miðvikudagur, 14. mars 2012

Spennan meðan á gluggaveðrinu stendur og pælingar um Vetrarsól eftir Auði Jónsdóttur


Glæpaborgin Reykjavík í gluggaveðri
Lóumánuður hlýtur að vera kominn til ljóða en enn á eftir að vora, því sjóarinn getur ekki farið mikið út á haf þessa daga. Leiðinlegt. Samt reynir maður alltaf að eiga net í vatninu … kannski veiðist fallegur silungur undir ísskorpunni ... sennilega bráðum. En satt að segja hef ég ekki mikið pent að blogga um bókmenntalífið mitt nema kannski um tæknilegar viðgerðir á eigin ljóðum, síhamrandi á nýjum þjölum og bla bla bla ... ég hef ekki haft mikinn tíma til að lesa skáldskap þessa dagana, ekki nema til að fást við eigið dót.

En engu að síður átti ég um daginn að senda skýrslu um síðustu skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Vetrarsól. Þannig að sem betur fer hef ég eitthvað að segja... Já, ég kunni mjög vel við bókina. Fyrstu viðbrögðin mín voru ekkert merkilegt en svo kom stíllinn mér á óvart. Skáldsagan lítur út fyrir að vera einhvernveginn einföld þannig að ég bjóst ekki við að hún myndi flækjast. Fór að lesa hana sem afþreyingarbókmenntir en hún er miklu meira, hún er líka býsna vel gerð. Bókin er auðveld og lipur að lesa en samt er uppbyggingin margbrotin og sagan reynist tæknilega áhugaverð.

Orðavalið hafði samt vakið athygli mína frá byrjun. Setningar og viðburðir eru yfirleitt á hversdagslegu máli og Auður tjáir þau á eðlilegan og léttan hátt. En þrátt fyrir þennan hversdagsleika eru orðin sem hún notar fersk, kjötmikil og safarík. Sum lifandi tungumál eru þannig að í þeim er mikið bil á milli mismunandi notkunarhátta og stéttamállýskna. Og íslenska er þannig á sinn eigin hátt. Ég meina, hún er ekki með hroðalega lágt málsnið eða með gruggug klíkumál einsog enska eða spænska á vissum skuggalegum borgum ... samt sem áður er íslenska með bókmenntamál sem fjarlægist mikið daglegu orðalagi. Það er miklu fornlegra og formal, stundum jafnvel einsog um tvær mállýskur væri að ræða.

Annað gildir samt um þýdda texta. Þar reynir þýðandinn oft og tíðum að tjá eðlilega hversdagslega málið á ekta frónskan hátt, því þýddi textinn á að hljóma einsog hann hefði verið frumsaminn á íslensku, já... eða nei... því textar sem maður les í útlenskum kvikmyndum eða sögum eru ekki einsog sú íslenska í lifandi notkun. Og þó að setningar séu hversdagslegar finnast þar orð og máltæki sem aldrei heyrast á barnum eða í bakaríinu. Reyndar er skemmtilegt að sjá hvað orðavalið í íslenskuðum textum getur verið verulega vandaðra en í þeim frumsömdu. Slík voru viðbrögðin mín þegar ég byrjaði á Vetrarsól. Mér fannst einsog hún hefði verið samin á útlensku og svo þýdd á íslensku.

Sagan í Vetrarsól hefði verið ósköp venjuleg saga um líf konu sem vinnur á bókaforlagi og er að pæla mikið í fortíð sinni og framtíðarvonum, því hún sé ekki lengur ungur ábyrgðarlaus námsmaður... nema hvað að brátt birtast nokkrar sakamálakenndar uppákomur sem snúa sögunni við... Ég vil helst ekki tala mikið um söguþráðinn enda vil ég ekki spilla lestrinum en svona var bókin auglýst hjá útgáfunni:

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir Arndísi Theódórsdóttur, hún sást síðast við Korpúlfsstaði síðastliðinn föstudag… Sunnu bregður í brún þegar hún sér tilkynninguna á netinu. Hún á bágt með að einbeita sér að glæpasagnanámskeiðinu sem hún á að sjá um því minningarnar frá samveru þeirra Arndísar í Barcelona sækja á hana. Auk þess eru jólaannir á forlaginu og lítill tími til að leita að týndri vinkonu. Ekki bætir úr skák að Axel sambýlismaður hennar er endalaust veðurtepptur á Ísafirði og Sunna er ein með tíu ára syni hans sem hún þekkir lítið. Þegar hún verður vör við að þrír framandi menn veita henni eftirför er engu líkara en að líf hennar sjálfrar sé að verða að glæpasögu…

Þetta hefði líka verið frekar venjuleg sakamálasaga nema hvað að söguhetjan er ráðvillt kona með hugann við þá vinnu og fjölskyldu sem hana langar að skapa. Ekki sérstaklega hrifin af sakamálum ...

En hvað vildi ég sagt hafa. Sennilega er ég alltof saklaus til að tala um krimma (já ég tel bókina vera krimma því hún var auglýst sem krimmi). Einhverra hluta vegna hef ég svosem aldrei lesið krimma. Hef ekki heldur sótt til norrænna glæpasagna. Sú eina sem ég hef lesið er ein frá menntaskólaárum og gerðist á tímum Rómaveldisins (Tár Aþenu eftir J. Borrell ef ég man rétt). Annað sem ég gæti talið upp væru kannski Fimm-bækurnar hennar Enid Blyton ef telja má þær innan hóps glæpasagna... Sennilega ekki, en þær snúast a.m.k. alltaf um glæpi einhverra bófa.

En einsog góður akademíker las ég einusinni grein (yeah!) Þetta var einungis lítil grein í menningarbálki einhvers útlensks dagblaðs, en hún var fremur fróðleg. Þar var fjallað um að norrænir krimmar kæmu manni á óvart vegna þess að þeir gerðust í umhverfi þar sem ekkert virðist gerast, á slóðum þar sem óreiða eða ofbeldi virðast eiga sér lítinn stað. Þeir eru ekki einsog hættulegu göturnar í stórum bandarískum borgum, á torfærum leynivegum smyglara eða á dögum stóru mafíósanna... Reyndar virka sum krónótóp þannig að sakamál eru óhjákvæmilegt mál, en ekki í dæmigerðri ímynd norrænna landa. Umhverfið bindur þar slík skilyrði að skáldskaparátakið getur ekki gert úti á senuna heldur gerist inni í huga persónanna. Þannig að norrænar glæpasögur virðast gerast að stórum hluta í hugrenningum. Þær eru mjög síkólógiskar og atburðarásin þróast með frekar sálrænum hætti.

Þar að auki virðist annað einkenni vera að sögurnar líta alltaf til samfélagsins í leit að útskýringum, þær vilja einhvernveginn finna hvað hefur valdið glæpum í félagslegu samhengi. (Kannski einhverskonar viðhorf sem liggur á milli mórals og norræna sósíalismans?)

Ég efast ekki um að það sé mikill munur milli Vetrarsólar og dæmigerðu bókanna í þessari bókmenntagrein (sem ég eiginlega þekki ekki) en þetta tvennt sem ég hafði lesið um kemur fyrir í Vetrarsól og þess vegna fór ég að hugsa um greinina (ætli ég hafi lesið hana í El País?).

Í þessari skáldsögu Auðar eru ekki mörg æsandi atvik, heldur einhver “heppilega óheppileg” blanda af ólíkum persónum og kringumstæðum sem skapa óvenjulega spennu. Ég las satt að segja meirihluta bókarinnar með því hugarfari að velta fyrir mér hvort það væri alvöru glæpur í sögunni. Kannski væru vissar persónur reiðubúnar til að fremja eitthvað ólöglegt, en í lestrinum var ég að spyrja mig frekar um hvernig persónurnar myndu haga sér saman í þeim kringumstæðum sem Auður býr til fyrir þær.

Lífið reynist vera alltof flókið í augum Sunnu (aðalpersónunnar) til þess að vilja komast inn í veruleika glæpasagna. Mannleg sambönd eru núþegar nógu erfið til að hún fari að leita sér að frekari flækjum ... en því meira sem maður les í bókinni gerir maður sér grein fyrir því að þar felast líka daglegir glæpir sem að öllu samanlögðu eru ekki verri en þeir glæpir sem móta stöðluðu bókmenntagreinina. Því meira sem maður les söguna kemst maður líka í tæri við siðferði og siðfræði sem eru mjög persónubundnar. Hver og einn er jafn mikill glæpamaður og hann telst vera. Reyndar man ég ekki eftir því að í bókinni sé talað um neitt atriði sem eitthvað saknæmt eða sem einhvers sem af illri nauðsyn krefst refsingar. Afleiðingar athafnanna eru ekkert meira (og ekkert minna) en fylgikvilli þess sem gerist eða hugardrama um hvað gæti gerst næst.

Af markaðnum í Barcelona
En það sem ég naut mest í lestrinum var uppbygging sögunnar. Á yfirborðinu lítur hún út einsog hún sé komin upp úr venjulegri sjónvarpsþáttarröð, en það sem vakti áhuga minn var hvernig hún flækist.... Sagan gerist á fáum dögum, á meðan á allegorísku gluggaveðri stendur, og það sem virðist vera vanagangur á sínum tilheyrandi stað breytist í óreiðu og allt gengur á afturfótunum. Sunna, aðalpersónan, verður ekki lítið ráðvillt og þarf að fylla í eyður nútímans með fortíð sinni. Þetta eru nefnilega skiptinámsdagar hennar í Barcelónu. En fortíðin birtir jafn margar upplýsingar og nýjar ráðgátur, þannig að forvitnin og “vitneskjuspennan” vara í gegnum bókina alla. Söguþræðir og atriði þessara tveggja tímalína tengjast smátt og smátt saman og sagan flækist með laumuspili sem var vel undirbyggt frá byrjun. Auður kann greinilega að púsla sögum saman.

(INNSKOT: Ég verð samt að viðurkenna að ég sé ekki fyrir mér hvernig eða af hverju Sunna fer að hugsa um typpi fyrrverandi kærastans eftir að hafa séð dauða mús... kannski er hér um menningar gap hjá mér að ræða? því bókmenntafræðilega virkaði þetta atriði vel fyrir söguna en ekki fyrir rökhugsunina mína... vantar mig einhverja reynslu í lífinu (eða í typpafræði) að skilja þetta?...)

Barcelónudagarnir koma falinni Sunnu í ljós fyrir okkur. Það var sniðugt hjá Auði að fá aðalpersónuna til að fara í skiptinám og láta vandamálin mæta til sögunnar, láta þau þróast og batna í nýju umhverfi... en líka flækjast. Fortíðarkaflar fylla í margar eyður nútímans en Sunna er persóna sem þótti mér þrátt fyrir allt mjög erfitt að skilja. Hún er alveg rökræn í ráðleysi sínu en kom mér sífellt á óvart... Ég skil ekki vel af hverju hún tekur þær ákvarðanir sem hún tekur. Hún er einkennilega mótstöðulaus og næstum rótlaus einsog þangið... en hugleysið kemur henni á slíkar villigötur að hún þiggur vitlausar úrlausnir á djarfastan hátt... það ruglaði mig smá, en þetta var einmitt það sem mér þótti svo áhugavert við hana.

Persónulega þykir mér ekki svo auðvelt að lesa neina sögu um unga námsmenn sem fara með Erasmus-prógraminu til Barcelónu og la la laaaa... Sjálfur hef ég verið Erasmus og búið og lifað ýmislegt með Erasmusarrindlum á ári hverju síðan 1999. Og ég fæ ekki fáa fordóma um slíkar sögur eftir L’auberge espagnole eða ótal dæmi af persónum einsog í La tesis de Nancy hans Sender eða í tilraun Woody Allens í Vicky Cristina Barcelona... Þetta eru nú hættulegar klisjur fyrir rithöfunda... en af einhverjum D-vítaminskorti virðast bæði höfundar og lesendur/áhorfendur vilja alltaf hafa þær í sögunni.

Auður gerir það ekki og ég er henni því mjög þakklátur. Aðalpersónan er eiginlega alltof einkennileg til þess að lifa dæmigerðu  Erasmus-lífi í “livin’ la vida loca”-stuði, og nógu menntuð til að ekki rugla menningu á öðrum slóðum við klisjukenndan skilning. Ég meina, klisjur eru hluti af bókmenntaskrifum, en munurinn er hvað maður gerir með þær og hlutverk þeirra í þróun sögunnar. Hér einsog í nútíð sögunnar snúast atburðir frekar um óvenjuleg sambönd, ósagða hluti og áhrif þeirra. Það gerðist í skiptinámi í Barselónu... en mikilvægustu atriðin gætu líka hafa gerst í einhverri vinnudvöl í Köben... eða ef til vill á Akureyri.

Nú sem ég hugsa um hana aftur reynist Sunna ekki vera svo flókin. Hún þróast á rökrænan hátt og eftir að hafa lesið alla þessa kafla í fortíð hennar og fengið að vita meira og minna hvaðan persónan kemur, þá er sæmilega hægt að skilja nútíðina og endi bókarinnar... en hmmm... ég að viðurkenna að þegar ég var rétt að klára bókina bjóst ég við fleiri blaðsíðum þar sem Sunna segði meira frá sér, 10 til viðbótar um fortíðina og 10 um nútíðina... en svona er sagan. Sennilega myndi jafn mikið útskýrt og óskýrt bætast við með aukasíðum. Og engin persóna myndi verða ábyrgari eða saklausari með því.

Áhugaverður punktur hjá Auði er að hún rammar söguna að hluta til í metabókmenntum. Einsog sagt var er bókin sjálf óvenjulegt krimmadæmi. En þar birtast líka smá sýnishorn af forlagaheiminum og pælingum í krimmaskrifum. Einnig lætur Auður persónur sínar ræða um bókmenntagreinina á dálítið misheppnuðu krimmanámskeiði. Hún gerir líka grín af jólabókaflóðinu og streitu í útgefendabransanum. Bókin er þá að nokkru leyti satíra en samt ekki tilgerðarleg, gróf eða með gagnrýnandi látalæti. Ýkjur myndu ekki passa vel við kímni þessarar bókar.

Vetrarsól er verk þar sem öll tæknileg atriði eru vel ofin saman: tungumálið, persónur, umhverfið, söguþræðir, leiðarminni... Þannig að sagan passar vel við sig sjálfa, varðandi stílinn og líka varðandi hvað hún er og hvar hún var gefin út.

Skondið er að finna stað þar sem krimmar virðast vera óhugsanlegir en samt vilja allir skrifa (og meira segja lifa) glæpasögu, merkilegt að til séu forlög sem lifa af glæpasagnaútgáfunni og kaldhæðið að Sunnu virðist óhjákvæmilegt að eiga að skrifa krimma og meira að segja lifa einn slíkan þótt hún vilji það síst.

Vetrarsól er bók sem ég myndi mæla með við flesta. Sagan snerti mig ekki svo mikið, en bókin er mjög vel gerð og því meira sem ég tala um hana, því betur kann ég við hana. Uppbygging sögunnar er klók og mér fannst líka gaman að lesa bók sem leikur sér með bókmenntagreinar, sem er hvorki fugl né fiskur en samt eitthvað miklu meira gefandi. Auður notar bókmenntaklisjur með kímni og þó að hún leiki sér með mest seldu bókmenntagreinina snýr hún sögunni við og kemur með enga huggun að loknum lestri.

Sjálfum fannst mér heppilegt að finna í þessari bók eitthvað örvandi í hversdagsleikanum því gluggaveðrinu ætlar aldrei að linna.

Elías Knörr



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.