þriðjudagur, 20. mars 2012

Myndin í Iðnó – úr dagbók rithöfundar í Reykjavík


Mynd: DV.
Þetta hljómaði næstum því eins og bölvun. Maður er nefndur … tilnefndur.
Konan mín hafði reynt að ná í mig í síma allan daginn. Hún stóð í gættinni þegar ég kom heim eins og einhver væri dáinn eða barn fætt á Landspítalanum. Þú ert tilnefndur til Menningarverðlauna DV, sagði hún. Þú átt að mæta niður í Iðnó klukkan fimm. Nei, sagði ég. Fokking markaðsdeildin. Ég vil ekki!

Ég vildi auðvitað ekki fara vegna þess að tilhugsunin um að fá ekki fyrstu verðlaun var óþægileg. Áþekk því að horfa á ókunnugan krakka rífa upp pakka í manns eigin afmæli. En konan mín hefur meira vit á svona. Þetta eru alveg virt verðlaun, sagði hún. Og ég varð að viðurkenna að þetta var ágætt tilefni til að skríða út úr rottuholunni og hitta mann og annan. Það eru ekkert allt of mörg tækifæri í Reykjavík til að hitta fólk: Ræktin, biðstofan hjá tollstjóra eða verðlaunaafhendingar. Svo við drifum Leif litla í vagninn og út í skafrenninginn.

Það fyrsta sem bar fyrir augu þegar við nálguðumst Iðnó var Rúnar Rúnarsson leikstjóri, hokinn í Álafossúlpu í skjóli undir húsvegg, að reykja sígarettur í félagsskap ungs leikstjóra sem varð af einhverjum ástæðum skelfingu lostinn á svipinn þegar hann sá okkur. Það brakaði notalega í tréhurðinni á Iðnó þegar ég ýtti henni upp á gátt með vagninum.

Hálf fésbókin var mætt á svæðið. Fólk sem ég addaði einhver tímann í græðgiskasti í miðri bókavertíð en þekkti hvorki haus né sporð á. Herra Blaðablað eitthvað. Frú bloggblogg og Rúff. Marta smarta og Jón Stóri í sauðargæru. Og svo framvegis.

Tapasið reyndist mjög gott og rauðvínið í háum gæðaflokki miðað við svona móttökur almennt þannig að ég kláraði nokkra sopa. Barnabókahöfundur í Reykjavík lætur samt ekki sjá sig fullan með ungbarn upp á arminn þannig að ég fór heldur varlega í veigarnar. Við skiptumst síðan á að halda á drengnum.

Dóri frændi DNA spurði hvort tryllitækið sem hann færði Leifi litla, göngugrindin með stýrinu, væri ekki að svínvirka og við játtum því. Drengurinn alveg brjálaður út um öll gólf.
Dóri var örlítið meyr til augnanna eins og hann væri búinn að fá sér nokkur glös, hann vaggaði aftur inn í þvöguna um leið og Símon Birgisson óskaði mér til hamingju með tilnefninguna og Tinni Sveinsson ritstjóri Vísis kinkaði kolli, sposkur á svip.

Veislusalurinn í Iðnó var stapptroðinn þannig að ég hafði mig aldrei almennilega inn fyrir en tvísté ýmist í gættinni eða frammi í hvítmálaðri kaffistofunni. Á veggjunum héngu fallegar ílangar teikningar sem voru hluti af sýningu á verkum leikmyndateiknara.

Litla sviðið innst í salnum minnti á hellismuna eða svarthol sem gæti skyndilega sogað til sín allt vit í Reykjavík. Fyrir framan sviðið var púlt og til hliðar við það var borð þakið blómum í sellófani.

Niðurlútir blaðamenn tóku sér stöðu bak við púltið og þuldu upp tilnefningarnar í löngu máli. Ræðurnar heyrðust illa fram í anddyri, orðin drukknuðu í iðrum fjöldans sem hafði sett upp feimnislegan sauðasvip í tilefni dagsins.

Reynir Traustason ritstjóri greip hraustlega í púltið og tuldraði eitthvað inn í hljóðnemann.  Ég heyrði ekki hvað hann var að segja en sá varirnar hreyfast ekki ósvipað og hjá krakka sem er að læra að lesa. Fyrir aftan mig sussaði móðir á barn vegna þess að hún þurfti að hlusta á „manninn með kúrekahattinn“.

Ritstjórinn var nefnilega með barðastóran kúrekahatt á hausnum. Hvað skyldi hann vera að segja? Tala um baráttuna við aukakílóin? Þrjátíu kíló farin? Hvað ef mjög feitur maður skyldi verða fyrir strætó? Er þá ekki hægt að tala um að hundrað og fjörutíu kíló séu farin? Nei! Ekki hlæja núna. Það er óviðeigandi. Ekki hlæja.

Ég beit í neðri vörina, leit til hliðar og mætti augnaráði sonar ritstjórans. Hann virtist horfa illilega á mig eins og ég hefði sagt eitthvað upphátt. Það örlaði fyrir reiðihrukku á milli augnanna sem ígerðist með árunum við heimsósómann í Reykjavík City. Borgin er jú full af spilltum útrásarvíkingum sem valhoppa hlæjandi á milli veitingahúsa, uppdópuðum einstæðum mæðrum með langveik börn, vítisenglum sem murka lífið úr þrettán ára unglingum, hópnauðgurum, og allskonar minniháttar svindlurum, vitskertum smástirnum og lögfræðingum.

Mér var allt í einu hugsað til mömmu sem var blaðamaður á Dagblaðinu í gamla daga. Gott ef hún var ekki viðstödd þegar veggurinn á mill Dagblaðsins og Vísis var rifinn niður í Síðumúlanum og DV búið til. Þá voru rafmagnsritvélar nýjasta nýtt, USB-lyklar voru ekki enn búnir að leysa af TippEx-túbur, öskubakkar voru einu hörðu diskarnir og Jónas Kristjánsson var aðal gæinn. Jónas með geitaskeggið var eitthvað skyldur pabba og gaf mömmu séns á að vera hundrað sinnum lengur að skila af sér greinum en almennt tíðkaðist á ritstjórninni, hugsanlega líka vegna þess að hún var hundrað sinnum betri textahöfundur en margur – hvað veit ég. Kannski bara ágætt eftir allt saman að gamla konan sé horfin inn í hugarheim óminnisins, núna þegar fésbókarstatusar eri búnir að leysa af öll mannlega samskipti í Reykjavík og enginn nennir að bíða eftir neinu lengur. Hey! Ef ég fengi þessi verðlaun núna gæti ég tileinkað þau mömmu! Þetta yrði alveg Hollívúdd móment! Ég gæti jafnvel reynt að kreista fram tár fyrir forsíðuna.

Þórarinn Þórarinsson kom aðvífandi með geðveiki alkóhólistans í augunum og nýja dulítið skelkaða kærustu á bakinu. Nafni lék á als oddi og var skemmtilegur, hjalaði meira að segja við Leif litla sem hann sagði að við hefðum átt að nefna í hausinn á sér. Við vorum eitthvað að gantast með verðlaunin yfirleitt, gott ef nafni var ekki í dómnefndinni sem gerði samskiptin sérstaklega ósvífin. Ég rifjaði upp að ég var einmitt í dómnefnd sem verðlaunaði sögu eftir Ágúst Borgþór á síðustu öld.

Ég skóp Ágúst Borgþór Sverrisson, sagði ég og uppskar hlátur blaðarefsins.

Mér var litið aftur inn í sal og sá glitta í vanga Sölva Björns Sigurðssonar í miðri þvögunni, skáldið virtist óþarflega taugaóstyrkt eins og það tryði því raunverulega að það ætti séns í þessi verðlaun. Eða kannski var það ekkert fjarstæðukenndara en hvað annað. Sölvi var með ansi hreint fína bók í jólavertíðinni. Það vorum við hin reyndar líka. Öllsömul. Öll með fjórar og fimm stjörnur og halelúja. Þegar ég leit aftur upp var skáldið horfið í þvöguna og ég sá glitta í Rögnu Sigurðardóttir rithöfund með sama eftirvæntingarsvipinn og þá áttaði ég mig á því að þau voru alveg eins og ég: örlítið feimin yfir því að hafa látið plata sig hingað inn í gamla Iðnó. Vera tilnefnd. Vera viðstödd eigin réttarhöld.

Þegar kom að því að tilkynnt var um bókmenntaverðlaunin og ég stilli mér upp í gættinni til að hlusta, hæfilega áhugalaus á svipinn, kom Rúnar Rúnarsson askvaðandi alveg upp í eyrað á mér. Hann röflaði, hrósaði bókinni minni, klæmdist ógurlega, flissaði og hló þannig að glitti í tóbaksgular vígtennur íslenska hestsins. Rúnar var orðinn fullur. Ég missti af því hver fékk verðlaun en vissi að það var ekki ég.

Miðaldra kona mjakaði sér upp á sviðið í átt að blómvendi.

Hver er þetta? hreytti Rúnar út úr sér. Ég las bara bókina þína, Tóti, hún átti að fá þessi verðlaun. Ha? Götumálarinn átti að fá þessi verðlaun!

Ég veit það ekki, sagði ég og einblíndi á konuna á sviðinu. Rýndi ofan í brúnan hársvörðinn. Gamla konan var samanrekin og fínleg um leið. Eins og konurnar í frystihúsinu fyrir austan um árið. Einhver frystihúsakerling? Þetta var ekki Vigdís Gríms. Vigdís var með mikið svart og fallegt hár. Hvaða kerling er þetta? endurtók fulli karlinn.

Og þá sá ég að þetta var engin kerling heldur forleggjari Íslands: Jóhann Páll Valdimarsson. Jóhann Páll var mættur fyrir hönd höfundar, hann blakaði blómvendi örlítið feimnislega framan í salinn og forseta lýðveldisins sem stóð fremst eins og illa gerður hlutur, sorglegur á svip eins og maður sem veit of mikið. Kannski var hann búinn að myrða Dorrit í afbrýðiskasti, æstur að velta fyrir sér hvernig hann gæti losað sig við líkið svo lítið bæri á. Hverjum gat hann treyst? Myndi bílstjórinn kjafta frá öllu? Kannski kveið hann bara fyrir því að þurfa að snúa sér við, feta sig í gegnum þvöguna og heilsa öllu þessu fólki: dönsurunum, tónlistarfólkinu, leikurunum, Röggu Jóhanns, Felix Bergssyni, Guðmundi Franklín, Aggí, Lillugó og Illuga Jökulssyni – sá síðastnefndi skaust reyndar rétt í þessu út um aðaldyrnar með kattarlegt glott á vör. Átta ár í viðbót í þessu skítadjobbi? sagði forsetinn við sjálfan sig. Ég er ekki með öllum mjalla!

Þegar ég rýndi í fréttamyndir DV seinna um daginn sá ég forseta Íslands með hönd á pung og við hlið hans konu mína í þýskum hermannajakka. Gamla og nýja Ísland mættust. Hann fulltrúi þjóðernishyggjunnar og hún með Evrópusambandið í maganum. Leifur litli kúrði sig upp að móður sinni, óvenju þungur á brún. Eins og hann sæi bara alls enga framtíð í lýðveldinu. Fyrir aftan forsetann og konu mína stóð maður sem hélt á skyndibita í annarri hendi. Hann hafði tekið sér stutt hlé frá átinu til að stara inn í linsu ljósmyndarans athugull á svip. Hver var þessi maður? Hvað táknaði hann? Hrunið? Endurreisnina?

Á öðrum ljósmyndum úr sama safni sáust verðlaunahafar stika yfir gólfið í átt að sviðinu. Það var autt pláss á gólfinu á milli fjöldans og sviðsins. Nokkurs konar tómarúm. Svipugöng í gegnum ekkert.

Ég sagði við Rúnar Rúnarsson að ég fengi engin verðlaun í þetta sinn og þyrfti að bregða mér afsíðis til að gráta í einrúmi. Rúnar virtist trúa mér því stuttu síðar birtist hann í kaffihorninu og spurði blaðskellandi hvort þetta væri lúserhornið, með húmor sem var napur og stuðandi í kaldri Köben þegar við vorum öll svo græn og hann ennþá að skúra skrifstofur en núna virkaði hann svolítið bitlaus. Eða vorum við öll komin með skráp? Menningarskriðdrekar sem létum ekkert á okkur fá?

Rúnar hvarf út í hríðina til að reykja og við Auja töluðum um að við yrðum að fara að bjóða blessuðum karlinum og frúnni heim í spagettí. Þetta er fast ritúal hjá okkur. Við fantaserum um að bjóða fólki heim í mat árum saman. Samviskubitið hleðst upp og á endanum springum við og höldum fimmtíu manna veislur til að bæta fyrir allt saman. Veislur með allt of mikið af fólki, víni og gömlum ostum. Veislur sem enda á því að sturlaða konan á efstu hæðinni hendir blómapotti í útidyrahurðina.

Úrkoman hafði margfaldast og við störðum út í hvítt tómið; það mótaði fyrir litlum hólma á tjörninni og nokkurs konar vegavinnuskúr sem hafði verið komið fyrir þétt upp að honum, ruggandi á gráum öldunum. Einhvern veginn út í hött. Var þetta listaverk? Allt kaffihúsið lyftist upp við þessa óvæntu sýn.

Kjartan Kjartansson hljóðmaður fór að segja okkur frá hljóðum í bíómyndum á meðan konan hans stjanaði við Leif litla Ottó. Sigga hans Halldórs Bald var sest hjá okkur líka, tvíburar þeirra hjóna brostu feimnislega til okkar yfir girnilegum kökum, eins og spýttir út úr teikningu eftir pabba sinn.

Mér fannst alveg þess virði að hafa farið í göngutúrinn að hitta þetta þægilega fólk.
Loks stytti upp og sólin skein inn um gluggana á kaffistofunni. Íslenska vorið var komið.

Þórarinn Leifsson 

5 ummæli:

  1. Takk fyrir að taka mig með í Iðnó, þetta var skemmtileg heimsókn.
    æöj

    SvaraEyða
  2. Ég hló oft og mikið við þennan lestur.

    Guðmundur Brynjólfsson

    SvaraEyða
  3. Þetta var skemmtilegur lestur - eins og Götumálarinn. :)

    SvaraEyða
  4. Þetta var fyndin og óþyrmilega kunnugleg lesning. Takk!

    Salka

    SvaraEyða
  5. Takk Tóti. Allt í einu tók ég krummaskuðið okkar í algera sátt!
    Frábær lesning.
    Axel

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.