miðvikudagur, 4. apríl 2012

Hvað gerðist eiginlega þessa undarlegu nótt í grafreitnum í Prag?

Má kynna ykkur fyrir Simone Simonini, höfundi eins áhrifamesta rits 20. aldar?

Þetta rit hér kemur við sögu hjá gesta-
bloggara dagsins, Helga Ingólfssyni.
Spólum aðeins til baka. Ef Auðlegð þjóðanna eftir Adam Smith er áhrifamesta rit 18. aldar [keppinautarnir væru sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna frá sama ári, Samfélagssáttmálinn eftir Rousseau, Gagnrýni hreinnar skynsemi eftir Kant og mannréttinda-yfirlýsing frönsku byltingarinnar] og Kommúnistaávarpið eftir Marx og Engels áhrifamesta rit 19. aldar [þar sem keppinautarnir væru Uppruni tegundanna eftir Darwin og Ritgerð um lögmál fólksfjölgunar eftir Thomas Malthus, sem menn eru loksins að gefa gaum aftur eftir aldarhlé], hvert er þá áhrifamesta rit 20. aldar?

Líklega myndu margir segja Mein Kampf eftir Adolf Hitler, illa skrifaður hrærigrautur sem hafði slíka þýðingu fyrir heimsbyggðina að hún varð aldrei söm eftir. [Ókei, nokkrir keppinautar gætu verið Þýðing drauma eftir Freud, Hvað ber að gera? eftir Lenín eða Rauða kver Maós.]

Nóg af oblígatorísku neimdropping. En hvað bjó að baki Mein Kampf? Hvorki meira né minna en Gerðabækur öldunganna frá Zíon. Og höfundur þeirra var enginn annar en Simone Simonini, kafteinn í her Sardiníuríkisins, margfaldur launmorðingi, konungur dulargervanna og meistarafalsari.

Eða svo segir Umberto Eco.

Í nýjustu skáldsögu Eco, Grafreiturinn í Prag (e. The Cemetery of Prague), er lýst mögulegri þróun og tilurð Gerðabókanna, í gegnum tilbúna atburðarás, með ótal hliðarþráðum til að útskýra hvar Simonini, hinn ætlaði höfundur, fékk fjölbreyttan efnivið úr ólíkum áttum, mest ritstolið, en afganginn uppspunninn frá rót. Gerðabækurnar drógu saman í brennidepil það Gyðingahatur, sem var að gerjast á meginlandi Evrópu á seinni hluta 19. aldar og sýnt hefur verið fram á að þær hafi einkum sótt til franskra ritverka (Eugene Sue, Maurice Joly, and-semitíska dagblaðið La Libre Parole), þótt einstaka atriði séu komin úr þýskum höfundum (einkum Hermann Goedsche).

Sé farið stuttlega yfir hinar fölsuðu Gerðabækur öldunganna frá Zíon, þá eiga þeir að byggjast á þeirri undarlegu hugmynd að á hverri öld komi helstu rabbínar Gyðinga saman hvaðanæva að úr heimi til ráðaskrafs og á óskilgreindri stundu á s.hl. 19. aldar eiga þeir að hafa hist í grafreit gyðinga í Prag, á miðnætti undir tunglsljósi, innan um skörðótta og útafhallandi legsteina sem litu út eins og skakkur og tætingslegur tanngarður. Þarna eiga rabbínarnir að hafa skorinort lagt á ráðin um heimsyfirráð Gyðinga og endalok vestrænnar menningar, þar sem hinir kristnu (og aðrir) yrðu undirmálsfólk í einu og öllu. Alheimssamsærið var svo á undarlegan og órökrænan hátt spyrt saman við leynireglu frímúrara, sem og vaxandi uppivöðslu kommúnista og verkalýðs. Markmiðið átti m.a. að felast í því að ná yfirráðum yfir allri útgáfustarfsemi og bankastarfsemi og koma af stað alþjóðlegri kreppu – í stuttu máli að kollsteypa Vesturlöndum í menningarlegum og efnahagslegum skilningi. Gerðabækurnar (Protocols) eru næsta víst taldar hafa átt upphaf sitt (þ.e. verið falsaðar) í París, þótt vegferð þeirra hafi verið undarleg; þær birtust fyrst á rússnesku 1902-03 til að réttlæta hörðustu ofsóknir Rússa í garð Gyðinga (pogroms), sem staðið höfðu yfir undangengin ár. Ritin fengu gríðarmikla útbreiðslu, voru fljótt þýdd á erlend mál og seldust í bílförmum – Henry Ford, annálaður fyrir gyðingaandúð, fjármagnaði útgáfu hálfrar milljónir eintaka í Bandaríkjunum. Einkum logaði þó móðursýki vegna ótta við “rauðu hættuna”, þ.e. að bylting bolsévika myndi læsast út um heimsbyggðina í kringum 1920, og að hún væri runnin undan rifjum Gyðinga, enda ýmsir kommúnistaleiðtogar (Marx, Trotskí, Kameníeff og Zinovieff) af slíkum ættum. Og Adolf Hitler tók villukenninguna upp á sína arma, hrærði henni blygðunarlaust saman við sínar prívathugmyndir um and-semitisma, sem hann hafði drukkið í sig yngri, og gerði m.a. Gerðabækur öldunganna af Zíon að skyldulesefni í “kynþáttavísindum” í skólakerfi hins nasíska Þýskalands. Um gerðabækurnar lét einhver þau orð falla við upphaf seinni heimsstyrjaldar að þær væru næst útbreiddasta rit veraldar, á eftir Biblíunni.

En hverfum aftur til 19. aldarinnar. Ef farið er yfir söguþráð Grafreitsins í Prag í tímaröð, þá ber fyrst að nefna að Simone Simonini (1830-1898?) er þegn Sardiníuríkis, sem lærir til lögskrifara - og skjalafals í forbífarten. Hann er þvingaður til samstarfs við leyniþjónustu Sardiníuríkis, sem sendir hann í tvígang til Sikileyjar og Napolí-ríkis um daga innrásar Garibaldi, en seinna hrekst Simonini til Frakklands og starfar þar fyrir frönsku leyniþjónustuna og sjálfan sig í áratugi. Inn á sögusviðið þvælist sægur frægra manna, t.d. Dumas, Garibaldi, Mazzini, Dreyfus og Huysmans, auk þess sem hinn lítt þekkti austurríski læknir, “Dr. Froïde”, leikur skemmtilegt hlutverk, sem lesandi fær fyrst fulla innsýn í við bókarlok. Simonini lendir í margvíslegum ævintýrum, drepur óvini og uppljóstrara í hrönnum, hleypir af stokkunum sprengjusamsæri anarkista til að sýna fram á að lögregla Napóleons III. þurfi að takast á við slíkan óþjóðalýð, hefur áhrif á framgang Parísarkommúnunnar og falsar m.a. skjalið sem skipti sköpum í Dreyfus-málinu. En öll atburðarásin stefnir þó að því hámarki sem Gerðabækur vitringanna af Zíon urðu.

Þrátt fyrir titilinn gerist sagan ekki að neinu leyti í Prag, hvað þá í Gyðingagrafreitnum þar (ekki er átt við kirkjugarð í titlinum). Skáldverkið er að langmestu leyti bundið við París, þótt vettvangurinn sé framan af (í ca. 100 bls.) tengdur Torínó/ Sardiníuríkinu og sameiningu Ítalíu, auk einnar stuttrar ferðar til S-Þýskalands. Skáldsögur Ecos eru, held ég,sex að tölu og hef ég lesið fjórar og hálfa af þeim, tvær þeirra þrisvar, eina tvisvar og hálfa tvisvar. Það sem virðist einkenna þær er fjölbreytileiki, einkum í tíma og sviðssetningu. Þannig gerist Nafn rósarinnar á 14. öld, Foucault´s Pendulum og The Mysterious Flame of Queen Loana í nútímanum, Island of the Day Before á 17. öld, Baudolino á 12.-13. öld og Grafreiturinn í Prag á 19. öld. Þegar betur er að gáð leynist þó furðu svipað mynstur að baki öllum: Þær hefjast oftar en ekki á N-Ítalíu, jafnvel í fæðingarhéraði Ecos, Piedmonte (þrjár þær síðastnefndu) og jafnvel í heimabæ hans þar, Alessandriu (Baudolino). Síðan færist sögusviðið undanbragðalítið til Parísar (undantekningin þar er Nafn rósarinnar), enda Eco frábærlega að sér í sögu borgarinnar og sögu Frakklands yfirleitt. Á eftir París getur skáldsaga eftir Eco síðan borist út um víðan völl, einkum út í hinn ókannaða heim (Baudolino, Island of the Day Before).

Líkt og í Baudolino er Eco í essinu sínu við að útskýra ýmsa sögulega leyndardóma. En ólíkt hinum geðþekka prakkara Baudolino er Simonini ógeðfelldur einfari, sem stendur slétt á sama um alla aðra en sjálfan sig. Hann fyrirlítur ekki eingöngu Gyðinga, heldur flesta aðra hópa, sem hann kynnist á lífsleiðinni: Þjóðverja, Frakka og landa sína Ítali. Peningar koma ofar öllu, þ.e. sú þóknun sem hann getur fengið í sinn hlut fyrir fölsun, svik, sprengjutilræði eða morð. Einkum og sér í lagi fyrirlítur söguhetjan kvenfólk, enda er atburðarásin án ástarævintýra eða samdráttar kynjanna (nánast). Eina kvenpersónan, sem nokkru máli skiptir fyrir framvinduna, er konukind sem er sinnisveikur kleifhugi og viljalaust verkfæri notað af körlum til að spinna upp lygasögur um tilvist svartagaldurs.

Stíll sögunnar er hlutlægur mjög og vitsmunalegur. Sem endranær hleður Eco sagnfræðilegum upplýsingum á lesendur, ekki hvað síst í gegnum samtöl, uns þau sligast undan og hætta að verða raunsæ eða fyllilega trúanleg. Sérstaklega verður þetta íþyngjandi, þegar líður á bókina og umfjöllun um svartagaldur verður allsráðandi (samt svíkur höfundurinn ekki lesandann um eina krassandi sataníska messu eða svo). Jafnvel tveimur eða þremur blaðsíðum fyrir bókarlok hikar höfundur ekki við að láta sögupersónu þylja upp nýjungar í sprengjufræðum næstum eins og alfræðiorðabók frá lokum 19. aldar. Sjónarhornið í sögunni er að verulegu leyti bundið við Simonini, en (eins og oft hjá Eco) eru mál flóknari en svo, því að mestur hlutinn er sagður í meintum dagbókarfærslum tveggja manna, nokkuð á víxl, þar sem annar ritarinn er Simonini, en hinn er maður, sem fljótt kemur í ljós að er látinn fyrir nokkrum áratugum! Báðir skrifa í sömu dagbókina, með ólíkri rithönd, og til að flækja málin frekar, þá virðist annar skrifa meðan hinn sefur! Í ofanálag stingur sér svo inn öðru hvoru „Sögumaður“ (Narrator) með sín eigin sjónarmið, en hann virðist ekki heldur átta sig fyllilega á hvað er á seyði. Ruglingslegt? Kannski. En það virkar. Að mestu.

Að endingu má nefna að Grafreiturinn í Prag er fyrst og fremst fjársjóður fyrir alla þá sem hafa yndi af: a) Strákabókum (framan af er bókin eins og Bob Moran fyrir fullorðna); b) Samsæriskenningum (af þeim úir og grúir í bókinni, eins og öðrum skrifum Ecos), c) Sögu 19. aldar; d) Sérhæfðari sögu 19. aldar um sameiningu Ítalíu, Parísarkommúnuna og þriðja lýðveldið franska; og e) Sögu svartagaldurs, frímúrarareglu og gyðingahaturs í Frakklandi undir lok 19. aldar. Sjálfur skora ég fjögur og hálft stig í ofangreindri upptalningu, enda einkunnagjöf mín í samræmi við það. Hins vegar efast ég um að kvenpeningur hafi almennt jafn gaman af sögunni eins og við strákarnir. Að minnsta kosti er hér ekki nein ástarvella á ferð.

Helgi Ingólfsson

51 comments:

  1. Skemmtileg grein og upplýsandi, ekki síður um höfundinn en efnið. Og af mörgum spurningum sem vakna brenna tvær heitar en hinar: Hver eru rökin fyrir því að (hið vissulega áhrifamikla) kommúnistaávarp Karls taki þróunarkenningu Karls fram, og hvaðan koma þér þau kynlegu vísindi að það sé einkum ástarvella, sem vekur konum, fyrirgefðu, kvenpeningi, áhuga?

    SvaraEyða
  2. Er ekki Marx sá heimspekingur eða fræðimaður/hugsuður yfirleitt sem hefur haft langsamlega mest samfélagsleg áhrif? Verður um það deilt? Menn hafa ekki byggt heilu þjóðfélögin á grundvelli Uppruna tegundanna (og þó?). Annars vildi ég bara hvetja til almennra slagsmála. Áfram Helgi! Áfram Ævar! bekve Hermann

    SvaraEyða
  3. Ég er ekki að fullyrða að Darwin hafi verið áhrifameiri en Marx, mig langar bara að vita hvaða rök hníga að því að þessu hafi verið öfugt farið, hvaða áhrif hér er rætt um og hvernig þau eru mæld osfrv. Bara almennt tuð og smámunasemi, svona svo ég segi nú alveg einsog er ...

    SvaraEyða
  4. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    SvaraEyða
  5. Ég les ekkert nema ástarvellu, enda er ég kvenpeningur. Þegar ég þá yfirleitt les. Ég er nú meira svona í því að raða snyrtivörunum mínum og dekra við minn mann.

    SvaraEyða
  6. Því má svo bæta við að mér finnst oft voða notalegt að heyra djúpar bassaraddirnar ræða um svona flókna hluti eins og sögu og vísindi og alls konar um það hvernig heimurinn virkar. Það er notaleg tilfinning að vita til þess að einhver sem vit hefur á skuli passa upp á heimsmálin fyrir mig. Og stundum læri ég dálítið á því, ef það er þá ekki allt of flókið.

    SvaraEyða
  7. Gott að vita, þá get ég passað mig á því að lesa ekki svona bók óvart á milli þess sem ég tek úr ofninum og plokka á mér augabrúnirnar.

    SvaraEyða
  8. Helgi Ingólfsson7. apríl 2012 kl. 09:03

    Ævar (1. komment):

    Ég bara lét þetta sisona flakka með K-ávarpið - úttektin er óvísindaleg og einfaldlega spurning um hvort maður leggi frekar áherslu á þróun samfélags en annað. En mér er til efs að nokkurt rit hafi mótað samfélagsgerðir 20. aldar ríkulegar en K-ávarpið.

    Til lengri tíma litið verður eflaust Malthus talinn miklu áhrifaríkari en Marx, en hann var tímabundið sleginn út af borðinu í kringum 1910, þegar mannkynið nálgaðist tveggja milljarða fólksfjöldamúrinn, en um það leyti fundu menn upp aðferð til að vinna köfnunarefni úr andrúmslofti, svo að margfalda mætti fæðuframleiðslu á jörðinni og hún gæti brauðfætt allt að 9 milljarða. Nú nálgumst við það mark ískyggilega hratt ... og sjáum engar lausnir; ergó: Spár Malthusar um hungursneyðir og stríð ganga líklega eftir að óbreyttu innan 100 ára.

    Til lengsta tíma litið verður eflaust rit Darwins réttast ... en þá munu nýjar tegundir hafa þróast og ekki verða lengur til lífverur sem kunna að lesa.

    SvaraEyða
  9. Það er svolítið merkilegt ef hugmyndir um kynjaskiptan smekk eru einhverjum óþægilegar í dag. Ég gæti trúað að ein lítil fyrirspurn til íslensku forlagsins sem gefur út ástarsögur í massavís myndi staðfesta að meirihluti lesenda séu konur. Með öðrum orðum að kynjamunur á lesvenjum sé staðreynd. Þau okkar sem lesa – svo ég tali nú ekki um skrifa – glæpasögur af einhverju tagi myndu líklega stilla sig um að fara um þessa lesendur of niðrandi orðum. En ef þetta efni er viðkvæmt er þeim mun betra hjá Helga Ingólfssyni að hafa orð á því, hvort sem orðalagið er vísvitandi ögrandi eða ekki.

    Hvað maður gerir við svona staðreynd er allt annar handleggur. Ég rak augun nýlega í tvær bækur sem mig langar til að lesa, annars vegar fræðibók sem tekur hið hefðbundna marxíska viðhorf til ástarsagna sem kúgunartækis valdastétta gagnvart konum: Tania Modleski, Loving with a vengance: Mass Produced Fantasies for Women; hinsvegar bók sem tekur öndverða afstöðu til ástarsagnalesturs: Rosemary Sullivan: Labyrinth of Desire: Women, Passion and Romantic Obsession.

    Svo virkar þessi nýja Eco bók mjög spennandi á mig. Ég hugsa að ég lesi hana.
    Hermann

    SvaraEyða
  10. Flestir lesendur ástarsagna eru konur, þannig að konur lesa ekki bækur sem eru ekki ástarsögur? Kommon strákar, ég vona að þessi röksemdafærsla sé grín.

    SvaraEyða
  11. Þú varst rétt í þessu að búa þessa röksemdafærslu til og verður að svara sjálf hvort hún sé grín. Allavega hefurðu hana ekki eftir mér: Ég tek ekki undir smættandi alhæfingar á borð við: karlar lesa ekki neitt og hafa engan áhuga á neinu nema fótbolta (hvar sá ég aftur þessa niðrandi fullyrðingu síðast?) eða konur lesa bara ástarvellur.
    Hermann

    SvaraEyða
  12. Hermann, eins og Þorgerður skildi ég síðasta komment þitt á þann veg að þú værir að taka undir skoðun Helga og notaðir vísun til þess að konur væru í meirihluta meðal lesenda ástarsagna henni til stuðnings (sem eins og Þorgerður bendir á er auðvitað rökvilla). Jafnframt að þú teldir mikilvægt að þessi skoðun kæmi fram því konur væru svo viðkvæmar (geisp). Ef þú varst að segja eitthvað allt annað þá kom það víst ekki skilmerkilega fram og ég hef ekki hugmynd um hvað það getur hafa verið. Langi þig að ræða um mismunandi lestrarvenjur eftir kyni þá er væntanlega hægt að gera það á einlægan hátt og án einhverra skota í þá veru að konur hafi ekki hundsvit á sagnfræðilegum málefnum því þær lesi bara ástarsögur (fyrirgefðu, en dettur einhverjum í alvörunni í hug að Helgi hafi verið að segja eitthvað annað, hvort sem það var til að ögra á ó, svo frumlegan hátt, eða til að standa vörð um eigin karlmennsku með því að taka það skýrt fram að áhugamál hans væru nú ekki stelpuleg (sem væri auðvitað það versta sem gæti komið fyrir karlmann)?) eða með einhverjum bleikt.is-stælum um að karlar horfi bara á fótbolta. Fyrr drekki ég mér í ástarsögum en að taka þátt í umræðum á slíku plani. Eina ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta komment er von mín um að hafa misskilið 07:20 PM-kommentið þitt. Ég hef hvorki tíma né nennu til að standa í þrasi við einhverja kynjaklisjuvarðhunda.

    SvaraEyða
  13. Kynjaklisjuvarðhundur, ó svo frumleg skot, vörð um eigin karlmennsku, einhverjum bleikt.is-stælum (er það í alvöru róttæk hugmynd um fjölmiðla að allar klisjurnar hafi safnast saman á einn stað og hinir séu stikkfrí? Fótboltaklisjuna sá ég síðast á miklum mun virðulegri miðli, því miður). Nei, það þýðir sennilega ekkert að reyna að halda uppi neinni málefnalegri samræðu, hversu einlægt sem það er gert. Ef misskilningsviljinn er þér ekki of sterkur get ég bent þér á að lesa athugasemdina að ofan aftur með opnum huga. Þar eru nefndar tvær bækur með ólíkri afstöðu sem þú skautar alveg yfir, svo ekki sé minnst á Eco sem fær skemmtilega lítið vægi í athugasemdahalanum. Það er að mér finnst mikilvægur punktur að hægt er að aðhyllast róttækan intúísjónískan eðlishyggjufemínisma án staðalmyndadekurs (já, femínismi hefur oft í sögu sinni verið eðlishyggja, nei, intúisjón um óskilgreint eðli er ekki það sama og staðalmyndadekur, nei, femínismi er ekki fyrsta og eina hugmyndakerfi mannkynssögunnar sem er án kredduafbrigða og því allir sammála sem aðhyllast hana og útilokað að skjöplast dómgreindin). Það þýðir ekkert að ljúga því að mér að þannig hugmyndir séu ekki til innan femínismans, ég hef lesið alveg nóg í femínískum fræðum til að vita að svo er ekki. En ég segi ekki meir, ekki orð. Helgi bara svarar fyrir sig ef hann langar til þess; þótt hreint ótrúlegt megi virðast erum við ekki einn og sami maðurinn. Bestu kveðjur, Hermann

    SvaraEyða
  14. "Hins vegar efast ég um að kvenpeningur hafi almennt jafn gaman af sögunni eins og við strákarnir. Að minnsta kosti er hér ekki nein ástarvella á ferð."
    Þú veist alveg hvað ég var að meina, Hermann. En annars var þetta örugglega leim tilraun til að ögra, þannig að ég nenni eiginlega ekki í fæting út af þessu.

    SvaraEyða
  15. Hvað er höfundur þessa pistils að reyna að segja með þessum lokaorðum um stráka, konur og ástarvellur? Þau virðast ekki tengjast efninu að öðru leyti. Tengjast þau yfirskrift bloggsins? Inn í hvaða samræðu eru þau innlegg? Við hvers konar viðbrögðum er búist? Strákaflissi og þöglu samþykki þeirra? Gagnrýni kvenna sem má afskrifa með skotum um húmorsleysi?

    Eins og orðin standa þarna bera þau vitni um tæra kvenfyrirlitningu því ástarvella er gildishlaðið orð um bókmenntagrein. „Við strákarnir, við erum einmitt ekki konur.“ Til hamingju með það!

    SvaraEyða
  16. Merkilegt þá hvað leim tilraun til að ögra uppsker mikil viðbrögð. Merkilegt hvað hægt er að lesa í meinta ætlun um hugsanleg viðbrögð án þess að hafa stafkrók fyrir sér í því. Ég vil svo benda á að ýmsar tuggur eru enn óteknar og alger óþarfi að halda sig á neinum málefnalegum nótum gagnvart kynjaklisjuvarðhundum. Koma svo, femínísku Tarsanar, þið getið þetta! HS

    SvaraEyða
  17. Helgi Ingólfsson8. apríl 2012 kl. 13:36

    Ég vil biðja alla hlutaðeigandi velvirðingar á seinfærni minni til svara. Það kemur ekki til af viljaleysi, heldur tímaskorti. Þér, Hermann, þakka ég málsvörnina. Um ummæli mín í lok ritdómsins vil ég benda á eftirfarandi:

    1. Lokasetningin er: „Að minnsta kosti er hér ekki nein ástarvella á ferð.“ Ég held að þeir einir, sem lesið hafi bókina, geti tjáð sig um þessa fullyrðingu. Ég minnist hvergi einu orði á hverjir lesa ástarvellur og skil ekki hvernig þær hugleiðingar (oflestur?)sumra hérna í athugasemdadálkinum megi heimfæra upp á mig. Lesið bókina fyrst og ef þessi lokasetning mín stenst ekki eftir lesturinn, skjótið þá. Annars ekki.

    2. Næst síðasta setningin er eftirfarandi: „Hins vegar efast ég um að kvenpeningur hafi almennt jafn gaman af sögunni eins og við strákarnir.“ Hér ætti ég í fyrsta lagi að vekja athygli á orðinu „almennt“, sem felur í sér margvíslega fyrirvara og þýðir að ýmsu kvenfólki gæti þótt bókin skemmtileg, þótt líklegt sé að hún ætti sér frekar aðdáendur meðan karlpeningsins. Í öðru lagi segir þar „efast ég um“, sem felur óneitanlega í sér huglægt mat, en jafnframt enga fullvissu, sem sumir virðast þó telja sig geta lesið hér út.

    3. Þess utan nefni ég fyrr að bókin sé fjársjóður fyrir alla þá sem hafi yndi af „strákabókum (framan af er bókin eins og Bob Moran fyrir fullorðna)“. Hér tilgreini ég ekki neitt um kyn þess sem gæti þótt Grafreiturinn í Prag skemmtileg bók. Né fer ég í djúpar pælingar um hvað teljist strákabækur. En þeir, sem lásu Bob Moran í æsku sér til skemmtunar, held ég að skilji hvað ég meina.

    Að endingu: Drottinn minn dýri, hvað ég er orðinn þreyttur á nafnlausum netbúrkum eins og þessum Ingó, sem ekki hafa manndóm til að koma fram undir eigin nafni þegar þeir gera öðrum upp skoðanir.

    SvaraEyða
  18. Ég heiti Ingólfur Gíslason, kt. 050374-4679. Kynjaklisjur indeed. Búrkur og alles. Svona almennt og huglægt séð, með fjölbreyttum fyrirvara án þess að ég sé neitt að fullyrða. Ég las einmitt ekki ætlun í orð höfundar, gat það ekki, sá ekki hver meiningin átti að vera og velti upp nokkrum frekar fáránlegum möguleikum. Nú hefur komið fram að lokasetningin sem hefst á orðunum „Að minnsta kosti“ tengist ekki næst-síðustu setningunni þar sem sett er fram tilgáta án ábyrgðar um það að konum almennt muni líklega falla sagan síður í geð en körlum. (Að vísu vaknar spurning um það til hvers höfundur segir okkur í lok dómsins að ekki sé um ástarvellu að ræða, var einhver hætta á því?) Ég mun svo ekki lengja þennan hala frekar.

    SvaraEyða
  19. Helgi Ingólfsson8. apríl 2012 kl. 17:58

    Sæll, Ingólfur.

    Mér finnst sjálfsögð kurteisi að koma fram undir fullu nafni, þegar komið er með athugasemdir við blogg annarra og virði það við þig að hafa gert það nú. En að öðru leyti veit ég ekki til þess að við séum á neinum slíkum kammerat-basa að ég hefði átt að vita hvaða "Ingó" þú varst.

    Það var ekki ætlun mín að ögra einum eða neinum, heldur bara að lýsa á heiðarlegan máta upplifun minni af bókinni. Mér finnast athyglisverð ummæli þín - "Eins og orðin standa þarna bera þau vitni um tæra kvenfyrirlitningu því ástarvella er gildishlaðið orð um bókmenntagrein." - um það sem ég sagði, en ég tengi hvergi orðið "ástarvellu" við kyn - það gerðu aðrir sem með athugasemdir komu síðar. Þú ættir máske að lesa bókina og taka síðan afstöðu til þess hvort um ástarvellu sé að ræða eða ekki, og tjá þig síðan um það. En máske er slíkur málfarsfasismi í uppsiglingu að ekki megi nota orð eins og "ástarvella" eða "strákabækur". Einnig velti ég fyrir mér hver viðbrögð sumra yrðu, sem athugasemdir gera hér, ef sagt væri um ummæli þeirra að "eins og orð þeirra standa beri þau vitni um tæra mannfyrirlitningu".

    SvaraEyða
  20. Svona til að hnýta saman upphaf og endi greinar Helga, og koma með innlegg í þetta frjósama spjall ykkar um kyn og lestur, er gaman að segja frá því að undir lok ævi sinnar las einn helsti fylgismaður kennisetninga Marx á Íslandi bara ódýrar ástarsögur. Sá maður var Einar Olgeirsson.

    Sjón

    SvaraEyða
  21. Það er bölvuð vitleysa að við strákarnir getum ekki haft gaman að ástarvellu. Ég legg til hópferð subbukalla á Titanic við fyrsta tækifæri til að afsanna þá kenningu.

    SvaraEyða
  22. Herra Helgi, ef þú ætlar að standa fast á því að síðasta setningin standi ekki i beinu sambandi við þá næstsíðustu þá ertu nú ekki sá höfundur sem skrif þín benda til.

    Þú skrifaðir fína grein um bók sem hefði ella farið framhjá okkur mörgum, strákum og stelpum. Og lýttir hana með kjánaskap í lokin um óskylt efni sem margir eru af fullkomlega eðlilegum ástæðum viðkvæmir fyrir. Og nú spilarðu einhvern hallærisleik og neitar að skilja það sem þú skrifaðir.

    Láttu nú ekki svona.

    SvaraEyða
  23. Helgi Ingólfsson9. apríl 2012 kl. 09:06

    Ásgeir: Athyglisverð uppástunga, en ... takk, en nei takk. Ég entist ekki hálfa myndina þegar ég sá hana fyrir 15 árum og efast um að það sé nokkuð skárra að drukkna í 3-D. :-)
    ----
    Sjón: Merkilegur punktur varðandi Einar Olgeirsson. Annar íslenskur byltingarleiðtogi leitaði einnig á vit trivíal-bókmennta á efri árum, reyndar glæpasagna sem hann skrifaði sjálfur. Sá maður hét Ólafur Friðriksson og kallaði sig Ólaf við Faxafen.
    ----
    Annars sá ég alltaf fyrir mér að ég myndi eyða ellinni í ruggustól með ullarteppi yfir vömbina og lesa meira í Kant og Schopenhauer til að skilja betur hina æðri speki. En kannski fer maður bara að fordæmi Einars Olgeirs og rifjar upp gömul kynni við Ib Henrik Cavling og Bodil Fossberg.

    SvaraEyða
  24. Sem barn og óharðnaður unglingur las ég allar Bob Moran-bækurnar og minni á að inn í þann stórmerkilega bókaflokk var nú heldur betur laumað hliðarsögum af ástarmálum Bobs og frænku Gula skuggans, hét hún ekki Tanja eða Tanía?

    Tanja var samkvæmt bókunum fegurst allra kvenna, með tinnusvart, sítt slétt hár, koparbrúna húð og há kinnbein.

    SvaraEyða
  25. Helgi Ingólfsson9. apríl 2012 kl. 09:27

    Herra Þorgeir: Ritdómurinn stendur í heild sinni í samhengi, ekki einstakar setningar út frá samhengi við einhverjar aðrar, sem tilteknir lesendur "vilja" lesa inn í þær eftir eigin höfði. Lokasetningín vísaði til heildarniðurstöðu alls ritdómsins, m.a. með skírskotun til ríks sögulegs innihalds bókarinnar og hins vitmunalega stíls. Í þeirri setningu eru konur ekki spyrtar saman við ástarvellur - sú tenging var búin til fyrst hér í athugasemdarhalanum.

    Ef fólk er klaksárt fyrir því og misskilur samhengið, þá finnst mér það leitt. En því miður verður það fólk að eiga það við sjálft sig. Eins og ég hef sagt, þá var ekki ætlun mín að ögra neinum, heldur að skrifa heiðarlega um upplifun mína af bókinni. Mér finnst sjálfsagt að ég njóti frelsis til þess og þurfi ekki að sæta skoðanakúgun fyrir þær sakir. En sumir virðast staðráðnir í að lesa aðra merkingu í orð mín en standa þarna.

    Þessi misskilningur, Þorgeir, virðist sumpart sprottinn af því að "Grafreiturinn í Prag" er í marga staði heldur misanthrópískt verk - söguhetjunni Simonini er í nöp við heilu hópana, s.s. konur, Gyðinga og hinar ýmsu þjóðir. Frásögnin er með nokkuð napurlegum kulda, vitsmunalegri íroníu og einstæðingsskap. Ég legg til að (þið?) feministar lesi bókina og myndið afstöðu varðandi það viðhorf til kvenna, sem birtist í bókinni, frekar en að pönkast á mér.

    SvaraEyða
  26. Helgi ertu í alvörunni ekki að grínast með að þú tengir ekki meinta ástarvellu við kvenkynið í lok færslunnar? Eða misskilurðu orðið kvenpeningur? Eða misskiljum við hin orðið kvenpeningur?

    „Hins vegar efast ég um að kvenpeningur hafi almennt jafn gaman af sögunni eins og við strákarnir. Að minnsta kosti er hér ekki nein ástarvella á ferð.“

    Það er ekki nokkur leið að lesa þessar tvær setningar ekki í samhengi. Jafnvel þó þú skjótir inn orðinu almennt í þá fyrri.

    (já ég heiti semsagt Hildigunnur Rúnarsdóttir og les ekki ástarvellu en hef gríðarlega gaman af svokölluðum strákabókum og hef haft síðan ég byrjaði að lesa mér til skemmtunar, um fjögurra ára aldurinn).

    SvaraEyða
  27. Helgi Ingólfsson9. apríl 2012 kl. 13:02

    Sæl Hildigunnur.

    Ég skil bara orðið "kvenpeningur" sama skilningi og sett er fram í Orðabók Menningarsjóðs. Ef það fer fyrir brjóstið á þér, þá get ég alveg lýst því yfir (ef þér verður hughægra við það) að ég sé "karlpeningur" (þótt það orð finnist ekki í áðurnefndri Orðabók).

    Um önnur atriði athugasemdar þinnar: Les síðasta svar mitt í athugasemdahalanum.

    SvaraEyða
  28. Guðrún Elsa Bragadóttir9. apríl 2012 kl. 13:25

    Ég er hrædd við að blanda mér í þetta, en vil bara benda á að skv. Snöru er skilgreiningin á kvenpeningi eftirfarandi:
    • (niðrandi)
    kvenmaður, kvenfólk

    Þannig er skilgreiningin. Ég er ekki að segja að þú hafir ætlað að tala á niðrandi hátt um konur eða neitt svoleiðis. Maður getur bara ekki alltaf ráðið algjörlega merkingunni í því sem maður segir, tungumálið er bara þannig.
    Annars skil ég ekki alveg hvernig þú getur bæði verið leiður yfir því að fólk misskilji þig eða geri þér upp skoðanir, og að verið sé að „skoðanakúga“ þig (þá fyrir skoðanir sem þú telur þig ekki hafa) á sama tíma.

    SvaraEyða
  29. Sæll vertu Helgi.
    Takk fyrir þessi skrif. Hef lesið tvær bækur eftir Umberto Eco og það er gaman að fá svona innsýn í dýpri forsendur bóka, á hverju þær eru byggðar. Reyndar hafði ég ekki hugmynd um tilvist "The Protocols of the Elders of Zion" og að hún væri svona ríkt input í "Mein Kampf". Svo lærir sem lifir.

    Kómískt er þó að sjá viðbrögðin við einni til tveim setningum í restina. Mér finnst þetta bara stórfyndið :) Þið Subbukallarnir fáið þó allavega athyglina. Til lukku með það.

    Kv.
    Sigurjón

    SvaraEyða
  30. Helgi Ingólfsson9. apríl 2012 kl. 14:13

    Sæl Guðrún Elsa.

    a) Ég studdist (og styðst jafnan) við Orðabók Menningarsjóðs (frá 1963, minnir mig; 6. prentun (mín útgáfa) árið 1979), sem ég tel afbragð íslenskra orðabóka => ÞANNIG ER SKILGREININGIN! Og af því er misskilningurinn sprottinn.

    Skilgreining þín (og Snöru) er sú sama og kemur fram í Orðabók Eddu (ca. 2002), sem ég nota yfirleitt ekki, enda miklu síðri.

    Mér sýnist "misskilningsvilji" vera allsráðandi hjá tilteknum athugasemdaeigendum hér, sér í vil.

    b) Um eftirfarandi orð þín: "Annars skil ég ekki alveg hvernig þú getur bæði verið leiður yfir því að fólk misskilji þig eða geri þér upp skoðanir, og að verið sé að „skoðanakúga“ þig (þá fyrir skoðanir sem þú telur þig ekki hafa) á sama tíma."
    =>
    Ég sé enga mótsögn hérna. Ég er leiður yfir (vísvitandi?) misskilningi sumra athugasemdaeigenda / að mér séu gerðar upp skoðanir og ég er leiður yfir því þegar reynt er að skoðanakúga mig. Hver er mótsögnin?
    -----
    Sigurjón: "Ríkt input" í Mein Kampf er fulldjúpt í árinni tekið, því að Gerðabækurnar eru einvörðungu einu sinni nefndar berum orðum í riti Hitlers. En um þetta leyti (1917-30) voru þær gríðarlega áhrifamiklar og skoðanamyndandi um allan heim. Frekar mætti orða það sem svo að þær hafi gert frjóan þann jarðveg sem Hitler sáði í.

    P.S. Sigurjón: Ég er bara "gestasubbi" hér. Það er Hermann Stefánsson, sem á mestan heiður skilinn. Plús hans 13 fylgisveinar.

    SvaraEyða
  31. nei orðið fer ekki fyrir brjóstið á mér, ég var bara að spá í hvort ég væri eitthvað að misskilja. Í síðasta svari þínu, fyrir mitt innlegg #2 segirðu að tengingin milli ástarvellu og kvenfólks hafi orðið til í kommentahalanum, ég var bara að benda á að hún er mjög kyrfilega í þessum tveimur setningum í lok dómsins. Það þarf ekki neinn hala til.

    En bókina mun ég lesa og hlakka til :)

    SvaraEyða
  32. Helgi Ingólfsson9. apríl 2012 kl. 15:34

    Sæl Hildigunnur.

    Ég hvet þig endilega til að lesa Grafreitinn í Prag. Eins og flesta. Ekki hvað síst ef þú hefur haft "gríðarlega gaman af svokölluðum strákabókum" frá því að þú lærðir að lesa um fjögurra ára aldurinn ...

    ;-)

    P.S. Misskilningurinn er sennilega sprottinn af því að Orðabók Menningarsjóðs, sem ég nota jafnan, setur ekki "(niðrandi)" fyrir framan "kvenfólk, kvenmaður". :-)

    SvaraEyða
  33. Það má nefna að til er bók eftir Eco og fleiri, fræðadebatrit sem heitir Túlkun og oftúlkun, Interpretation and Overinterpretation. Eco er þar gagnrýndur allharkalega og lætur vaða á súðum sjálfur og fólk er í þessu riti almennt kolósammála um hvað sé túlkun og hvað oftúlkun eða hvort oftúlkun sé yfirleitt til, hvað sé rangtúlkun, hvort ætlun höfundar skipti máli, merking sé einhöm, hvort til sé vilji textans, um ritningarýni og innbyggðan lesanda og þar fram eftir götunum. Helvíti fín bók, minnir mig, sennilega uppspretta fleiri og víðari og frjóari hugsana en lokaorð Helga.

    Svo má líka benda á þessa fínu úttekt Elíasar Knörr hér að ofan um Francisco Tario ef halinn er þá tæmdur hér.

    Alveg sé ég Einar Olgeirsson fyrir mér í ástarsögunum!
    Hermann

    SvaraEyða
  34. Sæll Helgi,
    takk fyrir skemmtilegt svar! Ég vildi bara benda á að merkingin væri til staðar nú þegar í tungumálinu (bæði í tali og orðabók) - þess vegna væri ekki skrítið að fólk gæti skilið orðið á neikvæðan hátt (án þess að vilja það eitthvað sérstaklega). En það má vel vera að þín orðabók sé betri en mín!
    Eins er ákveðin hefð fyrir því að lesa setningar sem koma í röð í samhengi hverja við aðra (ekki síst ef seinni setningin byrjar á „Að minnsta kosti“), þannig að það er kannski heldur ekkert skrítið að fólk skilji síðustu setninguna út frá þeirri næstsíðustu. Svo á auðvitað líka að lesa í samhengi við það sem á undan er komið.
    Ég skil ekki alveg af hverju einhver ætti að vilja misskilja textann þinn. Ég vil það að minnsta kosti alls ekki, það er mér engan veginn í hag.
    En ég vil þá að lokum bara spyrja þig, út af hvaða skoðunum varstu kúgaður hér í þessum þræði?

    SvaraEyða
  35. Helgi Ingólfsson9. apríl 2012 kl. 17:32

    Hermann (04:01PM):

    Snjöll hugmynd! Auðvitað væri best að fá Eco sjálfan (Interpretation and Overinterpretation) og alla hans meðmælendur og andmælendur til að höggva á hnútinn í þessu debatti.

    Annars átti þetta að vera svo saklaus dómur, svo klipptur og einfaldur af minni hálfu að fátt þyrfti að ræða. Ég hafði mestar áhyggjur af öllu því sem ég náði ekki að nefna í ritdóminum (Guð minn góður, hvernig rifrildið hefði orðið, ef allt hefði komist inn!) heldur en því sem stóð þarna.

    Mér sýnist mega kategórísera debattinn í nokkra flokka. Fyrst: Hvort orðin "strákabækur", "ástarvellur" og - nú síðast - "kvenpeningur" séu gildishlaðin orð. Héðan í frá sýnist mér einsýnt að ég tilgreini uppruna /skráða merkingu hvers þessara orða, ef ég nota þau aftur í ritdómi. Í öðru lagi þarf augljóslega að fara djúpt í saumana á setningarfræði og merkingarfræði til að átta sig á innbyrðis samhengi skilgreininga, merkinga og tenginga. Gagnrýnendur mínir aðhyllast augljóslega mjög þrönga skilgreiningu á tengslum tveggja síðustu setninga og vilja slíta þær úr samhengi ritdómsins í heild - eins og nákvæmlega þessar setningar standi einar sér án samhengis við alls þess sem kemur á undan.

    Hmmm ... það sem átti bara að vera heiðarlegur dómur virðist ætla að verða uppspretta móðgana og hrannvíga ... Og því er ég leiður yfir. Næst reyni ég að skrifa fimm orða dóm. En, eins og heppni mín er, þá veldur hann væntanlega fjaðrafoki líka.
    -----
    Guðrún Elsa (04:17PM):
    1. Misskilningurinn um mismunandi orðabækur virðist liggja fyrir; ég nota eina, þið aðra. Ekki tilefni til að gera stórmál út af. :-) Í minni orðabók er ekkert niðrandi við "kvenpening".

    2. Einhverra hluta vegna vilja andmælendur mínir eingöngu tengja saman tvær síðustu setningar mínar, eins og þær standi í engum tengslum við þriðju síðustu setninguna, fjórðu síðustu setninguna eða allar setningarnar þar á undan.

    3. Út af hvaða skoðunum var ég kúgaður í þessum þræði? Einhver Ingó, netbúrka í fyrstu, sem síðar hét Ingólfur Gíslason, sagði um mig (orð mín) eftirfarandi; "Eins og orðin standa þarna bera þau vitni um tæra kvenfyrirlitningu því ástarvella er gildishlaðið orð um bókmenntagrein." Þessi "tæra kvenfyrirlitning" fór fyrir brjóstið á mér, enda tel ég mig ekki búa yfir henn og ekki hafa mælt til hennar. Það er reyndar hóflega snjallt að láta þarna "orðin bera vitni um tæra kvenfyrirlitningu", eins og persóna mín væri þessu óviðkomandi. En "orðin", sem þessi Ingó vísar til eru það sem ber skoðanir mínar fram og ég harðneita því að hafa í orðum eða hugsunum gerst sekur um "tæra kvenfyrirlitningu" og mér er gróflega misboðið að vera vændur um slíkt. Mér finnst staðhæfing þessa höfundar slík að hann ætti að biðjast afsökunar á ummælum sínum - ég lít á ummæli hans sem tilraun til skoðanakúgunar um að ég ætti að fallast á viðhorf, sem ég beri enga ábyrgð á, en ætti að fallast á mér til minnkunar.

    4. Á svipaðan hátt finnst mér orð Þorgeirs Tryggvasonar bera keim af því sama, að fá mig eða þvinga til að játa eitthvað sem ég hef ekki gert. "Láttu ekki svona," eru síðustu orð hans. Hvernig á ég að láta öðruvísi en heiðarlega?

    5. Það er merkilegt hversu margir gagnrýnendur mínir hérna tengjast feminisma. Ég sé að fáir aðrir velta því fyrir sér hvort eitthvað sé sérstaklega stuðandi eða athugavert við framsetningu þessa dóms og túlkun bókarinnar. Bara fólk sem margt hvert er tengt hinni feminísku hreyfingu, beint eða óbeint.


    -----
    P.S. Guðrún Elsa: Ef þú ert sú Guðrún Elsa, sem ég held að þú sért, þá tek ég ofan fyrir þér með virðingu. Öndvegisnemendur úr 4. bekk A og 6. bekk A gleymast ekki svo glatt. ;-) Og druslubókarbloggin þín eru til fyrirmyndar.

    SvaraEyða
  36. Svo vita auðvitað allir að Marx hugðist semja greiningu á verkum Balzac þegar Kapítalinu væri lokið, en dó áður en af því varð. Þrátt fyrir að til væri fólk sem afgreiddi sögur Balzac sem ástarvellur. VV

    SvaraEyða
  37. Helgi Ingólfsson10. apríl 2012 kl. 03:33

    Það eru nú komin 30 ár síðan ég las mín marxísku bókmenntafræði uppi í HÍ, og aðallega þá í gegnum greiningu Lukacs. En ef ég man rétt, þá voru þeir báðir (Marx og Engels) mjög hrifnir af Balzac - hver er það ekki sem ræðst í lestur verka hans? - en fyrst og fremst af þeim stóra kanón verka Balzacs, sem myndaði "La Comédie Humaine" og átti að sýna franskt samfélag á f.hl. 19. aldar frá sem flestum hliðum. Ég hef lesið tvær þessara skáldsagna ("Les Chouans" og "Goriot gamla") og get sagt með sanni að báðar eru fjarri því að vera ástarvellur, þótt vissulega sé í seinni bókinni ástarþráður frá hinum unga Rastignac til tveggja kvenna (annarrar giftrar), en þó meira um "ástarfláræði". Ef ég man rétt, þá ritaði Balzac þessa frábæru bók, "Le Pere Goriot", einvörðungu á 40 dögum, enda er hún skrifuð sem neðanmálssaga fyrir dagblað upphaflega, held ég, og hann þurfti að standa skil á hverjum kafla á tilsettum tíma.

    Mig minnir að Marx og Engels hafi viljað stúdera "La Comédie Humaine" (sem sagt, stóran bókaflokk Balzacs) út frá því hvernig borgaralegur rithöfundur gæti (nánast ómeðvitað) gefið trúverðuga heildargreiningu á samfélagi frá efstu lögum niður í hið lægsta.

    Ekki er samt hægt að setja öll rit Balzacs undir sama hatt; hann var "hack-writer", sem skrifaði um hvaðeina sem hann fékk borgað fyrir, þ.á.m. smásögur á mörkum hins siðlega. Ég man eftir að hafa séð slíkt smásagnasafn Balzacs í enskri þýðingu sem ungur maður, sögurnar kallaðar "Droll Stories" og myndskreyttar með afar klúrum teikningum. Ég held að það hafi ekki alveg verið sá hluti verka Balzacs sem Marx hafði áhuga á. Og í minningu minni (það litla sem ég las) voru þær "Droll" sögur meira í anda Chaucer og Boccaccio, klúrar fremur en hjartnæmar.

    En ef VV er Vésteinn Valgarðsson, þá kann hann sín marxísku fræði margfalt betur en ég og kann gerr frá að segja um Marx og Balzac. :-)

    SvaraEyða
  38. Ég bið forláts ef ég hef virkað eins og einhver bulla í mínu innleggi, Helgi. Ég hélt að ég væri í rökræðu, sem má svo sem alveg skilgreina sem "tilraunir tveggja aðila til að fá mótaðilann til að játa að hann hafi rangt fyrir sér". "Láttu ekki svona" vísar til þess að ég átti, og á enn, erfitt með að trúa því að þú sjáir ekki hvers vegna algerlega hversdagslegur og bókstaflegur skilningur á niðurlagi greinarinnar kemur svona við fólk. Auðvitað er hann ekkert úr röksamhengi við það sem á undan fer, ég held að enginn haldi því fram. En lokasetningarnar tvær eru líka í samhengi hvor við aðra.

    SvaraEyða
  39. Helgi Ingólfsson10. apríl 2012 kl. 04:48

    Sæll á ný, Þorgeir.

    Síst af öllu mundi ég telja þig bullu - mér finnst þú einmitt málefnalegur þar sem ég rekst á ummæli þín í netumræðu. :-)

    Mér sýnist allur þessi stormur í vatnsglasi sprottinn af margháttuðum misskilningi.

    1. Ég hef notað orðin "ástarvellur", "strákabækur" og "kvenpeningur", sem virðast hafa farið fyrir brjóstið á einhverjum. Varðandi síðasta orðið vil ég vera fullkomlega ljós um eitt atriði: Orðið "kvenpeningur" er ekki niðrandi eða neikvætt í mínum huga, heldur frekar eins og góðlátlegt skens. Á mínu æskuheimili og langt fram eftir öllu í námi, allt upp í háskóla, notaði ég Orðabók Menningarsjóðs (útg. 1963) og þar er orðið "kvenpeningur" skilgreint sem "kvenfólk, kvenmaður", án nokkurs neikvæðs merkingarauka. Þetta samræmist einnig öllu því sem ég hef lesið frá fyrri tíð, þar sem orðið kemur fyrir, og ég hef vanist þessari merkingu. Á síðustu árum virðist orðið hafa fengið neikvæðan merkingarauka; ég á sjálfur Orðabók Eddu (í 2. bindum, útg. 2002), sem byggir um margt á Orðabók Menningarsjóðs, en þó rækilega endurskoðaðri (t.d. er hent þar út ýmsum fornyrðum sem tengjast fornsögum). Þess vegna nota ég sjaldan Orðabók Eddu; ég ólst upp við hina eldri Orðabók Menningarsjóðs og gríp til hennar. En í Orðabók Eddu er komin eftirfarandi skilgreiing á "kvenpeningi" sem "(niðrandi) kvenfólk, kvenmaður."

    Þannig að einn "glæpur" minn á að felast í því að tala íslensku feðranna, eins og ég lærði hana og eins og hún hefur verið töluð í árhundruð, en ekki eins og hún hefur verið töluð síðustu 10 árin. Ég áskil mér rétt til að nota orðið "kvenpeningur" eins og ég lærði það, en tek um leið fram að það er ekki á neinn hátt niðrandi meint.

    2. Það kann að hafa verið óheppilegt að ganga frá niðurlagi ritdómsins á þann hátt sem ég gerði - hefði það t.d. breytt miklu ef ég hefði haft greinaskil á undan síðustu setningunni? Eða greinaskil + autt línubil? En mér þótti ritdómurinn orðinn helst til langur og var sjálfur kominn í tímaþröng vegna annarra verka, svo að niðurlagið kann að vera full-hraðsoðið, jafnvel snubbótt. Ég játa fullkomlega að ég hefði getað gengið frá því á annan, lengri og ljósari hátt. En mér datt aldrei í hug að það gæti, í núverandi mynd, valdið slíku fjaðrafoki (enda tel ég þurfa "þrengsta mögulegan" lestur til að fá út þá túlkun sem sumir telja sig sjá, þ.á m. "tæra kvenfyrirlitningu", í orðum mínum). Sjálfur er ég málsvari eðlilegrar, öfgalausrar og flæðandi notkunar á íslensku - og tel mig ekki hafa farið yfir neitt strik í þeim efnum.

    3. Lokasetningarnar tvær geta vissulega talist í samhengi hvor við aðra, en einnig í samhengi við alla heildina, bæði hvor fyrir sig sem og báðar. Þannig hefur næst síðasta setningin m.a. skírskotun í það sem áður hefur verið sagt um kvenfólk í bók Ecos, t.d. kvenfyrirlitningu Simoninis (sem ég held að sé miklu stækari og skoðunarverðari en mín meinta). En sérstaklega má ætla að niðurlagssetningin hafi merkingu og tengingu við heildina - henni er ætlað að draga saman sem flesta þræði.

    Lifðu heill,
    Helgi Ing

    SvaraEyða
  40. Það er skondið að sverja af sér meinta karlrembu með því að vísa til þess að maður tali bara "íslensku feðranna".

    Kv. Hildur Knútsdóttir

    SvaraEyða
  41. Helgi Ingólfsson10. apríl 2012 kl. 09:22

    Hildur:

    Ekki tala ég bara mál feðranna, heldur einnig og ekki síður MÓÐURMÁLIÐ! :-)

    Með kveðju, Helgi Ing

    SvaraEyða
  42. Það er gott að sjá að fólk er fært um að skilja hismið frá kjarnanum.

    Annars ætlaði ég að nefna líka að það voru ekki bara blóðheitir norrænir kommúnistar sem lifðu á bókmenntarusli – Gertrude Stein las aldrei annað en sjoppulitteratúr. Eða svo gott sem. Og þótti gott, annað en bóhemasorpið sem Hemingway og félagar reyndu að troða ofan í hana tilneydda.

    SvaraEyða
  43. Þorgeir Tryggvason10. apríl 2012 kl. 12:08

    Ekki má gleyma Ludwig Wittgenstein, sem las helst ekkert nema "Hard-boiled" ameríska krimma.

    SvaraEyða
  44. Helgi Ingólfsson10. apríl 2012 kl. 12:37

    Þorgeir:

    ... og Agatha Christie las Egyptólógíu í sínum frístundum ... :)

    SvaraEyða
  45. Eitt til viðbótar um merkingu:

    Kvenpeningur / búpeningur ...

    Kveðja, S.E.

    SvaraEyða
  46. Marx var víst sérstaklega hrifinn af því hvernig Balzac lýsti uppsöfnun og tilfærslu auðs og fjármuna í „La Comédie humaine“. Í því verki liggur við að auðurinn sé ein af persónunum bæði í tíma og rúmi. Þetta sem og „trúverðuga heildargreiningin á samfélagi frá efstu lögum niður í hið lægsta“ sem þú nefnir, veldur því að mörgum finnst sjónvarpsmyndaflokkurinn „The Wire“ sverja sig í ætt við Balzac. VV

    SvaraEyða
  47. Helgi Ingólfsson12. apríl 2012 kl. 03:17

    S.E. og fleiri:

    Þar sem töluverðar umræður hafa spunnist um málfarslegt jafnrétti og meint gildishlaðin orð í þessum umræðuhala, þá ætti ég að benda máljafnréttissinnum á eftirfarandi:
    -----
    1. Í Orðabók Menningarsjóðs (frá 1963, mín útg. 1979) er að finna eftirfarandi:
    „Kvenpeningur, k: kvenmaður, kvenfólk.“
    Orðið „karlpeningur“ kemur ekki þar fyrir.

    Í Orðabók Eddu frá 2002 (og snöru.is, held ég líka) er hins vegar eftirfarandi:
    „Kvenpeningur, kk: (niðrandi) kvenmaður, kvenfólk.“
    „Karlpeningur, kk: karlmenn, karlar.“

    Ég tel að máljafnréttissinnar ættu frekar að berjast fyrir því að fá þessi tvö orð jafngild (þrír möguleikar: a) Með niðurfellingu beggja úr málinu; b) Með því að hafa hvorugt niðrandi, og c) Með því að hafa bæði niðrandi) frekar en að hafa horn í síðu minni, sem notaði Menningarsjóðsorðabókarmerkinguna, eins og ég hef margoft gert grein fyrir.
    -----
    2. Ég skil ekki hvers vegna stöðugt er hamrað á orðinu „feðraveldi“ í feminískri umræðu í dag. Það vísar til samfélagsgerðar, sem er patríarkísk, þar sem ættfaðir fer með yfirráð lífs og lima fjölskyldufólks síns, eins og t.d. „paterfamilias“ hjá Rómverjum að fornu. Það hefur almennt ekki þekkst í þróuðum vestrænum ríkjum a.m.k. síðustu 200 árin. Þess vegna er miklu betra og meira lýsandi að nota annað gott og gilt orð á íslensku, „karlaveldi“.
    -----
    3. Ef málfarsstefna samfélagsins er sú að kynjaréttisleiðrétta gömul orð í íslensku, þá má benda á ýmis orð þar sem leiðréttinga er þörf:
    a) „Föðurland“: Orðið verði fellt niður, en í staðinn eigum við ágætt ókynbundið orð, sem er „fósturland“.
    b) „Móðurmál“: Ætti eiginlega að vera hvort tveggja „móður- og föðurmál“. Gæti því orðið „foreldramál“ í staðinn.
    c) „Fjallkonan“: Til mótvægis þyrfti að koma „fjallkarlinn“ líka. Mætti þá máske tala um þau sem „fjallhjónin“? Nei. Vegna þess að samkvæmt málvenju vísar „hjón“ til hjónabands karls og konu. Hins vegar mætti þá máske kalla þau „fjallsambúðarparið“.
    d) „Móðir náttúra“: Frá kynjamáljöfnunarsjónarmiði væri sennilega réttara að tala um „foreldra náttúru“.
    -----
    4. Væri síðan ekki bara sjálfsagt að hefja orðatalningu og gæta þess að fullkomið jafnvægi sé í fjölda kven- og karlorða í málinu? En svo þyrfti máske að taka tillit til baráttu trans-fólks og sjá til þess að íslenskur nafnorðaforði skiptist nákvæmlega til þriðjunga, í karlkyns-, kvenkyns- og hvorugkynsorð.
    -----
    5. Hafið þið tekið eftir því að til eru orð í íslensku sem eru „kynskiptingar“? Þannig er orðið „foreldri“ notað í hvorugkyni í eintölu, en í karlkyni í fleirtölu.
    -----
    -----
    VV: Takk fyrir upplýsingarnar. Þetta er forvitnilegt. Ef Marx væri uppi í dag, þá sæti hann sennilega fyrir framan "The Wire"? :-)

    SvaraEyða
  48. sko til að berja enn í knérunninn þá hefði ég hikstað nákvæmlega eins á síðustu setningunni þó skrifað hefði verið konur og ástarsögur í stað kvenpeningur og ástarvella. Það er vísunin í að kvenfólk lesi nánast bara ástarsögur sem kom við mín kaun. Illilega, nei, engin holund á ferð en pínu sárt samt.

    SvaraEyða
  49. Helgi Ingólfsson12. apríl 2012 kl. 05:53

    Kæra Hildigunnur,

    ég segi hvergi, hvorki í pistli mínum né athugasemdum, að "kvenfólk lesi bara ástarsögur" - sumir virðast hins vegar staðráðnir í að gera mér upp þá skoðun.

    Ef þér og öðrum verður hughægra við það, þá las ég, hin meinta karlremba, Ib Henrik Cavling í löngum bönum á mínum unglingsárum; einnig bók eftir Bodil Fossberg, aðra eftir Erling Poulsen (sem mér skilst að sé sami höfundur) og einhverjar bækur eftir Theresu Charles (minnir mig að hún hafi heitið). Og allt áttu þetta að heita ástarsögur.

    Einnig las ég "Love Story" fimm sinnum á árabilinu 1970-75. En ég táraðist bara í 3 fyrstu skiptin sem ég las. :-)
    ----
    S.E. (05:51 PM):

    Svo eiga auðvitað sumir pening í banka. Við skulum vona að það sé ekki kven-, karl- eða búpeningur.

    Svo er náttúrlega til "vonarpeningur", en hann getur nú brugðið til beggja vona.
    ----
    VV:
    Síðustu ummæli mín um að Marx væri að horfa á "The Wire", ef hann væri á lífi, voru sennilega ekki með öllu sanngjörn. Marx karlinn mundi að sjálfsögðu þekkja til kenninga Gramsci um hegemóníu ráðandi afla, auk kenninga Adorno og Horkheimer um að það hafi verið afþreyingin / Hollywood sem "drap" marxismann.

    SvaraEyða
  50. Afsakið orðbragðið en ætliði aldrei að hætta þessu þvargi? Mér finnst reyndar karlveldi gott og gilt orð að öllu leyti. Þessi síða er til dæmis yfirlýst karlveldi. Öfugt við til dæmis Háskóla Íslands eða helstu fjölmiðla landsins sem eru bara praktíserandi karlveldi. So shoot me. Kær kveðja, Hermann

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.