mánudagur, 23. apríl 2012

Derríderó – Glósur héðan og þaðan um Jakob forlagasinna

Í Jakobi forlagasinna og meistara hans (1796) segir frá Jakobi og meistara hans sem ferðast til áfangastaðar, sem aldrei er nefndur, og til þess að stytta meistaranum stundir segir Jakob söguna af ástum sínum.

Sú saga er hins vegar rofin sífelldlega af öðrum sögum og persónum og fyndnum uppákomum af ýmsu tagi – Diderot bregður stöðugt á leik með frásagnarformið.

Diderot
Aðrar persónur segja sögur og þær eru sömuleiðis rofnar af enn öðrum sögum og persónum og uppákomum.

Einn af þeim sem rýfur sögurnar er lesandinn sjálfur, eða innbyggður lesandi sögunnar sem gefur hinum innbyggða sögumanni engan frið. Lesandinn spyr, biður um upplýsingar, gagnrýnir verkið jafnvel.

Sögurnar í sögunni eru yfirleitt skoplegar og fjalla um ástir og kynlíf, og oft er lýst persónum sem beita blekkingum til þess að ná sínu fram.

Sviðsetning er takmörkuð, vísað er til bókrollunnar miklu þar efra en annars er aldrei vísað til ævisögulegra, sálfræðilegra eða sögulegra þátta til þess að setja tal persóna og gjörðir í samhengi.

Sagan endar án þess að Jakob ljúki ástarsögu sinni og án þess þeir komist á leiðarenda, hver eða hvar svo sem hann var. Í þessari sögu koma persónur hvergi að og fara ekkert; sagan lýsir í raun heimi án upphafs og endis, það er engin byrjun og engin niðurstaða, engin orsök og engin afleiðing, þrátt fyrir allt. Eða hvað?

Stöndum við hugsanlega uppi með sömu spurn og við upphaf sögunnar: hverjir eru þessir menn, hvaðan koma þeir, hvað vilja þeir, hvert stefna þeir?

Leiðir sagan okkur hugsanlega hvergi, nema inn í sig sjálfa, þar sem við sjáum lögmál frásagnarinnar dregin í efa, lögmál skynseminnar einnig, lögmál merkingarinnar og rökvísi tungumálsins?

*

Í titli bókarinnar koma fram tvö meginþemu hennar: Jakob og meistari hans og forlagahyggjan sem er tengd Jakobi. Og kannski má segja að tengslin, átökin á milli Jakobs og meistara hans, mótist að stórum hluta af hinni grunnandstæðu sögunnar, forlagahyggjunni og frelsinu. Í kjölfar gistiheimilissenunnar, þar sem Jakob neitar algerlega að hlýða meistara sínum og gerir uppreisn gegn hlutverkinu sem markar stöðu hans í heiminum („Farið ofan – ég fer ekki ofan ...“), reyna þeir félagar að skilgreina eða koma einhverri reglu á samband sitt með samningi sín á milli (en hann endurbirtist síðan í rannsóknum Hegels öld seinna á sambandi herrans og þræls hans):

Jakob: Lýsum eftirfarandi yfir: 1. að það standi skrifað efra að ég sé yður ómissandi, og að ég finni, að ég viti að þér komist ekki af án mín, því misnoti ég aðstöðu mína í hvert sinn sem færi gefst.
Meistarinn: En Jakob, aldrei hefur nokkur maður lýst slíku og þvílíku yfir.
Jakob: Lýst yfir eða ekki lýst yfir, þannig hefur það alltaf verið, þannig er það nú, og þannig verður það svo lengi sem jörðin snýst. [...] Lýsum eftirfarandi yfir: 2. að rétt eins og Jakobi er kunnugt um áhrif sín og vald yfir meistara sínum þá er meistara hans ókunnugt um eigin veikleika og hann er ófær um að losna við sína manngæsku, og því skal Jakob vera ósvífinn án þess þó að meistari hans láti í ljós að hann hafi tekið eftir því, til að halda friðinn. Öllu var þessu komið í kring án vitundar okkar, allt var þetta innsiglað og frágengið á þeirri stundu sem náttúran gat af sér Jakob og meistara hans. Þá var ákveðið að þér fengjuð titilinn, en ég inntakið. Ef þér hafið í hyggju að ganga þvert á vilja náttúrunnar, þá er betur heima setið en af stað farið. [...]
Meistarinn: Og að hvaða leyti er samþykki okkar óhjákvæmilegt [náttúrulegt]?
Jakob: Mjög mörgu. Haldið þér að gagnslaust sé að fá að vita það í eitt skipti fyrir öll, skýrt og greinilega, hvar manni beri að halda sig? Hingað til hafa allar okkar deilur orsakast af  því að við höfum enn ekki kveðið afdráttarlaust upp úr með að þér væruð minn meistari og ég væri yðar meistari. En nú er það frágengið; og nú þurfum við aðeins að bregðast við í samræmi við það.
Meistarinn: Hvar í fjandanum hefur þú lært allt þetta?
Jakob: Í bókinni miklu.

Hér eru flóknustu andstæður bókarinnar leiddar í ljós, á milli bókrollunnar miklu hið efra og atburðarásarinnar í veruleikanum. Kant rannsakaði sama hlut en notaði hugtökin örlög og frjáls vilji.

En þetta þema tengist einnig eðli frásagnarinnar og tungumálsins, sem sé annarri grunnandstæðu í verkinu sem eru tengslin á milli veruleikans og skáldskaparins en þau voru mjög til umfjöllunar á upplýsingatíma: Spurningin var hvort skáldskapurinn gæti endurspeglað veruleikann, hvort hægt væri að lýsa heiminum með tungumálinu þegar líkingalögmálið hafði verið numið úr gildi, eða öllu heldur, þegar það hætti að virka, þegar fólk var tekið að skynja tungumálið og virkni þess með öðrum hætti en miðaldamenn höfðu gert.

Spurningin var: Kemur merkingin (þarna úti, þarna uppi) á undan orðinu (sem er hér),  eða ræður orðið hvað það merkir í því samhengi sem það er í?

Hér er með öðrum orðum verið að tala um nýtt táknkerfi þar sem ekki er lengur náttúrulegt eða sjálfsagt samband á milli tákns og merkingar þess, heldur er það tilviljunarkennt – rökvísi tungumálsins er ekki til staðar lengur.

*

Ef við skoðum nánar sambandið á milli bókrollunnar og veruleikans í textanum þá kemur í ljós að Jakob fer á milli þess að treysta algerlega á forlöginn og draga þau í efa.

Fyrst í stað virðast tengslin á milli bókrollunnar miklu og atburðanna hér og nú snerta bæði tímaröð atburða (fyrst stendur það á bókrollunni, síðan gerast hinir fyrirsögðu atburðir) og orsakaröð þeirra (fyrst bókrollan svo sem afleiðing hennar atburðirnir):

Jakob: Ef það hefði staðið skrifað efra hefði ég sagt við sjálfan mig allt það sem þér ætlið að segja mér nú [...] (9)

Meistarinn bregst við á röklegan hátt, og veltir fyrir sér orsakasamhenginu með talsverðri skeptík:

Meistarinn: Ég er að gæla við eina hugmynd: hún er sú hvort velgjörðarmaður þinn hafi verið kokkálaður vegna þess að það stóð skrifað efra; eða hvort það stóð skrifað vegna þess að þú kokkálaðir velgjörðarmann þinn? (10)

Og auðvitað segir þá forlagasinninn Jakob:

Jakob: Þetta stóð hvort tveggja skrifað hlið við hlið. Allt hefur þetta verið skirifað í einu. Þetta er eins og tröllaukin bókrolla sem flett er sundur hægt og hægt ... (10)

Þetta er kannski næst því að vera einhvers konar vísindahyggja, keðja orsakar og afleiðingar sem er skrifuð í erfðavísa okkar en þarf einnig að lúta utanaðkomandi áhrifum.

*

Stundum virðist Jakob stuttlega láta undan trúnni á forlögin:

Jakob: [...] Við önum áfram í niðamyrkri og höfum ekki hugmynd um hvað skrifað stendur þarna efra, jafn fjarri lagi í óskum okkar, gleði og þjáningum. (74)

En textinn í heild sinni snýr upp á þessar vísbendingar um forlagatrú Jakobs, leikur sér að henni, dregur hana sundur og saman í háði jafnvel. Þeir meistarinn velta því til dæmis fyrir sér hver kunni að vera höfundur bókrollunnar efra:

Meistarinn: Og hver var það sem skrifaði hamingju og óhamingju þarna efra?
Jakob: Og hver var það sem bjó til bókrolluna miklu þar sem allt stendur skrifað? (13)

Hér er ekki beinlínis dregið í efa að höfundurinn sé ekki til eða hann sé dauður, eins og talað var um á tuttugustu öldinni, en með því að bera fram spurninguna er amk lýst efasemdum um eðli eða jafnvel tilveru slíks Höfundar. Og ef höfundurinn hyrfi úr Textanum (Heiminum/Bókinni) myndi merking hans fara á flot, verða óviss. Og þar með stöndum við frami fyrir sama vanda og áður um merkingarleysi tungumálsins, vanda sem menn hafa tengt nútímanum.

Og kannski fjallar bókin ekki um merkingu hlutanna heldur hvort merking sé yfirleitt til. Og ef hún er til hvort hún sé þá ekki huglæg tálsýn fremur en hlutlægur sannleikur.

Og Jakob slær úr og í. Hann efast um tilurð forlaganna, hann efast um að það sé einhver ein merking með þessu öllu saman, að sá sem allt veit, Höfundur bókrollunnar miklu, viti hvaða merking sé í raun með öllu saman, hvert við stefnum, hvað komi næst:

Jakob: Maður veit aldrei hvað himinninn vill eða vill ekki, og ef til vill veit hann ekkert um það sjálfur.

Og svo biður Jakob til Höfundarins að bókrollunni með írónískum hætti, hæðist að tilveru hans, höfundskap hans, verki hans. Þegar Meistarinn spyr hvers vegna hann sé að biðja segir hann:

Jakob: Ég segi: „Þú sem skapaðir bókrolluna miklu, hver sem þú ert, og hefur með þínum fingri skrifað allt sem skrifað stendur efra, þú hefur alla tíð vitað hvað mér er fyrir bestu; verði þinn vilji. Amen.“

Og þegar meistarinn spyr hvort honum væri ekki réttast að þegja svarar hann:

Jakob: Ef til vill, ef til vill ekki. Ég fer með bænina upp á von og óvon [...] (147)

Orðin „upp á von og óvon“ benda til að hann vonist öðrum þræði eftir því að það sé einver höfundur að öllu saman, einhver texti sem segi til um hvernig allt veltur. Fyrr í sögunni segir sögumaður reyndar:

Við teljum að við höfum örlögin í hendi okkar; en það eru ævinlega þau sem leiða okkur áfram: Jakob sá örlögin að verki í öllu sem snerti hann eða kom honum nærri, hesti hans, meistara, munki, hundi, konu, múlasna, kráku.

*

Derrida
Fleiri dæmi má tína til um það hvernig Jakob eða verkið sjálft grefur undan forlagahyggju Jakobs, undan hugmyndinni um að það sé einhver fyrirfram merking til, að lífið hafi tilgang, markmið.

Á vissan hátt hrærast þeir Jakob og meistari hans ekki í sveitum Frakklands upp úr miðri 18 öld, þeir ferðast ekki úr bæ til hallar eða eftir veginum úr sveitinni til borgarinnar, heldur hittast þeir og hrærast í tungumálinu þar sem þeir ráfa um í leit að merkingu sem er sífelldlega skotið á frest og er mismunandi eftir því hvað er hér og nú, eins og Derrida átti eftir að halda fram 200 árum seinna.

Þröstur Helgason

2 ummæli:

  1. Fyrir nokkrum árum var ég að hvetja nemendur til að bera þessa sögu saman við Augu þín sáu mig eftir Sjón. Sögumenn þessara tveggja bóka eru síamstvíburar, þótt sögurnar séu að öðru leyti gjörólíkar.

    SvaraEyða
  2. Það væri þá Derríderósjón enda (ó)sjón algert lykilatriði. þh

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.