttir úr sér með þreki sem mig hefði aldrei grunað að byggi í svo illa löskuðu gangverki, og með hatursfullu augnarráði (sem mér þótti vita á gott) ræðst þessi örvasa stigamaður á mig, gefur mér tvö glóðaraugu, brýtur í mér fjórar tennur og ber mig í spað með trjágreininni góðu. – Með aðstoð minna sterku meðala hafði hann endurheimt stoltið og lífisþróttinn.
Jæja, ég gaf honum skýrt til kynna að ég liti svo á að samtali okkar væri lokið og þar sem ég rís á fætur, sæll eins og stóuspekingur, segi ég: „Herra, þér eruð jafningi minn! Gerið mér þann heiður að deila með mér pyngju minni og minnist þess að séuð þér sannur mannvinur þá verðið þér að ástunda þessa kenningu, sem ég illu heilli þurfti að sannprófa á yður, gagnvart öllum meðbræðrum okkar þegar þeir betla sér ölmusu.“
Hann sór að hann skildi kenningu mína og myndi hlíta ráðum mínum.

Þýðing úr frönsku: Ragnar Helgi Ólafsson

2 ummæli:

  1. Helgi Ingólfsson13. apríl 2012 kl. 06:09

    Þetta er býsna mergjuð þýðing hjá þér, Ragnar, einkum orðalagið:

    "...sé ég hvar þetta hruma flak snýr sér við, réttir úr sér með þreki sem mig hefði aldrei grunað að byggi í svo illa löskuðu gangverki..."

    Ég man eftir því að hafa fyrir 35 árum fengið að láni í gamla Borgarbókarsafninu við Þingholtsstræti (því fagra húsi, sem nú er í stækri niðurníðslu, enda í eigu auðkonu) bók með prósaljóðum CB. Ekki þykir mér ólíklegt að ofangreint ljóð hafi verið þar á meðal, þótt það sitji ekki í þanka mínum.

    Hins vegar er mér minnisstætt eitt af ljóðunum, nokkuð líkt ofanverðu. Þar er CB (eða ljóðmælandinn) staddur við götuhorn, þar sem er inngangur að knæpu. Þá kemur Djöfullinn til hans, leiðir hann inn, sýnir honum alla dýrðina, drykkjuna, drósirnar og heila lastabælið og lofar honum þessu öllu. Síðan fer ljóðmælandinn heim, en þegar líður á kvöldið fyllist hann örvæntingu hvort hann fái nú að njóta þess, sem honum var lofað, og að endingu kastar hann sér á hnén í örvæntingu og flytur bæn: "Ó góður Guð, gefðu það að Djöfullinn haldi loforð sín við mig!"

    Býsna mergjað, fannst mér, þótt mig kunni að misminna um smáatriði í frásögninni. Kannastu við þetta ljóð?

    Kv, HI

    SvaraEyða
  2. Já, þetta ljóð sem þú mannst þarna eftir er "Gjafmildi fjárhættuspilarinn" úr sömu bók (Spleen de Paris). Það er víst öruggt að í þann texta vantar ekki gullkornin. Það frægasta er líklega þetta um að snjallasta brella andskotans hafi verið að sannfæra okkur um að hann væri ekki til («la plus belle des ruses du diable est de vous persuader qu'il n'existe pas!») ... þeir eru líka ansi hreint kammó þarna í víti CB og skrattinn. CB kallar hann "gamla geit" og svona (sem mér finnst fyndið). En lokaorðin eru líka góð þar sem CB biður til guðs að skrattinn megi reynast maður orða sinna. Kannski maður snari þessum texta við tækifæri ...

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.