þriðjudagur, 3. apríl 2012

Kæra Kristín - 2. hluti

Kæra Kristín. 

Ég er alltaf í tómum vandræðum hérna. Allt sem mig langar að gera er bannað. Mig langar að gefa þér bók sem heitir Miss Lamp, eftir kanadískan rithöfund sem heitir Chris Ewart. Bókin fjallar um fröken Lamp, sem situr á hótelherberginu sínu og étur grillað brauð og tómatsúpu (eða bíður eftir grilluðu brauði og tómatsúpu). Og fleira. Tannlækni sem stelur tönnum. Bananabakkahárskonuna. Herbergisþjónustustrákinn. Og ég held það sé eitthvað undirliggjandi tráma þarna. Mér finnst ég finna það. Sögunni vindur ekki beinlínis fram, heldur blikkar hún, einsog stróbljós á diskóteki, nema bara í slómósjón. Meikar þetta einhvern sens? Ég gúgla bókinni og sé að einn gagnrýnandi hefur sagt að maður eigi að lesa hana upphátt. Maður beinlínis þurfi þess. Þeir kalla þetta vinjettur. Og ég ætla að gefa þér þessa bók, það er ekki það. En það er ekki alveg vandræðalaust.


Allavega. Einsog síðast þá fékk ég þessa bók sjálfur að gjöf (maður gæti haldið að ég keypti mér aldrei bækur). Og það er auðvitað glæpur að gefa gjafir. Og bókin er meira að segja árituð af höfundi og það er náttúrulega voðalegt. Ég hafði hugsað mér að skera kannski bara titilsíðuna úr og senda þér bókina síðan laskaða en það er ekki einsog það sé eitthvað siðferðislega réttlætanlegra. En svo bætist við að ég er ekki búinn að lesa hana sjálfur. Bara rétt svo hálfnaður. Ég veit ekki hvers konar glæpur það væri – að senda þér bók sem ég fékk að gjöf, áritaða af höfundi, áður en ég er einu sinni búinn að lesa hana sjálfur – en það er einhvern veginn ekki alveg inni í myndinni. Ég verð bara að kaupa fyrir þig nýtt eintak. Og fjölga þannig bókum í heiminum en fækka trjám. Ekkert er ókeypis. Það verður bara að hafa það. 

Bókin er auðvitað ekki til sölu hérna í norður Finnlandi – og fyrst að hún er ekki til hérna verð ég að panta ég hana af Amazon. Þetta er ekki ein af þessum skáldsögum sem hafa farið sigurför um heiminn, því nú verr og miður, þótt hún hafi ábyggilega gengið ágætlega einhvers staðar á heimaslóðum sínum. Hún kom út hjá litlu forlagi í Toronto, sem heitir Coach house books og gefur út fjarska fallegar bækur á fallegum pappír eftir hæfileikaríka og metnaðarfulla rithöfunda. Ég heimsótti einu sinni prentsmiðjuna þeirra og hitti þar gamlan hippa sem dró mig afsíðis til að sýna mér nýjustu blýmótin sín. Einhver hvíslaði því að mér að prentsmiðjan hefði á sínum tíma borgað sig með því að prenta sýru í bakherbergi – það var þeirra smjörlíki. Þetta er alltaf svona. Maurice Girodias gaf út Pauline Reage, Henry Miller, William Burroughs, Bataille, Nabokov og alla hina dónana – og fjármagnaði það með erótískum sjoppureyfurum. Í dag lifum  við öll á Yrsu og Arnaldi og sýnist sitt hverjum hvað er óhollast – sjoppuklámið, sýran, krimmarnir eða smjörlíkið. Ég reyni að taka ekki afstöðu sjálfur. Fólk er víst nógu pirrað fyrir að maður fari ekki að erta það með því að hafa afstöðu.



Og svo er þetta líka bara 40 ára gamalt slúður og kannski ekkert að marka það. En hippinn með blýmótin virkaði á mig sem æðislegur maður og húsið sem prentsmiðjan er í er ekkert slor heldur – eldgamall trékofi þar sem ég mátti ganga boginn í baki inn eftir öllu. Á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni eru antíkprentvélar (og nokkrar nýrri) en á efri eru ekkert nema nýjustu tölvugræjurnar – umbrot, ritstjórn, bókhald og kynning. Ég fór þangað í einhvern kokteil minnir mig, einhvers konar útgáfuhóf eða eitthvað, ég man ekki hvað var í gangi en það var mikið af fólki úti um allt og allir að drekka eitthvað glundur. Prentsmiðjan stendur líka alveg við bpNichol Lane, sem er nefnd eftir skáldinu góða.
En altso. Þessi bók. Hún er ekki flókin eða þung, hún er þvert á móti frekar létt og stutt, en einhvern veginn les maður hana samt hægt. Eða ég hef að minnsta kosti lesið hana mjög hægt. Tíu blaðsíður á dag, að hámarki. Kannski rífur þú hana í þig á hálftíma – það er ábyggilega ekkert verra. Mér finnst hún æðisleg, ég vona að þér finnist hún líka æðisleg. Ekki að þetta eigi að vera nein bókmenntarýni. Eða þannig. Þú veist.

Þú getur lesið smá útdrátt hérna, á meðan þú bíður, svona smakk:
http://www.chbooks.com/sites/default/files/1552451666_MissLamp_Book_excerpt.pdf

Kær kveðja,
Eiríkur

ps. Ég hef vel að merkja aldrei hitt höfundinn og þekki hann ekki neitt. Mig minnir að bókin hafi lent hjá mér í gegnum sameiginlegan kunningja – líklega ljóðskáldið Derek Beaulieu. Ég veit ekkert hvers vegna. Og það er langt síðan þótt ég sé fyrst að lesa bókina núna. 


Eiríkur Örn Norðdahl

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.