föstudagur, 27. apríl 2012

Oddur lögmaður (síðari hluti)


„FLATUR MEÐ MÍNUM HERRA“

Við vorum um daginn að rifja upp fróðleik um Odd Sigurðsson lögmann úr bók eftir Jón Jónsson, seinna Aðils, sem kallaður var Jón Sagnfræðingur á sinni tíð. Þessi fróðleikur er ættaður úr útvarpsþætti sem ég hafði einu sinni með höndum og hét Andrarímur, þar sem stundum var lagst í gamlar og gleymdar bækur.

Oddur er flestum gleymdur. Hann var á dögum frá 1682 og til 1741, valdamesti maður landsins um hríð, naut þá hylli stiftamtmanns sem bjó í Danmörku og skipti sér lítið af Íslandi og stóð í þeirri meiningu að Oddur væri kúltiveraði maðurinn á Íslandi af því að hann hafði komið vel fyrir þegar þeir hittust og Oddur nýútskrifaður. Hann skipaði Odd fulltrúa sinn ásamt Dananum Beyer árið 1708. Þeir voru kallaðir „þeir fullmektugu“. Oddur var líka kallaður „Oddur hinn hávi“ því að hann gnæfði yfir menn og öskraði í stað þess að tala – og fann til hátignar sinnar. Hann var íslenskur valdakarl, eins og þeir hafa ýmsir verið gegnum aldirnar; rusti, ofstopamaður og illvirki í aðra röndina en fágaður, kurteis og örlátur þegar sá gállinn var á honum. Hann stóð í eilífum lagaþrætum, var sífellt að koma ár sinni fyrir borð, sífellt að príla og hnoðast, en mætti svo ekki þegar úrslitastundin í lífi hans rann upp. Hann var skartmenni og drykkfelldur slagsmálahundur, glaðvær stuðbolti og þunglyndur –  þegar þyrmdi yfir hann skar hann sig á háls. Hann er maðurinn sem Halldór treysti sér ekki til að hafa með í Íslandsklukkunni – hann hefði eyðilagt partíið.

Þegar Oddur var að komast til valda á Íslandi voru tveir menn  á gangi nálægt kirkjugarðinum í Kirkjubæ og heyrðu kveðið drungalegum rómi upp úr einni gröfinni:

Vögum vér og vögum vér
með vora byrði þunga.
Er nú svo komið sem áður var
í öld Sturlunga.
Í öld Sturlunga.

* * *



Meðal þeirra mála sem komu til þings árið 1708 var mál Jóns Hreggviðssonar sem Jón Sagnfræðingur rekur nokkuð (þetta er löngu áður en Halldór skrifar Íslandsklukkuna) og er sú frásögn mjög samhljóða þeirri sem við þekkjum úr Íslandsklukkunni, nema hér eru það þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín sem dæma Sigurð Björnsson lögmann frá embætti vegna meðferðar hans á máli Jóns. Oddur aðstoðaði hins vegar Sigurð við að ná aftur embætti sínu, og varð af mikil málaflækja þar sem fleiri sakamenn komu við sögu.

Þeir Oddur og Beyer stóðu í stórræðum næstu árin, þóttu afskiptasamir og röggsamir og þótt menn mögluðu fékk enginn rönd við reist því enginn gat vefengt vald þeirra og myndugleik. Nema einn var sá maður sem taldi sig hafa að minnsta kosti jafn gott umboð til valda og Oddur Sigurðsson og það var Jón biskup Vídalín sem taldi sig fremur hæfan til að hafa yfir prestum að segja en Odd.

Það má segja að Jón Sagnfræðingur sé hálfpartinn í öngum sínum þegar kemur að því að lýsa deilum þessara manna. Hann byrjar mál sitt með hátíðlegum inngangi, nálgast þessi áflog drukkinna íslenskra valdamanna úr mikilli fjarlægð:

Allar þjóðir í veröldinni sem nokkra sögu eiga, eiga um leið sínar söguhetjur, sín átrúnaðargoð. Það stendur eins og bjarmi af nafni þeirra einu saman. Þjóðin á bágt með að viðurkenna, að þeir séu háðir mannlegum ástríðum og mannlegum breiskleika eins og vér hinir, og það mælist venjulega illa fyrir ef farið er að hreyfa við þeim eða tæpa á nokkru sem getur kastað skugga á þá. En hins vegar heimtar sagan að sannleikskröfunni sé fullnægt. Sagnaritarinn er því í talsverðum vanda staddur, þegar um slíka menn er að ræða.

Allt er þetta vegna þess að nú eru leidd fram í bókinni mörg bréf sem lýsa því hvernig Jón Vídalín heimsækir Odd lögmann augafullur og gerir honum lífið leitt sem mest hann má, eins og Oddur rekur síðan í löngu máli fyrir stiptamtmanni - hér er úr einum vitnisburði sem maður á vegum Odds skrifar, og þarf ekki að taka fram að ótal frásagnir eru líka af árásum Odds á Jón:

Einnig þann 21. júlí á sama alþingi um kvöldið seint kom greindur biskup til vísilögmannsins (þ.e. Odds) tjalds, og sýndist mér þá téður biskup af sterku víni drukkinn vera, hvar fyrir vísilögmaðurinn með báðum höndum hjálpaði honum að ganga inn í sitt tjald, og skömmu þar eftir studdi téður vísilögmaður biskupinn mjög hæglátlega svo sem sinn besta vin út úr tjaldinu aftur og á hestbak. En sem þráttnefndur biskup var á hestbak kominn, reikaði hann svo mjög að mér sýndist að hann mundi af hestinum ætla að falla, hvar fyrir vísilögmaðurinn tók báðum höndum yfir um og undir biskupsins brjóst og herðar, svo hann dytti ekki af hestsbaki, og hjálpaði svo vísilögmaðurinn honum frá því falli. En á meðan vísilögmaðurinn svo studdi hann, þá spýtti og spúði biskupinn miklu vatni og óhreinindum frá sínu brjósti ofan á vísilögmannsins handlegg, og sá eg þá að greindur biskup kastaði upp klýju úr munninum, sem féll ofan yfir vísilögmanninn, og upp á hans klæði.
           
Og þannig heldur þetta lengi vel áfram. Þessar deilur áttu eftir að magnast enn með gagnkvæmum svívirðingum og vitnaleiðslum um ósæmilegt hátterni.

Enn afdrifaríkari urðu hins vegar deilur Odds við frænda Jóns, Pál lögmann, sem Oddur ofsótti – hann lét rigna stefnum yfir hann, réðst á hann við Kalmanstungu og beit hann illa, klagaði hann til stiptamtmanns og lét síðan kné fylgja kviði árið 1713 og svipti hann embætti fyrir misjafnlega vel grundaðar sakir.

Sumarið 1714 tók Oddur að fullu og öllu við lögmannsembættinu norðan og vestan af Gottrúp og ári síðar siglir hann til Danmerkur til að koma Páli endanlega út úr húsi hjá stiptamtmanni, æðsta manni landsins sem sat í Kaupmannahöfn og kom aldrei til Íslands. En Páll eltir hann, tekur næsta skip og bregður Oddi mjög þegar Páll birtist enda var hann búinn að segja stiptamtmanni ýmsar sögur af Páli sem gat reynst erfitt að sanna en auðvelt að hrekja. Í þessari utanför var Oddur því stöðugt milli vonar og ótta, í sífelldri geðshræringu og fór svo loks að í æsingnum skar hann sig á háls með rakhníf.

Hann lifði af þetta sjálfsbanatilræði. Sagan segir að Oddur hafi eitt sinn á æskuárum setið við lestur hjá móður sinni í stofu inn af baðstofunni. Allt í einu heyrir hann undarleg hljóð frammi, tekur ljósið og gengur á hljóðið. Kom hann þar að manni sem hafði skorið sig á háls og varð mjög mikið um. Og þaðan væri þessi árátta komin – að skera sig á háls þegar hann komst í mikla geðshræringu.

Það er hins vegar af málalyktum í Kaupmannahöfn að segja að Dönum tókst að lægja öldurnar að sinni og héldu báðir virðingu sinni. Páll hélt embætti og æru þótt margir dóma hans væru taldir rangir og órökstuddir. Um þessar mundir var Beyer boðaður utan til að gera grein fyrir reikningum sínum, og sigldi hann árið 1717 en komst aldrei alla leið, lést í Noregi á leiðinni. Þar með var lokið yfirráðum þeirra fullmektugu.

Vegur Odds stóð hins vegar sem hæst um þessar mundir. Hann var einn af ríkustu mönnum landsins, fulltrúi stiftamtmanns, lögmaður norðan og vestan, hélt Snæfellssýslu, Stapaumboð og Dalasýslu annað veifið, átti jarðir víða um land og bjó myndarbýli á Narfeyri. Þar safnaðist kringum hann knárra sveina flokkur af skjólstæðingum og viðhlæjendum og var tónninn í á kvöldskemmtunum væntanlega eitthvað svipaður þeim sem er í orðum sem sagt er að Sumarliði Klemensson sýslumaður í Strandasýslu hafi jafnan haft uppi þegar hann drakk Oddi til - sem oft mun hafa verið: Flatur með mínum herra.


***

Árið 1719 lést Gyldenlöve stiftamtmaður og var Raben nokkur flotaforingi skipaður í hans stað. Gyldenlöve hafði haldið hlífiskildi yfir Oddi þegar óvinir hans báru á hann sakir og bar í bætifláka fyrir hann og studdi hann í langvinnum deilum hans við Vídalín-frændur, á bak við tjöldin að minnsta kosti. Gyldenlöve hafði að vísu líka reynt að vanda um fyrir skjólstæðingi sínum og fá hann til að hætta þessum sífelldu málaferlum út af mismiklum sökum. Þegar Oddur lét það sem vind um eyru þjóta fór stiptamtmaður hins vegar að missa þolinmæðina og leggja drög að því að draga úr völdum hans.
           
Úr verður að senda hingað til lands norskan mann, Niels Fuhrmann sem kom hingað að áliðnu sumri 1718, fyrst sem aðstoðaramtmaður og síðar sem amtmaður. Hann þekkjum við af válegum kvennamálum hans – en Appollonia Schwartzkopf elti hann hingað á Bessastaði þar sem hún ku eigra enn um stofur á köldum nóttum, en hún var að sögn drepin á eitri af mæðgum tveim sem augastað höfðu á húsfreyjustarfinu á Bessastöðum. Það er önnur saga: Þegar Gyldenlöve hafði pata af því að þeir Oddur og Jón Vídalín væru enn lagstir í langdregna og flókna deilu tók hann á sig rögg og svipti Odd umboði sínu og fékk það Fuhrmann í hendur.
           
Og nú taka fjölmargir óvinir Odds að hugsa sér til hreyfings. Snögglega fækkar vinum, allir fylkja sér um hinn nýkomna mann:

Fuhrmann var ekki lengi að átta sig á málunum. Hann sá það fljótt að hér voru aðeins tveir kostir fyrir hendi: að kúga þenna mann til hlýðni við sig eða steypa honum algerlega. Fyrr gat hann ekki sagt að hann væri búinn að tryggja vald sitt á Íslandi. Fuhrmann var að vísu hreinlyndur maður og prettalaus, en hann þóttist samt ekki mega drepa hendi við hjálparmeðulum þeim, sem honum buðust, þótt þau máske væru ekki með öllu óaðfinnanleg, ef í ströngustu rannsókn var farið. Hann sá það eitt, að hann varð fyrir hvern mun að ná yfirtökunum á Oddi, og hann náði þeim á endanum. En fyrst varð hann að sæta lagi og grafast fyrir um allan embættisferil hans. Hann veitti því fúslega áheyrn öllum þeim, sem einhverjar upplýsingar gátu gefið honum, og þeir voru margir, sem flýttu sér að létta af sér lastmælabyrðinni.

Oddi var margt betur gefið en nákvæmni í embættisfærslu og þar var Fuhrmann fljótur að finna höggstað á honum og nú tekur að rigna yfir Odd aðfinnslum og ákúrum um horfin skjöl af skrifstofunni og dómabækur með grunsamlegum eyðum og  eyðufyllingum.
           
Meðal þess sem amtmaður grennslaðist fyrir um hjá Oddi var hvort hann héldi Snæfellssýslu og Stapaumboð án þess að hafa veitingu konungs fyrir því og skipar hann Oddi að leggja fram veitingabréf en missa lénin ella. Ekki fann hann þau skjöl og úr varð að Oddur missti þessi umboð en Fuhrmann fékk þau í hendur Jóhanni Gottrúp sýslumanni í Húnavatnssýslu. Það var upphafið að megnum deilum Odds og Gottrúps.
           
Meðal þeirra fjölmörgu sem nú leituðu til Fuhrmanns til að rétta hlut sinn gagnvart Oddi var hans gamli tengdafaðir, Guðmundur ríki, sem að sögn Jóns var „maður féskyggn og nískur, forn í skapi og undarlegur.“
           
Þegar Oddur settist að á Narfeyri tók Guðmundur sig upp og flutti til Brokeyjar þar sem hann byggði stór og glæsileg hús og tók að auðgast á ný. Ekki var þó Adam lengi í Paradís því Oddur hugsaði honum þegjandi þörfina því nú þóttist hann sjá að úti væri um arfsvon eftir Guðmund. Hann tók sig nú upp og fór út í Brokey með sveinum sínum – handrukkaralýð þessa tíma – og var erindið að skaprauna Guðmundi. Þar létu menn sitt ekki eftir liggja, brutu og brömluðu, spilltu mat og drykk og „fífluðu griðkonur“ eins og það heitir hjá Jóni. Varð Guðmundur svo æfur við þetta, að hann hugsaði ekki um annað meir upp frá þessu en ná fram hefndum.
           
Sú stund rann svo að lokum upp þegar honum tókst með aðstoð Fuhrmanns að ná aftur Narfeyri af Oddi og hafa af honum mikið fé. Áður en lauk arfleiddi síðan Guðmundur  ríki Fuhrmann að öllu sínum eignum.

***

Jón Sagnfræðingur:

Nú var af sú tíð að menn óttuðust reiði Odds og kinokuðu sér við að ganga í berhögg við hann. Á þeim 2-3 árum sem liðin voru frá því Fuhrmann kom hér upp, var svo um skipt fyrir honum, að hann varð sjálfur að sæta refsingu hvað eftir annað, í stað þess að beita hirtingarvendinum við aðra út í frá. Áður höfðu landsins bestu menn orðið að lúta í lægra haldi fyrir honum en nú var svo komið að jafnvel ómerkum umrenningum þótti sér ekki ofvaxið að etja kappi við hann fyrir rétti. Hann fór á þessum árum hverja hrakförina á fætur annarri enda risu menn nú upp hópum saman og kærðu hann fyrir ýmsar misgerðir, bæði sannar og ímyndaðar. Sumir af þessum spjátrungum og vesalmennum sem nú settust að honum eins og grimmir rakkar voru aðeins verkfæri í höndum annarra voldugri mótstöðumanna og gerðir út af þeim til að ónáða Odd.

Þegar svo stiftamtmaðurinn nýi, Raben kom hingað til lands árið 1720 hafði Fuhrmann komið því til leiðar með bréfum sínum að hann hafði litlar mætur á Oddi. Við bættust alls kyns klögumál á hendur honum frá flestum höfðingjum landsins sem gengu allir á fund stiptamtmanns – nema Oddur. Þegar mest lá við að hitta þann sem öllu réði lét hann ekki sjá sig.  Annaðhvort átti hann ekki heimangengt vegna veikinda eins og borið var við eða treysti sér ekki til að standa augliti til auglitis við stiptamtmanninn. Þetta átti eftir að verða honum dýrkeypt.

Nú var því útséð um hylli stiptamtmanns sem skrifar kóngi um Odd í nóvember 1720:

Það er öllum mönnum kunnugt að meðan hann var fulltrúi stiptamtmannsins á Íslandi þá réði og ríkti hann yfir öllu eins og einvaldsherra, svo stiftamtmaðurinn sá sér ekki annað fært að lokum en að svipta hann völdunum, því hann kom öllu landinu í uppnám og vildi einn yfir öllu drottna. Upp á síðkastið var hann farinn að drekka svo afskaplega að öll störf hans á alþingi fóru í ólestri, og hann æddu þar um eins og vitlaus maður.

Þegar svo er komið fyrir Oddi Sigurðssyni að hann er búinn að missa fulltrúastöðuna, sýsluna og umboðið og á að greiða stórfé til Fuhrmanns og Stapakaupmanna þá lætur hann ekki hugfallast heldur afræður að sigla. Fuhrmann neitar honum um vegabréf en hann gefst samt ekki upp heldur strýkur í skip og kemst til Kaupmannahafnar. Þar nær hann loks fundi stiftamtmanns sem hlýðir á mál hans fullur óbeitar og skrifar Fuhrmann um þessa heimsókn:

Hann hefur verið að reyna að telja mér trú um að hann hafi gert yður viðvart um ferð sína og samið áður við Benedikt Þorsteinsson um að þjóna lögmannsembættinu í fjarveru sinni, en með því hann er innfæddur Íslendingur, legg ég ekki mikinn trúnað á orð hans...

Oddur fær því engan hljómgrunn lengur í Kaupmannahöfn og snýr aftur heim, sneyptur. Þegar heim er komið keyrir um þverbak í embættisvanrækslu hans; hann mætir ekki til þings, stendur ekki skil á gjöldum og virðist í einu og öllu storka mótstandsmönnum sínum til að svipta hann lögmannsembættinu. Fé hans eyðist hratt í alls kyns málskostnað, og þó heldur hann áfram fyrri iðju við að eyða og spenna á allar lundir.
           
Það var svo loks í Jóhanni Gottrúp sem hann hitti endanlega fyrir ofjarl sinn.

***
           
Jóhann var sonur Lauritz lögmanns, fæddur og uppalinn á Íslandi og vildi óður og uppvægur taka að sér öll mál gegn Oddi þegar Fuhrmann kom hingað til lands, ef til vill vegna þess að faðir hans hafði hálfpartinn neyðst til að segja af sér vegna undirróðurs Odds. Upphaflega reis ágreiningur þeirra út af afhendingu á Stapaumboðinu. Gottrúp þótti Oddur ekki skila umboðinu í því ástandi sem það ætti að vera og tók sig til og lét greipar sópa um eigur Odds hvar sem hann náði til þeirra. Ekki er hér tóm til að rekja hina löngu væringasögu þeirra Gottrúps og Odds  –  það er ljót saga um gagnkvæman dólgshátt – en um síðir fór svo að Oddur tapaði öllum málum í Hæstarétti í Kaupmannahöfn, rúinn auði sínum, embættum og æru.  Þeir Gottrúp urðu samferða út til Íslands í Ólafsvíkur skipi. Á leiðinni svívirti Gottrúp og smánaði þennan gamla valdamann og spyrnti við honum fæti þegar hann sté á land svo að hann féll ofan í forina. Reif hann svo á fætur og dró hann með sér heim að Rauðamel, heim til móður hans, forugan og tötrum klæddan. Jón segir að frú Sigríður hafi grátið “móðigum tárum” þegar hún sá son sinn svo grátt leikinn og beðið Gottrúp hinna verstu bölbæna.

Niðurlægingin var fullkomnuð.

***

Var svo kyrrt um hríð.

***


Dómurinn í Hæstarétti þar sem Oddur missti æruna snerist um svokallað Ingjaldshólsmál. Enn voru ekki alveg öll kurl komin til grafar. Enn var ódæmt í svokölluðu aðtektarmáli sem skyldi takast fyrir í hæstarétti þann 27. janúar 1727. Og nú sá Oddur örlitla glufu opnast Hann seldi nokkrar jarðir til að afla farareyris og hélt á ný til Kaupmannahafnar. Þegar hann sté á land þar frétti hann lát Rabens stiptamtmanns og var eftirmaður hans Gyldencrone nokkur, barún, sem áður hafði setið í nokkur ár í stjórnarráðinu. Glufan stækkaði. Allt í einu sá Oddur möguleika á því að öðlast uppreisn æru.
           
Hana fékk hann reyndar ekki strax en hins vegar fékk hann konungsleyfi til að taka allt mál þeirra Gottrúps upp og framfylgja því og fylgdi skipun til Fuhrmanns  amtmanns að sjá um að stefnur hans væru löglega birtar.
           
Þar með gat málastappið hafist á ný og eftir mikið japl jaml og fuður fór svo að þann 22. júní 1730 var dómur kveðinn upp í Hæstarétti á nýjan leik og var þar fyrri dómum hnekkt að mestu – og Oddur endurheimti æruna og umboð sín. Gottrúp var dæmdur til að borga honum skaðabætur og skila aftur öllu því sem hann hafði hrifsað til sín af eigum Odds, sem var mest allt. Mest af því fé var glatað og Gottrúp endaði sína daga sem fiskbarsmíðarkarl og gustukamaður á Grunnasundsnesi.

***
           
Þegar þessum málum öllum lauk var Oddur rétt fimmtugur  og tekinn að mæðast, Með árunum stilltist hann að sögn og svo fór áður en lauk að þeir Fuhrmann voru farnir að skiptast á fágætum bókum. Oddur átti eftir að verða á ný einn ríkasti maður landsins, hann setti bú sitt á Leirá í Borgarfirði og hélt þar marga ómaga og örvasa gamalmenni. Sagan segir að Jóhann Gottrúp hafi átt leið þar hjá í vesöld sinni og kröm á leið utan í einhverjum málaferlum. Sendi Oddur þá í veg fyrir hann og gaf honum góð klæði og hundrað dali í peningum. Hann lét lítið yfir sér hin seinni ár og átti ekki í málaferlum. Segir Jón Jónsson, Sagnfræðingur.
           
Um morguninn þann fimmta ágúst 1741 fannst Oddur dauður í rekkju sinni. Hann hafði gengið alheill til sængur og enginn heyrt til hans um nóttina. Þegar hans var vitjað í rekkju sinni um morguninn kom í ljós að hann var dauður. Far var á hálsinum. Sumir sögðu að hann hefði verið myrtur og var einn af sveinum hans, Bjarni Jónsson – einn úr dólgaflokknum –  talinn sá seki. Flatur með mínum herra.

Í nokkurs konar eftirmála segir Jón Sagnfræðingur um Odd Sigurðsson lögmann:

Oddur er einn af þeim mönnum sem mjög erfitt er að einkenna með fáum orðum. Líf hans er svo fullt af öfgum, hann er svo óstöðugur og margbreytilegur í allri sinni háttsemi, að lítt mögulegt er að ná föstum tökum á persónu hans. Hann er aldrei í jafnvægi. Hann gat verið manna kurteisastur og hæverskastur ef því var að skipta og svo ljúfur í viðmóti, að unun þótti; en þegar minnst varði braust frekjan og ruddaskapurinn fram og eyddi áhrifunum jafn harðan.
           
Og nokkru síðar:
           
Það er ekki laust við að oss renni til rifja að sjá jafn mikla og góða hæfileika og Oddur hafði fara forgörðum. Það er eins og oss finnist íslenska þjóðin ekki hafa efni á að missa þeirra úr framsóknarbaráttunni. Aldrei hefir ef til vill nokkur maður í sögu þessa lands látið meira á sér bera um sína daga og minna eftir sig liggja.

Guðmundur Andri Thorsson

1 ummæli:

  1. Helgi Ingólfsson29. apríl 2012 kl. 04:20

    Bráðskemmtileg færsla enn og aftur (og þó svo löng að ég varð að lesa hana í tveimur atrennum). Myndin af Oddi að styðja við Jón Vídalín draugfullan á hestbaki, þar sem biskupinn ælir yfir varalögmanninn, er býsna eftirminnileg. Og ég endurtek ábendinguna um hve Jón J. Aðils var frábær stílisti, eins og svo margir af aldamótakynslóðinni. "Féskyggn" - sem hann notar um Guðmund ríka, "næstum tengdaföður" Odds - væri hægt að nota blæbrigðaríkara orð á íslensku um græðgisvæðingu nútímans?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.