Æ, hve mér leiðist.
Það gerist ekki neitt.
Allavega ekki í bókmenntalífinu.
Bókmenntalíf: Er það ekki harla gott orð? Líf í bókum, bækur í lífinu, bókmenntalíf ... Skiptir eitthvað meira máli en bækur? Í alvöru talað?
Sannkallað bókmenntalíf felst í því að lesa bækur, hugsa um bækur, tjá sig um bækur, skrifa um bækur – renna með einhverjum hætti saman við bækur.
Vera bækur.
Þetta gera margir og á ýmsum vettvangi. Það sem gerist í tímaritunum gerist á langtíma, á fésbók gerast hlutirnir á örtíma – og þótt hún sé kennd við bók fjallar hún ekki um bækur heldur oftast eitthvað allt annað. Millitíðin er engan veginn auð en hún biður samt um eitthvað.
Af og til verður maður að sýna lit. Láta eitthvað gerast. Þessari bloggsíðu er haldið úti af fjórtán karlmönnum sem munu tjá sig um bækur og önnur bókatengd hugðarefni sín næstu tvo mánuðina. Hún er stofnuð til heiðurs síðunni Druslubækur og doðrantar þar sem fjórtán konur hafa skrifað um bókmenntir af fádæma elju í, ja, ég held að það séu orðin mörg ár.
Subbukallar ætla að skrifa um bækurnar sem þeir eru að lesa og yfirleitt allt sem tengist bókum með einhverjum hætti eða bara um það sem þeim dettur í hug það og það skiptið. Druslubókadömurnar eru gott fordæmi og óþarfi að láta sitt eftir liggja, dæmi þeirra sýnir að það er hægt að halda uppi lifandi bókmenntaumræðu í samfélagsumhverfi sem er þegar öllu er á botninn hvolft ekkert sérstaklega auðugt af bókmenntaumfjöllun og fer ekki batnandi.
Karlar eru öðruvísi en konur, ég veit að það hljómar billega en reynsluheimur karla er annar og þeir skrifa ef að líkum lætur öðruvísi um bækur en konur.
Ekki það að þetta sé einsleitur hópur. Um hann má segja þetta: Það eina sem við eigum sameiginlegt er alger skortur á ágreiningi.
Ég hef aldrei skilið setningu Jónasar um níu menn sem nóttina eiga að stytta. En það er eitthvað fjandi gott við hana. Þótt varla nokkur viti enn hve vænlegt ráð þeir hitta. Hér eru fjórtán menn. Þeir ætla að reyna stytta nóttina svolítið með bókum.
Karlahreyfingin á tíunda áratugnum með Robert Bly í broddi fylkingar sendi karla út í skóg bera að ofan með dótabyssur til að uppgötva sinn innri Róbinson og villta Frjádag. Engum varð meint af því volki, þeir subbuðu sig út, þessir karlar, og mæddust og svitnuðu og mann grunar að ævintýrin séu ekki síðri ef haldið er á vit bóka.
Á næstu dögum birtast fyrstu færslurnar. Velkomin á síðuna Subbuskapur og sóðarit. Hún verður algerlega frábær.
Hermann Stefánsson
Megi subbið flæða um lendur vefsins á hraða ljóssins!
SvaraEyðaFrábært framtak - ég er sjálfur mikill aðdáandi Druslubókanna. Má mann ekki vera memm hérna ...?
SvaraEyðaTakk fyrir góð orð, Helgi. Gestabloggarar eru velkomnir, sendu mér póst á hermannstefansson hjá yahoo.com. Kveðja, Hermann
SvaraEyðaBýst við góðum greinum! Hlakka til að lesa. Til hamingju!
SvaraEyða