þriðjudagur, 15. maí 2012

Subbuskapur og sóðarit: Rafbók







Út er komin rafbókin Subbuskapur og sóðarit.

Subbuskapur og sóðarit er unnin upp úr samnefndri bloggsíðu sem haldið var
úti í rúma tvo mánuði, frá febrúarlokum 2012 og fram í byrjun maí sama ár. Í bókinni fjalla fjórtán karlmenn um bókmenntir og önnur bókatengd hugðarefni sín, um sögu og samtíma, um stjórnmál, lestur og leshætti, dauða rithöfunda, popp og klassík, um harm og fjör, um bækur og það sem þeim tengist, sem er eiginlega allt milli himins og jarðar. Þetta eru menn úr öllum áttum, rithöfundar, tónlistarmenn, myndlistarmenn, fræðimenn, grúskarar, heimspekingar, ljóðskáld, glæpasagnahöfundar og fagurkerar. Þeir eru: Ásgeir H. Ingólfsson, Eiríkur Örn Norðdahl, Elías Knörr, Gísli Magnússon, Guðmundur Andri Thorsson, Haukur Már Helgason, Hermann Stefánsson, Jón Hallur Stefánsson, Jón Karl Helgason, Jón Ólafsson, Ragnar Helgi Ólafsson, Þórarinn Leifsson, Þröstur Helgason og Ævar Örn Jósepsson. Sérstakir heiðursgestir eru: Ármann Jakobsson, Bergsveinn Birgisson, Helgi Ingólfsson og Magnús Sigurðsson, auk þeirra Kristínar Ómarsdóttur og Emmalyn Bee sem rætt er við á síðum bókarinnar. Umsjónarmaður og yfirlesari var Hermann Stefánsson. Ljósmyndir í "Draugasagan langa um Eugmund" úr sýningu Þjóðleikhússins 2012: Eddi. Kápu gerði Ragnar Helgi Ólafsson. Rafbókargerð annaðist Eiríkur Örn Norðdahl.


Við útgáfu var bókin samviskulæst í tilraunaskyni og rann kaupverðið í gott málefni sem gagnast skildi menningu í landinu. Fáir reyndust hafa samvisku og er því bókin ókeypis í dag en kaupandinn fær endurgreitt. 


Rafbókinni má hala niður (með því að smella á textann) í þremur gerðum, sem pdf.-skjali (fyrir tölvur), Mobi-skjali eða Epub-skjali hér að neðan.


Mobi-skjal
Epub-skjal
Pdf.-skjal

fimmtudagur, 3. maí 2012

Þetta er búið

Jæja, þetta er búið.

Senn birtist hér í bloggs stað samviskulæst rafbók/pdf-skjal.

Ég þakka sem skrifað hafa ástsamlega fyrir framlög sín og lesendum kærlega fyrir að lesa.

HS

þriðjudagur, 1. maí 2012

Þú færð aldrei nein fokking ritlaun!


Mig langaði til að skrifa lýsingu á ársfundi Rithöfundasambands Íslands fyrir  Subbukarlavefinn.  Fyrst datt mér í hug að nálgast verkefnið á svipaðan hátt og Hunter S. Thompson gerði í Fear and Loathing in las Vegas. Ég gæti kallað greinina Skrifandi skáld í borg óttans eða eitthvað í þeim dúr. Svolítið unggæðingslegt kannski. Og þegar á reyndi gekk þetta ekki alveg upp.

Hunter S. ruddist ásamt „lögfræðingi“ sínum á opnum blæjubíl í gegnum Nevada-eyðimörkina í meskalínvímu en ég lullaði á löglegum hraða eftir Sæbrautinni á kynlausasta bíl allra tíma: stálgráum Ford Fókus Steisjon. Og það næsta sem ég komst neyslu eiturlyfja þennan dag var grænt te og engifer í klámgrænum brúsa sem konan mín hafði keypt dýrum dómi í Kringlunni og ég saup nú á til að bæla niður þrálátan smábarnahósta sem ég hafði nælt mér í á Barnaspítala Hringsins. Þessi kverkaskítur var búinn að angra mig í viku.

Þegar ég beygði út af Langholtsvegi og Gunnarshús blasti við efst á Dyngjuveginum datt mér í hug að bræða saman frásögn af ársfundinum og stuttum bút úr Meistaranum og Margarítu eftir Búlkakov. Einhvernveginn svona:

„Ég var að stimpast í Gunnarshúsi í tvo tíma í gær“.
         „Og hvernig gekk?“
         „Ég krækti mér í viku á Eyrarbakka.“
         „Vel af sér vikið!“

En þegar ég var búinn að leggja Fókusnum og sá rithöfundana reika líkt og uppvakninga í átt að Gunnarshúsi sótti að mér styggð.  Þessi stílæfing myndi aldrei gera sig. Ég var ekkert reiður út í mitt stéttarfélag, að minnsta kosti ekki eins og Bulgakov út í MASOLIT í bók sinni um Meistarann og Margarítu.

Fyrir framan Gunnarshús var Ragnheiður gjaldkeri að stugga nokkrum reykingamönnum niður fyrir húsið. Í anddyrinu tók ég eftir málverki af Thor Vilhjálmssyni á hægri vegg í örlítið stífum impressjónístískum stíl. Á veggnum andspænis gömlu kempunni flæddi Gunnar Gunnarsson út úr stórum ramma í frekar væmnum litavaðli. Hann var mjög ólíkur þeim svanga og örvæntingarfulla Gunnari sem ég sá fyrir mér þegar ég dvaldi í gestaíbúðinni um jólin 2007. Þá hafði ég stundum heyrt hann ganga um um gólf og skella hurðum. Málverkið sýndi Gunnar sællegan og feitan eins og smábarn sem er búið að fá of stóran skammt af mjólkurdufti. Kannski var hann bara búinn að finna sig í hruninu, karlinn. Lenda.

Inni í fundarsalnum var búið að koma fyrir stólaröðum undir vökulu augnaráði um það bil fimmtíu rithöfunda í klossuðum trérömmum sem héngu á burðarveggnum hægra megin þegar inn var komið.

Ég skimaði yfir stólaraðirnar og The usual suspects. Sá ekki betur en Jón Kalman væri örlítið kalinn á nefinu eftir snjóhríðina í síðustu bókum sínum. Dauft glott lék um varir hans eins og hann hefði á tilfinningunni að ýmislegt smáfyndið ætti eftir að gerast þetta kvöld. Sindri Freysson heilsaði mér, sömuleiðis kíminn á svip. Guttesen var klæddur í svörtu frá toppi til táar, hann heilsaði mér með virktum eins og ég væri mættur í eigin réttarhöld. Auður Ava og Sigurbjörg Þrastar voru þarna einhversstaðar á sveimi. Einnig Börkur Gunnarsson, Magnea Matt, Olga Guðrún, Sölvi Björn og Sigurður A. Magnússon. Ég kannaðist við um það bil helminginn af þessu fólki. Í innri salnum var slæðingur af eldri félagsmönnum sem ég kunni ekki nein deili á eða sá ekki fyrir myndarlegum tréstiga sem klauf rýmið í tvennt og hringaði sig upp á efri hæðina þar sem skrifstofan var staðsett ásamt setustofu og ýmsum smærri herbergjum.

Marló skáldkona kom aðvífandi um leið og ég fékk mér sæti. Hún lék á als oddi, sagðist vera í karlaleit sem var svolítið skemmtileg yfirlýsing á þessari samkomu sem minnti einna helst á strangtrúað guðshús. Svolítið eins og að leita að stífum lim í líkhúsi.

Fundurinn fór rólega af stað undir styrkri stjórn Karl Ágústs Spaugstofumanns og Ragnheiðar gjaldkera. Ársskýrslunni var varpað upp á lítið tjald í horni neðri salarins. Til hliðar við það hafði verið komið fyrir beinhvítu púlti sem skyggði á málverk eftir Karl Kvaran. Þetta var verk frá seinni árum listamannsins sem einkenndist af hreinum flötum í breiðum, sveigðum línum. Þurrum tölum úr ársskýrslunni var varpað á hvítt tjaldið. Tekjur, útgjöld og ýmsir sjóðir blöstu við svart á hvítu. Allt í sómanum í peningamálum. Stuttar umræður um húskofa á Suðurlandi sem enginn skrifandi skepna dreif í vegna hækkandi bensínkostnaðar. Sessunautur minn, glaðbeittur höfundur skáldsagna, hnippti flissandi í mig annað slagið til að vekja athygli á ýmsu spaugilegu sem bar fyrir augu og eyru.

Kristín formaður hélt stutta en snaggaralega tölu, fór yfir útrásarárið í fangi þýska heimsveldissins.

Við klöppuðum fyrir nýjum Barnabókaverðlaununum sem norrænu ráðherrarnir í Osló voru að koma sér saman um rétt í þessu á meðan þeir sungu fyrir Breiðavík.

Það var um þetta leyti sem gamanið fór að kárna. Skáld á miðjum aldri tók sér stöðu í pontu. Skáldið var með kúluhatt og minnti  á illmenni í breskri glæpasögu, jafnvel durtinn Bill Sikes í Oliver Twist.

Sjitt, hugsaði ég. Hér er maður bara kominn aftur á nítjándu öld sísona án þess að svo mikið sem depla auga.

Skáldið fór mikinn, það lagði hrammana á púltið og ók sér í takt við ræðuna. Þetta var stórt skáld og skyndilega var öllum viðstöddum ljóst að málverki Karls Kvarans var ógnað þegar mikilmennið nuddaði bakinu utan í það. Sem betur fer var abstrakt málverkið eftir Kristján Davíðsson komið í skjól – hátt uppi á veggnum fyrir ofan tréstigann – utan seilingar reiðra skálda.

Skáldinu með kúluhattinn þótti lítið fútt í þessu hjá okkur. Rithöfundaþingin í gamla daga voru víst miklu skemmtilegri. Síðan fór skáldið að væna formann sambandsins um siðleysu fyrir að þiggja verktakalaun. Einhvernveginn þvældist fyrirbærið virðisaukaskattur inn í þá umræðu þannig að einstaka hlátrasköll gullu við í salnum.

Flestir létu sér þetta í léttu rúmi liggja en nokkrir af eldri meðlimum RSÍ tóku að þrútna í framan af reiði og pirringi. Formanninum var auðsýnilega brugðið, enda langt frá því skemmtilegt að sitja undir ákæru frá stóra manninum með kúluhattinn. Manni sem leit út eins og … tja … illvirki í barnabók.

Skyndilega stökk einn af eldri félagsmönnum RSÍ á fætur. Þetta var glettinn náungi með áberandi skærgult bindi. Hann heilsaði nokkrum fundarmanna með báðum höndum eins og trúboði á fjöldasamkomu  um leið og hann sprangaði í átt að útganginum. „Þetta er nóg!“ hló hann um leið og hann hvarf úr salnum. „Þetta er nóg!“

Þusið í manninum með kúluhattinn hélt áfram. Og nú fóru einhverjir að taka undir með honum í salnum. Þá helst ljóshærður náungi í köflóttri fráhnepptri skyrtu. Hann var með eilítið gjallandi talanda og hækkaði róminn eftir sem á leið á fundinn þar til hann var nánast farinn að öskra yfir hausamótum félagsmanna.

Náunginn í köflóttu skyrtunni og skáldið með kúluhattinn vildu vita hvernig félagsmenn RSÍ væru valdir í Skáld í skólum. Skáld í skólum er verkefni sem gengur út á það að senda íslenska rithöfunda í grunnskóla landsins og láta þá kynna verk sín fyrir ungviðinu. Mjög verðugt verkefni en ekkert sérstaklega vel launað, eðli málsins samkvæmt. Skólar geta einfaldlega ekki borgað mikið fyrir svona uppákomur.

Í því ljósi var hitinn sem var kominn í þessa tvo félagsmenn svolítið einkennilegur. Ég rifjaði upp þegar mér var dömpað úr Skáld í skólum. Ég átti að hafa lagt kennara í ákveðnum skóla í úthverfi Reykjavíkur í einelti með því að benda á hroðalega vondan kennara í bók eftir mig og spyrja krakkana hvort ekki væri einhver sambærilegur í skólanum. Þetta þótti ekkert sniðugt hjá mér og í framhaldi hringdi skólastjórinn alveg brjálaður í Ragnheiði gjaldkera. Ég hringdi síðan í skólastjórann og bað hann afsökunar. Hélt honum eins lengi og ég gat í símanum og endurtók að ég „bæðist innilega velvirðingar á þessu leiðinlega atviki“ alveg þangað til að ég fann að hann var farinn að ókyrrast á línunni. Orðinn pirraður. Langaði sjálfsagt heim að hrella konuna sína. Látið mig þekkja svona kvenhatandi reiðifíkla. Ég skrifa verðlaunaðar barnabækur troðfullar af þeim.

Allavega. Ekkert meira Skáld í skólum fyrir mig þann daginn. Konan mín var auðvitað dauðfegin. Það hafði engu munað að hún missti fóstur við að lyfta stól upp á svið í skóla úti á landi. Börnin voru samt alltaf yndisleg og stundum gefandi að hitta kennara og skólastjóra sem fannst greinilega vænt um nemendur sína, dag eftir dag, kynslóð eftir kynslóð.

Allt í einu hlakkaði í mér. Auðvitað var gráupplagt að senda þessa tvo vandræðagemsa í þennan tiltekna skóla. Skáldið með kúluhattinn og náungann í köflóttu skyrtunni. Hvers vegna sá það enginn? Aðalsteinn Ásberg í stjórn RSÍ virtist ekki sjá það – honum stökk ekki bros þar sem hann stóð bísperrtur og sló flötum lófa ofan á púltið og útskýrði hvernig Skáld í skólum væri hugsað. Loks kom Pétur Gunnarsson í pontu og sallaði niður rithöfundaþingin, sagði eitthvað á leið að þetta hefðu verið hálfgerðar skrípasamkomur og veikburða undanfari RSÍ.

Náunginn í köflóttu skyrtunni kom í pontu og veifaði félagatali RSÍ framan í okkur eins og sönnunargagni. Líkt og í því leyndust stórkostlegar opinberanir, klámmyndir af íslenskum rithöfundum teknum í dýflissu þýska sendiráðsins í Þingholtunum.  Hann sló félagatalinu ógnandi í púltið. Fletti í því reiðilega. En síðan reyndist hann ekki vera með neitt handbært nema þá staðreynd að sami sextíu manna hópurinn væri í áskrift að listamannlaunum. Þá sérstaklega þeir sem fengu verðlaun. Eins og elítísmi væri glænýtt fyrirbæri í listasögunni. Náunginn í köflóttu skyrtunni klykkti út með því að lýsa yfir að hann þyrfti sennilega að „bíða í fimmtán ár “ áður en hann fengi ritlaun. Eins og ritstörf væru eilíf biðstaða, svipað og móttaka hjá heimilislækni.

Næst tók til máls ung kona sem mér fannst ég kannast við úr pólitík. Hún sagði nokkur orð um ungt fólk og rithöfundasambandið. Ég leit snöggt yfir öxlina á mér í átt að anddyrinu. Smeykur um að Breiðavík myndi allt í einu birtast í gættinni með alvæpni. „Í dag munuð þið deyja, marxistar!“ Við vorum svo berskjölduð þarna efst á Dyngjuveginum. Svo saklaus.

Sirkusnum lauk með því að afhent voru verðlaun kennd við Fjölís. Auður Ava og Bergsveinn Birgisson voru verðlaunuð og líka þriðji höfundurinn sem ég kom ekki fyrir mig. Ég stóð mig að því að tauta í barminn eins og hneykslaður smáborgari eitthvað á þá leið að þetta væri þó að minnsta kosti ekki samsæri. Þau ættu þetta nú skilið. Auður Ava sagði viðeigandi brandara um samsærisjúka íslenska þjóð.

Fundi var slitið og boðið upp á rauðvín og gos. Yfir þvögunni sem myndaðist við vínflöskurnar heyrðist náunginn í köflóttu skyrtunni gjamma að hann hefði heyrt að það væri til siðs að drekka upp félagsgjöldin á ársfundi RSÍ. Hvað sem er hæft í því þá er rauðvínið alltaf vel valið í Gunnarshúsi. Ég lagði að vísu ekki í nema eitt glas í þetta sinn því ég nennti ekki að skilja bílinn eftir. Snéri mér þess í stað að Egils Kristal í pissgulum plastflöskum. Síðan rambaði ég út í garð í leit að félagsskap reykingamanna. Áhugaverðasta fólkið hættir aldrei að reykja.

Útsýnið yfir Reykjavík var fallegt frá eldhúströppum RSÍ. Ég var að segja Berki Gunnarsyni einhverja langloku um reykingar og hversu auðvelt væri að hætta þeim þegar Valdi bóksali birtist í gættinni með stórskemmtilega klámvísu á takteinunum. Ég dauðsé eftir að hafa ekki skrifað hana hjá mér. Seint um síðir drattaðist ég aftur inn í stofu, fór að langa heim en ákvað að fá mér meira Egils Kristal á meðan ég hugsaði málið.

Útundan mér sá ég hvar nokkrir þýðendur læddust fram í forstofu til að núa saman nefjum í nefnd undir vökulum augum Thors Vilhjálmssonar og Gunnars Gunnarssonar.

Ég fór að rabba við kunningja minn, rithöfund sem var að safna skeggi. Hann ætlaði að þiggja far með mér niður í bæ fyrst ég væri ekki að drekka.

Ætlaði samt að fá sér eitt rauðvínsglas áður og heilsa upp á Bergsveinn Birgisson sem var nýkominn í hús af vel heppnaðri generalprufu á leikgerð upp úr bók eftir sig. Ég var búinn að ræða við Bergsvein í fimm mínútur þegar ég áttaði mig á því að hann hélt að ég væri Tolli Morthens. Spurði hvort ég væri ekki alltaf að mála. Allt í einu var sitúasjónin orðin þannig að skeggjaði rithöfundurinn vildi tæla Bergsvein Birgisson með sér á næturklúbb í miðborginni og ég átti að vera bílstjórinn. Við tókum nokkra snúninga þar sem Stórfiskurinn frá Bergen var næstum kominn fram í anddyri en flæktist þá í nýrri kjaftatörn. Loks gafst ég upp á þessu.

„Hvar er konan þín? spurði Krístín formaður þegar ég fékk mér meira Egils Kristal. „Þú náttúrulega sérð um að mæta fyrir ykkur bæði núna?“ bætti hún við.
         „Neinei,“ sagði ég og dró seiminn. „Auður vildi vera heima að horfa á Desperate Housewives.“
         „Ég trúiessuekki!“ gall í höfundi Stellu Blómkvist bókanna sem átti leið hjá rétt í þessu.
         „Erum við ekki öll með svona perversjónir? spurði ég og snéri mér aftur að skeggjaða rithöfundinum sem var ennþá að hringsóla í kringum Bergsvein Birgisson.
         „Jú,“ sagði sá skeggjaði hikandi. Og hvíslaði síðan í hálfum hljóðum: „House. Ég horfi á House.“
         Ég kinkaði kolli og reyndi að muna eftir uppáhaldsþætti til að þetta kæmi ekki út eins og ég væri að reyna að setja mig á háan hest. En ég var alveg tómur. Smagsdommerne á DR2 kannski. Nei. Það var einhvernveginn of snobbað og fínt. Hvern andskotann horfði ég á? Kannski allt bara. Ég zappaði milli stöðva og hafði ekki hugmynd um hvað var hvað. Öll tungumál í einum graut í hausnum á mér.

„Sæll Þórarinn“. Náunginn í köflóttu skyrtunni var kominn beint í flasið á mér. Andlitið á honum breiðleit útgáfa af Magnúsi Scheving í Latabæ. Talandinn virtist svipaður. Svona rat-at-at-at-at hrynjandi. Hress, hress, hress. Kannski var til bæjarfélag einhversstaðar þar sem allir töluðu eins og íþróttaálfurinn.
         „Ég var einmitt að glugga í Bókasafn ömmu Huldar,“ gaggaði hann. „Hún var mjög svona … á góðri íslensku. Ég hitti nú … eða var að reyna að troða mér inn á danska útgefanda þinn … Huginn … “
         „Hann er færeyskur.“
         „Ha?“
         „Huginn Eide. Hann er Færeyingur.“
         „Er það já?“
         „Já.“
         „Ertu að skrifa núna?“

Þú færð aldrei ritlaun, hugsaði ég. Þú færð aldrei nein fokking ritlaun. Over my dead body. Ég ætla beint heim á eftir að hringja í alla sem ég þekki í 101 latté klíkunni. Senda einkaskilaboð á alla sem ég þekki á Feisbúkk sem hafa einhvern tímann stigið inn fyrir 200 metra radíusinn við Háskóla Íslands. Senda reykmerki inn á Ölstofuna. Svohljóðandi: Hey þið! Glaðlegi ljóshærði náunginn í fráhnepptu köflóttu skyrtunni á á ekki að fá ritlaun. Capiche? Never ever!

„Já ég er að … ég var með bók um jólin,“ tafsaði ég.
         „Unglingabók? Barnabók?“
         „Ég … hérna … humm …“.

Maður á miðjum aldri bjargaði mér út úr samtalinu. Mér fannst ég kannast við svipinn á honum af vefsíðu bókaforlags sem staðsett var einhvers staðar fyrir norðan heiðar. Já, alveg rétt. Tengdamóðir mín þýddi einu sinni tjikk-litt bók fyrir þennan náunga. Sagan af samskiptum þeirra og deilur um kaup og kjör var ansi skemmtileg og ég kæfði glott í fæðingu.  Hvernig var þetta aftur? Tvær sjóræningjakerlingar af hippakynslóðinni áttu fund með útgefanda utan af landi á Kaffi Ólíver í Reykjavík. Deilt var um kaup og kjör – gat verið að íslenski textinn hefði verið örlítið styttri en verkið á frummálinu og tjikk-littið í ofanálag á alltof kjarnyrtri íslensku? Mennirnir tveir kvöddu mig með virktum og soguðust niður í Hvalfjarðargöngin.

Þegar ég gekk út úr Gunnarshúsi var tilfinningin ekki ósvipuð því að yfirgefa nítjándu öldina. Sambland af söknuði og létti. Fyrir framan mig beið hundleiðinlegur stálgrár Ford Steisjon á kolólöglegum nagladekkjum. Allt í einu sá ég mig í anda á svörtu reiðhjóli í Berlín. Ég geystist á ofurhraða milli trjánna í Tiergarten.  Germanskur Teotoni til forna, svartklæddur að innan sem utan.

Þórarinn Leifsson







mánudagur, 30. apríl 2012

Heim til Evrópu

José Ortega y Gasset: Drög að formála að grein í tímaritinu Skírni

Evrópusambandsumræðan er föst og kemst hvergi. Hún gengur nefnilega út á gagnkvæm uppnefni:
            Andstæðingarnir: Föðurlandssvikararnir ykkar!
            Fylgjendurnir: Einangrunarsinnar og afturhald!
            Helvítis föðurlandssvikarar. Djöfuls einangrunarsinnapakk.
            Og þannig áfram svo hvorki gengur né rekur.
A segir A, B segir B.
Við munum að sjálfsögðu aldrei ganga í Evrópusambandið með skotgrafarhernaði og uppnefnum. En lengi má una við þvarg, skítkast og uppnefni og í drullupolli íslenskrar samfélagsumræðu hugsum við jafnan hvert um sig: Hér fljótum vér eplin. Jafnvel eitt af skástu skáldum Íslands, Hannes Pétursson, leggur uppnefni til málanna í Evrópuumræðunni í annars ágætum blaðagreinum. „Gaddhestar“, sagði Hannes á dögunum. Það er reyndar gott, nokkuð gott orð. Hannes getur verið fyndinn í þessum greinum. Líklega er hugsunin sú að ef fólk er kallað gaddhestar muni það umsvifalaust sjá sig um hönd: Gaddhestur? Ha? Ég? Nú? Jahérna. Ekki vil ég vera kallaður gaddhestur. Ég veit ekki einu sinni hvað það er! Best ég skipti umsvifalaust um skoðun, enda sé ég núna þegar mér er leitt það svona vel fyrir sjónir að ég hef ekki hugsað þetta nógu vel. Alltaf getur maður bætt sig. Ha? Er það ekki bara?
Ortega vinur okkar.
Og kannski er þetta rétt hjá skáldinu. Kannski er það ekki eins og við sem vitlausari erum höldum, að ónefni leiði ekki til neins annars en að fólk forherðist í afstöðu sinni, að Evrópusinnum þyki ekki hreint alveg bráðskemmtilegt að láta kalla sig föðurlandssvikara og andstæðingum Evrópu-sambandsaðildar þyki ekki toppurinn á tilverunni að láta kalla sig einangrunarsinna og gaddhesta. Að engum finnist í raun sérlega uppbyggilegt að láta hæðast að sér heldur sárni fólki uppnefni og fari að tala um einelti og hafi jafnvel eitthvað örlítið til síns máls, og í öllu falli grafi það sig bara ögn dýpra í skotgröfina og hlaði fallbyssuna.
Allt þvargið í umræðunni er auðvitað daglegt brauð og flest smátt í samanburði við útgerðarmennina sem verið er að leiða í nasískar útrýmingarbúðir til að gasa þá, eins og allir vita, it´s holocoust all over again!
Það væri svolítið gott ef hægt væri að hugsa skýrt. Eitt andartak. Jafnvel finna leiðina til Evrópu. Kljúfa hafið eins og Móses og vippa þjóðinni sem snöggvast yfir á meginlandið, biðja sér einskis að launum nema í mesta lagi eina fálkaorðu og eilíft þakklæti, messíanskar öldur og nokkrar tertur, blöðrur og far með Gullfossi, sam-evrópskt Ísland þar sem landhelgin er loksins færð út fyrir milljón mílurnar og ást og eilífur friður ríkir; nú eða bara eitt lítið uppnefni.
Afsakið.
Spurningin sem gæti opnað þó ekki væri nema glufu á byssureykmökkinn væri til dæmis: Hvað er Evrópa?
Hvað er eiginlega Evrópa? Það er góð spurning. Spurningin um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið hlýtur að einhverju leyti að vera samtvinnuð þeirri spurningu hvað Evrópa yfirleitt sé, en vera kann að á inngönguspurningunni séu tveir fletir sem eru, eða ættu að vera, kirfilega aðgreindir: Annars vegar samningskostir sem bjóðast þjóðinni við inngöngu, sem er spursmál af praktískum toga og svörin liggja ekki á lausu enn sem komið er, raunar eru þær alveg á huldu þótt leiða megi líkur að ýmsu; hinsvegar er menningarleg spurning sem má ræða strax, fram og aftur og út frá ýmsum hliðum, eftir því hvort menn álíta Ísland eiga samleið með Evrópu eða kannski einhverju öðru menningarsvæði, svo sem Bandaríkjunum.
En varla er nein goðgá að slá því föstu að hvað sem öðru líður er Evrópa stórmerkilegt menningarsvæði sem á sér merka sögu og merkilega hugsuði. Einn af þessum hugsuðum hét José Ortega y Gasset og var Spánverji sem uppi var á árunum 1883-1955. Ortega er sú tegund hugsuðar sem ekki hefur verið á hverju strái á Íslandi í áranna rás, sú tegund sem bæði er réttnefndur „hugsuður“ – orðið sjálft kann jafnvel að virðast fornfálegt og á skjön við íslenska hefð – og einnig feykimikill og fjörugur stílisti, góður rithöfundur. Skemmtilegur rithöfundur, frjór, smitandi. Eitt helsta verkefni Ortega var Evrópa.
            Þeir sem einhvern ávæning hafa af verkum og hugmyndum Ortega eru stundum haldnir þeim misskilningi að hann sé bölsýnishöfundur. Það er rugl. Ef eitthvað ákveðið einkennir hugmyndir hans er það umfram allt skýrleiki. Þessi skýrleiki í hugsun, þessi einfaldleiki í framsetningu, er meðal þess sem olli því að verk hans áttu og eiga svo greiðan aðgang að alþýðu manna. Vegna einfaldleikans eru hugmyndir hans eru svo kröftugar að lesendur smitast, fyllast sannfæringu og eldmóði þótt þeir geri sér ef til vill ljóst að lestri loknum að í rauninni eru þeir ekki í hjarta sínu endilega sammála öllu sem sagt hefur verið.
            Greining Ortega á evrópskri menningu á tímamótum birtist í bókinni Uppreisn fjöldans sem kom út árið 1930 og gerði hann umsvifalaust þekktan á alþjóðavettvangi. Þetta er greining á grundvallarbreytingu á Evrópu frá nítjándu öld til samtíma Ortega, ekki breytingu á bókmenntum eða stjórnmálum heldur lífi.
Hvaða góss er þetta eiginlega? Uppreisn fjöldans? Af öðrum bókum Ortega má nefna Estudios sobre el amor, Stúdíur í ástinni, þar sem gengið er út frá því að enginn tími á undan tuttugustu öldinni hafi hugsað jafn lítið um ástina þótt aldrei hafi verið fjasað meira um ástamál fólks. Ég held svei mér þá að stöku heimspekingur dagsins í dag sé á svipuðum slóðum. Margir þeirra eru á marxískri ferilbraut og það er ekki endilega málið hér þótt tíminn bendi kannski til þess. „Kall tímans“, hafði Kristinn E. Andrésson að heiti á merkilegum sjálfsævisögulegum kafla í merkilegu riti, Enginn er eyland (það er við hæfi að nefna þennan fína titil því auðvitað er enginn eyland) sem kom einmitt út um svipað leyti: „Þegar ég gerðist formaður Sovétvinafélagsins haustið 1932 má vitanlega kalla mig nytsaman sakleysingja, en ég var ekki ginningarfífl eins né neins, heldur hlýddi ég einfaldlega tímans kalli.“ Tökum bara ofan fyrir því, en það var nóg af köllum. Ortega var annar kall á sama tíma, skipti sér lítið af kommúníska karlinum Marx og engin merki sjást þess í Uppreisn fjöldans að hann hafi haft nokkurn skapaðan hlut upp á hann að klaga, þótt hann hugsi öðruvísi og orki öðruvísi í endurliti og sé heldur glataðra góss, fortíðin er jafnan einfölduð og stundum illilega, stundum er hún lemstruð og hólfuð heimskulega niður eins og lýðum er kunnugt.
„Skríll“ – fjöldi – er hugtak sem fróðlegt er fyrir Íslendinga að skoða nú sem fyrr. Svo virðist til að mynda sem við séum sum hver nokkuð stolt af því, með réttu, að hafa haldið svolitla byltingu hér um daginn og kenna hana við búsáhöld. Við erum mörg hver nokkuð ánægð með að hafa komið ríkisstjórn sem við álitum vanhæfa frá og látið sem vind um eyrun þjóta þótt stjórnmálamenn þess tíma þusuðu nokkuð um skríl, múgæsingu.
Skríll. Er það ekki ægilegt orð? Ég er opinn fyrir því að gefa hlutunum nöfn. Einhver nefndi við mig um daginn að út á það gengi ljóðlist.
Ég er opinn fyrir því að nefna hlutina sínum réttu nöfnum.
Ég er opinn fyrir samræðu.
Hvenær er maður skríll og hvenær er maður ekki skríll? Getur einn einstakur maður verið skríll – eða ekki skríll? Hvenær er maður venjulegur nashyrningur að klóra sér í rassgatinu með horninu, hugsa sitt og drekka hlandforugt vatn úr drullugri tjörn og hvenær er maður orðinn hluti af trylltri nashyrningahjörð í leikriti eftir Ionesco, hjörð sem ryður um koll öllu sem á vegi hennar verður og hefur aðeins eina hugsun, hóphugsunina?
Eru þessar spurningar of langar? Á ég að stytta þær svolítið? Niður í eitt orð?
Skríll. Samkvæmt José Ortega y Gasset má sjá hjá einum manni hvers kyns er, hvort hann er skríll eða ekki.
Maður horfir semsé á einstaklinginn og gaumgæfir hann vandlega, horfir á Evrópusinnann og Evrópuandstæðinginn úthúða hvor öðrum með fúkyrðum, horfir á útgerðarmanninn þar sem hann sífrar yfir smáræðis gyðingaofsóknum (ekkert má nú, ekki einu sinni oggupons af nasískum ofsóknum), horfir á menntamanninn og verkamanninn þar sem þeir æpa í hóp eða hvor í kapp við annan, horfir á fólkið sem hrópar: Jeppinn minn, mannréttindabrot!, þá sem deila göfugum málstað í góðum hóptilgangi á Facebook og þá sem hunsa miðilinn í hóp, maður horfir jafnt til snælduvitlausra rógplebbanna á kommentakerfi DV sem femínistanna, annar hópurinn æpir allavega: Öfgaefmínistar! og ég man ekki hvað hinn æpir en eitthvað er það; maður lítur til draugfúlla og sigri hrósandi umbótasinna sem þusa út í eitt að þeir séu allir eins þessir andskotans vinstri-stjórnmálamenn, helvítis fokkíng fokk, maður horfir á þá sem líta á Sjálfstæðismenn sem skrímsli en ekki manneskjur, listinn er endalaus, vellaunaðir sannir alþýðumenn andskotast út í helvítis hámenntaðan öreigaaðal, menningarmúgur fjargviðrast gegn menningarmúgi, hvað veit ég, kannski er allt í hóp, en maður horfir beint í augun á einstaklingnum og sér: Annað hvort er hann skríll eða ekki. Það sést á svipbrigðunum, ímynda ég mér, orðunum, lífsháttunum, viðhorfunum …
Einn einstaklingur getur sjáanlega og merkjanlega verið það sem Ortega kallaði skrílmenni. Að vera skrílmenni er að þola ekki þá tilhugsun að skera sig úr fjöldanum.  Það er að þola ekkert nema viðtekinn smekk, þola engum að vera öðruvísi. Að vera skrílmenni er að segja og skrifa ætíð: Hvað heldurðu að þú sért? Að vera skrílmenni er að vera neyslumenni, hugsa aldrei um neitt nema að neyta. Og álíta sig eiga heilagan rétt á því að það vinsæla, það sem þú aðhyllist – eftir atvikum lágkúru – sé meðtekið, hyllt, virt, að plebbið rúli.
            Textinn sem ég hef fengist við að þýða að undanförnu er frægasta bók Ortega. Hvaða erindi á þessi bók við daginn í dag, við Ísland? Því svara ég þannig til að kannski vegna þess að hún er skrifuð í kreppu, er bókin aflestrar eins og hún hafi verið skrifuð á Íslandi í fyrra. Allt sem hún veltir vöngum yfir og spáir fyrir um hefur ræst, á  hverri síðu er eitthvað sem hleypir í mann hugljómun.
Skrílmennið þolir ekki neitt sem ekki er plebbalegt og eins og hann. Þessi maður, hróðugur, menntaður, lítill kall, hefur þá grundvallar sannfæringu að lífið sé auðvelt og laust við allar harmrænar víddir. Hann er svolítið skinhelgur, friðaður gagnvart öllum sem halda að þeir séu eitthvað, hann upplifir sjálfan sig umfram allt sem venjulegan, hversdagslegan, normal, og færist við það allur í aukana, lýsir yfir heilögum réttinum til að vera plebbi og neitar að viðurkenna nokkurn mann eða nokkra málaleitan sem honum sé æðri.
Hann er svona svolítið eins og við.
Hér fljótum vér eplin.
Við föðurlandssvikararnir, einangrunarsinnarnir, gaddhestarnir og Evrópusleikjurnar.
            Djöfull leiðist mér.

                                                      ***

Það er aðeins ein leið heim til Evrópu: Evrópsk menning.

Hermann Stefánsson

_______________________________________________________
Fótnóta: Skírnir er elsta og langlífasta og virðulegasta menningartímarit á Norðurlöndum. Subbuskapur og sóðarit er líklega eitt það yngsta og skammlífasta og áhöld eru um virðinguna. Önnur, betri og siðlegri útgáfa af þessum texta er væntanleg sem fylgiskjal við þýðingu á texta eftir José Ortega y Gassett í þarnæsta Skírni, haust 2012.

föstudagur, 27. apríl 2012

Oddur lögmaður (síðari hluti)


„FLATUR MEÐ MÍNUM HERRA“

Við vorum um daginn að rifja upp fróðleik um Odd Sigurðsson lögmann úr bók eftir Jón Jónsson, seinna Aðils, sem kallaður var Jón Sagnfræðingur á sinni tíð. Þessi fróðleikur er ættaður úr útvarpsþætti sem ég hafði einu sinni með höndum og hét Andrarímur, þar sem stundum var lagst í gamlar og gleymdar bækur.

Oddur er flestum gleymdur. Hann var á dögum frá 1682 og til 1741, valdamesti maður landsins um hríð, naut þá hylli stiftamtmanns sem bjó í Danmörku og skipti sér lítið af Íslandi og stóð í þeirri meiningu að Oddur væri kúltiveraði maðurinn á Íslandi af því að hann hafði komið vel fyrir þegar þeir hittust og Oddur nýútskrifaður. Hann skipaði Odd fulltrúa sinn ásamt Dananum Beyer árið 1708. Þeir voru kallaðir „þeir fullmektugu“. Oddur var líka kallaður „Oddur hinn hávi“ því að hann gnæfði yfir menn og öskraði í stað þess að tala – og fann til hátignar sinnar. Hann var íslenskur valdakarl, eins og þeir hafa ýmsir verið gegnum aldirnar; rusti, ofstopamaður og illvirki í aðra röndina en fágaður, kurteis og örlátur þegar sá gállinn var á honum. Hann stóð í eilífum lagaþrætum, var sífellt að koma ár sinni fyrir borð, sífellt að príla og hnoðast, en mætti svo ekki þegar úrslitastundin í lífi hans rann upp. Hann var skartmenni og drykkfelldur slagsmálahundur, glaðvær stuðbolti og þunglyndur –  þegar þyrmdi yfir hann skar hann sig á háls. Hann er maðurinn sem Halldór treysti sér ekki til að hafa með í Íslandsklukkunni – hann hefði eyðilagt partíið.

Þegar Oddur var að komast til valda á Íslandi voru tveir menn  á gangi nálægt kirkjugarðinum í Kirkjubæ og heyrðu kveðið drungalegum rómi upp úr einni gröfinni:

Vögum vér og vögum vér
með vora byrði þunga.
Er nú svo komið sem áður var
í öld Sturlunga.
Í öld Sturlunga.

* * *



Meðal þeirra mála sem komu til þings árið 1708 var mál Jóns Hreggviðssonar sem Jón Sagnfræðingur rekur nokkuð (þetta er löngu áður en Halldór skrifar Íslandsklukkuna) og er sú frásögn mjög samhljóða þeirri sem við þekkjum úr Íslandsklukkunni, nema hér eru það þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín sem dæma Sigurð Björnsson lögmann frá embætti vegna meðferðar hans á máli Jóns. Oddur aðstoðaði hins vegar Sigurð við að ná aftur embætti sínu, og varð af mikil málaflækja þar sem fleiri sakamenn komu við sögu.

Þeir Oddur og Beyer stóðu í stórræðum næstu árin, þóttu afskiptasamir og röggsamir og þótt menn mögluðu fékk enginn rönd við reist því enginn gat vefengt vald þeirra og myndugleik. Nema einn var sá maður sem taldi sig hafa að minnsta kosti jafn gott umboð til valda og Oddur Sigurðsson og það var Jón biskup Vídalín sem taldi sig fremur hæfan til að hafa yfir prestum að segja en Odd.

Það má segja að Jón Sagnfræðingur sé hálfpartinn í öngum sínum þegar kemur að því að lýsa deilum þessara manna. Hann byrjar mál sitt með hátíðlegum inngangi, nálgast þessi áflog drukkinna íslenskra valdamanna úr mikilli fjarlægð:

Allar þjóðir í veröldinni sem nokkra sögu eiga, eiga um leið sínar söguhetjur, sín átrúnaðargoð. Það stendur eins og bjarmi af nafni þeirra einu saman. Þjóðin á bágt með að viðurkenna, að þeir séu háðir mannlegum ástríðum og mannlegum breiskleika eins og vér hinir, og það mælist venjulega illa fyrir ef farið er að hreyfa við þeim eða tæpa á nokkru sem getur kastað skugga á þá. En hins vegar heimtar sagan að sannleikskröfunni sé fullnægt. Sagnaritarinn er því í talsverðum vanda staddur, þegar um slíka menn er að ræða.

Allt er þetta vegna þess að nú eru leidd fram í bókinni mörg bréf sem lýsa því hvernig Jón Vídalín heimsækir Odd lögmann augafullur og gerir honum lífið leitt sem mest hann má, eins og Oddur rekur síðan í löngu máli fyrir stiptamtmanni - hér er úr einum vitnisburði sem maður á vegum Odds skrifar, og þarf ekki að taka fram að ótal frásagnir eru líka af árásum Odds á Jón:

Einnig þann 21. júlí á sama alþingi um kvöldið seint kom greindur biskup til vísilögmannsins (þ.e. Odds) tjalds, og sýndist mér þá téður biskup af sterku víni drukkinn vera, hvar fyrir vísilögmaðurinn með báðum höndum hjálpaði honum að ganga inn í sitt tjald, og skömmu þar eftir studdi téður vísilögmaður biskupinn mjög hæglátlega svo sem sinn besta vin út úr tjaldinu aftur og á hestbak. En sem þráttnefndur biskup var á hestbak kominn, reikaði hann svo mjög að mér sýndist að hann mundi af hestinum ætla að falla, hvar fyrir vísilögmaðurinn tók báðum höndum yfir um og undir biskupsins brjóst og herðar, svo hann dytti ekki af hestsbaki, og hjálpaði svo vísilögmaðurinn honum frá því falli. En á meðan vísilögmaðurinn svo studdi hann, þá spýtti og spúði biskupinn miklu vatni og óhreinindum frá sínu brjósti ofan á vísilögmannsins handlegg, og sá eg þá að greindur biskup kastaði upp klýju úr munninum, sem féll ofan yfir vísilögmanninn, og upp á hans klæði.
           
Og þannig heldur þetta lengi vel áfram. Þessar deilur áttu eftir að magnast enn með gagnkvæmum svívirðingum og vitnaleiðslum um ósæmilegt hátterni.

Enn afdrifaríkari urðu hins vegar deilur Odds við frænda Jóns, Pál lögmann, sem Oddur ofsótti – hann lét rigna stefnum yfir hann, réðst á hann við Kalmanstungu og beit hann illa, klagaði hann til stiptamtmanns og lét síðan kné fylgja kviði árið 1713 og svipti hann embætti fyrir misjafnlega vel grundaðar sakir.

Sumarið 1714 tók Oddur að fullu og öllu við lögmannsembættinu norðan og vestan af Gottrúp og ári síðar siglir hann til Danmerkur til að koma Páli endanlega út úr húsi hjá stiptamtmanni, æðsta manni landsins sem sat í Kaupmannahöfn og kom aldrei til Íslands. En Páll eltir hann, tekur næsta skip og bregður Oddi mjög þegar Páll birtist enda var hann búinn að segja stiptamtmanni ýmsar sögur af Páli sem gat reynst erfitt að sanna en auðvelt að hrekja. Í þessari utanför var Oddur því stöðugt milli vonar og ótta, í sífelldri geðshræringu og fór svo loks að í æsingnum skar hann sig á háls með rakhníf.

Hann lifði af þetta sjálfsbanatilræði. Sagan segir að Oddur hafi eitt sinn á æskuárum setið við lestur hjá móður sinni í stofu inn af baðstofunni. Allt í einu heyrir hann undarleg hljóð frammi, tekur ljósið og gengur á hljóðið. Kom hann þar að manni sem hafði skorið sig á háls og varð mjög mikið um. Og þaðan væri þessi árátta komin – að skera sig á háls þegar hann komst í mikla geðshræringu.

Það er hins vegar af málalyktum í Kaupmannahöfn að segja að Dönum tókst að lægja öldurnar að sinni og héldu báðir virðingu sinni. Páll hélt embætti og æru þótt margir dóma hans væru taldir rangir og órökstuddir. Um þessar mundir var Beyer boðaður utan til að gera grein fyrir reikningum sínum, og sigldi hann árið 1717 en komst aldrei alla leið, lést í Noregi á leiðinni. Þar með var lokið yfirráðum þeirra fullmektugu.

Vegur Odds stóð hins vegar sem hæst um þessar mundir. Hann var einn af ríkustu mönnum landsins, fulltrúi stiftamtmanns, lögmaður norðan og vestan, hélt Snæfellssýslu, Stapaumboð og Dalasýslu annað veifið, átti jarðir víða um land og bjó myndarbýli á Narfeyri. Þar safnaðist kringum hann knárra sveina flokkur af skjólstæðingum og viðhlæjendum og var tónninn í á kvöldskemmtunum væntanlega eitthvað svipaður þeim sem er í orðum sem sagt er að Sumarliði Klemensson sýslumaður í Strandasýslu hafi jafnan haft uppi þegar hann drakk Oddi til - sem oft mun hafa verið: Flatur með mínum herra.


***

Árið 1719 lést Gyldenlöve stiftamtmaður og var Raben nokkur flotaforingi skipaður í hans stað. Gyldenlöve hafði haldið hlífiskildi yfir Oddi þegar óvinir hans báru á hann sakir og bar í bætifláka fyrir hann og studdi hann í langvinnum deilum hans við Vídalín-frændur, á bak við tjöldin að minnsta kosti. Gyldenlöve hafði að vísu líka reynt að vanda um fyrir skjólstæðingi sínum og fá hann til að hætta þessum sífelldu málaferlum út af mismiklum sökum. Þegar Oddur lét það sem vind um eyru þjóta fór stiptamtmaður hins vegar að missa þolinmæðina og leggja drög að því að draga úr völdum hans.
           
Úr verður að senda hingað til lands norskan mann, Niels Fuhrmann sem kom hingað að áliðnu sumri 1718, fyrst sem aðstoðaramtmaður og síðar sem amtmaður. Hann þekkjum við af válegum kvennamálum hans – en Appollonia Schwartzkopf elti hann hingað á Bessastaði þar sem hún ku eigra enn um stofur á köldum nóttum, en hún var að sögn drepin á eitri af mæðgum tveim sem augastað höfðu á húsfreyjustarfinu á Bessastöðum. Það er önnur saga: Þegar Gyldenlöve hafði pata af því að þeir Oddur og Jón Vídalín væru enn lagstir í langdregna og flókna deilu tók hann á sig rögg og svipti Odd umboði sínu og fékk það Fuhrmann í hendur.
           
Og nú taka fjölmargir óvinir Odds að hugsa sér til hreyfings. Snögglega fækkar vinum, allir fylkja sér um hinn nýkomna mann:

Fuhrmann var ekki lengi að átta sig á málunum. Hann sá það fljótt að hér voru aðeins tveir kostir fyrir hendi: að kúga þenna mann til hlýðni við sig eða steypa honum algerlega. Fyrr gat hann ekki sagt að hann væri búinn að tryggja vald sitt á Íslandi. Fuhrmann var að vísu hreinlyndur maður og prettalaus, en hann þóttist samt ekki mega drepa hendi við hjálparmeðulum þeim, sem honum buðust, þótt þau máske væru ekki með öllu óaðfinnanleg, ef í ströngustu rannsókn var farið. Hann sá það eitt, að hann varð fyrir hvern mun að ná yfirtökunum á Oddi, og hann náði þeim á endanum. En fyrst varð hann að sæta lagi og grafast fyrir um allan embættisferil hans. Hann veitti því fúslega áheyrn öllum þeim, sem einhverjar upplýsingar gátu gefið honum, og þeir voru margir, sem flýttu sér að létta af sér lastmælabyrðinni.

Oddi var margt betur gefið en nákvæmni í embættisfærslu og þar var Fuhrmann fljótur að finna höggstað á honum og nú tekur að rigna yfir Odd aðfinnslum og ákúrum um horfin skjöl af skrifstofunni og dómabækur með grunsamlegum eyðum og  eyðufyllingum.
           
Meðal þess sem amtmaður grennslaðist fyrir um hjá Oddi var hvort hann héldi Snæfellssýslu og Stapaumboð án þess að hafa veitingu konungs fyrir því og skipar hann Oddi að leggja fram veitingabréf en missa lénin ella. Ekki fann hann þau skjöl og úr varð að Oddur missti þessi umboð en Fuhrmann fékk þau í hendur Jóhanni Gottrúp sýslumanni í Húnavatnssýslu. Það var upphafið að megnum deilum Odds og Gottrúps.
           
Meðal þeirra fjölmörgu sem nú leituðu til Fuhrmanns til að rétta hlut sinn gagnvart Oddi var hans gamli tengdafaðir, Guðmundur ríki, sem að sögn Jóns var „maður féskyggn og nískur, forn í skapi og undarlegur.“
           
Þegar Oddur settist að á Narfeyri tók Guðmundur sig upp og flutti til Brokeyjar þar sem hann byggði stór og glæsileg hús og tók að auðgast á ný. Ekki var þó Adam lengi í Paradís því Oddur hugsaði honum þegjandi þörfina því nú þóttist hann sjá að úti væri um arfsvon eftir Guðmund. Hann tók sig nú upp og fór út í Brokey með sveinum sínum – handrukkaralýð þessa tíma – og var erindið að skaprauna Guðmundi. Þar létu menn sitt ekki eftir liggja, brutu og brömluðu, spilltu mat og drykk og „fífluðu griðkonur“ eins og það heitir hjá Jóni. Varð Guðmundur svo æfur við þetta, að hann hugsaði ekki um annað meir upp frá þessu en ná fram hefndum.
           
Sú stund rann svo að lokum upp þegar honum tókst með aðstoð Fuhrmanns að ná aftur Narfeyri af Oddi og hafa af honum mikið fé. Áður en lauk arfleiddi síðan Guðmundur  ríki Fuhrmann að öllu sínum eignum.

***

Jón Sagnfræðingur:

Nú var af sú tíð að menn óttuðust reiði Odds og kinokuðu sér við að ganga í berhögg við hann. Á þeim 2-3 árum sem liðin voru frá því Fuhrmann kom hér upp, var svo um skipt fyrir honum, að hann varð sjálfur að sæta refsingu hvað eftir annað, í stað þess að beita hirtingarvendinum við aðra út í frá. Áður höfðu landsins bestu menn orðið að lúta í lægra haldi fyrir honum en nú var svo komið að jafnvel ómerkum umrenningum þótti sér ekki ofvaxið að etja kappi við hann fyrir rétti. Hann fór á þessum árum hverja hrakförina á fætur annarri enda risu menn nú upp hópum saman og kærðu hann fyrir ýmsar misgerðir, bæði sannar og ímyndaðar. Sumir af þessum spjátrungum og vesalmennum sem nú settust að honum eins og grimmir rakkar voru aðeins verkfæri í höndum annarra voldugri mótstöðumanna og gerðir út af þeim til að ónáða Odd.

Þegar svo stiftamtmaðurinn nýi, Raben kom hingað til lands árið 1720 hafði Fuhrmann komið því til leiðar með bréfum sínum að hann hafði litlar mætur á Oddi. Við bættust alls kyns klögumál á hendur honum frá flestum höfðingjum landsins sem gengu allir á fund stiptamtmanns – nema Oddur. Þegar mest lá við að hitta þann sem öllu réði lét hann ekki sjá sig.  Annaðhvort átti hann ekki heimangengt vegna veikinda eins og borið var við eða treysti sér ekki til að standa augliti til auglitis við stiptamtmanninn. Þetta átti eftir að verða honum dýrkeypt.

Nú var því útséð um hylli stiptamtmanns sem skrifar kóngi um Odd í nóvember 1720:

Það er öllum mönnum kunnugt að meðan hann var fulltrúi stiptamtmannsins á Íslandi þá réði og ríkti hann yfir öllu eins og einvaldsherra, svo stiftamtmaðurinn sá sér ekki annað fært að lokum en að svipta hann völdunum, því hann kom öllu landinu í uppnám og vildi einn yfir öllu drottna. Upp á síðkastið var hann farinn að drekka svo afskaplega að öll störf hans á alþingi fóru í ólestri, og hann æddu þar um eins og vitlaus maður.

Þegar svo er komið fyrir Oddi Sigurðssyni að hann er búinn að missa fulltrúastöðuna, sýsluna og umboðið og á að greiða stórfé til Fuhrmanns og Stapakaupmanna þá lætur hann ekki hugfallast heldur afræður að sigla. Fuhrmann neitar honum um vegabréf en hann gefst samt ekki upp heldur strýkur í skip og kemst til Kaupmannahafnar. Þar nær hann loks fundi stiftamtmanns sem hlýðir á mál hans fullur óbeitar og skrifar Fuhrmann um þessa heimsókn:

Hann hefur verið að reyna að telja mér trú um að hann hafi gert yður viðvart um ferð sína og samið áður við Benedikt Þorsteinsson um að þjóna lögmannsembættinu í fjarveru sinni, en með því hann er innfæddur Íslendingur, legg ég ekki mikinn trúnað á orð hans...

Oddur fær því engan hljómgrunn lengur í Kaupmannahöfn og snýr aftur heim, sneyptur. Þegar heim er komið keyrir um þverbak í embættisvanrækslu hans; hann mætir ekki til þings, stendur ekki skil á gjöldum og virðist í einu og öllu storka mótstandsmönnum sínum til að svipta hann lögmannsembættinu. Fé hans eyðist hratt í alls kyns málskostnað, og þó heldur hann áfram fyrri iðju við að eyða og spenna á allar lundir.
           
Það var svo loks í Jóhanni Gottrúp sem hann hitti endanlega fyrir ofjarl sinn.

***
           
Jóhann var sonur Lauritz lögmanns, fæddur og uppalinn á Íslandi og vildi óður og uppvægur taka að sér öll mál gegn Oddi þegar Fuhrmann kom hingað til lands, ef til vill vegna þess að faðir hans hafði hálfpartinn neyðst til að segja af sér vegna undirróðurs Odds. Upphaflega reis ágreiningur þeirra út af afhendingu á Stapaumboðinu. Gottrúp þótti Oddur ekki skila umboðinu í því ástandi sem það ætti að vera og tók sig til og lét greipar sópa um eigur Odds hvar sem hann náði til þeirra. Ekki er hér tóm til að rekja hina löngu væringasögu þeirra Gottrúps og Odds  –  það er ljót saga um gagnkvæman dólgshátt – en um síðir fór svo að Oddur tapaði öllum málum í Hæstarétti í Kaupmannahöfn, rúinn auði sínum, embættum og æru.  Þeir Gottrúp urðu samferða út til Íslands í Ólafsvíkur skipi. Á leiðinni svívirti Gottrúp og smánaði þennan gamla valdamann og spyrnti við honum fæti þegar hann sté á land svo að hann féll ofan í forina. Reif hann svo á fætur og dró hann með sér heim að Rauðamel, heim til móður hans, forugan og tötrum klæddan. Jón segir að frú Sigríður hafi grátið “móðigum tárum” þegar hún sá son sinn svo grátt leikinn og beðið Gottrúp hinna verstu bölbæna.

Niðurlægingin var fullkomnuð.

***

Var svo kyrrt um hríð.

***


Dómurinn í Hæstarétti þar sem Oddur missti æruna snerist um svokallað Ingjaldshólsmál. Enn voru ekki alveg öll kurl komin til grafar. Enn var ódæmt í svokölluðu aðtektarmáli sem skyldi takast fyrir í hæstarétti þann 27. janúar 1727. Og nú sá Oddur örlitla glufu opnast Hann seldi nokkrar jarðir til að afla farareyris og hélt á ný til Kaupmannahafnar. Þegar hann sté á land þar frétti hann lát Rabens stiptamtmanns og var eftirmaður hans Gyldencrone nokkur, barún, sem áður hafði setið í nokkur ár í stjórnarráðinu. Glufan stækkaði. Allt í einu sá Oddur möguleika á því að öðlast uppreisn æru.
           
Hana fékk hann reyndar ekki strax en hins vegar fékk hann konungsleyfi til að taka allt mál þeirra Gottrúps upp og framfylgja því og fylgdi skipun til Fuhrmanns  amtmanns að sjá um að stefnur hans væru löglega birtar.
           
Þar með gat málastappið hafist á ný og eftir mikið japl jaml og fuður fór svo að þann 22. júní 1730 var dómur kveðinn upp í Hæstarétti á nýjan leik og var þar fyrri dómum hnekkt að mestu – og Oddur endurheimti æruna og umboð sín. Gottrúp var dæmdur til að borga honum skaðabætur og skila aftur öllu því sem hann hafði hrifsað til sín af eigum Odds, sem var mest allt. Mest af því fé var glatað og Gottrúp endaði sína daga sem fiskbarsmíðarkarl og gustukamaður á Grunnasundsnesi.

***
           
Þegar þessum málum öllum lauk var Oddur rétt fimmtugur  og tekinn að mæðast, Með árunum stilltist hann að sögn og svo fór áður en lauk að þeir Fuhrmann voru farnir að skiptast á fágætum bókum. Oddur átti eftir að verða á ný einn ríkasti maður landsins, hann setti bú sitt á Leirá í Borgarfirði og hélt þar marga ómaga og örvasa gamalmenni. Sagan segir að Jóhann Gottrúp hafi átt leið þar hjá í vesöld sinni og kröm á leið utan í einhverjum málaferlum. Sendi Oddur þá í veg fyrir hann og gaf honum góð klæði og hundrað dali í peningum. Hann lét lítið yfir sér hin seinni ár og átti ekki í málaferlum. Segir Jón Jónsson, Sagnfræðingur.
           
Um morguninn þann fimmta ágúst 1741 fannst Oddur dauður í rekkju sinni. Hann hafði gengið alheill til sængur og enginn heyrt til hans um nóttina. Þegar hans var vitjað í rekkju sinni um morguninn kom í ljós að hann var dauður. Far var á hálsinum. Sumir sögðu að hann hefði verið myrtur og var einn af sveinum hans, Bjarni Jónsson – einn úr dólgaflokknum –  talinn sá seki. Flatur með mínum herra.

Í nokkurs konar eftirmála segir Jón Sagnfræðingur um Odd Sigurðsson lögmann:

Oddur er einn af þeim mönnum sem mjög erfitt er að einkenna með fáum orðum. Líf hans er svo fullt af öfgum, hann er svo óstöðugur og margbreytilegur í allri sinni háttsemi, að lítt mögulegt er að ná föstum tökum á persónu hans. Hann er aldrei í jafnvægi. Hann gat verið manna kurteisastur og hæverskastur ef því var að skipta og svo ljúfur í viðmóti, að unun þótti; en þegar minnst varði braust frekjan og ruddaskapurinn fram og eyddi áhrifunum jafn harðan.
           
Og nokkru síðar:
           
Það er ekki laust við að oss renni til rifja að sjá jafn mikla og góða hæfileika og Oddur hafði fara forgörðum. Það er eins og oss finnist íslenska þjóðin ekki hafa efni á að missa þeirra úr framsóknarbaráttunni. Aldrei hefir ef til vill nokkur maður í sögu þessa lands látið meira á sér bera um sína daga og minna eftir sig liggja.

Guðmundur Andri Thorsson