föstudagur, 20. apríl 2012

Karel og Kiljan


Er ég nógu íslenskur? Er þetta eðlileg rannsóknarspurning fyrir þann sem sest niður og skrifar texta? Er Halldór Laxness nógu íslenskur? Er Karel Čapek nógu tékkneskur? Er Elías Knörr nógu spænskur? Eða kannski of spænskur til að skrifa ljóðabækur á íslensku?

Kveikja þessara hugleiðinga er svo gömul að ég var búinn að gleyma henni, en galisísk-íslenski rithöfundurinn Elías Knörr (eða Portela þegar hann er í galisískara skapi) minnti mig á þær í nýlegri grein sinni á þessu bloggi, þar sem hann fjallar um Francisco Tario, sem svo sannarlega var ekki nógu mexíkanskur. Þessu er lýst svo:

„Málið er að Tario skrifaði ekki einu sinni mjög mexikóska spænsku. Sögur og persónur hans gætu eins gerst í Evrópu, Bandaríkjunum eða annarsstaðar í heiminum. Tími og rými Tarios eru ekki bundin neinum stað eða neinu tímabili, og enn síður neinni menningu eða þjóð. En slíkar bókmenntir skipta ekki miklu máli í þjóðhverfum bókmenntakerfum.“

Og íslenskt bókmenntakerfi á það til að vera óvenju þjóðhverft og oftast beinist það að okkur sjálfum, jafn sjálfhverf og við erum. En stundum líka að hinum, stundum viljum við geta treyst því að tékkneski rétturinn á matseðlinum sé nógu tékkneskur. Þetta er sjaldnast orðað berum orðum, en það kemur þó fyrir – og sjaldgæft dæmi um það má finna í Reisubókarkorni Halldórs Laxness. Þar er kafli um för Laxness til Tékklands ársins 1946 og hér kemur sá kafli sem fjallar um tékkneskar bókmenntir:

„Við íslendingar vitum lítið sem ekkert um tékka. Og þó, Jóhannes úr Kötlum hefur þýtt Salamöndrustríðið eftir Tsjapek, en reyndar segir sú bók ekkert um Tékkóslóvakíu, og útdráttur er til úr Góða hermanninum Sveik, og hann segir dálítið.“

Svo mörg voru þau orð nóbelskáldsins um tékkneska höfunda í þessari annars ágætu ferðasögu. Salamöndrustríðið er vísindaskáldskapur þar sem risastórar salamöndrur öðlast greind á við manneskjur og fara á endanum í stríð við mannkynið. Þannig að nei, við fyrstu sýn segir bókin ekkert um Tékkóslóvakíu – verandi umlukið öðrum löndum og hafið í mörghundruð kílómetra fjarlægð er hættan af sjávarsalamöndrum meira að segja óvenju lítil.

Þak Evrópu

En Tékkóslóvakía er ekki lengur til. Landið varð til við fall Austurrísk-Ungverska keisaradæmisins, átti tveggja áratuga blómaskeið áður en nasistarnir marseruðu inn og fékk örstutt frí frá alræðisstjórnum áður en kommúnistar tóku völdin, frí sem stóð einmitt þegar Halldór heimsótti landið. Salamöndrustríðið var hins vegar skrifuð árið 1936, táknsaga um þær ógnir alræðis sem kynnu að vera handan við sjóndeildarhringinn og þjóðernishyggjuna sem var drifkraftur hennar. Þessi bók og önnur verk Čapeks fóru nógu mikið í taugarnar á nasistum til þess að hann komst í þriðja sætið á handtökulista Gestapó fyrir innrásina í Tékkóslóvakíu (hann lést áður en til þess kom). Sagan segir líka að andstaða hans við fasisma hafi komið í veg fyrir að hann hlyti nóbelsverðlaunin, stuðningur við verk á borð við Salamöndrustríðið var of stuðandi gagnvart þriðja ríkinu og þegar sænska akademían bað hann um að skrifa „eitthvað meinlaust“ var svarið þetta: „Bestu þakkir, en ég hef fyrir löngu skilað af mér doktorsritgerðinni.“

En Salamöndrustríðið er kannski tékknesk fyrst og fremst í þeim skilningi hvað hún er evrópsk, enda Tékkóslóvakía í hjarta Mið-Evrópu og hafa íbúar landsins til skiptis verið þátttakendur í leikriti Austur- og Vestur-Evrópu. Til merkis um hve menning þeirra er sam-evrópsk þá eru Čapek og Bohumil Hrabal líkast til einna þekktastir höfunda sem skrifa á tékkneska tungu – en hverfa þó oftast í skugga Kafka, sem skrifaði nánast öll sín verk á þýsku, og Kundera, sem hefur hægt og rólega skipt yfir í frönsku sem fyrsta mál í útlegð sinni í París.

Á meðan Halldór dvelur í landinu eru Tékkar í miðjum klíðum við að þjóðverjahreinsa landið. Hann sýnir þessu skilning og virðist hlynntur þessu, sem er kannski skiljanlegt árið 1946 þegar vinsældir Þjóðverja voru svo sannarlega í sögulegu lágmarki. En seinna hefur komið í ljós hve grimmileg hefnd Tékkóslóvaka var, rúmlega tveim milljónum þýskumælandi íbúum var vísað úr landi og talið er að um tíu þúsund manns hafi verið drepin og aðrir tíu þúsund dáið sökum brottflutninganna. Fyrrum íbúar Súdetahéraðanna eru ennþá að berjast fyrir einhvers konar réttlæti og þótt að Václav Havel hafi beðist afsökunar fyrir hönd þjóðar sinnar þegar hann var forseti og stungið upp á því að Súdetaþjóðverjum væri gert auðveldara fyrir að öðlast tékkneskan ríkisborgararétt og endurheimta eignir sínar náði sú tillaga aldrei í gegnum tékkneska þingið.

Missirinn var þó ekki bara hinna brottfluttu Þjóðverja. Eftirá áttu Tékkar líka eftir að syrgja þá fjölþjóðlegu Prag sem Kafka spratt upp úr, suðupotti gyðinga, Þjóðverja og Tékka, sem eftir á að hyggja var einn helsti drifkraftur allrar þeirrar miklu sköpunar sem einkenndi Tékkóslóvakíu millistríðsáranna. Leifar þessa suðupotts virðist Halldór skynja þegar hann fjallar almennt um tékkneska listamenn með þessum orðum: „Vonandi er það vanþekkingu minni og glapsýni að kenna að ég gat ekki séð í list þeirra mikið sérþjóðlegt, heldur virtist hún mér samþjóðleg, hámenníngarleg og töluvert útsmogin evrópulist, jafnvel svo að ýmsir hinna tékknesku listamanna væru kannski heimsfrægir ef þeir væru franskir.“ Þetta skrifar hann tveimur síðum seinna, en það er eins og hann sé hægt og rólega að gera sér þarna grein fyrir því að styrkur tékkneskrar menningar sé einmitt miklu frekar í hinu samþjóðlega en hinu sérþjóðlega. En þó má velta fyrir sér orðanotkuninni, af hverju samþjóðlega frekar en sammannlega?

Faðir þjóðar

En ef Halldór hefði viljast fræðast betur um þá Tékkóslóvakíu sem hann heimsótti hefði þó vel mátt mæla með því að hann leitaði dýpra í smiðju Čapeks og þá útfyrir skáldskapinn. Hann var náinn vinur forsetans Tomáš Garigue Masaryk og skrifaði merka samtalsbók við hann sem í enskri þýðingu kallast einfaldlega Talks With T.G. Masaryk. Masaryk er mörgum gleymdum í dag, enda fellur blómaskeið þjóðar hans í skuggann af alræðisstjórnunum sem komu á eftir, eða eins og útgefandi ensku útgáfunnar orðar það í formála: „We have let Lenin, Stalin and Hitler win the battle for our attention against a man whom they saw as a great Central European antagonist.“

Masaryk var ágætlega kunnur heimspekiprófessor í Prag en örlaganornirnar völdu hann ekki í eitt aðalhlutverk Evrópusögunnar fyrr en hann var orðinn 64 ára gamall. Þá braust heimsstyrjöldin fyrri út og Tékkóslóvakía ekki enn orðin til nema sem hluti af keisaradæmi Habsborgaranna. Masaryk varð fljótt lykilmaður í hinni tékknesku andspyrnu og ferðaðist vítt og breitt um veröldina á meðan á stríðinu stóð til þess að afla fylgis þeirri hugmynd að leysa upp Austurríki-Ungverjaland og leyfa Tékkum og Slóvökum að stofna sitt eigið ríki. Uppruni Masaryks sjálfs kann að vera ein ástæðan fyrir því að Tékkóslóvakía varð niðurstaðan þá frekar en Tékkland og Slóvakía, en hann var fæddur í Slóvakíu en eyddi fullorðinsárunum að mestu í hinni tékknesku Prag.

Hann varð fyrsti forseti landsins, árin 1918-1935, frá því hann var 68 ára og þangað til hann varð 85 ára. Sem er máski ágætt að hafa í huga nú þegar við veltum fyrir okkur aldri mögulegra forsetaframbjóðenda og hversu þaulsetnir þeir kunni að vera út frá því. En þetta er einmitt bók sem væri hverjum verðandi forseta hollt að lesa. Það er aðeins of langt síðan ég las hana til þess að ég þori að útlista í smáatriðum hvernig pólitíkin birtist í henni, enda ekki beinlínis hægt hvort eð er, það er frekar einhver illskilgreinanlegur þráður í hans pólitísku heimspeki sem var orðuð best í titli safnrits um Čapek, sem virðist hafa verið skoðanabróðir hans í pólitík: Til móts við hina rótttæku miðju (Towards the Radical Center).


Og þótt hann hafi barist fyrir sjálfstæði þjóðar sinnar þá ofbauð honum öfgafull þjóðernishyggja, jafnvel þegar hún var stunduð í þeim tilgangi að auka veg sjálfstæðisbaráttu. Hann fékk ófáa þjóðernissinna upp  á móti sér þegar hann afhjúpaði nýfundin tékknesk ættjarðarljóð frá miðöldum sem fals og ekki kættust þeir heldur þegar hann barðist fyrir endurupptöku á máli gyðingsins Leopold Hilsner, sökum þess að fyrri réttarhöldin hafi angað af and-semítisma. Allt þetta var löngu áður en hann varð forseti, undir lok nítjándu aldar. Þá var hann svo vel giftur að hann tók eftirnafn eiginkonunnar sem millinafn, en hin bandaríska Charlotte Garigue varð fljótt lykilkona í tékkneskri kvennabaráttu þegar hún flutti til landsins ásamt eiginmanni sínum (Masaryk kynntist henni þegar hann var að kenna heimspeki í Vínarborg) og þýddi meðal annars Kúgun kvenna yfir á tékknesku. Og það er augljós þráður sem liggur frá Masaryk til annars heimspekilega þenkjandi forseta meira en sextíu árum síðar, Václavs Havels.

Róbótar, helsprengjur og BA-ritgerðir

Karel Čapek var afkastamikill höfundur. Þótt skáldsögurnar hafi ekki verið margar þá bætti aragrúi smásagna, blaðagreina, ferðasagna, barnabóka og leikrita það upp. Margt af því var vísindaskáldskapur í ætt við Salamöndrustríðið, hann er líkast til einna þekktastur í dag fyrir æskuverk sem er þó með hans síðri verkum, leikritið R.U.R. (Rossum's Universal Robots), sökum þess að þar kom nýyrðið róbót fyrst fram, sótt í slavneskt orð yfir vinnuþræl. Nýyrðasmiðurinn var þó bróðir Karels, Josef, myndlistamaður og oft samstarfsmaður (og báðir voru hagleiksmenn á sérsviði hins, oftast myndskreytti Josef bækur Karels en Karel myndskreytir þó sumar sjálfar, til dæmis ferðasögurnar. Og í barnabókum unnu þeir texta og myndir í sameiningu). Skömmu síðar kom út skáldsagan Krakatit, spásögn um kjarnorkusprengjuna, tuttugu og einu ári fyrir Hiroshima.

En þótt Krakatit sé að upplagi þjóðfélagsádeila þá verður hún er á líður miklu frekar ferðalag niður í myrkari kima mannssálarinnar. Þangað leitaði Čapek raunar að mínu viti ekki nógu oft, en fáir hafa þó komist lengra en hann gerði í sínu merkilegasta verki, þematísku trílógíunni sem samanstendur af Hordubal, Lofsteini og Venjulegu lífi (Three Novels: Hordubal, Meteor, An Ordinary Life heitir verkið í enskri þýðingu).

Það verk er sannarlega sammannlegt í besta skilningi þess orðs og það var upphafleg ástæða þess að ég fór að rugla reitum þeirra Laxness saman. Ég var einfaldlega forvitinn að vita hvort leiðir þeirra hefðu skarast áður en þeir hittust í lokaritgerðinni sem ég var að skrifa um verk þeirra. Sú saga öll er efni í miklu lengri grein, en þeir sem eru æstir í að lesa tæplega hundrað síðna BA-ritgerð er þó frjálst að hafa samband.

Ásgeir H. Ingólfsson

6 ummæli:

  1. Ég gleymdi einu neðanmálsgreininni og set hana því hér. Ástæða þess að Tékkland er stundum nefnt þak Evrópu hefur ekki með hæð hæstu fjallstindanna að gera, þau fjöll eru engin Alpafjöll. Líkingin sprettur frá því að þangað renna engin vötn, allar helstu ár Tékklands eiga upptök sín í landinu sjálfu og renna ýmist í Norðursjó, Eystrasaltið eða Svartahaf.

    SvaraEyða
  2. Ég ætla að gerast svo þjóðhverfur að velta fyrir mér þessari pælingu um það að hvað sé að vera íslenskur rithöfundur. Fyrir mitt leyti þá hefur mér aldrei komið annað til hugar en að telja Elías Knörr/Portela til íslenskra rithöfunda, svo hann sé tekinn sem dæmi. Allar bókmenntir sem eru frumsamdar á íslensku hljóta að vera íslenskar bókmenntir. Sama má segja um bókmenntir samdar af fólki með íslensku sem móðurmál á öðrum tungum. Myndi einhver vísa Nonna og Manna á dyr?

    Þýðingar finnast mér klárlega eiga heima í samhengi íslenskra bókmennta. Allavega sæi ég mjög eftir Álfareiðinni og Messíasardrápu. Og barnæska mín hefði orðið önnur ef Enid Blyton og Astrid Lindgren hefðu aldrei verið þýddar.

    Svo eiginlega finnst mér að það sem Vestur-Íslendingar hafa skrifað, sérstaklega þegar það fjallar um Ísland eða Vestur-Íslendinga á einhvern hátt, hljóta að teljast innan mengis íslenskra bókmennta. Letter in Icelandic from the Ninette San eftir kanadíska lagasmiðinn og söngvarann John K. Samson (Káið stendur fyrir Kristjan) hlýtur að vera íslenskar bókmenntir. Það byrjar á vísun á Grettissögu, fjandinn hafi það.

    SvaraEyða
  3. Held samt að þetta sé önnur - en vissulega skyld - pæling, þ.e. hvaða "ríkisfang" höfundar hafa, hvort þeir geti haft tvöfalt ríkisfang sem listamenn, já eða jafnvel margfalt í gegnum þýðingar. Spurning sem fyrst verður flókið að svara með kvikmyndir - þar er debatið hvort miða á við hvaðan peningarnir koma, eða leikstjórann, leikarann, tungumálið, sögusviðið eða eitthvað annað.

    Karel Čapek er hins vegar nokkuð ótvírætt tékkneskur (skrifaði á tékknesku, er fæddur þar og uppalinn o.s.frv.). Með nógu tékkneskur er ég frekar að vísa til þeirra kvaða (oftast ósögðu) sem stundum eru lagðar á höfunda út af uppruna þeirra. Að vera relevant (oft í þröngustu merkingu orðsins), að skrifa sig inn í og kallast á við hefðir o.s.frv. Dæmi um að uppfylla ekki slíkar kvaðir eru t.d. Steinunn og Hallgrímur núna fyrir jólin, sem voru sökuð um að vera að skrifa sérstaklega fyrir Frankfurt, út af því sögusviðið var ekki nógu íslenskt.

    SvaraEyða
  4. Annars skrifaði ég einhvern tímann pistil um innflytjendabókmenntir og velti m.a. fyrir mér hvað ylli því að það væri aldrei rætt um t.d. Óttar Martin Norðfjörð sem second generation innflytjendahöfund vegna tékkneskrar móður hans. Sem hefði mjög líklega verið gert ef útlenska mamman hefði arfleitt hann að dekkri húðlit ...
    Pistillinn er hérna, ætli Elías sé ekki höfundurinn sem ég var að kalla eftir þarna?
    http://mbl.is/greinasafn/grein/1165739/?item_num=0&searchid=140e9a8a3bc8ff08387ed876dc3c3f3cff7ff4ae

    SvaraEyða
  5. Ég held að það séu til slatti af innflytjendabókmenntum, Toshiki Toma og Elías Knörr koma strax upp í hugann, en eftir því sem ég best veit hefur engin tekið það saman þannig að það er erfitt að sirka út hve mikið er til.

    En já, mér fannst þessi „bækur skrifaðar fyrir Frankfürt“ umræða fáránleg. Ef íslenskar bókmenntir eiga að teljast þess virði að lesa hljóta þær að hafa alheiminn allan að sögusviði. Mér finnst það fráleitt að telja að bók sem er skrifuð á íslensku og gerist í Þýskalandi sé minna íslensk en bók sem er skrifuð á íslensku og gerist í Þjórsárdal.

    SvaraEyða
  6. Toshiki og Elías skrifuðu einmitt sínar fyrstu bækur á íslensku eftir að greinin var skrifuð - en ég man ekki eftir neinu fyrir það. En gæti vissulega vel hugsast að eitthvað slíkt finnist fyrir mitt minni ...

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.