fimmtudagur, 22. mars 2012

Um útleitna og innleitna andspyrnu gegn andlegri bæklun


Bernhard og Kafka sem stríðsmenn andans

Austurríski rithöfundurinn
Thomas Bernhard: Gestabloggari
dagsins, Bergsveinn Birgisson, fjallar
um Bernhard og Franz Kafka
Í grein um Kafka skrifar finnska skáldkonan Mirjam Tuominen að það sem Kafka upplifir sem barn sé í raun ekki verra en fyrirfinnst í annarri hverri borgaralegri fjölskyldu. Þetta: að upplifa að ekki vera heyrður sem barn, að finnast maður vera «eign» foreldra sinna, eða dúkka eins og það heitir hjá Thomas Bernhard í Afmáningu (Auslöschung. Ein Zerfall), að gerast meðvirkur vafasömum gildum og viðmiðum foreldra sem barnið samt sem áður, með einhvers konar grundvallar réttlætiskennd og náttúrulegu gildismati, finnur að eru röng eða viðbjóðsleg; þetta er næstum að skilja sem «conditio humana» fyrir aðra hverja manneskju hins borgaralega lífforms samkvæmt Tuominen. Þær sálrænu víddir sem hér er miðað á hafa ekki haft mestan hljómgrunn á Íslandi (þó vissulega mætti tína til nokkur dæmi í íslenskum bókmenntum en ekki meir um það nú), af þeirri einföldu ástæðu að obbinn af þjóðinni hefur lengst af lifað án hins borgaralega lífforms, (það er það besta við Ísland, bara ef Íslendingar gætu skammast til að skilja þetta) en þó hefur smáborgaraskapurinn sótt í sig veðrið, einkum á síðustu áratugum peningamenningarinnar svo ætla má að tími Bernhards og Kafka sé óðum að síga yfir Ísland og er ekki að sjá annað en helsta andsvar íslendinga gegn sálarmeiðslum smáborgaraskapsins sé að bryðja pillur. Ekki meir um það.

Ég veit ekki til þess að Afmáning sé þýdd á íslensku, en Steinsteypa (Betong) kom út hjá Bjarti fyrir nokkrum árum. Að öllum líkindum má afbyggja það sem ég hef hér lagt í hugtakið «borgaralegt», hér snýst málið vitanlega um sálræn niðurrifsferli, um andlega bæklun sem foreldrar og samfélag sóta inn í afkvæmi sín, og ekki réttlátt að tengja einungis við borgaralegt líf, sjálfsagt má finna slíkt á sveitabæ og sjálfsagt má finna heilbrigt fólk í borgaralegu samhengi, en án generalíseringar komumst við hvergi áfram. Munkurinn sem skrifaði Gísla sögu Súrssonar sýnir mann sem er fórnarlamb samfélags síns, sýnir hvernig gildi og viðmið blóðhefndar- og heiðurssamfélagsins eyðileggja saklausa mannveru, og var engum slísí smáborgaraskap þar fyrir að fara.

Andleg bæklun er tæplega áhugaverð í sjálfu sér, hún er of almenn til þess, það er viðbragðið gegn henni, frumleikinn í því hvernig er slegið tilbaka, sem vekur áhuga. Í þessu samhengi vil ég ræða um tvær gerólíkar stríðsaðferðir, þar sem niðurbældur mannsandi skapar sér olnbogarými, leysir um sína kennd, bítur frá sér, já, þar sem mannsandinn nær að brjóta sér leið út að glugga til að fylla lungun af frísku lofti. Ég vil í þessu samhengi tala um kafkaíska og bernhardíska aðferð. Rétt er að athuga að báðir þessir höfundar voru lungnasjúklingar. Kafka virðist gera sér grein fyrir að um psýkósómatík er að ræða er hann skrifar um hinar vaxandi áhyggjur sem hann hefur af líkamlegri heilsu sinni: «Smávægilegum í fyrstu, öðru hverju örlaði á ugg út af meltingu, hárlosi, hryggskekkju og svo framvegis, þetta færðist í aukana með óteljandi milliþrepum en endaði að lokum með raunverulegum sjúkdómi. Hvað var þetta allt saman? Eiginlega ekki líkamlegur sjúkdómur» (Úr bréfi til föður, þýð. Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson).

Það er þekkt í sálfræðum að andleg innrás, mikil streita eða sorg ræðst gjarna á lungun, andnauð kallast það til að byrja með sem síðan getur leitt til varanlegri sjúkdóma. Öndunin er tilfinningatengd og þröng í tilfinningalífi skilar sér í öndunarþrengslum; psýkósómatík. Það sýnir sig að báðir þessir rithöfundar eru «innvaderaðir» af uppvexti sínum og menningu, en þeir fara hvor sína leið og þróa með sér aðferðir sem eru sérstakar, þó vissulega mætti kalla úrvinnslu Bernhards almennari, engu að síður: andnauðin kemur fram á hverri síðu í bókum Bernhards af þeirri einföldu ástæðu að þar eru ekki ein einustu greinaskil að finna eða kaflaheiti, engin öndun, bara einn stöðugur textamassi sem verður líkt og rökrétt and-svar við þeirri þröng sem sögumaður finnur sig í.

"Kafka er barn."
Meginmuninn í aðferð þessara skálda, eins og ég lít á málið, er að finna í því að Bernhard er fullorðinn meðan Kafka er barn. Bernhard er dæmigerður intellektúell sem hefur brotist út úr húsi hinna smáborgaralegu gilda og lítur yfir lífshlaup sitt og þau gildi sem plantað hefur verið í hann, og þetta gerir hann með tækjum og tólum akademískrar hugsunar. Um leið og hann beitir dáleiðandi og á köflum sposkri endurtekningu er það ýkjustíll hans sem fléttar svo snilldarlega saman gamni og tilvistarlegri alvöru, um þennan stíl segir sögupersóna Bernhards í Afmáningu: «Og ég hef þróað mína ýkjulist til ótrúlegra hæða, hafði ég sagt við Gambetti. Til að gera eitthvað skiljanlegt verðum við að ýkja, hafði ég tjáð honum, einungis ýkjur gera hluti sýnilega…»    

Hér er um að ræða fagurfræði hinna kláru og hreinu tilfinninga. Til að draga óljósa óhugnaðarkennd upp á yfirborðið þarf að ýkja hana, það er markmið með ýkjunum, einskonar psýkóanalýtískur tilgangur, tilraun til að ná andanum, fá yfirsýn til að geta orðað sálræn ónot og hrylling og þarmeð leyst um. Bernhard hatar ekki bara móður sína og föður, bróður og tvær systur á herragarðinum Wolfsegg, hann hatar gervalla hina austurrísku og þýsku, já miðevrópsku, nei alla hina norðlægari Evrópu fyrirlítur hann innvirðulega og útlistar nákvæmlega ástæðurnar fyrir þessum óhugnaði sínum. Hann grípur til sjálfsritskoðunar á köflum, til dæmis finnst honum allt í lagi að kalla hræsnandi systur sínar hlægilegar «En verðskulda þær að vera kallaðar viðbjóðslegar? sagði ég við sjálfan mig. Í slíkri aðstöðu? [þær hafa nýverið sent honum símskeyti er tjáir að foreldrar hans og bróðir hafa farist í bílslysi]…» En hann kemst að þeirri niðurstöðu að maður getur ekki vanvirt sína eigin tilfinningu, systur hans voru bæði hlægilegar og viðbjóðslegar. Hér er sem sagt bæði fullorðinn og lærður maður með háa greiningargetu sem «geisar», maður sem á sínum tíma eygði leið út í gegnum Georg frænda sinn sem einnig hafði gert uppreisn gegn gerilsneyddu hugarfari smáborgaranna á Wolfsegg. Georg er björgunin, gildismat Georgs, andstæða smáborgarahugarfarsins, er haldreipi sögumannsins Franz Josefs Muraus, hann sér í gegnum Georg það sem hann annars myndi aldrei geta gert sér grein fyrir einn og sér. Þetta staðfestir gamla kenningu innan sálfræða, að sameiginlegt fyrir þá sem gera uppreisn er að eiga einhvern fullorðinn að, einhvern sem sér sálarkrypplunina þegar hún er komin á veg, og gerir fórnarlambið meðvitað, frænka með undirhöku sem dillast til þegar hún hlær, bakar pönnsu og sem hlustar á barnið. Georg frændi.

Öllu lengra frá aðferð Franz Kafka er hæpið að komast, og þó ber að nefna að eiginlega er það bara einn þýskur rithöfundur sem sleppur undan að vera stimplaður afþreyingar- og «bréfskipunarhöfundur» í bók Bernhards, svo er að sjá sem Kafka sé hans eftirlætishöfundur. Eins og Alice Miller hefur bent á er heimur Kafka heimur barnsins sem ekki skilur, sem ekki hefur þessa yfirsýn og vitsmunalegu greiningarhæfni sem við sjáum hjá Bernhard. Josef K. veit ekki af hverju hann er dæmdur, veit ekki hvaða glæp hann hefur drýgt, eins og barnið sem hefur misstigið sig í heimi fullorðinna og er refsað án þess að vita af hverju. Gregor Samsa veit ekki hvaða kraftar hrinda í gang umbreytingu hans yfir í pöddu. Undrunin er undrun barnsins. Við fáum hvorki gagnrýni né fjarlægð á böðulinn eins og hjá Bernhard. Kafka er háður böðli sínum og ber óttablandna virðingu fyrir honum eins og barn gagnvart foreldri sínu og rífur sig ekki lausan þó hann hafi í raun alla vitsmunalega burði til þess – jú, Kafka veit, en ekki sögupersónur hans: «það er líkt og það sé ekki nein ákvörðun að baki fæðingu minni, líkt og mér væri stöðugt slengt inn í þetta myrka líf í þessum myrku stofum, og þyrfti stöðugt að færa sönnur á tilvistarrétt minn þar» skrifar Kafka í bréfi til Felice Bauer. Rétt áður orðar hann hatur sitt á þeim sömu stofum rétt eins og Bernhard, en barnið er fast í stofunni, fast í íbúðinni og kemst ekki út. Kafka nær aldrei að opna glugga til að sleppa undan svitadaun föður sem auðmýkir soninn og móður sem passív lætur allt viðgangast og er mest umhugað um hreinar og straujaðar skyrtur. Móðir sem skrifar í bréfi til Max Brod að hún hefði «fórnað sínu hjartablóði fyrir hvert og eitt af börnum sínum,» en ljáði sem sé stráknum aldrei eyra. Hér sigtar Kafka á sömu grunntilfinningu og litar persónu Bernhards, sem skrifar: «Faðir minn hefur getið mig, móðir mín fæddi mig inn í þennan heim, en frá fyrstu stund vildi hún mig ekki, helst vildi hún hafa mig tilbaka inn í maga sinn þegar ég fæddist, ef þess hefði verið kostur». Tilvist beggja er tilvist hins óæskilega.

Ólíkt Bernhard er Kafka aleinn, þar er enginn Georg frændi, hann er bassi langt inn í dimmu bergi. Osip Mandelstam sagði eitt sinn um Dante það sem enginn Evrópumaður hefði getað sagt, nefnilega að «Dante veit aldrei í hvorn fótinn hann á að stíga.» Þarna er styrkur Dantesar að mati Mandelstam. Hinn grípandi styrkur Kafka er sá að hann verður aldrei fullorðinn, kannski sem lesendur greinum við ofbeldið gegn barninu umkomulausa þó persónurnar séu fullorðnar. Og það sem kveikir samúð með persónum hans, hið stóra við Kafka, er að «barnið» sem öðlast hefur empatíu, innlifunar- og greiningarhæfni hinnar fullorðnu manneskju, notar þessa sömu eiginleika – ekki til að leysa sig úr fjötrum átthaganna og koma sér út – heldur til að reyna að skilja böðul sinn og jafnvel réttlæta verk hans: «Sjálfur ert þú í rauninni góðgjarn og blíður maður…Þú getur einungis meðhöndlað barn samkvæmt þínu eigin eðli, með afli, hávaða og bræðiköstum, og í þessu tilfelli þótti þér það sérlega vel viðeigandi því að þú ætlaðir að ala upp öflugan, hugaðan strák þar sem ég var» (úr Bréfi til föður, sama þýðing).

Maður hlýtur að spyrja sig hvort þessi empatíska innlifun í böðulinn sé ekta og raunveruleg hjá Kafka. Tónninn sem miðlar henni, líkt og allir aðrir tónar í rödd hans fá mann ekki til að trúa öðru; endalok hins raunverulega Kafka benda til annars. Maður kemst aldrei til botns í Kafka. Líkt og kemur fram í sama bréfi hefur Kafka metafóruna um skorkvikindið í Hamskiptunum frá föður sínum. Þetta kemur fram þar sem Kafka lýsir því hvernig allt það fólk sem hann hreifst af og hann sagði frá við matarborðið var umsvifalaust rakkað niður af föðurnum, sem líkir einum þessara «á hræðilegan hátt», upplýsir Kafka, við skorkvikindi. Auðvitað liggur uppreisn í Hamskiptunum, sama uppreisnin og hjá Thomas Bernhard. En á andsvarinu er ekki aðeins stigs- heldur og eðlismunur. Í stað þess að nákvæmlega greina og úthúða skorkvikinda-gildismati foreldra, samfélags og menningar, og þar með skapa fjarlægð og jafnvel birta þessar einingar í spaugilegu ljósi, hamast Kafka sjálfur yfir í skorkvikindið. Hann svarar með því að verða það sem foreldrar hans hafa mesta andúð á. Hið mikilfenglega við anda Kafka er það hve uppreisnin er einlæg og tragísk, sú staðreynd að honum þykir það leitt, að hann skammast sín fyrir hamskiptin og er efst í huga hvernig gera megi fjölskyldunni lífið sem léttast eftir að hafa hamast yfir í bjölluna: «hann komst að þeirri niðurstöðu að hann yrði að láta sem minnst á sér kræla fyrst um sinn og auðsýna fjölskyldunni þolinmæði og fyllstu tillitssemi, svo hún fengi afborið þau óþægindi sem hann hlaut nauðugur að valda henni, eins og komið var.» (Þýð. Hannesar Péturssonar). Hér er um að ræða sálrænan veruleika sem er óumflýjanlegur eins og Kafka sjálfur ýjar að er hann talar um slæma heilsu sína, sem að lokum dregur hann til dauða; líkaminn heldur ekki út lengur. Persóna Bernhards er hert og sjálfráða manneskja, sem lætur sér ekki muna um að gefa herragarð ættarinnar til mósaíska trúarhópsins í Vín. Þetta má skilja sem gerning, sem skref í átt að «afmáningu» íþyngjandi barndómssögu; það er, þó ótrúlegt megi virðast, útleið hjá Bernhard.

Hin tilvistarlega þverstæða sem Kafka svo kurteislega birtir í ívitnuninni að ofan er vitanlega sú að þessi umhugan fyrir fjölskyldunni, þessi grensulaust sjúklega meðvirkni, er einmitt það sem hefur framkallað hamskiptin. Það er sem Kafka, eftir að hafa áttað sig á þessu, hvenær sem það nú var, herði takið á fínstraujuðum dúkum móðurinnar og vilji ekki fyrir sitt litla líf sleppa, hann óttast eitthvað annað og verra ef hann fer út og fer að lifa á eigin forsendum og eftir eigin gildismati líkt og Bernhard. Kafka lýsir því hvernig faðir hans læsti hann sem barn úti á svölum: Það er sem veröldin fyrir utan íbúð fjölskyldurnnar séu einar allsherjar svalir þar sem kuldi og einsemd drottna.

Hjá Thomas Bernhard er félagi sem hlustar og hlær við, sem klappar á öxl. Lesandi sem hlær við er hann les Afmáningu verður að þessum sama félaga; rödd bæklunarinnar finnur sér félagsskap. Hitt er svo að Bernhard lýsir því hvernig hans sögupersóna leitar til alþýðufólksins í nærliggjandi þorpi og finnur þar hið nauðsynlega mótvægi smáborgaradrullunnar: «Ég hef alltaf laðast að einföldum manneskjum, hafði ég sagt við Gambetti. Hjá þeim og bara hjá þeim leið mér vel. Þau áttu alla mína samúð» segir Muraus í Afmáningu. Persónur Kafka eiga sér aldrei málvin. Það er manneskja sem hefur þagað alla ævi um sínar stærstu tilvistarspurningar og tilfinningar sem skrifar í bréfi til Felice Bauer: «Kæra mín, ég vil nefnilega mjög gjarna lesa upphátt, að geta hrópað inn í spennt og eftirtektarsöm eyru áheyrenda…» Alice Miller tekur þetta sem dæmi um barnið Kafka sem aldrei nokkur maður ljáði eyra. Ef til vill mætti tala um þetta sem innleitna og og útleitna aðferð, eða norður og suður-evrópska, þar sem Bernhard væri augljós fulltrúi hins síðarnefnda. Geisun, væri annað orð yfir Bernhard, meðan Kafka væri göfguð bæling.  
Ef við nú tosum þessa umræðu yfir í það sem kalla mætti sálrænan veruleika, þá á hin kafkaíska aðferð sér fylgifisk sem kalla mætti uppgjöf (e. resignation), það er engin útleið og enginn gerningur mögulegur sem getur breytt ástandinu. Það er ástandið sjálft, sjúkdómseinkennin, sem eru í brennidepli. Hér dettum við því niður á allt aðra fagurfræði hvað varðar tilfinningar en hjá Bernhard, hér snýst málið um að útmála hinar óræðu og skuggalegu hliðar sálarlífsins og fyrir alla muni ekki komast til botns eða eygja leið út, hvað þá skapa yfirsýn. Sem lesandi heillast maður af þeim klárleika sem ríkir í útmálun sjúkdómseinkennanna, og sem lesandi segir maður bæði aha, ég veit hvað þú átt við, og hitt: takk fyrir að segja þetta fyrir mig. Hér ræður þunglyndið ríkjum, og þá vil ég beina sjónum að þeirri merku uppgötvun sem ég hef gert á mínum ferli sem lesandi, nefnilega að ég verð að jafnaði glaður og léttlyndur af að sjá hina kafkaísku aðferð. Ég verð beinlínis kátur af að lesa stærsta bölsýnismann heimsbókmenntanna Giacomo Leopardi, og mér líður vel með að lesa eitt mesta bölsýnisskáld seinni tíma á Norðurlöndum, Tor Ulven. Og Kafka, þvílík gleði. Ég sagði að jafnaði, en þetta tel ég að sé mun vandmeðfarnari aðferð en hin útleitna aðferð Bernhards. Það má ekki greina snefil af sjálfsvorkunn í þessari aðferð, það ríður öllu að fullu, og gott ef ekki er alger forsenda að hafa húmor í bland, sem einskonar hönd til að halda í. Undrun.

Nú er það mín tilfinning, að hin kafkaíska aðferð eigi sér meiri hljómgrunn á Íslandi, þó samfélagslegar aðstæður hafi eins og sagði, verið afar ólíkar fram að síðari tímum. Merki Thomas Bernhard hefur hinsvegar verið haldið mjög á lofti til að mynda hér í Noregi, nægir þar að nefna ýkjufullar menningargagnrýnisbækur Thure Erik Lunds, og ekki síður hefur Bernhard (að þeirra eigin sögn) haft mikil áhrif á Thomas Espedal og Karl Ove Knausgård, báðir höfundar sem hafa haft hið sjálfsævisögulega í fyrirrúmi í síðustu bókum sínum um leið og þar finnst óvægin gagnrýni á fólk og menningu. Byltingin hjá Knausgård er vitanlega sú, að hann skrifar um raunverulegar persónur, um sína eigin fjölskyldu og vini, og ekki skáldað persónugallerí líkt og hefur verið einkenni skáldsögunnar.            

Bergsveinn Birgisson     
   

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.