miðvikudagur, 25. apríl 2012

Kæra Kristín - 3. hluti


Kæra Kristín. 

Ég leitaði þín lengi. Spurði eftir þér á börum. Sendi út fyrirspurnir. En fann þig ekki. Einhvern veginn fannst mér einsog öll skáld hétu Kristín. Það er víst öðru nær – eða í öllu falli flóknara en svo. Og fólkið hristi bara hausinn. Ertu að meina háskólarektor? sagði fólkið. Hvað um formann Rithöfundasambandsins? En hún þarna í París? sagði einn. Þýðandinn. Og þá mundi ég að hún hafði eitt sinn uppi stór orð um að maðurinn hennar, sem er fornbókasali í París, myndi ekki hleypa rafskinnubókaaflestrarspjaldi inn á heimilið. Þessar konur eru allar undir hælnum á einhverjum karlmanni. Nema þú auðvitað, þú ert frjáls. 

Allavega. Kristín þarf að eiga svona tæki. 

Bókin sem ég ætla að gefa þér er nefnilega svona rafskinnubókaaflestrar-
spjaldstölvuskjal. Þú færð hana í tölvupósti um leið og þú gefur þig fram. Og hún heitir Grand Canyon – Miklagljúfur – og er eftir Vitu Sackville-West. Ég reikna með því að kaupa nýtt eintak fyrir þig því maður getur ekki gefið rafbækurnar sínar. Ég get víst ekki bara skráð hana á þig eða sent þér afrit af skjalinu mínu. Eða – ég get auðvitað allt sem ég vil (ég er nefnilega líka frjáls). Ég get alveg brotið afritunarvörnina og kannski er ég meira að segja búinn að því. Mér finnst það mjög líklegt. En það er áreiðanlega ólöglegt þótt höfundurinn sé löngu dauður og fái ekki krónu greidda fyrir þetta héðan af. 

Ég keypti þessa bók fyrir einhverjum mánuðum. Líklega voru þetta einhvers konar impúlskaup, einsog það er kallað þegar maður bara spreðar peningum út í loftið án þess að hugsa út í afleiðingarnar. Ég held ég hafi séð einhverja samantekt, eitthvað – og ákveðið að þetta væri nú áhugavert – en svo var ég búinn að gleyma því öllu þegar ég las bókina. Ég mundi ekkert um höfundinn og ekkert um söguþráðinn – nema það eitt að þetta væri ein af þessum nasistar-unnu-seinni-heimsstyrjöldina skáldsögum sem yfirleitt eru kenndar við „alternative history“ (annarlegar sögur? – óþægilegt að eiga ekki þetta orð, history, á íslensku). Ég reyndi að gera mér í hugarlund af lestrinum hvenær bókin hefði verið skrifuð – og giskaði á miðja sjöunda áratuginn. 

Bókin kom mér strax á óvart. Hún hefst á til þess að gera langri persónulýsingu. Breskur maður, Lester, situr og horfir á breska konu, Helen, og veltir henni fyrir sér. Þau eru bæði gestir á hóteli við Miklagljúfur, nálægt stórri bandarískri herstöð. Heimsmyndin birtist manni eiginlega bara í algeru framhjáhlaupi við það sem virðist vera ógurlega mikill og leiðinlegur hversdagur.  Margir gestanna eru flóttamenn frá Evrópu. Nasistar unnu stríðið á meginlandinu og Bretlandseyjum en Bandaríkjamenn semja um frið. 

Einsog gengur bera fæst orð minnsta ábyrgð og þetta á hvort eð er ekki að vera bókadómur eða einu sinni umfjöllun – þetta er bókagjöf og maður klagar ekki bækurnar sem maður gefur, kemur ekki upp um þær. Ég segi þér því ekkert meira af söguþræðinum – sem er reyndar alveg magnaður og ég væri meira en til í að ræða við þig framvinduna þegar þú ert búin að lesa bókina – en ég ætla samt að reyna að segja þér hvað mér fannst. 

Um miðja bók var ég orðinn heltekinn af því sem mér fannst vera tvíkynleiki bókarinnar – hvernig hún var strákabók (eða karlabók) um seinni heimsstyrjöldina og nasista og loftárásir og sögulegan fróðleik, á sama tíma og hún var stelpubók (eða kellingabók) um hið hversdagslega og jarðbundna í bland við andleg málefni (án þess þó að verða nokkurn tíma skvísubók, verð ég að viðurkenna, og aldrei mjög upptekin af tilfinningum, þetta er kaldari kelling en svo). Og þetta gerðist sem sagt allt á sama tíma og Kristín Svava var á fullu að skjóta niður barnaníðinginn Humbert Humbert á kellingablogginu og Helgi Ingólfs var að delera um ástarvellur á kallablogginu. Og allir með kynjagleraugun á lofti úti um allt land, kynjasvipurnar og kynjafallbyssurnar. Eða svona. Þið vitið. 

Allavega. Kominn í miðja bók og gefst upp á óvissunni. Teygi mig í snjallsímann á náttborðinu og slæ höfundinum upp. Bókin er gefin út 1942. Löngu áður en neinn var búinn að vinna seinni heimsstyrjöldina. Og raunar var ekkert svo ósennilegt á þeim tíma að Hitler myndi bara hirða Evrópu. Bókin er þannig ekki skrifuð sem alternatíf fortíð, heldur sem hugsanleg (ótímasett) framtíð. 

En ritunartíminn reyndist síðan ómerkilegri partur uppgötvunar minnar, því í ljós kom að Vita Sackville-West, hverrar nafn mér hafði vissulega þótt kunnuglegt en mundi alls ekki hvaðan, er fyrrum ástkona Virginiu Woolf og það var til hennar sem Orlando – ein æðisgengnasta bók sem ég hef lesið –  var rituð og kölluð „lengsta ástarbréf sögunnar“. Fyrir þá sem ekki muna það skal rifjað upp að Orlando fjallar um veru (sem er byggð á Vitu Sackville-West) sem lifir í margar aldir og hefur líf sitt sem andrógýnískur karlmaður en er í bókarlok, á öðrum áratugi 20. aldarinnar, andrógýnísk kona – altso fulltrúi þess sem er í senn bæði-og og hvorugt í kynjamálum. Í lok bókarinnar gefur Orlando út ljóðabók og hlýtur fyrir hana virt verðlaun – líkt og Vita gerði í upphafi síns bókmenntaferils. Og hverjum þeim sem hefur lesið Orlando ætti að vera fullkomlega ljóst að ef Orlando hefði fylgt ljóðabókinni eftir nokkru síðar með yfirskilvitlegum nasistaróman þá hefði hann verið nákvæmlega svona. 

En jæja. Kristín, þú lætur bara vita af þér í athugasemdakerfinu og ég sendi þér bókina og þú sérð þetta síðan sjálf. 

Allra bestu kveðjur!
Þinn,
Eiríkur



Eiríkur Örn Norðdahl

8 ummæli:

  1. Hey! Orð mín voru agnarsmá og alger óþarfi að afhjúpa undirlægjuhátt minn gagnvart eiginmanninum! Kannski vildi ég bara fela mína eigin hræðslu við tæknina. Eða peningaleysið? Hvað veist þú haddna kall?

    SvaraEyða
  2. Ég er BRJÁLUÐ, en læka samt.

    SvaraEyða
  3. Ég er líka alveg snarbrjáluð. En veit líka sem er, að ég mun eignast græjuna fyrr en seinna.

    SvaraEyða
  4. Og já, mig langar ferlega mikið til að lesa Orlando. Núna. Í staðinn fyrir allt hitt sem ég neyðist til að lesa og skrifa um eða þýða.

    SvaraEyða
  5. Herdís M. Hübner25. apríl 2012 kl. 06:44

    Eiríkur gaf mér einu sinni Orlando á hljóðbók. Hún er svo falleg, textinn svo fallegur og svo fallega lesinn, að ég hlusta á eina og eina síðu bara til að njóta orðanna, eins og maður hlustar á tónlist.

    SvaraEyða
  6. Borðið sem ég sit við er blátt með rauðum og hvítum röndum, smá fánalegt. Ofan á því liggja nokkrar glósubækur, Íslenska samheita orðabókin, Rómantískt andrúmsloft eftir Braga Ólafsson, Biblían, Dagbókin 2012, Stefnuljós eftir Hermann Stefánsson, Nýr penni í nýju lýðveldi eftir Hjálmar Sveinsson, rafbók af kindle-gerð, litblýantar, stór túss, yddarar, blýantar og bók sem heitir Miss Lamp eftir Chris Ewart. Kærustu þakkir Eiríkur Örn, og viltu senda mér heimilisfangið þitt í e-pósti. Ég hef saknað þín. Þín K To be continued.

    SvaraEyða
  7. P.s.
    Hvar finn ég bréf #1, kæri skáldbróðir?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.