fimmtudagur, 26. apríl 2012

Fimmti fíllinn, fitufjallið og aðrar furður hins (allt annað en) flata heims Terry Pratchett


Hann á afmæli á laugardaginn, 28. apríl, hann Terry. Þá verður hann sextíu og fjögra og hver veit nema konan hans, hún Lyn, skutli á hann vínflösku af því tilefni. Hann er farinn að missa hárið, einsog gengur með sextíu og fjögra ára gamla menn, og minnið líka, jafnvel meira en gengur og gerist með menn á hans aldri. Terry er nefnilega með fágætt afbrigði af alzheimer. Kannski er það þessvegna sem honum liggur svona lifandis ósköp skelfing mikið á að skrifa bækurnar sínar, en kannski er það öfugt, kannski er kallinn kominn með minnisglöp afþví hann er búinn að skrifa frá sér allt vit, senda frá sér að meðaltali tvær bækur á ári síðustu þrjátíu árin, maðurinn er náttúrulega ekki í lagi (seinni tilgátan hlýtur að teljast líklegri, þar sem hann greindist ekki með alzheimer fyrren 2007 en hefur skrifað tvær bækur árlega frá 1983).  Hann er enn að skrifa, glöpin eru ekki meiri en svo, þótt hann segist ekki meika það lengur að skrifa annað en nafnið sitt þegar hann situr sveittur við áritanir, til dæmis á Discworld-ráðstefnunum sem haldnar eru hér og þar og allstaðar um okkar hnöttóttu veröld og hann lætur ósjaldan sjá sig á, aðdáendum sínum til mikillar gleði. Oftar en ekki með svartan, barðastóran hatt á silfurfáhærðu höfðinu. 

Wikipedia segir hann vera næstmestlesna höfund á Bretlandseyjum um þessar mundir en upplýsir ekki hver er mest lesinn. Letileg leit mín að hinu sanna í því máli leiddi mig hálfan útí móa, en ég held samt að það sé annaðhvort Catherine Cookson (ef dauðir rithöfundar teljast með, sem ég er ekki viss um) eða Jóhanna K Rowling. Hitt veit ég með vissu að Snuff, þrítugasta og níunda og nýjasta bókin hans úr Discworld-syrpunni, seldist hraðar fyrstu dagana eftir útgáfu en allar bækur aðrar utan tvær svo leiðinlegar að ég ætla ekki einusinni að segja ykkur hverjar þær eru. Snuff kom út í fyrrahaust og ég er svo heppinn að eiga hana ólesna, öfugt við margar aðrar bækur Terrys, þarámeðal þá sem ég ætlaði eiginlega að skrifa um hér afþví hún er sú skáldsaga sem ég las síðast og kannski best ég fari að koma mér að efninu sem er sumsé Fimmti fíllinn - The 5th elephant eftir Terry Pratchett. Þetta er eldgömul saga, kom út 1999 og ég held að eina ástæðan fyrir því að ég var ekki búinn að lesa hana fyrir löngu hljóti að vera sú að ég hafi alltaf haldið að ég væri búinn að lesa hana fyrir löngu. Og kannski er það raunin. 

Discworld-sögurnar gerast, einsog nafnið bendir til, í Diskheimi, flatri „jörð“ sem flengist um óravíðáttur ímyndunaraflsins, borin uppi af fjórum fílum, sem aftur standa á skildi hinnar stórkostlegu risaskjaldböku A‘Tuin, svosem alkunna er. Sagan – ein af milljóntrilljón sögum í sagnaarfi hinna ýmsu ættbálka, þjóða, tegunda og fyrirbæra af ólíklegasta tagi sem byggja Diskheim, í þessu tilfelli úr erfðaminni dverga – segir, að fílarnir á baki skjaldbökunnar miklu hafi upphaflega verið fimm, en einn þeirra misst fótanna, kastast útí geim og langt, langt uppí loft og þaðan niður á Diskinn með svakalegu hvissbangbúmmi og skelfilegum afleiðingum fyrir hann (og væntanlega alla nærstadda þegar það gerðist) en komandi kynslóðum dverga í hinu víðfeðma og sundurlausa stórveldi Uberwald til mikilla heilla, en alda- eða árþúsundagamlar leifar fimmta fílsins – og þá einkum og sérílagi fitan af honum – er ein helsta auðlind þeirra og útflutningsafurð. 

Fimmti fíllinn hefur nokkurnveginn allt til að bera sem prýða má eina Diskheimabók eftir Pratchett. Helsti gallinn, ef galla skyldi kalla, er sá að sögusviðið er ekki Ankh Morpork, helsta og mesta borgríki Diskheima, Sódóma þeirra og Gómorra, París, Róm og London, en það er bætt upp með því að senda nokkra vel valda fulltrúa frá því dásamlega sóðaplássi á krýningarhátíð hins nýja dvergakonungs í Uberwald, sem auk dverga geymir tröll, vampýrur, Ígora og, síðast en ekki síst, fjöldann allan af varúlfum. 

Aðalfulltrúinn, og sá opinberi, er Sam Vimes, en auk þess að vera lögreglustjórinn í Ankh Morpork vill svo vel til að hann bæði giftist og vann sig upp til greifatignar og er því – á pappírunum í það minnsta – fullgilt fyrirmenni við slíka athöfn, einkum þar sem greifynjan, sópraninn og drekaræktandinn konan hans, hún Sybil, er með í för. Aðrir í föruneytinu eru tveir lögregluþjónar (dvergurinn Cheery Littlebottom, kvenkyns dvergur sem gerir meira úr þeirri staðreynd en sómakærum (les: íhaldsömum) dvergum er almennt tamt eða þóknanlegt (þótt hún gangi nú ekki svo langt að raka af sér skeggið) og tröllið Detritus (sem gengur mun betur að hugsa í köldum fjallahéruðum Uberwald en í hitasvækjunni í Ankh Morpork)) og löggiltur leigumorðingi sem fattar (aðeins of seint) að það er hægt að banka báðumegin á hurð. 

Ástæða þess að æðsti ráðamaður Ankh-Morpork ákvað að senda Vimes (og leigumorðingja sem hans helsta hjálparkokk) frekar en einhvern annan er sú, að glæpur hefur (að öllum líkindum) verið framinn, sem gæti stefnt krýningunni, og þar með viðkvæmum friðinum milli dverga, trölla, vampýra og varúlfa Uberwalds í voða, sem aftur gæti haft verulega slæm áhrif í Ankh-Morpork: Ef engin er feitin, úr hverju skal þá steypa kertin og steikja kjötið? Slíkt er ávísun á upplausn og anarkí, byltingu og blóðsúthellingar og jafnvel eitthvað þaðanaf verra. 

Þriðja löggan sem átti að vera með í föruneyti greifans og lögreglustjórans Vimes er varúlfynjan Angua von Uberwald, en hennar fjölskylda á sitt óðal einmitt í Uberwald. Hún fannst hinsvegar ekki þegar til átti að taka, en það stafaði eingöngu af því að hún lagði af stað heimleiðis nokkru áður í leyfisleysi og banni, þar sem hún hafði ástæðu til að ætla að Wolfgang bróðir hennar væri lykilmaðurinn í djöfullegu plottinu sem ógnar friðinum í Uberwald. Og afþví að næstráðandi Vimes í Ankh-Morpork löggunni, hinn hávaxni dvergur (sem líffræðilega er reyndar maður og þaraðauki að öllum líkindum réttborinn konungur Ankh-Morpork) Carrot Ironfoundersson elskar varúlfynjuna Angua af öllu sínu konunglega hreina hjarta þá fylgir hann sinni heittelskuðu auðvitað eftir með dyggri aðstoð talandi hundsins Gaspode („I could have been a wolf, you know. With different parents, of course“ ). Ég ætla ekki að lýsa söguþræði þessarar bókar nánar, læt duga að segja ykkur að ég keypti hana á Keflavíkurflugvelli, kláraði hana í Köben tveimur dögum síðar, hló að minnsta kosti tuttuguogníusinnum upphátt og margfalt oftar inní mér og naut lestursins frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu. 

Ég saknaði reyndar Nobby Nobbs (sem er ekki maður, ekki dvergur, ekki tröll eða ígor eða vampýra, varúlfur, zombí eða gólem né nokkur skilgreinanleg vera önnur heldur líklega eina (þekkta) lifandi veran af sínu sérstaka Nobby-tagi) úr föruneyti Sams, en hann (eða það) kom þó við sögu heima í héraði þar sem hann stóð fyrir fyrsta verkfallinu í sögu lögreglunnar í Ankh Morpork, og þaraðauki er víst ekki hægt að fá allt. 

Fimmti fíllinn kemst samt eins nálægt því og hægt er að bjóða uppá allt sem hægt er að óska sér – ef maður hefur gaman af sagnaveröld Terry Pratchett. Ég, fyrir mitt leyti, get ekki ímyndað mér heim þar sem fólk hefur ekki gaman af þeirri veröld. Og ég sendi meistaranum mínar allra bestu afmæliskveðjur og vona að honum gangi vel að skipta um öryggið svo Lyn sjái nú eitthvað til þegar hún prjónar á hann peysuna. Eða er það öfugt, þarf Lyn að skipta um peysu svo Terry geti prjónað öryggið? Það kæmi svosem ekkert á óvart.

Ævar Örn Jósepsson



3 ummæli:

  1. Ég fer ekki upp í flugvél án þess að Pratchett sé með í för og það liggja iðullega 2-3 bækur í valnum yfir hvert sumar. Held sveimér að það sé kominn tími á Fimmta fílinn (enn og) aftur.

    SvaraEyða
  2. Tek undir árnaðaróskir til meistara Pratchett og takk fyrir þennan góða pistil.

    SvaraEyða
  3. Ég sé alltaf svolítið eftir að hafa ekki atast meira í Eymundsson að fá hann til landsins. En það er löngu of seint.
    mv. hillumetra í Eyma er hann örugglega einn mest, ef ekki mest, lesni enski höfundurinn hér.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.