mánudagur, 16. apríl 2012

Ástin, hið glaðværa búrókratí

Um Lofgjörð ástarinnar 
eftir Alain Badiou

Ögrun hins gamla

Franski heimspekingurinn Alain Badiou, f. 1937, hefur slegið svolítið í gegn innan íslenskrar heimspeki eins og víðar á síðustu árum. Badiou birtist í enskum þýðingum á gamals aldri, sem áskorun, ein af þeim áskorunum sem hugsun okkar stendur frammi fyrir, hugsun sem var orðin svolítið auðveld, sjálfvirk og tekin að ganga að ýmsu sem vísu sem fyrir þremur, fjórum áratugum síðan ögraði hinu viðtekna og trénaða. Höfundarverk Badious kallar fram áhuga og aðdáun úr nokkrum áttum í einu. Í fyrsta lagi kallast verk hans á við tilvistarspeki og fjalla um ábyrgð, nokkuð sem kynslóð íslenskra siðfræðinga hefur fengist við. Í öðru lagi beitir Badiou stærðfræðilegu táknrófi við framsetningu hugmynda sinn í viðameiri verkum, og gefur þannig til kynna strangleika sem heillar þá sem hafa fengist við rökfræði eða rökgreiningarheimspeki. Í þriðja lagi snýst hann gegn þeim samtímahöfundum sínum sem festu lítt rætur innan íslenskrar heimspeki en aðrir voru uppnefndir póstmódernistar fyrir að lesa, og talar purkunnarlaust um sannleika og hugverur. Þeir sem hafa horn í síðu póstmódernisma eða meginlandsheimspeki geta að vissu marki litið á Badiou sem bandamann. Í fjórða lagi ber hann hins vegar djúpa virðingu fyrir þeim hugsuðum sem voru kenndir við póstmódernisma, og lítur svo á að Lacan, Foucault og Deleuze, meðal annarra, hafi borið fram hörðustu áskoranir sem heimspekin hafi staðið frammi fyrir á 20. öld, áskoranir sem verði að taka alvarlega. Hann kallar þá and-heimspekinga, og setur þá þar með í sama flokk og Wittgenstein og Nietzsche, sem er vísbending um breidd flokkunarinnar. And-heimspekingur er ekki uppnefni í meðförum Badious, ekki niðrandi, heldur er heimspeki eitthvað sem vindur aðeins fram í glímu við verðuga andstæðinga hennar frá því Sókrates reifst við Gorgías. Engin hrein heimspeki er til, hún sprettur alltaf af stefnumóti við eitthvað annað en sjálfa sig. Enginn geti kallað sig samtímaheimspeking, nú, sem ekki hafi glímt við Lacan. Þannig felst endurheimt hugtaka á við hugveru eða sannleika sem grundvallarhugtaka ekki í blindu á að eitthvað hafi komið fyrir þau, heldur ætlar Badiou sér endurnýjun þeirra. Í fimmta lagi er Badiou pólitískur heimspekingur og andsnúinn kapítalískri heimsskipan. Hann var þátttakandi í viðburðunum í París 1968 og höfundarverk hans síðan mótast af tryggð við þann atburð, svo notast sé við hans eigið orðfæri. Hugtakið sannleikur grundvallast í hans meðförum á slíkum atburðum – sannleikur verður til þegar atburði, til dæmis pólitískum atburði, er fylgt eftir af tryggð. Þegar efasemdir um kapítalisma hljóta nýjan hljómgrunn eftir öll heimsins bankahrun felur höfundarverk Badious í sér nokkra forvinnu fyrir aðra að byggja á. Með öðrum orðum finnur viljinn til róttækni efnivið í Badiou. Í sjötta lagi skrifar Badiou ekki aðeins tyrfna kílóadoðranta með ströngum heimspekilegum stærðfræðiformúlum, heldur hefur hann látið frá sér otal smærri rit og verið ötull þatttakandi í opinberri umræðu, asamt þeim leikritum og skáldverkum sem hann hefur látið frá sér. Rit hans Hvað þýðir Sarkozy? sem kom út eftir forsetakosningarnar 2008 varð óvænt metsölubók í Frakklandi. Í sjöunda lagi er Badiou ekki bara and-kapítalisti – hver er það ekki um þessar mundir – heldur segist hann kommúnisti og kommúnískur heimspekingur. Umfjöllunarefni bókarinnar Hvað þýðir Sarkozy? er ekki Sarkozy sem persóna, heldur kjör hans sem tímapunktur í framvindu hugmyndarinnar um kommúnisma, sem Badiou nefnir svo. Þennan tímapunkt notar Badiou í bókinni til að staðsetja samtíma okkar gagnvart hugmyndinni um jöfnuð og frelsi.

Badiou hugsar um kommúnisma en er ekki endilega marxisti. Einhvern tíma var hann maóisti, um svipað leyti og Íslendingar sem síðar urðu jarðfræðingar, geðlæknar og utanríkisráðherrar. Í seinni tíma höfundarverki sínu vísar Badiou ekki til Marx sem höfuðheimildar eða upphafsreits, en þó sem mikilvægs kennileitis, hugsanlega hins afdrifaríkasta, í framvindu hugmyndarinnar um kommúnisma, sem hann segir aldagamla. Þessi hugmynd er einföld, segir hann, hana má til dæmis orða svona: við erum öll hér. Að horfast í augu við þá staðreynd felur í sér róttækar afleiðingar, segir hann. Þegar við horfumst í augu við að við erum öll hér svara sumar spurningar sér sjálfar – til dæmis hvort „ólöglegir innflytjendur“ eigi að njóta mannréttinda. Já. Því þeir eru hér.

Badiou er veraldlegur höfundur og yfirlýstur guðleysingi. Kommúnismi hans er hins vegar ekki óskyldur kristni, og það hugtakakerfi sem heimspeki hans grundvallast á væri líklega kunnuglegt sumu trúfólki, með örlítilli umorðun. Pólitísk tilvistarspeki Badious byggir sem fyrr segir á því að manneskjur geti orðið fyrir atburðum í lífi sínu – ekki aðeins atvikum eða uppákomum heldur Atburðum, sem verðskuldi stóran bókstaf í frjálslyndum tungumálum. Atburður verður hins vegar ekki atburður fyrr en honum er tekið sem slíkum, með því að manneskjan sýnir honum tryggð og lifir lífi sínu eftir atburðinn við úrvinnslu á þýðingu hans. Þannig verður atburðurinn að upphafsreit sannleika. Með því að taka þennan sannleika upp á arma sína stofnar manneskjan til sjálfrar sín sem hugveru – sem á öðrum tungumálum heitir súbékt. Maður verður ekki súbékt fyrr en maður verður subject to truth – Sujet-de-la-Vérité – og hér leikur Badiou á tvíræðni hugtaksins súbékt sem þýðir ekki aðeins hugvera í heimspekilegum skilningi heldur líka þegn: með því að sinna þegnskyldu sinni við sannleika verður maður hugvera.

Þessi uppsetning er náskyld þeirri formgerð trúar sem kennir að með guðsótta og dygð geti maðurinn orðið hólpinn fyrir tilstilli náðar. En Badiou ferjar þessa formgerð trúarinnar inn á veraldleg svið. Trúarbrögð eru ekki á meðal þeirra sviða sem Badiou telur fær um að bera sannleika í þessum skilningi, en þau svið eru samkvæmt honum fjögur: Stofnatburðir sannleika geta átt sér stað innan stjórnmála, með byltingu, vísinda, með uppgötvun, innan ástar, með því að verða ástfangin, og innan lista með tilkomu hins nýja.

Af veraldlegum og guðlausum samtímaheimspekingi að vera er Badiou óvenju óforskammaður ídealisti, raunar yfirlýstur Platónisti. Hann viðrar ítrekað þá hugmynd að það þyrfti að gera kvikmynd um Platón þar sem Brad Pitt færi helst með aðalhlutverkið. Hann tekur því heldur ekki með þjósti að vera sagður standa nærri formgerðum trúarbragða, heldur hefur ritað bók um Pál postula, sem hann útnefnir sögulegan upphafsmann úniversalisma eða algildishyggju, fyrirmynd til skilnings á þýðingu þess að bera atburð og lifa í nafni sannleika.


Lofgjörð ástarinnar

Árið 2009 kom út á frönsku smáritið Eloge de l'amour eða Lofgjörđ til ástarinnar, nefnt í höfuðið á samnefndri kvikmynd eftir Jean-Luc Godard. Frammi fyrir ögrun platónsks maóista í upphafi 21. aldar er skírskotun til Godards viðeigandi, sem allan sinn feril hefur haldið til streitu þeirri hugmynd að klassíkismi og módernismi séu ekki aðskilin fyrirbæri heldur óhjákvæmilega samferða, eða að öðrum kosti marklaus. Bókin er ekki skrifuð af Alain Badiou heldur töluð, það er hún byggist á viðtali sem tekið var við hann á sviði, til að spyrja hann nánar út í staðhæfingar sem hann hafði látið frá sér að um þessar mundir þurfi að standa vörð um ástina, hún eigi undir högg að sækja. Spyrillinn, Nicolas Truong, byrjar á að spyrja: hvaðan? Hvað ógnar ástinni?

Pólitískir samherjar Badious innan 68 kynslóðarinnar hafa, allt frá vorinu mikla, fengist mikið við langanir, þrár, flæði, losta og markareynslu, sem heimspekileg viðfangsefni. Það er ekki aðeins í glanstímaritum, auglýsingum, klámi eða spjallþáttum í sjónvarpi sem líkamsnautnir hafa orðið ríkjandi og hugtakið ást er ýmist endurskilgreint eða því vikið frá, heldur hefur það ekki átt sér vísan stað innan veraldlegrar meginlandsheimspeki síðustu áratuga. Ekki frekar en sannleikur eða önnur grundvallarhugtök heimspekisögunnar fram að því. Til hliðar við heimspeki verðandinnar og umfjöllun hennar um flæði og samruna líkama, langanir og nautnir, hefur svokölluð ást verið viðfangsefni félagsvísinda og heimspeki félagsvísinda, sem hefur reynst auðvelt að benda á undirstöður gagnkvæmrar aðlögunar í stétt, stöðu og hagsmunum, ásamt þeirri femínísku innsýn að upphafning svonefndrar ástar hafi oft aðeins falið í sér fegrun á vilja karls til kúgunar á konu. Þróunarlíffræði gerir á sama tíma tilkall til að skýra aðlögun og mökun á forsendum erfða. Á minnst fjóra mikilvæga vegu hefur þannig verið stofnað til kaldranalegrar sýnar á fyrirbærið ást.


Áróður um ást án áhættu

Badiou byrjar á að svara spurningunni um hvað ógni ástinni, út frá hversdagslegri upplifun:

„París var þakin veggspjöldum frá [stefnumótaþjónustunni] Meetic með auglýsingatexta sem kom djúpt við kauninn á mér. Ég get vitnað í nokkur slagorð þessarar auglýsingaherferðar. Það fyrsta segir – með útúrsnúningi á tilvitnun í leikverk – „Finndu áhættulausa ást!“. Og síðan er annað: „Maður getur orðið ástfanginn án þess að missa sig!“ Semsagt engin hætta á falli eða hvað? Og síðan er líka: „Fullkomin ást – án þess að þjást!“ Og allt þetta þökk sé stefnumótavefnum Meetic … sem býður þér að auki – orðalagið finnst mér stórmerkilegt – „ástarþjálfun“. Þú færð semsagt þjálfara sem getur búið þig undir þolraunina. Ég tel þennan auglýsingaároður upphefja hugmynd um örugga „ást“. Það er ást tryggð gegn allri áhættu: þú öðlast ást, en þú hefur þá líka reiknað sambandið út, þú hefur valið félaga þinn vel, fyrirfram, með því að gutla á internetið – þú hefur myndina af viðkomandi, smekk manneskjunnar í smáatriðum, fæðingardag, stjörnumerki o.s.frv. – þannig að þú getir sagt, eftir ítarlega skoðun: „Með þessum mun það ganga áhættulaust!“ Og þetta, þetta er áróður …“

Svona hljóðar upphaf fyrsta kafla bókarinnar, lýsing á tilefni samræðunnar. Þessi fyrsti kafli heitir Ást í hættu. Aðrir kaflar hinnar stuttu bókar birtast í þessari röð: Heimspekingarnir og ástin, Bygging ástarinnar, Sannleikur ástarinnar, Ást og stjórnmál, Ást og list og loks Lokaorð.


Hvorki rökhyggja né rómantík

Við, kynslóðirnar sem þekkja Sögu augans betur en Tristan og Ísold, við mætum hér einhverju nýju. Og þó þetta nýja virðist ef til vill í fyrstu gamalt, leggur Badiou alla áherslu á að fjarlægja sig frá „rómantísku hugmyndinni um ást“ – þeirri hugmynd að elskendur „verði eitt“.

Sjáðu til, segir Badiou, heimspekin „er í spennuástandi gagnvart viðfangsefninu. Annars vegar leggur heimspekin til þá rökvísi sem gerir lítið úr ástinni, hún sé aðeins náttúrulegt afsprengi kynlífs. Hins vegar eru síðan haldnar varnarræður fyrir ástina sem fela oft í sér eitthvað sem jaðrar við trúarlega upphafningu.“ Trúarlega upphafningin felist iðulega í hugmynd um samruna – að verða eitt. Áskorun ástarinnar, segir hann, er einmitt ekki að verða eitt, ekki samruni sálna, heldur að vera tvö, tveir eða tvær, vera tvennt, en saman. Um rómantísku hugmyndina um ást, eins og hún birtist til dæmis í Tristan og Ísold Wagners, segir Badiou: „Hún býr yfir óviðjafnanlegri listrænni fegurð en ber um leið með sér, að mínu mati, alvarlegt tilvistartjón. Ég tel að hana beri að halda í sem kraftmikla listræna goðsögn, en ekki fyrir réttnefnda heimspeki ástarinnar. Því að ástin á sér stað, þegar allt kemur til alls, innan heimsins. Vissulega er hún atburður sem var ekki hægt að sjá fyrir eða reikna út samkvæmt lögmálum heimsins. Það er ekkert sem gerir okkur kleift að skipuleggja hittinginn – ekki einu sinni Meetic, eins þó að maður eigi þar langt chat á undan! – þegar upp er staðið er óhrekjandi að fólk hittist á þeirri stundu sem það hittist! En ástin verður ekki smættuð niður í hittinginn, því ástin er smíð. Ráðgáta hugsunar um ástina felst í spurningunni um þá endingu sem maður stofnar til. Áhugaverðasta spurningin snýst ekki um alsælu upphafsreitsins. Vissulega er hún til, þessi alsæla upphafsins, en ást er öllu öðru fremur smíð sem er ætlað að endast.“

Veraldlegi platónistinn Badiou gerir þannig heimtingu á að standa með fæturna á jörðinni en hausinn ívið hærra á meðan hann hugsar: ástin er hvorki ímyndaður viðauki við kynlíf eins og fréttir dagblaða af nýjustu rannsóknum þróunarlíffræðinga keppast við að telja okkur trú um, né er hún hið upphafna augnablik kvikmyndanna þegar tvær manneskjur mætast – þó að hún hafi snertiflöt við hvort tveggja. Hún er eitthvað meira í ætt við stofnun, skuldbinding sem getur meðal annars – ekki eingöngu en meðal annars – birst í hjónabandi.


Er kynlíf til eða ekki?

Í kaflanum um ást og heimspekinga er Badiou spurður um hina alræmdu en óræðu fullyrðingu sálgreinandans Jacques Lacan að það sé ekki til neitt kynlíf: hvað átti hann við? Badiou svarar:

„Þetta er mjög áhugaverð tilgáta, sem leiðir af efahyggju og siðvendni en kemst að öndverðri niðurstöðu. Jacques Lacan flytur okkur þær fréttir að í kynferði sé raunverulega hver og einn að miklu leyti að fást við sitt eigið viðfangsefni, ef ég get sagt sem svo. Þar er líkami hins miðill sem veitt er athygli, en þegar allt kemur til alls er unaðurinn alltaf þinn unaður. Hið kynferðislega sameinar ekki heldur aðskilur. Að þú ert nakin(n), í fangi hins, það er mynd, birtingarmynd á sviði ímyndunaraflsins. Raunin er sú að unaðurinn færir þig langt, mjög langt, fra hinum. Raunin er sjálfhverf, tengingin er ímynduð. Þannig er ekki til neitt kynlíf, er niðurstaða Lacans. Þessi framsetning var hneyksli, þar sem þetta var á tímabili þegar allir voru einmitt að tala um „kynlíf“. Ef ekki er neitt kynlíf í kynferðinu, þá er ástin það sem fyllir upp í þessa vöntun. Lacan segir alls ekki að ástin sé dulargervi kynlífsins, hann segir að það sé ekki neitt kynlíf, að ástin sé það sem kemur í stað kynlífsleysisins. Það er langtum áhugaverðara. Þessi hugmynd fær hann til að segja að í ástinni reyni hugveran að ganga inn í „veru hins“. Það er í ástinni sem hugveran fer út fyrir sjálfa sig, út fyrir sjálfhverfuna. Í kynlífi ertu þegar öllu er á botninn hvolft að makast við sjálfa(n) þig gegnum hinn. Hinn þjónar þér við að uppgötva raun unaðarins. Í ást, aftur á móti, miðlar hinn sjálfum sér. Það er það sem ástarfundur felur í sér: þú leggur niður vopn þín gegn hinum til að leyfa honum að vera til með þér, eins og hann er. Þetta er miklu dýpri hugmynd en sú óáhugaverða túlkun sem hermir að ástin sé ekkert nema yfirvarp, málverk af raun kynlífsins.“

Hér gerist Badiou búktalari og lætur Lacan tala fyrir sig – bætir „en …“ aftan við hina knöppu, dularfullu staðhæfingu Lacans þannig að hún verður líka að hugsanlegri lofgjörð til ástarinnar. Kynlífið er ekki til en ástin er það. Hér er reyndar djarflega þýtt: „le rapport sexuel“ þýðir ef til vill frekar kynmök en kynlíf – hin kynferðislega athöfn eða kynferðislega samvera. Ríðingin mætti jafnvel segja. Engin ríðing er til. En ástin er það, bætir Badiou við.


Tilviljunin, upphafsreiturinn

Í kaflanum um sannleika ástarinnar spyr Truong: hvers vegna leggurðu áherslu á yfirlýsinguna, hvers vegna er mikilvægt að lýsa yfir ást sinni?

Badiou svarar: „Vegna þess að yfirlýsingin er innritun í formgerð atburðarins. Í upphafi hefurðu hitting. Ég sagði að ástin hefjist með hinum algerlega tilfallandi og tilviljanakennda hittingi. Þar liggja leikir ástarinnar og tilviljunarinnar. Þeir eru óafturkallanlegir. Þeir fyrirfinnast alls staðar, jafnvel í áróðurspyttunum sem ég talaði um. En á gefinni stundu þarf að staðfesta tilviljunina. Það þarf að hefja tímabil, nánar til tekið. Það er mjög flókinn, allt að því frumspekilegur, vandi: hvernig verður það sem hefst sem hending að burðarás sannleiksbyggingar? Hvernig verður þetta sem að stofni til var ekki fyrirsjáanlegt og virðist einn af óvæntum duttlungum tilverunnar, að allri merkingu tveggja lífa sem flækjast saman, parast, og munu halda upplifun sinni áfram með stöðugri (endur)fæðingu heimsins í mismun sjónarhóla sinna? Hvernig fer maður frá hreinum hittingi að þverstæðu einnar veraldar þar sem við erum tvö? Það er allt saman frekar dularfullt, til að segja eins og er. Og það kallar á efasemdir frammi fyrir ástinni. Hvers vegna, er spurt, ætti maður að tala um stóran sannleik frammi fyrir tilkomulítilli staðreynd á við þá að einhver rekist á kollega sinn á vinnustað? En það er nákvæmlega þetta sem okkur ber að halda í: atburður sem virðist þýðingarlitill en er í reynd róttækur atburður hinnar smásæju tilveru, öðlast í þrjósku sinni og endingu algilda þýðingu. Hins vegar er satt að „hendinguna þarf að binda“. Þetta er orðalag frá Mallarmé: „Loks er hendingin bundin …“ Hann segir það ekki frammi fyrir ástinni heldur frammi fyrir ljóðinu. En það er vel hægt að heimfæra þessi orð upp á ástina og ástarjátninguna, ásamt þeim hrikalegu erfiðleikum og þeirri fjölskrúðugu angist sem henni fylgja. Enn fremur eru líkindin á milli ljóðsins og ástarjátningarinnar vel þekkt. Í báðum tilfellum er gríðarleg hætta fyrir hendi á að maður taki á sig byrðar tungumálsins. Maður býr sig undir að bera fram orð sem geta, um leið og þau ganga inn í tilveruna, haft nær óendanlegar afleiðingar. Það er líka löngun ljóðsins. Einföldustu orð verða hlaðin nánast óbærilegu magni. Ástarjátning felur í sér tilfærsluna frá atburði-hittingi að upphafsreit sannleikssmíðar. Hún bindur hendingu hittingsins í form upphafs. Og oft endist það sem hefst þar svo lengi, er svo hlaðið nýjung og heimsreynslu, að eftir á að hyggja virðist það alls ekki lengur tilfallandi og tilviljanakennt, eins og til að byrja með, heldur nánast nauðsynlegt. Þannig er hendingin bundin: hin algjöra tilviljun þess að hitta einhvern sem ég þekkti ekki birtist mér að lokum sem örlög. Ástarjátningin er tilfærslan frá hendingu að örlögum og það er þess vegna sem hún er svo hættuleg, svo hlaðin nokkurs konar sviðsskrekk. Ástarjátningin á sér ekki nauðsynlega stað einu sinni, heldur getur hún verið löng, sundurlaus, ruglingsleg, flókin, sögð og endursögð, og bundin því að vera mælt fram enn og aftur. Hún er augnablikið þar sem hendingin er bundin. Þar sem maður segir: það sem gerðist, þessi hittingur, þættir þessa hittings, ég ætla að lýsa þeim yfir við hinn. Ég ætla að lýsa því yfir við hann að það sem gerðist er, að minnsta kosti fyrir mig, eitthvað sem skuldbindur mig. Sjáðu: ég elska þig. Ef „ég elska þig“ er ekki klækjabragð til að sofa hjá einhverjum, hvað er það þá sem getur gerst? Hvað er sagt í þessum orðum? Það er alls ekki einfalt að segja „ég elska þig“. Maður er vanur að líta á þessa litlu setningu sem algjörlega útjaskaða og ómarkverða. Og stundum velur fólk önnur orð til að segja „ég elska þig“, ljóðrænni orð eða minna notuð. En það er alltaf til að segja: þetta sem var hending, ég ætla að draga eitthvað annað upp úr því. Ég ætla að draga tímabil upp úr því, þrjósku, skuldbindingu, tryggð. Tryggð er orð sem ég nota hér í þeirri sérmerkingu sem ég gef því heimspekilega, með því að slíta það úr sínu venjulega samhengi. Það merkir einmitt tilfærsluna frá tilviljanakenndum hittingi að smíð sem er jafn gegnheil og hún mun hafa verið nauðsynleg.“

Í þesari útlistun liggur ástin samsíða byltingunni í pólitískri hugsun Badious. Hvorki hrunið né atburðarásin sem við köllum búsaháldabyltingu hefur merkingu ein sér, né vorið í Arabalöndum, né hugsanlegar umhverfiskatastrófur, heldur hvort og hvernig þeim atburðum er fylgt eftir með þeirri vinnu sem felst í að stofna til nýrra forsenda innan samfélags og halda þeim lifandi. Ástin er skuldbinding eins og byltingin er búrókratí. Undir lok bókar dregur Badiou þessa hliðstæðu fram berum orðum.


Lágmarkskommúnismi

Í hlutanum um list og ást spyr Truong Badiou um leikhúsið, sem Badiou hefur verið viðriðinn frá því hann var ungur. Felur ekki leikhúsið í sér einhvers konar ást og á hún ekki eitthvað skylt við bræðralag? spyr Truong.

„Jú, vissulega er þessi ást þarna!“ hefur Badiou svar sitt. „Leikhúsið er kollektíf, fagurfræðileg útlegging bræðralags. Þess vegna hef ég haldið því fram að það sé eitthvað kommúnískt við allt leikhús, í þessum skilningi. Með „kommúnískt“ á ég við sérhverja tilkomu sem gefur tilvist í samfélagi forgang yfir sjálfhverfu, og hinu kollektífa verki yfir eiginhagsmuni. Og það má stinga því að, að ástin er líka kommúnísk í þessum skilningi, ef maður telur, eins og ég, að hið raunverulega súbékt ástarinnar sé tilkoma parsins en ekki fullnægja einstaklinganna sem mynda það. Hér er aftur hugsanleg skilgreining á ástinni: lágmarkskommúnismi!“

Þessi útlistun á ástinni stendur ekki stök í heimspekibókmenntum samtímans, heldur má finna henni samhljóm í hugleiðingum Michales Hardt, Ninu Power, Davids Graeber, og fleiri þeirra höfunda sem skrifa og tala um þessar mundir undir formerkjum einhvers konar róttækni, einhvers konar anarkó-kommúnisma. Ástin sem sá lágmarkskommúnismi sem kemur til sögunnar þegar tvær manneskjur fylgja eftir þeim atburði að „verða ástfanginn“ með yfirlýsingu og síðan gagnkvæmri skuldbindingu um að deila kjörum og merkingu. Hún er „happily ever after“ en samt ekki, í það minnsta ekki í einfeldningslegri merkingu, því hún er áhættusöm, krefst vinnu, inniheldur þrætur, reiði og kreppur. En hún felur í sér möguleikann á að veita lífi, að öllu þessu meðtöldu, merkingu. Í höfundarverki Badious er hún þannig, ásamt vísindum, byltingarstjórnmálum og listum, eitt af fjórum sviðum sem getur staðið undir huglægri „þegnskyldu“.

Bók Badious, sem er nýkomin út í enskri þýðingu sem „In the Praise of Love“, er tilvalin gjafavara fyrir alla brosmilda kommúnista þetta vor. Af nýju heimspekiriti að vera á hún óvanalegt erindi við blómabúðir.

 Haukur Már Helgason

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.