Jæja,
það er best ég noti tækifærið hér til að ljóstra upp um bókmenntalegt blæti.
Sýna mitt elítíska innræti.
Í viðtali sem ég las við spánska rithöfundinn Eduardo Mendoza fyrir allmörgum árum sagðist hann ekki eiga neinar bækur, hann hefði ekki þörf fyrir að eiga þær, enda hefði hann hvergi fasta búsetu. Hann las mikið en skildi bækurnar venjulega eftir á hótelherbergjunum þar sem hann gisti. Sennilega er þetta mér minnisstætt af því að skömmu eftir lestur þessa viðtals flutti ég frá öllum bókunum mínum, þær urðu bara eftir í sínum hillum. Það var ekki erfitt, þvert á móti var það léttir og ég hef aldrei endurheimt bókasafnarann í mér, ég þarf ekki að eiga allt sem ég les, ekki einu sinni það sem mér finnst frábært. Samt hefur auðvitað safnast eitthvað af bókum í kringum mig, auk þess sem ég endurheimti löngu síðar hluta af mínu yfirgefna bókasafni.
Ég pakkaði flestum
bókunum mínum í kassa í hitteðfyrra og kom þeim fyrir út í bílskúr heima hjá
foreldrum mínum, við vorum að flytja til Danmerkur og ég treysti mér vel til að
vera án þeirra í nokkur ár. En auðvitað erum við ekki bóklaus. Við tókum nokkra
kassa með okkur hingað, aðalega barnabækur handa strákunum, Rikke konan mín tók
eina hillu af bókum sem henni þykir vænt um, ætli ég hafi ekki tekið þrjár eða fjórar.
Hillur. Hvaða bækur voru það sem mér fannst ég ekki geta verið án?
Sumar eru einhvern
veginn óhjákvæmilegar, litla kápumjúka úrvalið af ljóðum Jónasar sem hægt er að
stinga í vasann. Brúnirnar eru svolítið tættar eftir fuglsgogg, sem gefur til
kynna að ég hafi eignast hana á aldrinum átta til fjórtán, meðan ég átti
páfagauk. Ég hlýt að hafa fengið hana í fermingargjöf.
Gamla, upplitaða
vasabrotsútgáfan af verkum García Lorca er líka augljós kostur, það væri bara
eitthvað skrýtið við að skilja hana eftir, nema reyndar þriðja bindið,
leikritin, þau máttu verða eftir á Íslandi. Fá ein ljóð Sigfúsar Daðasonar hef
ég af einhverjum ástæðum aldrei skilið við mig, heldur ekki þegar ég flutti frá
bókunum mínum.
Ef ég ætti ennþá
múmínálfabækurnar hefði ég tekið þær allar með – ég er reyndar að lesa síðustu
múmínálfabókina einmitt núna, þá sem aldrei kom út á íslensku. Seint í
nóvember, heitir hún, svo tregablandin að hún gæti verið eftir Gyrði Elíasson.
Í fullri alvöru. Og vel á minnst, Gyrðir. Ég lét úrvalið bara ráðast þegar ég
var að pakka og komst að því að mér þykir betra að hafa hans bækur við höndina,
sennilega er hann sá höfundur sem á flestar bækur á hillunum okkar hér í
Danmörku. Mér finnst alltaf ég eiga eftir að kíkja betur í þessar bækur hans.
Sömuleiðis finnst mér
betra að hafa bækur Óskars Árna og Braga Ólafs við höndina. Mér þykir vænt um
þá, það er líka þess vegna. Keppinautur Gyrðis um flesta titla er Julio
Cortázar, argentínskur rithöfundur sem allir ættu að þekkja. Ætli ég hafi ekki
átt nánast allar hans bækur einu sinni.
Þetta átti nú ekki að
vera tæmandi listi og nú er best ég komi mér að efninu, tilefninu. Skrítnustu
bækurnar til að þvælast með milli landa – og ekki í fyrsta sinn – eru nokkur
helstu verk spænska barrokkskáldsins Luis de Góngora, sem dó árið 1627 – það er
auðvelt að muna það af því að spænsku ljóðskáldin sem kölluðu sig 27-kynslóðina
kenndu sig einmitt við 300 ára árstíð hans sem haldin var hátíðleg í Sevilla
árið 1927.
Luis de Góngora. Ég
kynntist honum fyrst þegar ég var í háskóla á Spáni að læra fílólógíu en hafði
heyrt hann nefndan í sambandi við einmitt 27-kynslóðina, García Lorca og
félaga. Góngora sendi ekki frá sér bækur, enda fór dreifing ljóðlistar á
sextándu og sautjándu öldinni á Spáni mikið fram gegnum uppskriftir og
lausblaðaútgáfu; en þótt það kæmi næstum ekki neitt á prent eftir hann í
lifanda lífi var hann eitt þekktasta skáld sinnar tíðar, stórskáldin þrjú á
gullöld spænskra bókmennta voru Góngora, Lope de Vega, sem var gríðarlega
afkastamikið ljóðskáld þótt hann sé nú á dögum þekktastur sem leikskáld, og svo
fjandvinur Góngora, Francisco Queveda.
Af þessum þremur var
Góngora sá umdeildasti. Hann var frumkvöðull og helsti fulltrúi þeirrar gerðar
skáldskapar sem var kallaður culteranismo
og einkennist af miklum setningafræðilegum, orðstofnafræðilegum og málfarslegum
áhrifum frá latínu, auk þess sem tilvísanir í grísk-rómverska goðafræði eru
meginstoð í skáldskaparmálinu frekar en skraut. Kveðskapur Góngora spannar
skalann frá léttum þjóðvísnalegum frásagnarkvæðum yfir í einhvern þann
torræðasta kveðskap sem ég hef komist í tæri við, kveðskap sem minnir að mjög
mörgu leyti á dróttkvæði.
Rómönsurnar hans eru
kannski, á heildina litið, það tærasta sem hann orti, þetta eru frásagnarkvæði
undir alþýðlegum bragarhætti en menntuð skáld einsog Góngora tóku að vinna með
þessa hefð og fága hana eftir að farið var að safna þjóðkvæðunum úr munnlegri
geymd. Samt er ýmislegt satirískt efni í rómönsum Góngora sem þarfnast skýringa
á umgjörð og samtímatilvísunum til þess sé hægt að botna í því.
Það gildir enn frekar um
annan flokk kvæða af þjóðlegum meiði, letrillas,
sem eru húmorístísku kvæðin hans og margt mjög skemmtilegt þar, útsmogið klám
og hárbeitt gagnrýni. Sonnetturnar hans eru af ýmsu tagi en einkennast þó
af þeim stíleinkennum sem oftast eru
tengd við Góngora: sterkri tilhneigingu til að brjóta upp hversdagslega orðaröð
(samanber dróttkvæðin), myndmáli sem krefst mikils af vitsmunum og útsjónarsemi
lesandans og gengur að því sem vísu að hann sé útfarinn í grísk-rómverskri
goðafræði (líkt og dróttkvæðin reikna með því að við séum með allt á hreinu í
okkar norrænu) og mjög mörgum nýyrðum dregnum af latneskum rótum, miklu fleiri
en við kannski áttum okkur á í dag, því að mörg af nýyrðunum sem Góngora bjó
til öðluðust framhaldslíf í tungumálinu og eru löngu hætt að stinga í stúf.
Þessi sömu einkenni eru
svo enn meira ríkjandi í lengri kvæðum Góngora. Þar má fyrst nefna Fábula de Polifemo y Galatea, 63 erinda
frásagnakvæði ort undir hættinum octava
real upp úr goðsögu sem Óvid rekur í Ummyndunum
sínum, um risann Pólífemo sem verður ástfanginn af stúlkunni Galateu. Þetta
kvæði einsetti ég mér einu sinni að þýða, var meira að segja svo grófur að
gorta af þeirri ætlun minni við Dag Sigurðarson. Dagur var þá nýbúinn að bjóðast
til að leggja mér lið við að þýða Residencia
en la tierra, tyrfnustu bók Pablo Neruda. („Þú
gerir bara einsog pabbi segir” var hans tillaga að samvinnugrundvelli. Ég var
sáttur við það og hefði betur drifið í því að byrja.) En þegar ég minntist á
draumsýn mina um að þýða Polifemo og Galateu hristi hann höfuðið og sagði
eitthvað ógleymanlegt sem ég man ekki hvað var. Maður kom ekki að tómum kofunum
hjá Degi.
Ég hef verið að lesa
þetta kvæði annað veifið í meira en tuttugu ár, og er ekki slæmur í spænsku, en
þó næ ég aldrei í gegnum sérlega margar línur án þess að þurfa að glugga í
skýringarnar. Kvæðið er erfitt að vinna sig í gegnum en hljómurinn er
stórkostlegur og myndirnar sem Góngora tvinnar saman og flækir af sinni miklu
list eru gríðarlega fallegar og mjög skýrar þegar þær ljúkast upp fyrir manni.
Það er sérstök nautn því að leysa þessar þrautir hans, ráða þessar krossgátur.
Polifemo og Galatea er
þó mun aðgengilegri kveðskapur en frægasta verk Góngora, bálkurinn Soledades, sem er ortur undir frjálslegum
hætti sem heitir silva; þetta er
mikið kvæði (rúmar 2100 ljóðlínur) sem átti
að vera í fjórum hlutum, táknrænum fyrir fjögur stig mannsævinnar og
árstíðirnar fjórar, en Góngora náði ekki ekki að setja punktinn aftan við annan
hlutann. Í upphafi kvæðisins rekur á land skipbrotsmann, sem við fáum lítið að
vita um þótt hann sé aðalpersónan. Í fyrsta hlutanum, kynnist hann geitahirðum,
lífi þeirra og tilveru, og í öðrum hlutanum kynnist hann fiskimönnum og þeirra
stússi. Annað gerist í rauninni ekki, nema hvað orðin syngja sitt fegursta og í
myndmálinu gengur á með látlausum brilljans. En þetta er torf, það verður bara
að viðurkennast, nánast óskiljanlegt á köflum, jafnvel með bestu skýringum. Og
það er ekki bara tíminn sem liðinn er frá ritunartímanum sem veldur þessu,
strax og kvæðið fór að ganga manna á milli í uppskriftum ráku smekkmenn upp
ramakvein yfir því hvað það væri tyrfið og illskiljanlegt.
Ég hef aldrei klárað
Soledades. Sprakk á limminu einhvern
tíma snemma í öðrum hlutanum, á sínum tíma, einhvern tíman upp úr miðjum níunda
áratugnum, en hef grautað í kvæðinu síðan, byrjað á því oftar en ég hef tölu á.
Era
del año la estación florida. Þvælst um fyrsta hlutann og beðið eftir
góðu tómi til að taka verkið allt föstum tökum. Skyldi ég eiga eftir að gefa
mér það tóm?
Ég er alla vega
viðbúinn, með bókina hjá mér, sjöhundruð blaðsíðna kilju í útgáfu Robert
Jammes, sem er mun betri og ýtarlegri en hin útgáfan sem ég á. En hvað er ég
eiginlega að gera með þetta rit? Ég sem er búinn að gefa upp á bátinn fullt af
fínum bókum sem ég veit að ég ætti að lesa, og sem ég á jafnvel eintak af, bara
af því ég veit að ég þarf að hafa fyrir þeim og nenni því ekki. Hvers vegna
held ég tryggð við Góngora?
Jú, svarið barst mér í
bókablaði Information núna á föstudaginn. Þar var umfjöllun um fyrirbærið kúlthöfunda
sem ég renndi yfir. Punkturinn sem hitti mig fyrir kom í tilvitnun í
gagnrýnandann og ljóðskáldið Lars Bukdahl: „I
virkeligheden er den fineste kult vel den, som kun består af mig selv og den
forfatter jeg kan lide. Der er kun mig, er har fået øje på denne ene digter.”
Góngora er hinn
fullkomni kúlthöfundur fyrir mig, kúlteranistinn sjálfur. Hann er stórskáld, ég
þarf ekki að ala á neinum efasemdum um að „minn maður” standi ekki undir máli,
en það þekkir hann enginn, alla vega enginn sem þekkir mig – hann er nánast
ekkert þýddur á erlend mál, það hefur ekkert upp á sig, og þótt spænska sé
orðinn útbreiddari á Íslandi en þegar ég lærði hana þýðir það ekki að spænsk
barrokkskáld séu á mikilli siglingu um íslenskan hugarheim og þá ekki sá
tyrfnasti af þeim öllum, minn Góngora, my
precious.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.