fimmtudagur, 8. mars 2012

(Marg)Endurtekið efni


Ein erfiðasta þraut margra foreldra sem lesa fyrir börnin sín ung, er að sannfæra afkvæmið um kosti þess að lesa aðra bók í dag en þá sem lesin var í gær og fyrragær og síðustu þrjár vikurnar þaráður. Auðveldasta aðferðin felst í því að bjóða uppá lestur úr bók sem lesin var nítíu sinnum í beit fyrir hálfu ári eða svo, og vona að maður sleppi með tuttugu lestra í þessari törn. Smámsaman, eftir því sem börnin eldast, verður þessi þraut léttari, þau verða opnari fyrir nýjum bókum með nýjum myndum, nýjum hetjum og ævintýrum, upplesaranum til ómældrar andlegrar upplyftingar.

Öðruhvoru eru kynnin af gömlum kunningjum og uppátækjum þeirra rifjuð upp einsog vera ber, en heimsóknirnar verða strjálari og staldrað skemur við á hverjum stað en áður, bara rétt nógu lengi til að sannfærast um að allt sé enn í sómanum í Skarkalagötu og að vináttan milli Stubbs og stórubræðra hans standi enn óhögguð. Loks er svo komið, að maður getur næsta auðveldlega vikið sér undan flestum kröfum um endurtekningar með því að stinga uppá einhverju lesefni öðru (ef manni sýnist svo, sumar bækur má jú lesa milljón sinnum leiðalaust – en það eru því miður ekki alltaf bækurnar sem börnin velja), ekki síst ef leyfi til að fletta í bók að eigin vali að húslestrinum loknum er veitt í kaupbæti.
           
Þörfin fyrir – eða löngunin í – allt að því eilífa endurtekningu hins sama er hinsvegar hvergi nærri horfin þegar þarna er komið ævinnar. Börn hætta kannski að bögga foreldra sína með slíkum kröfum á endanum, en bara af því að þau eru orðin fær um að lesa sínar uppáhaldsbækur sjálf, hvenær sem þau langar til, aftur og aftur og aftur. Og aftur. Þetta er sjálfsagt ekki algilt, en algengt er það. Sú er að minnsta kosti von mín, því annars bætist enn í skrítimennskueinkennasafnið hjá sjálfum mér, og má ég síst við slíku. Verandi yngstur fjögurra systkina (og alræmdur bókabéus að auki og fékk því oftar en ekki bækur í afmælis- og jólagjafir) bjó ég nokkuð vel að bókum í æsku. Og ég las auðvitað allar þessar bækur. Flestar þeirra las ég síðan aftur. Og aftur. Og – já, þið vitið.

Kalli kaldi og Túlipanahótelið var lesin í tætlur. Lína Langsokkur líka, og Grímur Grallari og MillýMollýMandý. Frank og Jói, Múmínálfarnir, Nancy, Kim, Bob Moran, Fimm Dularfull í Ævintýrum, Tom Swift, Njósnaþrenningin, Ævintýri Æskunnar, Tarzan og Prins Valíant, svo fátt eitt sé nefnt. Það var eiginlega alveg sama hvaða bækur þetta voru, ef það var nokkuð minnsta gaman af þeim voru þær marglesnar. Þetta breyttist nokkuð á unglingsárunum, með hægt vaxandi þroska og svolítið öðruvísi bókmenntum. Maður hélt áfram að lesa og endurlesa, en ekki allt og ekki alveg jafnoft – með undantekningum þó.

Höfundar á borð við Alistair MacLean og Hammond Innes og Agöthu Christie, að ógleymdum Sven Hassel, tóku við af Astrid og Tove og Ole Lund. Ekki sérlega góð skipti, ég veit, en shit happens. Hvað um það, endurlestrunum fækkaði semsagt töluvert á þessu stigi í það heila tekið.

Sá höfundur hvers heim ég heimsótti hvað oftast í mestu gelgjunni var án efa Sven Hassel, sem mér fannst í senn alveg óskaplega fyndinn og stórmerkilegur höfundur (ég sagði „hægt vaxandi þroska“ hér að ofan) og hef enga tölu á því hver oft ég fylgdi honum í stríðið. Hins vegar var MacLean hvorki fyndinn né merkilegur, heldur bara rétt mátulega spennandi til að duga í þetta tvær, þrjár yfirferðir, einsog kollegar hans Innes og Bagley og hvað þeir nú allir heita. Bækur Agöthu var auðvitað bara hægt að lesa einusinni, þar sem allt gengur útá lokalausnina og lítið þangað að sækja eftir að hún er fengin, og þetta gilti um fleiri.

Í fjölbraut gerðist ég enn sértækari, æ færri bækur og höfundar stóðu undir tveimur lestrum og enn færri undir fleiri. Eiginlega voru það bara þrír höfundar sem náðu að viðhalda endurlestrarþörfinni að gagni; tveir erlendir karlar og ein íslensk kona. Og þau eru eins ólík og hugsast getur.

Karlarnir áttu hvor um sig aðeins eina bók í þessum úrvalsflokki; Tolkien var annar með sína Hringadróttinssögu, hinn var Írinn Flann O‘Brien, en skoskur skólafélagi minn gaukaði að mér bók hans, The Poor Mouth, sem ég las bæði mér og henni til óbóta og er hún nú rifrildið eitt. Enn verr fór fyrir Hringadróttinssögunni, enda mikil doðrantur og fylgdi mér hvert sem ég fór í nokkur ár og neyddist ég því til að endurnýja hana fyrir rest, þótt ég kynni blaðsíðurnar sem vantaði raunar nokkurnveginn utanað. Þessar þúsund síður las ég ekki sjaldnar en tvisvar á ári til að byrja með, en undir lokin – áður en ég lagði hana á hilluna – var ég farinn að láta valda kafla duga. Reyndar var svo komið, að ég var farinn að ergja mig talsvert á öðrum köflum þessa stórvirkis, svo mjög að ég sneiddi hjá þeim síðustu þrjú, fjögur skiptin sem ég las í gegnum hana alla.

Konan góða, sem fylgdi mér gegnum menntaskólann og vel fram á þrítugsaldurinn (og fylgir mér reyndar enn, líklega er þetta sá höfundur sem lengst hefur fylgt mér fyrir utan Lindgren, Jansson og Kierkegaard, því öfugt við Hringadróttinssögu og The Poor Mouth, þá gríp ég enn í hennar verk þótt lengra líði á milli nú en áður), er Auður Haralds. Ég marglas allt sem frá henni kom, hvort sem það var Hvunndagshetjan, Læknamafían eða Elías, og skemmti mér alltaf jafnvel. Það eru ekki nema þrír mánuðir síðan ég heimsótti fláráðu heildsalafrúna og hennar dauðu móður til að hlæja svolítið að franska ilmvatnssölumanninum.

Næstu árin og áratugina eftir þetta bættust örfáir höfundar í marglesna hópinn. P.G. Wodehouse er þar fremstur meðal jafningja en Terry Pratchett og (að öllum líkindum) Snorri Sturluson koma fast á hæla honum. Hinir tveir fyrstnefndu eru í sama flokki og Auður; eiga margar bækur sem ég hef marglesið – en enga þeirra svo oft að maður sé farinn að kunna þær utanað. Snorri er hinsvegar í Tolkien-flokknum; ein bók og alltaf við höndina, því Egla er aldrei langt undan. Heftarinn minn er oná henni núna þar sem hún liggur á skrifborðinu, skáhallt fyrir framan mig. En þótt hún sé hérna hjá mér þá lít ég orðið sjaldan í hana – og það sem meira er, þetta á við nokkurnveginn allar marglesnu bækurnar. Síðustu misserin er einsog þessi endurlestrarþörf hafi nánast gufað upp. Ekki alveg, en næstumþví, og ég hlýt að velta fyrir mér hvort það sé nú heldur þroska- eða ellimerki. Ég hallast heldur að því fyrra, sem þó eru ekki endilega góðar fréttir, einsog ég mun nú leitast við að færa rök fyrir í stuttu máli.

Fyrst skal viðurkennt að ég er og hef alltaf verið tiltölulega seinþroska á andlega sviðinu, sem gæti verið skýringin á því að ég hef ekki marglesið Laxness, Þórberg, Dostojevskí eða Njálu, og Góða dátann Svejk hef ég bara lesið tvisvar svo ég muni (þessu gæti auðvitað verið alveg þveröfugt farið og það sé skorturinn á marglestri þessara bókmennta sem hefur tafið fyrir andlega þroskanum, en það er önnur saga). Þá hef ég enn ekki náð þeim andlega þroska að sækja mér reglulega sáluhjálp og andans upplyfting með ítrekuðum vísitasíum á ljóðaslóðir, og biflían hefur alltaf verið mér lokuð bók, einkum og sérílagi þegar ég hef haft það við að opna hana. Og að Hringadróttinssögu slepptri eiga þær bækur sem ég hef lesið hvað oftast eftir að ég komst til einhvers smávits og þroska það allar sammerkt að vera hreint óskaplega fyndnar. Það á auðvitað einnig við um þær eðalbækur sem ég hef lesið oftar en allar hinar og les enn án þess að hafa minnst á þær einu orði fram til þessa, nefnilega teiknimyndasögurnar. Ég eltist semsagt við grínið og glensið.

Maður skyldi því ætla að undirritaður hafi enn umtalsvert svigrúm til að taka út heilmikinn, bókmenntalegan þroska. Engu að síður óttast ég að ég hafi nú, ekki orðinn fimmtugur, náð eins langt og ég mun nokkurntíman komast á þessu sviði. Að hverfandi endurlestraþörfin sé ekki bara skref heldur hreinlega lokaskrefið, sjálf endastöðin á þeirri braut. Það hefði vissulega verið gaman að komast aðeins lengra, en héðan í frá liggur leiðin bara í eina átt, er ég hræddur um – aftur til baka. Kannski – vonandi – ekki alveg strax, en samt.

Þessi misserin les ég hitt og þetta og allskonar, rétt einsog ég hef alltaf gert. Krimma og fantasíur, skemmti- og hryllingssögur, Gerði og Gyrði, Yrsu og Arnald, Jón og Sjón, ég les Pavel og Paasilinna, uppvaxtarsögur og ástarvellu, Kristínu, Hallgrím og Håkan Nesser og – já, þið vitið. Allan andskotann. En flest, næstum allt, bara einusinni. Eða læt að minnsta kosti líða tvö, þrjú, fimm ár milli lestra. Ég sit reyndar um sum skáld, les allt sem frá þeim kemur, líka smáauglýsingar  – en bara einusinni. (Samt þarf ég, öfugt við Jón Hall, helst að hafa bækurnar hjá mér. Ekki veit ég afhverju, en mér finnst það notalegt.) Ég tel sjálfum mér trú um að þetta sé nauðsynlegt, að þetta sé hressandi og hollt.

Að gera það sama aftur og aftur en búast við ólíkum eða mismunandi niðurstöðum, einhvernveginn þannig er skilgreiningin á geðveiki, sem höfð er eftir Einstein. Endurlestur bóka reynir á þessa skilgreiningu, þ.e.a.s. þegar um fullorðna, eða í það minnsta stálpaða lesendur er að ræða. Í tilfelli yngri barna er endurtekningargleðin hins vegar þvert á móti birtingarmynd hins gagnstæða: Ósk um að gera hið sama aftur og aftur einmitt vegna fullvissunnar um að niðurstaðan verði alltaf og örugglega sú sama. Nokkrar kenningar eru á lofti um ástæður þessarar endurtekningarþarfar, sem birtist strax í frumbernsku með ýmsum hætti. Ófáar þeirra eiga það sammerkt að vísa til þarfar barnanna fyrir öryggi annars vegar og stjórn á umhverfi sínu hins vegar. Þannig er þekkt atburðarás með þekktum endi talin vekja hvorttveggja í senn í barnshuganum; eftirvæntingu vegna þess sem það veit að er í vændum og tilfinningu fyrir því að ráða förinni; ef lesari vogar sér að víkja af réttri leið grípur barnið oftar en ekki bæði hratt og hraustlega í taumana og stoppar þá vitleysu. Og áður en yfir lýkur er allt komið á sinn rétta stað í tilverunni. Sama hve oft þessi „tilraun“ sem lestur bókarinnar er er endurtekin, niðurstaðan verður alltaf og óhjákvæmilega og sem betur fer sú sama.

En heldur syrtir í álinn fyrir geðveikisskilgreiningu Einsteins þegar lesendurnir eldast og sögurnar dýpka og flækjast. Þá bregður nefnilega svo undarlega við í mörgum tilfellum, að þó að sama manneskjan sé að lesa sömu bókina – eða sama ljóðið, textann, smásöguna osfrv. – aftur og aftur og aftur, þá er langtífrá gefið að niðurstaðan verði alltaf sú sama. Textinn breytist ekki, en upplifun lesandans og skilningur á honum, hughrifin sem hann vekur osfrv geta verið gjörólík. Sem er jú ein ástæða þess að sumt fólk les suma texta æ oní æ og finnur alltaf eitthvað nýtt til að kætast yfir – eða ergja, einsog gengur.

Ég bulla, auðvitað reynir þetta ekkert á skilgreiningu Einsteins á geðveiki í raun og veru; skilgreiningu sem vísar fyrst og fremst til empírískra tilrauna innan raunvísindanna þótt tilvitnunin hafi fengið víðari skírskotun með árunum. Með aðeins örlítilli hjálp frá sálfræðinni, félagsfræðinni, heimspekinni – og jafnvel líffræðinni og örugglega einhverjum fleiri fræðum – má nefnilega færa fyrir því sannfærandi rök að engir tveir lestrar séu eins, að það sé s.s. aldrei verið að endurtaka nákvæmlega hið sama, jafnvel þótt um sama lesanda og sama texta sé að ræða, þar sem lesandinn hefur óhjákvæmilega tekið breytingum á milli lestra. Öðlast nýja lífsreynslu, nýja þekkingu, mögulega aðra sýn á eitt og annað og – ef viðkomandi hefur heppnina með sér – aukinn þroska. Og þegar maður les sama gamla uppáhaldstextann í ellefta sinn og uppgötvar ekkert nýtt, þá er maður annaðhvort búinn að þurrausa textann (sem er ólíklegt, það var jú ástæða fyrir því að hann var í uppáhaldi) eða – sem er líklegra – sjálfan sig. Sem þýðir bara eitt: Maður verður að fara í endurhæfingu. Lesa meira, lesa fleira, lesa eitthvað nýtt.

Ef hún hinsvegar gengur ekki sem skyldi, þessi endurhæfing, eða dugar hreinlega ekki til – sem gerist örugglega fyrr eða síðar – þá fer maður aftur á byrjunarreit. Verður sér útum fáar en góðar hljóðbækur og hlustar á þær aftur og aftur og aftur, í fullvissu þess að ekkert breytist og allt fari einsog það á að fara að lokum. Alveg einsog það á að vera. Helvíti næs.

Hvað marglest þú? Og hvers vegna? Svör óskast í athugasemdum.

Ævar Örn Jósepsson
            

15 ummæli:

  1. Var það ekki HKL sem sagði að fólk sem endurlæsi bækur hlyti að vera frekar tregt að skilja þær ekki í fyrsta? Ég endurles Þúsund og eina nótt. Af því að, tja, það er líklega bara eitthvað þarna sem ég tregast við að ná :) Hermann

    SvaraEyða
  2. Ég endurles Glæp og refsingu og eiginlega ekkert annað – fyrir utan ljóð, sem ég myndi frekar segja að ég hætti ekki að lesa. Ég er hættur að þora að endurlesa skáldsögur. Ég tek þær upp, æðislega æstur, fullur nostalgískrar ástríðu, og finnst svo ekkert til þeirra koma. Ég mun sem dæmi aldrei fyrirgefa Heimsljósi að verða aldrei aftur sú bók sem ég las fyrst.

    Ég byrjaði að endurlesa Þúsund og eina nótt fyrir son minn í móðurkviði – en mamma hans bannaði mér að halda áfram eftir nokkrar blaðsíður.

    Og jú, svo les ég Stubb og Hvar er drekinn og Blómin á þakinu og Sagan af Hlina kóngssyni og nokkrar aðrar oft á dag.

    SvaraEyða
  3. Listinn yfir bækur sem ég hef lesið hvað eftir annað er ekki óskaplega langur:
    Heimsljós, Gerpla og Sjálfstætt fólk.(hafa ber í huga að endurlestur felur sjaldan í sér lestur allrar bókarinnar)
    Tómas Jónsson metsölubók. Óviðjafnanlegt stöff.
    Ég hef lesið Ofvitann og Íslenskan aðal oftar en einu sinni og það sama má segja um ýmsar ljóðabækur Hannesanna, Ísaks Harðarsonar, Gyrðis, Ingibjargar Haralds og fleiri sem ég nenni ekki að telja upp.
    Örstutt er síðan ég las Accordion Crimes eftir Annie Proulx í annað sinn en mér finnst AP meðal bestu höfunda nú um stundir.
    Ég hef mjög oft flett og lesið að hluta bókum eins og Göngur og réttir, Skriðuföll og snjóflóð, Forystufé og Horfnir góðhestar. Ég hef lesið ævisögu sr. Árna Þórarinssonar nokkrum sinnum og sama má segja um Njáls sögu, Hornstrandabók Þórleifs, Í barndómi eftir Jakobínu og Ystu strandir norðan Djúps eftir Guðrúnu Ásu Grímsdóttur.
    Þú bendir réttilega á að þegar langt líður milli lestra kemst lesandi oft að því að smekkur hans hefur breyst (eða eitthvað).
    Mér finnst rétt að bæta því við að margar heimsfrægar skáldsögur hef ég aldrei lesið. Stutt er síðan ég las í langri lotu bæði Stríð og frið, Glæp og refsingu og Fávitann og geri alls ekki ráð fyrir að opna neina þeirra aftur.

    Páll Ásgeir Ásgeirsson

    SvaraEyða
  4. Flottur pistill, flott greining á þörf til að endurlesa.
    Ég las Bróðir minn Ljónshjarta á hverjum jólum og stundum oftar alla mína barnæsku og langt fram á fullorðinsár. Svo tók ég pásu, en nú hef ég lesið hana tvisvar fyrir krakkana og grátið með ekkasogum í hvert skipti. Ég les glæpasögur aftur og aftur, af því mér finnst það eins og að horfa á þægilega bíómynd, bara betra. Ég les Ástin fiskanna eftir Steinunni Sigurðardóttur nokkuð reglulega. Engin skýring á því hvers vegna sú bók bara ... gerir mig alltaf jafn þægilega trist. Ég las Sjálfstætt fólk nokkrum sinnum í röð þegar ég kom til Frakklands fyrst því það var eina íslenska bókin sem ég hafði með mér (amma laumaði henni að mér í kveðjugjöf). Ég les Tinna og Ástrík aftur og aftur, ekki fyrir börnin, heldur mig...

    SvaraEyða
  5. Ég gleymdi að segja að bara fyrir ca tveimur, þremur dögum síðan hugsaði ég með mér að nú gæti ég farið að lesa Önnur Líf aftur, hún var svo rosaleg að ég hef ekki lagt í hana fyrr en nú. Hún er þó ekki komin á náttborðið, en verður áreiðanlega lesin um helgina.

    SvaraEyða
  6. Það harmsaga ævi minnar að eiga ekki eintök af fyrstu ljóðabókum Gyrðis. Ég þarf stöðugt að gera mér ferðir á bókasöfn til að sækja þær auk þess sem sektirnar hlaðast upp.

    SvaraEyða
  7. Það sem ég endurles helst núorðið eru fræðirit eða fræðilegar greinar sem ég er eitthvað að vinna með. Ég veit ekki hve oft ég hef lesið "Things without the mind" eftir Gareth Evans, sem segir líklega fáum sem þetta lesa nokkuð. Hið sama gildir um efni sem ég hef verið að kenna. Úr endurlestri fræðilegs efnis þekki ég svo sannarlega þá reynslu að uppgötva eitthvað nýtt við hvern lestur og í sumum tilfellum hefur merkingin m.a.s. farið alveg á hvolf. Ég hefði ekkert á móti því að endurlesa skáldrit meira en ég geri en mér finnst ég bara aldrei hafa tíma til þess, ég á svo margt ólesið enn (og ekki styttist listinn!) og sækist þá frekar eftir því að komast í gegnum eitthvað af því.

    En ég las auðvitað allar bækurnar mínar ótal sinnum sem barn og eitthvað fram á unglingsár. Svo er ég þessa dagana að lesa Madditt í örugglega sautjánda skipti og sé fram á að Madditt og Beta verði næst á dagskrá, a.m.k. hef ég fengið pöntun þar að lútandi.

    SvaraEyða
  8. Eg endurles HKL, Glerhjalm Sylviu Plath, Culture-baekur Iain M. Banks og Tinna. Bradum verd eg kannski buin ad gleyma fyrstu Nesser bokunum og get farid ad lesa thaer aftur...

    Lana Kolbrun Eddudottir.

    SvaraEyða
  9. Tharf ad baeta adeins vid...

    Nokkra baekur sem eg hef ekki getad gleymt sidan eg las thaer, og aetla ad lesa aftur: Raudur e. Orhan Pamuk; Kirkja hafsins e. Ildefonso Falcones, og baekurnar hans Carlos Ruiz Zafón, Skuggi vindsins og hin.

    Lana K.E.

    SvaraEyða
  10. Tek undir með Ævari, er hætt þessum gleðilega og allt að því þráhyggjukennda endurlestri. Mögulega vegna þess að ég vinn við endurlestur, en held að þetta sé elli- og hrörnunarmerki. Þetta á líka við um uppáhalds sjónvarpsþætti og bíómyndir sem ég gat horft á aftur og aftur - Philadelphia Story, Rosencrantz and Guildenstern are dead detta mér fyrst í hug. Spurning hvort að endurtekningarþörf Freuds hafi yfirgefið mann sisona...
    Gunnþórunn

    SvaraEyða
  11. Fyrir ca. 28 árum var það Svarta kisa (Skemmtilegu smábarnabækurnar, 9. b.) nokkuð reglulega, jafnvel kvöld eftir kvöld og fleiri af því tagi. - Í æsku Gulleyjan, Gúlliver í Putalandi og Bob Moran.
    Breakfast of Champions og Slaughterhouse 5 eftir Vonnegut, Útlendingurinn, Kristnihaldið, 100 ára einsemd, Possibilty Of An Island eftir Houellebecq og nokkrar í viðbót hafa alveg þolað tvo lestra, annars frekar sjaldgæft að maður lesi bók aftur. Aldrei þó að vita hvað maður gerir í ellinni, þ.e. ef maður nær því að verða þægilega senil. Kannski að þá dugi manni ein bók.


    Ingvi Þór Kormáksson

    SvaraEyða
  12. Lengi vel voru Kundera og Borges þeir höfundar sem mér þótti spennandi að endurlesa en lagði ég þá á hilluna óg Eiríkur Guðmundsson komst óvænt í þennan flokk, ég dett ofan í einn kafla kannski sem mér þótti góðu, en ég hef líka lesið einhverjar bækur hans aftur á bak og ekki þótt þær síðri þannig. Og svo er það hin hræðilega játning, ég endurles sjálfan mig oftar en góðu hófu gegnir, ekki af því að ég svo svo ánægður með textann heldur einfaldlega til að reyna að fá einhvern undarlegan botn í sjálfan mig, hvað-var-ég-eiginlega-að-pæla-heilkennið. Sem aldrei tekst.
    Jón Karl Helgason

    SvaraEyða
  13. Ég er enn á endurlestrarskeiðinu, hef til dæmis lesið Hringadróttinssögu alloft (það eru reyndar komin nokkur ár síðan síðast), Ofvitann og Íslenskan aðal les ég reglulega og einnig Íslandsklukkuna, Kristnihaldið, valda kafla úr Sjálfstæðu fólki og sitthvað fleira. Ljóð og smásögur (t.d. eftir Gyrði og Tolstoj) get ég líka lesið aftur og aftur. Nokkrar bækur eftir Douglas Adams og Terry Pratchett eru líka í þessum flokki (Hogfather er eins konar skyldu-jólalesning hjá mér, eins og jólasögur Dickens).
    Enga bók hef ég þó lesið oftar en Góða dátann Svejk.

    SvaraEyða
  14. Hjá mér eru það Njála og Moby Dick eftir Hermann Melville.

    Njála hefur sérstaka stöðu fyrir mér, því ég las hana fyrst sem barn og svo nokkuð reglulega fram á þennan dag. Sem barn var maður spenntastur fyrir hetjulýsingum og bardagasenunum en nú vekja önnur sjónarhorn áhugann. Bækur JKH (Hetjan og höfundurinn og Höfundar Njálu) hafa svo dýpkað upplifunina af bókinni með því að setja hana í ýmis óvænt samhengi.

    Moby Dick er frægasta bók Hermanns Melville og er stórkostlegt verk. Varla er nokkur þáttur mannlegs lífs og mannlegs eðlis sem ekki er tekinn fyrir á einhvern hátt í þeirri bók. Fyrir mér er hún ein allsherjar hugvekja.

    Það er einhver galdur í þessum endurtekna lestri og sennilega er það bráðnauðsynlegt okkur trúleysingjunum að hafa einhverja góða bók sem við þekkjum til hlítar og getum gripið niður í til að ná jafnvæginu þegar heimurinn snýst of hratt. Slíkar bækur henta líka sérstaklega vel í að æfa sig í "the lento", sem var mkið áhugamál Nietzche, þ.e. að lesa hægt og lesa djúpt.

    Sigurður Ingibergur Björnsson

    SvaraEyða
  15. Heimur bókmenntanna var frekar lítill en síðan stækkaði hugurinn og bókmenntaheimurinn með. Þá hætti ég að lesa bækur aftur, uppúr þrítugu sló sú hugsun mig að ég ætti aldrei eftir að hafa tíma til að lesa allar þær bækur sem mig langar til að lesa, þannig að nú varð að velja vel.
    En ég þekki margt sem fólk margles; sem pjakkur Grettis sögu og draugasögur Jóns Árnasonar, síðan Morgan Kane og Sven Hassel, Góði dátinn Sveijk og Kátir voru Karlar eftir Steinbeck.
    Er steinhættur þessu núna. Það er svo margt að lesa, bæði hef ég líka öðlast bókmenntaþroska til að njóta heimsbókmennta, gáfur til að skilja eitthvað af heimspeki og heimssýn til að tengja við mannfræði og pólitík. Þar að auki er ég nýverið hættur að finnast ég verða að ljúka bókum sem ég byrja á. Það er kostur. Einnig að vera laus við að þurfa að böðlast í gegnum þrautleiðinlegan texta af skyldurækni...afþví að einhver sagði þetta vera fræga bók.

    Sigurður Harðarson

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.