miðvikudagur, 25. apríl 2012

Björninn úr Bjarmalandi, eftir Þorsteinn Þ. Þorsteinsson, mjög síðbúin gagnrýni

Pólitískur rétttrúnaður hefur fengið nýja merkingu, það snýr ekki lengur að því hvaða pólitík er rétt að aðhyllast, heldur einfaldlega að “vera pólitískur” Fólk sem hefur langa reynslu í því að vera áskrifendur að póstlistum hjá Amnesty International fer mikinn og vill uppræta alla ópólitíska hugsun.

Þessi pólitík er bara bóla, tylliástæða athyglissvelgjanna til að fá að gaspra og stjórna umræðunni. Pólitík er alltaf bara bóla, hún er ávallt afvegaleidd af fólkinu sem síst ætti með hana að sýsla. Hugmyndir eru aldrei skoðaðar útfrá sínu eigin gildi, heldur stimplum og verðmerkingum þeirra sem hafa eignað sér álitsgjafahlutverk í samfélaginu.

Ég datt nýverið í lestur á merkilegri bók sem heitir Björninn úr Bjarmalandi, eftir Þorstein Þ. Þorsteinsson, ritaðri 1943 og útgefinni sirka 1945. Ég greip hana á markaði í þeirri trú að þetta væri umfjöllun um ferðir örvar-Odds eða tengd málefni, en var heldur en ekki hissa þegar ég kom aðeins inn í bókina og sá að þetta var varnaræða fyrir Stalín. 1943, sannleikurinn um Stalín er ekki allur kominn í ljós en nóg til að flestir sem áður trúðu á framfaraskrefið mikla hafa stigið nokkur til baka. Fljótlega færi fólk að afsaka sig og afstöðu sína en þarna var höfundur sem taldi að útkoma seinna stríðs hefði hreinsað Stalín af öllum áburði um ranglæti. Varnirnar helstu, snúa að ásetningi Stalíns í kúgun á kúlökkum, það er stór- og miðjustórum bændum og hreinsunum á pólitíska sviðinu, en Þorsteinn virðist hafa heimildir fyrir gífurlegum spellvirkjum þessara bænda sem meðal annars eiga að hafa stuðlað að miklu leyti að þeim hungursneyðum sem dundu á þjóðinni frá byltingu og fram á fjórða áratuginn. Pólitískar hreinsanir virðist Þorsteinn einungis hafa hugsað útfrá háttsettu fólki í hernum og mikilvægustu einstaklingunum í stjórnsýsslunni, og sýnist mér vera trúaður á að það hafi allt verið flugumenn nasista, en sá kafli er ekki eins skýr og sá sem snýr að bændunum.

Bókin endar á hrollkaldri dæmisögu um Salómonsréttlæti sovéskra dómsstóla, þarsem dómari á að fella dóm yfir bónda sem drepið hafði nágranna sinn í ölæði, og ætti samkvæmt lögum að dæma hann til dauða en mildar refsinguna gegn loforði sakamannsins um að hann muni rækta land nágrannans og halda þannig uppi fjölskyldu hans, og snerta aldrei framar áfengi.

Stjórnmálasagan, bókmenntasagan kennir okkur að menn sem héldu uppi vörnum fyrir Stalín séu í besti falli geðsjúkir sakleysingjar og í versta falli andkristísk illmenni, og í hefðbundnum þrælsótta gagnvart þessum stöðluðu hugmyndum byrjaði ég á því að kynna mér hvort lægi launhelgi á umræðu um þennan tiltekna höfund, ættingjar á lífi sem skammast sín fyrir kjánaskapinn. En það hefði ég svo sem getað látið ógert því þegar uppi er staðið reynist Þorsteinn fyrst og fremst friðarsinni og jafnaðarmaður, gott og vel, friðarsinni sem taldi friðnum best borgið hjá brjáluðum fjöldamorðingja, en á þessum tíma var sjálfsagt auðvelt að vera “mis-upplýstur” (disinformed), rétt einsog það er ekki síður auðvelt í dag.

Í rauninni sé ég minnst af Stalínskói við lestur bókarinnar, ég sé mann sem er friðarsinni, samvinnusinni, mjög andvígan gróðahyggju og korporatívisma. Ég sé sama málflutning og hjá hugsandi anarkistum, antiglóbalistum nútímans, friðarsinnum. Og það sem er helst sláandi, er að það er sama bannhelgi yfir þessu öllu. Anarkistar og antíglóbalistar eru bara kjánar, algjörlega ógjaldgengir í “realpólitíkinni” og jafnvel stórhættulegir meðreiðarsveinar illmenna, ef maður minnist skrifa alternatífu miðlanna td í Lýbíumálum, þá voru allir sem ekki fylgdu “opinberu” umræðunni, handbendi einræðisherra og glæpamanna.

Sjáum nokkur dæmi:

“Lýðríkin er í álögum illrar náttúru “Ormsins á gullinu”, sem séra Jón Bjarnason reit um kröftug orð í Sameiningu sína fyrir meir en hálfri öld síðan, og eru enn svo sönn, að þau munu snerta enn fleiri auma bletti nú á þessum tímum. Við játum öll að ágirndin sé rót alls ills, en við trúum því ekki, og breytum henni í löglegar blóðsugur, sem eitra hvern einasta þjóðarskrokk, sem þær festa sig á og lifa af, eftir nákvæmum banka- og rentu-rentu-reikningi okraranna.” (bls 115)

Þorsteini er mjög umhugsað um útkomu væntanlegra friðarsamninga, og þótt lesandanum renni sjálfsagt kalt blóð milli skinns og hörunds við að heyra hvað hann leggur mikið traust á framlag Stalíns til þeirra, þá er grunntrú Þorsteins á jöfnuð og frið alltaf aðalstefið.

“En hvers konar frið munu gullgerðarmenn og vél-kristnir hofmenn hinna yngstu tíma semja? Þessir samviskulitlu kaupmangarar, sem fátt vilja annað skilja en margföldunar töflu búreikninga sinna og rentureikninga bankabókanna. En gerum samt ráð fyrir því, að beztu mönnunum takist að þagga niður í þeim á friðarþinginu og semja öllum heimi sanngjarnan og réttlátan frið. En yrði það ekki einungis stundar grið? Ef æðsta matið í lýðstjórnunarlöndunum verður áfram blind yfirdrotnun, auðsöfnun og valdagræðgi, en starfræksla stóriðnaðarins í höndum fárra gróðafélaga, halda þau illu öfl öllu því, sem þau hafa nú, sem einnig leiðir óhjákvæmilega til þess, að þau ná einnig bráðlega friðnum í sínar hendur, og fara að kaupa hann og selja eins og alt annað í kauphöllum sínum – í líkum skilningi og eftir fyrra heimsstríðið.” (bls 153-154)

Þrátt fyrir að Þorstein veðji á rangan hest er sýn hans á framhaldið, hvað varðar afleiðingar og fylgifiska valds- og lífsþægindaeinokunar nokkuð glögg og jafnvel forspá.

“En um friðarsalinn berast einnig bænir og andvörp blóðrisa þjóðanna, og hróp um frið – ævarandi heimsfrið – bergmála í hvelfingum hans. En hæst ætti að hljóma þar friðar bænir alls hins hvíta kyns, um að bölvun feðranna: landræningjanna, þrælasalanna, harðstjóranna, illmennanna, félli ekki yfir það sem ragnarökkur og hefnd hinna seinustu reikningsskila, frá brúnum, bleikgulum, blökkum og eirrauðum bræðrum þess, sem hvítir menn hafa afmannað andlega og líkamlega í alda raðir, en mannað til múgmorða þessara ára og framtíðarinnar í seinni tíð. Hvítir menn ættu á meðan að tími er til, að afnema allan hernað og hervélar heimsins, því í fjandskapar heimi yrði innan fárra ára hinn mikli múgur sameinaður litríkra manna þeim ofjarlar, þegar hver þeirra bæri vítisvél hvítra manna að vopni, og þótt allar hvítar þjóðir stæðu sem einn maður á móti, sem þær aldrei gera.” (157-158)

Hérna má svo við bæta, frá anarkísta nútímans, að auðvitað væri mest sanngirni í því fólgin að “mikli múgur sameinaðra litríkra” bæri sigurorð af þeim litfölvu, en betra væri náttúrlega að hvetja til raunverulegs friðar. 

Þorsteinn kemur svo lítillega inná þá gjá milli vesturs og austurs, sem til komin er vegna meints trúleysis Sóvétsins, en vesturfólk hefur í raun alltaf litið á Rússa sem heiðna, sama hvaða trú þeir aðhyllast.

“En það virðist einnig margt benda á, að yfirguðinn Jahvel – hinn mikli herdrottinn Gyðinga, sem bauð mönnum að hefna sín geipilega og það sjálfur rækilega, en upphóf og niðurlægði eftir því sem á honum lá – eigi ekki svo lítinn þátt í því, að draga úr eða jafnvel ónýta það dýrmætasta í fagnaðarboðskap Krists til mannanna, því óbilgirni sérgæðinganna í öllum löndum og á öllum öldum kristninnar, þótt og þykir handhægra til ávinninga að taka Föðurinn fram yfir Soninn sér til fyrirmyndar og eftirbreytni.” (159)

Þetta fer kanski að vera nóg í lítilli kynningu, en þá skulum við enda á því sem er þungamiðjan í þessu öllu.

“Ef hörmungar fyrra stríðsins og afleiðingar þess, ásamt harmleikum núverandi styrjaldar, opna ekki augun á valdstjórnum þessa heims, að þær sjái villu síns vegar og breyti stefnu sinni, hugarfari og hjartalagi, þá skapast og ríkir sama ástandið að þessum hildarleik loknum, og það sem staðið hefir við stjórnvölinn síðan 1918, en heimsfriðurinn er úr sögunni, áður en saga hans hefst. Þá byrjar strax aftur sama valdstreitan, sömu valdránin, sama verzlunarólagið, sama kreppan og sami undirbúningur nýrrar styrjaldar.” (161)

Hvað má læra af þessu? Þetta er einsog sænsk barnabók sem vinkona sagði mér frá fyrir alllöngu, bókin hét held ég “Ekki er allt sem sýnist”, eða eitthvað álíka, og var byggð upp þannig fyrst komu myndir af fallegum rökuðum björtum karli með aðra hönd fyrir aftan bak, og önnur af fúlskeggjuðum dökkum með hönd fyrir aftan bak og spurt var, hvor þeirra er góður og hvor þeirra vondur, hvorn skal varast?

Gísli Magnússon

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.