miðvikudagur, 4. apríl 2012

„Tvær djöfulsins dúfur, eins digrar og beljujúgur“

Dýra- og plöntufræði Þórðar Magnússonar

Þórður Magnússon (1896-1965) yrkir mest um árstíðirnar og hið dulda líf smádýra og -plantna í ljóðabókinni Kóð sem út kom að honum látnum árið 1994. Í upphafskvæðinu eru hlý vorbrosin farin að skína á „hláku-berað“ skart náttúrunnar, „skófir, lyng og mosa“. Í þeim næstu er brugðið upp myndum af rabarbaranum sem bráðlangar „að brjótast úr / brúnsvörtu hnúskunum“, maðkaflugunni fyrstu sem danglar í rúðuna eins „lítill hnúi“, þrestinum sem syngur alla nóttina, „upprifinn, andlangur“, og loks börnunum sem eru komin úr hýði sínu á sumardeginum fyrsta:





  
     Um gluggann og herbergishúmið milt,
     heillandi björt eins og vínið gyllt,
     varpaði kvöldsólin vesturfrá
     að veggnum á móti mér glóandi fláka;
     uppeftir honum skaust á ská
     skugginn af bolta hrópandi stráka!

Vorið er óróatími, samkvæmt Þórði, og það gerir vart við sig með sínum sérstaka hætti innan smábæjarins Reykjavíkur, þar sem hann bjó og starfaði drýgstan hluta ævinnar, fyrst sem verkamaður en síðar skrifstofumaður á bæjarskrifstofunum.[i] Hann líkir blautri malbikaðri götu við filmu í baði og fálátu fólkinu sem hann mætir á skötugráum gangstéttum við lukta kræklinga. Þegar hann heldur ofan í fjöru les hann steina, hrúður og „margeygða möl“, eins og um blóm væri að ræða; dýralífið minnir hann aftur á móti á umferðina á götunum. „Með    marfló í kjaftinum brunar sem bíll, bjölluskratti.“

Um miðbik bókarinnar haustar, eins og vera ber, en þó aðeins með hálfum huga. Á sólríkum septemberdegi hlassar „meinhæg maðkfluga“ sér á múrvegginn:

Og vært henni verður að finna
hvað veggurinn orðinn er hlýr,
um límda vængi losar
og löppunum saman nýr.

Það kular auðvitað og dimmir enn frekar í október en haugarfinn heldur samt áfram að opna sín „eilitlu blómstur ... uns frostnætur sverfa til stáls“. Einn morguninn þegar Þórður vaknar er loks öllu „íþyngt af bölvuðum snjónum“, sóleyjum, túnfíflablökum og blaðríkum birkihríslum. Veturinn á þó áfram sínar jákvæðu hliðar. Snjótittlingarnir raða sér „með snælduhraða“ á mæni húsanna og það „grillir í gráa kviði“ í háreistum reyni:

Eins og tréð á ótal greinum aldin beri,
það er hlaðið þrastageri.

Milli greina morgunsæll og mjúkur kliður
meðan snjórinn mjaðast niður.

Þórður er ekki seinn á sér að dreifa fuglafóðri um pallinn og bjóða þessum smávöxnu stórsöngvurum til veislu. En þá vindur að óboðnum gestum sem flæma þrestina og snjótitlingana í burtu og éta allt sjálfir: „Það eru tvær djöfulsins dúfur, eins digrar og beljujúgur“.
                                                           
Í síðasta hluta bókarinnar fylgjum við Þórði gegnum jól og áramót. Í skammdeginu dvelur hann á Sankti Jósefsspítala og Vífilstaðahæli, þar sem gangarnir ýlfra og gluggarnir púa. Hann lýsir sjálfum sér sem hálfgröfnum drumbi „í deigum sandi“ og leyfir sér að efast um að Borssynir hafi áhuga á að „hrífa og lífga“ hann við. En undrið gerist samt enn á ný; það hlánar og vorar, „rautt og grænt er í glasi / á gluggakistu blóm“. Að þessu sinni er fögnuður Þórðar þó harmi blandinn. Hann spyr í næst síðasta ljóðinu: „kemur manni við, / þó verði hafið blátt, / sem vorið aldrei meir / í blóði sínu finnur?“ Og í því síðasta, sonnettunni „Við samviskan“, á hann afdrifaríkt eintal við sjálfan sig:

Hvað verður um mig eftir mína daga?
Ég af því merki þegar snert af beyg;
ég finn að hvert eitt sinn er sunna hneig,
mín samviska mig hefði átt að jaga.

Ég hafði‘ af henni aldrei nokkurn aga
og alltaf leið hún hjá í breiðum sveig;
nú reynir hún að vekja veikan geig
og verða‘ að liði heimskingjanum raga.

Til hvers, til hvers er gamlan garm að laga,
mín góða innri rödd, svo syfjuleg?
Til hvers að vera‘ að hirða visin rök?

Og hver er máttur þinn og hvað gat ég
og hvoru mátulegt að bíti sök?
Til hvers er sig í handarbök að naga?


 Jón Karl Helgason


[i] Sjá nánar: Þórður Magnússon. „Skaflakyndug hæðarbungan.“ Lesbók Morgunblaðsins 15. október 1994, s. 7 ( http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3310801).

8 ummæli:

  1. Ég verð að viðurkenna að ljóðin snertu ekki við mér... fyrr en það seinasta. Það er eitthvað í því. Rímnamynstrið er óvænt og flott: abba abba acd cda.

    Þetta er mjög gott dæmi hvernig það að fikta í ströngu formi getur dýpkað ljóð á óvæntan hátt. Merkingin fór að gliðna, varð að púsluspili fljótandi á hafsfletinum.

    Með því að vekja athygli mína á forminu þá fór ég að pæla í ljóðinu á annan hátt. Þegar ég byrjaði að lesa kvæðið þá skildi ég það sem sjálfsádeilu, ljóðmælandi að tala við sjálfan sig í einrúmi, en þegar ég fattaði að þetta var sonneta þá allt í einu birtist dulin persóna, einhver innbyggður áheyrandi sem hlustar á orð ljóðmælandans, eitthvert ástarviðfang. Sonnetur eru jú ástarljóð.

    Hver þessi hin persóna er veit ég ekki, en ýmsir möguleikar koma upp í hugann, t.d. að þetta sé lífsförunautur, eða manneskjan sem ljóðmælandaninn óski að hafi verið lífsförunautur, eða jafnvel einhvers konar annað sjálf ljóðmælandans. Í fyrstu skildi ég þetta sem dálítið flatt ljóð, tjáning á einni hugsun og tilfinningu, en það er eitthvað meira í þessu, tregafull ást og djúp angist, sem er þarna undir niðri. Þetta er ljóð riðlaðra tilfinninga.

    Allavega, þetta ljóð kom mér á óvart. Virkilega flott. Þórður Magnússon var skáld sem alveg hafði farið framhjá mér, en þykir vænt um að hafa kynnst.

    SvaraEyða
    Svör
    1. Þakka þér fyrir þessar hugleiðingar Kári. Það gæti verið að fleiri ljóð Þórðar kveiktu á perum, ef þú læsir þau í heild, en ekki bara þessi smásýnishorn sem ég birti.
      jkh

      Eyða
  2. Aldrei heyrt um Þórð þennan fyrr, takk fyrir þetta.
    æ

    SvaraEyða
  3. Helgi Ingólfsson9. apríl 2012 kl. 05:26

    Þetta er ansi magnaður kveðskapur og merkilegt að fyrir Þórði þessum Magnússyni skuli hafa svo lítið farið. Og þó ... máske ekki. Það er ákveðin áreynslulaus hógværð í þeim dæmum sem nefnd eru. Myndmálið í náttúrustemningunum er mergjað; héðan í frá mun ég líklega ávallt sjá fiskiflugu í glugga sem "lítinn hnúa" bankandi í rúðuna.

    Kærar þakkir fyrir þessa kynningu,

    Helgi Ing

    SvaraEyða
    Svör
    1. Ástæðan þess að Þórður fór með löndum er sá að hann orti fyrir skúffuna. Eina opinbera kynning á ljóðum hans var ljóðakvöld í Þjóðleikhúskjallara, 1994, sem Gylfi Gíslason stóð fyrir. Ég vann upp úr upptökum á því efni fyrir Rás 1. Sjálf ljóðabókaútgáfan var afar hógvær, ég efast um að hún hafi ratað í bókabúðir, hvað þá til dagblaða. Eintök eru hér: Amtsbókasafnið Akureyri, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Bókasafnið Ísafirði og loks 3 eintök í Þjóðarbókhlöðu. Svo á ég eintak, sem Gylfi heitinn gaf mér.

      Eyða
  4. Helgi Ingólfsson9. apríl 2012 kl. 06:30

    Afsakið, en ég dregst aftur og aftur að þessari færslu og listfengi ljóða Þórðar. Eitt fegursta dæmið þykir mér:

    "Eins og tréð á ótal greinum aldin beri,
    það er hlaðið þrastageri.

    Milli greina morgunsæll og mjúkur kliður
    meðan snjórinn mjaðast niður."

    Hér er myndmálið í fyrra vísuorði eftirminnilegt (þrestirnir eins og ótal aldin á reynigreinum), tónlist í orðanna hljóðan, innrím, allt sem prýða má fagurt ljóð. Sérlega hrífst ég þó af seinni hlutanum, þar sem "mjúkur kliður" er margskapaður með ð-hljóði, mýksta hljóði í íslenskunni (kliður, meðan, mjaðast, niður). Hin sjaldgæfa sögn, "að mjaðast", finnur sér hérna fullkominn stað í tungunni.

    Takk aftur.

    Helgi Ing

    SvaraEyða
  5. Ég hitti þann mæta mann Valdimar Tómasson fyrir helgi. Þessi bók er fáanleg, hann á lager. Þeir sem vilja eignast hana geta farið á fornbókasöluna við hliðina á Gráa kettinum á Hverfisgötu þar sem er opið eftir klukkan þrjú og hitt á Valdimar. Kveðja, Hermann

    SvaraEyða
  6. Helgi Ingólfsson26. apríl 2012 kl. 12:37

    Ég tók mig til og heimsótti heiðursmanninn Valdimar Tómasson (í fornbókasöluna við hliðina á Gráa kettinum á Hverfisgötu) loks í eftirmiðdaginn í dag. Keypti af honum "Kóð" eftir Þórð Magnússon fyrir litlar 1000 krónur og sé ekki eftir því. Lítil bók að vexti og samt ógnarstór í anda. Eitt örlítið sýnishorn af kímni Þórðar, ort af honum sjúkum á St. Jósefs-spítala:

    "Ég, sem að týndi jólunum, sé
    (ég, sem var orðinn lama)
    Herrann úr plasti - held ég - á tré
    hangandi - þvagflösku úr sama."

    Greinarmerkjasetningin, yfirfarin af mér og alles, er nákvæmlega svona. Og mér að skapi. Mér er illa við hvernig kommum hefur verið fækkað og nánast útrýmt. Þetta er dásamlegur húmor. Takk, Jón Karl, Hermann og Valdimar. Og Þórður.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.