Ég á lítinn púka með rautt hár sem hleypur um íbúðina og
leitar í bækur. Hann skríður upp og niður stigann eins og skröltormur og finnur
sér bókahillu og ryður bókunum skoppandi kátur niður á gólf í einn stóran hrauk, tekur eina þeirra
og horfir á hana langa hríð, rýnir í letrið þótt hann sé bara eins árs og kunni
ekki að lesa; það er svolítil atferlisfræðistúdía að fylgjast með honum því það
eins og allt gott fólk veit læra börnin sem fyrir þeim er haft og honum,
semsagt eins árs syni mínum, finnst merkilegt að sitja og lesa bækur, jafnvel
þótt í þeim séu engar myndir. Hann hefur komið sér upp bókmenntasmekk, fengið
sérstakt dálæti á bókum um skrímsli og búið sér til
ákveðnar kríteríur um hvað það er sem hann tekur úr hillunum, svo auðvitað er ami
að þurfa að raða þangað aftur; hann kemur trekk í trekk með Eneasarkviðu Virgils, bók með tignarlegri
kápu. Þarna kemur hann aftur með Eneasarkviðu
sem ég hef nýsett aftur í skápinn. Og aftur. Hann er snar í snúningum. Og mér
verður á að hugsa að sá litli gæti tekið upp á því að gerast harðkjarna hefðarsinni og
blása fullorðnu fólki í kringum sig í brjóst nokkurri auðmýkt sem gæti ekki
verið annað en meinholl í hugstola núinu. Hvað ef hann tæki upp á því að ryðja
yfir mig stórverkunum sem óþyrmilegast líkt og rafbókavæddur og hnattrænn hlýnandi samræðulaus heimsendir væri í
nánd og skola þyrfti öllu sem nokkru máli skipti í sögu mannsandans upp á einhverjar fjörur áður en af yrði?
Hann gæti komið með Parísarleik Cortázars. Hann gæti komið með kviðurnar sem Hómer skrifaði
á nóinu, blindur. Síðan með Sturlungu
sem höfundarnir söfnuðu í öllu sem gerst
hafði í veröld þeirra. Cervantes kæmi næstur eins og jólasveinn til byggða,
sagan um Kíkóta þar sem einhentur höfundur skrifaði fram nýja tíð. Svo kæmi Gogol,
hann skrifaði engin reiðinnar býsn og aðeins eina einustu skáldsögu en ef öllu
höfundarverki miðlungs Booker-verðlaunahafa væri hellt ofan í smásöguna „Dagbók
vitfirrings“ er ekki hundraðprósent helvítis andskotans öruggt að það næði botnfylli. Jónas Hallgrímsson skrifaði enga
skáldsögu en „Stúlkan í turninum“ hefur ekki verið lesin til fulls samkvæmt
nýjustu könnunum. Sylvia Plath opnaði box og gufan rýkur enn upp og sá litli
kæmi með bókina sem vinur minn gaf mér í menntaskóla og ég hef ekki séð í mörg
ár. Þá kæmi hann færandi hendi með Þórberg, manninn sem braut nýjar leiðir í
íslenskum bókmenntum. Þvínæst blauta bók eftir Dylan Thomas sem drakk sig í hel
og sullaði viskíi á ljóðin sín. Þá Dickens sem hefur verið samfellt í endalausri endurprentun
allar götur frá frumprentun og ég á einhvers staðar í kiljum, líklega í kössum; en það gæti verið
handleggur fyrir hann að finna Gunnlaugs sögu ormstungu því ég man ekki til
þess að hafa nokkru sinni rekist á hana í bókabúð og sennilega á ég hana ekki. Kannski kæmi
hann með skáldsöguna eftir Thor sem ég er nýbúinn að endurlesa og hlýtur að
vera innan seilingar. Hann kæmi þá með Heilagan Ágústínus sem þambaði úr sínum bikar og syndgaði svo hann gæti skrifað Játningar
sínar. Raunir Verters unga ollu
sjálfsmorðsbylgju í Evrópu og ekki væri amalegt ef barnið kæmi með eitt lítið
farg sjálfsmorða í farteskinu. Juan Rulfo vann lungann af verkum sínum á sviði
ljósmyndunar og skrifaði sárafáar bækur en samt má veröld tortímast áður en Pedro Paramo fellur úr gildi, hún er svo
djúp að það er bannað að stinga sér í hana af bakkanum. Mig minnir að ég eigi
eitthvað eftir Nicanor Parra, þótt það sé Violeta, mín kæra Violeta, sem bjó
til heilan tón í tónstigann. Blindfugl/svartflug,
hvar ætli hún sé? Ég geymdi hana alltaf á vísum stað, líklega við hliðina á
Hamsun, og ég ætla rétt að vona að hún sé á vísum stað núna. Laurence
Sterne ætti greiða leið í hendur ungans þótt betri borgurum í London þætti Tristram Shandy vera algert helvítis rugl,
skríllinn hló víst dátt að þessum hámenntaða samsetningi, þjófstuldi úr verkum
Rabelais, Robert Burtons og Francis Bacons. Snorri Sturluson kæmist undir
barnshendurnar og Eddan sem hann ætlaði að kortleggja veröldina eins og allar
hennar goðsagnir eins og hún væri garðskiki með birkitré. Óvíð í þýðingu
Kristjáns Árnasonar er á bakvið dyrnar og ef strákurinn stendur uppi á stól
getur hann sótt sér alla þessa þekkingu um það hvernig allt kvikt tekur
endalausum ummyndunum, án afláts. Hann gæti komið með Dante. Huldu. Þjóðhætti
Jónasar. Þúsund og eina nótt. Voltaire. Nietzsche. Hjálp! Ég yrði kaffærður
í bókum. Ætli mér þætti ekki nóg um þessar trakteringar?
***
En hvað með hinn almenna lesanda?
En
hvað með hinn almenna lesanda?
En hvame hinn ammenna lesaha?
Ennkvamehimammemmahehaha?
Memmamemimamemamemaha?
Meeeeeee!
***
Stráksi kom ekki með allar þessar bækur á
eftir Eneasarkviðu Virgils heldur
litla bók eftir Gonzalo Torrente Ballester sem mér þykir vænt um. Hún
heitir Fragmentos de apocalipsis og er
skáldsaga frá árinu 1977. Svona gleðja börnin mann. Færa manni lítið brot úr
heimsendi. Hvað vill maður hafa það betra? Eiginlega minnti
mig að hún – gripurinn sjálfur – væri stærri en hún reynist þegar sá litli
kemur hlaupandi með hana, agnarsmáa kilju sem er stór að innan.
Torrente
sjálfur var svolítið magnaður náungi. Hann fæddist 1910 og dó 1999 og var einn
af módernistunum í spænskum bókmenntum. Ég hef horft á nokkur viðtöl við
hann og þau eru ansi skemmtileg á að horfa því eiginlega er ekki vinnandi vegur að
fá nokkurn skapaðan hlut upp úr Torrente. Allavega hefur hann enga þolinmæli
fyrir því ef heimskulega er spurt og enn síður ef spurt er af hroka og einmitt þannig var spurt í þessum frekar gulu viðtölum. „Hvað
finnst yður?“ spyr Torrente á móti. „Hvað mynduð þér telja að væri gott svar við
þessari spurningu?“ „Ég er ekki viss um að ég skilji spurninguna almennilega.“ „Kannski
má hugsanlega segja að svo sé og kannski ekki.“ Torrente gengur algerlega upp í
söguna sem er gjarnan sögð til að lýsa einkennum héraðsbúa, héraðsins Galisíu á
Spáni: Ef maður hittir Galisíumann í stiga er engin leið að fá að vita hvort
hann er á leiðinni upp eða niður. „Hvort er þú sjálfur á leiðinni upp eða
niður?“ svarar Galisíumaðurinn. „Stigar eru athyglisvert fyrirbæri.“ „Jasvo.“
„Það er nú það.“ „Góð spurning.“ Allt annað en að segja manni hvort þeir séu á
leiðinni upp eða niður.
Um
Torrente má lesa í uppsláttarritum að hann sé einn þeirra höfunda sem gekk til liðs við Falangistahreyfinguna og tengdi sig þannig við Franco til þess að bjarga lífi
sínu, firra sig vandræðum, til þess að geta yfirleitt lifað af á Spáni, þrátt fyrir
að halda alla tíð á lofti vinstrisinnuðum sjónarmiðum; til þess að draga úr
baslinu með ritskoðun á tímum Franco-stjórnarinnar, sem hann þó fór ekki
varhluta af. Á móti þessari skoðun hefur verið teflt fyrstu skáldsögunni hans, Javier Mariño, frá árinu 1943 en þar er
erfitt að sjá annað en að hinn ungi Torrente hafi verið algerlega sannfærður
fasisti. Sagan er sjálfsævisöguleg að (einhverjum) hluta og lýsir manni sem flýr til Parísar
árið 1936, verður ástfanginn, af kommúnista, flytur síðan til Ameríku þegar
ástandið versnar á Spáni og hyggst reisa þar nýja borg eins og hver annar Eneas
en snýr svo aftur til Spánar og gerir það eina rétta, sem sé gengur til liðs við
fasista. Sjálfur lýsti Torrente því yfir í sjónvarpsviðtali að í bókinni kæmu
ekki fram sjónarmið sem með nokkru móti gætu talist hliðholl Francostefnunni. „Hvað finnst yður?“ spurði hann ef
ég man rétt. Bókin var reyndar innkölluð af ritskoðun fasistastjórnarinnar
þrátt fyrir að útgáfan væri upphaflega leyfð að tilskyldum ákveðnum textaniðurfellingum; sú staðreynd rennir allavega stoðum undir spurningu Torrente:
„Hvað finnst yður?“ Ég las aldrei nema eitthvert hrafl í þessari bók og veit
það ekki. Hinsvegar tók ég þessa samræðu við spænskukennara minn á Spáni,
virðulega eldri frú sem var málkunnug bæði Torrente og Franco, og hún var á því
að bókin væri ekki fasísk, né höfundurinn - aðeins Franco.
Gonzalo Torrente Ballester tilheyrði ´36
kynslóðinni svokölluðu, en til hennar eru einnig taldir menn eins og Miguel
Delibes (líka mjög stór fígúra í spænskri bókmenntum), leikritaskáldið Antonio
Buero Vallejo, heimspekingurinn Julian Marías (pabbi Javiers sem ég heyrði út undan mér að nú ætti að þýða á íslensku) og Camilo José Cela, þann gamla
jaxl með fasistatendensa þekkja allir. Fragmentos
de apocalipsis (Heimsslitabrot) tilheyrir
skáldsagnaþrennu sem gagnrýnendur bjuggu til eftir á og kölluðu fantasíska. Heimsslitabrot gerist á mörgum plönum
þar sem saman blandast í einn dýrðlega fyndinn graut innrás íslenskra víkinga í galisíska
borg og einskonar dagbók um ritun skáldsögu. „Þessi bók er ekki listræn sköpun
heldur vitnisburður um erfitt og þegar upp er staðið misheppnað sköpunarferli,“
segir í formála höfundar að þessari útgáfu og haft er eftir í ágætri fræðigrein sem ég fann um bókina á netinu. Fræðimaðurinn prjónar við: „að
sjálfsögðu er það verk að mínu viti allt annað en misheppnað og án nokkurs vafa
einnig listaverk.“
Það er hægt að tala um marga sögumenn í þessari
bók því sögumaðurinn á í sjálfskennslakrísu (eins og heimurinn) og hann veit ekki alveg hvort hann er Alberto Caeiro,
eitt af ótal hliðarsjálfum portúgalska skáldsins Fernando Pessoa, eða Abel
Martín, hliðarsjálf spænska ljóðskáldsins Antonio Machado. Sögur bókarinnar eru
af þrennum toga, dagbækur, saga og spádómsbrot. Þetta er ekkert sérlega erfitt
í lestri, spádómsbrotin eru skáletruð, dagbækurnar eru eftir höfundinn (eða
einhvern) og sögunni vindur áfram. Í sögunni leitast hópur anarkista við að
bjarga heiminum með því að ferðast til fortíðarinnar og fyrir kemur ráfandi vitfirringur. Í spádómunum er
aðalmaðurinn Ólafur nokkur víkingakonungur sem kominn er aftur til að hefna
þúsund ára gamalla harma þegar hann beið ósigur í orrustu um borgina
Villasanta. Hann ætlar að leggja borgina í fjandans rúst. Hvaðan kemur þessi maður? „Hvað var hann að gera allan
þennan tíma?“ „Það hlýtur að vera fjandanum leiðinlegra að bíða í þúsund ár,
jafnvel fyrir víking.“
Íslendingasögur eru á hverju strái í þessari bók sem ekki er eiginleg skáldsaga og þannig er því líka farið í systurbókunum, einhver fróður Íslendingasagnafræðingur gæti komist í feitt. Lesendur höfðu meiri mætur á forverabókinni La saga/fuga de J.B., hún er frægari og vafalaust höfðu gagnrýnendur lög að mæla, segir höfundurinn í formálanum en gefur annars lítið fyrir samanburð á verkum höfunda sem hvert og eitt hafi sína eigin kosti og galla, vafalaust getur þetta verið athyglisvert fyrir áhugamenn um samanburð yfirleitt, þótt allt sé einstakt. Torrente klykkir út með: „Jón Jónsson hefur skrifað bók sem að sjálfsögðu er ekki eins góð og Ódysseifskviða. Gaman að því!“
¡Pues mira que bien! Gaman að því! Eftirminnileg orð og dæmigerð fyrir húmor Torrente.
Íslendingasögur eru á hverju strái í þessari bók sem ekki er eiginleg skáldsaga og þannig er því líka farið í systurbókunum, einhver fróður Íslendingasagnafræðingur gæti komist í feitt. Lesendur höfðu meiri mætur á forverabókinni La saga/fuga de J.B., hún er frægari og vafalaust höfðu gagnrýnendur lög að mæla, segir höfundurinn í formálanum en gefur annars lítið fyrir samanburð á verkum höfunda sem hvert og eitt hafi sína eigin kosti og galla, vafalaust getur þetta verið athyglisvert fyrir áhugamenn um samanburð yfirleitt, þótt allt sé einstakt. Torrente klykkir út með: „Jón Jónsson hefur skrifað bók sem að sjálfsögðu er ekki eins góð og Ódysseifskviða. Gaman að því!“
¡Pues mira que bien! Gaman að því! Eftirminnileg orð og dæmigerð fyrir húmor Torrente.
Chesterton hafði á orði að húmor í
bókmenntum yrði að kalla fram ofsakæti – en ofsakæti af því tagi sem fengi
brosið síðan til að stirðna á andlitinu í íhugulli grettu sem stoppaði tímann
og græfi upp spegil. Þannig er þessi bók, lúmskt fyndin og lúmskt tragísk og mikil
rússíbanareið af hugdettum, sprikli og alvöru, raunsæi, frásagnargleði og
stílöfgum: Á einni síðu er einhver sem manni finnst ekki geta verið neinn annar
en höfundurinn sjálfur að skrifast á við rússneska fræðikonu um estetísk efni (og hann segir í formálanum að fræðikonan sé sannarlega til og að hann hitti hana stundum og tali við hana í síma),
á næstu síðu er slengt fram hugmyndinni um kynlífsvélmenni, íturvaxin
róbotkvendi, Freyjur, sem sinna hverri mannsins þörf af kostgæfni, en þessi hugdetta var
Torrente hugleikin á höfundarferlinum. Síðan kemur einhver Óskar Óskarsson, ekki man ég hvaðan sá getur átt ættir. Þvínæst birtist ljótur dreki og
Ólafur konungur víkinganna heldur áfram í aldalangri útrás sinni í Helguborg í Stjörnusveitinni
sem augljóslega eru sömu slóðir og voru áfangastaður Thors Vilhjálmssonar á
göngunni um árið. Áður en maður veit af er kominn heill hringur af hugleiðingum
í bland við ærsl, söguþráð og vangaveltur í bland við fáránlega fantasíu, og útkoman er eftirminnileg bók.
Fragmentos
de apocalipsis er
ærleg bók. Maður ætti að þakka fyrir endurnýjuð kynni við þannig bók áður en veröld ferst. Gaman að því.
Nú kemur stráksi með eitthvað annað.
Hermann Stefánsson
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.