miðvikudagur, 11. apríl 2012

Ljóðlistin

Dante og Beatrís í myndskreytingu Doré. Gestabloggari
dagsins, Magnús Sigurðsson, fjallar um ljóðlist.
Ég veit að ég þarf fyrr eða síðar að standa mikilvægri grundvallarspurningu skil. Og mig langar að gera það á skipulegan hátt, svo ekkert fari á milli mála. En þetta snýst ekki um útreikninga, heldur óljósar tilfinningar og kenndir að baki lífsafstöðu sem getur reynst erfitt að færa í áþreifanlegan búning röksemda og skipulags. Þá þykist ég vita að þessi grundvallarspurning muni krefjast margra ára undirbúnings og íhugunar ef vel á að vera. Auk lestrar – ógrynni lestrar – sem ég bý ekki að.
            En spurningin er sem sagt þessi gamla arðsemiskrafa: af hverju og að hvaða leyti skiptir ljóðlist okkur máli – hvert er gildi hennar? Svarið hafði ég raunar hugsað mér – skipulegt og röklegt – í formi eins konar málsvarnar fyrir hönd ljóðlistarinnar, skrifuð á nokkuð viðsjárverðum tímum. En slíkar málsvarnir hafa vitaskuld þegar verið skrifaðar, allt frá Grikkjum fornaldar til módernista síðustu aldar – sem gefur tilefni til að ætla að allir tímar séu viðsjárverðir fyrir þessa bókmenntagrein.
            Það myndi þó eflaust hægara sagt en gert að fara í gegnum þann litteratúr allan, sem þó myndi nauðsynlegt til að svara spurningunni tilhlýðilega. Til að stytta mér leið gæti spurningin þess vegna fremur hljómað svo: af hverju ljóðlistin skipti mig máli, hvert gildi hennar sé fyrir mig. Og þótt ég berskjaldi sjálfan mig sumpart í leiðinni, þá er slíkt ef til vill í nokkru samræmi við þá einlægni og bersögli sem ljóðlistin gerir oftar en ekki kröfu um. Ekki alltaf reyndar; það er ákveðin list að skrifa óeinlæglega, og heilmikil kúnst að geta og kunna slíkt. En allajafna er ljóðlistin álitin form hinnar einlægu tjáningar, og ég held að við lesum og (mis)skiljum ljóð almennt á grundvelli slíks sáttmála milli skálds og lesanda. Þess vegna langar mig að vitna í stutt ávarp sem ég flutti af ákveðnu tilefni fyrir nokkrum árum síðan, og reyndi í því – af fyllstu einlægni – að svara til bráðabirgða og í stuttu máli sömu spurningu og hér hefur verið borin upp. Í þessu ávarpi segir meðal annars:

            Þegar ég hóf að hripa niður þessi þakklætisorð fannst mér ég verða að tíunda fyrir viðstöddum hvaða þýðingu ljóðlistin hefur haft fyrir mig, og þá hugsanlega einnig fyrir aðra. Fyrst og fremst er ljóðlistin það verkfæri mannsandans sem best hefur gagnast mér til að öðlast hugarró þegar hennar hefur verið skortur, auk þess sem ljóðlistin er mér öflugt þekkingartæki sem eykur skilning minn á hugsun mannsins, tilfinningum og breytni.
           
Þó er ekki víst að allir geti tekið undir svo hátíðleg orð, svo almenn sem þau engu að síður eru, enda liggur áhugi manna á mismunandi sviðum, og hugarróar, skilnings og þekkingar víða að leita – og finna. Afi minn sjómaðurinn leitaði til dæmis hugsvölunar í trjárækt, amma mín húsmóðirin í handavinnu og amma mín verkakonan í tímaritinu Sannar sögur – allt eftir áhugasviði og þörfum hvers og eins.

Ef til vill ættum við því að forðast þá þreytandi kröfu á hendur ljóðlistinni að hún skuli allra – að öðrum kosti sé um dautt form að ræða. Slíkar vinsældakröfur eru óraunhæfar, en freistandi og jafnvel nauðsynlegar í þeirri ládeyðu sem oft einkennir viðtökur framúrskarandi bóka. Nærtækt dæmi er síðasta ljóðabók Ísaks Harðarsonar, Rennur upp um nótt, sem með réttu ætti að rata inn á metsölulista þjóðar sem mælist æ óhamingjusamari. En því er ekki þannig farið. Kannski einfaldlega sökum þess hve sár bókin er, því sem lesendur held ég að við forðumst sanna þjáningu. (Bók Ísaks var snyrtilega afgreidd á þá leið í bókmenntaþætti sjónvarpsins að lífið sé nú ekki svona hræðilegt.) Og þá kem ég aftur að óorðuðum sáttmála skálds og lesanda, sem ég geng nokkuð út frá: nefnilega að það sem ort er um sé satt af höfundarins hálfu, standi það í ljóði. Og þá skiptir engu máli þótt skáldið hefji bók sína á eftirfarandi varnagla, eins og Ísak gerir:

            öll orðin sýnast miklu raunverulegri en þau eru í raun

Við trúum slíkum varnöglum ekki. Því þjáningin er sönn, í fyllstu merkingu þess orðs, ef skáldskapurinn er sannur. Hins vegar grunar mig að hinn almenni lesandi forðist slíkar raunabókmenntir, því þær meiða hann.
            Aftur á móti leitum við mjög í uppdiktaðan sársauka. Í sársauka skáldsögunnar, til dæmis. Því hann er ekki eins hvass, ekki eins sannur á grundvelli persónu höfundarins. Þvert á móti er hann allt að því angurvær. Leyfist mér að nefna hin harmrænu örlög Bjarts og fjölskyldu í Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness? Því þótt ég hafi verið hryggur við lok þeirrar sögu, þá meiddi hún mig ekki eins og prósaljóðasería Ísaks í fyrrnefndri bók. Ég var hryggur, á angurværan hátt, en ekki særður. Bókin meiddi mig ekki, en vissulega snart hún mig.
            Þetta held ég að sé ein af ástæðum þess að ljóðlist verður aldrei markaðsvara. Því í eðli sínu virðist ljóðlistin standa nær þjáningunni en nokkur önnur listgrein. Þessi hættulega klisja – því vissulega er hún það – er til að mynda staðfest í bók Kay Redfield Jamison, Touched with Fire: Manic-Depressive Illness and the Artistic Temperament, þar sem fram kemur að í hópi myndlistarmanna, rithöfunda, tónskálda og annarra listamanna er engum hættara við að þjást af alvarlegu þunglyndi en ljóðskáldum. Enda held ég að þjáningarfullt ljóð sé það listform sem óþægilegast er að standa frammi fyrir og reyna að átta sig á. Við kjósum frekar að vísa því á bug. Lífið er jú ekki svona hræðilegt – sjálfsmorðinginn getur sjálfum sér um kennt. Sem mótdæmi er Guernica, málverk Picassos, vissulega þjáningarfullt málverk, og vekur okkur til umhugsunar um þau voðaverk sem maðurinn er fær um að fremja. En dáumst við ekki allt eins að tæknilegri færni listamannsins? Að hinum útglenntu fingrum og tám, að hinum oddhvössu tungum veinandi manna og dýra sem eru til merkis um visst tímabil í ferli málarans?
            Aftur á móti myndi ég ógjarnan vilja greina, með tækjum og tólum bókmenntafræðinnar, hvernig Ísak Harðarson miðlar okkur þjáningu ljóðmælanda síns í prósaljóðaseríu Rennur upp um nótt. Þó þykist ég vita að í slíkri úttekt á tækni og framsetningu kæmi kaldhæðni höfundar nokkuð við sögu. Sem iðulega vill setja fyrrnefndan sáttmála ljóðskálds og lesanda í uppnám. Meinar höfundur annað en hann segir? Fer hann krókaleiðir, mælir hann undir rós, get ég treyst honum? Þýða orðin annað en þau virðast, við fyrstu sýn, þýða?
            En kaldhæðni er aðeins tjáningarleið, og útilokar ekki einlægni. Hún er hins vegar ákveðin baktrygging gegn ásökunum um sjálfsvorkunn og barlóm; hætta sem tilfinningalegum bersöglisskáldskap er iðullega búin.

Ég sagði að ljóðlistin verði aldrei hrein og klár markaðsvara, sem eru vitaskuld gömul og – því miður – margreynd sannindi. Hins vegar er hin rótgróna hugmynd um ljóðið sem ratar til sinna varasöm. Því í henni felst ákveðin uppgjöf, ákveðið skeytingarleysi. Jafnvel örlagahyggja. Að ljóð seljist ekki, að þannig sé því farið og þannig muni því farið. En sem betur fer finnast undantekningar. Til dæmis var nokkuð þungmelt ljóðabók Þorsteins frá Hamri Hvert orð er atvik óvænt metsölubók fyrir nokkrum árum, þegar við héldum að „alvarlegar“ bókmenntir ættu loksins upp á pallborðið hjá þjóð sem hafði fengið að kynnast afleiðingum gerviveruleika.
            En spurningin var hvers vegna ljóðlistin skipti sjálfan mig máli. Og í fyrrnefndu ávarpi segir:

Eftir því sem áhugi minn á bókmenntum hefur leitt mig víðar hefur þakklæti mitt til þeirra ljóðskálda sem ég hef þannig kynnst aukist jafn og þétt. Og mér hefur skilist hve líf mitt væri lítilfjörlegt ef ég hefði ekki þessi skáld til að halla mér að, jafnt í gleði sem sorg.

Hér er orðið lítilfjörlegt valið af kostgæfni. Því vissulega væri sjálfri tilvist minni öðruvísi farið ef ákveðinna skálda og rithöfunda nyti ekki við. Sem er stór fullyrðing, en engu að síður nokkuð sem ég held að allir bókmenntaunnendur – eins og það heitir svo hátíðlega – eigi sameiginlegt. Annars værum við ekki hér.
            Þessum nokkuð alvörugefnu þönkum vil ég þó ljúka á drýgri tilvitnun en í gömul ávörp – í bók Hannesar Péturssonar Úr hugskoti. Tilvitnun sem ég vil gjarnan gera að lokaorðum þessa framlags míns út frá grundvallarspurningunni sem lagt var af stað með – hinni gamalkunnu arðsemiskröfu um nytsemd og gildi:

Ljóðrænn skáldskapur – gerir hann eitthvert gagn? Slík spurning um nytsemi vaknar með manni dögum oftar, skilgetið barn samfélags sem stefnir að hagnýtum vinnuafköstum, notagildi, kaupskap – að kerling hafi ætíð nokkuð fyrir snúð sinn.
           
Sýnilegt merki um notagildi ljóðræns skáldskapar er aðeins eitt: að hann skuli vera til – að mannfólkið af eðlisgróinni vitund um hvað sé til þyngsla og hvað til léttis skuli ekki fyrir langalöngu hafa leyst hann úr ferðaböggunum og skilið hann eftir við lestarveginn, í grjótinu.

En hvers vegna er slíkur skáldskapur þá enn í farteskinu? Ekkert svar við þeirri spurningu finnst mér beinna og jafnframt líkara því að vera rétt en það, að ljóðrænn skáldskapur sé hjartans-mál (alveg eftir orðsins hljóðan), að hann nái dýpra á vissri leið inna með manninum en önnur skáldlist. Ekki svo að skilja að hann sé annarri skáldlist meiri fyrir það, heldur af öðrum toga og að ekkert fylli skarð hans sé honum burtu kippt.

Magnús Sigurðsson

1 ummæli:

  1. Bestu þakkir Magnús fyrir skarpa greiningu á mikilvægri spurningu. Já, og fyrir að þora að kalla ljóðið ljóð. Það er alltaf frískandi.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.