mánudagur, 9. apríl 2012

Francisco Tario: að vera draugur í 101 ár


Undarlegt að enginn kannist við Francisco Tario (Mexíkóborg 1911 - Madrid 1977). Hann ætti að vera frægur rithöfundur en ekki einusinni bókmenntafólk frá ættlandi hans hefur lært neitt um hann. Og ef leitað er á bókasöfnum eða á netinu, reynist erfitt að finna greinar eða gagnlegar heimildir um hann... Hann er ekki einn þessara viðurkenndu rithöfunda sem hægt er að finna þéttan upplýsingabálk um. Nei, hann er einsog draugur. Ég verð að segja að hann er rithöfundur í mínu uppáhaldi og hefur haft mikil áhrif á síðustu verkin mín. En hann virðist vera dæmdur til þess að vera gleymdur.

Í fyrra átti að fagna aldarafmæli hans með stórum viðburðum og Mexíkóska Menningarráðið hafði boðið mér að taka þátt í þeim (þannig fór ég að gleypa í mig smásögur hans). Tario er einn besti höfundurinn þeirra en svo ókunnur að það ætti að gera eitthvað stórt og auglýsa hann.

Hugsið ykkur hvað hann getur verið óþekktur að þegar skrifstofufólkið ætlaði að senda mér verkin hans með pósti, var þeim frekar erfitt að finna eintök af bókunum. Þeir gátu einungis keypt nýju útgáfuna af smásögum hans: “Francisco Tario: Cuentos Completos” (Lectorum, 2003), en allar hinar bækurnar voru hvergi fáanlegar í bókabúðum og þeir þurftu að ljósrita bókasafnseintök, og prenta og senda þau til mín í heftum... Dapurlegt en, já, svona gerist. Bækur deyja líka eða liggja um óákveðinn tíma í dásvefni. Tario er satt að segja dáinn, en þó að það sé mikil klisja, ættu bækurnar að lifa hann.

Hann virðist hafa verið sérkennilegur náungi, ófélagslyndur og kunni ekki sérstaklega vel við bókmenntaheiminn. Hann var marghliða manneskja, eiginlega með óvæntar hliðar. Faldi sig undir dulnefni (ekta nafnið hans var Francisco Peláez Vega) og auk þess að vera furðulegur rithöfundur var hann atvinnumarkvörður í knattspyrnu, stjörnufræðingur, píanóleikari og efnaður athafnamaður. Enginn milljónamæringur hvort eð er, en hann keypti bíósali í Akapúlkó og var fyrstur í Mexíkó í að selja poppkorn á sýningunum. Viðskipti hans gengu þá afar vel og hann hafði aldrei neinar áhyggjur af því að reyna að lifa af skriftum sínum eða vera inni í bókmenntabransanum.

Þegar fjallað er um hann, eru Juan Rulfo og Juan José Arreola alltaf nefndir í sömu andrá. Þeir eru sennilega þekktustu prósahöfundar í mexikóskum bókmenntum 20. aldarinnar. En Tario er ekkert síðri en þeir. Hann er a.m.k. margbrotnari en Arreola, og þó að erfitt væri að setja Rulfo og Tario saman á vigt, finnst mér sá síðari allavega skemmtilegri. Þeir eru frekar líkir en engu að síður tvær ólíkar hliðar af sama peningnum. Segjum að Juan Rulfo fari leið töfraraunsæis, en Tario stefnir fremur í weird fiction. Í grófum dráttum myndi ég segja að: Tario = Rulfo + Lovecraft, en þess vegna finnst mér hann vera miklu meira aðlaðandi.

Virtir lesendur á sínum tíma, einsog Nobelsverðlaunahafinn Octavio Paz, voru hrifnir af sögum Tarios og óvenjulegir hæfilekar hans eru auðlesnir... þannig að maður skilur ekki af hverju hann sló aldrei í gegn.

Satt er að Tario sýndi ekki mikinn áhuga á að ryðja sér leið í bransanum og tók engan þátt í klíkuskapnum, en það virðist ekki aðeins vera það sem setti hann í skuggann.

Rithöfundurinn Mario González Suárez skrifaði formálann í fyrrnefndu endurútgáfu Cuentos Completos og byrjar með því að fullyrða að ef Francisco Tario væri ekki fæddur í Mexikó, væri hann nú á dögum meðal viðurkenntustu nafna spænskumælandi bókmennta.

Að sögn Marios, var ekki nóg fyrir Tario að vera snilldarhöfundur, því hann vantaði að fylgja þeim bókmenntalínum sem í þeim tíma var komið á framfæri í Mexikó. Þetta voru nefnilega “mexicanidad”-bókmenntir. En “mexicanidad” þýðir það að vera frá Mexíkó, og þannig voru efldar þær listir sem birtu einkenni þess sem er mexikóskt.

Málið er að Tario skrifaði ekki einu sinni mjög mexikóska spænsku. Sögur og persónur hans gætu eins gerst í Evrópu, Bandaríkjunum eða annarsstaðar í heiminum. Tími og rými Tarios eru ekki bundin neinum stað eða neinu tímabili, og enn síður neinni menningu eða þjóð. En slíkar bókmenntir skipta ekki miklu máli í þjóðhverfum bókmenntakerfum.

Skáldsöguna Pedro Páramo eftir Juan Rulfo tók ekki lengi að verða skyldulestur í skólanum, fyrst og fremst af því að hún er meistaraverk, en líka vegna þess að hún ekta mexikósk og fyrirmynd þessarar “mexicanidad”.

Tario ætti líka vel skilið að vera í kanónu mexíkóskra bókmennta, en því miður eru verkin hans enn að móka í gleymsku, því hann var öðruvísi. Og ef rithöfundur er ekki þekktur í heimalandi sínu, þá er ólíklegt að erlendis sé eitthvað að fregna af honum.

Stíll Tarios er frekar kyndugur og hann leikur sér alltaf með rökhugsuninni, jafnvel fram til vitfirringar. Að nokkru leyti eru textar hans umritun af draumum eða martröðum, þó að oftast birti hann sýnir og hugrenningar einhverrar furðulegrar persónu í fáránlegum kringumstæðum. Stundum skrifar hann frá sjónarhorni hlutar, dýrs, skips, tónverks... einsog hann gerir í “La Noche”-sögunum. En þegar sögumaðurinn er manneskja, þá er hann í ástandi sem líkist geðbilun. 

Hann lætur lesandann fara yfir mörkin og laumast inn í annan veruleika þar sem  ekkert er skýrt og öruggt, og þar bíða manns skuggaleg áform örlaganna (í þessu líkist hann Lovecraft). Sögur hans Tarios geta lýst meira eða minna raunsæju sviði, en hugur persónanna er oftast gruggugur og þokukenndur. Persónur hans, meðvitaðar eða ómeðvitaðar, eru ekkert nema draugar. Reyndar hafði hann áhugaverða þráhyggju um vofur og skrifaði mikið um þær.

Þar að auki er hann mjög stílfágaður. Orðavalið er stundum frekar lýriskt en takturinn rennur og blandast vel með hversdagsleikanum og furðu, þannig að lesturinn er algjör nautn.

Einsog ég sagði áðan hafði Mexíkóska Menningarráðið áformað að halda stórt þing til að fagna hundraðasta afmæli Francisco Tarios í súrrealístiska garðinum í Xilitla. Aðalhugmyndin var að vekja athygli á höfundinum bæði í Mexíkó og erlendis, þannig að hann væri þekktur í menningarheimi spænskunnar og þýddur á önnur tungumál.

En örlögin höguðu því þannig til að í fjölmiðlunum nokkrum mánuðum fyrr var fjallað um mikinn fjárdráttarskandal: rúmlegar 27 miljónir mexíkóska pesos hafði verið eytt í nafni kvennabaráttu, á 5 daga ráðstefnu (nefnilega “1er. Congreso Internacional:La Experiencia Intelectual de las Mujeres en el siglo XXI”). En Menningarráðið gat einungis útskýrt eyðslu 5 miljóna pesos... reiknið þið það núna í íslenskum krónum...

Afleiðingar voru fáránlegur niðurskurður í menningarmálum, ekki síst í afmæli Tarios. Útlenskum rithöfundum eins og mér var ekki lengur hægt að bjóða. Viðburðir voru hógværari og ekki var hægt að auglýsa Tario einsog hann átti skilið... þannig að hann liggur enn í sama limbói... ætli hann sé því dæmdur til eilífrar útskúfunar, glataður einsog persónurnar sem hann skapaði...

Ég veit að þeir eru ófáir sem lesa þetta blogg og skilja spænsku þannig að hér er tengill á sögu eftir hann: “El mico”
kannski þorir einhver að þýða hana (og aðrar) á íslensku?

Á lífi birti hann skáldsöguna “Aquí abajo” (1943), smásagnasöfnin “La noche” (1943), “Tapioca Inn: mansión para fantasmas” (1952) og “Una violeta de más” (1968) auk nokkurra lausra smásagna. Einnig birti hann bókina “Equinoccio” (1946) sem er safn af sniðugum línum og brotakenndum textum sem eru hvorki ljóð né prósi, en líkastir spakmælum. Skáldsagan “Jardín secreto” og leikritin hans voru gefin út eftir dauða hans.

Elías Knörr

1 ummæli:

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.