mánudagur, 12. mars 2012

Allt þetta Davíð Kopperfíld-kjaftæði



„Jafnvel eftir að ég dó fannst mér erfitt að hætta að vera til,“ segir Johann Wolfgang von Goethe í einlægu samtali þeirra Ernest Hemingway sem fram fer á vegum heimsins fyrir handan. Þeir hittast af og til á síðum skáldsögunnar Ódauðleikinn eftir kollega sinn, tékkneska skáldið Milan Kundera, og verður þar tíðrætt um hvað felst í því að verða ódauðlegur listamaður. Athyglisvert er að hvorugur fagnar þeim örlögum; þeir eru sammála um að ódauðleikinn sé eilíf réttarhöld þar sem eftirlifendur gegnumlýsi allar tiltækar heimildir um líf listamannsins og ákæra hann á þeim grundvelli fyrir að hafa verið kaldlyndur kvenhatari, ofbeldismaður, lygari eða eitthvað þaðan af verra. „Þau lesa ekki bækurnar mínar, heldur skrifa bækur um mig,“ segir Bandaríkjamaðurinn aumlega. Goethe bendir honum föðurlega á að hann geti sjálfum sér um kennt; það að skrifa bækur sé opinber beiðni um ódauðleika, Hemingway hefði verið nær að fara varlegar í lifanda lífi. Þessa hugleiðingar koma heim og saman við afstöðu Kundera sjálfs til frægðarinnar en hann hefur á liðnum áratugum verið afar spar á sína persónu á opinberum vettvangi; hann veitir helst ekki viðtöl og fer með löndum í einkalífinu. Í þessari færslu langar mig að fjalla um fjórða rithöfundinn, J.D. Salinger, sem einnig hafði illan bifur á ódauðleikanum og reyndi svo sannarlega að fara varlega í lifandi lífi. En nú er hann allur og hefur líklega aldrei átt jafnerfitt með að hætta að vera til.

Davíð Kopperfíld-kjaftæðið
Ef þið raunverulega hafið einhvern áhuga á þessu, þá langar ykkur kannski fyrst að fá að vita, hvar ég fæddist, hvaða leiðindi voru í uppvextinum, hvað foreldrar mínir höfðu fyrir stafni áður en ég fæddist og allt þetta Davíð Kopperfíld-kjaftæði. En ef ég á að segja sannleikann, þá langar mig ekkert að fara út í þá sálma. Í fyrsta lagi leiðist mér svoleiðis lagað og í öðru lagi mundi foreldrum mínum blæða út sitt í hvoru lagi, ef ég færi að segja frá einhverju persónulegu um þau. Þau eru meira en lítið viðkvæm fyrir slíku, sérstaklega faðir minn. Þau eru ágæt og allt það – ég átti ekki við það – en þau eru fjáranum viðkvæmari. Fyrir nú utan það, að ég ætla ekki að fara að segja ykkur neina andskotans sjálfsævisögu eða neitt svoleiðis. Ég ætla bara að segja ykkur frá allri geggjuninni, sem ég lenti í um síðustu jól, rétt áður en ég fór um það bil alveg yfir um og varð að fara hingað úteftir til að taka það rólega.

Svona hljóðar upphafið á The Catcher in the Rye, fyrstu og til þessa einu prentuðu skáldsögu bandaríska rithöfundarins J.D. Salingers. Það er aðalsöguhetjan, hinn 16 ára Holden Caulfield, sem hefur orðið og hann lýsir vissulega yfir vanþóknun sinni á hefðbundnu formi ævisögunnar. Hann kærir sig ekki um kjaftæði um æsku sína, fjölskyldu eða uppeldi. Frásögnin takmarkast, þess í stað, við örfáa daga, skömmu fyrir jól, eftir að Holden hefur verið vísað úr skóla og áður en hann hittir foreldra sína, sem verða væntanlega frekar óhress með brottreksturinn. Holden er þó ekki alveg samkvæmur sjálfum sér því inn í frásögn hans fléttast vissulega brot úr fortíðinni, svipmyndir af systkinum hans, meðal annars bróður sem dó, sem og minningar úr öðrum skólum, sem Holden hefur verið nemandi í með slælegum árangri.

En upphafsorð The Catcher in the Rye – eða Bjargvættarins í grasinu, eins og bókin heitir í íslenskri þýðingu Flosa Ólafssonar – standa á vissan hátt í vegi fyrir þeim sem ætlar að gera grein fyrir ævi og starfi höfundarins, J.D. Salingers, sem lést fyrir um tveimur árum. Er tilraun ævisagnaritarans ekki dæmd til að flokkast til alls þessa Davíð Kopperfíld-kjaftæðis sem Holden kallar svo? Styrkur The Catcher in the Rye felst ekki síst í þeirri persónulýsingu á Holden Caulfield sem er miðlað í gegnum óáreiðanlega fyrstu-persónu-frásögn hans sjálfs. Okkur er ekki leiðbeint um það hvaða augum við eigum að líta Holden og uppátæki hans. Við þurfum að vega og meta sannleiksgildi orða hans og rýna í þá blöndu af stælum og gagnrýni sem frásögn hans geymir.

Það er í fullu samræmi við þennan frásagnarhátt, sem og upphaf skáldsögunnar, að ævisaga J.D. Salingers sjálfs var eitt best varðveitta leyndarmál bandarískra bókmennta á liðinni öld. Ritverk hans – en auk skáldsögunnar sendi hann frá sér nokkurn fjölda smásagna – hafa lengst af verið svo til eini aðgangur almennings að höfundinum sjálfum. Hann veitti ekki blaðaviðtöl, kom ekki opinberlega fram og átti fáa og grandvara vini sem létu ekki hafa neitt eftir sér um hann. Salinger bjó síðari hluta ævinnar í einangrun, eins konar sjálfskipuðu stofufangelsi, á afskekktu sveitasetri í New Hampshire. Frá árinu 1965 sendi hann ekki frá sér nein ný ritverk, þótt talið sé að hann hafi haldið áfram að skrifa, jafnt og þétt. Opinberlega vann hann svo til einvörðungu að því að sögur sínar yrðu ekki endurútgefnar og barðist þar að auki gegn því að sviðljós heimsins beindist að honum sjálfum og hans nánustu.

Þessi lífsstefna hafði þó ekki þau áhrif að Salinger og verk hans féllu í gleymsku og dá. Þvert á móti. J.D. Salinger varð frægur fyrir að vilja ekki vera frægur. The Catcher in the Rye náði gífurlegum vinsældum þegar bókin kom fyrst úr árið 1951, sérstaklega meðal jafnaldra Holden Caulfields – unglinga á gelgjuskeiði. Þeir, sem og börn þeirra og barnabörn, hafa haldið tryggð við Holden, Salinger og þær persónur sem hann hefur skapað í smásögum sínum, en sumum þeirra bregður fyrir aftur og aftur. J.D. Salinger og The Catcher in the Rye eru óumdeilanlega stór nöfn í bandarískum bókmenntum tuttugustu aldar.

En víkjum aftur að ævisögu J.D. Salingers, sem er eiginlegt tilefni þessara vangaveltna. Árið 1988 kom út fyrsta ritið fram til þess tíma sem kalla má ævisögu Salingers, bókin In Search of J.D. Salinger (Í leit að J.D. Salinger). Höfundurinn var fimmtugur Breti, Ian Hamilton, ljóðskáld og bókmenntamaður. Það sérkennilega við verk Hamiltons er að jafnframt því að rekja feril Salingers segir hann frá tilurð bókar sinnar, tilraunum sínum til að grafa upp heimildir, ræða við skólafélaga Salingers og vini, og síðast en ekki síst frá samskiptum sínum við skáldið.

Hamilton hefur frásögn sína árið 1983 þegar hann ritar Salinger bréf þar sem hann segist vera að vinna að bók um ævi hans og störf. Hann spyr hvort mögulegt sé að spyrja höfundinn nokkurra spurninga, þær samræður geti farið fram skriflega en eins geti Hamilton heimsótt Salinger á sveitasetrið í New Hampshire. Hamilton bætir því við að þessar bréfaskriftir hafi verið hreint formsatriði. Hann hafi vitað fyrirfram að Salinger veitir ekki viðtöl og hefði megnustu óbeit á ævisögum sem þessum. Það kom Hamilton því á óvart að fá svar við bréfi sínu, sem hann hafði sent til allra þeirra sem hann fann í símaskránni undir nafninu Salinger.

Eitt bréfa minna, að því er virtist, hafði borist systur hans, og sonur hans fengið annað, en þau eru bæði í símaskrá Manhattan. Salinger átaldi mig fyrir að ofsækja fjölskyldu sína „undir vafasömum formerkjum fræðimennsku“. Hann átti ekki von á að geta komið í veg fyrir að ég skrifaði um hann bók, en fannst rétt að láta mig vita – „hver svo sem árangurinn yrði“ – að einkalíf hans hefði orðið fyrir svo mikilli truflun að það þyldi ekki meira „ekki „á einni mannsævi““.

Og Hamilton heldur áfram:

Bréfið var á margan hátt hjartnæmt, en einnig aðeins tiltölulega fjandsamlegt. Það var eins napurlega ópersónulegt og mögulegt var, og einhvern veginn of meðvitað, of ánægt með eigin fágun til að ég gæti skynjað það sem einlæg, djúpstæð mótmæli. Og þó fór ekki milli mála hver tilgangur þess var. Ég bar það undir nokkra kaldhæðna vini úr bókmenntaheiminum. Einn kvað bréfið vera í raun ögrun: „Ég get ekki haldið aftur af þér“ sem legðist út: „Gjörðu svo vel, haltu bara áfram.“ Annar sagði: „Hver heldur hann að hann sé eiginlega?“ og ég er ekki frá því að viðbrögð mín hafi verið svipuð.

Hamilton lætur bréf Salingers ekki aftra sér. Hann afsakar sig með því að hann hafi þegar fengið greitt fyrir verkefnið og eytt þeim peningum. Viðbrögð Salingers gefa Hamilton engu að síður tilefni til að velt vöngum yfir því að hve miklu leyti höfundurinn sé fórnarlamb bandaríska stjörnuiðnarins, og að hvaða marki ein fegursta afurð þess iðnaðar.

Bandarískir gáfumenn hafa ætíð haft samúð með austantjaldsrithöfundum sem alræðisvaldið hefur þaggað niður í, en hér í Bandaríkjunum, í menningu þeirra sjálfra, kýs dáður rithöfundur að þagga niður í sjálfum sér. Hann hafði málfrelsi en svo virtist sem hann hefði dagað uppi með þá ósk að hafa frelsi til að þegja. Og frelsi til þagnar - til að þagga niður í hverjum þeim sem vildi grafast fyrir um af hverju hann hætti að tjá sig.

Á hinn bóginn, viðurkennir Hamilton, er ósk Salingers byggð á skiljanlegri þrá eftir einveru, einkalífi. Salinger hefði á vissan hátt staðið við sinn hluta samningsins með því að hætta að birta eftir sig efni, en útgefin verk hans er aftur á móti enn lesinn og kennd og almenningur hefur því vissa heimtingu á að vita meira um tilurð þeirra. Hamilton fær enga endanlega niðurstöðu í þessar vangaveltur sínar um einkalíf opinberra persóna en þær leiða til þess að hann setur sér ákveðnar vinnureglur. Hann ætlar ekki að ónáða fjölskyldu Salingers, konuna hans fyrrverandi, börn né systur. Þess í stað ætlar hann að skrifa vinum og samferðafólki skáldsins bréf og fara fram á samvinnu.

Ég kem þeim ekki í opna skjöldu með símtölum né skrifa ég meira en tvö bréf til hverrar manneskju ef að erindi mínu er ekki svarað. Ég myndi gera skýra grein fyrir því, þar sem þess þyrfti, að Salinger væri ekkert um verk mitt gefið. Og svo framvegis. Ég var að reyna að láta þetta hljóma sem svo að ég væri háttvís – ekki bara gagnvart Salinger heldur einnig sjálfum mér.

Þegar heimilarleit Hamiltons hefst klofnar hann, á vissan hátt í tvennt í frásögn sinni. Annars vegar fylgjumst við með manninn Ian Hamilton sem hefur áhyggjur af siðferðilegu réttmæti þessa verkefnis. Hann á síðan í harðsnúnum rökræðum við ævisagnaritarann í sjálfum sér, sem vill bara ljúka við að skrifa bókina um Salinger með þeim ráðum sem duga.

Viltu fá þessa bók útgefna, eða bara prentaða?
Næstu kaflarnir í verki Hamiltons minna meira á hefðbundna ævisögu en hinn óvenjulegi inngangur. Við fylgjumst þó með ferðum hans, þar sem hann heimsækir hverfið í New York þar sem Salinger ólst upp, bókasöfn sem geyma bréf skáldsins og skóla þar sem Salinger var við nám. Og Hamilton segir okkur frá dræmum viðbrögðum vina og samstarfsmanna Salingers við beiðnum um viðtöl. Svör fyrrverandi skólafélaga Salingers eru mest áberandi á þessu stigi, en auk þess fléttar Hamilton æskumyndum af Salinger saman við sögu Holdens Caulfields og getur sér meðal annars til um fyrirmyndir einstakra persóna. Athyglisverðastar slíkra athugasemda eru samburður Hamiltons á Holden Caulfield og Jerry Salinger. Þannig segir ein sagan að móðir Salingers hafi komið í heimsókn í Valley Forge-skólann, ígildi Pencey-skólans í skáldsögunni, og spurt hvaða rauðu borðar það væru sem sumir nemendur báru í húfum sínum. Þetta voru einhvers konar viðurkenningarmerki en Salinger bað móður sína lengstra orða að yrða ekki á þessa pilta. Borðarnir, sagði hann, eru niðurlægjandi tákn sem maður þarf að bera fyrir að nota dónalegt orðbragð.

Það lyftist líklega brúnin á aðdáendum Holden Caulfields við að heyra slíkar sögur en af og til grípur Hamilton líka fram í fyrir sjálfum sér og spyr hvort ævisagnaritarinn í sér, sem og lesendur, séu ekki í raun með of mótaðar hugmyndir og væntingar til að geta séð æsku Salingers í réttu ljósi. Til mótvægis bendir Hamilton á að þótt Salinger hafi flakkað milli skóla og verið uppátektarsamur, þá hafi hann einnig kunnað að haga sér eins og ljós þegar þess þurfti.

Eftir að hafa lokið umfjöllun sinni um æsku og uppeldi Salingers
lagt að baki „Davíð Kopperfíld-kjaftæðið“ gefur Hamilton sér tíma til að velta vöngum að nýju. Ævisagnaritarinn í honum er nokkuð ánægður með árangurinn en hin röddin spyr hvort sú mynd sem höfum af unglingnum sé ekki of almenn. „Hefði okkur líkað við þennan unga pilt ef við hefðum þekkt hann á sínum tíma?“ spyr Hamilton sjálfan sig og svarar: „Við vitum það ekki.“

Þegar hann byrjar að greina frá tilraunum Salingers til að fá fyrstu smásögur sínar birtar í bandarískum glanstímaritum, skömmu fyrir síðari heimstyrjöldina, verður tóninn hins vegar ákveðnari. Hamilton dregur upp mynd af metnaðargjörnum ungum rithöfundi sem er staðráðinn í að slá í gegn, laga sig að markaðnum og skapa sér nafn í New York, eða sem handritshöfundur í Hollywood. Manni verður hugsað til svipaðra tilrauna Halldórs Laxness í Bandaríkjunum rúmum áratug fyrr. En vendipunkturinn– Hamilton er meðvitaður um þá formlegu kröfu að ævisögur verði að hafa vendipunkt – er þegar Salinger tekur þátt í innrás bandamanna gegn herjum Þýskalands á árunum 1944 til 1945. Það pínlega við þessi hugsanlegu tímamót, eins og reyndar margt annað í lífi Salingers, er að lítið er um þau vitað. Óljós vitneskja er fyrir því að Salinger hafi fengið taugaáfall í lok styrjaldarinnar. Hann giftist franskri konu og entist hjónabandið í 8 mánuði en eftir snörp orðaskipti Hamiltons við sitt annað sjálf ákveður hann að leita þessa eiginkonu ekki uppi. Hann vill ekki brjóta vinnureglurnar sem hann hafði sett sér í upphafi. Þess í stað leitar hann í smásögur Salingers frá þessum tíma, notar þær sem heimildir um tilfinningalíf höfundarins og samsamar gjarnan eina persónu Salinger. Slíkur lestur er vissulega forvitnilegur en hæpinn. Í síðari ritverkum sínum lék Salinger mjög meðvitað með þessa göróttu blöndu skáldskapar og veruleika, til dæmis með því að setja rithöfunda inn í sögur sínar, jafnvel rithöfunda sem höfðu skrifað smásögur sem sömu titlum og Salinger sjálfur.

Eftir því sem líður á fimmta áratuginn styðst Hamilton í sífellt ríkara mæli við bréf Salingers til útgefenda sinna, bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi. Svo virðist sem viðkvæmni og sérviska höfundarins hafi farið vaxandi á þessum tíma en sagan leiðir líka í ljós hve afskiptasamir og óforskammaðir sumir útgefendur hans voru. Hvað eftir annað var til dæmis titlum á smásögum Salingers breytt þegar þær voru prentaðar í tímaritum. Þegar kom að útgáfu The Catcher in Rye taldi forleggjari Harcourt-Brace-útgáfunnar að Holden væri vitskerrtur og fór fram á að höfundurinn endurskrifaði bókina. Salinger náði þá samningi við Little, Brown-útgáfuna, en þar var samstarfið þó einnig brösótt. Ein sagan segir að útgáfustjóri Little, Brown, Angus Cameron, hafi fengið símtal frá einum starfsmanni sínum þar sem fram kom að Salinger krefðist þess að fjölmiðlum yrði ekki sent eintak af bókinni. Hann vildi enga auglýsingarmennsku og krafðist þess enn fremur að ljósmynd af sér yrði fjarlægð af bókarkápu. Cameron þurfti að fljúga í flýti til New York og fá hann til að skipta um skoðun: „Viltu fá þessa bók útgefna,“ spurði hann Salinger, „eða bara prentaða?“ Salinger lét að lokum undan en með semingi. Og þegar bókin var endurútgefin sá hann til þess að ljósmyndin af sér væri fjarlægð.

Þegar kom að útgáfudegi The Catcher in Rye hafði Salinger haldið til Bretlands, að vissu leyti til að ganga frá útgáfu bókarinnar þar en ekki síður til að standa af sér það fjaðrafok sem verkið kynni að valda í Bandaríkjunum. Viðbrögð bandarískra gagnrýnenda við sögunni voru einstaklega jákvæð og hún var á listum yfir best seldu skáldsögurnar í sjö mánuði. Salinger lét ekki í ljós mikla hrifningu yfir velgengninni, þótt hann tæki um hríð þátt í félagslífinu í New York. En hann fékk sig fljótt fullsaddan af því sem hann taldi vera hræsni og gervimennsku snobbaðra samkvæmisljóna.

Hamilton rekur hvernig Salinger snýr sér á næstu árum að austrænni lífsspeki en hennar gætir víða í síðari sögum hans. Í samræmi við þær kennisetningar gerist hann nokkurs konar einsetumaður er hann flytur frá stórborginni til smábæjar í skógvöxnum hæðum New Hamshire. Með því móti uppfyllir hann þó ekki bara forskrift læriföðurins, Sri Ramakrishna, heldur einnig draum sem Holden Caulfields trúir Sally Hayes fyrir.

Það, sem við gætum gert, er að keyra á morgun upp til Massachusetts og Vermont, og þangað upp eftir. Það er alveg ofsalega fallegt þar upp frá. Það er alveg satt. [...] Við getum búið í sumarbústaðahverfi og allt svoleiðis, þangað til klinkið er búið. Og svo þegar klinkið er búið, þá gæti ég fengið vinnu einhvers staðar og við gætum búið einhvers staðar á lækjarbakka og allt það, og svo seinna gætum við gift okkur eða eitthvað. Ég gæti höggvið allan viðinn í eldinn á veturna og hver veit hvað. Það veit sá sem allt veit að við gætum átt undaðslegar stundir.

En það er lýsandi fyrir ævisögu Hamiltons að grípa þurfi til slíkra tilvitnanna í skáldskapinn til að varpa ljósi á veruleikann. Hamilton gerir einmitt að umtalsefni að martröð ævisagnaritarans sé þegar viðfangsefni hans lifir reglubundnu, átakalausu lífi.

Óhamingjusamt hjónaband, löng sjúkralega, óslitið tímabil þögullar vinnu, jafnvel eins eða tveggja ára fangelsisvist eru sjaldnast af því góða. Það má gera sér mat úr slíku flatlendi ef einhver texti hefur varðveist, en ekkert líf er jafn óaðlaðandi og það líf sem er tamið, reglubundið, eða stjórnast af óþekktum lögmálum. [...] Þegar Salinger sökkti sér ofan í austræna speki var hann ekki bara að flýja spillt bandarískt samfélag; hann var einnig að skrifa vandræðalegan langhund í verkum verðandi ævisagnaritara sinna. Staðreyndir er auðvitað sú að maður hefur lítið upp úr því að koma fyrir földum hljóðnema hjá þeim sem liggja á bæn ...

Lokahluti ævisögu Salingers eftir Ian Hamilton fjalla öðrum þræði um síðustu smásögurnar sem höfundurinn lét frá sér, en aðalpersónur margra þeirra eru meðlimir Glass-fjölskyldunnar. Hamilton rekur einnig tilraunir blaða á borð við Newsweek, Times og Life til að nálgast Salinger og sögu hans. Flestar þessar tilraunir voru misheppnaðar og höfðu það eitt í för með sér að Salinger hætti að umgangast þá granna sína sem veittu blöðunum viðtöl. En greinarnar sem fjölluðu ekki um Salinger héldu goðsögninni um hann á lífi og vinsældum hans stöðugum. Að vísu snerust ýmsir bókmenntamenn, skáld jafnt og gagnrýnendur, gegn honum. Rithöfundurinn Norman Mailer var einna fyrstur til að lýsa yfir vanþóknun sinni árið 1959: „Ég virðist vera einn um þá skoðun að Salinger sé lítið annað en mesti hugsuður sögunnar sem hefur aldrei útskrifast úr gaggó.“ George Steiner tók í svipaðan streng þegar hann lýsti því yfir að unglingar kynnu að meta Salinger vegna þess að hann skrifaði auðlesinn knappan texta og gerði engar kröfur til bókmennta- eða þjóðfélagsskilnings hjá lesendum sínum.

Eftir að hafa rakið stuttlega áþekk viðbrögð og tekið á vissan hátt undir þau, víkur Hamilton að síðustu sögunni sem Salinger birti. Þar fáum við svipmynd af rithöfundinum Buddy Glass, tvífara Salingers sjálfs, á fertugasta og sjöunda aldursári 28. maí 1965. Hann er gráhærður, reykir sígarettu, og virðist hugsi en er um leið útkeyrður.

Maður gæti haldið [...] að þessi svipmynd kremdi hjarta hvers venjulegs áhorfanda, að honum féllust gjörsamlega hendur. En það væri til lítils, því að Buddy-Salinger er einmitt þar sem hann vill vera: í herbergi með þakglugga, umkringdur bókum, blýöntum, pappírsörkum og ritvél: „Þannig hafa allir draumar æsku hans ræst að fullu. ... Guð minn góður! Hann verður yfir sig hrifinn þegar hann sér þetta herbergi, því get ég lofað!“

Ég vinn með persónur
Ian Hamilton ætlaði að ljúka ævisögu sinni um Salinger á þessari senu, samtvinnaðri þeirri kennd að rithöfundurinn hefði á vissan hátt látið aðra útgáfu af draumi Holdens Caulfield rætast, þann draum að flytja langt burt frá New York, byggja sér lítinn kofa inni í skógi, og þykjast vera daufdumbur.

Mér fannst tilvalið að látast vera daufdumbur, þá þyrfti ég ekki að standa í einhverjum heimskulegum andskotans samræðum við neinn. Ef einhver þyrfti að segja eitthvað við mig þá yrði sá hinn sami að skrifa það á blað og rétta mér það. Þeir yrðu fljótt hundleiðir á að standa í því og þá væri ég laus við að standa í samræðum það sem eftir væri ævinnar.


En Salinger sjálfur sá til þess að einn kafli enn bættist við ævisögu sína. Hann rauf þögn sína þegar lögfræðingar hans fóru fram á að lagt yrði lögbann á J.D. Salinger: A Writing Life eftir Ian Hamilton. Forsendur kröfunnar voru þær að Hamilton vitnaði beint í óbirt bréf sem Salinger ætti útgáfurétt á. Hamilton endurskrifaði bókina af þessum sökum, breytti hluta beinna tilvitnanna í óbeinar tilvitnanir og lagði nýtt handrit undir lögfræðinga Salingers. Salinger taldi hins vegar að breytingarnar væru ófullnægjandi, að Hamilton hefði hnikað til orðalagi á stöku stað en kjarninn, eins og hann orðaði það „er mín eigin orð“. Þessi samskipti fóru fyrst fram bréfleiðis eða í gegnum lögfræðinga; Salinger gat fram að þessu hagað sér samkvæmt reglum hins daufdumba en á ákveðnu stigi kom að því að lögfræðingur Hamiltons stefndi Salinger til fundar við sig.

Af þeim sökum fáum við í bók Hamiltons svipmynd af sextíu og átta ára gömlum J.D. Salinger, hann er vel á sig kominn þótt hár hans sé farið að grána. Hann er vel klæddur, íþróttamannslegur og minnir meira á mann úr viðskiptaheiminum en rithöfund. Hann er kurteis en svolítið hrokafullur í framkomu. Þekking hans á málinu er gloppótt, það er ljóst á öllu að hann er á móti hugmyndinni um ævisögu sína, þrætan um notkun tilvitnanna er tylliástæða. Hamilton birtir hluta af viðtali lögfræðingsins og Salingers í bók sinni og það er lögfræðingurinn sem spyr fyrst:

L: Herra Salinger, hvenær skrifaðir þú síðast skáldverk til útgáfu?
S: Ég er ekki alveg viss.
L: Hefurðu einhvern tíma á síðustu 20 árum skrifað skáldverk til útgáfu?
S: Áttu við, sem hefur verið gefið út?
L: Sem hefur verið gefið út.
S: Nei.
L Hefur þú einhvern tíma á síðustu 20 árum skrifað skáldverk sem hefur ekki verið gefið út?
S: Já.
L: Geturðu lýst fyrir mér þeim skáldverkum sem þú hefur skrifað og hafa ekki verið gefin út?
S: Það er mjög erfitt að gera það ...
L: Hefurðu ritað einhver skáldverk í fullri lengd sem hafa ekki verið gefin út á síðastliðnum 20 árum?
S: Geturðu orðað þetta öðru vísi? Hvað áttu við með fullri lengd. Áttu við tilbúið til útgáfu?
L: Andstætt við smásögu, broti eða texta til útgáfu í tímariti.
S: Það er erfitt að svara þessu. Ég skrifa ekki þannig. Ég byrja að skrifa skáldskap og sé síðan hvað gerist.
L: Það væri kannski skýrara ef ég spyrði hvort þú vildir segja mér hvaða bókmenntaskrif þú hefur stundað á sviði skáldverkagerðar undanfarin 20 árin.
S: Gæti ég eða vildi segja þér? ... Bara skáldskap. Það er allt og sumt. Það er eina lýsingin sem ég get gefið á því. Það er næstum ógerlegt að skilgreina það nánar. Ég vinn með persónur og held áfram eftir því hvernig þær þróast.


Hamilton lætur nægja þessa tilvitnun í vandræðalega og marklausa yfirheyrslu. Svo fór að lokum að lögbann fékkst sett á bók Hamiltons. Hann þurfti að endurskrifa hana í þriðja skipti, fella niður flestar þær málsgreinar þar sem rödd Salingers hafði notið sín. Útkoman varð In Search of J.D. Salinger. Málaferlin urðu auðvitað til þess að athygli fjölmiðla beindist óskipt að Salinger að nýju, fjöldi blaða birti meira að segja langa kafla úr þeim bréfum sem Hamilton mátti ekki vitna í. Lögbann er, vitanlega, aðeins hægt að leggja á verk áður en þau eru gefin út, og það var of seint og tilgangslaust fyrir lögfræðinga Salingers að hafast nokkuð að gegn þeim sem stóðu að þessari ólöglegu útgáfu.

Hamilton sat einn í súpunni, tónninn í lokakafla hans er bitur, honum þykir sem niðurstaða málsins vegi gróflega gegn málfrelsi stjórnarskrárinnar, og veltir jafnvel fyrir sér hvort málaferlin hafi verið enn ein auglýsingabrellan hjá hinum útsmogna Salinger. Í niðurlagi bókarinnar lítur Hamilton yfir farinn veg og leggur áherslu á að áhugi sinn fyrir því að skrifa bókina upphaflega hafi ekki einungis verið fræðilegur, heldur stafað af þeirri ást sem hann fékk á Salinger þegar hann las The Catcher in the Rye. En það er ást sem hann er vaxinn upp úr.

Bókin sem ég féll flatur fyrir hefur loks brotist undan valdi göldrótts höfundar síns. En þrátt fyrir það get ég ekki fagnað því, hvernig sem fer, að nafn mitt og J.D. Salingers verði órofa tengd sem nöfn málsaðila eða andstæðinga í námsbókum lögfræðinema eða á hillum Hæstaréttar, sem og í hugum allra þeirra sem lesa þessa „ólöglegu“ útgáfu bókar minnar.


Eins og áður sagði kom bók Hamiltons út árið 1988. Áratug síðar birti fyrrum eiginkona Salingers, Joyce Maynard, æviminningar sínar, At Home in the World, þar sem samband hennar við skáldið kemur nokkuð við söguÁrið 1999 sendi Paul Alexander síðan frá sér ævisöguna Salinger: A Biography og aldamótaárið birti Margaret A. Salinger, dóttir Joyce Maynards og Salingers, æviminningar sínar undir titilinum Dream Catcher: A Memoir.  Í kjölfar andláts skáldsins árið 2010 kom lokst út þriðja ævisagan, J. D. Salinger: A Life Raised High eftir Kenneth Slawenski. Öll þessi verk miða að því að draga höfundinn út úr sjálfskipaðri útlegð sinni í skóginum, lengra og lengra fram í sviðsljósið. Líklega hefur J.D. Salinger aldrei verið jafnmikið til og nú, tveimur árum eftir dauða sinn. Að minnsta kosti er ljóst að barátta hans við Ian Hamilton bar ekki tilætlaðan árangur.

Heimildir
Alexander, Paul. Salinger: A Biography. Los Angeles: Renaissance, 1999.
Hamilton, Ian. In Search of J. D. Salinger. New York: Random House, 1988.
Kundera, Milan. Ódauðleikinn: skáldsaga. Friðrik Rafnsson þýddi. Reykjavík: Mál og menning, 1990.
Maynard, Joyce. At Home in the World. New York: Picador. 1998.
Salinger, Margaret. Dream Catcher: A Memoir. New York: Washington Square Press, 2000.
Slawenski, Kenneth. J. D. Salinger: A Life Raised High, London, Pomona Books, 2010.

Jón Karl Helgason

2 ummæli:

  1. Í tengslum við þetta er ekki úr vegi að minnast líka á hinn sænska Colting, sem fór ekki alltof vel útúr sinni Salinger-hyllingu; 60 Years Later: Coming Through the Rye, sem ég held að sé enn bannað að selja í BNA vegna lögbanns sem Salinger náði að knýja fram.
    æöj

    SvaraEyða
  2. Þakkar þér fyrir þessa ábendingu, Ævar. Ég þekkti ekki til þessa máls en fann ágæta greinargerð um það á http://www.abebooks.com/books/coming-through-catcher-rye/60-years-later.shtml.
    Jón Karl

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.