Ég
verð að játa að ég er haldinn skæðri gægjuþörf
gagnvart fólki sem les bækur í opinberu rými. Og þessi tilhneiging
færist bara í aukana við það að stundum gerast undarlegir galdrar við þessar
kringumstæður, þegar ég glápi á ókunnugt fólk lesa bækur. Þannig var ég í
dögunum í jarðlest, held ég frekar en ofanjarðarlest, í Kaupmannahöfn, og varð
þá starsýnt á konu sem var að lesa mjög þykka ljóðabók – við erum að tala um
alla vega fjögurhundruð síður. Nú eru auðvitað til ófáar þykkar ljóðabækur,
alls konar heildarsöfn og antólógíur. Og þar sem þetta var í Danmörku hefði
þetta til að mynda getað verið bók eftir Klaus Høeck, sem sendir reglulega frá
sér mikla doðranta. En lesmálið í bókum has er reyndar gisnara og öðruvísi sett
upp en þeir bálkar sem ég sá djarfa fyrir á síðum bókarinnar sem konan í
jarðlestinni var að lesa.
Æ, fyrst Klaus Høeck
dúkkaði allt í einu upp ætla ég að leyfa mér smáútúrdúr. Montstatus, nokkurs
konar, dulbúinn sem játningu. Fyrir mörgum árum þegar ég vann hjá útvarpinu
höfðum við Jón Karl Helgason og Jórunn Sigurðardóttir komið okkur saman um
nokkurs konar hringekju í þáttargerðinni þannig að við skiptum á milli okkar
þremur hlutverkum, eina vikuna sáum við um umræðuþátt um bókmentir, aðra vikuna
vorum við alfarið í daglegu menningarmagasíni, sem ég held að hafi heitað
Kviksjá þá, og þriðju vikuna var þáttur þar sem fjallað var um eina erlenda,
óþýdda bók. Hvað hét þessi þáttur nú? Við miðuðum við að hafa eitt viðtal,
reyndum að skrifa eitthvað gáfulegt um bók og höfund og þýddum svo nokkur brot
úr bókinni sem við létum lesa inn í þáttinn. Ég man að Jón Karl hafði búið til
skema handa okkur, svo við þyrftum ekki að hugsa byggingu þáttarins frá núlli í
hvert sinn. Snjall maður hann Jón Karl. Kannski þess vegna fór þessi þáttargerð
fljótlega að renna ansi smurt hjá okkur
og ég kom mér upp fáránlegu vinnulagi sem ég kunni vel við. Þættirnir voru á
dagskrá rétt eftir hádegi á mánudögum, stúdíótíminn var klukkan tíu sama dag og
ég vandi mig smám saman á að byrja ekki að skrifa handritið fyrr en eftir
kvöldmat á sunnudeginum. Auðvitað var ég búinn að undirbúa mig, lesa bókina og
taka viðtalið, ef svo bar undir en átti hins vegar eftir búa til línu í þetta
allt saman, skrifa minn texta og þýða brotin. Ég var alltaf tæpur á að ná
þessu, vann oft langt fram á nótt en ég var orðinn svo illa haldinn af
banalínufíkn að því tæpara sem þetta stóð því meira kikk fékk ég út úr
þáttagerðinni.
Þetta mun hafa verið
árið 1996, Klaus Høeck var þá tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
fyrir ljóðabók sem heitir 1001 digt,
Þúsund og eitt ljóð. Við þremenningarnir fjölluðum um bækurnar tilnefndu,
einsog enn er gert, Jórunn klikkar ekki, og það kom í minn hlut að fjalla um
Klaus Høeck og hans miklu bók.
Nema hvað kvöldið sem ég
tók til við að skrifa handritið hafði ég valið allt of mörg ljóð (þau eru
stutt, öll sjö línur, minnir mig) og var búinn að bíta það í mig að ég yrði að
þýða þau öll til að geta valið úr þeim jafnóðum og skeytt inn í minn texta.
Þetta eru prósakennd ljóð hjá Klaus Høeck, tungutakið hversdagslegt, en samt er
auðvitað alltaf meira mál að þýða ljóð en prósa. Ég sat við þetta fram eftir
kvöldi, löngu búinn að átta mig á hvað þetta var galið uppátæki en meinlokan
hafði heltekið mig, ég gat ekki byrja að skrifa helvítis þáttinn fyrr en ég
væri kominn með ljóðin. Klukkan var eitt um nóttina þegar ég kláraði að þýða, saltvondur út í sjálfan mig
fyrir heimskuna. Nú ertu búinn að klúðra þessu, Jón Hallur sagði ég við sjálfan
mig.
Síðan fór ég að skrifa
handritið. Ég var í miklu stuði, einn í Útvarpshúsinu fyrir utan næturvörðinn
og líklega útvarpsfréttamann á næturvakt, og vann í einni striklotu þangað til
ég kláraði handritið klukkan sex um morguninn, skutlaði útprenti af ljóðunum
(þeim sem ég notaði) inn um lúguna hjá lesaranum á leiðinni heim og náði
tveggja tíma svefni. Í minningunni er þetta besti bókmenntaþáttur sem ég gerði
þarna á útvarpinu, en auðvitað getur banalínufíknin verið að glepja mig hvað
það varðar.
En nei, bókin sem konan
í jarðlestinni var að lesa var ekki eftir Klaus Høeck, það sá ég strax, og ég
fann á mér að þetta var heldur ekki ljóðasafn. Án þess að hafa séð eitt einasta
orð í bókinni, sem var hlífðarkápulaus í hörðu bandi, var ég handviss um að
þetta væri Canto General eftir Pablo
Neruda. Konan sem var að lesa bókina var um sextugt og ekki sláandi spænsk eða
suðuramerísk í útliti. Svo ég hafði engar forsendur til að álykta þetta. Eftir
nokkrar stoppistöðvar gerði hún sig líklega til að rísa á fætur, ég stóðst ekki
mátið og mjakaði mér nær. Nautnahrollurinn hríslaðist um mig þegar ég bar á
síðustu stundu kennsl á einn af undirbókatitlunum í Canto General. Bókin var á spænsku, sem kom mér á óvart, ég hafði
einhvern veginn ályktað að hún hlyti að vera á dönsku.
Jæja, allt er þetta einn
útúrdúr, undirbúningur fyrir næstu bókagægjur í næstu lestarferð. Í fyrra var
ég staddur í heimsókn hjá Brynju dóttur minni í Svíþjóð, hún býr í smábæ milli
Lunds og Gautaborgar sem heitir Åkarp. Þegar ég tók lestina þaðan um kvöldið
var ungt par á lestarstöðinni, það var ekki fleira fólk, bærinn er ekki stór.
Þegar lestin kom fór ég fyrstur inn í mannlausan vagn og settist við gluggann
fjær dyrunum, andartaki síðar kom stúlkan ein inn í lestina og settist skáhallt
fyrir framan mig. Hún tók upp bók sem vakti strax athygli mína af því að hún var
innbundin í loðna kápu, samt var letrið einsog í venjulegri vasabrotsbók.
Stúlkan var með rauðleitt hár og mjög freknóttan háls, sem ég glápti meðfram, á
ská milli sætanna, til að reyna að greina titil bókarinnar. Það tókst á
endanum, ég náði bæði titli og höfundarnafni áður en hún fór úr lestinni, einni
stöð á undan mér í Malmø. En þá bar svo við að hún renndi bókinni aftur með
rennilási og ég sá að þetta var alls engin loðkápubók heldur venjuleg
vasabrotsbók sem smeygt hafði verið í eins konar hlífðarveski fyrir fólk sem
les bækur annars staðar en heima hjá sér. Ég hafði ekki séð þessa græju áður og
hef ekki séð hana síðan. Við þessa uppgötvun missti ég áhugann á bókinni, vék
henni frá mér, ég hafði hvorki kannast við titilinn né höfundinn.
Nema hvað þegar ég kom
heim, heim til Danmerkur, dró ég upp úr bakpokanum mínum bók sem Kristján
tengdasonur minn hafði gaukað að mér um leið og ég fór út úr dyrunum í Åkarp,
ég hafði ekkert skoðað hana. Mér hnykkti við: þetta var sama bókin og stelpan
með freknótta hálsinn hafði verið að lesa í lestinni.
George R. R. Martin |
Seinna áttaði ég mig á
að tilviljunin var ekki alveg jafn geggjuð og hún virtist vera. Þetta var
fantasíuskáldsagan Game of thrones
eftir George R. R. Martin, og á þessum tíma var einmitt verið að sýna í sænska
sjónvarpinu fyrstu seríuna úr sjónvarpsþáttunum sem verið er að gera eftir
þessum bókaflokki. Þetta var sem sagt bók sem rúmlega tvítugar stelpur með
freknótta hálsa voru að lesa út um alla Svíþjóð og miðaldra karlar með
bókagægjuhneigð voru gjarnan með í bakpokunum sínum, nýbúnir að fá hana að láni
hjá tengdasonum sínum, nánast óséða svo þeir báru ekki kennsl á titilinn þegar
þeir sáu hann…
Jú, fjandinn hafi það,
þetta var andskoti mögnuð tilviljun! Þetta hlutu að vera einhver skilaboð. Alla
vega kom ekki annað til greina en að lesa bókina, sem ég hefði líklega gert
hvort eð var. Þetta er fyrsta skáldsagan í fantasíuflokki sem sækir innblástur
í miðaldir, ég hafði ekki lesið neitt af þessu tagi áður.
Hvernig mér fannst? Jú,
fyrsta bókin var svo grípadi að ég keypti mér strax númer tvö, sem var ekki
alveg jafn góð, svo ég var tilbúinn að láta gott heita. Ég minntist á það við
Kristján, sem glotti við og lét þess getið að sér fyndist þriðja bókin best.
Sem reyndist rétt vera, hún er ansi mögnuð, grimm og dimm og löðrandi í blóði,
margar af persónunum orðnar ansi eftirminnilegar.
Þá fór ég aðeins út af
strikinu og keypti mér bók fjögur og fimm í einu, las mig með herkjum í gegnum
þá fjórðu, sem er hrikalega hæg og daufleg miðað við hinar, þótt hún endi með
svolitlum tilþrifum, og svo strandaði ég framarlega í þeirri fimmtu, sem er
nokkurs konar systurbók þeirrar fjórðu.
Mér fannst svolítið
fróðlegt að lesa þessar bækur samt, meðal annars vegna þess hvernig höfundurinn
vogar sér að draga á langinn að svara spurningum sem hann varpar upp strax í
upphafi bókaflokksins, það er segullinn sem dregur mann að næstu bók en líka
það sem gerir mann pirraðan þegar engin svör er að fá. Ég sé á netinu að þetta
er plága í þessari tegund bókmennta og að lesendur geta lent í því að
höfundarnir falli frá óloknum, tröllauknum bálkum. Svona sögur lúta að
einhverju leyti sömu lögmálum og framhaldsmyndaflokkar fyrir sjónvarp; ég man
að handritshöfundar Twin Peaks höfðu ætlað sér að láta það aldrei koma í ljós
hver drap Lauru Palmer en hefðu þurft að lúffa fyrir yfirmönnum stöðvarinnar
sem sendi þættina út. Eftir að þeirri grundvallarspurningu hafði verið svarað,
sagði David Lynch síðar, var búið að drepa gullgæsina, þáttaröðin dalaði og
fjaraði að lokum út.
En alla vega, hver er
mórallinn í sögunni, hvaða skilaboð voru svona mikilvæg að forsjónin sendi
stúlku með freknóttan háls og lét hana setjast í þetta eina sæti sem opnaði
möguleikann á að lesa titilinn á þessari loðbók, sem ég hélt vera? Ég bara
spyr.
Jón Hallur Stefánsson
Bóka- og sjónvarpsflokkar sem aldrei enda ...?
SvaraEyðaÉg man, Jón Hallur, þegar fyrsta serían af sjónvarpsþáttaröðinni "Lost" var sýnd. Ég horfði nokkuð spenntur á fyrsta þáttinn og fannst hann lofa góðu, en las næsta dag í blaði að framleiðendurnir hefðu ákveðið að láta seríuna enda "opna" í lokin.
Ég horfði aldrei meira á "Lost"
----
Íslensk hliðstæða þessa (um opinn endi) er sennilega sjónvarpsþáttaröðin "Tríó", sem sýnd var í 6 þáttum í fyrra á RÚV. Og mátti alveg hætta fyrr ...
----
Þegar J.K. Rowling hafði gefið út fyrstu Harry Potter-bókina lýsti hún því yfir að hún hefði 7 bóka röð í kollinum. Ég efaðist þá um hvort það stæðist (og efast raunar enn að þetta hafi verið svo rækilega planlagt). En reyndar mega bækur Rowling eiga það að þær urðu bestar um miðbikið (nr. 3-5) og henni tókst að skapa nokkra ódauðlega karaktera, svo sem Gilderoy Lockhart, Dolores Umbridge og Skrögg Illaauga (þótt eingöngu sá fyrstnefndi hafi skilað sér þokkalega í kvikmyndunum).
----
En alversta mýrin, sem ég hef öslað í bókaflokki eru "Masters of Rome"-bækurnar eftir Colleen McCullough. Bækurnar urðu 6, minnir mig (alla vega hætti ég þá að lesa) og hver þeirra var um 800 bls. að lengd + 200 bls. af skýringum. McCullough tók sér þarna fyrir hendur að rekja sögu Rómar að fornu frá dögum Maríusar og Súllu ... og síðan bara eins langt og hún komst (ég man ekki hvort Sesar hafi verið dauður í síðustu bókinni). Ca 4800 bls af sögu Rómar í skáldsagnaflokki ... án þess að sæi fyrir endann.
-----
Skemmtileg lesning.
SvaraEyðaÉg deili þessari sjúklegu þörf fyrir að vita hvað hinir í lestinni eru að lesa, ég get stundum orðið frekar óþolandi áberandi í tilraunum til að sjá „annarra manna bókatitla“. En ég lenti einhvern tímann í því að ég var að lesa einhverja gamla skáldsögu sem ég get því miður ekki munað hver var. Mér finnst eins og það hafi verið eitthvað svona lágfara anarkistabók, alla vega ekki Stendahl eða Balzac eða neinar svona hábókmenntir. Alla vega kemur maður inn í lestina og hlammar sér niður gegnt mér. Ég tók ekkert eftir honum, en eftir örskamma stund hnippir hann í mig og sýnir mér skælbrosandi sömu bók og ég var að lesa! Við áttum þarna einhvers konar samkenndarmóment, mjög skemmtilegt. Við töluðum ekkert um bókina, töluðum í raun ekkert saman, bara brostum og vorum já, svona meira saman en gengur og gerist í metró í París, í smá stund.
SvaraEyðaEn fallegt. Það hefði verið flottur gjörningur að skiptast á bókum, en sennilega of náið. JHS
SvaraEyðaSmukt
SvaraEyða