miðvikudagur, 18. apríl 2012

Oddur lögmaður (fyrri hluti)

Oddur Sigurðsson lögmaður sem lifði og starfaði á mótum 17. og 18. aldar var viss tegund af íslenskum valdakarli: stórbokki, ofsamaður, frekjuhundur, fantur og fíkill. Líf hans leið við veisluglaum, slagsmál, drykkjutúra og stefnur. Upphefð hans var meiri en annarra manna og fallið hærra. Jón Ólafsson frá Grunnavík lýsir honum svo í sögu sinni:
           
Hann var mikill vexti, föngulegur og höfðinglegur á velli, mikilúðlegur og tigulegur á svip og vænn ásýndum, opinmynntur, stóreygður og úteygður. Þegar honum þótti, var eins og hann flæsti nösum og hefir það jafnan verið talinn órækur vottur um geðríki og sterkar tilfinningar.

*

Ég ætlaði einu sinni að skrifa skáldsögu um Odd en gafst upp á því áður en leið á löngu því að ég náði engum tökum á þessum úteygða og stóreygða manni flæsandi nösum í eilífum æsingi, eins og kókaínkall í nútíma-spennusögu. Ég fann ekki tóninn. Ég vildi ekki skrifa söguna í þessum „sú-var-tíð-segir-á-bókum“-stíl sem höfundar hafa alltaf notað þegar þeir hafa skrifað um þetta tímabil en fann ekki mína rödd í þessu drullsvaði sem mér fannst sagan vera. Og ég veit satt að segja ekki hvað við getum lært af sögunni um Odd lögmann umfram það sem við vitum nú þegar flestöll um forgengileik og fallvaltleik og gæfu og gjörvileik. En ég á hér upp í hillu dálitla skruddu um þennan fulltrúa íslenskrar karlamenningar og allt í lagi að blaða í gamalli harmsögu á meðan við bíðum þess að þær nýju fá sín maklegu endalok.

Bókin heitir Oddur Sigurðsson lögmaður (1682-1741) ævi- og aldarlýsing og hún er gefin út árið 1902 á Bessastöðum af Skúla Thoroddsen. Hún er eftir Jón Jónsson sagnfræðing sem seinna tók sér nafnið Jón J. Aðils og er stundum nefndur Jón Aðils eldri til aðgreiningar frá syni sínum, leikaranum og nasistanum – þessum sem var á ljósmyndinni í 79 af Stöðinni og ríkti næstum yfir þeirri mynd af því að hann var eitthvað svo ógæfusamlegur.

Jón Jónsson var á sinni tíð kallaður Jón Sagnfræðingur til aðgreiningar frá öllum hinum Jónunum. Sigríður Matthíasdóttir sagnfræðingur sem hefur skrifað um töluvert um Jón telur að hann hafi skapað íslensku þjóðinni þjóðernislega sjálfsmynd (Hún gaf út bók um efnið: Hinn sanni Íslendingur, 2004). Hann var fullur af hugmyndum um þjóðareinkenni og arf Íslendinga. Það verður ekki sagt að hann fegri mikið í bókinni um Odd, enda gerist hún á því tímabili sem Jón taldi niðurlægingarskeið þjóðarinnar (þegar best lét líktust Íslendingar forn-Grikkjum að mati hans).  Hann skrifar fjörlega og skemmtilega, er á einhverjum mörkum bókmennta og sagnfræði sem nú eru horfin. Hann skrifar á bókmenntamáli sem kannski er líka að fara forgörðum. Hann er í aðra röndina sagnaritari eins og þeir tíðkuðust hér á landi frá 13. öld og fram á miðja þá 20., að þeir hurfu ofan í gjótuna sem myndaðist milli vísindalegrar sagnfræði og skáldskapar. Hann er alveg ofan í efninu, innlifaður því á einhvern hátt sem ekki tíðkast lengur; veður inn í hugskot fólks; fimbulfambar um tilfinningar og ættarfylgjur en ekki til að vera listrænn eða meðvitaður um „stílbragð“; honum er þetta eiginlegt; hann notar lýsingarorð sem eru jafn forboðinn orðflokkur hjá nútíma sagnfræðingum og sagnir hjá embættismönnum …

Á fyrstu árum 20. aldarinnar var hann „Jón Sagnfræðingur“ og hann átti eftir að móta sýn margra áhrifamanna á þjóðerni og þjóðareðli Íslendinga, eins og Sigríður rekur í bók sinni. Það má kalla hann hann höfund að hinni opinberu og viðteknu söguskoðun Íslendinga sem haldist hefur furðu óhögguð alveg fram á síðustu ár þrátt fyrir ýmsar atlögur sagnfræðinga að henni og gekk aftur upp vakin eins og ekkert hefði í skorist, og sagnfræðingarnir væru ekkert til, í síðustu góðærisbólu í ræðum ráðamanna, framgöngu bankamanna og ályktunum Viðskiptaþings og ekki síst í Skýrslunni Ímynd Íslands sem forsætisráðherra lét gera árið 2007, þegar yfirvöld landsins fólu markaðsfræðingum að rita Íslandssöguna.

(Um söguskoðun góðærisins er til ágæt grein eftir Guðmund Hálfdanarson sagnfræðing, Sagan og sjálfsmynd(ir) íslensku þjóðarinnar sem birtist í  riti guðfræðinga, Glímunni 7, og er á netinu, http://gudfraedi.is/system/files/gliman7_6.pdf).

Jón Sagnfræðingur hélt alþýðufyrirlestra á vegum Stúdentafélagsins í byrjun 20. aldar um íslenskt þjóðerni en seinna voru þessir fyrirlestrar gefnir út í þremur bókum, Íslenzkt þjóðerni kom út 1903, Gullöld Íslendinga 1906 og Dagrenning árið 1910. Sjálfur dó Jón árið 1920. Hann taldi að hér hefði sest að „blóminn af norrænum ættum úr Vesturlöndunum“ og að þjóðernið á söguöldinni hefði hvorki verið „norskt né keltneskt, heldur íslenzkt, það er blöndun af hvorutveggja“:

Hér rann saman í eitt andlegt fjör, hugvit og snild Keltanna, og djúpskygni, staðfesta og viljaþrek Norðmannanna, og fæddi af sér þjóðlíf, sem varla hefur átt sinn líka í sögunni. Þessir erfðakostir beggja þjóðanna koma bezt í ljós í tveim sérstökum hliðum þjóðlífsins, sem heita má að hvor fyrir sig svari nákvæmlega til einkenna þessara tveggja kynþátta, en þessar tvær hliðar eru: forníslenskar bókmentir og forníslenzk stjórnarskipun.
           
***

En hvaða erfðakostir skyldu hafa komið í ljós í Oddi Sigurðssyni? Þessum úteygða rusta flæsandi nösum? Hann er einn af furðuverum Íslandssögunnar en þó svo kunnuglegur; hann er yfirgnæfandi í sögu 18. aldarinnar en um leið hálfgerður huldumaður í Íslandssögunni. Við höfum vandlega gleymt honum. Kannski er ein ástæðan fyrir þeirri gleymsku sú að Halldór Laxness treysti sér ekki til að hafa hann með í Íslandsklukkunni. Þar hefði hann breytt öllu og prúðmennið og nipurmennið Arnas Arnæus (sem var leikinn af Þorsteini Ö Stephensen í eitt skipti fyrir öll og svo drengilegur að hann var ekki til) alveg fallið í skuggann. Það hefði ekki passað fyrir hugmyndagrundvöll verksins að sýna Odd sem fyrirferðarmesta mann landsins; andlit aldarinnar, þrútið af drykkju og frekju.

Samtímamaður Odds Sigurðssonar, Jón Ólafsson frá Grunnavík, ritaði ævisögu hans sem fyrr segir og  en fyrir utan rit Jóns Sagnfræðings hefur fátt eitt verið ritað um hann, nema Björn Th. Björnsson birti þátt um hann í bókinni Úr plógfari Gefjunar. Í Íslenzkum æviskrám eftir Pál Eggert Ólason er líka þáttur af Oddi og þar stendur meðal annars, og takið eftir öllum spriklandi lýsingarorðunum sem Páll Eggert sáldrar í kringum sig:

Hann var ofstopamaður og þó trygglyndur og brjóstgóður, mikilúðlegur og sukksamur, en lét þó eftir sig eignir, enda hafði hann erft mjög mikið og var hagsýnn í aðra röndina. Talinn vel viti borinn, er hann gætti sín […]
           
Og síðast en ekki síst höfum við skáldskapinn, Tímarímu eftir Jón Sigurðsson, háðsádeilu um Odd og móður hans, sem ort var undir rós eins og í alræðisríkjum 20. aldar.
               
***

Bók sína um Odd byrjar Jón á því að lýsa nokkuð aldafarinu kringum aldamótin 1700. Sautjándu öldina kallar hann hjátrúaröldina og heldur áfram: „ …öld heimskunnar, öld fáfræðinnar, öld myrkranna og dauðans í andlegum skilningi. Það er eins og einhver óumræðilegur kjarkleysis- og volæðisblær yfir öllu.

Hann segir líka að aldrei hafi verið hér á landi:

…meiri kreddu- og skinhelgisöld, aldrei meiri vandlætingarsemi í trúarefnum - og aldrei minni sönn og lifandi trú. Aldrei ef til vill jafn mikið kák og kukl í ýmsum greinum vísindanna – og þó um leið jafn vesalt og fátæklegt andlegt líf. Aldrei hangið jafn samviskusamlega í bókstafnum – og brotið jafn tilfinnanlega á móti andanum. Aldrei tildrað upp jafn mörgum lagagreinum og ákvæðum í nafni réttvísinnar – og þó aldrei mannúðin og réttlætistilfinningin jafn herfilega fótum troðin.

Jón rekur ýmis dæmi um glundroðann í löggjöf og landstjórninni á þessum tíma. Sjálfur lagagrundvöllurinn var allur genginn úr skorðum. Ýmist var farið eftir Jónsbók, réttarbótum og konungsbréfum eða alþingissamþykktum og ofan á þetta allt saman bættist tilskipun um að sníða Jónsbók eftir Norskulögum Kristjáns fimmta árið 1688.

Íslendingar hafa löngum þrasglaðir verið en í þessu lagaumhverfi keyrði um þverbak og í þeim málum sem gengu í gegnum öll dómstig – héraðsrétt, lögþingsrétt, yfirrétt og hæstarétt – stóðu dómar sjaldnast frá einum rétti til annars, enda byggðu dómarar hver á sínum lagagrundvelli. Allt varð til þess að hvetja menn til að leggja út í látlausar deilur og endalaus málaferli út af málum sem hægt hefði verið að afgreiða skjótt. Þannig var Sigurður Björnsson lögmaður í 22 ár að baksa við að fá manni refsað fyrir illyrði og óhlýðni. Sigurður var faðir Þórdísar þeirrar sem var fyrirmyndin að Snæfríði Íslandssól í Íslandsklukkunni, og Eydalín lögmaður í þeirri bók að einhverju marki sniðinn eftir honum.
           
Þegar maður les lýsingar Jóns Sagnfræðings á hinu háa alþingi skilur maður hvers vegna það var um síðir lagt niður. Svo átti að heita að það væri haldið á hverju ári en það var ekki nema með mestu eftirgangsmunum að menn fengust til að mæta og gegna skyldu sinni og þinghaldið fór að jafnaði meira og minna í handaskolum að sögn Jóns:

Menn komu of seint til þingsins, sátu í veislum hver hjá öðrum til skiptis fram á nætur, og komust ekki úr rúminu fyrr en einhvern tíma seinni hluta dagsins. Stundum voru dómararnir orðnir svo drukknir þegar þeir komu í Lögréttu að þeir voru með öllu óhæfir til að gegna dómarastörfum.
           
Almennt var ástandið í landinu skelfilegt á þessum tíma. Jón vitnar til skjala Gottrúps lögmanns um ástandið í landinu árið 1701 og er það átakanlegur lestur. Um Þingeyjasýslu segir til dæmis:

Ástandið hér er hið versta og aumlegasta og hafa elstu menn hvorki séð né heyrt annað eins. Mikill hluti fénaðarins er fallinn úr hor, og fiskirí hefur með öllu brugðist, svo fátæk alþýða hefir ekki haft annað að láta upp í skuldir sínar hjá kaupmönnum og landsdrottnum en katla, potta, skrínur og ýmislegt annað, sem þeir þó nauðsynlega hafa þurft að halda á sjálfir, sumir hafa jafn vel orðið að láta fötin utan af sér upp í skuldir. Fólk er tekið að hrynja niður af hungri. Í Svalbarðsstrandarhreppi hafa á síðastliðnum vetri dáið 20 manns af 14 bæjum; í Reykjadalshreppi 90 af 60 bæjum; í Höfðahverfi 40 af 30 bæjum, og álíka margir í Tjörnes- Kelduhverfis- og Núps-sóknum.

Þannig heldur þessi raunarolla áfram hringinn í kringum landið. En höfðingjarnir, ríkismennirnir – kvótaeigendurnir – gera sér glaðan dag:

Stórveislur og samsæti, skart í klæðaburði og gegndarlaust óhóf í nautn matar og víns var eitt af einkennum aldarinnar. Auðvitað voru það einkum höfðingjarnir og hinir heldri og ríkari menn, sem létu til sín taka í þessu efni, en alþýðan dró dám af þeim, og fetaði dyggilega í fótspor þeirra, þegar nokkur kostur var á því. Þegar amtmaður, fógeti, biskupar og heldri menn riðu til alþingis, höfðu þeir með sér mat, vín og ölföng á mörgum hestum, og svo höfðu reyndar allir, sem til alþingis riðu. Var opt meðan þingið stóð yfir, slegið upp stór-veislum og drukkið fast. Helstu höfðingjarnir héldu sumir útlenda steikara eða matreiðslumenn í þjónustu sinni, og létu daglega fjölda manns sitja að borðum með sér, einkum ef þeir áttu mál fyrir rétti, og þurftu að koma sér við dómsmennina. Á kvöldin var svo sest að drykkju fram á nætur. Við allra festar og brúðkaup var Bakkus dýrkaður af svo miklu kappi, að gestirnir vissu varla sitt rjúkandi ráð í nokkra daga samfleytt. […]
           
Þetta er sögusviðið.

***

Þess er getið í sögum að um þær mundir er Oddur Sigurðsson var að komast til valda á Íslandi hafi tveir menn verið á gangi nálægt kirkjugarðinum í Kirkjubæ og heyrt kveðnar þessar hendingar úr einni gröfinni:

Vögum vér og vögum vér
með vora byrði þunga.
Er nú svo komið sem áður var
í öld Sturlunga.
Í öld Sturlunga.

Þeim hefur þótt hann kunnuglegur draugunum frá Sturlungaöld.

Enda  var hann af Ættum. Langafar hans voru þeir Oddur Biskup Einarsson og Gísli Hákonarson lögmaður sem elduðu grátt silfur á fyrri hluta sautjándu aldar, annar forvígismaður hins geistlega valds, hinn leiðtogi veraldlegra höfðingja. Oddur biskup Einarsson var talinn einn helsti menntamaður á Íslandi á sinni tíð, hafði meðal annars lagt stund á stjörnufræði hjá sjálfum Tycho Brahe. Hann var óvæginn í fjárkröfum og safnaði miklum auði á biskupsárum, var fremur óvinsæll og illa þokkaður af mörgum. Hann stóð í ýmsum deilum, ekki síst við danska höfuðsmanninn Herluf Daa sem leiddi að endingu til þess – segir sagan – að höfuðsmaður reyndi að byrla biskupi eitur í veislu á Bessastöðum þegar sá síðarnefndi drakk full konungs. Sonur Odds biskups var Sigurður prófastur og hans sonur síðan Sigurður faðir Odds lögmanns.

Móðir Odds var Sigríður Hákonardóttir og komin af fyrrnefndum Gísla Hákonarsyni. Þau hjón voru auðug bæði að löndum og lausafé og eignuðust tvö börn, Odd og Helgu. Sigurður prófastur lést árið 1690 þegar Oddur var átta ára og voru þau mæðgin tvö eftir það. Sigríður þótti drambsöm og sá ekki sólina fyrir ættarlauknum syni sínum. Allir lutu hinni stórlyndu móður – og hún laut Oddi.

***

Oddur fór á unga aldri úr móðurgarði og í Skálholtsskóla. Þar mætti hann í fyrsta sinn valdi sem hann gat ekki beygt undir sig að vild og hlaut sína fyrstu alvarlegu hirtingu í lífinu. Hann hafði skrifað móður sinni að Rauðamel og látið falla einhver hnjóðsyrði um skólameistarann, Pál Vídalín, síðar lögmann. Bréfið tafðist á leiðinni, lenti á flækingi og kom aftur til baka, svo trosnað að hver og einn gat lesið það. Þannig barst það í hendur Páli skólastjóra. Ofan á bréfið bættist við að herbergisþjónn skólameistara bar í hann þær fréttir að Oddur færi með kukl í skólanum. Af þessu öllu varð Páll svo reiður að hann tók Odd, þótt heldri manna sonur væri, og hýddi hann með hrísvendi svo duglega að skyrta hans varð alblóðug á bakinu. Sagan segir að Oddur hafi geymt skyrtuna og sýnt móður sinni, og þarna hafi verið fyrstu upptökin að óslökkvandi hatri Odds á Páli lögmanni æ síðan.
           
Oddur útskrifaðist úr skólanum fimmtán ára gamall, árið 1697 og hélt svo utan til háskólanáms í Kaupmannahöfn ári síðar. Þar tók hann embættispróf átján ára gamall og kom heim aftur. Jón segir hann hafa verið með glæsilegustu mönnum, fríðan sýnum, háan og þrekvaxinn, mikið skartmenni.
           
Um þessar mundir trúlofast Oddur Guðrúnu dóttur Guðmundar ríka á Narfeyri sem var sonur Þorleifs Kortssonar lögmanns sem við munum sum eftir í túlkun Arnars Jónssonar um árið í leikritinu Skollaleikur – þessi með tunguna lafandi af flærð og fégræðgi. Guðmundur var þá ríkasti maður landins og skyldi kvonfangið sitja í festum meðan mannsefnið aflaði sér mannvirðinga hjá konungi, enda var hún þá aðeins barn að aldri.
           
Auðugur, ættgöfugur, glæsilegur, vel menntaður og gáfaður – og þar að auki manna kurteisastur og háttprúðastur þegar hann vildi það við hafa: hann virkaði vel á menn í stjórnarráðinu og var umsvifalaust veitt varalögmannsembættið norðan og vestan á Íslandi árið 1707 og skyldi taka við lögmannsembættinu þegar Lauritz Gottrúp félli frá. Meðferðis frá Kaupmannahöfn hafði Oddur bréf þar sem hann var skipaður sækjandi af hálfu hins opinbera í ýmsum málum á Íslandi sem snertu valdamikla menn.
           
Þetta bréf siglir nú Oddur með heim og les upp með nokkrum fyrirgangi á Alþingi sem hafði þótt tíðindalítið og dauflegt fram að því, en nú tóku að æsast leikar og bjuggust menn við stórtíðindum á næsta þingi.
           
Oddur reið svo til móður sinnar að Rauðamel og tók nú ofsi hans sífellt að magnast. Hann var kallaður „Oddur hinn hávi“ enda með hæstu mönnum, þó að sennilega væri líka vísað til þess að honum lá mjög hátt rómur, hrópaði á menn í stað þess að tala við þá – að ógleymdu oflætinu. Hann virðist alltaf hafa verið fullur. Hann flaugst á við aðra höfðingja, gerði þeim fyrirsát, réðst á konur og nauðgaði þeim, óð um eins og naut í flagi – flæsandi nösum.

Mesta óhæfuverk hans var þegar Helga systir hans varð barnshafandi af völdum Jóns unnusta síns. Þá reiddist Oddur hinn hávi og barði vanfæra systur sína til bana.

***

Um þessar mundir verða þau tíðindi að heitmey Odds sem nú var orðin fimmtán ára lést úr Stórubólu eins og raunar öll hennar systkini. En þótt Oddur missti þannig konuefnið þá virðist hann ekki hafa misst tengdaföðurinn  sem nú setti allt sitt traust á Odd í ellinni og gaf honum Narfeyri með búinu öllu. Fylgdi  það skilyrði gjöfinni að Oddur skyldi reynast honum sem góður sonur. Nú fluttist Oddur að Narfeyri en Guðmundur var til húsa hjá honum með nokkrar skepnur.

Enn jukust mannvirðingar Odds þegar stiftamtmaður skipaði hann fulltrúa sinn á Íslandi 1708 og skyldi hann ásamt fulltrúa amtmanns hafa eftirlit með embættismönnum og réttargæslu á hendi, vald til að svipta menn embætti til bráðabirgða og skipa nýja og veita ný embætti.  Þessu fylgdu gríðarleg völd, einkum ef þeir tveir sem gegndu þessum embættum væru samtaka í aðgerðum sínum. Þá myndi ekkert standast fyrir þeim: þeir höfðu vald til að víkja mönnum frá fyrir litlar sem engar sakir, allar embættismannaumsóknir og bænaskrár fóru um þeirra hendur, þeir réðu lénsjarðaveitingum og gátu umbunað mönnum með klaustrum og umboðum. Það var því ekki að ástæðulausu að þeir voru í daglegu tali kallaðir „hinir fullmektugu“.
           
Félagi Odds var danskur maður að nafni Paul Beyer og lýsir Jón honum sem ómenntuðum manni, meinlausum og vægum við fátæklinga en svaðafengnum við öl.

Sumarið 1708 áttu þeir í fyrsta sinn að gegna fulltrúastörfum sínum á alþingi. Þingið var sett 8. júlí en fáir voru mættir og stemmning dauf. Beyer vildi minnast þess að hann væri sestur að völdum og sló því upp veislu í amtmannsbúðinni um kvöldið. Bauð hann til hennar helstu mönnum og var Oddur meðal þeirra og settist beint í öndvegi.

Síðan segist Jóni svo frá:

Þóttist hann bezt að því tignarsæti kominn, þar sem hann var fulltrúi stiftamtmannsins. Var nú drukkið fast, nema af þeim lögmönnum báðum, Gottrúp og Páli Vídalín. Von bráðar gekk Gottrúp á burt, og kom ekki aptur, en þeir Vídalín og Jón Eyjólfsson sátu eptir. Þegar leið á nóttina tók að svífa til muna á þá fulltrúana, og sló að lokum í illdeilur með þeim. Gripu þeir báðir til vopna og vildu berjast, en Páll og Jón létu þá ekki ná saman. Völdu þeir hvor öðrum hin verstu smánaryrði og varð af háreysti mikið, svo þingheimur flykktist að búðinni alla vegu til að horfa á leikinn, og þótti góð skemmtun. Páll lögmaður gekk lítið eitt frá í bili, en Oddur hafði þá þegar brandinn á lopti, og sögðu menn, að hann hefði snortið eyrað á konu Beyers sem fylgdi þeim lögmönnunum í að stilla til friðar. Oddur var æstur mjög og krafðist vitnisburðar um orð Beyers, en Páll Vídalín kvað það ráð að sofa af um nóttina, og vita hvað þeir myndi til orðanna að morgni. Nú fór Jón Eyjólfsson að fá nóg af skemmtuninni og gekk á burt, og var þá Páll einn eptir af embættismönnum. Vildu þeir Oddur og Beyer þá óðar hlaupa saman, en Páll fékk á endanum hrakið Odd út úr tjaldinu og í búð hans, en kona Beyers vafðist fyrir honum á meðan.
           
Svona var þinghaldið: „hinir fullmektugu“ blindfullir að hnoðast á sínu fyrsta þingi um það hvor þeirra sé æðstur á meðan embættismennirnir sem þeir eiga að hafa yfir að segja eru í óða önn að stilla til friðar. Íslenskir valdakarlar allra alda.

Daginn eftir sættust þeir hins vegar og tóku að skipta með sér verkum. Fljótlega þótti koma á daginn að Oddur hefði tögl og haldir og réði því sem hann vildi ráða. Hann var tuttugu og sex ára og kominn til æðstu valda á landinu. Það má gera sér í hugarlund hvernig eldri valdamönnum, Páli Vídalín og Sigurði Björnssyni og ýmsum sýslumönnum (til dæmis Jóni Sigurðssyni sem orti Tímarímu), hefur líkað það að sjá þessa miklu fremd Odds hins háva. Fyrirrennarar hans höfðu verið útlenskir, komu naumast til Íslands. Oddur er hins vegar skyndilega orðinn yfirmaður manna sem sumir hafa horft á hann vaxa úr grasi – hýddu hann sem skólasvein – og þurfa nú að halda honum á fylleríi svo að hann sníði ekki eyra af eiginkonu nánasta samstarfsmanns síns.

Og samt er Oddur nánast öllum gleymdur. Það er hins vegar höfuðóvinur hans, Páll Vídalín, ekki alveg. Það er vegna þess að hann orti vísur sem enn lifa:

Kúgaðu fé af kotungi
svo kveini undan þér almúgi.
Þú hefnir þess í héraði
sem hallaðist á alþingi.

Og:

Forlög koma ofan að,
örlög kringum sveima,
álögin úr illum stað
en ólög fæðast heima.

Og um ástina:

Enn nærist elskan sanna.
Enn kærleiksfuninn brennur.
Enn blossar ástar tinna.
Enn kviknar glóð af henni.
Enn giftist ungur svanni.
Enn saman hugir renna.
Enn gefast meyjar mönnum.
Menn hallast enn til kvenna.

Um dauðann:

Stoðar lítt að stæra sig,
styttast heimsins náðir;
maðkurinn étur mig og þig,
mold erum við báðir.
Og auðvitað:

Einatt liggur illa á mér,
ekki eru vegir fínir.
Heilir og sælir séuð þér
snjótittlingar mínir.

Páll Vídalín var sem sagt skáld. En Oddur er öllum gleymdur nema mér af því að ég ætlaði einu sinni að skrifa skáldsögu um hann og rakst á þennan gamla fróðleik hér um hann einhvers staðar í afkimum tölvunnar. Mennirnir deyja og fallvölt er heimsins blíða, hold er mold hverju sem það klæðist, allt fer en skáldskapurinn einn lifir. Ætli Davíð Oddsson sér að lifa áfram lengi eftir sinn dag verður hann því að gera svolítið betur en að skrifa Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar, en hann á samt meiri möguleika á langlífi í þjóðarvitundinni en Ólafur Ragnar sem ekkert hefur ort – svo vitað sé. 

Guðmundur Andri Thorsson

1 ummæli:

  1. Helgi Ingólfsson18. apríl 2012 kl. 04:53

    Býsna fróðleg og bráðskemmtileg grein, Andri. Haf þökk fyrir. Hún býður upp á óteljandi vangaveltur. Mér flaug t.d. í hug hvort þess lýsing Jóns J. Aðils á tíðarandanum um 1700 gæti ekki átt við um nútímann?:

    "... Aldrei hangið jafn samviskusamlega í bókstafnum – og brotið jafn tilfinnanlega á móti andanum. Aldrei tildrað upp jafn mörgum lagagreinum og ákvæðum í nafni réttvísinnar – og þó aldrei mannúðin og réttlætistilfinningin jafn herfilega fótum troðin...."

    Og hvað sem menn álíta um þjóðernishyggju Jóns J. Aðils, þá verður að segjast sem er, að það er viss unun að lesa safaríkan texta hans. Sem og þessa grein í heild sinni.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.