mánudagur, 30. apríl 2012

Heim til Evrópu

José Ortega y Gasset: Drög að formála að grein í tímaritinu Skírni

Evrópusambandsumræðan er föst og kemst hvergi. Hún gengur nefnilega út á gagnkvæm uppnefni:
            Andstæðingarnir: Föðurlandssvikararnir ykkar!
            Fylgjendurnir: Einangrunarsinnar og afturhald!
            Helvítis föðurlandssvikarar. Djöfuls einangrunarsinnapakk.
            Og þannig áfram svo hvorki gengur né rekur.
A segir A, B segir B.
Við munum að sjálfsögðu aldrei ganga í Evrópusambandið með skotgrafarhernaði og uppnefnum. En lengi má una við þvarg, skítkast og uppnefni og í drullupolli íslenskrar samfélagsumræðu hugsum við jafnan hvert um sig: Hér fljótum vér eplin. Jafnvel eitt af skástu skáldum Íslands, Hannes Pétursson, leggur uppnefni til málanna í Evrópuumræðunni í annars ágætum blaðagreinum. „Gaddhestar“, sagði Hannes á dögunum. Það er reyndar gott, nokkuð gott orð. Hannes getur verið fyndinn í þessum greinum. Líklega er hugsunin sú að ef fólk er kallað gaddhestar muni það umsvifalaust sjá sig um hönd: Gaddhestur? Ha? Ég? Nú? Jahérna. Ekki vil ég vera kallaður gaddhestur. Ég veit ekki einu sinni hvað það er! Best ég skipti umsvifalaust um skoðun, enda sé ég núna þegar mér er leitt það svona vel fyrir sjónir að ég hef ekki hugsað þetta nógu vel. Alltaf getur maður bætt sig. Ha? Er það ekki bara?
Ortega vinur okkar.
Og kannski er þetta rétt hjá skáldinu. Kannski er það ekki eins og við sem vitlausari erum höldum, að ónefni leiði ekki til neins annars en að fólk forherðist í afstöðu sinni, að Evrópusinnum þyki ekki hreint alveg bráðskemmtilegt að láta kalla sig föðurlandssvikara og andstæðingum Evrópu-sambandsaðildar þyki ekki toppurinn á tilverunni að láta kalla sig einangrunarsinna og gaddhesta. Að engum finnist í raun sérlega uppbyggilegt að láta hæðast að sér heldur sárni fólki uppnefni og fari að tala um einelti og hafi jafnvel eitthvað örlítið til síns máls, og í öllu falli grafi það sig bara ögn dýpra í skotgröfina og hlaði fallbyssuna.
Allt þvargið í umræðunni er auðvitað daglegt brauð og flest smátt í samanburði við útgerðarmennina sem verið er að leiða í nasískar útrýmingarbúðir til að gasa þá, eins og allir vita, it´s holocoust all over again!
Það væri svolítið gott ef hægt væri að hugsa skýrt. Eitt andartak. Jafnvel finna leiðina til Evrópu. Kljúfa hafið eins og Móses og vippa þjóðinni sem snöggvast yfir á meginlandið, biðja sér einskis að launum nema í mesta lagi eina fálkaorðu og eilíft þakklæti, messíanskar öldur og nokkrar tertur, blöðrur og far með Gullfossi, sam-evrópskt Ísland þar sem landhelgin er loksins færð út fyrir milljón mílurnar og ást og eilífur friður ríkir; nú eða bara eitt lítið uppnefni.
Afsakið.
Spurningin sem gæti opnað þó ekki væri nema glufu á byssureykmökkinn væri til dæmis: Hvað er Evrópa?
Hvað er eiginlega Evrópa? Það er góð spurning. Spurningin um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið hlýtur að einhverju leyti að vera samtvinnuð þeirri spurningu hvað Evrópa yfirleitt sé, en vera kann að á inngönguspurningunni séu tveir fletir sem eru, eða ættu að vera, kirfilega aðgreindir: Annars vegar samningskostir sem bjóðast þjóðinni við inngöngu, sem er spursmál af praktískum toga og svörin liggja ekki á lausu enn sem komið er, raunar eru þær alveg á huldu þótt leiða megi líkur að ýmsu; hinsvegar er menningarleg spurning sem má ræða strax, fram og aftur og út frá ýmsum hliðum, eftir því hvort menn álíta Ísland eiga samleið með Evrópu eða kannski einhverju öðru menningarsvæði, svo sem Bandaríkjunum.
En varla er nein goðgá að slá því föstu að hvað sem öðru líður er Evrópa stórmerkilegt menningarsvæði sem á sér merka sögu og merkilega hugsuði. Einn af þessum hugsuðum hét José Ortega y Gasset og var Spánverji sem uppi var á árunum 1883-1955. Ortega er sú tegund hugsuðar sem ekki hefur verið á hverju strái á Íslandi í áranna rás, sú tegund sem bæði er réttnefndur „hugsuður“ – orðið sjálft kann jafnvel að virðast fornfálegt og á skjön við íslenska hefð – og einnig feykimikill og fjörugur stílisti, góður rithöfundur. Skemmtilegur rithöfundur, frjór, smitandi. Eitt helsta verkefni Ortega var Evrópa.
            Þeir sem einhvern ávæning hafa af verkum og hugmyndum Ortega eru stundum haldnir þeim misskilningi að hann sé bölsýnishöfundur. Það er rugl. Ef eitthvað ákveðið einkennir hugmyndir hans er það umfram allt skýrleiki. Þessi skýrleiki í hugsun, þessi einfaldleiki í framsetningu, er meðal þess sem olli því að verk hans áttu og eiga svo greiðan aðgang að alþýðu manna. Vegna einfaldleikans eru hugmyndir hans eru svo kröftugar að lesendur smitast, fyllast sannfæringu og eldmóði þótt þeir geri sér ef til vill ljóst að lestri loknum að í rauninni eru þeir ekki í hjarta sínu endilega sammála öllu sem sagt hefur verið.
            Greining Ortega á evrópskri menningu á tímamótum birtist í bókinni Uppreisn fjöldans sem kom út árið 1930 og gerði hann umsvifalaust þekktan á alþjóðavettvangi. Þetta er greining á grundvallarbreytingu á Evrópu frá nítjándu öld til samtíma Ortega, ekki breytingu á bókmenntum eða stjórnmálum heldur lífi.
Hvaða góss er þetta eiginlega? Uppreisn fjöldans? Af öðrum bókum Ortega má nefna Estudios sobre el amor, Stúdíur í ástinni, þar sem gengið er út frá því að enginn tími á undan tuttugustu öldinni hafi hugsað jafn lítið um ástina þótt aldrei hafi verið fjasað meira um ástamál fólks. Ég held svei mér þá að stöku heimspekingur dagsins í dag sé á svipuðum slóðum. Margir þeirra eru á marxískri ferilbraut og það er ekki endilega málið hér þótt tíminn bendi kannski til þess. „Kall tímans“, hafði Kristinn E. Andrésson að heiti á merkilegum sjálfsævisögulegum kafla í merkilegu riti, Enginn er eyland (það er við hæfi að nefna þennan fína titil því auðvitað er enginn eyland) sem kom einmitt út um svipað leyti: „Þegar ég gerðist formaður Sovétvinafélagsins haustið 1932 má vitanlega kalla mig nytsaman sakleysingja, en ég var ekki ginningarfífl eins né neins, heldur hlýddi ég einfaldlega tímans kalli.“ Tökum bara ofan fyrir því, en það var nóg af köllum. Ortega var annar kall á sama tíma, skipti sér lítið af kommúníska karlinum Marx og engin merki sjást þess í Uppreisn fjöldans að hann hafi haft nokkurn skapaðan hlut upp á hann að klaga, þótt hann hugsi öðruvísi og orki öðruvísi í endurliti og sé heldur glataðra góss, fortíðin er jafnan einfölduð og stundum illilega, stundum er hún lemstruð og hólfuð heimskulega niður eins og lýðum er kunnugt.
„Skríll“ – fjöldi – er hugtak sem fróðlegt er fyrir Íslendinga að skoða nú sem fyrr. Svo virðist til að mynda sem við séum sum hver nokkuð stolt af því, með réttu, að hafa haldið svolitla byltingu hér um daginn og kenna hana við búsáhöld. Við erum mörg hver nokkuð ánægð með að hafa komið ríkisstjórn sem við álitum vanhæfa frá og látið sem vind um eyrun þjóta þótt stjórnmálamenn þess tíma þusuðu nokkuð um skríl, múgæsingu.
Skríll. Er það ekki ægilegt orð? Ég er opinn fyrir því að gefa hlutunum nöfn. Einhver nefndi við mig um daginn að út á það gengi ljóðlist.
Ég er opinn fyrir því að nefna hlutina sínum réttu nöfnum.
Ég er opinn fyrir samræðu.
Hvenær er maður skríll og hvenær er maður ekki skríll? Getur einn einstakur maður verið skríll – eða ekki skríll? Hvenær er maður venjulegur nashyrningur að klóra sér í rassgatinu með horninu, hugsa sitt og drekka hlandforugt vatn úr drullugri tjörn og hvenær er maður orðinn hluti af trylltri nashyrningahjörð í leikriti eftir Ionesco, hjörð sem ryður um koll öllu sem á vegi hennar verður og hefur aðeins eina hugsun, hóphugsunina?
Eru þessar spurningar of langar? Á ég að stytta þær svolítið? Niður í eitt orð?
Skríll. Samkvæmt José Ortega y Gasset má sjá hjá einum manni hvers kyns er, hvort hann er skríll eða ekki.
Maður horfir semsé á einstaklinginn og gaumgæfir hann vandlega, horfir á Evrópusinnann og Evrópuandstæðinginn úthúða hvor öðrum með fúkyrðum, horfir á útgerðarmanninn þar sem hann sífrar yfir smáræðis gyðingaofsóknum (ekkert má nú, ekki einu sinni oggupons af nasískum ofsóknum), horfir á menntamanninn og verkamanninn þar sem þeir æpa í hóp eða hvor í kapp við annan, horfir á fólkið sem hrópar: Jeppinn minn, mannréttindabrot!, þá sem deila göfugum málstað í góðum hóptilgangi á Facebook og þá sem hunsa miðilinn í hóp, maður horfir jafnt til snælduvitlausra rógplebbanna á kommentakerfi DV sem femínistanna, annar hópurinn æpir allavega: Öfgaefmínistar! og ég man ekki hvað hinn æpir en eitthvað er það; maður lítur til draugfúlla og sigri hrósandi umbótasinna sem þusa út í eitt að þeir séu allir eins þessir andskotans vinstri-stjórnmálamenn, helvítis fokkíng fokk, maður horfir á þá sem líta á Sjálfstæðismenn sem skrímsli en ekki manneskjur, listinn er endalaus, vellaunaðir sannir alþýðumenn andskotast út í helvítis hámenntaðan öreigaaðal, menningarmúgur fjargviðrast gegn menningarmúgi, hvað veit ég, kannski er allt í hóp, en maður horfir beint í augun á einstaklingnum og sér: Annað hvort er hann skríll eða ekki. Það sést á svipbrigðunum, ímynda ég mér, orðunum, lífsháttunum, viðhorfunum …
Einn einstaklingur getur sjáanlega og merkjanlega verið það sem Ortega kallaði skrílmenni. Að vera skrílmenni er að þola ekki þá tilhugsun að skera sig úr fjöldanum.  Það er að þola ekkert nema viðtekinn smekk, þola engum að vera öðruvísi. Að vera skrílmenni er að segja og skrifa ætíð: Hvað heldurðu að þú sért? Að vera skrílmenni er að vera neyslumenni, hugsa aldrei um neitt nema að neyta. Og álíta sig eiga heilagan rétt á því að það vinsæla, það sem þú aðhyllist – eftir atvikum lágkúru – sé meðtekið, hyllt, virt, að plebbið rúli.
            Textinn sem ég hef fengist við að þýða að undanförnu er frægasta bók Ortega. Hvaða erindi á þessi bók við daginn í dag, við Ísland? Því svara ég þannig til að kannski vegna þess að hún er skrifuð í kreppu, er bókin aflestrar eins og hún hafi verið skrifuð á Íslandi í fyrra. Allt sem hún veltir vöngum yfir og spáir fyrir um hefur ræst, á  hverri síðu er eitthvað sem hleypir í mann hugljómun.
Skrílmennið þolir ekki neitt sem ekki er plebbalegt og eins og hann. Þessi maður, hróðugur, menntaður, lítill kall, hefur þá grundvallar sannfæringu að lífið sé auðvelt og laust við allar harmrænar víddir. Hann er svolítið skinhelgur, friðaður gagnvart öllum sem halda að þeir séu eitthvað, hann upplifir sjálfan sig umfram allt sem venjulegan, hversdagslegan, normal, og færist við það allur í aukana, lýsir yfir heilögum réttinum til að vera plebbi og neitar að viðurkenna nokkurn mann eða nokkra málaleitan sem honum sé æðri.
Hann er svona svolítið eins og við.
Hér fljótum vér eplin.
Við föðurlandssvikararnir, einangrunarsinnarnir, gaddhestarnir og Evrópusleikjurnar.
            Djöfull leiðist mér.

                                                      ***

Það er aðeins ein leið heim til Evrópu: Evrópsk menning.

Hermann Stefánsson

_______________________________________________________
Fótnóta: Skírnir er elsta og langlífasta og virðulegasta menningartímarit á Norðurlöndum. Subbuskapur og sóðarit er líklega eitt það yngsta og skammlífasta og áhöld eru um virðinguna. Önnur, betri og siðlegri útgáfa af þessum texta er væntanleg sem fylgiskjal við þýðingu á texta eftir José Ortega y Gassett í þarnæsta Skírni, haust 2012.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.