föstudagur, 23. mars 2012

Heimsendaspá dóttur veðurfræðings


„Veistu, ég hef alltaf ímyndað mér að það væri dálítið gaman að lifa heimsendi,“ segir Rivka mér glaðhlakkaleg. Fyrst var ég svolítið hissa á þessari notkun á orðinu heimsendi, með litlum staf, endalok eins örheims inní þeim stóra. Svo áttaði ég mig á að ég hafði máski þegar lifað heimsendi og hefði getað svarað henni að heimsendir væri eins og Elliot lýsti honum, „not with a bang but with a whimper.“

Spurningin var nefnilega alls ekki um endalok veraldarinnar, eða einu sinni jarðarinnar – bara um það hvernig væri hægt að berjast gegn endalokum þess sem á ensku kallast „Long form-journalism“.

Hér er væntanlega rétt að rissa upp sviðsmyndina áður en lengra er haldið: Fyrirlestrarsalur í New York þar sem fram fara pallborðsumræður um list hinna löngu greinaskrifa. Fyrir svörum sitja áðurnefnd Rivka Galchen, tónlistarrýnirinn Alex Ross, dans- og bókmenntarýnirinn Joan Acocella og blaðamaðurinn David  Samuels. Umrædd löng greinaskrif hafa varla verið stunduð í hérlendum blöðum og raunar töldu viðmælendur margir að þetta væri nánast sér-amerískt form, svo sjaldgæft væri það í öðrum löndum (hér er rétt að setja sviga og hvetja lesendur sem þekkja t.d. franska, spænska eða þýska fjölmiðla að koma með leiðréttingar á þessum orðum bandarísku spekinganna, ef þarf). Þetta eru langar og ítarlegar greinar upp á 7-12 þúsund orð, eitthvað sem viðgengst máski í fræðiritum á borð við Skírni eða TMM en tíðkast varla hérlendis í hefðbundinni blaðamennsku, nema slíkri blaðamennsku sé smyglað inní áðurnefnd rit. En það eru öðruvísi endalok sem manni finnst maður hafa verið að lifa í íslenskri blaðamennsku, hvernig það fjarar hægt og rólega undan alvöru rannsóknarblaðamennsku, alvöru krítík og alvöru greinaskrifum – jafnvel þótt lengdin hafi alltaf verið miklu styttri. Og vonandi er ég of svartsýnn, það eru stöku teikn á lofti um að ástandið sé að skána, það eru enn stöku ljóstýrur í íslenskri fjölmiðlun, sem vonandi slokkna ekki alveg.

En þetta er bókablogg en ekki fjölmiðlablogg og rétt eins og þetta fjölmiðlarant mitt er nokkuð á skjön við efni bloggsins var Rivka Galchen nokkuð á skjön við umræðuefni pallborðsins, því þótt hún hafi stundað einhverja blaðamennsku þá er hún fyrst og fremst rithöfundur og hafði birt skáldskap og ritgerðir í New Yorker, Harper og fleiri blöðum. Hún er líka  nokkuð á skjön í bókmenntaheiminum, því hún er að upplagi vísindanörd með próf í læknisfræði. Og vísindin villast skemmtilega inn í bókina sem var í bakpokanum mínum þessa febrúardaga í New York, fyrsta skáldsagan Rivku, Athmospheric Disturbances.


Truflanir í andrúmsloftinu
„Við getum ekki sagt til um hvernig veðrið verður á morgun (eða næsta klukkutímann) af því við getum aldrei vitað nákvæmlega hvernig veðrið er núna.“

Þetta er textabrot úr textabroti sem birtist fremst í bókinni og er sótt í veðurfræðiritgerð Tzvi Gal-Chen. Textinn vísar líka í veðrið en ekki síður í andlegt ástand, truflunin er víða. Líf aðalpersónunnar, sálfræðingsins Dr. Leo Liebenstein, er truflað á lúmskt hversdagslegan hátt í upphafi bókar, en hún hefst á þessum orðum: „Í desember síðastliðnum gekk kona inn í íbúðina mína sem leit nákvæmlega eins og eiginkona mín.“

Þessi eftirmynd eiginkonunnar, sem Leo kallar aldrei neitt annað en eimitt það, „the simulacrum“, sýnir ekki á sér neitt fararsnið næstu dagana – og ekkert fréttist af eiginkonunni. Þannig að Leo fer að leita og yfirgefur heimili þeirra í New York og fer á æskustöðvar eiginkonunnar í Buenos Aires, og seinna alla leið til Patagóníu. Og alltaf eltir eftirmyndin hann uppi. Lesandinn er hins vegar ekki búinn að lesa lengi þegar hann er þess fullviss að þetta er engin fantasía, truflunin er ekki í raunheimum heldur í hausnum á Leo og eftirmyndin sannarlega eiginkonan Rema. Ég komst meira að segja að því eftir smá gúgl að það er til læknisfræðilegt heiti á þessu ástandi, capgras-heilkennið, þegar sjúklingur er sannfærður um að tvífari hafi tekið sess ástvinar.

En þótt Leo sé sálfræðingur er þetta heilkenni aldrei nefnt í bókinni, enda efast hann aldrei um kenningu sína, ólíkt lesandanum. Þetta er saga um geðveiki en þó enn frekar  um það hvernig hjón geta orðið ókunnug inná eigin heimili, um það hvernig ástin kulnar og um dulda afbrýðisemi – en þó fyrst og fremst um það hvernig Leo trúir ekki á ástina, eða öllu heldur: hann trúir ekki að einhver geti elskað hann. Sérstaklega ekki gullfalleg og miklu yngri kona.

Leo notar aldrei tilfinningarök en sér þó aldrei eigin geðveiki, þetta er mjög rökræn geðveila, hann þarf alltaf að sannfæra vísindamanninn Leo – þótt oft séu sannanirnar hæpnar. En sálfræðin blandast hins vegar nokkuð óvænt veðurfræðinni þegar gamall sjúklingur, Harvey, fer að gera vart við sig. Hann er sannfærður um að hann sé í samskiptum við hina leynilegu Veðurakademíu, sem berst hatrammri baráttu um völdin yfir veðrinu, og inní þessa geðveiki dregst Leo og geðveiki Harveys og hans eigin blandast þannig saman, þannig að doppelganger verður dopplerganger. Báðir skrifast þeir á við áðurnefndan Tzvi Gal-Chen – og hætta því ekkert þótt þeir komist að því að hann hafi verið dáinn í mörg ár. Veðurfræðin leiðir hann svo alla leið á hjara veraldar, í veðravítið Patagóníu á odda Suður-Ameríku.




Þessi frumraun Rivku Galchen heldur manni við efnið lengi framan af, það er eitthvað fallegt í þessari veðruðu og vísindalegu nálgun á hjónaband í upplausn og takftastan harminn sem undir liggur. En gallinn er að maður grípur þetta allt á fyrstu síðunum. Lesandinn efast aldrei í efasemdum sínum um Leo, hann er óáreiðanlegur sögumaður en óáreiðanleiki hans verður fljótlega afskaplega áreiðanlegur. Á einhverjum tímapunkti hefði þurft að dýpka söguna og flækja, því þrátt fyrir að aðalpersónurnar hafi þvælst frá New York til Patagóníu þá upplifir maður harmleikinn á nákvæmlega sama hátt og á fyrstu síðum bókarinnar. Á einhvern einkennilegan hátt hefur ekkert breyst, hvorki Leo, Rema né lesandinn.


Draugur föðurins
En það er ein persóna sem er þó rétt að ræða betur, veðurfræðingurinn Tzvi Gal-Chen. Glöggir lesendur hafa máski þegar prófað að fella bandstrikið úr ættarnafninu og spegla það í höfundinum Rivku Galchen. Það kemur ekki fram í bókinni en maður þarf ekki að gúgla lengi til þess að komast að því að veðurfræðingurinn Tzvi Gal-Chen er faðir rithöfundarins Rivku Galchen. Og það eru meira að segja ljósmyndir í bókinni af barnungri Rivku með föður sínum.

Manni sýnist í fyrstu að þetta sé aðeins krúttlegt trikk, fallegur virðingarvottur við látinn föður. En þótt í bókinni sé hann aðeins hluti af geðveiki Leos þá grunar mig að á meðan Leo sé að búa til tvífara úr hinni raunverulegu eiginkonu þá sé Rivka að reyna að búa til tvífara látins föður. Veðrið, ævistarf hans, verður táknmynd allra tilfinninga og öll hans löngu gleymdu orð verða þrungin merkingu fyrir Leo, sem berst með vindum orða þessa horfna veðurfræðings. Rétt eins og vindar feðra okkar blása áfram um líf okkar, hvort sem þeir eru lífs eða liðnir.

Ásgeir H Ingólfsson

1 ummæli:

  1. Hér er svo rétt að leka kommenti frá Hermanni Stefáns sem mér barst í tölvupósti þegar ég skilaði greininni af mér:
    "Svo ég kommenteri fyrirfram þá er El País enn að þráast við með langar textagreinar og svo náttúrulega Le Monde sem var frægt fyrir að engar myndir voru í blaðinu, bara textahlunkar. Það er ekkert svo langt síðan þeir fóru að birta myndir."

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.