þriðjudagur, 28. febrúar 2012

Funes yngri

Nokkrar athugasemdir við smásöguna Funes, hinn minnuga eftir Jorge Luis Borges settar fram á formi þess sem gagnrýnt er með hliðsjón af ímyndaðri kröfu um rökvísi í skáldskap
  „Ef hérinn gefur skjaldbökunni forskot þá mun hann aldrei taka fram úr henni því áður en hann getur náð henni verður hann fyrst að ná að vinna upp forskot hennar. Það tekur hann tíma að hlaupa að þeim stað þar sem skjaldbakan hóf keppnina og á meðan hefur skjaldbakan enn fjarlægst hann. Í hvert sinn sem hérinn nær á staðinn þar sem skjaldbakan var þá á hann ennþá eftir að vinna upp bilið sem hefur skapast á milli þess staðar og skjaldbökunnar nú. Hérinn mun aldrei komast framúr skjaldbökunni.“
– Zeno frá Eleu. (490 – 430 f.kr.)


 „Heimdallur.“
          Furðulegt hvað greypist í minnið. Ég man ekki hvaða ár það var en ég man hvaða bók ég var með í höndunum þegar ég heyrði fyrst minnst á Funes yngri.
          Það hefur því verið í nýja Landsbókasafninu við Plazaleto Cortazar, á neðri hæðinni, þar sem maður sér yfir La Plata-ánna. Það ræð ég af því að bókin var Snorra-Edda í enskri þýðingu Morris og Magnússonar. 200-gangurinn (trúarbrögð og goðafræði) stendur á neðri hæðinni hægra megin við innganginn. Byggingin var enn ný. Bókasafnið var vígt haustið 1953 þannig að þetta hefur líklega verið ‘54, eða ’55 í síðasta lagi. Bækurnar voru ekki allar komnar á sinn stað. Þýðingu Morris og Magnússonar sem ég var að blaða í fann ég til að mynda undir  287.1 (Menónítar) en ekki undir 293.1 (Norræn goðafræði). Vissulega skeikaði ekki nema einni hillu en í skipulagi bókasafnsins er það einni hillu of mikið. Í bókasafni er bók á röngum stað í raun ekki til.
          Jorge hefur verið byrjaður að vinna á safninu þegar þarna er komið við sögu en líklega ekki enn tekinn við starfi Landsbókavarðar. Allt í einu heyrði ég rödd hans við hlið mér hvísla: „Heimdallur. Hann hefur alltaf verið mitt uppáhald. Fámáll en athugull. Heyrir allt en segir fátt.“ Bókasafnsverðir kunna listina að ferðast hljóðlaust. „Ég hef alltaf ætlað mér að skrifa ritgerð sem sýndi fram á skyldleikann milli Heimdallar og Patanjali og hinna indversku jóganna.“ Jorge talar svo lágt að mál hans er eiginlega borið uppi af lofthljóðunum einum saman: „Jógameistarinn og Heimdallur sitja báðir á mörkum tveggja heima, í einhverskonar leiðslu, búnir að skerpa skilningarvitin af langri þjálfun og svo hlusta þeir á þögnina – ‘grasið gróa og ullina spretta á sauðunum’ – eins og Snorri lýsir …“
          „Hlustunin er ein grein hugleiðslunnar samkvæmt Patanjali, eins og þú veist. Jóginn, eins og Heimdallur, samsamar sig heyrninni; hlustar af algerri athygli. Þannig nær hann að gleyma því hvar hann er í heiminum – hvað er hvað – og hvernig hlutirnir greinast hver frá öðrum. Á æðsta stiginu nær jóginn þannig að þurrka út skilin milli sín og heimsins. Þá man ekki einu sinni hver hann er. Hann veit að hann er til en veit ekki hvort hann er þessi eða hinn, hitt eða þetta. Þannig verða jógarnir frelsaðir undan sjálfum sér. Hlusta eins og Heimdallur sem er eitt með grasinu. Sérðu ekki hliðstæðurnar?“
          Ég man þessa ræðu Jorges skýrt þótt ég muni ekki hverju ég svaraði eða hvernig talið barst að Funesi hinum minnuga. Líklega hefur Jorge nefnt minningargrein mína um samskipti okkar Funesar sem þá hafði nýlega verið gefin út í litlu safnriti af Editorial Recoleta í Montevideo. Hvað sem því líður þá fór Jorge að segja mér frá minningum sínum um Funes. Hann vissi vel af áhuga mínum á öllu sem snerti þennan sérstæða mann. Fæst af því sem Jorge nefndi þótti mér hins vegar fréttnæmt. Ég hafði grennslast vandlega fyrir um Funes í heimabæ hans í Fray Bentos áður en ég náði fundi hans í fyrsta skipti. Þeir þekktust auðvitað, Jorge og Funes, enda höfðu þeir verið skólabræður í menntaskólanum fram að slysinu. Tvennt kom mér í opna skjöldu af því sem Jorge sagði mér. Í fyrsta lagi það að Jorge hafði verið með Funesi daginn sem hesturinn kastaði honum af baki sem leiddi til þess að hann lamaðist. En það var einmitt eftir þetta slys sem Funes öðlaðist það allt að því yfirnáttúrulega skynnæmi sem gerði honum kleift að kalla fram í minni sínu allt sem fyrir augu og eyru hans bar upp frá því. Þaðan í frá mundi hann allt, til dauðadags.
          Hitt atriðið sem kom mér í opna skjöldu var nokkuð sem Jorge nefndi í framhjáhlaupi: Funes hafði á fyrsta ári í menntaskólanum barnað Irenu Leandro (hún hafði verið bekkjarsystir þeirra). Fljótlega hafði komið í ljós að drengurinn sem Irena hafði fætt, nokkru fyrir tímann, var alvarlega þroskaheftur. Það varð úr að hann var sendur til vistar á hæli í norður af Montevideo og eins og margt sem hverfur manni sjónum þá virðist sem hann hafi þar með horfið úr hugum flestra í Fray Bentos. Að minnsta kosti hafði ég aldrei heyrt drengsins getið fyrr en þarna þennan dag í Landsbókasafninu. Jorge hélt áfram: En nú þegar Funes eldri var fallinn frá var enginn til að greiða reikningana frá hælinu og þess vegna hafði drengurinn, Funes yngri, víst verið sendur aftur heim. Jorge minnti að hann hefði heyrt einhvern segja að pilturinn byggi nú hjá ömmu sinni Mariu Clementinu í húsinu á Calle St. Augustine sem áður hafði verið heimili föður hans.
* * *
Það tók augu mín nokkurn tíma að venjast myrkrinu í herbergi Funesar yngri. Eini ljósgjafinn í herberginu var glóðin í sígarettunni sem pilturinn hélt á. Hann sat á gólfinu með bakið upp að veggnum, keðjureykti og sagði ekki orð. Ég heyrði hann ekki einu sinni draga að sér reykinn en sá glóðina glæðast með reglulegu millibili þegar hann saug að sér.
          Ég kynnti mig: „Faidon Recuerdo“. Eftir nokkra stund bætti ég við að ég væri málfræðingur frá Buenos Aires, að ég hefði verið kunningi föður hans, að ég hefði rannsakað hæfileika hans um skeið nokkrum árum áður en hann féll frá. Ég bætti við að mig langaði að fá að spyrja hann nokkurra spurninga ...
          Svo þögðum við báðir um stund.
          „Og hvað heitir þú?“ spurði ég loks.
          Eftir andartaks hik heyrði ég hása rödd Funesar yngri í fyrsta og eina skiptið. Hann talaði slitrótt en hratt, eins og hann væri í kapphlaupi við tímann:
          „Ég heiti F ... Ég heiti ... Ég heit ... Ég hei ... Ég he ... Ég h ... Ég ... É ...   ...“
          Og svo var aftur þögn í herberginu.
          Það var sama hvers ég spurði hann frekar. Ég fékk engin svör. Ekki stakt orð, ekki eitt atkvæði.
          Um síðir kulnaði glóðin í sígarettu piltsins. Ég varð að þreifa mig eftir veggnum að hurðinni.
* * *
Maria Clementina fylgdi mér til dyra. Hún sagði mér að ég gæti reynt aftur á morgun. Eftir nótt í þögninni inní myrkvuðu herberginu væri alltaf von til þess að hægt væri að ná nokkrum orðum eða orðhlutum uppúr piltinum. En til þess þurfti hann að fá að eyða að minnsta kosti einni  nótt, en helst lengur, óáreittur og yfirgefinn í aldimmu herberginu. Og jafnvel þá, sagði hún, var sjaldnast hægt að greina meira en eitt eða tvö orð áður en þau gufuðu upp í stamandi endurtekningunni.
          Það var þá sem mér varð ljóst hvers kyns var. Og hvers vegna það væri ekki til neins að koma aftur daginn eftir. Funes yngri var ekki sködduð eða lakari útgáfa af föður sínum.  Þvert á móti. Hann var föðurbetrungur. Funes hafði enn næmari skynjun en faðir hans sem hafði þó verið álitinn alminnugur. Minni Funesar eldri, hafði sjálfstæða tilvist, það var ekki fullkomnara en svo; hægt var að greina skil þess og heimsins; og aðgreina á milli forms þess og innihalds.
Minni Funesar yngri geymdi hins vegar mynd af heiminum sem var svo nákvæm og full af smáatriðum að hún varð ekki að greind frá veruleikanum. Funes eldri var minnugur. Funes yngri hafði hins vegar fullkomið minni; svo fullkomið að veruleikinn var dæmdur til að ganga honum í sífellu úr greipum.
          Minningar verða að vera óljósar. Annars verða þær ekki aðgreindar frá veruleikanum. Séu þær fullkomlega nákvæmt afrit heimsins eða upplifunarinnar þá er enginn munur á veruleika og minningu. Þá verður það að muna atburð það sama og að lifa hann og það að minnast þess hafa munað eitthvað það sama og minnast þess, sem aftur verður ekki greint frá því að lifa það. Í hvert skipti sem Funes yngri hugsaði um minningu (nákvæmara væri að segja: Í hvert sinn sem minning var í huga hans) þá var hún svo skínandi, svo raunveruleg og skýr, að hugur hans tók af henni afrit og setti í safn sitt sem nýja minningu. Sá sem man að hann man, gleymir. Sá sem man fullkomlega gerir ekkert annað en að minnast og veit þar með ekki að hann er að minnast. Funes yngri mun aldrei ná að hugsa sig að líðandi stundu því í huga hans mun hver atburður – hvert andartak – snúast gegn sjálfu sér, afrita sig í sífellu í æ fíngerðari og nákvæmari eindum þar til brotið er orðið svo smátt að þar býr engin hreyfing og ekkert hljóð: Það geymir ekkert nema spegilmynd af sjálfu sér.
* * *
Ég man að ég fann til með Funesi yngri þegar ég lokaði útidyrunum á eftir mér og steig útí myrkrið á Calle St. Augustine. Funes yngri er hérinn í sögu Zenos. Og í þeirri sögu nær hérinn skjaldbökunni aldrei.
Þannig lýkur færslunni um Funes, yngri í minniskompu föður míns. Kompuna fann ég fyrir algera tilviljun innan um skjöl og pappíra sem Jorge skildi eftir sig og mér var falið að flokka. Það er mér ráðgáta hvernig nótubók föður míns endaði í einum af þessum hálfgagnsæju plastkössum í geymslunni inn af skrifstofu Jorges í kjallara bókasafnsins.
          Ég þekki rithönd föður míns. Þetta er minniskompan hans, á því leikur ekki nokkur vafi. Á fyrstu síðu minniskompunnar hefur hann skrifað: „Þess vegna skrifa ég það niður: Til að geta leyft mér að gleyma því.“
Ragnar Helgi Ólafsson

HEIMILDIR
Borges, Jorge Luis. Collected Fictions. Hurley, Andrew þýð. London: Allen Lane, 1999.
Patanjali. The Yoga-system of Patañjali: or, The ancient Hindu doctrine of concentration of mind, embracing the mnemonic rules, called Yoga-sūtras, of Patañjali, and the comment, called Yoga-bhāshya, attributed to Veda-Vyāsa, and the explanation, called Tattva-vāicāradī, of Vāchaspati-Miçra. Haughton Woods, James þýð. Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1927.
 Snorri Sturluson. Snorra-Edda. Reykjavík: Mál og menning, 1988.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.