föstudagur, 13. apríl 2012

Höfundurinn deyr tvisvar


Sterk eins og dauðinn
er nóttin
er ástin
sterk eins og dauðinn
tímanna
segl

Svona hljóða, í þýðingu Þorgeirs Þorgeirssonar (Birtingur 2/1958), upphafslínur ljóðs eftir George Forestier sem sendi frá sér lítið ljóðakver í september árið 1954 í Þýskalandi, Ich schreibe mein Herz in den Staub der Strasse (Ég skrifa mitt hjarta í götunnar ryk). Höfundurinn var óþekktur, sagður fæddur 1921 í Sviss, hafa gerst sjálfboðaliði í þýska hernum og barist á austurvígstöðvunum, hafnað í amerísku fangelsi og lent síðan á flækingi eftir stríðið og farið um tíma huldu höfði í Marseille. Þar átti lögreglan að hafa náð honum og sett í útlendingahersveitirnar frönsku en með herdeild sinni var hann sendur til Kína og eftir það spurðist hvorki til hennar né hans.

Forestier lét eftir sig nokkur ljóð sem hann hafði ætlað skúffunni en saga höfundarins varpaði á þau ævintýralegum bjarma sem gerði þau ómótstæðileg fyrir útgefendur og lesendur. Bókin hafði selst í mörgum upplögum þegar fleiri ljóð fundust eftir þennan leyndardómsfulla höfund sem allir töldu dauðan og höfðu – kannski ekki síst þess vegna – í miklum metum.

Það var svo veturinn 1955 að virðulegur þýskur prófessor framdi sjálfsmorð. Upp úr skúffum hans komu skjöl sem sönnuðu að hann hafði ort undir nafninu Forestier.

Höfundurinn sem ort hafði um ofurafl dauðans var þar með dauður í annað sinn og það var nóg til þess að ljóð hans hurfu einnig undir tímanna segl.

Þröstur Helgason


1 ummæli:

  1. Allir í göngunni eru með bréfpokana yfir höfðum. Engin kröfuspjöld. Við innganginn að ráðhúsinu hefur verið komið fyrir tunnu sem eldur logar í. Göngumenn hver af öðrum svipta af sér grímunum, fleygja bréfpokunum í loganna. Eldtungurnar standa upp úr tunnunni persónuleikinn, sá sem er vaknaður, stígur fram í dagsljósið. Ólík svipbrigðin, drættir andlitanna, sérkennin, skapgerðirnar skapa andlitsvöðvunum angist, bros, hlátur, ef grannt er skoðað.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.