Þegar ég var lítill drengur var vinsælasti þáttur
Ríkisútvarpsins mjög einfaldur. Illugi Jökulsson las upp úr gleymdum bókum sem
hann hafði þefað uppi hér og þar. Mér fannst þetta alltaf dálítið sniðug aðferð
til að gera útvarpsþætti. Nú er ég að hugsa um að beita sömu aðferð, hér í
síðasta pistli mínum í þessu virðulega vefriti, sem brátt heyrir sögunni til.
Bókin sem ég hef valið er þó ekki gömul eða gleymd. Hún kom út í gær og flestir sem ég hef hitt síðan þá eru eitthvað byrjaðir að lesa hana. Hún hefur einungis komið út á vefnum enn sem komið er. Mér fyndist nú óvitlaust af höfundunum að láta gefa hana út með virðulegri hætti. Ég sé fyrir mér leðurband og gyllingu.
Bókin heitir „Dómur Landsdóms“. Aðalpersóna hennar er karlmaður, 61 árs að aldri, sem í bókinni er jafnan nefndur Ákærði, en hefur á ákveðnu tímabili leitt ríkisstjórn. Bókin fjallar fyrst og fremst um ýmis bréf og skýrslur sem ákærði hefur fengið í hendur frá stórum hópi aukapersóna. Þá er sagt frá fundum hans og samtölum við marga einstaklinga. Framvindan hefur dauflegt yfirbragð, en smátt og smátt verður lesandanum ljóst að mikið drama býr að baki sem að lokum hefur hrikalegar afleiðingar fyrir samfélagið allt og leiðir til áfellisdóms yfir Ákærða – sakfellingar, sem svo er nefnd í bókinni.
Nú gríp ég niður í bókinni þar sem lýst er ábyrgð Ákærða gagnvart þeirri atburðarás sem frásögn af fundum og bréfum hefur dregið fram. Fyrst lesum við það sem fram kemur um möguleika Ákærða á að breyta eða hafa áhrif á þess atburðarás til að draga úr verstu afleiðingum hennar:
„Samkvæmt því, sem rakið hefur verið, er fullsannað að störf samráðshóps um fjármálastöðugleika og viðbúnað hafi ekki komið til umræðu á fundum ríkisstjórnarinnar á því tímabili, sem ákæra í málinu tekur til. Því síður voru þar kynntar hugmyndir og umræður innan hópsins um þörf á pólitískri stefnumótun, svo sem um hugsanlegan fjárhagsstuðning ríkisins við viðskiptabankana ef til greiðslufalls þeirra kæmi og umfang innstæðutrygginga. Þótt vafi leiki á því hvort innstæðutryggingar hafi komið til umræðu í ríkisstjórn á umræddu tímabili virðist fyrst hafa verið fjallað um yfirlýsingu um þetta efni á fundi hennar 5. október 2008. Þá fer ekki milli mála að Icesave reikningar Landsbanka Íslands hf. og vandamál tengd þeim, þar á meðal hætta, sem stafað gæti af reikningunum vegna skuldbindinga Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, komu ekki sérstaklega til umfjöllunar í ríkisstjórn. Einnig er óhætt að slá því föstu að það, sem fram kom á fundum ákærða og fleiri með bankastjórn Seðlabanka Íslands 7. febrúar og 1. apríl 2008, var ekki rætt í ríkisstjórn. Þar var heldur ekki fjallað um yfirlýsinguna, sem ákærði og tveir aðrir ráðherrar undirrituðu 16. maí 2008 í tengslum við gerð gjaldmiðlaskiptasamninga Seðlabanka Íslands við þrjá norræna seðlabanka, þótt í henni hafi verið lýst yfir skuldbindingum í nafni ríkisstjórnarinnar. Loks verður að líta svo á, miðað við það sem fram er komið í málinu, að efni bréfs viðskiptaráðuneytisins til breska fjármálaráðuneytisins 20. ágúst 2008 hafi aldrei verið kynnt eða rætt á fundum ríkisstjórnarinnar, en þar var þó lýst afstöðu hennar til aðstoðar ríkisins við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, svo og til stuðnings við Seðlabanka Íslands í hlutverki hans sem lánveitandi til þrautavara gagnvart íslensku bönkunum.“
Í framhaldi af þessu er sjónum beint að lögum ríkisins og þeim skyldum sem leiðtogi ríkisstjórnar hefur til að tryggja velferð samfélagsins:
„Samkvæmt c. lið 8. gr. laga nr. 4/1963 varðar það ráðherra sem áður segir
ábyrgð eftir lögunum ef hann lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það, sem fyrirskipað er í stjórnarskránni. Þótt líta megi svo á að ákærða hafi ekki verið ljóst fyrr en í byrjun október 2008 hve geigvænleg sú hætta væri, sem steðjaði að íslenska bankakerfinu og þar með heill ríkisins, voru upplýsingarnar, sem honum voru tiltækar um yfirvofandi háska, engu að síður svo alvarlegar þegar í febrúar það ár að á ákærða hvíldi skylda til að taka hann til umfjöllunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Þá blasti við að kæmust viðskiptabankarnir í greiðsluvanda myndi lánstraust ríkisins bíða alvarlegan hnekki á lánamörkuðum erlendis. Vegna stærðar bankakerfisins, sem nam nálega nífaldri landsframleiðslu Íslands, lá jafnframt ljóst fyrir að ríkið hafði takmarkað svigrúm til að koma bönkunum til aðstoðar, meðal annars fyrir þá sök að skuldbindingar þeirra voru að stærstum hluta í erlendum gjaldmiðlum. Við þetta bættist óvissa um kröfur innstæðueigenda á hendur bönkunum, en á þessum tíma nutu þær ekki forgangs umfram kröfur annarra lánardrottna við gjaldþrotaskipti eða slit þeirra. Í ársbyrjun 2008 námu heildarinnstæður hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum, sem nutu tryggingar hjá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, meira en 2.300.000.000.000 krónum. Þótt til álita hefði komið var ógerningur fyrir ríkið að takast á hendur ábyrgð á innstæðunum að fullu ef til greiðsluþrots bankanna kæmi.“
Loks er bent á að aðstæðurnar sem skapast höfðu þegar hingað var komið sögu væru svo óvenjulegar að þær kölluðu augljóslega á endurskoðun stefnu og aðgerða:
„Hér var við fordæmalausan og risavaxinn vanda að etja og vegna þess hve ríkir almannahagsmunir voru í húfi var án nokkurs vafa um að ræða mikilvæg stjórnarmálefni í merkingu 17. gr. stjórnarskrárinnar. Þar að auki gerði hættuástandið, sem magnaðist eftir því sem á leið, það að verkum að óhjákvæmilegt var að taka til endurmats þann þátt í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, sem laut að afstöðu hennar til viðskiptabankanna. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 36/2001 heyrir það málefni undir ríkisstjórnina í heild, en ekki einstaka ráðherra. Af þeim sökum var skylt að taka það til umræðu á ríkisstjórnarfundum svo að öllum ráðherrum gæfist þar kostur á að tjá sig og ráða því til lykta.“
Nokkru síðar er bent á að Ákærði hefði getað haft áhrif á atburðarásina:
„Sú háttsemi ákærða að láta farast fyrir að hlíta fyrirmælum 17. gr. stjórnarskrárinnar um að halda ráðherrafundi um þau mikilvægu stjórnarmálefni, sem lýst hefur verið hér að framan, varð ekki eingöngu til þess að brotin væri formregla, heldur stuðlaði hún að því að ekki var á vettvangi ríkisstjórnarinnar mörkuð pólitísk stefna til að takast á við þann mikla vanda, sem ákærða hlaut að vera ljós í febrúar 2008. Ef slík stefna hefði verið mörkuð og henni síðan fylgt eftir á skipulegan hátt, þar á meðal af Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, má leiða að því rök að draga hefði mátt úr því tjóni, sem hlaust af falli bankanna í byrjun október 2008. Enn fremur er líklegt að stjórnvöld hefðu þá verið betur undir það búin að taka afstöðu til beiðni Glitnis banka hf. um fjárhagsaðstoð í lok september 2008 þannig að greiða hefði mátt úr vanda þess banka á yfirvegaðri hátt en gert var.“
Og hér kemur svo niðurstaðan, sem má segja að sé niðurstaða sögunnar, ef sögur hafa þá niðurstöðu:
„Það er því niðurstaða dómsins að vegna athafnaleysis ákærða, sem lýst er hér að framan, beri að sakfella hann fyrir brot gegn c. lið 8. gr. laga nr. 4/1963, sbr. 11. gr. sömu laga, vegna þeirrar háttsemi, sem honum er gefin að sök í lið 2 í ákæru.“
Þessu er fylgt eftir með tilfinningaþrunginni yfirlýsingu sögumanns:
„Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir að hafa af stórfelldu gáleysi látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni eins og fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir að honum hlaut að vera ljós sá háski, sem vofði yfir bankakerfinu og þar með heill ríkisins, eins og nánar greinir hér að framan, með þeim afleiðingum að ekki var um þau málefni fjallað á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Við ákvörðun viðurlaga verður að líta til þess að þetta brot telst hafa verið framið af stórfelldu gáleysi. Þótt ákærði hafi með þessu ekki eingöngu brotið gegn formreglu, svo sem rakið var hér áður, verður ekki horft fram hjá því að ekki hefði komið til sakfellingar í málinu hefði ákærði gætt að því einu að taka þessi málefni upp innan ríkisstjórnarinnar, eins og honum bar samkvæmt 17. gr. stjórnarskrárinnar. Í málinu er ákærði sýknaður af alvarlegustu brotunum, sem hann var borinn sökum um. Hann er 61 árs að aldri og hefur ekki áður hlotið refsidóm. Að öllu virtu verður honum ekki gerð refsing í málinu.“
Ég verð að viðurkenna að ég klökknaði lítillega þegar ég las þetta niðurlag. Maðurinn er 61 árs og hefur ekki orðið uppvís að öðrum brotum. Þess vegna engin refsing. Fallegt.
Sjálfum fannst honum það sprenghlægilegt.
Jón Ólafsson
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.