Sumir
læra aldrei neitt. Ég veit þetta hljómar eins og tugga, en það breytir ekki því
að svona er þetta. Sumum tekst einfaldlega að sigla þannig gegnum lífið að þeir
telja sig geta trúað því staðfastlega að allt sem þeir hafa trúað á og unnið að
sé rétt. Það séu hinir sem hafi rangt fyrir sér. Ástæðan fyrir því sé heimska
þeirra eða mannvonska.
Allir
hafa gott af því að hafa rangt fyrir sér. Einkum og sér í lagi ef þeir gera sér
grein fyrir því að þeir höfðu rangt fyrir sér og þurfa að upplifa auðmýkjandi
stöðu viðurkenningarinnar frammi fyrir öðru fólki – þurfa að viðurkenna að þeir
hafi haft rangt fyrir sér.
Það
flækir að vísu málið lítillega að stundum virðist þurfa mikið til að fólk sé
fært um að sjá þetta. Og stundum er barátta þess sem neitar að horfast í augu
við mistök sín grátleg, þegar hann (eða hún) berst um á hæl og hnakka og finnur
stöðugt fáránlegri leiðir til skýra hversvegna það voru aðrir, ekki hann (eða
hún), sem höfðu rangt fyrir sér – eða jafnvel rangt við, varpar eigin sök á
annað fólk.
Brotin egg er saga um mann sem
einn daginn verður að horfast í augu við að hafa haft rangt fyrir sér í stóru
og smáu. Þetta er dálítið fyndin bók. Hún er líka öðrum þræði melódrama.
Bakgrunnur sögunnar er hrun kommúnismans í Austur-Evrópu og söguhetjan maður
sem um langt skeið hefur samið og gefið út árlega ferðahandbók um löndin austan
járntjalds. Hann hefur skrifað um þau af sanngirni (eða það finnst honum
sjálfum) og jafnvel vissri hrifningu, enda kommúnisti eða, öllu heldur, eins og
hann orðar það sjálfur, vinstrimaður. Sumar setningar hans úr ferðahandbókinni
koma nú beint í andlitið á honum aftur, eins og þessi hér: „Þýska alþýðulýðveldið
hefur upplifað stöðugt efnahagsundur síðan 1945 og er nú almennt þekkt sem eitt
þróaðasta ríki heims.“
Felix
Zhukovski (hann heitir það) er semsagt í þeirri aðstöðu að þurfa að éta
ýmislegt ofan í sig. Og þá fer fleira að gerast. Hann þarf ekki aðeins að
endurskoða pólitískar skoðanir sínar og hugmyndir um hverskonar þjóðskipulag
kunni að vera til góðs fyrir þá sem búa við það. Hann þarf líka að endurskoða
afstöðu sína til fjölskyldu, móður, bróður og til eigin tilfinninga um áratuga
skeið. Hann þarf hreinlega að hugsa sjálfan sig upp á nýtt.
Austast
í Reykjavík situr maður og skrifar daglega mikla reiðipistla í blað sitt, sem
hann ritstýrir. Mesti óvinur hans er ríkisstjórn Íslands. Um helgina hellti
hann úr skálum reiði sinnar og endaði helgargrein sína á þessum orðum: „En
þegar horft er til þessara atriða allra og þeim til viðbótar til svika við
fjölskyldur í vanda, falls skjaldborgarinnar með dynk og svikanna um hina
norrænu velferð, þá þarf engan að undra þótt álit þjóðarinnar á núverandi
ríkisstjórn standi í þeim botni sem mælingarnar sýna.“
Þegar
ég las þessi orð hans hugsaði ég með mér að kannski ætti hann að lesa söguna um
Felix Zhukovski. Kannski það myndi hjálpa honum að horfast í augu við að hann
stýrði sjálfur ríkisstjórn Íslands í mörg ár og mótaði stefnu sem endaði með
ósköpum. Þessvegna er hann einmitt ritstjóri dagblaðs sem haldið er gangandi af
útgerðarmönnum, en ekki í hinni virðulegu Seðlabankastjórastöðu sem hann setti
sjálfan sig í þegar hann lauk löngum forsætisráðherraferli.
Ég hugsaði með mér að þessum núverandi ritstjóra, áður Seðlabankastjóra og forsætisráðherra sem líður svo illa að hann eys soranum sem kraumar innra með honum á síður blaðs síns á hverjum degi, gæti gagnast fara með Felix Zhukovski í gegnum endurskoðunina og breytingarnar sem komu til af því einu að hann neyddist til að viðurkenna að hann hefði haft rangt fyrir sér. Kannski myndi honum að loknu slíku ferðalagi líða betur. Það gæti haft góð áhrif á skrif hans í blað sem einu sinni gat státað af því að vera blað allra landsmanna.
Ég hugsaði með mér að þessum núverandi ritstjóra, áður Seðlabankastjóra og forsætisráðherra sem líður svo illa að hann eys soranum sem kraumar innra með honum á síður blaðs síns á hverjum degi, gæti gagnast fara með Felix Zhukovski í gegnum endurskoðunina og breytingarnar sem komu til af því einu að hann neyddist til að viðurkenna að hann hefði haft rangt fyrir sér. Kannski myndi honum að loknu slíku ferðalagi líða betur. Það gæti haft góð áhrif á skrif hans í blað sem einu sinni gat státað af því að vera blað allra landsmanna.
En
nei annars. Eftir á að hyggja er það tilgangslaust. Líklegast mun hann einungis
segja við sjálfan sig: „Guð ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn. Þakka þér fyrir að ég skuli aldrei hafa verið kommúnisti eins
og Felix Zhukovski.“ Og sorinn kraumar áfram.
Jón Ólafsson
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.