miðvikudagur, 21. mars 2012

Höfundurinn sem bjó milli heims og helju


Gamla Reykjavík
Ólafur Jóhann Sigurðsson bjó við Suðurgötuna í Reykjavík. Á aðra hönd honum var gamli kirkjugarðurinn, hinum megin var Tjörnin. Öðrum megin standa í eilífri tign sinni virðuleg tré og tjá sig með hægum súg og máðir legsteinar vitna þar um þögnuð örlög - hinum megin ólgar skrækjandi lífið sjálft. Öðrum megin þögn liðinna stunda, hinum megin at komandi lífs. Öðrum megin regla, hinum megin óreiða. Öðrum megin sorg, söknuður, tregi – hinum megin kátína, brauð og leikar.

Eins og allir rithöfundar bjó hann einhvers staðar á milli heims og helju.

Rithöfundar strita við að vekja mannlíf á auðum síðum með bókstöfum og sennilega starfa þeir allir í einhverjum skilningi einmitt á þessum mörkum milli Kirkjugarðsins og Tjarnarinnar, en þegar maður hugsar um rithöfundarferil Ólafs Jóhanns fer ekki hjá því að manni þyki sem starf hans hafi einkennst á óvenju eindreginn hátt af því að vera á skurðpunkti hins gamla og nýja, þess sem  var að deyja og hins sem var að vakna. Hann starfaði ekki bara á mörkum lífs og dauða eins og öll skáld heldur tókust líka á í verkum hans og huga hans andstæð sjónarmið sveitar og borgar, íhaldssemi og róttækni, módernisma og raunsæis, nútíma og fortíðar, gamansemi og siðavendni.

Hann er fimmtán ára gamall þegar hann heldur af stað út í heim til að gerast rithöfundur. Hann á erindi við heiminn. Hann er búinn að skrifa bók þar sem hann segir frá ævintýrum bernskunnar. Kannski eru ekki stórtíðindi í þessum bernskusögum á borð við alla smyglarana sem síðar áttu eftir að tröllríða íslenskum barnabókmenntum – en þarna rúmast samt sem áður háski dægranna og fegurð sumarkvöldanna og þessi sérstaka tegund af eilífð sem býr í íslenskum sveitum þrátt fyrir allt. Fyrstu bækur hans voru ætlaðar börnum – enda skrifaðar af hálfgerðu barni – en þar er strax sleginn viss tónn sem átti eftir að hljóma gegnum allt hans höfundarverk – þær eru skrifaðar á sérlega vönduðu máli en jafnframt yfirlætislausu og í þeim glitrar eitthvert ljóðrænt og fíngert raunsæi sem átti eftir að gefa stíl hans ákveðna töfra alla tíð. Þetta ljóðræna raunsæi vaknar af ákveðinni spennu í verkum hans milli þess sem dregur höfundinn að sér og hrindir honum frá sér, þess sem honum þykir aðlaðandi og hins sem honum er ekki gefið um: stundum fer það saman hjá honum.

Ég las þessar bækur sem barn hjá afa og ömmu á Akureyri og í þeim voru einhverjir  töfrar sem maður gleymir ekki og næsta bók sem ég las eftir Ólaf Jóhann var líka svokölluð barnabók sem foreldrar mínir ráðlögðu mér eindregið að lesa því þau töldu  að af henni myndi ég læra. Það var Spói. Ég veit ekki svo sem hvaða lærdóm mér var ætlað að draga af þessari bók – kannski að maður skyldi ekki hreykja sér af því að vera með langt nef. Bókin kann að líta út sem vinalegt hjal um fuglana en í raun og veru er þarna á ferð allegóría um mannlífið þar sem hver og einn fugl er fulltrúi tiltekinna skapgerðareiginleika. Spói er sem sé ákaflega hégómlegur fugl og upptekinn af útliti sínu og orðspori og ef til vill má lesa þessa barnabók sem ádeilurit á þessa fugla fyrir að vera svo áberandi og neflangir, sé maður á þeim buxunum. En um leið er eitthvað elskulegt við þennan kjánalega fugl og hégómaskap hans, og frásögnin er brosmild, og maður gleymir því hversu einkennilegt uppátæki það er að skrifa ádeilurit handa börnum á fugla fyrir að vera ekki nógu hógværir.

Ég veit ekki hvort Ólafur Jóhann var sjálfur beinlínis hógvær en stíll hans hafði á sér yfirbragð yfirlætisleysis, þrátt fyrir visst dálæti á sjaldgæfum skrauthvarfaorðum á borð við „lækjarkatrín“ sem kemur fyrir í Hreiðrinu og mun vera „niðurgangur“. En okkur hættir til að vanmeta yfirlætisleysið og rugla því saman við erindisleysu. Okkur hættir til að halda að það sem er fallega skrifað sé um leið bragðlítið. Það er öðru nær um Ólaf Jóhann. Honum lá ákaflega mikið á hjarta um íslenskt mannlíf og íslenskt samfélag, alveg frá fyrstu tíð. En hann var líka og um leið ævinlega margfaldur í roðinu og stundum ekki alveg gott að átta sig á því hverju írónískur tónn hans beinist að hverju sinni.

Hann bjó til persónur sem messuðu yfir ósiðum tíðarinnar og mislíkaði mest allt sem fylgdi nýjum samfélagsháttum borgar og vélaaldar, þoldi ekki módernismann í bókmenntum og alla bílana og háreystina, auðtrú í stað manngildis, eftirsókn eftir fánýti í stað ástundunar sígildra dyggða, gullsöfnun á Gnitaheiði uns gullið breytir sínum liggjanda í orm – hann skrifaði sem sé um upplausn allra gilda, siðrof, gullæði og hrun – skrifaði með öðrum orðum um okkar tíma. Og hann bjó til persónur sem fundu þessu öllu allt til foráttu – vitaskuld – en hann hafði líka þá gáfu að horfa á þessar persónur úr fjarlægð, dómhörku þeirra og vandlætingu og hann sýndi á hvernig þær – eða kannski öllu heldur þeir – séra Böðvar, Páll Jónsson, Loftur Loftsson í Hreiðrinu – stóðu álengdar við lífið án þess að taka þátt í því með öllum þeim feiknum og kostum og kynjum sem því fylgdu, voru eins og einhvern veginn úrræðalausir. Séra Böðvar verður í öllum sínum bölmóði öllu brjóstumkennanlegri en það gallaða og breyska en mjög svo lifandi fólk sem hann á í höggi við. Páll Jónsson blaðamaður er að sönnu vandaður og sómakær piltur alla tíð, en hann er líka eins og lamaður frammi gagnvart því ólgandi lífsafli sem hvarvetna verður á vegi hans á þeim umbrotatímum Íslandssögunnar sem hann lifir. Nóg er af karíkatúrum hjá Ólafi Jóhanni í þessu meginverki hans, þríleiknum um Pál Jónsson, hlálegu fólki sem skrifar tóma dellu og hagar sér eins og fífl en þegar upp er litið úr lestrinum og það tekur að lifa með manni þá verður manni það fyrir að upplifa það svolítið eins og hinn spígsporandi spóa, og hugsa: svona er nú einu sinni mannlífið. Aðrar persónur eru samsettari og næmari og stíga inn í iðuköstin – og farast.

Ólafi Jóhanni auðnaðist að skrifa mikinn sagnabálk á mestu umbrotatímum Íslandssögunnar, að minnsta kosti fram að nýliðnum atburðum. Reyndar hlýtur nýliðið hrun að tengjast rækilega þeim atburðum sem Ólafur Jóhann lýsir í þríleiknum í þeim skilningi að þarna, þegar Ísland var selt Bandaríkjamönnum,  á meðan þeir nenntu að nota það, er að finna rót hrunsins sem varð hér aðeins nokkrum árum eftir að Bandaríkjamenn yfirgáfu landið. Með sínu ljóðræna og hæga raunsæi og vandlega miðuðu íróníu kortleggur Ólafur Jóhann í þessu verki þá eðliseiginleika sem réðu ferðinni í íslensku samfélagi þessi örlagaríku ár. Þessi þríleikur var vissulega höfuðverk Ólafs Jóhanns, en við megum þá ekki alveg gleyma því heldur að hann var líka einhver listfengasti smásagnahöfundur sem við höfum átt, sýndi í smásögum sínum á sér ákaflega fjölbreyttar hliðar, rannsakaði þar ýmis afbrigði mannlegs sálarlífs sem skáldverk í stærra formati leyfir síður – og í ljóðum sínum var hann aftur lítill hnokki leiddur að læk við tún og bar vitni um dásemd drottins jarðar, fugla og grös og aðrar eilífðarverur íslenskrar sveitar.

Ólafur Jóhann bjó inni í miðri borg og sveitin bjó í honum miðjum. Höfundarverk Ólafs Jóhanns er í skurðpunktinum milli gamla Íslands og hins nýja. Komnir voru dagarnir sem hann sagði um: mér líka þeir ekki – án þess þó að hann gyllti það sveitasamfélag sem fóstraði hann eða gerði sér vonir um að hægt væri að endurvekja hið liðna. Hann hlustaði á súginn í trjánum öðrum megin og heyrði hlátrasköll lífsins hinum megin. Hann tókst á við þessa daga með þessum löngu og áferðarfallegu setningum sem hann skrifaði þar sem ein tók við af annarri af áreynsluleysi hinnar lygnu móðu. Frásögnin streymdi. Hann lýsti þessum dögum af vandvirkni, yfirlætisleysi, íróníu, ljóðrænu og raunsæi, eins heiðarlega og honum var unnt og eins réttilega og hann treysti sér til – í Hreiðrinu lýsir hann því raunar hvernig honum féllust hendur árum saman gagnvart þessu verkefni, en hlaut svo að ljúka því verkefni sem honum var ætlað að leysa af hendi.

Hann var milli heims og helju.
           
Hann horfði af einurð ofan í þá hyldýpisgjá sem myndaðist við rofið í íslensku samfélagi á tuttugustu öld og bar því vitni sem hann sá.

Guðmundur Andri Thorsson

1 ummæli:

  1. Þóra Sigríður skrifaði mjög fína mastersritgerð um þríleik ÓJS um Pál Jónsson. Þar er verkið endurmetið og farið gegn alþekktum klisjum um það. Þetta er líka fín grein hjá þér, Andri, ekkert klisjumak... Takk fyrir.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.